Einhleypur en alger til þjónustu Guðs
„Sá sem gefur sveindóm sinn í hjónaband gerir vel, en sá gerir þó betur sem ekki gefur hann í hjónaband.“ — 1. KORINTUBRÉF 7:38, NW.
1. Á hvaða vegu er hjónaband blessun?
JEHÓVA ætlaðist aldrei til að fyrsti maðurinn yrði einhleypur. Adam átti að verða ættfaðir mannkynsins og því skapaði Guð handa honum maka. (1. Mósebók 2:20-24; Postulasagan 17:26) Og hjónabandið reyndist mikil blessun. Það bauð upp á tækifæri til að byggja upp náin vináttubönd og veita hvoru öðru gagnkvæma aðstoð. Það var heiðvirð umgjörð þess að eignast börn. Það stuðlaði í verulegum mæli að mannlegri hamingju. Jafnvel fátækir og undirokaðir geta notið þess sem ekki er falt fyrir fé — hamingju í hjónabandi! — Ljóðaljóðin 8:6, 7.
2, 3. (a) Hvaða afstöðu tekur trúarlegt uppsláttarrit til ókvænis og hjónabands? (b) Hvernig ber að líta á hjónaband samkvæmt Ritningunni?
2 Sumir líta hjónaband þó öðrum augum. Í einu trúarlegu riti segir: „Ókvæni presta er lögbundið í vesturkirkjunni; þeir sem eru kvæntir mega ekki taka prestvígslu og prestvígðir mega ekki kvænast. Lögin kveða á um fullkomið hreinlífi bundið eiði. Tilefni laganna er að prestvígðir menn geti þjónað Guði með meiri stefnufestu (1. Kor. 7:32) og að með skírlífi varðveiti þeir sveindóm, sem er heilagari og æðri en staða þess sem kvæntur er. Í Nýja testamentinu er ókvæni æðri köllun en hjónaband.“ — The Catholic Encyclopedia tekin saman af Robert C. Broderick.
3 Fær það staðist að þvingað ókvæni sé ‚heilagara og æðra en hjónaband‘? Ekki að sögn „Nýja testamentisins“ sem segir svo: „Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda. Þessu valda hræsnisfullir lygarar, sem eru brennimerktir á samvisku sinni. Það eru þeir, sem meina hjúskap, og bjóða mönnum að halda sér frá þeirri fæðu, er Guð hefur skapað til þess að við henni sé tekið með þakkargjörð af trúuðum mönnum, er þekkja sannleikann.“ (1. Tímóteusarbréf 4:1-3) Hjónaband er í raun ein hinna góðu gjafa Guðs. — Rutarbók 1:9.
4. Hvaða spurningar vakna í tengslum við 1. Korintubréf 7:38?
4 Enda þótt hjónabandið sé Guðs gjöf skrifaði Páll postuli: „Sá sem gefur sveindóm sinn í hjónaband gerir vel, en sá gerir þó betur sem ekki gefur hann í hjónaband.“ (1. Korintubréf 7:38, NW) Hvers vegna gaf Páll í skyn að það væri betra að vera ekki í hjónabandi? Ætti einhleypingi að finnast sér vera einhvers vant? Hvaða kostir fylgja því að vera einhleypur?
Þungamiðjan í lífi kristins manns
5. Hver ætti að vera þungamiðjan í lífi kristins manns?
5 Þjónustan við Jehóva ætti að vera þungamiðjan í lífi kristins manns, hvort heldur hann er einhleypur eða í hjónabandi. Heilög þjónusta veitt Guði af glöðu hjarta ber vitni um að við séum honum, drottinvaldi alheimsins, nátengd. Hlýðni, sem á sér rætur í hjartanu, og kostgæf þátttaka í hinni kristnu þjónustu eru leiðir til að láta þessi hollustutengsl í ljós. (1. Jóhannesarbréf 5:2, 3; 1. Korintubréf 9:16) Bæði giftir sem ógiftir geta tekið þátt í boðunarstarfinu og annarri þjónustu í hlýðni við boð Guðs.
6. Til hvers gefur kostgæf þjónusta bæði einhleypum og giftum tækifæri?
6 Nú er verið að prédika Guðsríki af miklum krafti Jehóva til lofs, og óháð því hvort við erum gift eða ógift veitir kostgæf þjónusta okkur tækifæri til að nota að minnsta kosti hluta af kröftum okkar og hæfileikum í þjónustu Guðs. Við verðum þó að móta ytri aðstæður og stjórna þeim þannig að þjónustan hætti aldrei að vera þungamiðjan í lífi okkar. Við verðum að ‚leita fyrst Guðsríkis.‘ (Matteus 6:33) Það er mikil gleði fólgin í því að einbeita sér að hagsmunum Guðs, ekki aðeins sínum eigin.
Alger til þjónustunnar
7. Hvaða dæmi sýnir að ógiftur kristinn maður getur verið heill og alger til þjónustunnar?
7 Kristnir menn geta verið heilir og algerir til þjónustunnar hvort heldur þeir eru einhleypir eða í hjónabandi. Sá sem einhleypur er þarf því alls ekki að gera neina breytingu þar á. (Samanber 1. Korintubréf 7:24, 27.) Orð Guðs tekur ekki þá afstöðu, sem er algeng meðal sumra þjóða og ættflokka, að karlmaður nái ekki fullum þroska fyrr en hann sé kvæntur. Jesús Kristur dó ókvæntur og andleg brúður á himnum er eina eiginkonan sem Jehóva hefur ætlað honum að eiga. (Opinberunarbókin 21:2, 9) En þótt sonur Guðs væri ókvæntur meðan hann var hér á jörðinni var hann fremsta fordæmi þess að vera heill og alger til þjónustunnar á akrinum.
8. Hvaða möguleika opnar einhleypi kristnum manni eins og Páll bendir á?
8 Það að vera ógiftur veitir mönnum í reynd meira frjálsræði og tíma til þjónustunnar. Þegar Páll mælti með einhleypi sagði hann: „Ég vil, að þér séuð áhyggjulausir. Hinn ókvænti ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, hversu hann megi Drottni þóknast. . . . Hin ógifta kona og mærin ber fyrir brjósti það, sem Drottins er.“ (1. Korintubréf 7:32-34) Þetta gildir bæði um einhleypa kristna menn og þá sem hafa verið í hjónabandi en eru nú aftur einir. — Matteus 19:9; Rómverjabréfið 7:2, 3.
9. Hvernig sést af fordæmi Jesú að einhleypi gerir kristinn mann ekki einhvers vant í hinni kristnu þjónustu?
9 Sá sem náð hefur líkamlegum, hugarfarslegum og andlegum þroska er heill og heilsteyptur til þjónustu Guðs. Jesús Kristur þurfti ekki eiginkonu til að geta fullnað hlutverk sitt sem fremsti þjónn Guðs og koma til leiðar endurlausn mannsins. (Matteus 20:28) Þar eð Jesús var ókvæntur naut hann frjálsræðis til að beina öllum kröftum sínum að þjónustunni. Einhleypi hans stakk mjög í stúf við gyðinglega venju þar sem lögð var þung áhersla á hjónaband og barneignir. Eigi að síður var Jesús fyllilega hæfur til að ljúka því verki sem Guð fól honum. (Lúkas 3:23; Jóhannes 17:3, 4) Þeim sem er einhleypur þarf því engan veginn að vera í einhverju áfátt með tilliti til hinnar kristnu þjónustu.
Gift fólk er ‚tvískipt‘
10. Hvað sagði Páll um gifta í samanburði við ógifta, vegna þess að hjón eru „eitt hold“?
10 Ólíkt einhleypum þurfa giftir kristnir menn að taka í þjónustu sinni tillit til maka síns sem þeir eru „eitt hold“ með. (Matteus 19:5, 6) Vegna þeirra tengsla og hinnar ýmsu ábyrgðar, sem þeim er samfara, sagði Páll að hjónabandið gerði menn ‚tvískipta.‘ Hann skrifaði: „Ég vil, að þér séuð áhyggjulausir. Hinn ókvænti ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, hversu hann megi Drottni þóknast. En hinn kvænti ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hann megi þóknast konunni, og er tvískiptur. Hin ógifta kona og mærin ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, til þess að hún megi vera heilög, bæði að líkama og anda. En hin gifta kona ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hún megi þóknast manninum. Þetta segi ég sjálfum yður til gagns, ekki til þess að varpa snöru yfir yður, heldur til þess að efla velsæmi og óbifanlega fastheldni við Drottin.“ — 1. Korintubréf 7:32-35.
11. Hvað var Páll að sýna fram á í 1. Korintubréfi 7:32-35?
11 Páll mælti greinilega með einhleypi til að sem fæst dreifði athyglinni. Vera kann að hann hafi sjálfur verið ekkill en kosið að kvænast ekki á ný. (1. Korintubréf 9:5) Að minnsta kosti vissi hann að ýmsar áhyggjur eru samfara hjónabandi í þessum heimi. Hann benti á að einhleypir kristnir menn nytu meira frelsis en giftir geta notið og að hinir síðarnefndu þurfi af nauðsyn að deila kröftum sínum og athygli milli þess sem holdlegt er og andlegt. Hinn kvænti og hin gifta fer ekki með fullt yfirvald yfir líkama sínum því að makinn er eitt hold með honum og á því kröfu til líkama hans. (1. Korintubréf 7:3-5) Í ljósi þessa sagði Páll réttilega að einhleypir kristnir menn gætu verið heilagir, það er að segja í ríkari mæli fráteknir handa þjónustu Jehóva Guðs, bæði í líkama og anda.
12. Hvað getur einhleypur kristinn maður gert þar eð hann á engan maka?
12 Andi eða viðhorf einhleyps kristins manns fær hann til að þjóna Guðsríki án þess að margt annað dreifi athygli hans. Hann á engan maka sem á að hluta til kröfu til líkama hans, og hann getur því fylgt anda eða tilhneigingu huga síns og hjarta. Hann getur einbeitt bæði líkama sínum og huga að þjónustunni við Jehóva Guð. Ókvæntir karlar og ógiftar konur eru því í bestri aðstöðu til að þóknast aðeins Drottni því að þeir hafa fullt frjálsræði til. Við getum ekki með réttu hreyft mótmælum við því sem Páll sagði, því að Jehóva sá um að það stæði í Ritningunni okkur til leiðsagnar.
Er giftum manni áfátt?
13, 14. Hvaða röng afstaða gæti valdið því að fólk vanrækti hjúskapartengslin og yrði áfátt gagnvart hinni kristnu þjónustu?
13 Með það í huga að geta gert meira í þjónustu Guðs gæti einstaka giftur kristinn maður kannski ranglega gefið hjónabandi sínu fremur lítinn gaum. Eiginkona gæti til dæmis farið að haga sér óháð manni sínum í mikilvægum málum eða maðurinn gert sig upptekinn af safnaðarstarfinu. Þau gætu hugsað sem svo að þau gerðu býsna vel í þjónustu Jehóva við þessar aðstæður. Í rauninni gæti þessi stefna hins vegar skaðað hjónabandið og það væri Jehóva ekki þóknanlegt.
14 Ef giftur kristinn maður vanrækir hjúskaparböndin gæti það valdið því að honum yrði áfátt gagnvart hinni kristnu þjónustu. Hjónaband gerir kristinn mann ekki hæfari til þjónustunnar og minnkar að einhverju marki þá athygli sem hann ella gæti veitt þjónustunni. (Samanber Lúkas 14:16, 17, 20.) Ef gift fólk vill þóknast Guði og vera heilt og algert til þjónustu hans verður það engu að síður að uppfylla skyldur hjónabandsins.
Ógiftur vegna Guðsríkis
15. (a) Hvaða eiginleika ber ógiftum kristnum mönnum að rækta? (b) Hvaða meginatriði í sambandi við hjónaband og einhleypi er Páll að leggja áherslu á í 1. Korintubréfi 7:36, 37?
15 Í sama mæli og giftir þjónar Jehóva ættu að lifa í samræmi við hjúskaparskyldur sínar ættu einhleypir kristnir menn að rækta með sér nægjusemi í þeirri stöðu sem þeir eru. Eins og Páll komst að orði: „Hinum ókvæntu og ekkjunum segi ég, að þeim sé best að halda áfram að vera eins og ég er,“ það er að segja ógiftir. „Ertu við konu bundinn? Leitast þá ekki við að verða laus. Ert laus orðinn við konu? Leita þá ekki kvonfangs.“ (1. Korintubréf 7:8, 27) Einhleypt fólk getur með hjálp Jehóva ræktað með sér nægjusemi og hugarró í þeirri stöðu sem það er. Menn ættu aldrei að telja það sjálfsagðan hlut að ganga í hjónaband, aðeins af því að flestir gera það eða vinum eða ættingjum finnst að þeir ættu að gera það. Ef menn kjósa að ganga í hjónaband ætti það að vera af biblíulegri nauðsyn, því að Páll sagði: „Finnist einhverjum að hann ætti að giftast vegna þess að hann á í erfiðleikum með að hemja hvatir sínar þá er meinalaust að hann giftist, slíkt væri engin synd. Haldi maður það hins vegar út að vera ógiftur og ákveði að láta slíkt ógert, þá hefur hann tekið skynsamlega ákvörðun.“ — 1. Korintubréf 7:36, 37, Lifandi orð.
16. (a) Hvað merkir það að vera af blómaskeiði æskunnar? (b) Hvað á kristinn maður, sem velur einhleypi, að vera fullviss um?
16 Páll benti þannig á að ekki væri rangt af kristnum manni að giftast ef hann á einn eða annan hátt hagaði sér á óviðeigandi veg gagnvart sveindómi eða meydómi sínum, þótt hann hefði að sjálfsögðu ekki grófa synd í huga. Eins og hann sagði áður er „betra . . . að ganga í hjónaband en að brenna af girnd.“ (1. Korintubréf 7:9) Þegar Páll talaði hér um hjónaband hafði hann að sjálfsögðu í huga fólk sem var komið af blómaskeiði æskunnar, komið yfir það skeið þegar kynhvötin varð í fyrsta sinn verulega sterk. Ef þroskaður einstaklingur hafði „taumhald á sjálfum sér“ og hafði einsett sér í hjarta sínu að vera einhleypur, þá gerði hann vel. Farsælt einhleypi er ekki það að þurfa linnulaust að bæla niður þráláta og næstum óviðráðanlega löngun í hjónaband og fjölskyldulíf. Kristinn maður, sem velur einhleypi, ætti að vera fullkomlega sannfærður í hjarta sér um að einhleypi sé rétt í hans tilviki, og hann ætti að vera fús til að leggja á sig hvaðeina sem hann þarf til að viðhalda því ástandi í öllum hreinleika. Kristinn maður, sem gerir það, hefur færra sem dreifir athyglinni og meira frelsi til að þjóna Drottni.
17. Hvers vegna velja sumir einhleypi að sögn Jesú?
17 Ógiftir kristnir menn eiga auðveldara með að halda sér einhleypum ef þeir rækta með sér hugarfar Jesú Krists. Enda þótt hann væri einhleypur í samfélagi, þar sem áhersla var lögð á hjónaband, varði hann tíma sínum og hæfileikum til þjónustu sem aldrei yrði endurtekin. Líkt og Jesús getur einhleypur kristinn maður glaðst yfir því að geta notið þessarar gjafar Guðs til þeirra sem geta höndlað hana. Jesús sagði um þetta: „Þetta er ekki á allra færi, heldur þeirra einna, sem það er gefið. Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, sumir eru vanhæfir gjörðir af manna völdum, sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli, sem höndlað fær.“ — Matteus 19:11, 12.
18. Hvað kemur í veg fyrir að þeir sem eru „vanhæfir“ vegna Guðsríkis gangi í hjónaband?
18 Jesús sagði ekki að einhleypur einstaklingur væri meira virði en giftur. Hann hvatti menn ekki til einhleypis til þess eins að geta lifað áhyggjulausu lífi, og hann mælti vissulega ekki með því til þess að ógiftur einstaklingur gæti átt náin kynni við fjölmarga af hinu kyninu. Nei, þeir sem gera sig „vanhæfa“ vegna Guðsríkis eru siðferðilega hreinlífir einstaklingar sem hafa tök á að höndla slíkt. Hvað heldur þeim frá því að ganga í hjónaband? Það er ekki einhver líkamlegur ágalli heldur sterk löngun til að leggja sig eins fullkomlega fram í þjónustu Guðs og þeir geta. Þessi þjónusta er sérstaklega mikilvæg núna vegna þess að Guðsríki var stofnsett á himnum árið 1914 og prédika þarf „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ um alla jörðina til vitnisburðar áður en endirinn, sem nálgast óðfluga, kemur yfir þetta dæmda heimskerfi. — Matteus 24:14.
Styddu einhleypa bræður og systur
19. Hvað ættu allir kristnir menn að gera fyrir þá sem halda sér einhleypum vegna Guðsríkis?
19 Allir kristnir menn ættu að hrósa þeim sem halda sér einhleypum vegna Guðsríkis og uppörva þá. Þegar allt kemur til alls kjósa menn að vera einhleypir til „að þjóna Drottni sem best og eins fátt og unnt er dreifi athyglinni frá honum.“ (1. Korintubréf 7:35, Lifandi orð) Viturlegt er af foreldrum að kenna börnum sínum það sem Biblían segir um einhleypi og kosti þess í tengslum við þjónustuna við Jehóva. Við getum öll hvatt einhleypa trúbræður okkar og megum aldrei veikja ásetning þeirra að vera einhleypir vegna Guðsríkis.
20. Hvað ættir þú að gera ef þú ert einhleypur kristinn maður?
20 Einhleypir kristnir menn geta glaðst yfir því að þjóna Guði af öllum kröftum og athygli. Núna á síðustu dögum fagna þeir því að eiga hlut í hinni áríðandi prédikun Guðsríkis. Ef þú ert einhleypur skaltu því gleðjast yfir að þú skulir vera alger sem kristinn þjónn Jehóva. Þú skalt ‚vinna að sáluhjálp þinni með ugg og ótta, skína eins og ljós í heiminum og halda fast við orð lífsins.‘ (Filippíbréfið 2:12-16) Einbeittu þér að hagsmunum Guðsríkis, sameinaður alþjóðabræðrafélagi votta Jehóva, og fullnaðu kristna þjónustu þína. Einhleypur kristinn maður, sem gerir það, hefur valið umbunarríka lífsstefnu eins og við munum sjá í næstu grein.
Hverju svarar þú?
◻ Hver ætti að vera þungamiðjan í lífi kristins manns?
◻ Hvers vegna geta ógiftir þjónar Jehóva verið heilir og algerir til hinnar kristnu þjónustu?
◻ Á hvaða veg gæti giftum einstaklingi verið áfátt gagnvart þjónustunni?
◻ Hvað merkir það að vera „vanhæfur“ vegna Guðsríkis?
◻ Hvers vegna ættum við að uppörva einhleypa kristna menn?
[Mynd á blaðsíðu 7]
Páll postuli var heill og alger til þjónustu Guðs þótt hann væri ókvæntur.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Jesús er fremsta fordæmið um mann sem gaf sig allan til þjónustunnar við Guð.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Hrósar þú þeim sem kjósa að vera einhleypir sakir Guðsríkis?