Þegar hjónabandsfriðnum er stefnt í voða
‚Konan skal ekki skilja við mann sinn og maðurinn skal ekki heldur skilja við konuna.‘ — 1. KORINTUBRÉF 7:10, 11.
1. Hver var tilgangur Jehóva með hjónabandinu?
JEHÓVA GUÐ sameinaði fyrsta manninn og konuna í hjónabandi og ætlaðist til að það band, sem gerði þau „eitt hold,“ rofnaði aldrei. Þetta átti að vera blessunarríkt hjónaband, veita þeim hamingju og þau áttu að geta af sér réttláta afkomendur, Guði til dýrðar. — 1. Mósebók 1:27, 28; 2:24.
2. Nefndu eitt atriði sem veldur hjónabandsslitum nú á tímum.
2 Þetta fullkomna fyrirkomulag á hjónabandinu var eyðilagt með sjálfstæðum hugsanagangi og synd. (1. Mósebók 3:1-19; Rómverjabréfið 5:12) Satt að segja er sjálfstæðisandinn eitt af því sem leiðir til hjónabandsslita nú á dögum. Þannig urðu 5 skilnaðir á móti 10,2 nýjum hjónaböndum fyrir hverja 1000 íbúa í Bandaríkjunum árið 1985. Í skýrslu frá Moskvu fyrir árið 1986 kemur í ljós að aðeins 37 prósent hjónabanda í Sovétríkjunum endast í þrjú ár og 70 prósent leysast upp áður en áratug er náð.
3. (a) Hvað getur valdið ósætti í hjónabandi? (b) Hver er aðalfriðarspillir hjónabandsins?
3 Sjálfstæðisandi getur valdið ósætti í hjónabandi. Hann hamlar líka andlegum þroska því að „ávexti réttlætisins verður sáð í friði þeim til handa, er frið semja.“ (Jakobsbréfið 3:18) En hver skyldi aðalfriðarspillirinn vera? Satan. Og það er dapurlegt þegar þjónar Guðs ‚gefa djöflinum færi‘ og mistekst þess vegna að gera heimili sín að stað hvíldar og friðar! — Efesusbréfið 4:26, 27.
4. Hvað ættu kristin hjón að gera sér ljóst og hvað ættu þau að gera ef þau eiga við alvarlegan hjónabandsvanda að etja?
4 Þegar kristin hjón líta á sambúðarslit sem einu leiðina út úr hjónabandserfiðleikum er hætt við að þau láti vélast af Satan og þá er eitthvað mjög athugavert við andlega heilsu þeirra. (2. Korintubréf 2:11) Annað hvort þeirra eða bæði hafa ekki fylgt meginreglum Guðs til hlítar. (Orðskviðirnir 3:1-6) Því ættu þau að reyna strax að leysa ágreining sinn með hjálp bænarinnar. Ef engin leið virðist vera til að ná sáttum er hægt að leita til öldunga safnaðarins. (Matteus 18:15-17) Enda þótt þeir hafi ekki umboð til að segja trúbræðrum sínum nákvæmlega til um hvernig þeir eigi að leysa hjónabandsvandamál sín geta þeir þó beint athyglinni að því sem Biblían segir. — Galatabréfið 6:5.
5. Á hvaða grundvelli viðurkennir Biblían skilnað þannig að lögmætt sé að gifta sig aftur?
5 Séu vandamálin komin á það alvarlegt stig að hin kristnu hjón íhugi lögskilnað geta öldungarnir bent á að Biblían viðurkennir lögskilnað og stofnun nýs hjónabands aðeins hafi makinn drýgt „hór.“ Þetta hugtak nær yfir hjúskaparbrot og önnur siðlaus kynmök og öfuguggahátt. (Matteus 19:9; Rómverjabréfið 7:2, 3; sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. mars 1983, bls. 31.) En hvað er til ráða ef ekki er um ‚hórdóm‘ að ræða en hjónabandsfriðnum er samt stefnt í voða? Hvað segir Ritningin um lögskilnað og sambúðarslit?
Innblásin heilræði Páls
6. (a) Hver er kjarninn í ráðleggingum Páls í 1. Korintubréfi 7:10, 11? (b) Hvernig ættu kristin hjón að leysa hjónabandsvandamál sín?
6 Öldungarnir geta beint athyglinni að orðum Páls postula er þeir reyna að hjálpa kristnum hjónum sem eiga í hjónabandserfiðleikum: „Þeim, sem gengið hafa í hjónaband, býð ég, þó ekki ég, heldur Drottinn, að konan skuli ekki skilja við mann sinn, — en hafi hún skilið við hann, þá sé hún áfram ógift eða sættist við manninn —, og að maðurinn skuli ekki heldur skilja við konuna.“ (1. Korintubréf 7:10, 11) Kristin hjón eiga að vera fær um að leysa vandamál sín ef þau taka tillit til mannlegs ófullkomleika. Enginn vandi ætti að vera svo mikill að ekki sé unnt að yfirstíga hann með einlægri bæn, með því að beita fyrir sig biblíulegum meginreglum og með því að sýna kærleika sem er ávöxtur anda Guðs. — Galatabréfið 5:22; 1. Korintubréf 13:4-8.
7. (a) Skilji kristin hjón, hver er þá staða þeirra samkvæmt Biblíunni? (b) Hvaða áhrif gæti skilnaður tveggja kristinna einstaklinga haft á þjónustusérréttindi þeirra?
7 En hvað nú ef kristin hjón slíta samt samvistum? Þá verða þau að ‚vera áfram ógift eða sættast.‘ Hvorugt þeirra hefur frelsi samkvæmt Biblíunni til að giftast aftur nema þau hafi fengið lögskilnað vegna ‚hórdóms.‘ Í ljósi þessa og „vegna saurlifnaðarins,“ sem er svo útbreiddur, væri þeim hollast að ‚sættast‘ án tafar. (1. Korintubréf 7:1, 2) Það er ekki öldunganna að krefjast þess að maður og kona taki saman aftur, en svo getur farið að þau séu ekki hæf til vissra þjónustusérréttinda vegna hjúskaparvandamála sinna. Ef maður ‚hefur ekki vit á að veita heimili sínu forstöðu‘ er hann til dæmis augljóslega ekki fær um að „veita söfnuði Guðs umsjón“ sem hirðir hans. — 1. Tímóteusarbréf 3:1-5, 12.
8. Hver er kjarninn í ráðum Páls í 1. Korintubréfi 7:12-16?
8 Biblían leggur áherslu á að varðveita hjónabandið jafnvel þótt aðeins annað hjónanna sé í trúnni. Páll skrifaði: „Ef bróðir nokkur á vantrúaða konu og hún lætur sér það vel líka að búa saman við hann, þá skilji hann ekki við hana. Og kona, sem á vantrúaðan mann og hann lætur sér vel líka að búa saman við hana, skilji ekki við manninn . . . En ef hinn vantrúaði vill skilja, þá fái hann skilnað. Hvorki bróðir né systir eru þrælbundin í slíkum efnum. Guð hefur kallað yður að lifa í friði. Því að hvað veist þú, kona, hvort þú munir geta frelsað manninn þinn? Eða hvað veist þú, maður, hvort þú munir geta frelsað konuna þína?“ (1. Korintubréf 7:12-16) Ef sá sem ekki er í trúnni kýs að fara mun kristinn maki hans leyfa honum það. Enn hinn trúaði mun ekki eiga frumkvæðið að aðskilnaði því hann vonar að hægt sé að vinna hinn vantrúaða til fylgis við trúna. Evnike, móðir Tímóteusar, bjó greinilega með eiginmnanni sínum þótt hann væri ekki í trúnni, en hún sá um að sonur hennar fengi andlegt uppeldi. — 2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:14, 15.
Ástæður sambúðarslita
9, 10. (a) Hver er ein ástæða til sambúðarslita hjóna í ljósi 1. Tímóteusarbréfs 5:8? (b) Hvað ber útnefndum öldungum að gera ef kristinn maður er sakaður um að neita að framfleyta eiginkonu og börnum?
9 Orð Páls postula í 1. Korintubréfi 7:10-16 hvetja gift fólk til að halda áfram að búa saman. Þó hafa sumir komist að þeirri niðurstöðu að lokum, eftir að hafa reynt til hins ýtrasta að varðveita hjónabandið, að sambúðarslit séu í allri sanngirni óumflýjanleg. Hvaða ástæður kunna að liggja slíkri niðurstöðu að baki?
10 Vísvitandi vanræksla á framfærsluskyldu er ein ástæða til sambúðarslita. Eiginmaðurinn tekur á sig þá ábyrgð, er hann kvænist, að sjá fyrir konu sinni og þeim börnum sem þau kunna að eignast. Sá sem ekki sér fyrir heimilisfólki sínu hefur „afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ (1. Tímóteusarbréf 5:8) Sambúðarslit koma því til greina ef eiginmaður vanrækir framfærsluskyldu sína af ásettu ráði. Auðvitað verða útnefndir öldungar að íhuga vandlega ásakanir um að kristinn maður neiti að framfleyta konu sinni og fjölskyldu. Þvergirðingsleg neitun um að framfleyta fjölskyldunni getur leitt til brottrekstrar úr söfnuðinum.
11. Hver er önnur ástæða til sambúðarslita, en hvað gæti gert ástandið þolanlegt?
11 Verulegar líkamsmeiðingar eru önnur ástæða til sambúðarslita. Setjum sem svo að maki, sem ekki er í trúnni, verði oft drukkinn, espist upp og valdi hinum trúaða líkamsmeiðingum. (Orðskviðirnir 23:29-35) Hinn trúaði getur hugsanlega komið í veg fyrir slík uppþot með bænum og með því að iðka ávexti anda Jehóva, og gert ástandið þolanlegt. En sé svo komið að líf og heilsa þess sem misþyrmt er sé í raun í hættu leyfir Biblían sambúðarslit. Öldungar safnaðarins ættu sömuleiðis að rannsaka ákærur um líkamsmeiðingar í því tilfelli er tveir kristnir einstaklingar í stormasömu hjónabandi eiga í hlut, og nauðsynlegt getur reynst að grípa til brottrekstrar úr söfnuðinum. — Samanber Galatabréfið 5:19-21; Títusarbréfið 1:7.
12. (a) Hvernig gæti andlegt ástand kristins einstaklings haft áhrif á ákvörðun um sambúðarslit? (b) Hvað er ráðlagt ef mjög óheilbrigt andlegt ástand ríkir á kristnu heimili?
12 Algjör ógnun við andlega velferð getur líka verið ástæða til sambúðarslita. Sá sem er í trúnni og býr á trúarlega sundurskiptu heimili ætti að gera allt sem í hans valdi stendur til að færa sér andlegar ráðstafanir Guðs í nyt. En sambúðarslit eru leyfileg ef andstaða maka, sem ekki er í trúnni (og innifelur ef til vill líkamlegt ófrelsi), gerir hinum trúaða hreinlega ókleift að ástunda sanna tilbeiðslu og stofnar andlegu hugarfari hans raunverulega í hættu. En hvað þá ef mjög óheilbrigt andlegt ástand ríkir þar sem bæði hjónin eru í trúnni? Öldungarnir ættu að veita aðstoð, en sérstaklega ætti þó hinn skírði eiginmaður að leggja sig einarðlega fram um að betrumbæta ástandið. Ef skírður einstaklingur kemur fram eins og fráhvarfsmaður og reynir að hindra maka sinn í því að þjóna Jehóva, ættu öldungarnir auðvitað að taka á málinu í samræmi við Biblíuna. Sannkristinn einstaklingur brýtur ekki í bága við ráðleggingar Páls um að stefna ekki trúbróður fyrir rétt, þótt hann fari fram á lögskilnað eftir að maki hans hefur verið gerður brottrækur úr kristna söfnuðinum vegna algjörrar ógnunar við andlega velferð, vísvitandi vanrækslu á framfærsluskyldu eða verulegra líkamsmeiðinga. — 1. Korintubréf 6:1-8.
13. Undir hvers konar kringumstæðum geta sambúðarslit verið réttlætanleg?
13 Sé ástandið gjörsamlega óbærilegt geta sambúðarslit verið réttlætanleg, en auðvitað ætti ekki að nota veigalitlar átyllur til að fá fram sambúðarslit. Sérhver kristinn maður, sem slítur samvistum við maka sinn, verður að axla sjálfur þá ábyrgð sem slíku fylgir og ætti að gera sér grein fyrir því að við munum öll verða að gera Jehóva reikningsskil. — Hebreabréfið 4:13.
Er það viturlegt?
14. (a) Hvaða vandamál er líklegt að sambúðarslit hafi í för með sér? (b) Hvaða áhrif geta sambúðarslit haft á börn?
14 Rétt er að hugleiða og ræða í bæn þau vandamál sem líklegt er að sambúðarslit hafi í för með sér. Til dæmis er einstæður faðir eða móðir sjaldan fær um að veita sama jafnvægi og aga sem ríkir í fjölskyldum þar sem báðir foreldrar eru til staðar. Og sambúðarslit geta verið svipað áfall fyrir börnin og lögskilnaður. Dagblaðið India Today segir varðandi þetta: „Sheena er sex ára gömul og stóru augun hennar virðast geta gleypt allan heiminn. Foreldrar hennar fengu lögskilnað fyrir tveimur árum eftir grimmilega baráttu í réttinum. Fljótlega kvæntist faðir hennar annarri konu. Í heilt ár fékk Sheena slæm astmaköst og hún sýgur þumalfingurinn viðstöðulaust. Hún býr með móður sinni í Suður-Dehli. Móðir hennar segir: ‚Sorg mín hefur lagst á Sheenu. . . . Hún saknar föður síns. . . . Hún er þroskaðri en flestir jafnaldrar hennar. En hún fær stjórnlaus grátköst, líkt og hún leitist við að draga eitthvað út úr sjálfri sér. Skólinn var vandamál. Börn geta verið svo miskunnarlaus. Það kemur oft fyrir að hún dregur sig inn í sinn eigin ímyndaða hugarheim og spinnur upp sögu fyrir vini sína um það hvernig við förum öll út saman.‘“
15. Hvaða áhrif geta sambúðarslit haft á kristinn eiginmann og konu?
15 Oft reynast sambúðarslitin einnig erfið fyrir kristinn eiginmann og konu. Þau komast fljótt að raun um að án makans eða barnanna skapast nístandi tómarúm. Ekki er hægt að láta eins og það álag sem fylgir sambúðarslitum sé ekki til. Mun þeim takast að sjá fyrir sér fjárhagslega og með öðrum hætti? Og hvað gerist ef sambúðarslitin leiða til siðleysis? Jesús sagði: „En spekin sannast af verkum sínum.“ (Matteus 11:19) Stundum hafa sambúðarslit reynst afar óhyggileg, einkum þegar bæði hjónin eru kristin.
Vinnið að lausn vandamálanna
16. Hvað ættu kristin hjón, sem finna að heimilisfriður þeirra er í hættu, að gera?
16 Kristin hjón, sem finna að hjónabandsfriður þeirra er í alvarlegri hættu, ættu að ræða ágreiningsmál sín á þann hátt sem sæmir þjónum Guðs. Og vissulega ættu þau að taka til greina að bæði eru þau ófullkomin. (Filippíbréfið 2:1-4) En hvað er fleira hægt að gera?
17. Hvernig getur það stuðlað að friði í hjónabandinu að sýna visku í tengslum við efnislega hluti?
17 Sé viska sýnd í tengslum við efnisleg málefni getur það stuðlað að friði í hjónabandinu. Við skulum taka dæmi: Maður nokkur íhugar mótbárur konu sinnar en ákveður að því búnu engu að síður að skynsamlegt sé fyrir fjölskylduna að flytja. Þetta getur virst heillaráð af fjárhagsástæðum, en það getur kannski líka gert fjölskyldunni kleift að efla hag Guðsríkis með því að þjóna þar sem þörfin er meiri. (Matteus 6:33) Verið getur að kristna eiginkonan sé lítt hrifin af flutningunum vegna þess að hún þarf hugsanlega að búa fjarri foreldrum sínum eða yfirgefa kunnuglegt umhverfi. En viturlegt væri af henni að sýna fulla samstöðu með manni sínum, því hann er höfuð fjölskyldunnar og ber því ábyrgðina á að ákveða hvar fjölskylda hans býr. Undirgefni hennar og ástrík samvinna mun auk þess stuðla að heimilisfriði. — Efesusbréfið 5:21-24.
18. Hvaða tækifæri hafa kristin hjón til að gera hlutina saman?
18 Heimilisfriðurinn dafnar og vandamálin virðast léttvægari þegar hjónin gera ýmislegt saman. Kristin hjón hafa til dæmis afbragðstækifæri til að vinna saman í starfinu á akrinum. Geri þau það reglulega og taki börnin með mun það verða allri fjölskyldunni til heilla. Auk þess geta skapast ýmiss konar tækifæri til að styrkja stoðir hjónabandsins með því að taka í sameiningu þátt í annars konar heilnæmum áhugamálum sem annað hvort hjónanna hefur sérstakt yndi af.
19. Hvers konar forysta mun stuðla að fjölskyldufriði?
19 Það styrkir hjónabandið ef eiginmaðurinn tekur forystuhlutverk sitt réttum tökum. Auðvitað mun kristinn eiginmaður ekki hegða sér eins og einræðisherra heldur ‚elska eiginkonu sína og ekki vera beiskur við hana.‘ Jehóva ætlast til að hann veiti fjölskyldu sinni kærleiksríka forystu. (Kólossubréfið 3:18, 19) Slík forysta stuðlar síðan að fjölskyldufriði.
Trúarlega sundurskipt heimili
20, 21. Hvernig getur sanngirni reynst árangursrík þegar friði er ógnað á trúarlega sundurskiptu heimili?
20 Sanngirni getur hjálpað kristnum hjónum að leysa hjúskaparvandamál sín. (Filippíbréfið 4:5) En sanngirni er sömuleiðis mikilvæg sé friði ógnað á trúarlega sundurskiptu heimili. Ef eiginmaður, sem ekki er í trúnni, reynir að hindra konu sína í að þjóna Jehóva getur hún reynt að rökræða við hann og benda honum hæversklega á að hún láti hann njóta trúfrelsis svo ekki sé nema sanngjarnt að hún sitji við sama borð í þeim efnum. (Matteus 7:12) Enda þótt hún eigi að sýna eiginmanni sínum undirgefni, þótt hann sé ekki í trúnni, verður hún þó að gera Guðs vilja ef það tvennt stangast á. (1. Korintubréf 11:3; Postulasagan 5:29) Það er áreiðanlega ekki farið fram á of mikið með því að vilja sækja samkomur þrisvar í viku. Hins vegar getur verið skynsamlegt af eiginkonu sem er í trúnni að vera heima við önnur kvöld vikunnar og fara í starfið á akrinum þegar eiginmaðurinn er í vinnu og börnin í skóla. Með sanngirni og góðri skipulagningu þarf hún ekki að ‚þreytast að gjöra það sem gott er.‘ — Galatabréfið 6:9.
21 En sanngirnin nær einnig til fleiri mála. Til dæmis hefur sérhver manneskja rétt til að iðka ákveðna trú. En það væri bæði sanngjarnt og viturlegt af kristinni eiginkonu að leggja ekki Biblíuna og önnur námsgögn þar sem manni hennar, sem er mjög á móti trúnni, væri það þvert um geð. Hún getur ef til vill forðast árekstra með því að hafa slík rit með öðrum persónulegum eigum sínum og nema þau í einrúmi. Auðvitað má hún ekki slaka til þar sem réttlátar meginreglur eiga í hlut. — Matteus 10:16.
22. Hvað er hægt að gera ef kristileg kennsla er aðalorsök missættis á heimilinu?
22 Sé það kristileg kennsla barnanna sem er aðalorsök missættis á heimilinu getur eiginkonan, sem er í trúnni, með háttvísi gert ráðstafanir til að börnin fari með henni á samkomur og í starfið á akrinum. En ef eiginmaður og faðir, sem ekki er í trúnni, kemur í veg fyrir þetta getur hún kennt börnum sínum meginreglur Biblíunnar og er þá góð von um að þau iðki sanna trú þegar þau vaxa úr grasi og flytjast að heiman. Sé það eiginmaðurinn sem er í trúnni hvílir á honum sem höfði fjölskyldunnar sú biblíulega skylda að ala börnin upp í kristinni trú. Hann á því að nema Biblíuna með þeim, fara með þau á samkomur og taka þau með sér í starfið á akrinum. (Efesusbréfið 6:4) En það gefur augaleið að hann þarf að vera vingjarnlegur, kærleiksríkur og sanngjarn við eiginkonu sína sem ekki er í trúnni.
Varðveitið friðinn sem sameinuð fjölskylda
23. Hvað getur hjálpað sé hjónabandsfriðnum ógnað?
23 Þar sem hjón eru ‚eitt hold‘ eiga þau að lifa í friði eins og Guð ætlaði giftu fólki að gera, ekki síst ef þau eru bæði kristin. (Matteus 19:5; 1. Korintubréf 7:3-5) En ef hjónabandsfriði þínum er ógnað skaltu fara gaumgæfilega yfir biblíulegu leiðbeiningarnar hér að framan og ræða málið við Jehóva í bæn. Það getur líka hjálpað að hugsa til þess tíma þegar þið hjónin voruð að draga ykkur saman. Þá hafið þið áreiðanlega bæði lagt ykkur fram við að gera það sem rétt er og leggja grundvöllinn að hamingjuríku sambandi! Ertu reiðubúinn til að leggja þig fram á svipaðan hátt til að varðveita hjónabandið?
24. Hvaða viðhorf ættu kristnir einstaklingar að hafa til hjúskapar?
24 Kristnir einstaklingar sameinaðir í hjúpskap eiga dásamlega gjöf frá Guði — hjónabandið! Framundan þér er nýr heimur þar sem sársaukafullur aðskilnaður og hjónaskilnaður þjakar ekki lengur mannkynið, ef þú stendur í verki við hjónavígsluheit þitt og varðveitir ráðvendni gagnvart Jehóva. Þú skalt því sýna þakklæti þitt fyrir hjónabandið sem táknrænan „þrefaldan þráð,“ þar sem Jehóva er mikilvægur þáttur. (Prédikarinn 4:12) Og megi allir í samhentri fjölskyldu þinni njóta blessunar fjölskylduhamingjunnar á heimili sem reynist vera staður hvíldar og friðar.
Hvernig svarar þú?
◻ Hvernig getur þú dregið saman ráð Páls í 1. Korintubréfi 7:10-16?
◻ Nefndu þrjár gildar ástæður fyrir sambúðarslitum hjóna.
◻ Hvernig geta kristin hjón leyst vandann þegar hjónabandsfriði er stefnt í voða?
◻ Hvernig getur sanngirni stuðlað að friði í trúarlega sundurskiptum fjölskyldum?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Þegar friði hjónabandsins er stefnt í voða eiga kristin hjón að ræða saman um vandann á þann hátt sem sæmir þjónum Jehóva.