-
Vegur kærleikans bregst aldreiVarðturninn – 1999 | 1. mars
-
-
9. Hvaða dæmi til viðvörunar bendir Biblían á um fólk sem hugsaði um eigin hag?
9 Kærleikurinn „leitar ekki síns eigin.“ (1. Korintubréf 13:5) Kærleiksríkur maður ráðskast ekki með aðra til að fá sínu framgengt. Biblían segir frá vítum til varnaðar þar um. Við lesum þar um Delílu, Jesebel og Atalíu — konur sem ráðskuðust með aðra í eigingjörnum tilgangi. (Dómarabókin 16:16; 1. Konungabók 21:25; 2. Kroníkubók 22:10-12) Absalon, sonur Davíðs konungs, er líka dæmi um þetta. Hann vék sér að fólki, sem kom til Jerúsalem til að fá dæmt í málum sínum, og dylgjaði lævíslega með það að konungur hefði ekki einlægan áhuga á vandamálum þeirra sem leituðu til hans. Síðan sagði hann berum orðum að það vantaði hjartahlýjan mann eins og sig til að dæma í málum fólks. (2. Samúelsbók 15:2-4) Það var auðvitað ekki áhugi á undirokuðum sem bjó að baki heldur var Absalon aðeins að hugsa um sjálfan sig. Hann hegðaði sér eins og sjálfskipaður konungur og hafði áhrif á hjörtu margra. En um síðir beið Absalon herfilegan ósigur og var ekki einu sinni álitinn verðskulda sómasamlega greftrun við dauða sinn. — 2. Samúelsbók 18:6-17.
10. Hvernig getum við sýnt að við hugsum um hag annarra?
10 Þetta er viðvörun til kristinna manna nú á tímum. Jafnt karlar sem konur geta búið yfir miklum sannfæringarkrafti. Við eigum kannski auðvelt með að hafa okkar fram með því að yfirgnæfa aðra í samræðum eða með því að þreyta þá sem eru annarrar skoðunar en við. En ef við erum kærleiksrík í alvöru hugsum við um hag annarra. (Filippíbréfið 2:2-4) Við notfærum okkur ekki aðra eða komum á framfæri vafasömum hugmyndum sökum reynslu okkar eða stöðu í skipulagi Guðs, rétt eins og skoðanir okkar séu þær einu sem máli skipta. Við höfum í huga biblíuorðskviðinn: „Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall.“ — Orðskviðirnir 16:18.
-
-
Vegur kærleikans bregst aldreiVarðturninn – 1999 | 1. mars
-
-
11. (a) Hvernig getum við sýnt að kærleikurinn er bæði góðviljaður og hegðar sér sómasamlega? (b) Hvernig getum við sýnt að við gleðjumst ekki yfir óréttvísinni?
11 Páll segir einnig að kærleikurinn sé „góðviljaður“ og ‚hegði sér ekki ósæmilega.‘ (1. Korintubréf 13:4, 5) Já, kærleikurinn leyfir okkur ekki að vera ruddaleg, klúr eða ókurteis. Við virðum tilfinningar annarra. Kærleiksríkur maður forðast það sem gæti angrað samvisku annarra. (Samanber 1. Korintubréf 8:13.) Kærleikurinn „gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.“ (1. Korintubréf 13:6) Ef við elskum lög Jehóva gerum við ekki lítið úr siðleysi eða skemmtum okkur við það sem hann hatar. (Sálmur 119:97) Kærleikurinn hjálpar okkur að njóta þess sem byggir upp en ekki þess sem brýtur niður. — Rómverjabréfið 15:2; 1. Korintubréf 10:23, 24; 14:26.
12, 13. (a) Hvernig ættum við að bregðast við þegar einhver móðgar okkur? (b) Bentu á dæmi í Biblíunni til að sýna fram á að jafnvel réttmæt reiði geti komið okkur til að hegða okkur óskynsamlega.
12 Páll skrifar að kærleikurinn „reiðist ekki“ (sé „ekki fyrtinn,“ Phillips). (1. Korintubréf 13:5) Að vísu er fullkomlega eðlilegt að við ófullkomnir menn komumst í uppnám eða finnum til einhverrar reiði ef einhver móðgar okkur. En það væri rangt að ala með sér langvinna gremju eða vera reiður til langframa. (Sálmur 4:4, NW; Efesusbréfið 4:26) Réttmæt reiði getur jafnvel komið okkur til að hegða okkur óskynsamlega ef við höfum ekki taumhald á henni og Jehóva gæti kallað okkur til ábyrgðar fyrir það. — 1. Mósebók 34:1-31; 49:5-7; 4. Mósebók 12:3; 20:10-12; Sálmur 106:32, 33.
13 Sumir hafa látið ófullkomleika annarra hafa áhrif á samkomusókn sína eða þátttöku í boðunarstarfinu. Margir þeirra höfðu áður barist hetjulega fyrir trúnni og jafnvel þolað andstöðu frá fjölskyldunni, háðsglósur vinnufélaga og þvíumlíkt. Þeir stóðust slíka erfiðleika af því að þeir litu réttilega á þá sem prófraun á ráðvendni sína. En hvað gerist þegar trúbróðir segir eða gerir eitthvað kærleikslaust? Er það ekki líka prófraun á ráðvendni okkar? Svo sannarlega því að við getum ‚gefið djöflinum færi‘ ef við erum reið til langframa. — Efesusbréfið 4:27.
14, 15. (a) Hvað merkir það að vera „langrækinn“? (b) Hvernig getum við líkt eftir fyrirgefningarvilja Jehóva?
14 Páll bætir því við af ærnu tilefni að kærleikurinn sé „ekki langrækinn.“ (1. Korintubréf 13:5) Orðalag frummálsins er sótt til bókhalds, eins og misgerðin sé skráð í kladda svo hún gleymist ekki. Er það kærleiksríkt að skrá meiðandi orð eða verk í huga sér, rétt eins og við þurfum að fletta upp á þeim síðar? Við getum fagnað því að Jehóva grannskoðar okkur ekki af slíku miskunnarleysi. (Sálmur 130:3) Þegar við iðrumst afmáir hann misgerðir okkar. — Postulasagan 3:19.
15 Hér getum við líkt eftir Jehóva. Við ættum ekki að vera viðkvæm úr hófi þegar einhver virðist lítilsvirða okkur. Ef við erum móðgunargjörn er hætta á að við séum að særa sjálf okkur meira en hinn gat nokkurn tíma gert. (Prédikarinn 7:9, 22) Við þurfum að hafa hugfast að kærleikurinn „trúir öllu.“ (1. Korintubréf 13:7) Enginn vill auðvitað vera trúgjarn, en við ættum ekki heldur að tortryggja hvatir bræðra okkar úr hófi fram. Sé þess nokkur kostur skulum við gera ráð fyrir að hinum hafi ekki gengið neitt illt til. — Kólossubréfið 3:13.
-