Þú getur verið þolgóður allt til enda
„Þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.“ — HEBREABRÉFIÐ 12:1.
1, 2. Hvað er þolgæði?
„ÞOLGÆÐIS hafið þér þörf,“ skrifaði Páll postuli í bréfi til kristinna Hebrea á fyrstu öld. (Hebreabréfið 10:36) Pétur postuli lagði einnig áherslu á að þessi eiginleiki væri mikilvægur og hvatti kristna menn til að „auðsýna í trú [sinni] þolgæði.“ (2. Pétursbréf 1:5, 6) En hvað er þolgæði?
2 Grísk-ensk orðabók skilgreinir grísku sögnina, sem þýdd er „þola, halda út,“ „að halda kyrru fyrir í stað þess að flýja . . . , vera staðfastur, halda út.“ Heimildarrit segir um gríska nafnorðið fyrir „þolgæði“: „Það er það eðlisfar sem getur þolað margt, ekki einfaldlega með uppgjöf heldur með eldheitri von . . . Það er sá eiginleiki sem heldur manni uppistandandi með andlitið upp í vindinn. Það er sú dyggð sem getur umbreytt erfiðustu prófraun í vegsemd vegna þess að handan sársaukans sér hún markið.“ Þolgæði gerir manni því kleift að vera staðfastur andspænis hindrunum og erfiðleikum og missa ekki vonina. Hverjir þurfa öðrum fremur á þessum eiginleika að halda?
3, 4. (a) Hverjir þurfa að vera þolgóðir? (b) Af hverju þurfum við að vera þolgóð allt til enda?
3 Allir kristnir menn taka þátt í táknrænu þolhlaupi. Um árið 56 skrifaði Páll postuli Tímóteusi, samverkamanni sínum og trúföstum ferðafélaga, og sagði hughreystandi: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.“ (2. Tímóteusarbréf 4:7) Með orðunum „fullnað skeiðið“ var Páll að líkja lífi sínu sem kristinn maður við þolhlaup þar sem hlaupin er ákveðin braut að marki. Þegar hér var komið sögu var Páll að nálgast markið í hlaupinu, og hann treysti því að hann bæri sigur úr býtum og hlakkaði til verðlaunanna. „Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins,“ heldur hann áfram, „sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi.“ (2. Tímóteusarbréf 4:8) Páll var viss um að hann hlyti launin af því að hann hafði haldið út allt til enda. Hvað um okkur hin?
4 Páll hvetur þá sem hefja hlaupið til að ‚þreyta þolgóðir skeið það sem þeir eiga framundan.‘ (Hebreabréfið 12:1) Við hefjum þetta þolhlaup þegar við vígjumst Jehóva Guði fyrir milligöngu Jesú Krists. Það er mikilvægt að hefja lærisveinaferilinn vel, en að endingu skiptir það mestu máli að ljúka hlaupinu. Jesús sagði: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ (Matteus 24:13) Laun þeirra sem ljúka hlaupinu eru eilíft líf! Við verðum því að hafa markið í huga og halda út allt til enda. Hvað getur hjálpað okkur að ná markinu?
Rétt næring er nauðsyn
5, 6. (a) Hverju þarf að huga að til að halda út í hlaupinu um lífið? (b) Hvaða andlegar ráðstafanir þurfum við að notfæra okkur og hvers vegna?
5 Hinir frægu Eiðisleikar voru haldnir í grennd við Korintuborg í Grikklandi til forna. Páll vissi vafalaust að Korintubræðurnir voru kunnugir íþróttakappleikjum og öðrum kappleikjum sem haldnir voru þar. Hann tók mið af því er hann minnti þá á þolhlaup lífsins sem þeir tóku þátt í: „Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau.“ Páll lagði áherslu á að halda áfram hlaupinu uns það væri afstaðið. En hvað gat hjálpað þeim til þess? „Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt,“ bætti hann við. Keppendurnir í leikunum til forna lögðu á sig stranga þjálfun, gættu vandlega að mataræði sínu og lögðu allt í sölurnar til að vinna. — 1. Korintubréf 9:24, 25.
6 Hvað um hlaupið sem kristnir menn taka þátt í? „Maður verður að hugsa um það hvernig maður nærir sig andlega til að halda út í hlaupinu um lífið,“ segir öldungur í einum söfnuði votta Jehóva. Hugsaðu um andlegu fæðuna frá Jehóva, ‚Guði sem veitir þolgæðið og huggunina.‘ (Rómverjabréfið 15:5) Fyrst og fremst sækjum við næringu í orð hans, Biblíuna. Ættum við þá ekki að hafa góða biblíulestraráætlun? Jehóva hefur líka látið hinn ‚trúa og hyggna þjón‘ sjá okkur fyrir tímaritunum Varðturninum og Vaknið! og öðrum biblíutengdum ritum. (Matteus 24:45) Það styrkir okkur andlega að nema þau vel. Já, við verðum að taka okkur tíma til einkanáms — ‚nota hverja stund‘ til þess. — Efesusbréfið 5:16.
7. (a) Af hverju ættum við ekki að láta okkur nægja að þekkja aðeins undirstöðukenningar kristninnar? (b) Hvernig getum við ‚sótt fram til fullkomleikans‘?
7 Til að halda áfram sem kristnir lærisveinar þurfum við að sleppa „byrjunar-kenningunum“ og „sækja fram til fullkomleikans“ eða til þroska. (Hebreabréfið 6:1) Við þurfum því að þroska með okkur áhuga á því hve sannleikurinn er „víður og langur, hár og djúpur“ og sækja næringu í ‚föstu fæðuna sem er fyrir fullorðna.‘ (Efesusbréfið 3:18; Hebreabréfið 5:12-14) Lítum til dæmis á hinar áreiðanlegu ævisögur Jesú á jörðinni í guðspjöllum þeirra Matteusar, Markúsar, Lúkasar og Jóhannesar. Með nákvæmri athugun á þessum guðspjöllum sjáum við hvað Jesús gerði og hvers konar maður hann var, en einnig hvernig hann hugsaði og hvað bjó að baki því sem hann gerði. Síðan getum við tileinkað okkur „huga Krists.“ — 1. Korintubréf 2:16.
8. Hvernig hjálpa kristnar samkomur okkur að vera þolgóð í hlaupinu um lífið?
8 Páll hvatti trúbræður sína: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Kristnar samkomur eru okkur mikil hvatning. Og það er hressandi að vera með ástríkum trúsystkinum okkar sem hafa áhuga á okkur og vilja hjálpa okkur að vera þolgóð allt til enda. Við getum ekki leyft okkur að vera kærulaus gagnvart þessari kærleiksríku ráðstöfun Jehóva. Með kostgæfilegu einkanámi og reglulegri samkomusókn getum við orðið „fullorðnir í dómgreind.“ — 1. Korintubréf 14:20.
Áhorfendur hvetja þig
9, 10. (a) Hvernig geta áhorfendur hvatt okkur til að halda út í hlaupinu? (b) Hver er hinn mikli ‚fjöldi votta‘ sem nefndur er í Hebreabréfinu 12:1?
9 Hversu vel sem hlaupari er undirbúinn getur eitthvað orðið til þess að hann hrasi. „Þér hlupuð vel. Hver hefur hindrað yður í að hlýða sannleikanum?“ spurði Páll. (Galatabréfið 5:7) Sumir kristnir Galatar höfðu lent í slæmum félagsskap að því er best verður séð og það dró athygli þeirra frá hlaupinu um lífið. En stuðningur og hvatning annarra getur auðveldað manni að halda hlaupinu áfram. Þetta er ekki ósvipað þeim áhrifum sem áhorfendur geta haft á keppendur. Ákafi fjöldans eykur spennuna og viðheldur áhuga keppenda frá upphafi til enda. Hvatningaróp áhorfenda, oft samfara háværri tónlist og lófataki, getur gefið keppendum aukinn kraft er þeir nálgast markið. Hliðhollir áhorfendur geta haft mjög jákvæð áhrif á keppendur.
10 Hverjir eru áhorfendur að hlaupinu um lífið sem kristnir menn taka þátt í? Eftir að Páll hefur talið upp fjölda trúfastra votta Jehóva fyrir daga kristninnar segir hann: „Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, . . . þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.“ (Hebreabréfið 12:1) Gríska orðið, sem þýtt er ‚fjöldi,‘ merkir í raun réttri ský, en ekki þó skýrt afmarkað ský af ákveðinni stærð og lögun heldur segir orðabókarhöfundurinn W. E. Vine að það „tákni óljósa, formlausa breiðu sem þekur himininn.“ Ljóst er að Páll átti við mikinn fjölda votta — svo marga að þeir voru eins og skýjabreiða.
11, 12. (a) Hvernig geta trúfastir vottar fyrir daga kristninnar hvatt okkur til að vera þolgóð í hlaupinu? (b) Hvernig getur hinn mikli ‚fjöldi votta‘ orðið okkur að meira liði?
11 Geta trúfastir kristnir menn frá því fyrir daga kristninnar bókstaflega horft á? Nei, þeir sofa allir dauðasvefni og bíða upprisu. En sjálfir hlupu þeir vel meðan þeir lifðu og fordæmi þeirra lifir á síðum Biblíunnar. Þegar við nemum Biblíuna geta þessir trúföstu þjónar Guðs lifnað í hugum okkar og hvatt okkur áfram, ef svo má segja, til að hlaupa alla leið í mark. — Rómverjabréfið 15:4.a
12 Hví ekki að hugleiða hvernig Móse hafnaði vegsemd Egyptalands þegar veraldleg tækifæri freista okkar, og láta það hvetja okkur til að halda okkur á réttri braut? Ef prófraun blasir við, sem okkur virðist mjög erfið, getur það örugglega hvatt okkur til að gefast ekki upp í baráttu trúarinnar að hugsa um hina erfiðu prófraun Abrahams er hann var beðinn að fórna Ísak, syni sínum. Þessi ‚mikli fjöldi‘ votta hvetur okkur á þennan hátt í sama mæli og við sjáum þá með skilningsaugum okkar.
13. Hvernig hvetja trúbræður okkur í hlaupinu um lífið?
13 Við erum líka umkringd mjög mörgum vottum Jehóva nú á tímum. Bæði hafa hinir smurðu og ‚múgurinn mikli‘ sett okkur frábært fordæmi með trú sinni. (Opinberunarbókin 7:9) Ævisögur þeirra birtast af og til í þessu tímariti og öðrum ritum Varðturnsfélagsins.b Það er okkur hvatning til að halda þolgóð áfram allt til enda, að velta fyrir okkur trú þeirra. Og það er stórkostlegt að eiga stuðning náinna vina og ættingja sem þjóna Jehóva sjálfir í trúfesti. Já, það eru margir sem hvetja okkur í hlaupinu um lífið.
Veldu þér skynsamlegan hraða
14, 15. (a) Af hverju er mikilvægt að velja sér skynsamlegan hraða? (b) Hvers vegna ættum við að vera sanngjörn þegar við setjum okkur markmið?
14 Hlaupari í langhlaupi, til dæmis maraþonhlaupi, þarf að velja sér skynsamlegan hraða. „Of mikill hraði í byrjun er ávísun á uppgjöf,“ segir tímaritið New York Runner. „Líkleg afleiðing er annaðhvort langdregin barátta síðustu mílurnar eða uppgjöf.“ Maraþonhlaupari segir: „Ég hlustaði á fyrirlestur þegar ég var að búa mig undir hlaupið og fékk þar skýra viðvörun: ‚Reynið ekki að halda í við þá sem hlaupa hraðar en þið. Hlaupið á þeim hraða sem hentar ykkur. Annars örmagnist þið og þurfið kannski að hætta.‘ Mér tókst að ljúka hlaupinu með því að fara eftir þessu.“
15 Þjónar Guðs þurfa að leggja sig kappsamlega fram í hlaupinu um lífið. (Lúkas 13:24) En lærisveinninn Jakob bendir á að ‚spekin að ofan sé sanngjörn.‘ (Jakobsbréfið 3:17, NW) Gott fordæmi annarra hvetur okkur til að taka framförum, en sanngirni hjálpar okkur að setja okkur raunhæf markmið í samræmi við hæfni okkar og aðstæður. Ritningin minnir okkur á: „Sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra, því að sérhver mun verða að bera sína byrði.“ — Galatabréfið 6:4, 5.
16. Hvernig getur lítillæti hjálpað okkur að velja réttan hraða?
16 Í Míka 6:8 erum við spurð þessarar umhugsunarverðu spurningar: „Hvað heimtar [Jehóva] annað af þér en að . . . fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“ Lítillæti er meðal annars að þekkja takmörk sín. Takmarkar heilsubrestur eða aldur hvað við getum gert í þjónustu Guðs? Missum ekki kjarkinn. Jehóva er ánægður með það sem við getum og þær fórnir sem við færum í samræmi við ‚það sem við eigum til og fer ekki fram á það sem við eigum ekki til.‘ — 2. Korintubréf 8:12; samanber Lúkas 21:1-4.
Hafðu verðlaunin stöðugt fyrir hugskotssjónum
17, 18. Hvað hjálpaði Jesú að halda út á kvalastaurnum?
17 Þegar Páll benti kristnum Korintumönnum á að þeir þyrftu að vera þolgóðir í hlaupinu um lífið nefndi hann aðra hlið á Eiðisleikunum sem ástæða var til að gefa gaum. Hann sagði um keppendur í leikunum: „Þeir sem keppa gjöra það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig, en vér óforgengilegan. Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær.“ (1. Korintubréf 9:25, 26) Verðlaunin í leikunum til forna voru sigursveigur úr furu eða öðrum jurtum, eða jafnvel úr þurrkaðri blaðselju. ‚Forgengilegur sigursveigur‘ það. En hvað bíður kristinna manna sem eru þolgóðir allt til enda?
18 Páll vísar til fyrirmyndar okkar, Jesú Krists, og skrifar: „Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.“ (Hebreabréfið 12:2) Jesús var þolgóður allt þar til mannsævi hans lauk, þar eð hann horfði lengra en til kvalastaursins. Hann horfði á launin sem fela í sér þá gleði að eiga þátt í að helga nafn Jehóva, endurleysa mannkynið frá dauða og ríkja sem konungur og æðstiprestur og veita hlýðnum mönnum eilíft líf í paradís á jörð. — Matteus 6:9, 10; 20:28; Hebreabréfið 7:23-26.
19. Hvað ættum við að hafa fyrir hugskotssjónum sem kristnir lærisveinar?
19 Lítum á gleði okkar sem erum kristnir lærisveinar. Jehóva hefur fengið okkur einkar ánægjulegt verk að vinna, það að prédika fagnaðarerindið um ríki Guðs og veita öðrum biblíuþekkingu sem veitir líf. (Matteus 28:19, 20) Það er einstaklega ánægjulegt að finna einhvern sem hefur áhuga á að kynnast hinum sanna Guði og hjálpa honum að hefja hlaupið um lífið. Og hver svo sem viðbrögð fólks eru við prédikun okkar eru það sérréttindi að eiga hlutdeild í verki sem er tengt því að helga nafn Jehóva. Þegar við höldum þolgóð áfram í þjónustunni þrátt fyrir skeytingarleysi eða andstöðu þeirra sem við vitnum fyrir, þá njótum við þeirrar ánægju að gleðja hjarta Jehóva. (Orðskviðirnir 27:11) Og sigurlaunin, sem hann býður okkur, eru eilíft líf, og það eru mjög gleðileg laun! Við þurfum að hafa þessa blessun fyrir hugskotssjónum og halda hlaupinu áfram.
Þegar endirinn færist nær
20. Hvernig getur hlaupið um lífið reynst erfiðara er nær dregur endinum?
20 Í hlaupinu um lífið eigum við líka í höggi við erkióvininn Satan djöfulinn. Eftir því sem endirinn færist nær reynir hann æ meira til að fella okkur eða hægja á okkur. (Opinberunarbókin 12:12, 17) Og það er engan veginn auðvelt að halda áfram að vera trúfastur, vígður boðberi Guðsríkis í styrjöldum, hungursneyð, drepsóttum eða öllum hinum erfiðleikunum sem einkenna endalokatímann. (Daníel 12:4; Matteus 24:3-14; Lúkas 21:11; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Auk þess getur endirinn stundum virst fjær en við áttum von á, ekki síst ef áratugir eru liðnir síðan við hófum hlaupið. En orð Guðs fullvissar okkur um að endirinn komi. Jehóva segir að hann dragist ekki. Endirinn er í sjónmáli. — Habakkuk 2:3; 2. Pétursbréf 3:9, 10.
21. (a) Hvað styrkir okkur til að halda áfram í hlaupinu um lífið? (b) Hverju ættum við að vera staðráðin í er endirinn nálgast?
21 Til að ljúka hlaupinu um lífið þurfum við því að sækja kraft í andlegu næringuna sem Jehóva hefur í kærleika sínum séð okkur fyrir. Við þörfnumst líka allrar þeirrar hvatningar sem við getum fengið af reglulegu samfélagi við trúsystkini okkar sem eru líka þátttakendur í hlaupinu. Jafnvel þótt harðar ofsóknir og ófyrirsjáanlegir atburðir geri okkur hlaupið erfiðara en ella getum við verið þolgóð allt til enda af því að Jehóva veitir okkur „ofurmagn kraftarins.“ (2. Korintubréf 4:7) Það er einkar hughreystandi til að vita að Jehóva skuli vilja að við ljúkum hlaupinu sigursæl. Við skulum því ‚þreyta þolgóð skeið það sem við eigum framundan‘ í þeirri vissu að við munum „á sínum tíma . . . uppskera, ef vér gefumst ekki upp.“ — Hebreabréfið 12:1; Galatabréfið 6:9.
[Neðanmáls]
a Fjallað er um Hebreabréfið 11:1–12:3 í Varðturninum 1. júní 1987, bls. 19-29.
b Nokkur dæmi um hvetjandi frásögur er að finna í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. júní 1998, bls. 28-31; 1. september 1998, bls. 24-8; 1. febrúar 1999, bls. 25-9.
Manstu?
◻ Af hverju verðum við að vera þolgóð allt til enda?
◻ Hvaða ráðstafanir Jehóva ættum við ekki að láta ónotaðar?
◻ Af hverju er mikilvægt að velja hraðann viturlega?
◻ Hvaða gleði njótum við þegar við höldum hlaupinu áfram?
[Mynd á blaðsíðu 18]
Láttu kristnar samkomur hvetja þig.