Vertu hamingjusamur – sýndu hinum bágstadda miskunn
„Sá sem fyrirlítur vin sinn, drýgir synd, en sæll er sá, sem miskunnar sig yfir hina voluðu.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 14:21.
1, 2. Hvað kom fyrir þrjár fjölskyldur á Filippseyjum og hvaða spurningar vekur það hjá okkur?
MEÐAN þrjár filippínskar fjölskyldur í Pangasinan voru á kristinni samkomu brunnu hús þeirra til ösku. Þegar þær komu heim voru þær bæði matar- og heimilislausar. Þegar aðrir í söfnuðinum fréttu af eldsvoðanum flýttu þeir sér á vettvang með matvæli og sáu um að fjölskyldurnar þrjár fengju inni hjá öðrum í söfnuðinum. Morguninn eftir komu nokkrir trúbræður þeirra á vettvang með bambus og önnur byggingarefni. Þessi bróðurkærleikur hafði djúp áhrif á nágrannanna. Fjölskyldurnar þrjár urðu líka fyrir góðum áhrifum. Hús þeirra höfðu brunnið til kaldra kola en trú þeirra og aðrir kristnir eiginleikar styrktust við þann kærleika sem þeim var sýndur. — Matteus 6:33; samanber 1. Korintubréf 3:12-14.
2 Er ekki hvetjandi að heyra slíkar frásögur? Þær byggja upp trú okkar á mannkærleika og kraft sannrar kristni. (Postulasagan 28:2) En gerum við okkur ljósan biblíulegan grunn þess að „gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum“? (Galatabréfið 6:10) Og hvernig getum við sem einstaklingar gert betur í þessu efni?
Frábært fordæmi
3. Hverju megum við treysta varðandi umhyggju Jehóva fyrir okkur?
3 Lærisveinninn Jakob skrifar: „Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að.“ (Jakobsbréfið 1:17) Það er mikill sannleikur því að Jehóva sér ríkulega fyrir andlegum og efnislegum þörfum okkar! En á hvað leggur hann meiri áherslu? Hið andlega. Hann gaf okkur til dæmis Biblíuna til að við hefðum andlegan vegvísi og von. Þungamiðja þeirrar vonar er sú gjöf sem felst í syni hans, en fórn hans er grundvöllur þess að okkur sé fyrirgefið og við höfum von um eilíft líf. — Jóhannes 3:16; Matteus 20:28.
4. Á hverju er ljóst að Guði er líka annt um að líkamlegum þörfum okkar sé fullnægt?
4 Jehóva hefur líka áhuga á efnislegri velferð okkar. Páll postuli ræddi um það við Lýstrubúa. Þótt þeir tilbæðu ekki Jehóva gátu þeir ekki neitað að skaparinn hefði ‚gert gott, gefið okkur regn af himni, uppskerutíðir, veitt okkur fæðu og fyllt hjörtu okkar gleði.‘ (Postulasagan 14:15-17) Vegna kærleika síns fullnægir Jehóva bæði andlegum þörfum okkar og líkamlegum. Heldur þú ekki að það stuðli að því að gera hann að ‚sælum Guði‘? — 1. Tímóteusarbréf 1:11.
5. Hvað getum við lært af afskiptum Guðs af Forn-Ísrael?
5 Afskipti Guðs af Ísrael til forna sýnir með glöggum hætti hvernig hann gaf gaum bæði andlegum og efnislegum þörfum dýrkenda sinna svo að í fullkomnu jafnvægi var. Fyrst gaf hann þjóð sinni lögmálið. Konungarnir áttu að gera sér einkaeintak af lögmálinu og þjóðinni var safnað saman reglulega til að heyra það lesið. (5. Mósebók 17:18; 31:9-13) Í lögmálinu voru ákvæði um tjaldbúð eða musteri og um presta til að bera fram fórnir til að fólk gæti notið hylli Guðs. Ísraelsmenn komu reglulega saman til andlegra hátíðahalda sem voru hápunktar í guðsdýrkun þeirra. (5. Mósebók 16:1-17) Vegna alls þessa gátu Ísraelsmenn sem einstaklingar verið andlega ríkir hjá Guði.
6, 7. Hvernig sýndi Jehóva í lögmálinu umhyggju sína fyrir líkamlegu ástandi Ísraelsmanna?
6 Lögmálið sýndi líka hvílíkan gaum Guð gaf líkamlegum aðstæðum þjóna sinna. Vera má að þér komi í hug lög sem gefin voru Ísrael um hreinlæti og ákveðnar reglur til að sem minnst hætta væri á smitun og farsóttum. (5. Mósebók 14:11-21; 23:10-14) Ekki má þó líta fram hjá sérstökum ráðstöfunum Guðs til hjálpar fátækum og bágstöddum. Heilsubrestur, slysfarir, eldsvoði eða flóð gat steypt Ísraelsmanni niður í fátækt. Í lögmáli sínu viðurkenndi Jehóva að ekki yrðu allir jafnt settir fjárhagslega. (5. Mósebók 15:11) En hann lét ekki við það sitja að sýna fátækum og bágstöddum samúð. Hann sá líka um að þeir fengju hjálp.
7 Einhver brýnasta þörf nauðstaddra var matur. Guð gaf því þau fyrirmæli að fátæklingum í Ísrael væri frjálst að gera eftirtíning á ökrum, í víngörðum og ólífulundum. (5. Mósebók 24:19-22; 3. Mósebók 19:9, 10; 23:22) Þessi aðferð Guðs var fólki ekki hvatning til að liggja í leti eða lifa á opinberum matargjöfum þegar það gæti unnið. Sá sem gerði eftirtíning þurfti að leggja hart að sér, ef til vill að vinna langan vinnudag í heitri sólinni til að safna sér mat til eins dags. Við ættum samt sem áður ekki að láta okkur yfirsjást að með þessum hætti sá Guð á tillitssaman hátt fyrir hinum fátæku. — Samanber Rutarbók 2:2-7; Sálm 69:34; 102:18.
8. (a) Hvað voru Gyðingar hvattir til að gera fyrir bræður sína? (Samanber Jeremía 5:26, 28.) (b) Hver eru viðhorf margra nú til dags með hliðsjón af hvatningu Guðs til Gyðinga?
8 Jehóva lét líka í ljós umhyggju sína fyrir nauðstöddum með yfirlýsingum svo sem í Jesaja 58:6, 7. Á þeim tíma þegar ýmsir sjálfsánægðir Ísraelsmenn föstuðu með sýndarlátum sagði spámaður Guðs: „Sú fasta, sem mér líkar, er að . . . gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sérð klæðalausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð.“ Sumir standa vörð um það sem kalla mætti ‚þægindasvið‘ þeirra. Þeir eru fúsir til að hjálpa þurfandi manni aðeins ef það kostar þá enga fórn eða óþægindi. En það er allt annar andi sem hvatt var til í orðum Guðs fyrir munn Jesaja! — Sjá einnig Esekíel 18:5-9.
9. Hvaða ákvæði voru í lögmálinu um lán og hvaða viðhorfa hvatti Guð til?
9 Ísraelsmenn gátu líka sýnt fátækum bræðrum sínum umhyggju með því að lána þeim fé. Ætlast mátti til að fá féð endurgreitt með vöxtum ef það var tekið að láni í þeim tilgangi að stunda verslun og viðskipti. Samkvæmt lögmáli Jehóva átti hins vegar ekki að taka vexti af fé sem lánað var fátækum bróður sem gæti ella í örvæntingu sinni freistast til rangrar breytni. (2. Mósebók 22:25; 5. Mósebók 15:7, 8, 11; 23:19, 20; Orðskviðirnir 6:30, 31) Viðhorf Guðs til nauðstaddra átti að vera þjónum hans fyrirmynd. Okkur er jafnvel heitið: „Sá lánar [Jehóva], er líknar fátækum, og hann mun launa honum góðverk hans.“ (Orðskviðirnir 19:17) Hugsaðu þér — við getum lánað Jehóva í þeirri vissu að hann endurgreiði okkur ríkulega!
10. Hvers gætir þú spurt þig eftir að hafa hugleitt fordæmi Guðs?
10 Því ættum við öll að spyrja: Hvað þýðir viðhorf Guðs og meðferð á bágstöddum fyrir mig? Hef ég lært af fullkomnu fordæmi hans og reyni ég að líkja eftir því? Get ég gert eitthvað til að líkjast Guði betur í þessu efni? — 1. Mósebók 1:26.
Eftirmynd föður síns
11. Hvaða viðhorf hafði Jesús líkt og faðir hans? (2. Korintubréf 8:9)
11 Jesús Kristur er „ljómi dýrðar [Jehóva] og ímynd veru hans.“ (Hebreabréfið 1:3) Við megum því búast við að hann endurspegli umhyggju föður síns fyrir þeim sem hafa áhuga á sannri guðsdýrkun. Það gerði hann. Jesús sýndi fram á að brýnast væri að bregðast við andlegri fátækt: „Sælir eru þeir sem skynja andlega þörf sína því að þeirra er himnaríki.“ (Matteus 5:3, NW; samanber Lúkas 6:20.) Kristur sagði einnig: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóhannes 18:37) Þess vegna var hann ekki þekktur fyrst og fremst sem kraftaverkamaður eða læknari heldur sem kennari. (Markús 10:17-21; 12:28-33) Gefðu í þessu sambandi gaum Markúsi 6:30-34. Þar lesum við um það að Jesús hafi viljað slaka á og safna kröftum í einrúmi. Þá „sá hann þar mikinn mannfjölda . . . [sem] voru sem sauðir, er engan hirði hafa.“ Hvað gerði hann? „Hann kenndi þeim margt.“ Já, Jesús lagði mikið á sig til að veita þessu fólki það sem það hafði brýnasta þörf fyrir: sannleikann sem gat veitt því eilíft líf. — Jóhannes 4:14; 6:51.
12. Hvað má læra af Markúsi 6:30-34 og 35-44 um viðhorf Jesú?
12 Þótt Jesús einbeitti sér að andlegum þörfum auðmjúkra Gyðinga gleymdi hann ekki líkamlegum þörfum þeirra. Frásögn Markúsar sýnir að Jesú var ljós þörf þess fyrir bókstaflegan mat. Postularnir lögðu fyrst til að hann sendi mannfjöldann burt til að hann gæti „keypt sér eitthvað til matar.“ Jesús féllst ekki á það. Þá stungu postularnir upp á að tekið væri úr sameiginlegum sjóði þeirra til matarkaupa. Þess í stað kaus Jesús að gera sitt fræga kraftaverk að gefa 5000 karlmönnum, auk kvenna og barna, brauð og fisk að eta. Sumir segja að það hafi kannski verið auðvelt fyrir Jesú að gefa mannfjöldanum að borða með kraftaverki. Við megum samt ekki líta fram hjá því að hann bar ósvikna umhyggju fyrir því og sýndi hana í verki. — Markús 6:35-44; Matteus 14:21.a
13. Með hvaða öðrum hætti sýndi Jesús umhyggju fyrir öðrum?
13 Þú hefur sennilega lesið frásagnir guðspjallanna sem sýna að Jesús fann til með fleirum en fátækum. Hann hjálpaði líka sjúkum og veikburða. (Lúkas 6:17-19; 17:12-19; Jóhannes 5:2-9; 9:1-7) Hann lét sér ekki nægja aðeins að lækna þá sem svo vildi til að voru í nánd við hann. Stundum gerði hann sér ferð til hins sjúka til að hjálpa. — Lúkas 8:41-55.
14, 15. (a) Hvers vegna megum við vera viss um að Jesús ætlaðist til að fylgjendur hans bæru sams konar umhyggju fyrir öðrum? (b) Hvað ættum við að spyrja okkur um?
14 En áttu þeir einir, sem gátu gert kraftaverk, að láta sig varða þarfir fátækra og bágstaddra lærisveina (eða sannleiksleitandi manna)? Nei. Allir lærisveinar Jesú sýndu umhyggju og breyttu í samræmi við það. Til dæmis hvatti hann ríkan mann sem vildi hljóta eilíft líf: „Sel allt, sem þú átt, og skipt meðal fátækra, og munt þú fjársjóð eiga á himnum.“ (Lúkas 18:18-22) Jesús ráðlagði líka: „Þegar þú gjörir veislu, þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum, og munt þú sæll verða, því að þeir geta ekki endurgoldið þér, en þú færð það endurgoldið í upprisu réttlátra.“ — Lúkas 14:13, 14.
15 Kristinn maður er sá sem fylgir Kristi. Því ættum við öll að spyrja okkur: Í hvaða mæli líki ég eftir viðhorfum og verkum Jesú gagnvart fátækum, bágstöddum og sjúkum? Get ég sagt hreinskilnislega eins og Páll postuli: „Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists“? — 1. Korintubréf 11:1.
Páll — gott fordæmi
16. Hvað var Páli sérstaklega hugleikið?
16 Við hæfi er að láta getið Páls postula hér, því að hann var líka gott fordæmi. Eins og við er að búast gaf hann fyrst og fremst gaum andlegum þörfum annarra. Hann var ‚erindreki í Krists stað sem áminnti: Látið sættast við Guð.‘ (2. Korintubréf 5:20) Sérverkefni Páls var að prédika og byggja upp söfnuði meðal fólks sem ekki var Gyðingar. Hann skrifaði: „Mér var trúað fyrir fagnaðarerindinu til óumskorinna manna.“ — Galatabréfið 2:7.
17. Hvernig vitum við að Páll gaf líka gaum líkamlegum þörfum annarra?
17 Nú sagðist Páll breyta eftir Kristi. Gaf hann líka gaum (eins og Jehóva og Jesús) líkamlegum þörfum eða erfiðleikum trúbræðra sinna? Látum hann sjálfan svara. Í Galatabréfinu 2:9 heldur hann áfram: ‚Jakob, Kefas [Pétur] og Jóhannes gáfu mér og Barnabasi hönd sína til bræðralags: Við skyldum fara til heiðingjanna.‘ Síðan bætir hann við í næsta versi: „Það eitt var til skilið, að við skyldum minnast hinna fátæku, og einmitt þetta hef ég líka kappkostað að gjöra.“ (Galatabréfið 2:10) Páll gerði sér því ljóst að jafnvel þótt hann væri trúboði og postuli, og að á honum hvíldi ábyrgð gagnvart mörgum söfnuðum, mátti hann ekki vera svo upptekinn að hann gæfi ekki gaum líkamlegri velferð bræðra sinna og systra.
18. Hvaða ‚fátæklinga‘ átti Páll líklega við í Galatabréfinu 2:10 og hvers vegna bar að sýna þeim umhyggju?
18 Þeir „fátæku,“ sem hann gat um í Galatabréfinu 2:10, voru líklega mestan part kristnir Gyðingar í Jerúsalem og Júdeu. Áður höfðu ‚grískumælandi menn kvartað út af því að hebreskir settu ekkjur þeirra hjá við daglega úthlutun‘ matar. (Postulasagan 6:1) Þegar Páll nefnir að hann sé postuli þjóðanna lætur hann því skýrt í ljós að hann líti ekki fram hjá neinum í hinu kristna bræðrafélagi. (Rómverjabréfið 11:13) Honum var ljóst að umhyggja fyrir andlegri velferð bræðranna fólst í orðunum: „Til þess að ekki yrði ágreiningur í líkamanum . . . og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum.“ — 1. Korintubréf 12:25, 26.
19. Hvaða sönnun er fyrir því að Páll og aðrir sýndu umhyggju sína í verki?
19 Þegar kristnir menn í Jerúsalem og Júdeu þjáðust sökum fátæktar, hungursneyðar eða ofsókna komu fjarlægir söfnuðir þeim til hjálpar. Þeir hafa að sjálfsögðu beðið Guð að hjálpa og styrkja nauðstadda bræður sína. En þeir létu ekki þar við sitja. Páll skrifaði að „Makedónía og Akkea hafa ákveðið að gangast fyrir samskotum handa fátæklingum meðal hinna heilögu í Jerúsalem.“ (Rómverjabréfið 15:26, 27) Þeir sem lögðu bágstöddum bræðrum sínum efnislega lið ‚urðu í öllu auðugir og gátu jafnan sýnt örlæti sem kom til leiðar hjálpræði við Guð fyrir vort tilstilli.‘ (2. Korintubréf 9:1-13) Veitti það þeim ekki hamingju?
20. Hvers vegna gátu þeir bræður, sem hjálpuðu ‚hinum fátæku,‘ verið hamingjusamir?
20 Bræðurnir, sem gáfu af efnum sínum „handa fátæklingum meðal hinna heilögu í Jerúsalem,“ höfðu enn aðra ástæðu til að vera hamingjusamir. Það að sinna þörfum bágstaddra aflaði þeim velvildar Guðs. Við sjáum hvers vegna þegar við höfum í huga að gríska orðið, sem þýtt er „samskot“ í Rómverjabréfinu 15:26 og ‚að gefa‘ í 2. Korintubréfi 9:13, felur í sér hugmyndina um „tákn bræðralags, sönnun um bróðurlega einingu, jafnvel gjöf.“ Það er notað í Hebreabréfinu 13:16 sem segir: „En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.“
Verðum við hamingjusöm?
21. Hvað gefur okkur tilefni til hamingju?
21 Í þessari grein höfum við rætt vitnisburð Biblíunnar fyrir því að Jehóva Guð, Jesús Kristur og Páll postuli hafi annast bágstadda. Við höfum veitt athygli að andlegar þarfir voru mikilvægastar í hugum þeirra allra. En þeir sýndu líka í verki umhyggju sína fyrir fátækum, sjúkum og bágstöddum. Það veitti þeim hamingju að veita öðrum hjálp. Ættum við ekki líka að gera það? Páll postuli hvatti okkur til að „minnast orða Drottins Jesú, að hann sjálfur sagði: ‚Sælla er að gefa en þiggja.‘ “ — Postulasagan 20:35.
22. Hvaða hliðum þessa máls gefum við gaum þessu næst?
22 Þú spyrð kannski hvað þú getir gert. Með hvaða hætti getur þú vitað hver þarfnast hjálpar? Hvernig getur þú boðið fram hjálp án þess að hvetja til leti, hjálp sem er vingjarnleg og raunhæf, virðir tilfinningar annarra og er í jafnvægi við kristna skyldu þína að útbreiða fagnaðarerindið? Greinin á eftir ræðir þessi atriði málsins og opnar þér möguleika á að njóta enn ríkari hamingju.
[Neðanmáls]
a Athyglisvert er að Jesús hvorki fyrirvarð sig fyrir að þiggja hjálp frá öðrum né var of stoltur til þess. — Lúkas 5:29; 7:36, 37; 8:3.
Tókst þú eftir þessu?
◻ Hvernig sýnir Guð áhuga sinn að fullnægja bæði andlegum þörfum okkar og líkamlegum?
◻ Hvað sýnir að Jesús vildi hjálpa öðrum á fleiri vegu en aðeins að kenna þeim sannleikann?
◻ Hvaða fordæmi gaf Páll í sambandi við fátæka?
◻ Hvað þurfum við að gera eftir að hafa íhugað fordæmi Jehóva, Jesú og Páls postula?
[Mynd á blaðsíðu 12]
Allir kristnir menn, sér í lagi öldungar, ættu að fylgja ráðum Jesú í Lúkasi 14:13, 14.