Hefur Guð kallað þig að lifa í friði?
„En ef hinn vantrúaði vill skilja, þá fái hann skilnað. Hvorki bróðir né systir eru þrælbundin í slíkum efnum. Guð hefur kallað yður að lifa í friði.“ — 1. KORINTUBRÉF 7:15.
1. Hvernig ætti að líta á hjónabandið út frá Biblíunni?
JEHÓVA ætlaðist aldrei til að hjónaband leiddi til sársaukafullra sambúðarslita eða skilnaðar. Hjónabandið átti að vera varanlegt band tveggja einstaklinga er væru „eitt hold“ og veita þeim gleði, hvíld og frið. (1. Mósebók 2:24; Rutarbók 1:9) Almennt má segja að Ritningin ráðleggi hjónum að halda áfram að búa saman, jafnvel þótt annað hjónanna sé kristið en hitt sé ekki í trúnni. (1. Korintubréf 7:12-16) Auk þess gera svik, sem valda því að hjónabandið rofnar, hinn seka siðferðilega ábyrgan frammi fyrir Guði sem ‚hatar hjónaskilnað.‘ — Malakí 2:13-16.
2. Hvaða augum líta kristnir menn sambúðarslit og skilnað?
2 Mannlegur ófullkomleiki og önnur atriði hafa stundum leitt til sambúðarslita eða skilnaðar jafnvel meðal skírðra þjóna Guðs. Þó eru þessi skref vanalega ekki stigin fyrr en reynt hefur verið til þrautar að halda hjónabandinu saman, vegna þess að kristnir menn bera mikla virðingu fyrir hjónabandinu. Guð hefur sjálfur sett besta fordæmið hvað þetta varðar. Hann var ‚eiginmaður‘ Ísraels til forna og þoldi þjóð sinni margra alda þrjósku, uppreisn og andlegan hórdóm. (Jesaja 54:1-5; Jeremía 3:14-17; Hósea 1:10, 11; 3:1-5) Það var ekki fyrr en Ísraelsmenn höfðu sýnt sig algerlega óforbetranlega að Jehóva hafnaði þeim sem þjóð. — Matteus 23:37, 38.
3. (a) Af hvaða biblíulegum ástæðum gæti kristinn einstaklingur slitið sambúð við maka sinn? (b) Við hvaða kringumstæður leyfir Biblían skilnað?
3 Stundum leita kristnir menn til öldunga og biðja um hjálp vegna alvarlegra hjónabandsörðugleika. Öldungarnir hafa ekki umboð til að segja neinum að yfirgefa maka sinn eða skilja við hann, en þeir geta bent á hvað orð Guðs segir um málið. Eins og sýnt var fram á í greinunum á undan eru sambúðarslit leyfileg samkvæmt Biblíunni ef um er að ræða vísvitandi vanrækslu á framfærsluskyldu, verulegar líkamsmeiðingar eða algjöra ógnun við andlega velferð. Á það hefur líka verið bent að mögulegt sé að skilja á biblíulegum forsendum og giftast aftur ef makinn hefur gert sig sekan um ‚hórdóm‘ sem nær yfir ýmiss konar siðlaus kynmök. (Matteus 19:9) Auðvitað eru sambúðarslit eða skilnaður ekki sjálfgefið mál undir slíkum kringumstæðum, því það getur verið mögulegt að koma aftur á friði í hjónabandinu og saklausi makinn getur jafnvel fyrirgefið hjúskaparbrot eða annað það sem ‚hórdómur‘ nær yfir. — Matteus 5:31, 32; samanber Hósea 3:1-3.
4. (a) Teldu upp í stuttu máli hvað Páll sagði giftum einstaklingum í 1. Korintubréfi 7:10-16. (b) Hvenær er hægt að segja: „Guð hefur kallað yður að lifa í friði“?
4 Eins og við tókum eftir í greininni á undan hvatti Páll postuli gifta, kristna einstaklinga til að yfirgefa ekki maka sinn. (1. Korintubréf 7:10-16) Ef það hjóna, sem ekki er í trúnni, kýs að búa áfram með kristnum maka sínum ætti hinn trúaði að reyna að hjálpa honum andlega, í ljósi þess sem Páll sagði. (1. Pétursbréf 3:1-4) Ef hann tæki trú myndi það sannarlega gera mikið til að gera heimilið að stað hvíldar og friðar. En hvað getur kristni makinn gert ef sá sem ekki er í trúnni er svo andvígur trúnni að hann kýs sambúðarslit? Ef hinn trúaði reyndi að þvinga maka sinn til að vera gæti hann eða hún gert hinum kristna lífið svo leitt að honum yrði alls enginn friður búinn. Kristni aðilinn getur því, í þágu friðarins, leyft hinum að fara. (Matteus 5:9) Einungis þegar maki, sem ekki er í trúnni, fer er hægt að segja: „Guð hefur kallað yður að lifa í friði.“ Þessi orð er ekki hægt að nota til að réttlæta sambúðarslit tveggja, kristinna einstaklinga á óbiblíulegum grundvelli eða vegna smámuna.
5. Hvaða spurningar verðskulda nú athygli okkar?
5 Engin tvö dæmi um sambúðarslit eða skilnað eru alveg eins, og engin „forskrift“ nær yfir öll tilvik. En hvaða vandi mætir kristnum einstaklingi eftir sambúðarslit eða skilnað? Hvernig er hægt að bregðast við honum? Og hvernig geta aðrir hjálpað?
Tilfinningalegar eða kynferðislegar þarfir
6. Hvað er hægt að segja um sambúðarslit og skilnað ef vandamál því samfara eru höfð í huga?
6 Sambúðarslit eða skilnaður, sem Biblían heimilar, leysir einhver vandamál, en í meginatriðum kallar það á önnur í staðinn. Til dæmis sagði kristin, fráskilin kona: „Ég get ekki annað en þakkað Jehóva fyrir að nú hef ég frið.“ En hún viðurkenndi: „Það er ekki auðvelt að ala börn upp ein. Og stundum verð ég mjög einmana og niðurdregin. Jafnvel kynferðislega er þetta ekki auðvelt. Það er nauðsynlegt að venjast algjörlega breyttum lifnaðarháttum.“a
7. Hvers vegna ætti kristinn einstaklingur að hugsa vandlega um afleiðingar sambúðarslita eða skilnaðar?
7 Eigi kristinn maður um tvennt að velja ætti hann því að hugleiða vandlega hugsanlegar afleiðingar sambúðarslita eða skilnaðar. Það væri rétt að huga að tilfinningalegum þörfum, svo sem löngun konu eftir félagsskap karlmanns. (Samanber 1. Mósebók 3:16.) Fráskilin kona getur bundið miklar vonir við að giftast aftur. Sumir þrá að losna úr erfiðu hjónabandi, en eru þeir reiðubúnir að horfast í augu við það að ef til vill sé ekkert tækifæri til að giftast aftur?
8. (a) Hverju ættu fráskildir, kristnir einstaklingar að gefa gaum í bænum sínum, í ljósi 1. Korintubréfs 7:11? (b) Úr hvaða þörfum ætti ekki að gera lítið þegar sambúðarslit eða skilnaður eru hugleidd?
8 Páll skrifaði: „En hafi hún skilið við hann, þá sé hún áfram ógift eða sættist við manninn.“ (1. Korintubréf 7:11) Leggi kona sig fram getur hún hugsanlega ‚sæst við‘ eiginmann sinn. Hafi kristin hjón slitið samvistum ættu þau að hugleiða sættir mjög alvarlega og leggja málið fyrir Jehóva í bæn. Og þau ættu heldur ekki að líta fram hjá þeirri staðreynd að kynhvötin getur sett þau í vissa hættu. Hvaða augum er líklegt að Guð líti þau ef þau leiðast út í siðleysi vegna þess að þau ná ekki sáttum? Reynsla skírðrar konu sýnir okkur þessa hættu ljóslega. Hún tók að hitta mann af heiminum eftir að hún skildi við eiginmann sinn, varð fljótlega barnshafandi og var gerð brottræk. Að vísu var hún síðar tekin inn í söfnuðinn aftur, en reynsla hennar undirstrikar nauðsynina á aðgæslu og að reiða sig á Jehóva og biðja til hans reglulega til að komast hjá að „syndga á móti Guði.“ (1. Mósebók 39:7-12) Af þessu má og ljóst vera að menn ættu ekki að gera lítið úr tilfinningalegum og kynferðislegum þörfum þegar sambúðarslit eða skilnaður eru hugleidd.
Það er hægt að draga úr einmanaleika
9. Hvernig getum við hjálpað fráskildum einstaklingum að berjast gegn einmanaleika?
9 Séu sambúðarslit eða skilnaður óumflýjanleg verður að horfast í augu við hinar neikvæðu afleiðingar þess. Einmanaleiki er til dæmis alvarlegt vandamál hjá sumum kristnum einstaklingum sem hafa slitið samvistum eða fengið lögskilnað. Hvernig geta aðrir brugðist við því? Öldungarnir og aðrir í söfnuðinum geta sýnt andlegri velferð þeirra áhuga og leitast við að hughreysta þá. (Berið saman við 1. Þessaloníkubréf 5:14.) Við gætum af og til boðið þessum einstaklingum og börnum þeirra heim til okkar í mat og til að ræða uppörvandi málefni við fjölskyldu okkar. Það er ekki nauðsynlegt að slá upp veislu, því að „betri en einn skammtur kálmetis með kærleika en alinn uxi með hatri.“ (Orðskviðirnir 15:17) Um kvöldið væri hægt að skiptast á ánægjulegum frásögum úr starfinu eða þá að hópurinn gæti undirbúið sig saman fyrir safnaðarsamkomu.
10, 11. (a) Á hvaða aðra vegu er unnt að hjálpa fráskildu, kristnu fólki? (b) Hví er ástæða til aðgætni?
10 Það getur sömuleiðis hjálpað fráskildum einstaklingi og börnum hans að afbera einmanaleikann að bjóða þeim að sameinast fjölskyldu þinni í starfinu á akrinum. Auðvitað koma aðrir aldrei í stað foreldris sem farið er, en fráskilin, kristin kona sagði: „Erfiðleikarnir, sem eru samfara því að ala börnin mín upp án þess að hafa karlmann á heimilinu, hafa stórlega minnkað vegna þess hvernig öldungar og þjónar hafa reynt að bæta þeim upp föðurmissinn á ýmsa hagnýta vegu.“
11 Þó er ástæða til að fara með gát. Systir nokkur sagði svo frá: „Þar sem sonur minn er föðurlaus sýndi bróðir einn honum vinsemd og áhuga. . . . Ég veitti því athygli hve góður og örlátur hann var við son minn og þá tóku að bærast með mér rangar kenndir. Það var mjög sambærilegt við það hvernig Davíð ól með sér ranga löngun í það sem tilheyrði honum ekki.“ (2. Samúelsbók 11:1-4) Þótt ekki kæmi til kynferðisbrots, skammaðist konan sín fyrir hugsanir sínar og daðurslega framkomu, leitaði fyrirgefningar Jehóva og sleit sambandi við bróðurinn. Þetta sýnir okkur vel nauðsyn þess að hafna röngum löngunum og ‚forðast allt illt‘! — 1. Þessaloníkubréf 5:22; Galatabréfið 5:24.
12. Með hvers konar jákvæðum verkum geta þessir einstaklingar dregið úr einmanaleika sínum?
12 Hægt er að draga úr einmanaleika með því að gera eitthvað fyrir aðra. „Sértu upptekinn við að ná til annarra og hjálpa þeim, komast sjálfsvorkunn og einmanaleiki ekki að,“ sagði fráskilin systir. „Að ná til annarra“ getur til dæmis falist í því að fráskilinn einstaklingur bjóði fjölskyldum í heimsókn til að spjalla saman á andlega uppbyggjandi hátt. Sé þetta sjaldan mögulegt af fjárhagslegum eða öðrum ástæðum væri hægt að heimsækja og uppörva sjúklinga og ýmsa aðra. Þú gætir líka aðstoðað aldraða við innkaup og ýmislegt annað. Gefðu þannig af sjálfum þér og þú munt sannfærast um að „sælla er að gefa en þiggja.“ — Postulasagan 20:35.
13. Hvað annað getur hjálpað fólki til að sigrast á einmanaleika?
13 Önnur leið til að sigrast á einmanaleika er sú að taka frumkvæðið í að sameinast trúsystkinum í prédikun Guðsríkis. „Af og til þrái ég eiginmann í einmanaleika mínum,“ sagði systir ein, „en með auknu starfi á akrinum og hinu nýfengna frelsi til að umgangast bræður og systur, gerist það mjög sjaldan og stendur stutt.“ Ef við berum reglulega vitni hús úr húsi getur það leitt til endurheimsókna og biblíunáms með áhugasömu fólki og sumt af því verður ef til vill vígðir þjónar Jehóva. Tilefni okkar með því að fara út í þjónustuna á akrinum er auðvitað ekki það að sigrast á einmanaleika, en sá sigur getur verið ein afleiðing þess ánægjulega og blessunarríka starfs. — Orðskviðirnir 10:22.
14. Hvaða athafnir ættu að hafa góð áhrif á fráskilda, kristna einstaklinga?
14 Allir þjónar Jehóva geta haft andlegan ávinning af því að taka þátt í þjónustunni á akrinum og á samkomum og því að ‚leita fyrst ríkis hans og réttlætis.‘ (Matteus 6:33) Úr því þessar heilnæmu athafnir hafa svo góð áhrif á þjóna Jehóva almennt, geta þær einnig uppbyggt fráskilda, kristna einstaklinga. Að vísu munu slíkar athafnir ekki leysa öll vandamál þeirra en þær ættu að hjálpa þeim að hafa jákvæð viðhorf.
Hið mikilvæga hlutverk bænarinnar
15. Hvaða hlutverki geta bænir gegnt í lífi þeirra sem þurfa aftur að venjast einlífi?
15 Kristin systir, sem þurfti aftur að venjast því að vera ein síns liðs, fékk hjálp með því að „vera upptekin í starfinu . . . og heimsækja sjúka, aldraða og óvirka.“ En hún bætti við: „Þegar ég verð einmana, fer ég í heimsókn til annarra og bið um styrk, því ég veit að Satan er mjög athafnasamur.“ Já, bænir frá hjartanu eru nauðsynlegar ef við ætlum að halda ráðvendni okkar gagnvart Guði. Bænir fráskilinna, kristinna einstaklinga geta falið í sér bón um anda Jehóva og ávexti hans svo sem sjálfstjórn, þannig að halda megi kynhvötinni í skefjum. (Lúkas 11:13; Galatabréfið 5:22, 23; Kólossubréfið 3:5, 6) Og þar sem það getur verið örðugt fyrir fráskildar konur að taka ákvarðanir í málum sem eiginmaðurinn sá um áður, geta þær líka þurft að biðja til Guðs um hjálp til að taka viturlegar ákvarðanir og til að takast á við ýmsa erfiðleika. — Jakobsbréfið 1:2-8.
16. Hvað má segja um sektarkennd í sambandi við sambúðarslit eða skilnað?
16 Sektarkennd getur reynt mjög á kristinn einstakling. Einn játaði: „Sektarkenndin, sem maður finnur fyrir meðan staðið er í skilnaði, getur verið óbærileg, jafnvel þótt maður beri ekki sjálfur sökina.“ Auðvitað er sektarkenndin auðskilin ef sambúðarslitin eða skilnaðurinn urðu vegna þess að viðkomandi neitaði að uppfylla hjónabandsskyldur sínar án nokkurrar réttmætrar ástæðu. (1. Korintubréf 7:3-5) En hafi sambúðarslit eða skilnaður orðið vegna biblíulegra ástæðna og eftir að málið var lagt fyrir Jehóva í bæn, væri við hæfi að biðja hann um hjálp til að yfirstíga sektarkennd sem á ekki rétt á sér. Því má bæta við að öldungar safnaðarins ættu að gæta þess að gefa ráð sín út af Biblíunni og ekki gefa þeim slíkar áherslur að kristni einstaklingurinn fyllist sektarkennd yfir því að hafa valið eða leyft sambúðarslit eða skilnað byggðan á biblíulegum forsendum.
Vernduð af ‚friði Guðs‘
17. Hvað getur hjálpað öllum kristnum mönnum að vera hamingjusamir og standa stöðugir í þessum ólgusama heimi?
17 Fráskildir, kristnir einstaklingar búa oft við einstæð vandamál. En þó munu „bræður yðar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum“ að einhverju marki. (1. Pétursbréf 5:6-11) Sem dæmi að taka hafa ofsóknir áhrif á alla sem þjóna Jehóva og flestir kristnir menn standa frammi fyrir fjárhagslegum eða heilsufarslegum erfiðleikum, vonbrigðum, freistingum og þar fram eftir götunum. Kristinn einstaklingur, sem hefur slitið sambúð eða skilið, verður því eins og allir aðrir vottar Jehóva að fullnægja andlegum þörfum sínum með því að nema Biblíuna, sækja samkomur reglulega, taka fullan þátt í boðunarstarfinu, láta hina heilögu þjónustu móta allt líf sitt og vera stöðugur í bæninni til að halda sér fast við Jehóva. (Matteus 5:3) Sé kristnum manni áfátt á einhverju þessara sviða stefnir það andlegri heilsu hans í hættu, en það að ‚leita fyrst ríkis Guðs‘ veitir sérhverjum einlægum votti Jehóva á hinn bóginn allmikla hamingju og stöðugleika í þessum ólgusama heimi.
18. Hvaða spurningar og skref verðskulda alvarlega íhugun af hálfu kristinna hjóna sem hafa slitið sambúð?
18 Andleg staðfesta okkar veltur á því hvort við fylgjum orði Guðs. Hefur þú tekið til þín ráð Páls í 1. Korintubréfi 7:10-16 ef þú ert kristinn einstaklingur sem hefur skilið við maka sem einnig er í sannleikanum? Hafi sambúðarslitin varað um skeið er sérstök ástæða til að ræða einlæglega við Jehóva í bæn um sættir. Þú gætir sömuleiðis spurt sjálfan þig: Hvers ætlast Jehóva til af mér sem giftum einstaklingi? Ber ekki kristnum hjónum að lifa í samræmi við þær kröfur sem Guð gerir til þeirra sem gengið hafa í hjónaband? Getur verið að við uppskerum ekki blessun Jehóva vegna þess að við höfum ekki staðið við hjónavígsluheit okkar? Hugleiddu hve margt gott það gæti leitt af sér að þið rædduð málin í auðmýkt, bæðust fyrir einlæglega og ynnuð kappsamlega að því að lifa í samræmi við orð Guðs. Það yrði dásamlegt ef þið tvö gætuð leyst hjónabandsvanda ykkar og notið lífsins saman á nýjan leik á heimili hvíldar og friðar!
19. Hvaða dýrmætis geta allir þjónar Jehóva notið samkvæmt Filippíbréfinu 4:6, 7?
19 Allir trúir þjónar Jehóva þarfnast og geta notið hins dýrmæta ‚friðar Guðs sem er æðri öllum skilningi.‘ Við getum sem kristnir menn öðlast þennan dýrmæta frið ef við förum eftir orðum Páls: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ — Filippíbréfið 4:6, 7.
20. (a) Hvað er „friður Guðs“? (b) Hvað ættum við að gera, óháð hjúskaparstöðu okkar?
20 Þessi friður er ró og stilling frá Guði sem jafnvel er hægt að varðveita undir mjög erfiðum kringumstæðum. Hann stafar af nánu sambandi við Jehóva og vitneskjunni um að við séum að gera það sem er honum þóknanlegt. Þeir sem hafa öðlast ‚frið Guðs‘ láta anda hans ráða gerðum sínum og láta ekki kvíða og áhyggjur yfirbuga sig. Hvers vegna? Vegna þess að þeir vita að ekkert hendir þá sem Guð hefur ekki leyft. (Efesusbréfið 4:30; samanber Postulasöguna 11:26.) Við skulum því hlúa að ‚friði Guðs‘ hvort heldur við erum einhleyp eða gift, höfum slitið sambúð eða erum fráskilin. Og megum við bera sama traust til Jehóva og Davíð sem sagði: „Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, [Jehóva], lætur mig búa óhultan í náðum.“ — Sálmur 4:9.
[Neðanmáls]
a Sjá Varðturninn þann 1. mars 1982, bls. 3-15 þar sem rætt er um málefni einstæðra foreldra.
Hvernig svarar þú?
◻ Við hvaða kringumstæður er hægt að segja ‚Guð hefur kallað þig að lifa í friði‘?
◻ Hvernig er unnt að draga úr einmanaleika?
◻ Hvaða hlutverki ættu bænir að gegna í lífi kristins einstaklings sem hefur slitið sambúð eða skilið?
◻ Hvernig getur þú skilgreint ‚frið Guðs‘ sem gætir hjartna þjóna Jehóva, hvort sem þeir eru einhleypir eða giftir, hafa slitið sambúð eða skilið?
[Mynd á blaðsíðu 31]
Bænir geta fært öllum kristnum mönnum ‚frið Guðs‘ sem mun varðveita hjörtu þeirra og hugsanir.