‚Gerið allt guði til dýrðar‘
Meginatriði 1. Korintubréfs
DÝRÐ Jehóva Guðs er mikilvægt hugðarefni allra sem dýrka hann „í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:23, 24) Því sagði Páll postuli kristnum bræðrum sínum í Korintu til forna: „Gjörið . . . allt Guði til dýrðar.“ (1. Korintubréf 10:31) Það útheimtir að við notum aðferðir Jehóva til að leysa vandamál okkar í heimi sem er djúpt sokkinn í falstrú, efnishyggju og siðleysi.
Kristnir menn í Korintu þörfnuðust hjálpar Guðs til að leysa vandamál sín, því að þeir bjuggu í borg þar sem var mikil velmegun, siðleysi og falsguðadýrkun. Korinta stóð á eiði milli meginlands Grikklands og Pelopsskaga og var höfuðborg rómverska skatthéraðsins Akkeu. Íbúatalan er áætluð hafa verið 400.000. Páll stofnaði þar söfnuð um árið 50. — Postulasagan 18:1-11.
Korintumenn höfðu skrifað Páli og spurt hann spurninga um hjónaband og neyslu kjöts sem fórnfært hafði verið skurðgoðum. (7:1) Hann var áhyggjufullur út af sundrungu og grófu siðleysi sem átti sér stað innan safnaðarins. Korintumenn þörfnuðust leiðbeininga um það hvernig rétt væri að halda kvöldmáltíð Drottins. Þar var jafnvel hætta á fráhvarfi frá trúnni og söfnuðurinn þarfnaðist leiðbeininga varðandi kærleikann. Af því tilefni skrifaði Páll Korintumönnum hið fyrra innblásna bréf sitt frá Efesus um árið 55. En við getum líka haft gagn af bréfinu.
Eining og hreint siðferði lífsnauðsyn
Ef við eigum að ‚gera allt Guði til dýrðar‘ munum við ekki fylgja nokkrum þeim er reynir að valda sundrungu innan safnaðarins — en það var eitt af þeim vandamálum sem Korintumenn stóðu frammi fyrir. (1:1-4:21) Páll áminnti þá um að ‚vera sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.‘ Ef við fylgjum þessu ráði og ræktum andlega eiginleika mun eining ríkja. Í stað þess að stæra okkur af syndugum mönnum ættum við að muna að ‚Guð gefur andlegan vöxt þótt við gróðursetjum og vökvum.‘ Þeir sem voru stærilátir í Korintu höfðu ekkert sem þeir höfðu ekki þegið; við ættum því aldrei að álíta okkur betri en trúbræður okkar. Slík auðmýkt hjálpar okkur að vinna að einingu.
Ef eining á að ríkja verða útnefndir öldungar að halda söfnuðinum andlega hreinum. (5:1-6:20) Með því að „lítið súrdeig sýrir allt deigið“ varð að gera iðrunarlausa saurlífismenn, ásælna, skurðgoðadýrkendur, lastmála, ofdrykkjumenn og ræningja ræka úr söfnuðinum. Ekki má umbera siðferðilegan óhreinleika, sem saurgar musteri Guðs, meðal þjóna Jehóva. Þess í stað verða þeir að gera það sem er Guði til dýrðar.
Sýnið öðrum tillitsemi
Til að ‚gera allt Guði til dýrðar‘ þurfum við að fylgja heilræðum Páls um hjónaband og einhleypi. (7:1-40) Þeir sem eru í hjónabandi eiga að sýna maka sínum tillitssemi og fullnægja hjúskaparskyldunni. Giftir kristnir menn ættu ekki að slíta samvistum við maka sem ekki er í trúnni, því að áframhaldandi sambúð getur hjálpað honum að öðlast hjálpræði. Hjónabandi fylgja auknar áhyggjur en einhleypi getur verið þeim til góðs sem þráir að hjálpa öðrum andlega með því að þjóna Drottni truflunarlaust.
Það er skylda allra kristinna manna, bæði einhleypra og giftra, að taka tillit til andlegrar velferðar annarra. (8:1-10:33) Þess vegna var Korintumönnum ráðlagt að hneyksla ekki aðra með því að neyta matar sem færður hafði verið skurðgoðum að fórn. Páll neytti jafnvel ekki réttar síns til að hljóta efnislega aðstoð, til að hindra engan í að taka við fagnaðarerindinu. Hann jafnvel ‚lék líkama sinn hart til að hann, sem hafði prédikað fyrir öðrum, glataði ekki hylli Guðs.‘ Við getum lært af því sem henti hina syndugu Ísraelsmenn í eyðimörkinni og forðast skurðgoðadýrkun og ranga breytni. Er við ‚gerum allt Guði til dýrðar‘ mun það hjálpa okkur að gæta þess að hneyksla engan.
Virðing sýnd og regla varðveitt
Það að ‚gera allt Guði til dýrðar‘ útheimtir að við sýnum tilhlýðilega virðingu. (11:1-34) Kristin kona á fyrstu öld sýndi virðingu fyrir yfirvaldi með því að bera höfuðfat er hún bað eða spáði í söfnuðinum. Guðræknar nútímakonur sýna sams konar virðingu. Við verðum öll að sýna kvöldmáltíð Drottins virðingu til að verða ekki eins og Korintumenn sem þurftu að fá leiðréttingu.
Til að ‚gera allt Guði til dýrðar‘ verðum við að halda góðri reglu á samkomum okkar.‘ (12:1-14:40) Er frumkristnir menn komu saman átti að nota gjafir andans, svo sem tungutal, með virðingu og meta rétt tilganginn með þeim og uppruna þeirra. Enda þótt við höfum ekki þessar gjafir nú á dögum heiðrum við Guð með því að sýna kærleika sem er þeim fremri. Við vegsömum líka Jehóva vegna þess að samkomur okkar eru vel skipulagðar og við fylgjum með virðingu heilræði Páls: „Allt fari sómasamlega fram og með reglu.“
Það að ‚gera allt Guði til dýrðar‘ útheimtir að við virðum kenningar Biblíunnar og höfum trausta, andlega fótfestu. (15:1-16:24) Það var ef til vill undir áhrifum grískrar heimspeki sem sumir í Korintusöfnuðinum sögðu: ‚Dauðir rísa ekki upp.‘ (Samanber Postulasöguna 17:18, 34.) Þeir aðhylltust kannski þá fráhvarfshugmynd að engin upprisa yrði í framtíðinni heldur hefðu kristnir menn hlotið táknræna, andlega upprisu í lifanda lífi. (2. Tímóteusarbréf 2:16-18) Páll varði hina sönnu von með því að vísa til upprisu Jesú og sýndi einnig fram á að smurðir kristnir menn yrðu að deyja til að verða reistir upp sem ódauðlegar andaverur á himnum. Orð hans hjálpar okkur með ýmsum öðrum hætti að forðast fráhvarf og ‚standa stöðugir í trúnni.‘
Gerum alla hluti Guði til dýrðar
Heilræði Páls í 1. Korintubréfi eru jafngagnleg nú á dögum og þau voru á fyrstu öld. Þau koma nútímavottum Jehóva til að þjóna Guði í einingu sem hrein þjóð. Orð postulans ættu að hvetja okkur til að sýna öðrum tillitssemi og tilhlýðilega virðingu. Það sem Páll sagði getur einnig styrkt okkur til að sporna gegn fráhvarfi og vera staðfastir í sannri trú.
Vissulega er það innileg löngun allra trúrra þjóna Jehóva að blessa hann, kunngera ríki hans og vegsama hið heilaga nafn hans. (Sálmur 145:1, 2, 10-13) Fyrra bréf Páls til Korintumanna hjálpar okkur sannarlega að ‚gera allt Guði til dýrðar.‘
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 18]
DAUÐANS MATUR: Oftar en einu sinni nefndi Páll dauða á leikvanginum í bréfum sínum til Korintumanna. Til dæmis skrifaði hann: „Mér virðist Guð hafa sett oss postulana sísta allra, eins og dauðadæmda á leiksviði, frammi fyrir öllum heiminum, bæði englum og mönnum.“ (1. Korintubréf 4:9) Páll kann að hafa haft í huga sýningar þar sem fram komu bestiarii (menn sem börðust við skepnur) og skylmingaþrælar (menn sem börðust við menn). Sumir börðust fyrir laun en glæpamenn voru neyddir til að berjast. Í fyrstu fengu fangar að beita vopnum en síðar voru þeir leiddir út klæðalausir, varnarlausir og dauðans matur.
Með ‚engla‘ og ‚menn‘ (ekki aðeins ‚heim‘ mannkynsins) sem áhorfendur voru postularnir eins og þeir sem voru í þann mund að deyja í slíkum lokaþætti hryllilegs sjónleiks. Páll sagðist hafa „barist við villidýr í Efesus“ en sumir draga í efa að rómverskur borgari hafi þurft að gera slíkt og segja að hann hafi hér átt við andstæðinga sem voru eins og villidýr. (1. Korintubréf 15:32) En orð Páls þess efnis að Guð hafi bjargað honum úr „dauðans hættu“ í Asíu (þar sem Efesus var) lýsir frekar baráttu við raunveruleg villidýr á leikvangi en andstöðu af mannavöldum. — 2. Korintubréf 1:8-10; 11:23; Postulasagan 19:23-41.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 19]
HAFIÐ AUGUN Á VERÐLAUNUNUM: Páll tók dæmi frá leikjum Grikkja til forna í þeim tilgangi að leggja áherslu á mikilvæg atriði. (1. Korintubréf 9:24-27) Á kappleikjum svo sem eiðisleikjunum, er haldnir voru annað hvert ár í grennd við Korintu, var keppt í hlaupi, hnefaleikjum og öðrum íþróttum. Hlauparar og hnefaleikamenn urðu að sýna sjálfstjórn er þeir bjuggu sig undir keppni, lifa á heilbrigðu og fitusnauðu fæði og bragða ekki vín í tíu mánuði. En smurðir kristnir menn keppa ekki eftir forgengilegum sigursveig úr furugreinum eða bergfléttu, eins og sigurvegarar í eiðisleikjunum hlutu, heldur óforgengilegri kórónu eilífs lífs. Til að hljóta slík verðlaun urðu þeir að einblína á þau og iðka sjálfstjórn. Sama meginregla á við votta Jehóva sem horfa fram til eilífs lífs á jörð.