Hvernig stuðlum við að farsælu hjónabandi?
„Hver og einn skal elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig en konan beri lotningu fyrir manni sínum.“ – EF. 5:33.
1. Hverju mega hjón búast við þó að hjónabandið byrji yfirleitt vel? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
ORÐ fá ekki lýst gleðinni þegar yndisfögur brúðurin birtist myndarlegum brúðguma sínum á brúðkaupsdaginn. Í tilhugalífinu hefur ást þeirra vaxið svo mikið að þau eru tilbúin að heita hvort öðru tryggð í hjónabandi. Að sjálfsögðu þurfa þau bæði að laga sig að breyttum aðstæðum þegar þau hefja saman nýtt líf. En orð Guðs hefur að geyma viturleg ráð fyrir alla sem kjósa að ganga í hjónaband. Ástríkur höfundur hjónabandsins vill að öll hjón séu farsæl og hamingjusöm. (Orðskv. 18:22) Engu að síður segir Biblían skýrt að ófullkomnir menn, sem ganga í hjónaband, eigi eftir að mæta erfiðleikum. (1. Kor. 7:28) Hvernig er hægt að halda þeim í lágmarki? Og hvað gerir kristið hjónaband farsælt?
2. Hvers konar kærleika ættu hjón að sýna?
2 Biblían leggur áherslu á mikilvægi kærleika. Væntumþykja (á grísku fílíʹa) er nauðsynleg í hjónabandinu. Rómantísk ást (eros) veitir ánægju og kærleikur til fjölskyldunnar (storgeʹ) er ómissandi þegar börn koma til sögunnar. En það er kærleikur byggður á meginreglum (agaʹpe) sem tryggir að hjónabandið verði farsælt. Páll postuli skrifaði um þennan kærleika: „Hver og einn skal elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig en konan beri lotningu fyrir manni sínum.“ – Ef. 5:33.
HVAÐA HLUTVERKUM EIGA HJÓN AÐ GEGNA?
3. Hve heitt ættu hjón að elska hvort annað?
3 Páll skrifaði: „Karlmenn, elskið konur ykkar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“ (Ef. 5:25) Þjónar Guðs eiga að elska hver annan eins og Jesús elskaði lærisveina sína. (Lestu Jóhannes 13:34, 35; 15:12, 13.) Kristin hjón eiga því að elska hvort annað svo heitt að þau séu reiðubúin að deyja hvort fyrir annað ef til þess kemur. Þegar alvarleg ágreiningsmál koma upp er það samt kannski það síðasta sem þau langar til að gera. En kærleikurinn (agaʹpe) „breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“ (1. Kor. 13:7, 8) Kristin hjón þurfa að muna að þau hétu að elska hvort annað og vera hvort öðru trú. Það hjálpar þeim að vinna saman að því að leysa hvaða vandamál, sem upp kunna að koma, í samræmi við háleitar meginreglur Jehóva.
4, 5. (a) Hvaða skyldu hefur eiginmaðurinn sem höfuð fjölskyldunnar? (b) Hvernig ætti eiginkonan að líta á forystu? (c) Hvaða breytingar þurftu hjón nokkur að gera?
4 Páll lýsti skyldum beggja hjóna þegar hann skrifaði: „Sýnið ... hvert öðru auðsveipni [undirgefni, Biblían 1981]: konurnar eiginmönnum sínum eins og Drottni. Því að maðurinn er höfuð konunnar eins og Kristur er höfuð ... kirkjunnar.“ (Ef. 5:21-23) Þetta fyrirkomulag gerir konuna ekki óæðri eiginmanni sínum. Það hjálpar henni öllu heldur að gegna því hlutverki sem Guð fól eiginkonum þegar hann sagði: „Eigi er það gott að maðurinn [Adam] sé einn. Ég vil gera honum meðhjálp við hans hæfi.“ (1. Mós. 2:18) Kristur er mjög kærleiksríkur sem höfuð safnaðarins, og sem höfuð fjölskyldunnar ætti kristinn eiginmaður að líkja eftir honum. Þegar hann gerir það finnur eiginkona hans fyrir öryggi og hefur ánægju af að virða hann, styðja og vera honum undirgefin.
5 Cathy[1] viðurkennir að hjónabandið kalli á breytingar og segir: „Sem einhleyp systir var ég sjálfstæð og sá um mig sjálf. Hjónabandið útheimti breytingar þar sem ég þurfti að læra að reiða mig á manninn minn. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt en með því að gera hlutina eins og Jehóva vill höfum við orðið mun nánari.“ Fred, eiginmaður hennar, segir: „Ég hef aldrei átt auðvelt með að taka ákvarðanir. Og það varð ekki auðveldara eftir að ég gifti mig og þurfti að taka mið af okkur báðum. En með því að biðja Jehóva um handleiðslu og hlusta vel á sjónarmið konunnar minnar verður það auðveldara með hverjum degi. Mér finnst við vinna vel saman!“
6. Hvernig ,bindur kærleikurinn allt saman og fullkomnar allt‘ þegar upp koma erfiðleikar í hjónabandinu?
6 Í traustu hjónabandi taka hjónin tillit til ófullkomleika hvort annars. Þau ,umbera hvort annað og fyrirgefa hvort öðru‘. Bæði eiga þau vissulega eftir að gera mistök. En þegar það gerist hafa þau tækifæri til að læra af mistökunum, fyrirgefa og láta skýrt í ljós kærleikann „sem bindur allt saman og fullkomnar allt“. (Kól. 3:13, 14) Kærleikurinn er þar að auki „langlyndur, hann er góðviljaður ... ekki langrækinn“. (1. Kor. 13:4, 5) Misskilning ætti að leiðrétta eins fljótt og hægt er. Kristin hjón ættu því að reyna að leysa öll ágreiningsmál sín á milli áður en dagurinn er úti. (Ef. 4:26, 27) Það krefst auðmýktar og hugrekkis að segja í einlægni: „Fyrirgefðu að ég skyldi særa þig.“ En það er stórt skref í þá átt að leysa vandamál og styrkja hjónabandið.
ÞAÐ ER NAUÐSYNLEGT AÐ VERA ÁSTÚÐLEG HVORT VIÐ ANNAÐ
7, 8. (a) Hvaða ráð gefur Biblían varðandi kynlíf hjóna? (b) Hvers vegna þurfa hjón að sýna hvort öðru ástúð?
7 Biblían gefur góð ráð sem geta hjálpað hjónum að hafa rétt viðhorf til skyldu sinnar hvort við annað. (Lestu 1. Korintubréf 7:3-5.) Það er nauðsynlegt að þau taki tillit til tilfinninga og þarfa hvort annars. Konunni gæti þótt erfitt að njóta kynlífs ef það er ekki komið fram við hana af ástúð. Eiginmönnum er sagt að sýna konum sínum nærgætni. (1. Pét. 3:7) Aldrei ætti að þvinga makann til kynlífs eða heimta það, heldur ætti aðdragandinn að vera eðlilegur. Löngunin í kynlíf kviknar oft fyrr hjá manninum en konunni en bæði ættu að vera tilfinningalega tilbúin.
8 Í Biblíunni er ekki að finna sérstakar reglur um forleik í eðlilegu kynlífi hjóna eða hvar mörkin liggja, en hins vegar talar hún um ástaratlot. (Ljóðalj. 1:2; 2:6) Kristin hjón ættu að koma ástúðlega fram hvort við annað.
9. Hvers vegna eru kynferðislegar langanir til einhvers annars en makans óviðeigandi?
9 Ef við berum djúpan kærleika til Guðs og til náungans kemur það í veg fyrir að við leyfum nokkrum eða nokkru að stofna hjónabandinu í hættu. Reynt hefur á sum hjónabönd og þau jafnvel sundrast vegna þess að annar makinn er háður klámi. Við þurfum að standa gegn öllum tilhneigingum til að horfa á klám og öðrum óviðeigandi kynferðislegum löngunum. Við ættum meira að segja að forðast allt sem gæti gefið í skyn að við séum að daðra við einhvern annan en maka okkar, enda væri það ekki kærleiksríkt. Munum að Guð þekkir allar hugsanir okkar og verk. Þá styrkjum við löngun okkar til að þóknast honum og lifa siðferðilega hreinu lífi. – Lestu Matteus 5:27, 28; Hebreabréfið 4:13.
ÞEGAR REYNIR Á HJÓNABANDIÐ
10, 11. (a) Hversu algengir eru hjónaskilnaðir? (b) Hvað segir Biblían um aðskilnað hjóna? (c) Hvað hjálpar hjónum að vera ekki fljót að slíta samvistum?
10 Þegar ekki er leyst úr alvarlegum vandamálum gæti annar makinn eða báðir íhugað að slíta samvistum eða sækja um skilnað. Í sumum löndum endar meira en helmingur hjónabanda með skilnaði. Það er ekki eins algengt innan safnaðarins en það er samt áhyggjuefni að hjónabandserfiðleikar meðal þjóna Guðs hafa færst í aukana.
11 Biblían gefur þessar leiðbeiningar: „Konan [skal] ekki skilja við mann sinn, en hafi hún skilið við hann, þá sé hún áfram ógift eða sættist við manninn. Maðurinn á ekki heldur að skilja við konuna.“ (1. Kor. 7:10, 11) Við ættum ekki að líta það léttvægum augum að slíta samvistum. Þó að það gæti virst vera lausnin þegar alvarleg vandamál koma upp skapar það oft fleiri vandamál. Eftir að Jesús hafði endurtekið orð Guðs um að maðurinn eigi að yfirgefa föður sinn og móður og búa með konu sinni sagði hann: „Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ (Matt. 19:3-6; 1. Mós. 2:24) Það þýðir að hvorki maðurinn né konan ætti að ,skilja sundur það sem Guð hefur tengt saman‘. Jehóva lítur á hjónabandið sem ævilangt samband. (1. Kor. 7:39) Við þurfum öll að standa Guði reikningsskap. Þegar hjón hafa það í huga hvetur það þau til að gera sitt ýtrasta til að leysa fljótt úr vandamálum svo að þau verði ekki alvarlegri.
12. Hvað gæti leitt til þess að gift fólk íhugi að slíta samvistum við maka sinn?
12 Óraunhæfar væntingar geta valdið hjónabandserfiðleikum. Þegar draumurinn um hamingjuríkt hjónaband verður ekki að veruleika gætu sumir orðið fyrir vonbrigðum, fundist þeir sviknir og jafnvel orðið bitrir. Ólíkt uppeldi og það að skilja ekki tilfinningar hvort annars getur skapað vandamál. Ósætti getur líka orðið vegna fjármála, tengdaforeldra og barnauppeldis. En það er hrósvert að langflest kristin hjón ná að vinna úr öllum slíkum vandamálum vegna þess að þau leita leiðsagnar Guðs.
13. Nefndu gildar ástæður til að slíta samvistum.
13 Stundum gæti verið réttlætanlegt að slíta samvistum. Sumir hafa kosið að gera það vegna sérstakra aðstæðna eins og þeirra að makinn beitir þá alvarlegu ofbeldi, gerir þeim ókleift að tilbiðja Guð eða vanrækir vísvitandi að framfleyta fjölskyldunni. Kristin hjón, sem glíma við alvarleg vandamál, ættu að leita hjálpar hjá öldungunum. Þessir reyndu bræður geta hjálpað hjónum að nýta sér leiðbeiningarnar í orði Guðs. Þegar hjón vinna úr erfiðleikum ættu þau líka að biðja Jehóva um heilagan anda og hjálp við að fylgja meginreglum Biblíunnar og sýna ávöxt andans. – Gal. 5:22, 23.[2]
14. Hvað segir Biblían þjónum Jehóva sem eiga maka utan safnaðarins?
14 Sumir í söfnuðinum eiga maka sem er ekki þjónn Jehóva enn sem komið er. Biblían gefur góð rök fyrir því að fólk í þeirri stöðu eigi ekki að slíta samvistum. (Lestu 1. Korintubréf 7:12-14, neðanmáls.) Makinn, sem er ekki í trúnni, er „helgaður“, hvort sem hann gerir sér grein fyrir því eða ekki, vegna þess að hann er giftur þjóni Guðs. Ef hjónin eignast börn eru börnin álitin „heilög“ og njóta því verndar Guðs. Páll sagði: „Hvað veist þú, kona, hvort þú munir geta frelsað mann þinn? Eða hvað veist þú, maður, hvort þú munir geta frelsað konu þína?“ (1. Kor. 7:16) Í næstum öllum söfnuðum Votta Jehóva eru hjón þar sem annað þeirra hefur átt stóran þátt í að ,frelsa‘ maka sinn.
15, 16. (a) Hvað ráðleggur Biblían kristnum konum sem eiga maka utan safnaðarins? (b) Í hvaða stöðu er þjónn Guðs ef maki hans, sem er ekki í trúnni, vill slíta samvistum?
15 Pétur postuli ráðleggur kristnum eiginkonum að vera eiginmönnum sínum undirgefnar „til þess að jafnvel þeir sem vilja ekki hlýða orðinu geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna þegar þeir sjá [þeirra] grandvöru og skírlífu hegðun.“ Eiginkona er líklegri til að hjálpa eiginmanni sínum að taka við sannleika Biblíunnar ef hún sýnir af sér ,hógværan og hljóðlátan anda‘ en ef hún talar í tíma og ótíma um trú sína. Slík hegðun er líka ,dýrmæt í augum Guðs‘. – 1. Pét. 3:1-4.
16 Hvað ef maki, sem er ekki í trúnni, ákveður að slíta samvistum? Í Biblíunni segir: „Ef hinn vantrúaði vill skilja, þá fái hann skilnað. Hvorki bróðir né systir eru þrælbundin í slíkum efnum. Guð hefur kallað ykkur að lifa í friði.“ (1. Kor. 7:15) Þetta þýðir ekki að makinn, sem þjónar Guði, sé frjáls samkvæmt lögum Guðs til að giftast aftur, en honum ber engin skylda til að reyna að neyða maka sinn til að vera um kyrrt. Aðskilnaður gæti veitt frið að einhverju leyti. Og sá sem þjónar Guði getur vonað að maki sinn snúi aftur og verði þá fús til að vinna í því að varðveita hjónabandið. Þegar fram líða stundir má jafnvel vera að makinn gerist þjónn Jehóva.
HVAÐ ER MIKILVÆGAST Í HJÓNABANDINU?
17. Hvað ættu kristin hjón að láta ganga fyrir?
17 Þar sem langt er liðið á ,síðustu daga‘ upplifum við „örðugar tíðir“. (2. Tím. 3:1-5) Við þurfum því að eiga sterkt samband við Jehóva til að geta unnið gegn neikvæðum áhrifum heimsins. „Tíminn er orðinn naumur,“ skrifaði Páll. „Hér eftir skulu jafnvel þau sem gift eru vera eins og þau væru það ekki ... og þau sem njóta heimsins gæða eins og þau færðu sér þau ekki í nyt.“ (1. Kor. 7:29-31) Páll var ekki að segja hjónum að vanrækja skyldur sínar gagnvart makanum. Í ljósi þess hve tíminn er orðinn naumur þurfum við samt að láta andlegu málin ganga fyrir. – Matt. 6:33.
18. Hvernig geta þjónar Guðs átt hamingjuríkt og farsælt hjónaband?
18 Þó að við lifum á mjög erfiðum tímum og hjónabönd fari út um þúfur allt í kringum okkur getum við gert hjónabandið hamingjuríkt og farsælt. Þegar kristin hjón halda sér fast við Jehóva og söfnuð hans, fylgja ráðum Biblíunnar og þiggja leiðsögn heilags anda geta þau vissulega varðveitt „það sem Guð hefur tengt saman“. – Mark. 10:9.
^ [1] (5. grein.) Nöfnum er breytt.
^ [2] (13. grein.) Sjá viðaukann „Afstaða Biblíunnar til skilnaðar“ í bókinni „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“.