Hvers vegna kvöldmáltíð Drottins hefur þýðingu fyrir þig
JESÚS KRISTUR stofnsetti kvöldmáltíð Drottins síðasta ævikvöld sitt sem maður. Það var fimmtudagskvöldið 31. mars og Jesús dó síðdegis föstudaginn 1. apríl. Þar eð dagurinn hjá Gyðingum hófst við sólarlag og stóð til sólarlags daginn eftir bar bæði máltíðina og dauða Jesú upp á 14. nísan árið 33 eftir okkar tímatali.
Hvers vegna kom Jesús þessari máltíð á? Hvað táknar brauðið og vínið sem hann notaði? Hverjir ættu að neyta þess? Hve oft ætti að halda þessa hátíð? Og hvernig getur hún haft þýðingu fyrir þig?
Hvers vegna var henni komið á?
Jesús sagði postulum sínum um þessa máltíð: „Gjörið þetta í mína minningu.“ Samkvæmt annarri þýðingu sagði hann: „Haldið þetta sem minningarhátíð um mig.“ (1. Korintubréf 11:24; The New English Bible) Kvöldmáltíð Drottins er oft kölluð minningarhátíðin um dauða Krists.
Jesús dó sem ráðvandur maður. Hann hafði haldið drottinvaldi Jehóva á lofti og þar með sannað að Satan hafði farið með ögrandi lygi er hann ásakaði ráðvanda menn um að þjóna Guði einungis af eigingjörnum hvötum. (Jobsbók 2:1-5) Með dauða sínum gladdi hann hjarta Guðs. — Orðskviðirnir 27:11.
Með dauða sínum sem fullkominn maður ‚gaf Jesús einnig líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.‘ (Matteus 20:28) Þegar fyrsti maðurinn syndgaði gegn Guði fyrirgerði hann fullkomnu mannslífi sínu og þeim framtíðarhorfum sem fylgdu því. En „svo elskaði Guð heiminn [mannkynið], að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Já, „laun syndarinnar er dauði, en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú.“ — Rómverjabréfið 6:23.
„Meðtekið frá Drottni“
Orð Páls postula varpa ljósi á það hvernig minningarhátíðin um dauða Krists skuli fara fram: „Því að ég hef meðtekið frá Drottni það, sem ég hef kennt yður: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gjörði þakkir, braut það og sagði: ‚Þetta er minn líkami, sem er fyrir yður. Gjörið þetta í mína minningu.‘ Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: ‚Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.‘ Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur.“ — 1. Korintubréf 11:23-26.
Úr því að Páll postuli var ekki með Jesú og postulunum 11 þann 14. nísan árið 33 hlýtur hann að hafa ‚meðtekið þessar upplýsingar frá Drottni‘ við innblásna opinberun. Jesús stofnaði til minningarhátíðarinnar ‚nóttina sem hann var svikinn‘ af Júdasi í hendur trúarlegum fjandmönnum sínum af hópi Gyðinga sem fengu síðan Rómverja til að staurfesta Krist. Þeir sem hefðu rétt á að taka af hinu táknræna brauði og víni væru að gera það í hans minningu.
Hve oft skal það gert?
Hvað er átt við með orðum Páls: „Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur“? Trúfastir smurðir kristnir menn áttu að taka „oft“ af brauðinu og víninu við minningarhátíðina uns þeir dæju og yrðu síðar reistir upp til lífs á himnum. Þannig myndu þeir, bæði fyrir Guði og heiminum, oft boða trú sína á fórn Jesú sem Jehóva sá fyrir. Hve lengi? „Þangað til hann kemur,“ sagði Páll og átti þar greinilega við að þessari trúarathöfn yrði haldið áfram uns Jesús kæmi til að taka smurða fylgjendur sína til himna með því að reisa þá upp við „komu“ sína eða nærveru. (1. Þessaloníkubréf 4:14-17) Það er í samræmi við orð Krists við 11 trúfasta postula sína: „Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.“ — Jóhannes 14:3.
Ætti að minnast dauða Jesú daglega eða kannski vikulega? Nú, Jesús kom kvöldmáltíð Drottins á og hann var drepinn á páskum sem haldnir voru til að minnast frelsunar Ísraels úr fjötrum í Egyptalandi. Hann er meira að segja kallaður ‚páskalamb okkar, Kristur,‘ vegna þess að hann er lambið sem fórnað er í þágu kristinna manna. (1. Korintubréf 5:7) Páskar voru haldnir einu sinni á ári, þann 14. nísan. (2. Mósebók 12:6, 14; 3. Mósebók 23:5) Það bendir til að dauða Jesú skuli minnst jafnoft og páskar voru haldnir — árlega, ekki daglega eða vikulega.
Í nokkrar aldir minntust margir, sem játuðu kristna trú, dauða Jesú einu sinni á ári. Þar eð þeir gerðu það þann 14. nísan voru þeir kallaðir Kvartodesimenn sem merkir „fjórtándamenn.“ Sagnfræðingurinn J. L. von Mosheim sagði um þá: „Kristnir menn í Litlu-Asíu voru vanir að halda þessa helgu veislu, til minningar um stofnsetningu kvöldmáltíðar Drottins og dauða Jesú Krists, á sama tíma og Gyðingar átu páskalamb sitt, það er að segja að kvöldi fjórtánda dags fyrsta mánaðarins [nísan]. . . . Þeir litu svo á að fordæmi Krists væri ígildi laga.“
Það sem brauðið og vínið tákna
Páll sagði að Jesús hafi ‚tekið brauð, gjört þakkir og brotið það.‘ Brauðið, sem var hart og stökkt eins og hrökkbrauð, var bakað úr hveiti og vatni án súrdeigs eða gers og það þurfti að brjóta það til að borða það. Í táknmáli Biblíunnar táknar súrdeig synd eða spillingu. Er Páll hvatti kristna menn í Korintu til að víkja siðlausum manni úr söfnuðinum sagði hann: „Vitið þér ekki, að lítið súrdeig sýrir allt deigið? Hreinsið burt gamla súrdeigið, til þess að þér séuð nýtt deig, enda eruð þér ósýrðir. Því að páskalambi voru er slátrað, sem er Kristur. Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi né með súrdeigi illsku og vonsku, heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.“ (1. Korintubréf 5:6-8) Rétt eins og örlítið súrdeig sýrir allt deigið, eins yrði söfnuðurinn óhreinn í augum Guðs ef spillingaráhrif syndarans væru ekki upprætt. Þeir þurftu að losa sig við „súrdeigið“ alveg eins og Ísraelsmenn máttu ekki eiga súrdeig í húsum sínum meðan hátíð ósýrðu brauðanna stóð, en hún fylgdi í kjölfar páskanna.
Jesús sagði um ósýrt brauð minningarhátíðarinnar: „Þetta er minn líkami, sem er fyrir yður.“ (1. Korintubréf 11:24) Brauðið táknar fullkominn, holdlegan líkama Jesú sem Páll skrifaði um: „Því er það, að Kristur segir, þegar hann kemur í heiminn: ‚Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað, en líkama hefur þú búið mér. Brennifórnir og syndafórnir geðjuðust þér ekki. Þá sagði ég: „Sjá, ég er kominn — í bókinni er það ritað um mig — ég er kominn til að gjöra þinn vilja, Guð minn!“‘ . . . Og samkvæmt þessum vilja erum vér helgaðir með því, að líkama Jesú Krists var fórnað í eitt skipti fyrir öll.“ (Hebreabréfið 10:5-10) Fullkominn líkami Jesú Krists var syndlaus og þjónaði sem lausnarfórn í þágu mannkyns. — Hebreabréfið 7:26.
Eftir að hafa beðið yfir bikarnum með hreinu, ómenguðu rauðvíni sagði Jesús: „Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði.“ (1. Korintubréf 11:25) Önnur þýðing hljóðar svo: „Þessi bikar merkir nýja sáttmálann sem er staðfestur með blóði mínu.“ (Moffatt) Alveg eins og blóð nauta og hafra, sem fórnað var, fullgilti lagasáttmálann milli Guðs og Ísraelsþjóðarinnar, eins fullgilti blóð Jesú, sem úthellt var við dauða hans, nýja sáttmálann. Það að nýi sáttmálinn skuli nefndur hjálpar okkur að skilja hverjir skuli með réttu neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni.
Hverjir ættu að neyta þess?
Smurðir fylgjendur Jesú, sem eru aðilar að nýja sáttmálanum, neyta með réttu brauðsins og vínsins. Þessi sáttmáli er gerður milli Guðs og hins andlega Ísraels. (Jeremía 31:31-34; Galatabréfið 6:16) En nýi sáttmálinn mun um síðir verða öllu hlýðnu mannkyni til blessunar, og þú getur orðið í hópi þeirra sem hljóta þá blessun.
Þeir sem neyta brauðsins og vínsins verða að eiga aðild að persónulegum sáttmála um Guðsríki sem Jesús gerði. Þegar Jesús efndi til þessarar máltíðar sagði hann trúum postulum sínum: „Yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér.“ (Lúkas 22:29) Sáttmálinn um ríkið, sem Guð gerði við Davíð konung, benti fram til þess að koma myndi eilífur konungur og það var Jesús. Hinum 144.000 andlegu Ísraelsmönnum, sem munu deila stjórninni með Jesú, er lýst sem standi þeir á himnesku Síonfjalli ásamt lambinu, Jesú Kristi. Er þeir hljóta upprisu taka þeir að ríkja með Kristi sem meðkonungar og prestar. (2. Samúelsbók 7:11-16; Opinberunarbókin 7:4; 14:1-4; 20:6) Þeir einir, sem eru aðilar að nýja sáttmálanum og einkasáttmálanum við Jesú, taka með réttu af brauðinu og víninu við kvöldmáltíð Drottins.
Andi Guðs ber vitni með anda hinna smurðu um að þeir séu börn hans og samerfingjar með Kristi. Páll skrifaði: „Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn. En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum.“ (Rómverjabréfið 8:16, 17) Heilagur andi Guðs, starfskraftur hans, skapar með hinum smurðu þá óvenjulegu löngun að lifa á himnum. Þeir líta svo á að öllu, sem Ritningin segir um líf á himnum, sé beint til þeirra og eru fúsir til að skilja við allt sem jarðneskt er, meðal annar mannslíf sitt og ættingja. Enda þótt lífið í hinni jarðnesku paradís verði unaðslegt vonast þeir ekki eftir að lifa þar. (Lúkas 23:43) Örugg og óbreytanleg himnesk von, sem byggist ekki á fölskum trúarskoðunum, gefur þeim rétt til að neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni.
Jehóva hefði vanþóknun á því ef einhver léti sem hann væri kallaður til að vera himneskur konungur og prestur án þess að hafa slíka köllun. (Rómverjabréfið 9:16; Opinberunarbókin 22:5) Guð líflét Kóra fyrir að sækjast óskammfeilinn eftir prestsembætti. (2. Mósebók 28:1; 4. Mósebók 16:4-11, 31-35) Hvað þá ef sterk tilfinning eða fyrri trúarhugmyndir hafa komið manni til að taka ranglega af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni? Þá ætti hann að hætta því og biðja um fyrirgefningu Guðs. — Sálmur 19:14, Bi. 1859.
Áhrifin á þig
Enginn þarf að neyta af brauðinu og víninu til að lausnarfórn Jesú geti náð til hans og hann hljóti eilíft líf á jörðinni. Til dæmis gefur Biblían hvergi til kynna að guðhrætt fólk eins og Abraham, Sara, Ísak, Rebekka, Bóas, Rut og Davíð muni nokkurn tíma neyta þessara tákna. Hins vegar verða þau, og allir aðrir sem þrá endalaust líf hér á jörð, að iðka trú á Guð og Krist og lausnarfórn Jesú sem Jehóva sá fyrir. (Jóhannes 3:36; 14:1) Hin árlega minningarhátíð um dauða Krists minnir á þessa miklu fórn.
Jóhannes postuli sýndi fram á þessa mikilvægu þýðingu fórnar Jesú er hann sagði: „Þetta skrifa ég yður til þess að þér skuluð ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta. Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.“ (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Smurðir kristnir menn geta sagt að Jesús sé „friðþæging fyrir syndir“ þeirra, en hann er líka friðþæging fyrir syndir alls heimsins og gerir hlýðnu mannkyni mögulegt að lifa að eilífu í þeirri jarðnesku paradís sem er svo nærri núna.
Með því að vera viðstaddur minningarhátíðina um dauða Krists nýtur þú góðs af hugvekjandi biblíufyrirlestri sem fluttur er. Þú verður minntur á hve mikið Jehóva Guð og Jesús Kristur hafa gert fyrir okkur. Það er andlega auðgandi að safnast saman með þeim sem bera djúpa virðingu fyrir Guði og Kristi og fyrir lausnarfórn Jesú. Vel má vera að samkoman auki löngun þína til að fá að njóta óverðskuldaðrar gæsku Guðs sem leiðir til eilífs lífs. Við hvetjum þig til að koma saman með vottum Jehóva eftir sólsetur þann 6. apríl 1993 til að minnast dauða Jesú Krists, vegna þess að kvöldmáltíð Drottins getur haft mikla þýðingu fyrir þig.