Sælir eru þeir sem fara rétt með vald
„[Jehóva] er seinn til reiði og mikill að krafti, en óhegnt lætur hann ekki.“ — NAHÚM 1:3.
1. Hvers vegna er það að hafa eitthvert vald ekkert til að stæra sig af?
MARGS konar vald er til sem vitibornar sköpunarverur Guðs geta beitt á réttan hátt. Hæfileikar af náttúrunnar hendi eða kringumstæður geta orsakað að við förum með vald af einu eða öðru tagi. En er það eitthvað til að stæra sig af? Engan veginn. Hvað lesum við í Jeremía 9:23? „Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni og hinn sterki hrósi sér ekki af styrkleika sínum og hinn auðugi hrósi sér ekki af auði sínum.“ Hvers vegna? Páll postuli svarar því vel í 1. Korintubréfi 4:7: „Hver gefur þér yfirburði? Og hvað hefur þú, sem þú hefur ekki þegið? En hafir þú nú þegið það, hví stærir þú þig þá eins og þú hefðir ekki fengið það að gjöf?“
2. Hvers vegna þurfum við að vera á varðbergi að því er notkun valds áhrærir?
2 Hvers vegna þurfum við að vara okkur á því að misbeita valdi sem við kunnum að hafa? Vegna þess að „hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans.“ (1. Mósebók 8:21) Þar eð við höfum öll þessa arfgengu tilhneigingu til eigingirni þurfum við stöðugt að vera á verði til að við misbeitum ekki því valdi sem við höfum. Hinn arfgengi ófullkomleiki mannsins veldur því að alltaf er tilhneiging til að beita valdi í eigingjörnum tilgangi.
Jehóva — voldugur en líka vitur og réttvís
3. Hvers konar valdi og mætti ræður Jehóva yfir?
3 Enginn annar en skaparinn, Jehóva Guð, setur okkur gott og fullkomið fordæmi um það hvernig farið skuli með vald. Hann er ekki hvatvís heldur seinn til reiði, jafnvel þegar hann þarf að beita valdi sínu gegn öðrum. (Nahúm 1:3) Enginn hefur meira vald en Guð og því nefnum við hann alvaldan. Hann notar réttilega titilinn „Almáttugur“ um sjálfan sig. (1. Mósebók 17:1) Ekki aðeins hefur hann allt vald í þeim skilningi að hann ráði yfir ótakmörkuðum krafti heldur líka vegna stöðu sinnar sem drottinvaldur alheimsins sem hann skapaði. Þess vegna getur enginn dirfst að ‚tálma honum eða segja við hann: „Hvað gjörir þú?“ ‘ — Daníel 4:35.
4. Hvers vegna er viturlegt að óttast Jehóva?
4 Sökum þess að Jehóva Guð er alvaldur er viturlegt af okkur að óttast það að misþóknast honum. Já, ótti [Jehóva] er upphaf viskunnar og að þekkja Hinn heilaga eru hyggindi.“ (Orðskviðirnir 9:10) Páll varar okkur við því að reita Jehóva Guð til reiði með skurðgoðadýrkun af einhverju tagi, því að „munum vér vera máttugri en hann?“ Hvergi nærri! (1. Korintubréf 10:22) Þeir sem af yfirlögðu ráði brjóta réttlát boð Guðs hegða sér þó eins og þeir væru sterkari en hann! Páll undirstrikar þetta atriði enn betur þegar hann segir: „Vor Guð er eyðandi eldur.“ — Hebreabréfið 12:29.
5. Hvers vegna þurfum við ekki að skelfast Jehóva vegna almættis hans?
5 Þessar staðreyndir gætu fyllt okkur sjúklegum ótta eða skelfingu ef almætti Jehóva Guðs væri ekki í fullkomnu jafnvægi við þrjá aðra höfuðeiginleika hans: visku, réttvísi og kærleika. Þegar hann beitir valdi sínu öðrum í óhag er það alltaf í samræmi við þessa eiginleika. Flóðið á dögum Nóa var til dæmis stórkostleg auglýsing á mætti Jehóva. En var Guð ranglátur eða kærleikslaus í því hvernig hann beitti valdi sínu? Hvergi nærri! Mannkynið hafði spillt vegum sínum svo að það sem Guð sá særði hann stórlega. (1. Mósebók 6:5-11) Þessir óguðlegu menn fyrir flóðið misnotuðu sér blessun Guðs, og sú aðgerð hans að sópa þeim burt af jörðinni var rétt, einkum þar sem þeir létu aðvaranir ‚prédikara réttlætisins,‘ Nóa, sem vind um eyru þjóta. — 2. Pétursbréf 2:5.
6. Hvað sýna afskipti Jehóva af Sódómu og Gómorru?
6 Þegar Sódómu- og Gómorrubúar sýndu sig gjörspillta stórsyndara með því að misnota þá blessun sem þeir, hluti af mannkyninu, nutu af hendi Jehóva, ákvað hann að þeim skyldi tortímt. Af tillitssemi við Abraham, vin sinn, sagði Jehóva honum frá fyrirætlun sinni varðandi Sódómu og Gómorru. Abraham virtist álíta að þetta yrði mikil misbeiting valds og spurði því Jehóva: „Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?“ En Abraham leið fyrir misskilning. Að síðustu varð hann að viðurkenna að dómur Jehóva væri réttlátur, því að ekki fundust einu sinni tíu réttlátar sálir í borgunum tveim. Svo sannarlega sýnir það hve vandlega Jehóva Guð gætir þess að beita valdi sínu rétt. — 1. Mósebók 18:17-33; Jesaja 41:8.
7. Hvernig verðskuldaði Faraó að Jehóva beitti valdi sínu gegn honum?
7 Síðar, þegar tíminn kom til að frelsa Ísraelsmenn úr hinni ranglátu ánauð í Egyptalandi, gaf Jehóva Faraó tækifæri til að vera samvinnuþýður. Hvorki Faraó né þjóð hans hefði beðið nokkurt tjón af því. En fullur drambs og þvermóðsku neitaði þjóðarleiðtoginn að gera eins og Jehóva bað. Guð sýndi því Faraó mátt sinn með margvíslegum hætti í plágunum tíu sem komu yfir Egyptaland. (2. Mósebók 9:16) Eftir að Faraó loks leyfði Ísraelsmönnum að fara hélt hann þrjóskur áfram að ögra Jehóva með því að elta Ísraelsmenn. Jehóva beitti því valdi sínu réttilega þegar hann afmáði Faraó og her hans í Rauðahafinu. (Sálmur 136:15) Veitum því athygli að í öllum þessum tilvikum beitti Jehóva sínum mikla mætti til að vernda trúfasta þjóna sína: Nóa og fjölskyldu hans, Lot og dætur hans tvær og Ísraelsþjóðina. — 1. Mósebók 19:16.
8. Hvaða ástæðu hafði Jehóva til að beita Sanherib því valdi sem raun bar vitni?
8 Mörgum öldum síðar, á dögum Hiskía konungs, sýndi Guð sinn mikla mátt á mjög áberandi og réttlátan veg þegar Sanherib Assýríukonungur ógnaði Jerúsalem. Þjóð Guðs, undir forystu hins guðhrædda og drottinholla Hiskía, ákallaði hann þá um hjálp. Þjóðin þjónaði honum í trúfesti svo að Guð lét til sín taka hennar vegna. Útsendari Sanheribs konungs hafði aftur á móti gortað: ‚Hlustið ekki á Hiskía, látið hann ekki ginna ykkur með loforðum um að Jehóva frelsi ykkur. Hefur nokkur af guðum annarra þjóða getað frelsað þjóð sína undan hendi Sanheribs? Fyrst engir þessara guða gátu það, hvernig getið þið ímyndað ykkur að Jehóva geti frelsað ykkur?‘ (Jesaja 36:13-20) Sökum þessa gorts þurfti Guð einfaldlega að beita sínum mikla mætti með þeim afleiðingum að 185.000 hermenn dóu á einni nóttu. Hann sannaði að Jehóva væri ólíkur guðum þjóðanna.
9. Hvaða önnur dæmi má nefna sem sýna að Jehóva gætir þess að fara rétt með vald sitt?
9 Hugleiddu aðeins fáein dæmi í viðbót af þeim mörgu sem nefna mætti. Þegar Jehóva sló Mirjam holdsveiki var það fullkomlega réttlát og viturleg beiting á valdi hans. Mirjam verðskuldaði slíka refsingu fyrir ofdramb sitt gegn bróður sínum Móse sem Guð hafði skipað. (4. Mósebók 12:1-15) Það var svipað þegar Ússía konungur gekk óskammfeilinn inn í helgidóminn til að færa reykelsisfórn á gullaltarinu og lét sér ekki segjast við fortölur levítaprestana. Jehóva sýndi þessum drambláta konungi vald sitt með því að slá hann holdsveiki. (2. Kroníkubók 26:16-21) Refsing Jehóva var líka í samræmi við það að syndir þeirra voru misalvarlegar: holdsveiki Mirjam var tímabundin en Ússía dó holdsveikur. Við sjáum þannig að Jehóva gætir þess alltaf að beita valdi sínu viturlega og réttvíslega. Hann getur varðveitt hina trúföstu sem elska hann og tortímt hinum óguðlegu. — Sálmur 145:20.
Fordæmi Jesú Krists
10, 11. Hvaða atvik sýna að Jesú var umhugað að fara rétt með vald?
10 Sonur Guðs var sannarlega góð eftirmynd föður síns í því hvernig hann fór með vald. Eitthvert fyrsta dæmið var þegar Satan deildi við hann um lík Móse. Sonur Guðs hefði hæglega getað vítt Satan þunglega en í staðinn hélt hann sér í skefjum og lét ávíturnar koma frá Jehóva Guði sjálfum. — Júdasarbréfið 8, 9.
11 Fyrsta freistingin, sem Satan lagði fyrir Jesú í eyðimörkinni, var tengd misbeitingu valds. Satan reyndi að freista Jesú til að nota yfirnáttúrlegan kraft sinn í eigingjörnum tilgangi, til að breyta steinum í brauð. Þetta var töluverð freisting því að Jesús hafði ekki matast í 40 daga og „var þá orðinn hungraður.“ Satan bar freistinguna þannig fram sem líklegast gæti orðið Jesú að falli. Hann hóf mál sitt svo: „EF þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú, að steinar þessir verði að brauðum.“ Hann vonaðist eflaust til að Jesús myndi svara: ‚Auðvitað er ég sonur Guðs. Ég skal sanna þér það með því að breyta þessum steinum í brauð.‘ En í stað þess að láta freista sín til eigingjarnra eða flónskulegra athafna svaraði hann: „Ritað er: ‚Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.‘ “ (Matteus 4:1-4) Hann lét eins og hann heyrði ekki að dregið skyldi í efa að hann væri sonur Guðs, og neitaði að misbeita því valdi sem Guð hafði gefið honum.
12. Hvernig sýndi Jesús að hann var ekki valdagráðugur?
12 Síðar, eftir að Jesús Kristur hafði gefið 5000 karlmönnum auk kvenna og barna að eta, vildu Gyðingar gera hann að konungi. Ef hann hefði þegið boð þeirra hefði það verið misbeiting þess valds sem hann hafði til að hafa áhrif á fólk með kraftaverkum sínum. Hann vissi að hann yrði að gæta hlutleysis gagnvart veraldlegum stjórnmálum og bíða þess að Jehóva Guð gæfi honum konungdóm. (Jóhannes 6:1-15) Síðar, þegar mannsöfnuður kom til að taka hann til fanga, hefði hann getað beðið um tólf sveitir engla til að koma í veg fyrir handtöku sína. En það hefði verið misbeiting valds því að sá var vilji föður hans að hann þyldi þessa meðferð. — Matteus 26:39, 53.
Aðrir sem misnotuðu ekki vald
13, 14. (a) Hvaða gott fordæmi gaf Gídeon sem sýndi að hann var ekki valdagráðugur? (b) Hvaða gott fordæmi gaf Sál þegar hann var gerður að konungi?
13 Af þeim ófullkomnu mönnum, sem stóðust þá freistingu að misbeita valdi sínu, hljótum við að nefna Gídeon dómara. Eftir að hafa frelsað Ísrael undan oki Midíans vildi þjóðin gera hann að konungi. Gídeon afþakkaði og sagði: „Eigi mun ég drottna yfir yður, og eigi mun sonur minn heldur drottna yfir yður. [Jehóva] skal yfir yður drottna.“ Já, sú hógværð, sem hann lét í ljós strax í upphafi dómaraferils síns, var enn aðalsmerki hans. Og svar Gídeons endurspeglaði það hvernig Jehóva Guð leit á það að Ísraelsmenn hefðu mennskan konung. Við veitum því athygli í svari Guðs þegar Ísraelsmenn vildu fá konung á dögum spámannsins Samúels. — Dómarabókin 8:23; 6:12-16; 1. Samúelsbók 8:7.
14 Þegar konungur var loks valinn setti Sál í fyrstu gott fordæmi í því að misnota ekki vald. Nokkur hrakmenni sögðu: „ ‚Hvað ætli þessi hjálpi oss?‘ Og þeir fyrirlitu hann . . . en hann lét sem hann vissi það ekki.“ Hann hefði getað beitt konunglegu yfirvaldi sínu í fljótræði en gerði það ekki. Eins var eftir að Sál hafði unnið sigur á Ammonítum; þá héldu sumir að hann hefði gott tækifæri til að endurgjalda þeim sem höfðu fyrirlitið hann. Þeir sögðu því: „Hverjir voru það, sem sögðu: ‚Á Sál að verða konungur yfir oss?‘ Framseljið þá menn, svo að vér getum drepið þá.“ En Sál var alls ekki þeirrar skoðunar. Hann andmælti: „Engan mann skal deyða á þessum degi, því að í dag hefir [Jehóva] veitt Ísrael sigur.“ Við sjáum að Sál fór vel af stað og sýndi hógværð. (1. Samúelsbók 9:21; 10:20-23, 27; 11:12, 13) Því miður fór hann síðar að misbeita konungsvaldi sínu og hlaut því ill endalok! — 1. Samúelsbók 28:6; 31:3-6.
15, 16. (a) Hvað gat Samúel dómari sagt um það hvernig hann hefði beitt valdi sínu? (b) Hvaða fordæmi gaf Davíð konungur?
15 Samúel, spámaðurinn sem einnig var dómari í Ísrael, gaf gott fordæmi. Guð notaði hann mikið allt frá því að hann var barn að aldri. Samúel dæmdi þjóðina réttvíslega og stuðlaði að frelsun hennar. Misnotaði hann sér nokkurn tíma stöðu sína í eigingjörnum ávinningi? Alls ekki! Hann sagði í kveðjuræðu til þjóðarinnar: „Ég hefi látið að orðum yðar í öllu því, sem þér hafið beiðst af mér, og ég hefi sett yfir yður konung. . . . Hér er ég, vitnið á móti mér frammi fyrir [Jehóva] og hans smurða: Hvers uxa hefi ég tekið? Og hvers asna hefi ég tekið? Og hvern hefi ég féflett? Hverjum hefi ég sýnt ofríki? Og af hverjum hefi ég þegið mútu eða jafnvel eina skó?“ Fólkið varð að viðurkenna að Samúel hefði verið ámælislaus í öllu þessu. Hann hafði ekki misbeitt valdi sínu sem dómari. — 1. Samúelsbók 12:1-5.
16 Við ættum ekki heldur að horfa fram hjá hinu ágæta fordæmi Davíðs. Tvívegis hafði hann Sál konung á valdi sínu og hefði getað drepið hann. Davíð hefði getað hugsað sem svo: ‚Sál sækist eftir lífi mínu svo það er um mitt eða hans að velja.‘ Hann hefði líka getað hugsað í eigingirni: ‚Fyrst Samúel hefur smurt mig til að vera konungur Ísraels kemur að því fyrr eða síðar. Hví ekki núna?‘ Nei, Davíð beið þolinmóður þar til tími Jehóva kom til að gefa honum ríkið. (1. Samúelsbók 24:1-22; 26:1-25) Því miður misnotaði Davíð vald sitt tvívegis eftir að hann varð konungur: Þegar hann varð valdur að dauða Úría og taldi her Ísraels. — 2. Samúelsbók 11:15; 24:2-4, 12-14.
17. Hvernig sýndi Páll að hann var aldrei ágjarn og misbeitti ekki valdi sínu?
17 Af fylgjendum Jesú Krists setti Páll postuli gott fordæmi í þessu efni. Hann hefði getað krafist fjárstuðnings frá söfnuðunum sem hann þjónaði. Það gerði hann þó ekki. Hann sagði öldungunum í Efesus: „Eigi girntist ég silfur né gull né klæði nokkurs manns. Sjálfir vitið þér, að þessar hendur unnu fyrir öllu því, er ég þurfti með, og þeir, er með mér voru.“ (Postulasagan 20:33, 34) Í bréfi til safnaðarins í Korintu kvað postulinn jafnvel enn fastar að orði um þetta. (1. Korintubréf 9:1-18) Honum hefði verið heimilt að halda sér frá veraldlegri vinnu, því að hver þjónar sem hermaður á eigin kostnað? Sagði ekki Móse að ekki skyldi múlbinda uxann þegar hann væri að þreskja kornið? „En,“ sagði Páll, „ég hef ekki hagnýtt mér neitt af þessu.“ Hver voru laun hans? „Að ég boða fagnaðarerindið án endurgjalds og hagnýti mér ekki það, sem ég á rétt á.“
18. (a) Hvernig ættum við að líta á það hvernig Jehóva beitir valdi sínu? (b) Hvernig geta þeir sem líkja eftir honum í þessu efni talist hamingjusamir?
18 Segja má með sanni að þeir séu sælir sem misbeita ekki valdi sínu. Hvílíkt nafn hefur Jehóva Guð skapað sér með slíku fordæmi, með því að láta almætti sitt alltaf vera í jafnvægi við hina aðra eiginleika sína svo sem visku, réttvísi og kærleika! Við getum því tekið undir með sálmaritaranum Davíð: „Lofa þú [Jehóva], sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn.“ (Sálmur 103:1) Allir, sem hafa fylgt fordæmi Jehóva í því að fara rétt með vald, eru sannarlega hamingjusamir. Þau fordæmi, sem við höfum athugað í Ritningunni, sanna að jafnvel þótt við séum ófullkomnir menn getum við líka farið rétt með það vald sem við höfum. Þegar við gerum það höfum við bæði hreina samvisku, velvild Guðs og virðingu meðbræðra okkar.
Manst þú?
◻ Hvers vegna þarf að vara við því að misbeita valdi?
◻ Hvaða dæmi sýna að Jehóva Guð beitir valdi sínu rétt?
◻ Á hverju sést að Jesús gætti þess að misbeita ekki valdi sínu?
◻ Hvaða persónur Hebresku ritninganna sýndu að þær misbeittu ekki valdi?
◻ Hvernig sýndi Páll postuli gott fordæmi í því að fara rétt með vald?
[Mynd á blaðsíðu 21]
Höfuðeiginleikar Jehóva eru í fullkomnu jafnvægi
Kærleikur Máttur Réttvísi Viska
[Myndir á blaðsíðu 22]
Guð sýndi réttilega vald sitt
með flóðinu
í Sódómu og Gómorru
við Rauðahafið