,Gerið þetta í mína minningu‘
„[Jesús] gerði þakkir, braut [brauðið] og sagði: ,Þetta er líkami minn. Gjörið þetta í mína minningu.‘“ – 1. KOR. 11:24.
1, 2. Hvað má vera að postularnir hafi hugsað áður en Jesús lagði af stað til Jerúsalem í síðasta sinn?
„NÚ ER heiður himinn og við getum séð sigðlaga rönd tunglsins. Vaktmenn í Jerúsalem hljóta að hafa séð fyrstu rönd nýs tungls í gærkvöldi. Þegar æðstaráðið var látið vita lýsti það yfir að nýr mánuður væri hafinn, nísan. Það var síðan látið berast út með sendiboðum eða með því að kveikja elda, og fréttirnar náðu alla leiðina hingað. Nú hlýtur Jesús að vilja fara til Jerúsalem til að vera kominn þangað fyrir páska.“
2 Við getum ímyndað okkur að postular Jesú hafi hugsað eitthvað þessu líkt þegar þeir voru staddir með honum í Pereu (handan Jórdanar) og hann var á leið til Jerúsalem í síðasta sinn. (Matt. 19:1; 20:17, 29; Mark. 10:1, 32, 46) Eftir að úrskurðað hafði verið um fyrsta dag mánaðarins nísan vissu Gyðingar að halda átti páska 13 dögum síðar, eftir sólsetur hinn 14. nísan.
3. Hvers vegna hafa kristnir menn áhuga á dagsetningu páskanna?
3 Kvöldmáltíð Drottins verður haldin eftir sólsetur 14. apríl 2014 en sú dagsetning samsvarar páskadegi samkvæmt almanaki Gyðinga að fornu. Þetta er sérstakur dagur fyrir sannkristna menn og þá sem hafa áhuga á sannleika Biblíunnar. Ástæðan kemur fram í 1. Korintubréfi 11:23-25: „Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gerði þakkir, braut það og sagði: ,Þetta er líkami minn. Gjörið þetta í mína minningu.‘ Sömuleiðis tók hann og bikarinn.“
4. (a) Hvaða spurningar kunna að vakna varðandi minningarhátíðina? (b) Hvernig er ákvarðað ár frá ári hvenær skuli halda minningarhátíðina? (Sjá rammagreinina „Minningarhátíðin 2014“.)
4 Þú verður eflaust viðstaddur eina viðburðinn sem Jesús sagði að fylgjendur sínir ættu að halda hátíðlegan ár hvert. Þú ættir að spyrja þig hvernig þú getir búið þig undir þennan viðburð. Hvað verður borið fram þar? Hvernig fer samkoman fram? Og hvaða þýðingu ætti þessi viðburður og það sem borið er fram að hafa fyrir þig?
BRAUÐIÐ OG VÍNIÐ
5. Hvernig lét Jesús undirbúa síðustu páskamáltíðina sem hann neytti með postulunum?
5 Þegar Jesús bað postulana að hafa til herbergi til að halda páskamáltíðina minntist hann ekki á íburðarmiklar skreytingar. Líklega vildi hann bara hæfilega stórt og hreint húsnæði handa hópnum sem boðið var. (Lestu Markús 14:12-16.) Þeir áttu að útvega það sem þurfti til máltíðarinnar, meðal annars ósýrt brauð og rauðvín. Eftir að hafa neytt páskamáltíðarinnar beindi Jesús athyglinni að þessu tvennu.
6. (a) Hvað sagði Jesús um brauðið eftir páskamáltíðina? (b) Hvers konar brauð er notað við minningarhátíðina?
6 Matteus postuli var viðstaddur og skrifaði síðar: „Þá er þeir mötuðust tók Jesús brauð, gerði þakkir, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: ,Takið og etið.‘“ (Matt. 26:26) Brauðið var ósýrt eins og haft var við páskamáltíðina. (2. Mós. 12:8; 5. Mós. 16:3) Það var bakað úr hveiti og vatni, án súrdeigs, og ekki blandað í það kryddi eða salti. Þar sem það var ósýrt lyfti það sér ekki heldur líktist frekar stökkum flatkökum. Öldungar safnaðarins geta beðið einhvern að baka þess konar brauð úr hveiti og vatni fyrir minningarhátíðina. Það má baka á pönnu smurðri með örlítilli olíu. (Ef hveiti er ekki fáanlegt má baka brauðið úr hrís-, bygg- eða maísmjöli eða öðru sambærilegu mjöli.) Eins mætti nota páskabrauð Gyðinga ef ekki hefur verið bætt í það malti, eggjum eða lauk.
7. Hvað var í bikarnum sem Jesús rétti postulunum og hvers konar vín má nota við minningarhátíðina?
7 Matteus heldur áfram: „[Jesús] tók kaleik, gerði þakkir, gaf þeim og sagði: ,Drekkið allir hér af.‘“ (Matt. 26:27, 28) Það var bikar með rauðvíni sem Jesús rétti þeim. (Það gat ekki verið ferskur þrúgusafi því að vínberjauppskeran var löngu liðin.) Vín var ekki borið fram með fyrstu páskamáltíðinni í Egyptalandi en Jesús hafði ekkert á móti því að þess væri neytt við páskamáltíðina. Hann notaði það meira að segja við kvöldmáltíð Drottins. Þjónar Guðs bera því fram vín á minningarhátíðinni. Það var engin ástæða til að bæta neinu við blóð Jesú eða styrkja það. Ekki er því notað vín sem er kryddað eða styrkt með sterku áfengi. Nota ætti venjulegt rauðvín, annaðhvort heimagert eða aðkeypt, svo sem Beaujolais, Burgundy eða Chianti.
ÞAÐ SEM BRAUÐIÐ OG VÍNIÐ TÁKNA
8. Hvers vegna er kristnum mönnum hugleikið hvað brauðið og vínið tákna?
8 Af orðum Páls postula má sjá að það voru ekki aðeins postularnir sem áttu að halda kvöldmáltíð Drottins hátíðlega. Hann skrifaði trúsystkinum sínum í Korintu: „Ég hef meðtekið frá Drottni það sem ég hef kennt ykkur: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gerði þakkir, braut það og sagði: ,Þetta er líkami minn. Gjörið þetta í mína minningu.‘“ (1. Kor. 11:23, 24) Allt fram á þennan dag hafa kristnir menn því haldið minningarhátíðina árlega og verið hugleikið hvað brauðið og vínið tákna.
9. Hvað halda sumir ranglega um brauðið sem Jesús rétti postulunum?
9 Sumt kirkjurækið fólk bendir á að Jesús hafi sagt: „Þetta er líkami minn.“ Það trúir að brauðið hafi fyrir kraftaverk breyst í bókstaflegt hold hans. En það fær ekki staðist.a Líkami Jesú blasti við postulunum og hið sama er að segja um ósýrða brauðið sem þeir voru í þann mund að borða. Jesús notaði greinilega líkingamál hér eins og hann gerði við mörg önnur tækifæri. – Jóh. 2:19-21; 4:13, 14; 10:7; 15:1.
10. Hvað táknar brauðið sem borið er fram við kvöldmáltíð Drottins?
10 Brauðið, sem postularnir gátu séð og þeir áttu að neyta, táknaði líkama Jesú. Hvaða líkama? Einu sinni töldu þjónar Guðs að þar sem Jesús braut brauðið en ekkert beina hans var brotið hafi brauðið táknað „líkama Krists“, það er að segja söfnuð hinna andasmurðu. (Ef. 4:12; Rómv. 12:4, 5; 1. Kor. 10:16, 17; 12:27) Ítarlegri biblíurannsóknir leiddu hins vegar í ljós að brauðið táknaði mannslíkama Jesú sem honum var gefinn. Jesús „leið líkamlega“ og var meira að segja tekinn af lífi. Brauðið við kvöldmáltíð Drottins táknar því mannslíkamann sem Jesús fórnaði fyrir syndir okkar. – 1. Pét. 2:21-24; 4:1; Jóh. 19:33-36; Hebr. 10:5-7.
11, 12. (a) Hvað sagði Jesús um vínið? (b) Hvað táknar vínið sem borið er fram við kvöldmáltíð Drottins?
11 Þetta auðveldar okkur að skilja það sem Jesús sagði síðan um vínið. Við lesum: „Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: ,Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði.‘“ (1. Kor. 11:25) Var bikarinn, sem Jesús hélt á, nýi sáttmálinn? Nei. Orðið „bikar“ vísar til þess sem var í honum, það er að segja vínsins. Hvað sagði Jesús að vínið táknaði? Það táknaði úthellt blóð hans.
12 Í Markúsarguðspjalli er haft eftir Jesú: „Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga.“ (Mark. 14:24) Já, blóði Jesú yrði „úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda“. (Matt. 26:28) Rauðvínið er því viðeigandi tákn um bókstaflegt blóð Jesú. Vegna blóðs hans getum við fengið endurlausn og „fyrirgefningu afbrota vorra“. – Lestu Efesusbréfið 1:7.
HVERNIG FER MINNINGARHÁTÍÐIN FRAM?
13. Lýstu hvernig hin árlega minningarhátíð um dauða Krists fer fram.
13 Við hverju mátt þú búast þegar þú sækir minningarhátíðina með vottum Jehóva í fyrsta sinn? Hún verður trúlega haldin í hreinu og snyrtilegu húsnæði þar sem allir geta notið samkomunnar vel. Vera má að þar séu látlausar blómaskreytingar en þú sérð ekkert æpandi eða áberandi skraut og það er ekki veislublær yfir samkomunni. Öldungur ræðir á skýran og virðulegan hátt um það sem Biblían segir um kvöldmáltíð Drottins. Hann fjallar um það sem Kristur gerði fyrir okkur og um fórnina sem hann færði til að við getum lifað. (Lestu Rómverjabréfið 5:8-10.) Ræðumaðurinn útskýrir að samkvæmt Biblíunni skiptist kristnir menn í tvo hópa sem hafa hvor sína vonina.
14. Um hvaða tvenns konar von er rætt á minningarhátíðinni?
14 Önnur vonin er fólgin í því að ríkja með Kristi á himnum. Tiltölulega fámennur hópur fylgjenda hans á sér þessa von, þar á meðal trúir postular hans. (Lúk. 12:32; 22:19, 20; Opinb. 14:1) Flestir kristnir menn, sem þjóna Guði dyggilega á okkar dögum, eiga sér annars konar von. Þeir eiga í vændum að lifa að eilífu í endurreistri paradís á jörð. Þá nær vilji Guðs fram að ganga á jörð eins og á himnum líkt og kristnir menn hafa lengi beðið um. (Matt. 6:10) Í Biblíunni er lýst hve unaðslegt það verði að lifa að eilífu á jörð. – Jes. 11:6-9; 35:5, 6; 65:21-23.
15, 16. Hvernig er farið með ósýrða brauðið við kvöldmáltíð Drottins?
15 Undir lok ræðunnar segir ræðumaðurinn að kominn sé tími til að fara eftir því sem Jesús sagði postulunum að gera við þetta tilefni. Eins og fram hefur komið verður borið fram ósýrt brauð og rautt vín. Það stendur líklega á borði nálægt ræðumanninum. Hann bendir á hvernig Biblían lýsir því sem Jesús sagði og gerði þegar hann stofnaði til minningarhátíðarinnar. Til dæmis gæti hann lesið upp úr Matteusarguðspjalli þar sem segir: „Þá er þeir mötuðust tók Jesús brauð, gerði þakkir, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: ,Takið og etið, þetta er líkami minn.‘“ (Matt. 26:26) Jesús braut ósýrða brauðið til að rétta það postulunum sem voru honum til beggja handa. Á minningarhátíðinni 14. apríl sérðu ósýrt brauð sem búið er að brjóta og er borið fram á diski.
16 Diskarnir eru nógu margir til að það taki hæfilega stuttan tíma að láta þá ganga milli allra viðstaddra. Engir flóknir helgisiðir eru viðhafðir. Farið er með stutta bæn og síðan eru diskarnir látnir ganga milli samkomugesta eftir því sem best hentar á hverjum stað. Fáir neyta brauðsins (eða jafnvel enginn) svipað og var í flestum söfnuðum þegar brauðið var borið fram á minningarhátíðinni árið 2013.
17. Hvernig er fyrirmælum Jesú um vínið fylgt á minningarhátíðinni?
17 Því næst er athyglinni beint að því sem Matteus lýsti í framhaldinu: „[Jesús] tók kaleik, gerði þakkir, gaf þeim og sagði: ,Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.‘“ (Matt. 26:27, 28) Í samræmi við þessa fyrirmynd er farið með aðra bæn og síðan er rauðvínið látið ganga milli allra viðstaddra.
18. Hvers vegna er mikilvægt að sækja minningarhátíðina þó að fáir eða engir neyti brauðsins og vínsins?
18 Aðeins þeir sem eiga að ríkja með Kristi á himnum neyta brauðsins og vínsins. Flestir viðstaddra láta því brauðið og vínið einfaldlega ganga áfram til næsta manns. (Lestu Lúkas 22:28-30; 2. Tím. 4:18) Þó að fæstir í söfnuðinum neyti brauðsins og vínsins er samt mikilvægt fyrir þá að sækja minningarhátíðina. Hvers vegna? Með nærveru sinni sýna þeir að fórn Jesú er þeim mikils virði. Á samkomunni geta þeir hugleitt þá blessun sem lausnarfórn Jesú getur veitt þeim. Þeir eiga í vændum að tilheyra ,múginum mikla‘ sem kemst lifandi úr „þrengingunni miklu“. Þessir tilbiðjendur Guðs hafa „hvítþvegið skikkjur sínar í blóði lambsins“. – Opinb. 7:9, 14-17.
19. Hvernig getur þú búið þig undir kvöldmáltíð Drottins og haft sem mest gagn af henni?
19 Vottar Jehóva um heim allan búa sig vel undir þessa sérstöku samkomu. Vikurnar á undan bjóðum við eins mörgum og hægt er að sækja hana. Og dagana fyrir minningarhátíðina lesum við flest frásagnir Biblíunnar af því sem Jesús gerði og því sem átti sér stað sömu daga árið 33. Við gerum ráðstafanir með góðum fyrirvara til að vera viðstödd. Það er gott að koma tímanlega áður en samkoman hefst með söng og bæn. Þá getum við boðið gesti velkomna og fylgst með allri dagskránni. Það er gagnlegt fyrir alla í söfnuðinum og gesti sömuleiðis að fylgjast með í Biblíunni þegar ræðumaður les upp úr henni og skýrir textann. Mestu máli skiptir þó að með nærveru okkar sýnum við að við erum innilega þakklát fyrir fórn Jesú, og við hlýðum fyrirmælum hans: „Gjörið þetta í mína minningu.“ – 1. Kor. 11:24.
a Þýski fræðimaðurinn Heinrich Meyer segir: „Gestirnir [postularnir] sáu að líkami Jesú var enn óbrotinn (enn lifandi) og blóði hans hafði ekki verið úthellt. Enginn þeirra hefur því getað ímyndað sér ... að hann væri í raun og veru að eta og drekka sjálfan líkama og blóð Drottins, þannig að Jesús getur ekki hafa ætlast til að einföld orð hans yrðu skilin öðruvísi en þeir gátu meðtekið á þeim tíma.“