‚Það sem opinberað er tilheyrir okkur‘
„Hinir leyndu hlutir heyra [Jehóva] Guði vorum, en það, sem opinberað er, heyrir oss.“ — 5. MÓSEBÓK 29:29.
1, 2. (a) Hvers vegna þarfnast mannkynið sárlega opinberana Jehóva? (b) Hvert ætti að vera viðhorf okkar til upplýsinga sem Jehóva hefur gert okkur aðgengilegar?
HUGSAÐU þér að þú værir staddur á sprengjubelti en hefðir kort sem sýndi leiðina á milli jarðsprengjanna. Getur þú ímyndað þér hversu nákvæmlega þú myndir grandskoða kortið og feta þig áfram eftir því? Eða hugsaðu þér að þú værir haldinn ólæknandi sjúkdómi. Getur þú gert þér í hugarlund hversu brennandi áhuga þú myndir hafa á öllum nýjustu uppgötvunum læknavísindanna sem kveikt gætu vonarneista um lækningu? Því miður má segja að við búum við báðar þessar aðstæður. Við lifum í heimi þar sem úir og grúir af gildrum og snörum sem geta orðið okkur að fjörtjóni. Og við deyjum úr sjúkdómi sem menn kunna ekkert ráð við, okkar arfgenga ófullkomleika. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17; Rómverjabréfið 7:20, 24) Aðeins Guð getur læknað okkur af ófullkomleikanum og hann einn getur hjálpað okkur að koma auga á og forðast gildrurnar. Við getum því ekki án opinberana Jehóva verið.
2 Það var þess vegna sem hinn innblásni ritari Orðskviðanna ráðlagði: „Hneig eyra þitt og heyr orð hinna vitru, og snú athygli þinni að kenning minni.“ (Orðskviðirnir 22:17) Í Orðskviðunum 18:15 lesum við enn fremur: „Hjarta hins hyggna aflar sér þekkingar, og eyra hinna vitru leitar þekkingar.“ Við höfum ekki efni á að vísa frá okkur nokkru af þeirri þekkingu sem Jehóva gefur okkur kost á.
Opinberaðir leyndardómar Jehóva
3. Hvað opinberaði Jehóva Adam og Evu um tilgang sinn?
3 Til allrar hamingju hefur Jehóva opinberað mönnum þekkingu af miklu örlæti. Allt frá sköpuninni hefur Guð skref fyrir skref veitt dýrkendum sínum allar þær upplýsingar sem þeir hafa þurft við hinar margvíslegustu aðstæður. (Orðskviðirnir 11:9; Prédikarinn 7:12) Hann sagði í byrjun að jörðin og dýraríki hennar ætti að vera undirgefið Adam og Evu og afkomendum þeirra. (1. Mósebók 1:28, 29) En Satan tókst að koma Adam og Evu til að syndga og vandséð varð hvernig tilgangur Guðs gæti náð fram að ganga, honum til dýrðar. En Jehóva lét ekki standa á því að veita mönnum vitneskju um hvernig það yrði. Hann opinberaði að í fyllingu tímans myndi koma fram réttlátt afkvæmi eða ‚sæði‘ sem myndi ónýta verk Satans og fylgjenda hans. — 1. Mósebók 3:15.
4, 5. Hvað opinberaði Jehóva auk þess og fyrir milligöngu hverra?
4 Guðhræddir karlar og konur hljóta að hafa haft fjölmargar spurningar viðvíkjandi þessu sæði. Hver myndi það verða? Hvenær myndi það koma? Hvernig myndi það verða mannkyninu til blessunar? Eftir því sem aldir liðu veitti Jehóva ítarlegri vitneskju um tilgang sinn, og að lokum svaraði hann öllum þessum spurningum. Fyrir flóðið innblés hann Enok að spá um hina komandi eyðingu sæðis Satans. (Júdasarbréfið 14, 15) Um 2400 árum fyrir okkar tímatal opinberaði hann Nóa að líf og blóð manna væri heilagt — sannleika sem hafa myndi veigamikla þýðingu þegar hið fyrirheitna sæði kæmi. — 1. Mósebók 9:1-7.
5 Eftir daga Nóa opinberaði Jehóva mikilvæga vitneskju í gegnum aðra trúfasta ættfeður. Á 20. öld f.o.t. fékk Abraham að vita að einn afkomenda hans yrði hið fyrirheitna sæði. (1. Mósebók 22:15-18) Þetta dýrmæta fyrirheit var endurtekið við son Abrahams, Ísak, og sonarson hans Jakob (síðar nefndur Ísrael). (1. Mósebók 26:3-5; 28:13-15) Fyrir milligöngu Jakobs opinberaði Jehóva síðan að þetta sæði, „Síló,“ yrði voldugur valdhafi af ættkvísl Júda, sonar hans. — 1. Mósebók 49:8-10.
6. Hver varð boðleið ‚þess sem opinberað er‘ á 16. öld f.o.t., og hvaða ný sannindi fengu þeir meðal annars?
6 Á 16. öld f.o.t. safnaði Jehóva börnum Ísraels saman í þjóð. Hverjum tilheyrði þá hin markvissa opinberun sannleikans? Móse svaraði því með þessum orðum til þjóðarinnar sem þá var enn ung að árum: „Hinir leyndu hlutir heyra [Jehóva] Guði vorum, en það, sem opinberað er, heyrir oss og börnum vorum ævinlega.“ (5. Mósebók 29:29) Já, eftir fæðingu Ísraelsþjóðarinnar árið 1513 f.o.t. var hún sú boðleið sem var „trúað fyrir orðum Guðs.“ (Rómverjabréfið 3:2) Og hvílíkur flaumur orða! Jehóva gerði lagasáttmálann við Ísraelsmenn sem gaf þeim kost á að verða þjóð presta og konunga. (2. Mósebók 19:5, 6) Lögmálið hafði að geyma hegðunarreglur sem hjálpuðu þeim að koma auga á og forðast snörur syndarinnar, og kvað á um vissa skipan fórna til að friðþægja á táknrænan hátt fyrir syndir þeirra með heilögu dýrablóði.
7, 8. (a) Hvað opinberaði Jehóva þar að auki viðvíkjandi hinu komandi sæði? (b) Hvernig geymdist ‚það sem opinberað er‘ og hver opinberaði réttan skilning á slíku?
7 Þegar tímar liðu opinberaði Jehóva margt fleira um sæðið. Hann notaði sálmaritarann til að opinbera að þjóðirnar myndu hafna þessu sæði en að það myndi sigra með hjálp Jehóva. (Sálmur 2:1-12) Í gegnum Jesaja opinberaði hann að sæðið yrði „friðarhöfðingi“ en einnig að það myndi líða fyrir syndir annarra. (Jesaja 9:6; 53:3-12) Á 8. öld f.o.t. opinberaði Jehóva meira að segja hvar sæðið myndi fæðast og á 6. öld f.o.t. tímaáætlun þjónustu þess. — Míka 5:2; Daníel 9:24-27.
8 Að síðustu var ‚því sem opinberað er‘ safnað saman í hinar 39 bækur Hebresku ritninganna. Í mörgum tilvikum var það þó aðeins fyrsta skrefið. Hið ritaða var oft torskilið, jafnvel þeim sem notaðir voru til að skrifa það! (Daníel 12:4, 8; 1. Pétursbréf 1:10-12) En þegar upplýsingin loksins kom valt hún ekki á því að einhver maður túlkaði orðin. Eins og þegar spádómlegir draumar eiga í hlut ‚tilheyrir Guði að túlka.‘ — 1. Mósebók 40:8, NW.
Ný boðleið
9. Hvers vegna glataði Ísrael að holdinu þeim sérréttindum að vera boðleið ‚þess sem opinberað er‘ og hvenær gerðist það?
9 Þegar Jesús Kristur var á jörðinni var Ísraelsþjóðin enn þá boðleið Guðs. Hver sá sem vildi þjóna Jehóva varð að gera það í samfélagi við útvalda þjóð hans. (Jóhannes 4:22) En Móse hafði bent á að þeim sérréttindum að vera ráðsmenn ‚þess sem opinberað er‘ fylgdi líka ábyrgð. Hann sagði: „Það, sem opinberað er, heyrir oss og börnum vorum ævinlega, svo að vér megum breyta eftir öllum orðum lögmáls þessa.“ (5. Mósebók 29:29) Þessi ‚ævinlegi‘ tími tók enda árið 33 að okkar tímatali. Hvers vegna? Vegna þess að sem þjóð ‚breyttu Gyðingar ekki eftir öllum orðum lögmálsins.‘ Sér í lagi tóku þeir ekki við sæðinu, Jesú Kristi, jafnvel þótt lögmálið hefði í reynd verið ‚tyftari þjóðarinnar þangað til Kristur kom.‘ (Galatabréfið 3:24) Þar eð þjóðin brást í þessu valdi Jehóva aðra boðleið fyrir „það, sem opinberað er.“
10. Hver var hin nýja boðleið opinberunar Jehóva?
10 Hver var þessi nýja boðleið? Páll svaraði því þegar hann skrifaði Efesusmönnum „að hin margháttaða speki Guðs skyldi nú af söfnuðinum kunngjörð verða . . . Þetta er Guðs eilífa fyrirætlun, sem hann hefir framkvæmt í Kristi Jesú, Drotni vorum.“ (Efesusbréfið 3:10, 11, Ísl. bi. 1912) Já, það var kristni söfnuðurinn, fæddur á hvítasunnunni árið 33, sem trúað var fyrir hinum nýju ‚opinberunum.‘ Sem heild þjónuðu smurðir kristnir menn hlutverki ‚trús og hyggins þjóns‘ skipaður til að miðla andlegri fæðu á réttum tíma. (Matteus 24:45) Kristnir menn voru nú „ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs.“ — 1. Korintubréf 4:1.
11, 12. Nefnið sumar af þeim opinberunum sem miðlað var eftir þessari nýju boðleið.
11 Þungamiðja þessara nýju ‚leyndardóma‘ var sú að Jesús Kristur, hið fyrirheitna sæði, var komið fram. (Galatabréfið 3:16) Jesús var „Síló,“ hann sem hafði réttinn til að ríkja yfir mannkyninu, og Jehóva skipaði hann konung þess ríkis sem á sínum tíma skyldi endurreisa paradís á jörðinni. (Jesaja 11:1-9; Lúkas 1:31-33) Jesús var líka útnefndur æðsti prestur Jehóva og gaf hið lýtalausa, fullkomna líf sitt sem lausnargjald fyrir mannkynið — stórkostleg heimfærsla meginreglunnar um heilagleika blóðsins. (Hebreabréfið 7:26; 9:26) Þaðan í frá höfðu trúaðir menn von um að endurheimta hið fullkomna mannslíf sem Adam hafði glatað. — 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.
12 Þetta fyrirheitna sæði var líka milligöngumaður um nýjan sáttmála milli fylgjenda sinna og síns himneska föður í stað gamla lagasáttmálans. (Hebreabréfið 8:10-13; 9:15) Á grundvelli þessa nýja sáttmála kom hinn nýstofnaði kristni söfnuður í stað Ísraelsþjóðarinnar að holdinu, andlegir „niðjar Abrahams“ ásamt Jesú, og ráðsmenn ‚þess sem opinberað er.‘ (Galatabréfið 3:29; 6:16; 1. Pétursbréf 2:9) Enn fremur var mönnum af öðrum þjóðum boðið að verða hluti hins nýja, andlega Ísraels — hlutur sem Gyðingum þótti óhugsandi! (Rómverjabréfið 2:28, 29) Andlegum Ísraelsmönnum, bæði Gyðingum og af öðrum þjóðum, var boðið að gera menn að lærisveinum Jesú út um allan heim. (Matteus 28:19, 20) „Það, sem opinberað er,“ tók þannig á sig alþjóðlegt yfirbragð.
13. Hvernig voru þessar ‚opinberanir‘ geymdar handa komandi kynslóðum?
13 ‚Það sem opinberað var‘ í gegnum kristna söfnuðinn var smám saman skráð í hinar 27 bækur kristnu Grísku ritninganna sem fullnuðu helgiritasafn hinnar innblásnu Biblíu. En eins og fyrrum voru felldir inn í þessar bækur fjölmargir spádómar varðandi tilgang Jehóva sem menn myndu ekki skilja til fulls fyrr en mörgum öldum síðar. Enn sem fyrr voru biblíuritararnir í reynd þjónar ókominna kynslóða.
‚Það sem opinberað er‘ nú á dögum
14. Hvenær eftir fráhvarfið mikla ætlaði Jehóva aftur að varpa ljósi á ‚það sem opinberað er‘?
14 Eftir dauða postulanna gróf um sig hið mikla fráhvarf meðal þeirra sem játuðu sig kristna, eins og spáð hafði verið. (Matteus 13:36-42; Postulasagan 20:29, 30) Um margar aldir var skilningur manna á ‚því sem opinberað er‘ mjög takmarkaður, þótt Jesús yfirgæfi ekki þá sem leituðust við að vera trúfastir. (Matteus 28:20) Jesús hafði þó spáð að þetta ástand myndi ekki vara til eilífðar. Við endalok heimskerfisins yrðu hinir óguðlegu og hinir réttlátu aðgreindir enn á ný með greinilegum hætti, og ‚hinir réttlátu myndu skína sem sól í ríki föður þeirra.‘ (Matteus 13:43) Eins og Daníel hafði spáð ‚myndi þekkingin vaxa á endalokatímanum.‘ (Daníel 12:4) Ljós myndi aftur skína á ‚það sem opinberað er.‘
15. Hvers vegna hafa trúfélög kristna heimsins reynst óverðug þess að vera boðleið nýs skilnings á ‚því sem opinberað er‘?
15 Frá og með 1914 höfum við lifað endalokatíma þessarar heimsskipanar. Því er brýnt að vita hverja Jehóva notar núna sem boðleið fyrir þetta nýja andlega ljós. Víst er að hann notar ekki hin stóru kirkjufélög kristna heimsins. Þau hafa sýnt því lítinn áhuga að hrista af sér hinar röngu kenningar sem urðu til í fráhvarfinu mikla. Flestir leiðtogar þeirra eru nú annaðhvort svo rótgrónir í erfðavenjum og trúarkreddum að þeir eru ekki opnir fyrir nýrri þekkingu, eða þá undir slíkum áhrifum efahyggjunnar að þeir véfengja jafnvel innblástur Biblíunnar og ágæti siðferðisstaðla hennar.
16. Hverjir hafa reynst vera boðleið Jehóva nú á tímum?
16 Jesús sagði að ríki Guðs yrði tekið frá Gyðingum og „gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess.“ (Matteus 21:43) Á fyrstu öldinni reyndist þessi þjóð vera hinn ungi kristni söfnuður andlegra Ísraelsmanna. Núna er aðeins einn hópur manna sem ber ávöxt eitthvað í líkingu við frumkristna söfnuðinn. Þessir andlegu Ísraelsmenn tilheyra ‚hinum trúa og hyggna þjóni‘ sem um er talað í Matteusi 24:45-47. Þeir eru ekki hræddir við að ‚láta ljós sitt skína‘ frekar en frumkristnir menn. (Matteus 5:14-16) Árið 1919 hófu þeir af hugrekki að prédika fagnaðarerindið um ríkið um allan heim til vitnisburðar. (Matteus 24:14) Þar eð þeir hafa borið ávöxt Guðsríkis hefur Jehóva blessað þá ríkulega með því að halda þeim upplýstum um ‚hina margháttuðu speki Guðs.‘ — Efesusbréfið 3:10.
17, 18. Hvernig hefur Jehóva markvisst miðlað auknum skilningi eftir þessari boðleið nútímans?
17 Því fengu þeir árið 1923 réttan skilning á hinum mikla spádómi Jesú um sauðina og hafrana, og gerðu sér grein fyrir að allur heimurinn gengist undir dóm. (Matteus 25:31-46) Árið 1925 hlutu jarðneskir þjónar Guðs nákvæman skilning á 12. kafla Opinberunarbókarinnar og skildu til hlítar það sem gerst hafði tímamótaárið 1914. Árið 1932 jókst skilningur þeirra enn frekar. Jehóva opinberaði að spádómarnir um heimför Gyðinga til Jerúsalem og endurreisn þjóðarinnar ætti ekki við Ísrael að holdinu, sem hafði fyrir löngu reynst ótrúr og verið hafnað, heldur hinn andlega Ísrael, kristna söfnuðinn. (Rómverjabréfið 2:28, 29) Árið 1935 opnaði réttur skilningur á sýn Jóhannesar um ‚múginn mikla,‘ í 7. kafla Opinberunarbókarinnar, augu hinna smurðu fyrir því mikla söfnunarstarfi sem beið þeirra. — Opinberunarbókin 7:9-17.
18 Þetta hleypti af stað örum vexti prédikunarstarfsins um allan heim, því að nú var í alvöru hafin söfnun ‚þess sem er á jörðu.‘ (Efesusbréfið 1:10) Árið 1939, þegar óveðursský styrjaldarinnar hrönnuðust upp yfir Evrópu, fengu þeir gleggri skilning á hlutleysi en nokkru sinni fyrr. Árið 1950 var skilgreint nánar hverjir væru ‚höfðingjarnir‘ í Jesaja 32:1, 2. ‚Það er opinberað er‘ varð einnig skýrara árið 1962 þegar þjónar Guðs skildu rétt hver væru ‚yfirvöldin‘ og hvert skyldi vera samband kristins manns við þau. (Rómverjabréfið 13:1, 2) Og árið 1965 rann upp gleggri skilningur á jarðnesku upprisunni og því hverjir gætu átt hlut í henni. — Jóhannes 5:28, 29.
19. Hvernig hefur ‚þjónshópur‘ Jehóva nú á tímum reynst verðugur gæslumaður orðs Guðs?
19 Söfnuður smurðra kristinna manna nú á 20. öldinni hefur auk þess reynst verðugur gæslumaður orðs Guðs, hins ritaða safns ‚þess sem opinberað er.‘ Nokkrir fulltrúar þessa safnaðar tóku sér fyrir hendur þýðingu Biblíunnar á nútímaensku, og sú þýðing, Nýheimsþýðing Heilagrar ritningar, er nú kominn út á 11 tungumálum í 40 milljóna eintaka upplagi. Hópur smurðra kristinna manna, ‚þjónninn,‘ veitir líka forystu alþjóðlegri kennsluáætlun og gefur út námsbækur og tímarit byggð á Biblíunni. Hann skipuleggur vikulegar samkomur, mót með reglulegu millibili og ýmsa skóla og námskeið — allt í þeim tilgangi að hjálpa þeim sem leita sannleikans að afla sér nákvæmrar þekkingar á ‚því sem opinberað er.‘ Já, ‚hinir réttlátu skína nú sem sól‘ í andlegum skilningi, sýna sig verðuga þeirrar ráðsmennsku sem þeim er falin. — Matteus 13:43.
Ábyrgð okkar
20, 21. (a) Hvaða áhrif hafði opinberað orð Jehóva á sálmaritarann? (b) Hvað verður rætt í greininni á eftir?
20 Jehóva hefur ekki skilið okkur eftir ein og yfirgefin á sprengjubelti þessa heims. Hann hefur gefið okkur orð sitt til að lýsa götu okkar og hjálpa okkur að forðast andlegar hættur. (Sálmur 119:105) Jehóva hefur ekki heldur ætlað okkur að deyja vegna syndar og ófullkomleika. Þess í stað hefur hann opnað okkur tækifæri til að hljóta eilíft líf á jörð sem verður paradís, og gert hverjum sem er kleift að afla sér þekkingar um þá von. (Jóhannes 17:3) Ekki er að undra að sálmaritarinn komst svo að orði um ‚það sem opinberað var‘ á hans tímum: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.“ — Sálmur 119:97.
21 Hefur þú sama viðhorf til þess sem Jehóva hefur opinberað og við höfum fengið skilning á? Metur þú mikils þau sannleiksatriði sem þú hefur lært? Skilur þú að þessi sannindi eru nauðsynleg til að hjálpa þér að taka ákvarðanir, forðast freistingar og þjóna Jehóva? Hve miklum tíma verð þú í raun til að lesa og nema ‚það sem opinberað er‘? Getur þú bætt námsvenjur þínar með einhverjum hætti? Þessar spurningar eru viðfangsefni næstu greinar.
Manst þú?
◻ Hverja, meðal annarra, notaði Jehóva fyrir daga Jesú sem boðleið fyrir ‚það sem opinberað er‘?
◻ Hverjum tilheyrði ‚það sem opinberað er‘ eftir árið 33?
◻ Hvaða mikilvægum opinberunum var komið á framfæri eftir þessari nýju boðleið?
◻ Hvers vegna hlýtur ‚það sem opinberað er‘ nú á dögum að tilheyra hinum andlega Ísrael?
◻ Hvernig hefur söfnuður smurðra kristinna manna sannað sig verðugan gæslumann orðs Jehóva?
[Innskot á blaðsíðu 24]
Söfnuður smurðra kristinna manna tók við sem gæslumaður opinberana Jehóva.
[Innskot á blaðsíðu 25]
Hópur smurðra votta Jehóva, ‚þjónninn,‘ hefur þjónað dyggilega sem gæslumaður orðs Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Jehóva opinberaði mikilvæga þekkingu í gegnum trúfasta menn fortíðarinnar.