‚Hinir dauðu munu rísa upp‘
„Því lúðurinn mun gjalla og þá munu hinir dauðu upp rísa óforgengilegir, og vér munum umbreytast.“ — 1. KORINTUBRÉF 15:52.
1, 2. (a) Hvaða hughreystandi fyrirheit var gefið fyrir munn spámannsins Hósea? (b) Hvernig vitum við að Guð vill vekja látna aftur til lífs?
HEFURÐU einhvern tíma misst ástvin? Þá þekkirðu sársaukann sem dauðinn getur valdið. Samt sem áður geta kristnir menn sótt hughreystingu í orð Guðs fyrir munn spámannsins Hósea: „Ætti ég að frelsa þá frá Heljar valdi, leysa þá frá dauða? Hvar eru drepsóttir þínar, dauði? Hvar er sýki þín, Hel?“ — Hósea 13:14.
2 Efasemdarmönnum þykir fráleitt að dauðir geti snúið aftur til lífs. En alvaldur Guð er auðvitað fær um að vinna slíkt kraftaverk. Málið snýst raunverulega um það hvort Jehóva vilji lífga dána á ný. Hinn réttláti Job spurði: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ Síðan svaraði hann hughreystandi: „Þú mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ (Jobsbók 14:14, 15) Orðið „þrá“ lýsir einlægri löngun eða ósk. (Samanber Sálm 84:3.) Já, Jehóva horfir með eftirvæntingu til upprisunnar — hann þráir að sjá aftur látna, trúfasta menn sem eru lifandi í minni hans. — Matteus 22:31, 32.
Jesús varpar ljósi á upprisuna
3, 4. (a) Hvaða ljósi varpaði Jesús á upprisuvonina? (b) Af hverju var Jesús reistur upp sem andi en ekki í holdi?
3 Trúfastir menn forðum eins og Job höfðu aðeins takmarkaðan skilning á upprisunni. Það var Jesús Kristur sem varpaði fullu ljósi á þessa stórkostlegu von. Hann lýsti aðalhlutverkinu sem hann sjálfur gegnir er hann sagði: „Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf.“ (Jóhannes 3:36) Hvar verður þetta líf? Á jörðinni fyrir langflesta sem iðka trú. (Sálmur 37:11) En Jesús sagði lærisveinum sínum: „Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.“ (Lúkas 12:32) Ríki Guðs er himneskt. Þetta fyrirheit merkir því að ‚litla hjörðin‘ þarf að vera með Jesú á himni sem andaverur. (Jóhannes 14:2, 3; 1. Pétursbréf 1:3, 4) Þetta eru stórfenglegar framtíðarhorfur! Jesús opinberaði Jóhannesi postula að þessi „litla hjörð“ yrði aðeins 144.000 manns. — Opinberunarbókin 14:1.
4 En hvernig áttu hinar 144.000 að hljóta himneska dýrð? Jesús „leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu.“ Með blóði sínu vígði hann „nýjan veg og lifandi“ inn í himininn. (2. Tímóteusarbréf 1:10; Hebreabréfið 10:19, 20) Fyrst dó hann eins og Biblían hafði sagt fyrir. (Jesaja 53:12) Síðan ‚reisti Guð þennan Jesú upp‘ eins og Pétur postuli boðaði síðar. (Postulasagan 2:32) En Jesús var ekki reistur upp sem maður. Hann hafði sagt: „Brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs.“ (Jóhannes 6:51) Hann hefði ógilt fórnina með því að taka hold sitt aftur. Jesús var því „deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda.“ (1. Pétursbréf 3:18) Þannig aflaði hann ‚litlu hjörðinni‘ „eilífrar lausnar.“ (Hebreabréfið 9:12) Hann bar fram fyrir Guð verðmæti fullkomins mannslífs síns sem lausnargjald fyrir syndugt mannkyn, og hinar 144.000 nutu fyrstar góðs af því.
5. Hvaða von var fylgjendum Jesú á fyrstu öld veitt?
5 Jesús var ekki sá eini sem átti að reisa upp til lífs á himnum. Páll sagði kristnum bræðrum sínum í Róm að þeir hefðu verið smurðir með heilögum anda sem börn eða synir Guðs og samerfingjar Krists, svo framarlega sem þeir staðfestu smurningu sína með því að halda út allt til enda. (Rómverjabréfið 8:16, 17) Hann sagði einnig: „Ef vér erum orðnir samgrónir honum í líkingu dauða hans, munum vér einnig vera það í líkingu upprisu hans.“ — Rómverjabréfið 6:5.
Til varnar upprisuvoninni
6. Af hverju var upprisutrúin véfengd í Korintu og hvernig brást Páll postuli við?
6 Upprisan er ein af ‚byrjunarkenningum‘ eða aðalkenningum kristninnar. (Hebreabréfið 6:1, 2) Engu að síður var hún véfengd í Korintu. Sumir í söfnuðinum sögðu að „dauðir rísi ekki upp,“ trúlega vegna áhrifa grískrar heimspeki. (1. Korintubréf 15:12) Þegar Páli postula bárust fregnir af því snerist hann til varnar upprisuvoninni, einkanlega von smurðra kristinna manna. Við skulum skoða orð Páls í 1. Korintubréfi 15. kafla. Það er gott fyrir þig að lesa kaflann í heild eins og mælt var með í greininni á undan.
7. (a) Að hverju beinir Páll athyglinni? (b) Hverjir sáu hinn upprisna Jesú?
7 Páll fastsetur umræðustefið í fyrstu tveim versum 15. kafla 1. Korintubréfs: „Ég minni yður, bræður, á fagnaðarerindi það, sem ég boðaði yður, sem þér og veittuð viðtöku og þér einnig standið stöðugir í. Fyrir það verðið þér og hólpnir . . . og hafið ekki ófyrirsynju trúna tekið.“ Ef Korintumenn stæðu ekki stöðugir í fagnaðarerindinu hefðu þeir meðtekið sannleikann til einskis. Páll heldur áfram: „Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum. En síðast allra birtist hann einnig mér, eins og ótímaburði.“ — 1. Korintubréf 15:3-8.
8, 9. (a) Hve mikilvæg er upprisutrúin? (b) Hvenær er líklegt að Jesús hafi birst „meira en fimm hundruð bræðrum“?
8 Þeir sem tekið höfðu við fagnaðarerindinu gátu ekki valið hvort þeir tryðu á upprisu Jesú eða ekki. Fjöldi sjónarvotta gat staðfest að „Kristur dó vegna vorra synda“ og að búið var að reisa hann upp. Kefas var einn þeirra, betur þekktur sem Pétur. Kvöldið sem Jesús var svikinn og handtekinn hafði Pétur afneitað honum, svo að það hlýtur að hafa hughreyst hann mikið að Jesús skyldi birtast honum. Hinn upprisni Jesús heimsótti einnig ‚þá tólf,‘ postulana sem hóp, og það var lífsreynsla sem hjálpaði þeim eflaust að sigrast á ótta sínum og bera djarflega vitni um upprisu hans. — Jóhannes 20:19-23; Postulasagan 2:32.
9 Kristur birtist einnig stærri hópi, „meira en fimm hundruð bræðrum.“ Það var aðeins í Galíleu sem Jesús átti sér svona marga fylgjendur, þannig að þetta kann að hafa verið atvikið sem lýst er í Matteusi 28:16-20 þegar hann gaf fyrirmælin um að gera menn að lærisveinum. Þetta fólk gat borið kröftuglega vitni. Sumir voru enn á lífi árið 55 þegar Páll samdi fyrra bréf sitt til Korintumanna. En við tökum eftir að þeir sem voru dánir voru sagðir „sofnaðir.“ Þeir höfðu ekki enn verið reistir upp til að hljóta himneska umbun sína.
10. (a) Hvaða áhrif hafði síðasti fundur Jesú með lærisveinunum? (b) Hvernig birtist Jesús Páli „eins og ótímaburði“?
10 Jakob, sonur Jósefs og Maríu, móður Jesú, var annar þekktur vottur að upprisu hans. Jakob hafði greinilega ekki tekið trú áður en Jesús reis upp. En hann tók trú eftir að Jesús birtist honum og kannski átti hann þátt í að snúa hinum bræðrum sínum til trúar. (Postulasagan 1:13, 14) Á síðasta fundi Jesú með lærisveinunum, rétt áður en hann steig upp til himna, fól hann þeim að ‚vera vottar sínir allt til endimarka jarðarinnar.‘ (Postulasagan 1:6-11) Síðar birtist hann Sál frá Tarsus sem ofsótti kristna menn. (Postulasagan 22:6-8) Jesús birtist Sál „eins og ótímaburði.“ Það var eins og Sál væri þegar búinn að fá upprisu sem andavera og gæti séð hinn dýrlega Drottin, öldum áður en þessi upprisa átti að eiga sér stað. Þessi lífsreynsla batt snöggan enda á grimmilega andstöðu Sáls gegn kristna söfnuðinum og gerbreytti honum. (Postulasagan 9:3-9, 17-19) Sál varð Páll postuli, einn atkvæðamesti málsvari kristinnar trúar. — 1. Korintubréf 15:9, 10.
Trú á upprisuna nauðsynleg
11. Hvernig afhjúpaði Páll rökvilluna í því að segja að „dauðir rísi ekki upp“?
11 Upprisa Jesú var því vel vottuð staðreynd. „Ef nú er prédikað, að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkrir yðar sagt, að dauðir rísi ekki upp?“ (1. Korintubréf 15:12) Þessir menn höfðu meira en persónulegar efasemdir eða spurningar um upprisuna — þeir lýstu yfir hreinni og beinni vantrú á hana. Páll afhjúpar því rökvillu þeirra. Hann bendir á að sé Kristur ekki upprisinn sé boðskapur kristninnar lygi. Þeir sem báru vitni um upprisu Krists voru þá „ljúgvottar um Guð.“ Ef Kristur var ekki upprisinn hefði Guði ekki verið greitt neitt lausnargjald og kristnir menn væru ‚enn í syndum sínum.‘ (1. Korintubréf 15:13-19; Rómverjabréfið 3:23, 24; Hebreabréfið 9:11-14) Og þeir kristnu menn, sem ‚sofnaðir voru,‘ í sumum tilfellum sem píslarvottar, voru þá glataðir, dánir án ósvikinnar vonar. Kristnir menn væru aumkunarverðir ef þeir ættu ekkert í vændum nema þetta líf. Þjáningar þeirra væru þá allar til einskis.
12. (a) Hvað er gefið í skyn með því að kalla Krist ‚frumgróða þeirra sem sofnaðir eru‘? (b) Hvernig gerði Kristur upprisuna mögulega?
12 En staðreyndin var allt önnur. Páll heldur áfram: „En nú er Kristur upprisinn frá dauðum.“ Auk þess er hann „frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru.“ (1. Korintubréf 15:20) Þegar Ísraelsmenn færðu Jehóva frumgróða uppskeru sinnar hlýðnir í lund blessaði hann þá með mikilli uppskeru. (2. Mósebók 22:29, 30; 23:19; Orðskviðirnir 3:9, 10) Með því að kalla Krist ‚frumgróða‘ gefur Páll í skyn að fleiri verði reistir upp frá dauðum til lífs á himnum sem meiri uppskera. „Þar eð dauðinn kom fyrir mann,“ segir Páll, „kemur og upprisa dauðra fyrir mann. Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist.“ (1. Korintubréf 15:21, 22) Jesús gerði upprisuna mögulega með því að gefa fullkomið mannslíf sitt sem lausnargjald og opnaði mannkyni þar með leið til lausnar úr þrælkun syndar og dauða. — Galatabréfið 1:4; 1. Pétursbréf 1:18, 19.a
13. (a) Hvenær á himneska upprisan sér stað? (b) Hvernig víkur því við að sumir hinna smurðu „sofna“ ekki?
13 Páll heldur áfram: „En sérhver í sinni röð: Kristur sem frumgróðinn, því næst, við komu hans, þeir sem honum tilheyra.“ (1. Korintubréf 15:23) Kristur var reistur upp árið 33. Smurðir fylgjendur hans — „þeir sem honum tilheyra“ — yrðu að bíða þangað til skömmu eftir að hann hæfi komu eða nærveru sína sem konungur, og spádómar Biblíunnar sýna fram á að það gerðist árið 1914. (1. Þessaloníkubréf 4:14-16; Opinberunarbókin 11:18) Hvað um þá sem yrðu á lífi við nærveru hans? Páll segir: „Sjá, ég segi yður leyndardóm: Vér munum ekki allir sofna, en allir munum vér umbreytast í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður. Því lúðurinn mun gjalla og þá munu hinir dauðu upp rísa óforgengilegir, og vér munum umbreytast.“ (1. Korintubréf 15:51, 52) Ljóst er að hinir smurðu liggja ekki allir í gröfinni og bíða upprisu. Þeir sem deyja á nærverutíma Krists umbreytast tafarlaust. — Opinberunarbókin 14:13.
14. Hvernig eru hinir smurðu „skírðir í þeim tilgangi að vera dánir“?
14 „Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu [„í þeim tilgangi að vera dánir,“ NW]?“ spyr Páll. „Ef dauðir menn rísa alls ekki upp, hvers vegna láta menn þá skíra sig fyrir þá [„í þeim tilgangi að vera það,“ NW]? Hvers vegna erum vér líka að stofna oss í hættu hverja stund?“ (1. Korintubréf 15:29, 30) Páll átti ekki við að lifandi menn létu skírast í þágu látinna eins og ætla mætti af orðalagi sumra biblíuþýðinga. Þegar öllu er á botninn hvolft er skírn tengd því að vera kristinn lærisveinn, og dauðar sálir geta ekki verið lærisveinar. (Jóhannes 4:1) Páll var að ræða um lifandi kristna menn sem voru margir hverjir „í hættu hverja stund“ eins og hann. Smurðir kristnir menn voru ‚skírðir til dauða Krists.‘ (Rómverjabréfið 6:3) Frá smurningu sinni höfðu þeir „skírst,“ ef svo má segja, til lífsstefnu sem leiddi til dauða eins og hjá Kristi. (Markús 10:35-40) Þeir myndu deyja í von um dýrlega himneska upprisu. — 1. Korintubréf 6:14; Filippíbréfið 3:10, 11.
15. Hvaða hættum kann Páll að hafa lent í og hvaða hlutverki gegndi upprisutrúin í því að hann stóðst þær?
15 Páll útskýrir að hann hafi sjálfur verið í slíkri hættu að hann gat sagt: „Á degi hverjum vofir dauðinn yfir mér.“ Til að vera ekki sakaður um ýkjur bætir hann við: „Það staðfesti ég í fögnuði vegna ykkar, bræður, sem ég nýt í Kristi Jesú, Drottni okkar.“ (NW) The Jerusalem Bible orðar versið svona: „Dauðinn blasir við mér daglega, bræður, og ég get eiðfest það í þeim metnaði sem ég legg í ykkur í Kristi Jesú, Drottni okkar.“ Í 32. versinu nefnir Páll dæmi um hætturnar, sem hann lenti í, og talar um að hann hafi „barist við villidýr í Efesus.“ Rómverjar líflétu glæpamenn oft með því að kasta þeim fyrir villidýr á leikvöngunum. Ef Páll lifði af baráttu við villidýr var það aðeins með hjálp Jehóva. Án upprisuvonarinnar hefði það verið hrein fífldirfska að velja sér lífsstefnu sem hafði slíkar hættur í för með sér. Það hefði ósköp lítið gildi að þola þær þrengingar og færa þær fórnir sem fylgdu því að þjóna Guði, án þess að hafa von um líf í framtíðinni. „Ef dauðir rísa ekki upp, etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum vér!“ segir Páll. — 1. Korintubréf 15:31, 32; sjá 2. Korintubréf 1:8, 9; 11:23-27.
16. (a) Hvert kunna orðin ‚etum og drekkum því að á morgun deyjum við‘ að vera sótt? (b) Af hverju var hættulegt að hugsa þannig?
16 Vera má að Páll sé að vitna í Jesaja 22:13 þar sem lýst er forlagatrú óhlýðinna Jerúsalembúa. Eins má vera að hann hafi haft í huga skoðanir Epíkúringa sem fyrirlitu sérhverja von um líf eftir dauðann og trúðu að holdlegur unaður væri það sem mestu skipti í lífinu. Sú lífsspeki að ‚eta og drekka‘ var óguðleg, hvort heldur var. Þess vegna varar Páll við: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (1. Korintubréf 15:33) Það gat verið mannskemmandi að blanda geði við þá sem höfnuðu upprisuvoninni. Slíkur félagsskapur kann að hafa átt sinn þátt í þeim vandamálum sem Páll þurfti að taka á í Korintusöfnuðinum, svo sem siðleysi, sundrung, málaferlum og lítilsvirðingu fyrir kvöldmáltíð Drottins. — 1. Korintubréf 1:11; 5:1; 6:1; 11:20-22.
17. (a) Til hvers hvatti Páll Korintumenn? (b) Hvaða spurningum er ósvarað enn?
17 Páll áminnir því Korintumenn: „Vaknið fyrir alvöru og syndgið ekki. Nokkrir hafa enga þekkingu á Guði. Yður til blygðunar segi ég það.“ (1. Korintubréf 15:34) Neikvæð afstaða til upprisunnar olli því að sumir voru í andlegu móki eins og þeir væru drukknir. Þeir þurftu að vakna og vera algáðir. Smurðir kristnir menn nú á dögum þurfa líka að vera andlega vakandi og láta ekki efahyggju heimsins hafa áhrif á sig. Þeir verða að ríghalda í vonina um himneska upprisu. En ýmsum spurningum er ósvarað — fyrir Korintumenn fortíðar og okkur einnig. Í hvaða mynd eru hinar 144.000 til dæmis reistar upp til himna? Og hvað um þær milljónir manna sem liggja enn í gröfinni og hafa ekki himneska von? Hvað hefur upprisan í för með sér fyrir þá? Í greininni á eftir förum við yfir framhaldið af umræðu Páls um upprisuna.
[Neðanmáls]
a Sjá umfjöllun um lausnargjaldið í Varðturninum 1. mars 1991.
Manstu
◻ Hvaða ljósi varpaði Jesús á upprisuna?
◻ Nefndu nokkra votta að upprisu Krists.
◻ Af hverju var upprisukenningin véfengd og hvernig brást Páll við?
◻ Hvers vegna var upprisutrúin nauðsynleg fyrir smurða kristna menn?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Dóttir Jaírusar var sönnun þess að upprisa væri möguleg.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Án upprisuvonarinnar væri píslarvættisdauði trúfastra kristinna manna tilgangslaus.