Ræktaðu góða, kristna mannasiði í ruddalegum heimi
„Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman.“ — SÁLMUR 133:1.
1. Hvað er orðið um góða mannasiði?
„GÓÐIR mannasiðir hafa verið á undanhaldi síðastliðin 25 ár,“ skrifar dálkahöfundurinn Ann Landers. „Breytingin felst ekki bara í því að karlmenn eru hættir að opna bíldyr fyrir konur eða bjóða þeim sætið sitt í strætisvagni eða járnbrautarlest. Hún á sér dýpri rætur.“ Hvert sem litið er sjást merki þess að við búum í heimi þar sem góðir mannasiðir eru á hröðu undanhaldi. Fólk ryðst fram fyrir í biðröðum, reykir í troðfullum lyftum, leikur háværa tónlist á almannafæri og svo mætti lengi telja. Við erum minnt á það dag hvern að þrátt fyrir betri tækifæri til menntunar og aukin lífsgæði eru orðin „takk fyrir“ og „afsakið“ sjaldan notuð og að stærstum hluta gleymd.
2. Hvers vegna er það ekkert undarlegt að góðir mannsiðir skuli vera á undanhaldi?
2 Kemur þetta á óvart? Nei, eiginlega ekki. Það minnir okkur einfaldlega á það sem Páli postula var innblásið að segja um hegðun manna á „síðustu dögum“ þegar koma myndu „örðugar tíðir.“ Meðal annars sagði Páll fyrir að mennirnir myndu verða „sérgóðir, . . . raupsamir, hrokafullir, . . . vanþakklátir, . . . kærleikslausir, . . . taumlausir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-3) Jafnvel stuttleg athugun leiðir í ljós að þessir eiginleikar eru áberandi nú á tímum meðal allra aldurshópa, allra stétta og allra þjóða. Hvernig stendur á því? Hvað veldur því að góðir mannasiðir hafa látið svo mjög undan síga?
Orsakir slæmra mannasiða
3. Hvernig stuðlar ‚loft‘ þessa heimskerfis að slæmum mannasiðum?
3 Orðið ‚sérgóður‘ lýsir vel „ég-kynslóðinni“ sem er upptekin af einstaklingshyggju, því að vera sjálfstæð og ‚finna sjálfa sig.‘ Þessi andi, sem gagnsýrir ‚loftið‘ umhverfis okkur, gengur í berhögg við þau hvatningarorð Biblíunnar að ‚líta ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.‘ (Efesusbréfið 2:2, 3; Filippíbréfið 2:4) Og hver hefur árangurinn orðið? Kynslóð manna sem er alin upp til að gera það sem þeim sjálfum sýnist og stendur nákvæmlega á sama um hvaða áhrif hegðun þeirra hefur á aðra.
4. Hvernig lítur heimurinn á þá sem láta góðar hegðunarreglur lönd og leið, og hvernig ber kristnum mönnum að líta á slíkt hátterni?
4 Áður fyrr gerði fólk sér áhyggjur af því hvað aðrir hugsuðu um það og átti það drjúgan þátt í að fá fólk til að sýna vissa kurteisi. Nú er hins vegar svo komið að því hneykslanlegri og fáránlegri sem hegðun manna er, þeim mun líklegri er hún til að ná vinsældum meðal fjölda fólks. Þeir sem láta gamalgrónar hegðunarreglur lönd og leið eru ekki lengur álitnir illa uppaldir og óheflaðir heldur veraldarvanir eða í tískunni og aðdáunarverðir mjög. Slíkri hegðun er á nokkrum erlendum tungum lýst með orði sem komið er af sömu rót á grísku og orðið sem þýtt er ‚uppspunninn‘ í 2. Pétursbréfi 1:16. Grunnmerkingin er ‚óeðlilegur,‘ ‚óhreinn,‘ ‚óekta.‘ En kristnir menn munu sannarlega gera vel í því að forðast slíkan hugsunarhátt og viðhorf.
5. Nefndu annað atriði sem stuðlar að slæmri hegðun.
5 „Af því að dómi yfir verkum illskunnar er ekki fullnægt þegar í stað, þá svellur mönnum móður til þess að gjöra það sem illt er,“ segir Prédikarinn 8:11. Í því er fólgin enn ein orsök þess hve mjög mannasiðum hefur hrakað. Fólk á svo auðvelt með að komast upp með hvaðeina að því er sama þótt það fótumtroði viðurkennda hegðunarstaðla. „Borgarar, sem þætti það mikil hneisa að vera settir opinberlega á sakamannabekk, hafa eigi að síður leikið sér að því að brjóta alls kyns lög fyrir opnum tjöldum — umferðarlög, fíkniefnalög og lög sem banna að rusl sé skilið eftir á víð og dreif,“ segir í forystugrein í The New York Times. Af því leiðir að „uppivöðslusemi, skemmdarstarfsemi og veggjakrot er orðið hluti daglegs lífs. Það hefur í för með sér að góðir mannasiðir ásamt virðingu fyrir réttindum, eigum og einkalífi annarra, lætur enn undan síga.
6. Hvaða áhrif hefur annríki á mannasiði fólks og hvernig var Jesús ólíkur í því efni?
6 Góðir mannasiðir eru yfirleitt taldir tilheyra hinum fínni dráttum lífsins og því gleymast þeir auðveldlega þegar fólk er að flýta sér — og flestir virðast stöðugt vera að flýta sér nú til dags. Af því leiðir að þeir ganga hver fram hjá öðrum án nokkurra svipbrigða og án þess að segja orð. Í biðröðum ryðjast þeir fram fyrir aðra og í umferðinni skjótast þeir óþolinmóðir fram fyrir aðra, sem eiga réttinn, til að spara sér fáeinar mínútur eða sekúndur. Oft eru menn svo uppteknir af eigin málum og stundaskráin svo ásetin að óboðinn gestur er þeim til ama og óþæginda. Rifjaðu upp fyrir þér hversu ólík viðbrögð Jesú voru þegar fólk kom til hans, jafnvel á óþægilegum tímum. — Markús 7:24-30; Lúkas 9:10, 11; 18:15, 16; Jóhannes 4:5-26.
7. Hvað þurfa sannkristnir menn að varast í sambandi við mannasiði?
7 Jafnvel þótt við búum í heimi þar sem mikill hraði er á öllu og sífellt fleira krefst tíma okkar og krafta, bætir það ekki úr skák að láta slíkt álag koma okkur til að vera ruddalegir í framkomu. Slíkt háttarlag er einmitt að stórum hluta orsök þess tilgangslausa ofbeldis sem við fréttum um — rifrilda, deilna, slagsmála og jafnvel morða — þegar fólk endurgeldur ruddaskap með ruddaskap. Allt er þetta hluti af anda heimsins sem kristnir menn mega ekki tilheyra. — Jóhannes 17:14; Jakobsbréfið 3:14-16.
Góð fordæmi til eftirbreytni
8. Hvað eru kristnir menn hvattir til að gera þótt þeir séu umkringdir tillitslausu fólki?
8 Með því að við erum umkringd fólki sem tekur lítið tillit til annarra er afar auðvelt að fylgja straumnum og láta góða mannasiði lönd og leið. Við höfum hins vegar í huga þá áminningu Biblíunnar að ‚hegða okkur eigi eftir öld þessari‘ og getum haft til fyrirmyndar hin mörgu góðu fordæmi í Biblíunni og leitast við að fylgja þeim háa staðli sem kristnum mönnum ber að fylgja í ruddalegum heimi nútímans. (Rómverjabréfið 12:2, 21; Matteus 5:16) Við ættum með hegðun okkar að sýna að við erum af öllu hjarta sammála sálmaritaranum sem sagði: „Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman.“ — Sálmur 133:1.
9. Hvað sýnir Biblían um framkomu Jehóva við fólk?
9 Skapari og faðir allra, Jehóva Guð, er besta fordæmið um góða mannasiði. Algengt er að þeir sem komast í háar stöður eða ráða yfir öðrum láti aðra kenna á valdi sínu og heimti að óskir þeirra séu virtar. Æðsta yfirvald alheimsins, Jehóva Guð, er þó alltaf tillitssamur gagnvart þeim sem lægra eru settir. Hann fyrirskipar þeim ekki yfirlætislega heldur höfðar vingjarnlega og kurteislega til þeirra. Þegar hann blessaði Abraham sagði hann til dæmis: „Hef þú upp augu þín, og litast um frá þeim stað, sem þú ert á.“ Öðru sinni sagði hann: „Lít þú upp til himins og tel þú stjörnurnar.“ (1. Mósebók 13:14; 15:5) Er Guð gaf Móse tákn um mátt sinn sagði hann: „Sting hendi þinni í barm þér!“ (2. Mósebók 4:6) Mörgum árum síðar talaði Jehóva til vegvilltrar þjóðar sinnar fyrir munn spámannsins Míka og sagði: „Heyrið, þér höfðingjar Jakobs og stjórnendur Ísraels húss! . . . Heyrið þetta, þér höfðingjar.“ (Míka 3:1, 9) Á öllum þessum stöðum notar hin enska Nýheimsþýðing orðið „please“ til að undirstrika hve kurteislega Guð kemst að orði. Erum við „eftirbreytendur Guðs“ að þessu leyti? Erum við kurteis og vingjarnleg hvert við annað? — Efesusbréfið 5:1.
10, 11. (a) Hvað má segja um hegðun Jesú og mannasiði? (b) Hvernig getum við líkt eftir Jesú og verið kurteisir við alla menn?
10 Jesús Kristur, „sem er í faðmi föðurins,“ er annað gott fordæmi til eftirbreytni. (Jóhannes 1:18) Í samskiptum við fólk var hann annars vegar vingjarnlegur og hluttekningarsamur en hins vegar ákveðinn og fastur fyrir. Þó var hann aldrei ruddalegur eða óvingjarnlegur við nokkurn mann. Bókin The Man From Nazareth minnist á „óvenjulega hæfni hans til að umgangast alls konar fólk“ og segir: „Bæði á almannafæri og einslega umgekkst hann karla og konur sem jafningja. Hann var óþvingaður með smábörnum í sakleysi þeirra og, svo undarlegt sem það er, einnig með iðrunarfullum fjársvikurum líkt og Sakkeusi. Virðulegar húsmæður, líkt og María og Marta, gátu talað eðlilega og opinskátt við hann, en vændiskonur leituðu hann líka uppi rétt eins og þær teldu víst að hann myndi skilja þær og sýna vinsemd. . . . Eitt af höfuðeinkennum hans var það að hann skyldi alls ekki vera bundinn af þeim höftum sem stúkuðu fólki almennt í sundur.“
11 Það er merki góðs uppeldis og siðfágunar að sýna öllum tillitssemi og tilhlýðilega virðingu og rétt væri að líkja eftir Jesú Kristi í því efni. Flestir sýna reyndar sjálfkrafa virðingu þeim sem eru hærra settir, en eru oft fámálir, fjarlægir og ruddalegir við þá sem þeir telja sér lægra setta eða jafna að virðingu. Það virðist gefa þeim á tilfinninguna að þeir séu eitthvað meiri eða voldugri en aðrir. En sagt hefur verið að „ruddaskapur sé aðferð hins veikburða til að ímynda sér að hann sé sterkur,“ og er það vel að orði komist. Biblían hvetur okkur: „Verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.“ (Rómverjabréfið 12:10) Ef við gerum okkar besta til að fylgja því ráði mun okkur lánast bærilega að sýna góða mannasiði í samskiptum við annað fólk, líkt og Jesús gerði.
12. Hver er kjarninn í kennslu Jesú um mannleg samskipti?
12 Þessi jákvæði eiginleiki, sem beinist út á við, birtist einnig í kennslu Jesú, ekki síst því sem nefnt hefur verið gullna reglan: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matteus 7:12) Í Analects, einni af hinum fjórum bókum Konfúsíusar — sem lengi hafa verið álitnar æðsti staðall góðra siða í Austurlöndum — spyr einn af lærisveinunum meistara sinn (Konfúsíus) hvort til sé eitt einstakt orð sem geti verið undirstöðuregla allrar lífsbreytni. „Kannski mætti nota orðið gagnkvæmni,“ svaraði kennarinn og bætti svo við: „Gerðu ekki öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér.“ Við sjáum hversu miklu fremri kenning Jesú er. Við eigum hlýleg, þægileg og vinsamleg samskipti við aðra aðeins ef við tökum frumkvæðið og gerum þeim gott.
Kristnir mannasiðir byggðir á kristnum kærleika
13, 14. (a) Hverju hafa menn tekið eftir á síðustu árum varðandi afstöðu fólks til góðra mannasiða? (b) Hvað býr að baki hinum nýkviknaða áhuga á góðum mannasiðum?
13 Sökum þess hve slæmir mannasiðir eru útbreiddir nú á dögum eru menn farnir að tala um afturhvarf til fyrri staðla. „Við gerðum uppreisn gegn góðum mannasiðum á sjöunda áratugnum,“ segir Marjabelle Stewart sem bæði hefur skrifað og kennt um þetta efni, „en nú eru þeir að komast í gildi aftur með nýrri byltingu. Fólk er byrjað að gera sér grein fyrir mikilvægi þeirra og vill gjarnan vita hvað tilheyrir góðum mannasiðum.“ Þessi nýkviknaði áhugi á góðum mannasiðum birtist í fjölda bóka, greina, lesendabréfa, námskeiða og sjónvarpsþátta um allt frá því hvers konar gaffal skuli nota í veislu til þess hvernig skuli ávarpa fólk við hinar síbreytilegu aðstæður þjóðfélags og fjölskyldutengsla.
14 En hver er orsök þessa áhuga margra á góðum mannasiðum? Marjabella Stewart svarar: „Í samkeppnisþjóðfélagi nútímans getur afkoma manna ráðist af mannasiðum.“ Góðir mannasiðir eru með öðrum orðum álitnir hjálpartæki til að spjara sig og komast áfram í heiminum. Fólk les því bækur og sækir námskeið í kurteisisvenjum til að læra hvernig það eigi að klæða sig til að koma öðrum vel fyrir sjónir, hvernig það eigi að koma fram á skrifstofu forstjórans og því um líkt. Gallinn við þessa afstöðu er sá að góðir mannasiðir eru eins konar tækifærisstefna, líkt og gríma sem menn setja á sig meðan leiksýning stendur yfir og taka síðan af sér þegar henni lýkur. Það kemur því ekkert á óvart að ‚siðmenntuðustu‘ menn úr æðstu stéttum þjóðfélagsins skuli oft gerast sekir um grófustu afbrot.
15, 16. (a) Hvað segir heimildarmaður um „bestu hegðunarreglurnar“? (b) Hvernig eru orðin í 1. Korintubréfi 13:4-7 tengd sannkristnum mannasiðum?
15 En góðir mannasiðir eiga sannarlega ekki að vera bara gríma. Amy Vanderbilt, virtur sérfræðingur á þessu sviði, segir í bók sinni New Complete Book of Etiquette: „Bestu hegðunarreglurnar er að finna í 13. kafla 1. Korintubréfs í hinni fögru lýsingu Páls postula á kærleikanum. Þessar reglur eiga ekkert skylt við fágaðan klæðaburð eða þessa yfirborðslegu mannasiði. Þær snúast um tilfinningar og viðhorf, vingjarnleika og tillitssemi við aðra.“
16 Það sem Amy Vanderbilt á við er auðvitað 1. Korintubréf 13:4-7 þar sem Páll lýsir í smáatriðum hinum ýmsu hliðum kristins kærleika. Hugleiðum afleiðingar nokkurra atriða sem hann nefnir. Sá sem er til dæmis ‚langlyndur og góðviljaður‘ er að sjálfsögðu þolinmóður við aðra og sýnir þeim virðingu. ‚Að hegða sér ekki ósæmilega‘ er hið sama og að hegða sér ‚sæmilega‘ eða ‚sómasamlega, viðeigandi.‘ „Kærleikurinn sýnir góða mannasiði“ eins og þýðing J. B. Philipps, New Testament In Modern English, orðar þetta vers. Sá sem sýnir þess konar kærleika verður tæplega álitinn ókurteis eða illa uppalinn.
17. Hverju bera mannasiðir okkar vitni?
17 Ljóst er því að kristnir mannasiðir eru nátengdir kristnum kærleika. Þeir eru ekki bara leið að ákveðnu marki eða gríma sem brugðið er upp þegar svo stendur á. Góðir mannasiðir okkar — framkoma okkar við aðra, látbragð, tilburðir og vanabundin hegðun — eru vísbending um hversu annt við látum okkur um annað fólk og hversu djúpan kærleika við berum til þess. Hvort sem við erum ung eða aldin ættum við að kappkosta að fara eftir hvatningu Biblíunnar: „Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra.“ (1. Korintubréf 10:24) Kristnir mannasiðir eru því ein hlið kristins kærleika og eitt af því sem einkennir sanna lærisveina Jesú Krists. — Jóhannes 13:35.
Kurteis við öll tækifæri
18. Hverju ættum við að vera staðráðin í, þrátt fyrir það sem við sjáum kringum okkur?
18 Jesús sagði fyrir um okkar kynslóð: „Vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna.“ (Matteus 24:12) Þessi kólnun kærleikans birtist mjög skýrt í tillitsleysi og eigingirni margra nútímamanna. En við megum ekki sýna sama tillitsleysið á móti heldur hafa í huga áminningu Páls: „Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“ (Rómverjabréfið 12:17, 18) Við ættum að vera ráðin í því að sýna góða mannasiði öllum stundum, hvort sem aðrir kunna að meta það eða ekki. — Matteus 5:43-47.
19. Hvernig snerta mannasiðir okkar allar hliðar tilverunnar?
19 Já, góðir, kristnir mannasiðir eru eðlileg tjáning kærleika okkar og umhyggju fyrir öðrum. Á sama hátt og tal okkar leiðir í ljós hvað við erum hið innra sýna mannasiðir okkar hversu annt við látum okkur um aðra eða hvort okkur stendur á sama um þá. (Matteus 12:34, 35) Þess vegna ættu góðir mannasiðir að gegna þýðingarmiklu hlutverki á öllum sviðum lífs okkar. Þeir ættu að vera sjálfsagður þáttur daglegs lífs. Hvernig geta þeir verið það í ríkari mæli? Hvernig getum við þroskað betur heilbrigða, kristna mannasiði? Það er umfjöllunarefni greinarinnar á eftir.
Getur þú svarað?
◻ Hvers vegna kemur það ekki á óvart að góðir mannasiðir skuli vera á undanhaldi?
◻ Nefndu nokkrar orsakir slæmra mannasiða.
◻ Í hverju eru kristnir mannsiðir og heimsins mannasiðir ólíkir?
◻ Hvers vegna ættum við að kappkosta að sýna góða mannasiði öllum stundum?