Öryggi um allan heim undir stjórn ‚Friðarhöfðingjans‘
„Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti héðan í frá og að eilífu. Vandlæting [Jehóva] allsherjar mun þessu til vegar koma.“ — JESAJA 9:7.
1, 2. (a) Til hvers var fæðing Guðsríkis tilefni og hvenær átti hún sér stað? (b) Hvert er hlutverk Sameinuðu þjóðanna, samkvæmt stofnskrá þeirra, en hvaða hlutverk hefur Jesús Kristur samkvæmt ríkissáttmálanum? (c) Hvernig vitum við að Jehóva heldur örugglega ríkissáttmálann?
Á SAMA hátt og fæðing Jesú, hins fullkomna mannsbarns, var einstakt gleðiefni, svo myndi og fæðing ríkis hans vera tilefni ólýsanlegs fagnaðar. (Sálmur 96:10-12) Atburðir heimssögunnar á okkar öld sýna að hið löngu fyrirheitna ríki var fengið Jesú í hendur árið 1914. Tilvera Sameinuðu þjóðanna gengur ekki í berhögg við það. Enginn af forystumönnum hinna 159 aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna er af húsi Davíðs. Eigi að síður er stofnskrá þessa heimssamsæris á þá lund að þeim sé falið það verkefni að koma á friði og öryggi í heiminum.
2 En sáttmáli Jehóva um ríkið hefur aldrei verið felldur úr gildi. Orðin „á hásæti Davíðs“ í Jesaja 9:7 staðfesta sáttmálann sem Guð gerði við Davíð um eilíft ríki. Jehóva hefur auk þess svarið að staðið verði við þann sáttmála til fulls. Að Jehóva ætli sér að halda sáttmála sinn kemur fram í Sálmi 89:4, 5, 36, 37: „Ég hefi gjört sáttmála við minn útvalda, unnið Davíð þjóni mínum svolátandi eið: ‚Ég vil staðfesta ætt þína að eilífu, reisa hásæti þitt frá kyni til kyns.‘ Ég hefi einu sinni svarið við heilagleik minn og mun aldrei svíkja Davíð: Niðjar hans skulu haldast við um aldur og hásæti hans sem sólin fyrir mér.“ Þessi sáttmáli, svo og titillinn „Friðarhöfðingi,“ úthlutar Jesú Kristi því verkefni að koma á öryggi um allan heim.
3. Hvers vegna varð ekki friður á himni og jörð þegar ‚Friðarhöfðinginn‘ tók völd?
3 Sá tími, er Jehóva Guð myndi leggja stjórn ríkisins á herðar krónprinsi sínum, yrði þó ekki ár friðar, hvorki á himnum uppi né hér á jörðu niðri. Samkvæmt 12. kafla Opinberunarbókarinnar myndi fylgja fæðingu ríkis hans styrjöld á himni. Satan djöfullinn og árar hans börðust gegn hinni nýstofnuðu stjórn, og hinn nýkrýndi konungur með heilögum englum sínum barðist gegn þessum illu andaverum. Úrslitin urðu þau að Satan og djöflum hans var þeytt niður af himnum, niður í nágrenni jarðarinnar. Þar af leiðandi var kallað hárri röddu: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ (Opinberunarbókin 12:12) Síðan djöfullinn var lítillækkaður hefur jörðin okkar því miður orðið vettvangur ofbeldis og styrjalda sem á sér enga hliðstæðu. Svo sannarlega þarfnast mannkynið stjórnar ‚Friðarhöfðingjans‘ því að hún mun hafa í för með sér öryggi um allan heim!
4. Hvers vegna má ekki rugla saman titlunum „Guðhetja“ og alvaldur Guð?
4 Samkvæmt Jesaja 9:6 myndu aðrir titlar, auk „Friðarhöfðingi“ bætast við. Einn þeirra var „Guðhetja“ eða „Máttugur guð.“ Hann skyldi ekki kallaður alvaldur Guð, eins og væri hann hluti guðaþrenningar og jafningi hinna tveggja. Jafnvel á upprisudegi sínum gerði hann kunnugt að hann væri enn þá lægra settur en Jehóva. Hann birtist Maríu Magdalenu og sendi hana til að færa áhyggjufullum lærisveinum sínum þær fréttir að hann myndi snúa aftur til föður þeirra og föður síns og þeirra Guðs og síns Guðs. (Jóhannes 20:17) Allt fram á þennan dag heldur hann áfram að leiða alla sköpunina í tilbeiðslu á „Guði guðanna,“ Jehóva. (Daníel 11:36) Jesús Kristur á sér Guð, og sá Guð er ekki Jesús sjálfur heldur Jehóva. Hversu stórfenglega þjónar ekki ‚Friðarhöfðinginn‘ sem miðlari varanlegs friðar og öryggis um allan alheim!
5. Hvers vegna er Jesús Kristur hæfastur til að leiða allar skynsemigæddar sköpunarverur í tilbeiðslu á hinum sanna og lifandi Guði, Jehóva?
5 Um alla eilífð mun hinn dýrlega gerði sonur Guðs halda áfram að leiða allar skynsemigæddar sköpunarverur í tilbeiðslu á hinum eina lifandi og sanna Guði, Jehóva. Þessi sonur er betur til þess fallinn en nokkur annar. Af öllum sköpunarverum Guðs á himni og jörð hefur þessi sonur hans þekkt Jehóva lengst og nánast. Í 1. Korintubréfi 2:11 segir Páll postuli: „Hver meðal manna veit hvað mannsins er, nema andi mannsins, sem í honum er?“ Þannig er það með Jesú Krist. Þó að Jehóva Guð hafi notað hann við sköpun mannsins var það allt annað fyrir hann að verða sjálfur maður, að búa við þau skilyrði sem ríkja á jörðinni og reyna sjálfur þær tilfinningar sem bærast í brjósti mannsins. Þess vegna er ritað að „þótt hann sonur væri, lærði hann hlýðni af því, sem hann leið“ sem maður hér niðri á jörðinni. (Hebreabréfið 5:8) Hann var svo sannarlega þess verðugur að vera treyst fyrir ‚öllu valdi á himni og jörð‘ og að bera titilinn „Guðhetja.“ — Matteus 28:18; samanber Filippíbréfið 2:5-11.
„Undraráðgjafi“ og „Eilífðarfaðir“
6. Hvernig hefur Jesús Kristur þjónað sem „Undraráðgjafi“ og hvernig hefur ‚múgurinn mikli‘ notfært sér undraráð hans?
6 Þessar veigamiklu ástæður valda því að himneskur höfðingi Guðs er fullfær um að vera „Undraráðgjafi“ mannkynsins. (Jesaja 9:6) Ráð hans eru alltaf viturleg, fullkomin og óskeikul. Síðastliðnar nítján aldir hefur hann gegnt hlutverki undraráðgjafa sem meðalgangari milli Jehóva Guðs og þeirra sem fengið hafa aðild að nýja sáttmálanum. Núna, frá 1935, hefur „mikill múgur“ ‚annarra sauða‘ hans fengið að njóta undraráða hans og fær hina bestu fræðslu og leiðsögn sem völ er á. (Opinberunarbókin 7:9-17; Jóhannes 10:16) Nú á endalokatíma þessa heimskerfis hefur hann vakið upp hóp, nefndur hinn ‚trúi og hyggni þjónn,‘ og notar hann sem umboðsaðila sinn fyrir þetta ráðgjafarstarf, og hefur sett hann yfir allar jarðneskar eigur sínar eða konunglega hagsmuni. (Matteus 24:3, 45-47; Lúkas 12:42-44) Hinn ‚mikli múgur‘ fær nú að njóta andlegrar ráðgjafar sem er bæði undursamleg og áreiðanleg, af því að hún er byggð á opinberuðu orði Guðs.
7. Hvers vegna er Satan djöfullinn ekki lengur voldugur guð gagnvart þjónum Jehóva?
7 Við höfum tekið til okkar ráð þeirra og því er Satan djöfullinn, „guð þessarar aldar,“ ekki lengur máttugur guð gagnvart okkur, þjónum Jehóva. (2. Korintubréf 4:4) Hlýðnir höfum við gengið út úr Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða, og eigum ekki lengur þátt í siðlausum syndum hennar. Við höfum tekið óbifanlega afstöðu við hlið þess eina sem Jehóva Guð hefur lagt stjórn sína á herðar.
8. (a) Hvers vegna höfðar titillinn „Eilífðarfaðir“ sérstaklega til ‚múgsins mikla‘? (b) Hvernig fer fyrir þeim sem leyfa Satan djöflinum að vera andlegur faðir sinn?
8 Titillinn „Eilífðarfaðir“ er mjög hlýlegur og aðlaðandi. „Mikill múgur“ hinna ‚annarra sauða‘ metur þetta hlutverk hans sérstaklega mikils. Föðurhlutverk Satan djöfulsins hefur ekki höfðað til þeirra. Þá hryllir við er þeir minnast trúarleiðtoga Gyðinga sem stóðu gegn Jesú og hann sagði við: „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir.“ (Jóhannes 8:44) ‚Múgurinn mikli‘ hefur komið sér í burtu frá þessum andlegu börnum Satans djöfulsins, en faðerni hans yfir föllnu mannkyni mun ekki vara að eilífu. Þeir sem leyfa honum að vera andlegur faðir sinn munu farast með honum. Algjör eyðing, sem hinn ‚eilífi eldur‘ í Matteusi 25:41 er látinn tákna, bíður djöfulsins og allra manna sem flýja ekki burt undan faðerni hans. — Matteus 25:41-46.
9. Hvernig fær ‚múgurnn mikli‘ forsmekk af föðurhlutverki ‚Eilífðarföðurins‘?
9 ‚Múgurinn mikli‘ fær á hinn bóginn forsmekk af því að eiga sér ‚Eilífðarföðurinn‘ fyrir föður.a Hvernig? Með því að hlýða á raustu hans og verða ‚aðrir sauðir‘ hans og með því að eiga samfélag við leifar hins andlega Ísraels. Þetta hlýlega fjölskyldusamband ber vott um frið. Undir innblæstri talaði Páll postuli um Jehóva í Rómverjabréfinu 16:20 sem „Guð friðarins.“ Því átti vel við að eingetinn sonur hans skyldi kallaður ‚Friðarhöfðinginn‘! Þegar ‚Friðarhöfðinginn‘ kemur aftur á friði um gjörvallan alheiminn mun hann án efa rísa fyllilega undir þessum mikla titli.
Konungsstjórn ‚Friðarhöfðingjans‘
10, 11. Hvað sagði Jesaja eftir að hafa sagt fyrir þýðingarmestu barnsfæðingu veraldarsögunnar, og hvað merkja orð hans?
10 Eftir að Jesaja hafði sagt fyrir mikilfenglegustu barnsfæðingu sem nokkru sinni myndi verða — fæðingu sonar Guðs sem skyldi heiðraður titlinum ‚Friðarhöfðingi‘ — knúði andi Jehóva spámanninn til að segja: „Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka . . . Vandlæting [Jehóva] allsherjar mun þessu til vegar koma.“ — Jesaja 9:7.
11 Með því að segja: „Mikill skal höfðingjadómurinn verða,“ sýnir spádómurinn fram á að yfirráðasvæði ‚Friðarhöfðingjans‘ mun ná yfir allan hnöttinn. Þar verða engin landamæri sem takmarka valdasvið hans. Í hinni komandi paradís á jörð verður auk þess endalaus friður. Hvergi verður ólga eða órói nokkurn tíma. Friðurinn teygir sig út um allan hnöttinn í ríkulegum mæli. (Sálmur 72:7) Friður þýðir hér meira en ofbeldis- og styrjaldarleysi. Hann felur í sér réttvísi og réttlæti, því að Jesaja sagði að höfðingjadómurinn yrði efldur „með réttvísi og réttlæti héðan í frá og að eilífu.“ Mannkynið mun njóta ríkulegrar blessunar og hin óþreytandi vandlæting Jehóva Guðs mun koma því til vegar á okkar tímum.
12. Hvernig á stjórn ‚Friðarhöfðingjans‘ sér fulltrúa um alla jörðina?
12 Jafnvel núna á þetta ríki á herðum ‚Friðarhöfðingjans‘ sér fulltrúa út um alla jörðina. Í síauknum mæli viðurkenna menn himneska konungsstjórn hans. Lokið hefur verið að safna leifum hinna andagetnu lærisveina Jesú Krists út úr þjóðunum. Auk þess er verið að safna hinum ‚mikla múgi‘ frá meira en 200 löndum. Vottar Jehóva telja nú rúmar 3.000.000, og hinu ánægjulega starfi að safna inn fólki er enn ekki að fullu lokið. Þessi ‚mikli múgur‘ hyllir stjórnina sem hvílir á herðum ‚Friðarhöfðingjans.‘ Þeir sem mynda þennan múg eru innilega þakklátir fyrir að vera þegnar þessarar stjórnar og erindrekar hennar um gjörvallan heim í félagi við ‚erindreka Krists,‘ hinar smurðu leifar. — 2. Korintubréf 5:20.
Samsæri nútímans ónýtt
13. (a) Hvað leitast erindrekar Guðsríkis við að gera sín á meðal? (b) Hvað eru Sameinuðu þjóðirnar í augum Guðs?
13 Erindrekar Guðsríkis eiga einnig frið hver við annan. Þeir ‚kappkosta að varðveita einingu andans í bandi friðarins‘ — þrátt fyrir alla þá sundrung og ólgu sem er á jörðinni. (Efesusbréfið 4:3) Ríki bæði innan og utan Sameinuðu þjóðanna standa nú í fylkingu gegn stjórn ‚Friðarhöfðingjans.‘ Í augum Guðs eru Sameinuðu þjóðirnar firnamikið heimssamsæri. Hvers vegna? Vegna þess að þær lýsa yfir að þær ætli að ná þeim markmiðum sem Guð hefur einungis falið ‚Friðarhöfðingja‘ sínum að ná. Og Sameinuðu þjóðirnar fara fram á það við þegna allra þjóða, að þeir styðji þær í að koma á öryggi um allan heim fyrir tilverknað manna. Þær jafnvel lýstu árið 1986 „Alþjóðlegt friðarár.“ Þær eru því samsæri gegn ‚Friðarhöfðingjanum‘ og gegn sáttmála Jehóva við hann um eilíft ríki.
14. Hvaða aðvörun gaf Jesaja öllum sem voru mótsnúnir Jehóva og ríkissáttmála hans?
14 Af líkum ástæðum varaði Jesaja spámaður Akas konung og þegna hans við því að leita friðar og öryggis með því að ganga í bandalag við assýrska heimsveldið. Þá aðvörun er að finna í Jesaja 8:9, 10. Með skáldlegri andagift aðvarar spámaðurinn alla sem standa gegn Jehóva og ríkissáttmála hans: „Vitið það, lýðir, og hlustið á, allar fjarlægar landsálfur! Herklæðist, þér skuluð samt láta hugfallast! Herklæðist, þér skuluð samt láta hugfallast! Takið saman ráð yðar, þau skulu að engu verða. Mælið málum yðar, þau skulu engan framgang fá, því að Guð er með oss!“
15. Hvernig mun fara fyrir heimssamsærinu gegn ríkissáttmálanum, líkt og gerðist á dögum Akasar konungs?
15 Leyfum því þjóðunum undir stjórn höfðingja þessa heims, Satans djöfulsins, að gera samsæri gegn ríkissáttmálanum og höfðinglegum erfingja hans og drottnara. Það samsæri verður að engu gert alveg eins og samsærið á dögum Akasar konungs. Resín Sýrlandskonungur og Peka Ísraelskonungur óttuðust ekki Jehóva hersveitanna heldur gerðu samsæri gegn sáttmála hans um ríkið. En samsæri þeirra varð að engu. Og Akas Júdakonungur óttaðist ekki Jehóva, heldur gerði samsæri með assýrska heimsveldinu. Það hjálpaði þó ekki Akasi eða veitti honum frið og öryggi. Það hafði í för með sér erfiðleika og ánauð. Og það versta var að það svipti Akas velþóknun Jehóva.
16. Hvernig kollvarpaði Jehóva samsæri Assýringa gegn ríkissáttmálanum, og hvað táknaði það fyrir okkar tíma?
16 Eftir dauða Akasar og á dögum sonar hans, Hiskía, braut Jehóva allsherjar á bak aftur samsæri Assýríu gegn ríkissáttmálanum. Assýríukonungur varð að hrökklast burt úr Júdalandi eftir að engill Jehóva hafði gjöreytt 185.000 af hermönnum hans. Óvinurinn fékk ekki skotið einni einustu ör inn í Jerúsalemborg. (Jesaja 37:33-36) Víst er að sams konar ósigur bíður heimssamsæris nútímans gegn ríkissáttmála Jehóva og ‚Friðarhöfðingjanum,‘ því að Guð er með höfðingja sínum Immanúel og öllum sem hylla hann!
Óttalaus afstaða með drottinvaldi Jehóva yfir alheimi
17. (a) Hvað munu stjórnmálaöflin bráðlega gera við Babýlon hina miklu, og hvers mun fólk Guðs þarfnast og hljóta? (b) Hvað gera hinir guðlausu valdhafar eftir að hafa afmáð Babýlon hina miklu, og hver verða viðbrögð Jehóva?
17 Stjórnmálaöflin munu bráðlega snúast gegn ekki aðeins kristna heiminum heldur allri Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða, í því skyni að þurrka þau út. Á þeim mikilvægu tímamótum mun fólk Jehóva þurfa á að halda vernd Guðs í óvenjumiklum mæli. Eggjaðir áfram af blóðugum sigri sínum yfir Babýlon hinni miklu munu hinir guðlausu drottnarar í vonskubræði snúa sér gegn þeim sem standa með stjórn Guðs í höndum Jesú Krists. Þá mun Jehóva láta ‚Friðarhöfðingja‘ sinn heyja ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ (Opinberunarbókin 16:14) Jesús Kristur mun reynast ósigrandi stríðsmaður og stjórn hans mun engu tapa. Hann mun sýna sig ‚Guðhetju‘ undir stjórn hins sigursæla alvalda Guðs, Jehóva. Þessi „Guðhetja“ mun krýna hinn skínandi valdaferil sinn með sigrinum við Harmagedón sem hafður verður í minnum um alla eilífð. Hyllum hinn óviðjafnanlega sigurvegara!
18. Hvaða afstöðu hafa vottar Jehóva tekið gagnvart samsærinu gegn ríkissáttmálanum, og hverjar verða afleiðingarnar?
18 Sækið því fram, allir þið vottar Jehóva, látið bera enn meira á ykkur í heiminum en nokkru sinni fyrr og treystið Guði ykkar og ríkjandi konungi hans, ‚Friðarhöfðingjanum‘! Sýnið ykkur óttalausa andspænis heimssamsærinu. Verið allir tákn og kraftaverk til heiðurs Jehóva, með því að boða alls staðar ríki hans og nálægan sigur þess yfir heimssamsærinu í Harmagedónstríðinu. Þegar djöfullinn snýr stjórnendum heimsins gegn okkur, þá skulum við muna að sigurinn fellur þeim í skaut sem standa trúfastir og drottinhollir með ríki Immanúels, ‚Friðarhöfðingjans,‘ því að ‚Guð er með oss‘! (Matteus 1:23; samanber Jesaja 8:10.) Allir englar himinsins og allir ráðvandir menn á jörðu skulu segja „Amen“ við því er drottinvald Jehóva yfir allri sköpun á himni og jörð verður réttlætt og við tekur öryggi sem aldrei endar!
[Neðanmáls]
a Nánari umræðu um hlutverk Jesú Krists sem ‚Eilífðarföður‘ er að finna í 20. kafla bókarinnar Öryggi um allan heim undir stjórn ‚Friðarhöfðingjans,‘ útgefin af Watch Tower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Upprifjun
◻ Hvers vegna ber Jesús titilinn „Guðhetja“ með réttu?
◻ Hvernig hefur Jesús verið „Undraráðgjafi“?
◻ Hvern eigum við að velja okkur að föður og hverjum ættum við að hafna?
◻ Hvað eru Sameinuðu þjóðirnar í reynd?
◻ Hvernig mun fara fyrir samsærinu gegn ríkissáttmálanum og gegn erfingja hans, ‚Friðarhöfðingjanum‘?
[Mynd á blaðsíðu 14, 15]
Allur alheimurinn verður sameinaður í friðsamri tilbeiðslu á drottinvaldi sínum.