Líkjum eftir trú þeirra
Hann lærði fyrirgefningu af meistaranum
PÉTUR átti aldrei eftir að gleyma því hræðilega augnabliki þegar augu hans og Jesú mættust. Sá hann á svip Jesú einhver merki um vonbrigði eða ásökun? Við getum ekkert fullyrt um það því að í Biblíunni segir einfaldlega að ,Drottinn hafi vikið sér við og litið til Péturs‘. (Lúkas 22:61) En augnaráðið varð til þess að Pétur skildi hversu illa hann hafði brugðist. Hann áttaði sig á að hann hafði einmitt gert það sem Jesús hafði spáð, það sem hann sjálfur hafði haldið fram að hann myndi aldrei gera — hann hafði afneitaði ástkærum meistara sínum. Þetta var hræðileg stund fyrir Pétur, kannski versta augnablikið á versta degi ævi hans.
En ekki var öll von úti. Vegna þess að Pétur hafði sterka trú fékk hann tækifæri til bæta ráð sitt og læra eitthvað mjög mikilvægt af Jesú. Það tengdist því að fyrirgefa. Hvert og eitt okkar þarf á sömu kennslu að halda. Við skulum því skoða nánar hvernig Pétur lærði þessa erfiðu lexíu.
Maður sem átti margt ólært
Um hálfu ári áður hafði Pétur komið að máli við Jesú í heimabæ sínum Kapernaúm og spurt: „Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig? Svo sem sjö sinnum?“ Pétri hefur eflaust fundist hann vera nokkuð rausnarlegur þar sem trúarleiðtogar þess tíma kenndu að maður þyrfti bara að fyrirgefa þrisvar. Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.“ — Matteus 18:21, 22.
Var Jesús að gefa til kynna að Pétur ætti að halda nákvæma skrá yfir það sem gert var á hlut hans? Nei. Með því að breyta tölunni sjö, sem Pétur stakk upp á, í sjötíu sinnum sjö, var Jesús að segja að það væru engin sérstök takmörk fyrir því hversu oft ætti að fyrirgefa. Jesús leiddi Pétri fyrir sjónir að hann hefði orðið fyrir áhrifum af tíðarandanum. Menn gátu verið grimmir og langræknir og skammtað fyrirgefningu eins og eftir bókhaldi. Hins vegar er fyrirgefningu, sem samræmist vilja Guðs, engin takmörk sett.
Pétur deildi ekki við Jesú. En náði kennsla Jesú til hjarta hans? Stundum lærum við best hvað fyrirgefning er þegar við skiljum hversu sárlega við þurfum sjálf á henni að halda. Snúum okkur því aftur að atburðunum sem voru undanfari þess að Jesús dó. Á þessum erfiða tíma þurfti meistari Péturs að fyrirgefa honum margt.
Vaxandi þörf á fyrirgefningu
Þetta var örlagaríkt kvöld — síðasta kvöldið í jarðnesku lífi Jesú. Það var enn margt sem hann vildi kenna postulunum — til dæmis varðandi auðmýkt. Jesús gaf þeim gott fordæmi með því að þvo fætur þeirra en það var venjulega verkefni lágt settra þjóna. Í fyrstu véfengdi Pétur það sem Jesús ætlaði að gera. Síðan neitaði hann að þiggja þessa þjónustu. Því næst vildi hann endilega að Jesús þvægi ekki aðeins fætur hans heldur einnig höfuð og hendur. Jesús missti ekki þolinmæðina heldur hélt ró sinni og útskýrði hvers vegna hann gerði þetta og af hverju það væri mikilvægt. — Jóhannes 13:1-17.
Skömmu síðar fóru postularnir samt sem áður að deila um hver þeirra væri mestur. Pétur átti vafalaust sinn þátt í þessari skammarlegu hegðun sem vitnaði um ákveðið dramb í fari þeirra. Engu að síður var Jesús vinsamlegur þegar hann leiðrétti þá og hrósaði þeim jafnvel fyrir það sem þeir höfðu gert vel — fyrir að vera trúir meistara sínum. En hann sagði þó fyrir að þeir myndu allir yfirgefa hann. Pétur andmælti því og sagði að hann myndi aldrei yfirgefa Jesú, jafnvel þó hann þyrfti að deyja. Jesús spáði því hins vegar að Pétur myndi afneita meistara sínum þrisvar þessa sömu nótt áður en hani galaði tvisvar. Þá mótmælti Pétur ekki aðeins heldur stærði sig af því að hann væri trúfastari en allir hinir postularnir. — Matteus 26:31-35; Markús 14:27-31; Lúkas 22:24-28.
Var Jesús að missa þolinmæðina við Pétur? Á þessum erfiða tíma horfði hann á hið góða í fari ófullkominna postula sinna. Hann vissi að Pétur myndi bregðast sér en sagði samt: „Ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“ (Lúkas 22:32) Jesús lýsti þannig yfir að hann treysti að Pétur myndi iðrast og snúa aftur til trúfastrar þjónustu. Jesús var sannarlega mildur og reiðubúinn að fyrirgefa.
Í Getsemanegarðinum þurfti einnig að leiðrétta Pétur oftar en einu sinni. Jesús bað hann að vaka ásamt Jakobi og Jóhannesi meðan hann bæðist fyrir. Jesús upplifði sára angist og þurfti á stuðningi að halda en Pétur og hinir tveir sofnuðu aftur og aftur. Jesús lét þá í ljós að hann hafði samúð með þeim og var tilbúinn til að fyrirgefa. „Andinn er reiðubúinn en holdið veikt,“ sagði hann. — Markús 14:32-38.
Áður en langt um leið kom að múgur manna með kyndla og vopnaður sverðum og kylfum. Nú þurfti að sýna varúð og skynsemi. En Pétur rauk af stað og sveiflaði sverði að höfði Malkusar, sem var þjónn æðsta prestsins, og hjó af honum annað eyrað. Jesús hélt ró sinni og leiðrétti Pétur, læknaði sárið og útskýrði þá meginreglu að beita ekki ofbeldi sem fylgjendur hans hafa heiðrað allar götur síðan. (Matteus 26:47-55; Lúkas 22:47-51; Jóhannes 18:10, 11) Pétur hafði þegar gert mörg mistök sem meistari hans þurfti að fyrirgefa. Það minnir okkur á að við ,hrösum öll margvíslega‘. (Jakobsbréfið 3:2) Hvert okkar hefur ekki þörf fyrir fyrirgefningu Guðs á hverjum degi? En nóttin var ekki á enda og Pétur átti eftir að bæta gráu ofan á svart.
Verstu mistök Péturs
Jesús sagði við múginn að ef þeir væru að leita að honum ættu þeir að sleppa postulunum. Pétur fylgdist hjálparvana með þegar Jesús var bundinn. Síðan flúði hann rétt eins og hinir postularnir.
Þegar Pétur og Jóhannes námu staðar voru þeir hugsanlega nálægt húsi Annasar, fyrrverandi æðsta prests, þar sem Jesús var fyrst yfirheyrður. Þeir ,fylgdu Jesú álengdar‘ þegar hann var leiddur þaðan. (Matteus 26:58; Jóhannes 18:12, 13) Pétur var enginn hugleysingi. Það krafðist örugglega ákveðins hugrekkis að elta Jesú. Múgurinn var vopnaður og Pétur hafði þegar sært einn þeirra. En við sjáum ekki þann kærleika og hollustu í fari Péturs sem hann hafði sjálfur lýst yfir að hann hefði — að vera tilbúinn að deyja við hlið meistarans ef þörf krefði. — Markús 14:31.
Nú á tímum eru margir sem leitast við að ,fylgja Jesú álengdar‘ eins og Pétur — þannig að enginn taki eftir því. En eins og Pétur skrifaði síðar er eina leiðin til að fylgja Kristi að halda sig eins nálægt honum og við getum og líkja eftir fordæmi hans í öllu, án tillits til afleiðinganna. — 1. Pétursbréf 2:21.
Pétur fór í humátt á eftir þeim sem handtóku Jesú alveg að hliðinu að einu mikilfenglegasta setri í Jerúsalem. Þetta var heimili Kaífasar æðsta prests en hann var bæði ríkur og voldugur. Slík heimili höfðu yfirleitt forgarð með hliði að framanverðu. Pétur kom að hliðinu en fékk ekki inngöngu. Jóhannes, sem var þegar kominn inn, fékk vörðinn til að opna fyrir Pétri. Það virðist vera að Pétur hafi ekki haldið sig nálægt Jóhannesi né reynt að komast inn í húsið til að vera við hlið meistara síns. Hann hélt sig í forgarðinum þar sem nokkrir þrælar og þjónar voru að orna sér við varðeld. Hann fylgdist með þeim sem báru ljúgvitni gegn Jesú þegar þeir komu og fóru frá réttarhöldunum í húsinu. — Markús 14:54-57; Jóhannes 18:15, 16, 18.
Við varðeldinn gat stúlkan, sem hafði hleypt Pétri inn, séð hann betur. Hún þekkti hann. Hún sagði í ásökunartón: „Þú varst líka með Jesú frá Galíleu.“ Þetta kom Pétri í opna skjöldu og hann neitaði því að hann þekkti Jesú og lét eins og hann skildi ekki hvað stúlkan var að segja. Hann fór að hliðinu og reyndi að láta lítið á sér bera en önnur stúlka tók eftir honum og benti á sömu staðreynd: „Þessi var með Jesú frá Nasaret.“ Pétur „sór þess eið að hann þekkti ekki þann mann“. (Matteus 26:69-72) Kannski var það eftir að Pétur hafði tvisvar afneitað Jesú að hann heyrði hana gala. En hann var það annars hugar að hann mundi ekki eftir því sem Jesús hafði spáð bara nokkrum klukkustundum áður.
Skömmu síðar kom hópur fólks, sem hafði verið í forgarðinum, til Péturs. Hann reyndi í örvæntingu að láta sem minnst á sér bera. Einn í hópnum var skyldur Malkusi, þrælnum sem Pétur hafði sært. Hann sagði við Pétur: „Sá ég þig ekki í grasgarðinum með honum?“ Pétri fannst hann knúinn til að sannfæra þá um hið gagnstæða. Hann sór því eið og sagði að bölvun myndi koma yfir sig ef hann væri að ljúga. Hann hafði vart sleppt orðinu þegar hani galaði — annað skiptið sem Pétur heyrði í hana það kvöld. — Jóhannes 18:26, 27; Markús 14:71, 72.
Jesús var nýkominn á út á svalirnar sem voru yfir forgarðinum. Það var þá sem augu þeirra mættust eins og lýst var hér í upphafi. Nú rann upp fyrir Pétri hversu illa hann hafði brugðist meistara sínum. Hann yfirgaf forgarðinn niðurbrotinn af sektarkennd. Hann ráfaði um illa lýstar götur borgarinnar. Tunglið var á niðurleið og dauft skinið lýsti honum leið. Allt hringsnerist fyrir augum hans og tárin brutust fram. Hann brotnaði niður og grét beisklega. — Markús 14:72; Lúkas 22:61, 62.
Ef manni verður eins illa á og Pétri er auðvelt að álykta sem svo að syndin sé ófyrirgefanleg. Pétur hefur sennilega velt því fyrir sér. En var það tilfellið?
Var ekki hægt að fyrirgefa Pétri?
Það er erfitt að gera sér í hugarlund sársauka Péturs morguninn eftir þegar hann horfði upp á atburði dagsins. Hann hlýtur að hafa ávítað sjálfan sig harðlega þegar Jesús dó seinna um daginn eftir að hafa kvalist klukkustundum saman. Pétur hlýtur að hafa hryllt við í hvert sinn sem hann hugsaði um hvernig hann hafði aukið á þjáningar meistara síns síðasta daginn í jarðnesku lífi hans. Þrátt fyrir að sorg Péturs væri mikil lét hann ekki örvæntingu ná tökum á sér. Við vitum það vegna þess að frásagan greinir frá því að hann hafi fljótlega verið komin aftur í félagsskap bræðra sinna. (Lúkas 24:33) Vafalaust iðruðust allir postularnir þess hvernig þeir höfðu brugðist við á þessu örlagaríka kvöldi og gátu því verið hver öðrum til hughreystingar.
Pétur sýnir hér að sumu leyti sínar bestu hliðar. Þegar þjónn Jehóva fellur skiptir ekki máli hversu hátt fall hans er heldur er mikilvægara hversu ákveðinn hann er í að rísa upp á ný og bæta ráð sitt. (Orðskviðirnir 24:16) Pétur sýndi ósvikna trú með því að vera með bræðrum sínum þrátt fyrir að hann væri niðurdreginn. Þegar sorg eða eftirsjá íþyngir okkur er freistandi að einangra sig en það er hættulegt. (Orðskviðirnir 18:1) Það er viturlegt að halda sig nálægt trúsystkinum sínum og endurheimta andlegan styrk. — Hebreabréfið 10:24, 25.
Af því að Pétur var með bræðrum sínum heyrði hann þær ótrúlegu fréttir að líkami Jesú væri ekki í gröfinni. Pétur og Jóhannes hlupu að gröfinni þar sem lík Jesú hafði verið lagt og lokað hafði verið fyrir með innsigli. Jóhannes, sem var líklega yngri, var á undan. Þegar hann sá að gröfin var opin hikaði hann en það gerði Pétur ekki. Þótt hann væri móður fór hann beint inn. Gröfin var tóm! — Jóhannes 20:3-9.
Trúði Pétur því að Jesús hefði verið reistur upp frá dauðum? Ekki til að byrja með jafnvel þó að trúar konur hefðu greint frá því að englar hefðu birst þeim og sagt að Jesús væri upprisinn. (Lúkas 23:55–24:11) En áður en dagurinn var liðinn var öll sorg og efi horfin úr hjarta Péturs. Jesús lifði og var nú máttug andavera. Hann birtist öllum postulum sínum. En hann gerði samt svolítið annað fyrst. Þennan dag sögðu postularnir: „Sannarlega er Drottinn upp risinn og hefur birst Símoni.“ (Lúkas 24:34) Páll postuli skrifaði líka að síðar þennan einstaka dag hefði Jesús ,birst Kefasi og síðan þeim tólf‘.(1. Korintubréf 15:5) Kefas og Símon eru önnur nöfn á Pétri. Jesús birtist Pétri þennan dag — greinilega í einrúmi.
Biblían greinir ekki frá því hvað fór á milli Jesú og Péturs þegar þeir hittust. Við getum aðeins ímyndað okkur hvernig Pétur hefur brugðist við því að sjá að elskaður Drottinn hans var lifandi og fá tækifæri til að tjá honum sorg sína og iðrun. Meira en nokkuð annað í veröldinni þráði hann fyrirgefningu. Getur einhver efast um að Jesús hafi fyrirgefið honum og það ríkulega? Kristnir menn nú á tímum ættu að minnast Péturs ef þeim verður á að syndga. Við ættum aldrei að halda að við séum svo langt leidd að Guð geti ekki fyrirgefið okkur. Jesús endurspeglaði fullkomlega föður sinn sem „fyrirgefur ríkulega.“ — Jesaja 55:7.
Frekari sönnun um fyrirgefningu
Jesús sagði postulunum að fara til Galíleu þar sem þeir myndu hitta hann á ný. Þegar þeir komu þangað ákvað Pétur að fara út á Galíleuvatn að veiða. Nokkrir aðrir fóru með honum. Enn á ný var Pétur á vatninu þar sem hann hafði eytt stórum hluta ævi sinnar. Það hlýtur að vera þægilega kunnuglegt fyrir hann að heyra brakið í bátnum, gjálfrið í öldunum og að handleika gróf netin. Ætli Pétur hafi velt því fyrir sér hvernig hann ætti að nota líf sitt, nú þegar þjónustu Jesú á jörðinni var lokið? Fannst honum freistandi að lifa einföldu lífi sem fiskimaður? Hvað sem því leið þá veiddu þeir ekkert þessa nótt. — Matteus 26:32; Jóhannes 21:1-3.
Þegar dagur rann stóð einhver á ströndinni og kallaði til þeirra og sagði þeim að leggja netin út frá hinni hlið bátsins. Þeir gerðu það og drógu inn mikinn afla, alls 153 fiska. Pétur vissi hver þetta var. Hann stökk úr bátnum og synti í land. Jesús var á ströndinni og gaf þeim að borða, fisk sem hann hafði eldað á glóðum. Hann beindi athyglinni að Pétri.
Jesús spurði Pétur hvort hann elskaði Drottin sinn meira en fiskinn sem þeir höfðu veitt. Átti ánægja Péturs af fiskveiðum eftir að hafa áhrif á kærleika hans til Jesú? Rétt eins og Pétur hafði þrisvar afneitað Drottni sínum fékk hann nú tækifæri til að staðfesta kærleika sinn þrisvar frammi fyrir hinum lærisveinunum. Þegar Pétur gerði það sagði Jesús honum hvernig hann ætti að sýna kærleika sinn. Hann átti að taka heilaga þjónustu fram yfir allt annað og ala og annast hjörð Krists, trúfasta fylgjendur hans. — Jóhannes 21:4-17.
Jesús staðfesti þannig að hann og faðir hans hefðu enn not fyrir Pétur. Hann átti að gegna mikilvægu hlutverki í söfnuðinum undir forustu Krists. Þetta er sterk sönnun fyrir því að Jesús fyrirgaf honum að fullu. Þessi miskunn snerti sannarlega hjarta Péturs og hafði djúpstæð áhrif á hann.
Pétur sinnti verkefni sínu af trúfesti í mörg ár. Hann styrkti bræður sína eins og Jesús hafði sagt honum að gera kvöldið sem hann dó. Hann var vinsamlegur og þolinmóður þegar hann gætti lærisveina Krists og leiðbeindi þeim. Maðurinn, sem var kallaður Símon, stóð undir nafninu sem Jesús hafði gefið honum — Pétur eða klettur — með því að vera stöðugt og sterkt afl söfnuðinum til góðs. Þetta kemur vel fram í tveimur hlýlegum bréfum sem Pétur skrifaði og urðu síðar verðmætur hluti af Biblíunni. Bréfin sýna einnig að Pétur gleymdi aldrei því sem hann lærði af Jesú um fyrirgefningu. — 1. Pétursbréf 3:8, 9; 4:8.
Við skulum líka tileinka okkur það sem Pétur lærði. Biðjum við Guð daglega um fyrirgefningu fyrir öll mistök okkar? Þiggjum við svo fyrirgefninguna og trúum á mátt hennar til að hreinsa okkur? Og erum við einnig fús til að fyrirgefa öðrum? Ef við gerum það líkjum við eftir trú Péturs og miskunn meistara hans.
[Innskot á bls. 22]
Pétur gerði mörg mistök sem meistari hans þurfti að fyrirgefa. Þurfum við ekki öll á fyrirgefningu að halda á hverjum degi?
[Mynd á bls. 23]
„Drottinn vék sér við og leit til Péturs.“
[Mynd á bls. 24]
,Drottinn birtist Símoni.‘