Hlýðið þeim sem með forystuna fara
„Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær.“ — HEBREABRÉFIÐ 13:17.
1. Hvaða gagn höfum við af starfi kristinna umsjónarmanna?
JEHÓVA hefur séð fyrir umsjónarmönnum í skipulagi sínu nú á tíma ‚endalokanna.‘ (Daníel 12:4) Þeir taka forystuna í að gæta sauðumlíkra manna og umsjón þeirra er hressandi. (Jesaja 32:1, 2) Kærleiksrík umsjón öldunga, sem meðhöndla hjörð Guðs mildilega, er enn fremur vernd gegn Satan og þessu óguðlega heimskerfi. — Postulasagan 20:28-30; 1. Pétursbréf 5:8; 1. Jóhannesarbréf 5:19.
2. Hvernig litu sumir á Pál postula en hvaða viðhorf til öldunganna er viðeigandi?
2 En hvernig lítur þú á öldungana? Segir þú í hjarta þínu: ‚Ég ætla aldrei að leita til nokkurs öldungs í þessum söfnuði ef ég á við vandamál að stríða, af því að ég treysti þeim ekki‘? Getur verið að þú miklir fyrir þér ófullkomleika þeirra ef þú hugsar þannig? Í Korintu til forna sögðu sumir um Pál postula: „Bréfin . . . eru þung og ströng, en sjálfur er hann lítill fyrir mann að sjá og enginn tekur mark á ræðu hans.“ Eigi að síður fól Guð Páli þjónustu og notaði hann sem ‚postula heiðingja.‘ (2. Korintubréf 10:10; Rómverjabréfið 11:13; 1. Tímóteusarbréf 1:12) Við vonum að þér sé frekar innanbrjósts eins og systurinni sem sagði: „Við höfum besta öldungaráð í heimi. Öldungarnir voru reiðubúnir að hjálpa þegar þörf var á.“
Hvers vegna að hlýða þeim?
3. Hvernig ættum við að líta á hina kristnu undirhirða ef við viljum að Drottinn sé með þeim anda sem við sýnum?
3 Þar eð hirðirinn mikli, Jehóva Guð, hefur séð fyrir hinum kristnu undirhirðum, hvernig heldur þú að hann vilji að við lítum á þá? Guð ætlast auðvitað til að við fylgjum þeim biblíulegu leiðbeiningum sem við fáum frá kærleiksríkum umsjónarmönnum undir yfirumsjón hins stjórnandi ráðs votta Jehóva. Þá mun ‚Drottinn vera með þeim anda sem við sýnum,‘ við munum njóta friðar og uppbyggjast andlega. — 2. Tímóteusarbréf 4:22; samanber Postulasöguna 9:31; 15:23-32.
4. Hvernig getum við farið eftir Hebreabréfinu 13:7?
4 Páll hvatti: „Verið minnugir þeirra sem fara með forystuna meðal ykkar, sem hafa talað orð Guðs til ykkar. Virðið fyrir ykkur hvernig þeim farnast og líkið eftir trú þeirra.“ (Hebreabréfið 13:7, NW) Meðal frumkristinna manna voru það fyrst og fremst postularnir sem fóru með forystuna. Nú á dögum getum við virt fyrir okkur þá sem mynda hið stjórnandi ráð votta Jehóva, aðra smurða umsjónarmenn og menn af hinum ‚mikla múgi‘ sem taka forystuna okkar á meðal. (Opinberunarbókin 7:9) Þótt við séum ekki hvött til að líkja eftir rödd þeirra, stellingum eða öðrum ytri einkennum ættum við að geta tamið okkur farsæla breytni með því að líkja eftir trú þeirra.
5. Hverjir bera nú á dögum aðalábyrgðina á því að annast söfnuð Guðs og hvað verðskulda þeir?
5 Hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘ hefur verið falin aðalábyrgðin á að fullnægja andlegum þörfum okkar nú á dögum. Hið stjórnandi ráð, sem er fulltrúi hans, tekur forystuna og samræmir prédikun Guðsríkis um víða veröld. (Matteus 24:14, 45-47) Líta má sérstaklega á þessa andasmurðu öldunga sem andlega stjórnendur því að þýða má Hebreabréfið 13:7 þannig: „Munið eftir þeim sem stjórna ykkur.“ (Kingdom Interlinear) Þeir tólf öldungar, sem mynda hið stjórnandi ráð, hafa ‚kappnóg að gera í starfi Drottins‘ með yfir 60.000 söfnuði og ríflega 3.700.000 boðbera Guðsríkis í heiminum. (1. Korintubréf 15:58) Í ljósi þess verkefnis, sem Guð hefur falið þeim, verðskulda þeir fulla samvinnu okkar á sama hátt og frumkristnir menn unnu með hinu stjórnandi ráði fyrstu aldarinnar. — Postulasagan 15:1, 2.
6. Nefndu sumt af því sem öldungarnir gera til gagns þjónum Jehóva.
6 Umsjónarmennirnir eru útnefndir af heilögum anda til að annast andlegar þarfir safnaðarins. (Postulasagan 20:28) Þeir sjá til þess að boðskapur Guðsríkis sé prédikaður á starfssvæði safnaðarins. Þeir veita einnig andlegar leiðbeiningar á kærleiksríkan hátt. Þeir hvetja, hughreysta og bera vitni fyrir andlegum bræðrum sínum og systrum í því skyni að hjálpa þeim að framganga eins og verðugt er fyrir Guði. (1. Þessaloníkubréf 2:7, 8, 11, 12) Þegar einhver stígur víxlspor af misgáningi leitast þeir við að leiðrétta hann „með hógværð.“ — Galatabréfið 6:1.
7. Hvaða ráð gaf Páll í Hebreabréfinu 13:17?
7 Hjörtu okkar hvetja okkur til að vera samstarfsfús við kærleiksríka umsjónarmenn. Það er vel við hæfi eins og Páll skrifaði: „Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.“ (Hebreabréfið 13:17) Hvernig ber okkur að skilja þessi ráð?
8, 9. (a) Hvers vegna ber okkur, í ljósi Hebreabréfsins 13:17, að vera hlýðin þeim sem með forystuna fara? (b) Hvaða góðar afleiðingar getur hlýðni og undirgefni okkar haft?
8 Páll hvetur okkur til að hlýða þeim sem eru andlegir leiðtogar okkar eða forystumenn. Við eigum að vera þeim „eftirlátir“ og lúta fúslega handleiðslu þeirra. Hvers vegna? Vegna þess að ‚þeir vaka yfir sálum okkar‘ eða lífi sem er helgað Guði. Og hvernig „vaka“ þeir? Germynd grísku sagnarinnar agrúpneo, sem stendur hér í framsöguhætti nútíðar, merkir bókstaflega að öldungarnir „haldi sér frá því að sofa.“ Það minnir á fjárhirði sem gætir sauða einsamall og neitar sér um svefn að næturlagi til að gæta hjarðar sinnar. Öldungar eiga stundum svefnlausar nætur er þeir biðja fyrir hjörð Guðs eða veita trúbræðrum sínum andlega hjálp. Við ættum að meta mikils trúfasta þjónustu þeirra. Við viljum sannarlega ekki vera eins og þeir ‚óguðlegu menn‘ á dögum Júdasar sem ‚mátu að engu drottinvald og lastmæltu tignum,‘ hinum smurðu kristnu öldungum sem höfðu hlotið tign eða heiður af Guði. — Júdas 3, 4, 8.
9 Við myndum misþóknast Jehóva ef við værum ekki hlýðin og undirgefin kristnum umsjónarmönnum. Það myndi vera þeim til þyngsla og okkur til andlegs skaða. Ef við værum ósamvinnuþýð gætu öldungarnir þurft að rækja skyldur sínar andvarpandi og niðurdregnir sem myndi ræna okkur gleðinni af hinni kristnu þjónustu. En hlýðni okkar og undirgefni stuðlar að guðrækni og styrkir trú okkar. ‚Drottinn er með þeim anda sem við sýnum‘ og í slíku andrúmslofti samstarfs, friðar og einingar blómstrar gleðin. — 2. Tímóteusarbréf 4:22; Sálmur 133:1.
10. Hvers vegna verðskulda þeir virðingu sem veita góða forstöðu, samkvæmt 1. Tímóteusarbréfi 5:17?
10 Við erum ekki hlýðin öldungum safnaðarins einungis til að þóknast mönnum. Það væri óbiblíulegt því að kristnum þrælum fyrstu aldar var sagt að hlýða húsbændum sínum „ekki með augnaþjónustu, eins og þeir er mönnum vilja þóknast, heldur í einlægni hjartans og í ótta [Jehóva].“ (Kólossubréfið 3:22; Efesusbréfið 6:5, 6) Öldungar, ‚sem veita góða forstöðu og erfiða í orðinu og kennslu,‘ verðskulda að þeim sé sýnd virðing fyrst og fremst vegna þess að kenning þeirra byggist á orði Guðs. Eins og Páll skrifaði: „Öldungar þeir, sem veita góða forstöðu, séu hafðir í tvöföldum metum, allra helst þeir sem erfiða í orðinu og í kennslu. Því að ritningin segir: ‚Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir‘ og ‚verður er verkamaðurinn launa sinna.‘“ — 1. Tímóteusarbréf 5:17, 18.
11. Hvernig getur öldungi hlotnast það að vera hafður ‚í tvöföldum metum‘ en hvað ber honum að forðast?
11 Þessi orð Páls gefa til kynna að það sé vel viðeigandi að veita efnislega hjálp þeim sem gæta andlegra hagsmuna annarra. Það merkir þó ekki að öldungarnir eigi að fá kaup og þeir munu undir engum kringumstæðum krefjast þess að þeir séu „hafðir í tvöföldum metum.“ Slíkt getur komið af sjálfu sér frá meðlimum safnaðarins en öldungur má aldrei nota stöðu sína til að afla sér valda eða efnislegra eigna. Hann ætti ekki að leita eigin upphefðar eða hafa aðallega samneyti við hina efnameiri til að hagnast á því og þar með vanrækja aðra. (Orðskviðirnir 25:27; 29:23; Júdasarbréfið 16) Umsjónarmaður þarf að gæta hjarðar Guðs ‚af fúsu geði, ekki sakir vansæmilegs ávinnings heldur af áhuga.‘ — 1. Pétursbréf 5:2.
12. Hvað hjálpar okkur að hlýða þeim sem með forystuna fara okkar á meðal?
12 Það er okkur hjálp til að hlýða og virða þá sem með forystuna fara ef við höfum alltaf hugfast að það er Guð sjálfur sem hefur séð fyrir öldungunum. (Efesusbréfið 4:7-13) Með því að þeir eru skipaðir af anda Guðs og skipulag Guðs gegnir þýðingarmiklu hlutverki í lífi votta Jehóva viljum við auðvitað sýna þakklæti okkar og virðingu fyrir guðræðislegri skipan. Við getum einnig hjálpað hinum nýju að þroska með sér þetta sama viðhorf ef við gefum gott fordæmi með hlýðni okkar og undirgefni við þá sem með forystuna fara okkar á meðal.
Hvers vegna ber okkur að meta þjónustu þeirra mikils?
13. (a) Hvernig er afstaða heimsins til hlýðni við forystu annarra ólík því sem gerist í skipulagi Guðs? (b) Hvaða gott tilefni höfum við til að treysta þeim sem fara með forystuna okkar á meðal? (c) Hvað ættum við að gera í stað þess að mikla fyrir okkur ófullkomleika kostgæfra öldunga?
13 Í heiminum er sterk tilhneiging til að hafna forystu. Fyrirlesari sagði: „Vaxandi menntun hefur aukið hinn sameiginlega hæfileikasjóð að því marki að þegnarnir eru orðnir svo gagnrýnir að það er nánast ógerningur að stjórna þeim.“ En slíkur sjálfstæðisandi ríkir ekki í skipulagi Guðs og við höfum gott tilefni til að treysta þeim mönnum sem fara með forystuna okkar á meðal. Til dæmis eru þeir einir skipaðir öldungar sem fullnægja kröfum Ritningarinnar. (1. Tímóteusarbréf 3:1-7) Þeir hafa tamið sér að vera góðviljaðir, kærleiksríkir og hjálpsamir, en um leið fastheldnir á réttláta staðla Jehóva. Öldungarnir halda sér við sannleika Ritningarinnar, eru ‚fastheldnir við hið áreiðanlega orð til að þeir geti áminnt með hinni heilnæmu kenningu.‘ (Títusarbréfið 1:5-9) Að sjálfsögðu ættum við ekki að mikla fyrir okkur mannlegan ófullkomleika þeirra því að öll erum við ófullkomin. (1. Konungabók 8:46; Rómverjabréfið 5:12) Í stað þess að ergja okkur yfir því að þeir skuli hafa sín takmörk og gera lítið úr leiðbeiningum þeirra skulum við meta að verðleikum biblíulegar leiðbeiningar þeirra sem séu þær frá Guði.
14. Hvernig ætti öldungur að líta á þá þjónustu sem honum er falin, í ljósi 1. Tímóteusarbréfs 1:12?
14 Páll var þakklátur maður og sagði: „Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu.“ (1. Tímóteusarbréf 1:12) Sú þjónusta fól í sér prédikunarstarfið og þjónustu við bræður í trúnni. Þótt umsjónarmaður sé skipaður af heilögum anda til að vera hirðir hjarðarinnar ætti hann ekki að láta sér finnast hann vera öðrum meiri, því að hann er sjálfur hluti af hjörð Guðs og einn sauðanna. (1. Pétursbréf 5:4) Þess í stað ætti hann að vera þakklátur höfði safnaðarins, Jesú Kristi, fyrir að hann skuli hafa talist þess verður að þjóna hjörðinni og að Guð skuli hafa gert hann hæfan til þess hlutverks með því að veita honum vissa þekkingu, visku og skilning. (2. Korintubréf 3:5) Þar eð öldungur hefur ástæðu til að vera þakklátur fyrir þau sérréttindi, sem Guð hefur gefið honum, ættu aðrir meðlimir safnaðarins að meta þjónustu hans að verðleikum.
15. Hver er kjarninn í leiðbeiningum Páls í 1. Þessaloníkubréfi 5:12, 13?
15 Vottar Jehóva eru þakklátir fyrir það skipulag sem Guð hefur byggt upp á síðustu dögum og þetta þakklæti birtist í því að við sýnum öldungunum virðingu. Við ættum að hafa ánægju af því að vera fullkomlega samstarfsfúsir gagnvart þeim ráðstöfunum sem þeir gera í okkar þágu. Páll sagði: „Vér biðjum yður, bræður, að sýna þeim viðurkenningu, sem erfiða á meðal yðar og veita yður forstöðu í Drottni og áminna yður. Auðsýnið þeim sérstaka virðingu og kærleika fyrir verk þeirra.“ (1. Þessaloníkubréf 5:12, 13) Það að fylgja þessu ráði hefur í för með sér gleði og blessun Jehóva.
Vertu fljótur til að hlýða
16, 17. Hvað kunna öldungar að ráðleggja í sambandi við hjónaband og hvaða afleiðingar hefur það ef því er fylgt?
16 Páll hvatti Tímóteus til að ‚áminna og vanda um með allri röggsemi.‘ (Títusarbréfið 2:15) Fulltrúar Guðs nú á dögum beina einnig athygli okkar að meginreglum og lögum Biblíunnar. Það er fullt tilefni til að taka við endurteknum áminningum um að hlýða heilræðum og leiðbeiningum skipulags Jehóva og hinna útnefndu öldunga.
17 Við skulum taka dæmi. Setjum sem svo að öldungarnir hvetji kristinn mann til að fylgja því ráði Biblíunnar að giftast ‚aðeins í Drottni.‘ (1. Korintubréf 7:39; 5. Mósebók 7:3, 4) Þeir benda kannski á að það geti haft alvarleg vandamál í för með sér að giftast þeim sem ekki er skírður, á sama hátt og Salómon konungi urðu á alvarleg mistök með því að taka sér erlendar eiginkonur sem hneigðu hjarta hans frá Jehóva til falsguða. (1. Konungabók 11:1-6) Öldungarnir benda kannski líka á að Esra bauð karlmönnum meðal Gyðinga að senda frá sé heiðnar konur sínar og að Nehemía sagði að þeir sem gengju að eiga vantrúaða ‚fremdu mikla óhæfu og sýndu Guði ótrúmennsku.‘ (Nehemía 13:23-27; Esra 10:10-14; sjá Varðturninn (enska útgáfu) þann 15. mars 1982, bls. 31; 15. nóvember 1986, bls. 26-30.) Það að fylgja biblíulegum leiðbeiningum kærleiksríkra öldunga hefur blessun í för með sér og þá vissu að við þóknumst Jehóva.
18. Hver ættu að vera viðbrögð okkar samkvæmt orðum Páls í 1. Korintubréfi 5:9-13 ef einhver í fjölskyldu okkar er gerður rækur?
18 Það er líka rétt að virða ákvarðanir öldunga í dómsmálum. Páll sagði kristnum mönnum í Korintu að þeir skyldu „ekki umgangast nokkurn þann, er nefnir sig bróður, en er saurlífismaður eða ásælinn, skurðgoðadýrkari eða lastmáll, drykkjumaður eða ræningi. Þér skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni.“ Þeir áttu að ‚útrýma hinum vonda úr sínum hópi.‘ (1. Korintubréf 5:9-13) En hver yrðu viðbrögð þín ef einhver af ættingjum þínum yrði gerður rækur? Þótt nauðsynlegt gæti verið að hafa einhver takmörkuð tengsl vegna fjölskyldumála myndi allt andlegt samneyti við hinn burtræka verða að vera úr sögunni. (Sjá Varðturninn þann 1. október 1988, bls. 28-32.) Vissulega ætti hollusta við Guð og skipulag hans að koma okkur til að virða dómsákvarðanir umsjónarmannanna.
19. Hvað ættum við að gera ef öldungarnir sýna okkur að við erum á rangri braut í andlegum efnum?
19 Það er ekki auðvelt að halda sér á mjóan veginum sem liggur til lífsins. Til að gera það verðum við að fylgja þeim leiðbeiningum sem eru gefnar í orði Guðs og leiðbeiningum þeirra sem treyst er fyrir hjarðgæslunni í skipulagi hans. (Matteus 7:13, 14) Ef við værum á ferð í bifreið frá einni borg til annarrar og beygðum á röngum stað yrðum við að leiðrétta stefnu okkar. Að öðrum kosti kæmumst við aldrei á áfangastað. Ef öldungarnir benda okkur á að við séum á rangri braut í andlegum málum, ef til vill með því að draga okkur saman með einhverjum sem ekki er í trúnni, ættum við að vera skjótir til að framfylgja biblíulegum ráðum þeirra. Með því sýndum við að við ‚treystum á Jehóva‘ í raun og veru. — Orðskviðirnir 3:5, 6.
Virðing í smáum atriðum
20. Hvaða spurningar geta hjálpað okkur að sýna leiðbeiningum öldunganna virðingu jafnvel í smáum atriðum?
20 Við þurfum að sýna leiðbeiningum öldunganna virðingu jafnvel í smáum atriðum. Við gætum því spurt okkur: ‚Er ég samstarfsfús ef öldungarnir biðja okkur að heimsækja sjúka eða þjálfa nýja í þjónustunni á akrinum? Tek ég fúslega að mér atriði á samkomum og undirbý mig vel? Fer ég eftir leiðbeiningum öldunga varðandi klæðnað, það að taka ekki frá sæti á mótum að óþörfu og svo framvegis? Er ég samvinnuþýður þegar þeir biðja okkur að aðstoða við hreinsun Ríkissalarins, skila starfsskýrslum tímanlega eða mæta stundvíslega á samkomur?‘
21. Hvaða orð Jesú koma upp í hugann þegar við sýnum öldungunum virðingu?
21 Umsjónarmenn safnaðarins meta samstarf okkar mikils og það hefur mikla blessun í för með sér. Virðing okkar og samvinna jafnvel í smáum atriðum leiðir hugann að orðum Jesú: „Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu.“ (Lúkas 16:10) Við viljum auðvitað vera talin trú.
Haltu áfram að lúta kærleiksríkri umsjón
22. Nefndu nokkur gagnleg áhrif kærleiksríkrar umsjónar hins trúa og hyggna þjóns og safnaðaröldunganna.
22 Það gagn sem fylgir kærleiksríkri umsjón hins trúa þjóns og safnaðaröldunganna sannar að Jehóva blessar jarðneskt skipulag sitt ríkulega. Fagmannleg handleiðsla öldunganna sameinar hæfileika þeirra og skapar einingu okkar á meðal. Hún hefur líka í för með sér að unnið er markvisst og með góðum árangri að hagsmunum Guðsríkis. Jákvæð viðbrögð okkar við umsjón þeirra sem með forystuna fara hefur meðal annars í för með sér að Guð blessar prédikun okkar og kennslu. (Matteus 28:19, 20) Samstarf okkar við öldungana er einnig undirbúningur fyrir eilíft líf í nýrri heimsskipan.
23. Hvað ættum við að finna hvöt hjá okkur til að gera í ljósi 1. Jóhannesarbréfs 5:3?
23 Þar eð við elskum Jehóva er það ekki óþægileg skylda að hlýða honum. Jóhannes postuli skrifaði: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Drottinhollir kristnir menn hlýða fúslega boðorðum Jehóva og finna sig knúna til að vera samstarfsfúsir við þá sem hann hefur treyst fyrir umsjón safnaðarins. Við megum sannarlega vera þakklát fyrir að tilheyra skipulagi Guðs og hafa fengið slíkar ‚gjafir í mönnum.‘ (Efesusbréfið 4:8) Við skulum því, í fullu trausti þess að Guð leiði þjóna sína, alltaf vera hlýðin þeim sem hafa þau sérréttindi að fara með forystuna meðal votta Jehóva.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvers vegna ber okkur að vera hlýðin þeim sem fara með forystuna okkar á meðal?
◻ Hvaða afstöðu ættum við að hafa til þeirrar þjónustu sem kostgæfir öldungar inna af hendi?
◻ Hvers vegna ættum við að vera skjót til að fylgja leiðbeiningum öldunganna?
◻ Hvaða jákvæðar afleiðingar hefur það ef við metum kærleiksríka umsjón að verðleikum?
[Innskot á blaðsíðu 31]
Ert þú samvinnuþýður við öldungana með því að taka að þér verkefni á samkomum, með því að aðstoða við ræstingu Ríkissalarins, með því að skila starfsskýrslu tímanlega og á aðra vegu?
[Mynd á blaðsíðu 30]
Páll hafði yndi af því að prédika fagnaðarerindið og þjóna trúbræðrum sínum. Ert þú, sem ert öldungur, þakklátur fyrir þau þjónustusérréttindi sem Guð hefur gefið þér?