„Þér eruð verði keyptir“
„Þér eruð verði keyptir. Vegsamið því Guð.“ — 1. KORINTUBRÉF 6:20.
1, 2. (a) Hvernig átti að fara með ísraelska þræla samkvæmt lögmálinu? (b) Hvað stóð þræli til boða sem elskaði húsbónda sinn?
„ÞRÆLAHALD var algengt og viðurkennt víða í hinum forna heimi,“ segir í biblíuorðabókinni Holman Illustrated Bible Dictionary. Þar segir áfram: „Hagkerfi Egyptalands, Grikklands og Rómar byggðist á þrælahaldi. Á fyrstu öld kristninnar var einn maður af hverjum þremur þræll á Ítalíu og einn af hverjum fimm annars staðar.“
2 Þó að þrælahald hafi líka tíðkast í Forn-Ísrael tryggði lögmálið að hebreskir þrælar nytu verndar. Til dæmis var kveðið á um það í lögmálinu að ísraelskur maður gæti ekki verið þræll í meira en sex ár. Á sjöunda árinu skyldi hann „frjáls burt fara án endurgjalds“. En lögin um meðferð þræla voru svo sanngjörn og mannúðleg að eftirfarandi ákvæði var í lögmálinu: „Ef þrællinn segir skýlaust: ,Ég elska húsbónda minn, konu mína og börn mín, ég vil ekki frjáls í burtu fara,‘ þá skal húsbóndi hans færa hann til Guðs og leiða hann að dyrunum eða að dyrastafnum, og skal húsbóndi hans stinga al í gegnum eyra honum, og skal hann síðan vera þræll hans ævinlega.“ — 2. Mósebók 21:2-6; 3. Mósebók 25:42, 43; 5. Mósebók 15:12-18.
3. (a) Hvers konar þjónustu tóku frumkristnir menn sér á hendur? (b) Hvað fær okkur til að þjóna Guði?
3 Þetta ákvæði lögmálsins, sem gaf kost á sjálfviljaþjónustu, veitir innsýn í þjónustu kristinna manna. Svo dæmi sé tekið sögðust biblíuritararnir Páll, Jakob, Pétur og Júdas vera þjónar Guðs og Krists, en gríska frummálsorðið getur einnig merkt þræll. (Títusarbréfið 1:1; Jakobsbréfið 1:1; 2. Pétursbréf 1:1; Júdasarbréfið 1) Páll minnti kristna menn í Þessaloníku á að þeir hefðu snúið sér „til Guðs frá skurðgoðunum, til þess að þjóna lifandi og sönnum Guði“. (1. Þessaloníkubréf 1:9) Hvað fékk þessa kristnu menn til að verða sjálfviljugir þjónar Guðs? Veltum þessu aðeins fyrir okkur. Af hvaða hvötum afsalaði ísraelskur þræll sér frelsinu? Var það ekki vegna þess að hann elskaði húsbónda sinn? Kristin þjónusta byggist á kærleika til Guðs. Þegar við kynnumst hinum lifandi og sanna Guði og förum að elska hann langar okkur til að þjóna honum ,af öllu hjarta okkar og af allri sálu okkar‘. (5. Mósebók 10:12, 13) En hvað felur það í sér að verða þjónar Guðs og Krists? Hvernig snertir þetta daglegt líf okkar?
„Gjörið það allt Guði til dýrðar“
4. Hvernig gerumst við þjónar Guðs og Krists?
4 Þegar við vígjum okkur Jehóva og látum skírast verðum við eign hans. „Ekki eruð þér yðar eigin. Þér eruð verði keyptir,“ segir Páll postuli. (1. Korintubréf 6:19, 20) Þetta verð er auðvitað lausnarfórn Jesú Krists því að á grundvelli hennar viðurkennir Guð okkur sem þjóna sína hvort sem við erum andasmurðir kristnir menn eða félagar þeirra með jarðneska von. (Efesusbréfið 1:7; 2:13; Opinberunarbókin 5:9) Þess vegna „erum vér Drottins“ frá því að við látum skírast. (Rómverjabréfið 14:8) Þar sem við erum keypt með dýrmætu blóði Jesú Krists erum við einnig þjónar hans og höfum þá skyldu á herðum að halda boðorð hans. — 1. Pétursbréf 1:18, 19.
5. Hver er frumskylda okkar sem þjónar Jehóva og hvernig getum við uppfyllt hana?
5 Þjónar verða að hlýða húsbændum sínum. Þjónusta okkar er af fúsum vilja og kemur til af kærleika til húsbóndans. Í 1. Jóhannesarbréfi 5:3 segir: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ Hlýðni okkar er því til merkis um kærleika okkar og undirgefni. Þetta kemur fram í öllu sem við gerum. Páll sagði: „Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.“ (1. Korintubréf 10:31) Við ættum að sýna að við ,þjónum Drottni‘ í daglega lífinu, jafnvel í því smáa. — Rómverjabréfið 12:11.
6. Hvaða áhrif hefur það á ákvarðanir okkar að vera þjónar Guðs? Lýstu með dæmi.
6 Þegar við tökum ákvarðanir, svo dæmi sé tekið, ættum við að taka mið af vilja Jehóva, húsbónda okkar á himnum. (Malakí 1:6) Erfiðar ákvarðanir geta reynt á hlýðni okkar við Guð. Förum við þá eftir ráðleggingum hans í stað þess að fylgja tilhneigingum hjartans sem er „svikult“ og „spillt“? (Jeremía 17:9) Melisa, sem er einhleyp kristin kona, hafði aðeins verið skírð í stuttan tíma þegar ungur maður fór að sýna henni áhuga. Hann var að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva og svo virtist sem hann væri góður maður. Öldungur talaði samt sem áður við Melisu um hversu viturlegt væri að fylgja fyrirmælum Jehóva að giftast ,aðeins í Drottni‘. (1. Korintubréf 7:39; 2. Korintubréf 6:14) „Það var ekki auðvelt að fylgja þessu ráði,“ viðurkennir Melisa. „En þar sem ég hafði vígt mig Guði til að gera vilja hans ákvað ég að fylgja skýrum leiðbeiningum hans.“ Hún segir um það sem gerðist: „Ég er mjög glöð yfir því að hafa fylgt þessu ráði. Maðurinn hætti fljótlega að kynna sér Biblíuna. Ef ég hefði farið út í þetta samband væri ég núna gift vantrúuðum manni.“
7, 8. (a) Hvers vegna ætti okkur ekki að vera óhóflega umhugað um að þóknast mönnum? (b) Lýstu því hvernig hægt er að vinna bug á ótta við menn.
7 Þar sem við erum þjónar Guðs megum við ekki verða þrælar manna. (1. Korintubréf 7:23) Auðvitað langar engan að vera óvinsæll en við verðum að muna að siðferði kristinna manna er ólíkt því sem viðgengst í heiminum. Páll spurði: „Er ég að leitast við að þóknast mönnum?“ Niðurstaða hans var: „Ef ég væri enn að þóknast mönnum, þá væri ég ekki þjónn Krists.“ (Galatabréfið 1:10) Við megum ekki láta undan hópþrýstingi og fara að þóknast mönnum. Hvað getum við þá gert þegar þrýst er á okkur að gefa eftir?
8 Elena er ung kristin stúlka á Spáni. Nokkrir bekkjarfélagar hennar voru blóðgjafar. Þeir vissu að þar sem Elena var vottur Jehóva myndi hún hvorki gefa né þiggja blóð. Þegar hún fékk tækifæri til að útskýra afstöðu sína fyrir öllum bekknum bauðst hún til að halda kynningu. „Satt að segja var ég mjög kvíðin,“ segir hún. „En ég undirbjó mig vel og árangurinn kom á óvart. Ég ávann mér virðingu margra bekkjarfélaga og kennarinn sagðist dást að starfi mínu. Umfram allt var ég ánægð með að hafa varið nafn Jehóva og fengið tækifæri til að útskýra ástæðurnar fyrir biblíulegri afstöðu minni.“ (1. Mósebók 9:3, 4; Postulasagan 15:28, 29) Já, sem þjónar Guðs og Krists skerum við okkur úr. En við gætum áunnið okkur virðingu fólks ef við erum undir það búin að verja trú okkar háttvíslega. — 1. Pétursbréf 3:15.
9. Hvað lærum við af engli sem birtist Jóhannesi postula?
9 Þegar við minnumst þess að við erum þjónar Guðs eigum við auðveldara með að vera auðmjúk. Eitt sinn varð Jóhannes postuli svo snortinn þegar hann sá mikilfenglega sýn um hina himnesku Jerúsalem að hann féll niður til að tilbiðja fyrir fótum engilsins sem hafði verið talsmaður Guðs. „Varastu þetta!“ sagði engillinn við hann. „Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, spámannanna, og þeirra, sem varðveita orð þessarar bókar. Tilbið þú Guð.“ (Opinberunarbókin 22:8, 9) Þessi engill er afbragðsfyrirmynd fyrir alla þjóna Guðs. Sumir kristnir menn gegna ábyrgðarstörfum í söfnuðinum. En Jesús sagði engu að síður: „Sá, sem mikill vill verða meðal yðar, [sé] þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar.“ (Matteus 20:26, 27) Sem fylgjendur Jesú erum við öll þjónar.
„Vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra“
10. Segðu frá dæmum úr Biblíunni sem sýna að þjónum Guðs fannst ekki alltaf auðvelt að gera vilja hans.
10 Það er ekki alltaf auðvelt fyrir ófullkomna menn að gera vilja Guðs. Spámaðurinn Móse var tregur til að hlýða þegar Jehóva bað hann um að leysa Ísraelsmenn úr ánauðinni í Egyptalandi. (2. Mósebók 3:10, 11; 4:1, 10) Þegar Jónas fékk það verkefni að boða dóm yfir fólkinu í Níníve „lagði [hann] af stað í því skyni að flýja til Tarsis, burt frá augliti Drottins“. (Jónas 1:2, 3) Barúk, sem var ritari spámannsins Jeremía, kvartaði yfir því að vera orðinn þreyttur. (Jeremía 45:2, 3) Hvernig ættum við að bregðast við þegar langanir okkar og óskir stangast á við vilja Guðs? Svarið er að finna í dæmisögu sem Jesús sagði.
11, 12. (a) Segðu í stuttu máli frá dæmisögu Jesú í Lúkasi 17:7-10. (b) Hvað lærum við af dæmisögu Jesú?
11 Jesús talaði um þjón sem hafði verið úti allan daginn að gæta fénaðar húsbónda síns. Þegar þjónninn kom þreyttur heim eftir um tólf klukkustunda erfiðisvinnu bauð húsbóndinn honum ekki að setjast niður og borða góða máltíð heldur sagði: „Bú þú mér kvöldverð, gyrð þig og þjóna mér, meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið.“ Þjónninn átti ekki að sinna sínum eigin þörfum fyrr en eftir að hann hafði þjónað húsbónda sínum. Jesús lauk með því að segja: „Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gjört allt, sem yður var boðið: ‚Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra.‘“ — Lúkas 17:7-10.
12 Jesús var ekki að gefa í skyn með þessari dæmisögu að Jehóva kynni ekki að meta það sem við gerum í þjónustu hans. Biblían segir skýrt og skorinort: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans.“ (Hebreabréfið 6:10) Inntak dæmisögu Jesú var að þjónn getur ekki hugsað fyrst og fremst um sjálfan sig eða eigin þægindi. Þegar við vígðum okkur Guði og völdum að verða þjónar hans féllumst við á að láta vilja hans ganga fyrir okkar eigin vilja. Við verðum að láta vilja okkar stjórnast af vilja Guðs.
13, 14. (a) Hvenær gætum við þurft að láta eigin tilhneigingar víkja? (b) Af hverju ættum við að láta vilja Guðs ráða ferðinni?
13 Það getur kostað mikla fyrirhöfn af okkar hálfu að nema orð Guðs og rit hins ,trúa og hyggna þjóns‘. (Matteus 24:45) Þannig getur það verið, sérstaklega ef við höfum alltaf átt erfitt með lestur eða ef eitthvert rit tekur fyrir „djúp Guðs“. (1. Korintubréf 2:10) En ættum við ekki samt að taka frá tíma til einkanáms? Við getum þurft að beita okkur aga til að setjast niður með námsrit. En hvernig getum við öðruvísi þroskað löngun í ,föstu fæðuna sem er fyrir fullorðna‘? — Hebreabréfið 5:14.
14 Stundum komum við kannski þreytt heim eftir langan vinnudag. Þá þurfum við eflaust að leggja mikið á okkur til að sækja safnaðarsamkomur. Það gæti verið gagnstætt eðli okkar að prédika fyrir ókunnugum. Sjálfur Páll gerði sér grein fyrir því að það gætu komið tímar þegar við boðuðum fagnaðarerindið af ,nauðung‘. (1. Korintubréf 9:17, Biblían 1859) En við gerum þetta vegna þess að Jehóva — himneskur húsbóndi okkar sem við elskum — segir okkur það. Og erum við ekki alltaf ánægð og endurnærð eftir að hafa lagt það á okkur að nema, sækja samkomur og prédika? — Sálmur 1:1, 2; 122:1; 145:10-13.
,Horfðu ekki aftur‘
15. Hvernig var Jesús til fyrirmyndar í því að vera undirgefinn Guði?
15 Jesús Kristur sýndi undirgefni við himneskan föður sinn á framúrskarandi hátt. „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig,“ sagði hann við lærisveinana. (Jóhannes 6:38) Þegar hann leið miklar sálarkvalir í Getsemanegarðinum bað hann: „Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“ — Matteus 26:39.
16, 17. (a) Hvernig ættum við að líta á það sem við höfum snúið baki við? (b) Sýndu fram á hvers vegna Páll var raunsær þegar hann mat möguleika sína í heiminum „sem sorp“.
16 Jesús vill að við séum trú þeirri ákvörðun okkar að vera þjónar Guðs. Hann sagði: „Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki.“ (Lúkas 9:62) Það væri alls ekki rétt af okkur að hugsa í sífellu um það sem við höfum fórnað heldur ættum við að meta mikils það sem við höfum fengið með því að velja að þjóna Guði. Páll skrifaði söfnuðinum í Filippí: „Meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp, til þess að ég geti áunnið Krist.“ — Filippíbréfið 3:8.
17 Hugsaðu um allt sem Páll áleit vera sorp og hann hafði yfirgefið til að geta hlotið andlegu launin fyrir að þjóna Guði. Hann sneri ekki aðeins baki við þægindum heimsins heldur einnig þeim möguleika að verða leiðtogi gyðingdómsins. Ef Páll hefði haldið áfram að iðka gyðingatrú hefði hann kannski komist í svipaða stöðu og Símeon, sonur Gamalíels, kennara Páls. (Postulasagan 22:3; Galatabréfið 1:14) Símeon varð leiðtogi faríseanna og átti stóran þátt í uppreisn Gyðinga gegn Róm árið 66-70, þó að hann hafi haft einhverjar efasemdir. Hann féll í þeim átökum, annaðhvort fyrir hendi öfgasinnaðra Gyðinga eða rómverska hersins.
18. Lýstu með dæmi þeirri umbun sem fylgir ötulu starfi í þjónustunni við Guð.
18 Margir vottar Jehóva hafa fylgt fordæmi Páls. „Fáeinum árum eftir að ég lauk skóla fékk ég vinnu sem einkaritari hjá virtum lögmanni í Lundúnum,“ segir Jean. „Ég hafði gaman af starfinu og fékk vel borgað en innst inni vissi ég að ég gæti gert meira í þjónustunni við Jehóva. Að lokum sagði ég upp vinnunni og byrjaði sem brautryðjandi. Ég tók þessa ákvörðun fyrir næstum tuttugu árum og ég er mjög þakklát fyrir það. Þjónusta í fullu starfi hefur auðgað líf mitt meira en nokkur ritarastörf hefðu getað gert. Ekkert gefur mér meiri ánægju en að sjá hvernig orð Guðs getur breytt lífi einstaklings. Það er einstakt að eiga þátt í þessu ferli. Það sem við gefum Jehóva er ekkert í samanburði við það sem við fáum frá honum.“
19. Hver ætti ásetningur okkar að vera og hvers vegna?
19 Aðstæður okkar geta breyst með tímanum en við erum eftir sem áður vígð Guði. Við erum þjónar hans og hann leyfir okkur að ákveða hvernig við notum tíma okkar, krafta, hæfileika og annað sem best. Ákvarðanir okkar geta því endurspeglað kærleika okkar til Guðs. Þær sýna einnig hversu fórnfús við erum. (Matteus 6:33) Ættum við ekki að vera staðráðin í að gefa Jehóva okkar besta óháð aðstæðum? Páll skrifaði: „Ef viljinn er góður, þá er hver þóknanlegur með það, sem hann á til, og ekki farið fram á það, sem hann á ekki til.“ — 2. Korintubréf 8:12.
,Þér hafið ávöxt‘
20, 21. (a) Hvaða ávöxt bera þjónar Guðs? (b) Hvernig umbunar Jehóva þeim sem gefa honum það besta?
20 Það er ekki þjakandi að vera þjónn Guðs. Þvert á móti frelsar það okkur undan skaðlegum þrældómi sem rænir okkur hamingju. Páll skrifaði: „Með því að þér eruð leystir frá syndinni, en eruð orðnir þjónar Guðs, þá hafið þér ávöxt yðar til helgunar og eilíft líf að lokum.“ (Rómverjabréfið 6:22) Við höfum ávöxt til helgunar í þjónustunni við Guð á þann hátt að við njótum góðs af heilagri eða siðferðilega hreinni hegðun. Þar að auki leiðir það til eilífs lífs í framtíðinni.
21 Jehóva er örlátur við þjóna sína. Þegar við gerum okkar besta í þjónustu hans lýkur hann upp ,flóðgáttum himinsins og úthellir yfir okkur yfirgnæfanlegri blessun‘. (Malakí 3:10) Það verður yndislegt að þjóna Jehóva um alla eilífð.
Manstu?
• Hvers vegna verðum við þjónar Guðs?
• Hvernig sýnum við að við erum undirgefin vilja Guðs?
• Hvers vegna ættum við að vera tilbúin að láta vilja Guðs ganga fyrir okkar eigin vilja?
• Hvers vegna ættum við ekki að ,horfa aftur‘?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Ákvæði lögmálsins um sjálfviljaþjónustu var fyrirmynd um þjónustu kristinna manna.
[Mynd á blaðsíð 25]
Við verðum þjónar Guðs þegar við látum skírast.
[Myndir á blaðsíðu 25]
Kristnir menn láta vilja Guðs ganga fyrir.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Móse var tregur til að taka við verkefni sínu.