‚Dauðinn verður að engu gerður‘
„Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.“ — 1. KORINTUBRÉF 15:26.
1, 2. (a) Hvaða von um látna benti Páll postuli á? (b) Hvaða spurningar um upprisuna fjallaði Páll um?
„ÉG TRÚI á . . . upprisu holdsins og eilíft líf.“ Svo er komist að orði í postullegu trúarjátningunni. Kaþólskir og mótmælendur þylja hana af skyldurækni án þess að gera sér grein fyrir að trú þeirra ber meiri keim af grískri heimspeki en nokkru sem postularnir trúðu. Páll postuli hafnaði hins vegar grískri heimspeki og trúði ekki á ódauðlega sál. Hann trúði aftur á móti á líf í framtíðinni og skrifaði vegna innblásturs: „Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.“ (1. Korintubréf 15:26) Hvað þýðir það eiginlega fyrir deyjandi mannkyn?
2 Til að fá svar við því skulum við snúa okkur aftur að umræðu Páls um upprisuna sem er að finna í 15. kafla 1. Korintubréfs. Þú manst að í fyrstu versunum staðfestir hann að upprisan sé nauðsynlegur hluti hinnar kristnu kenningar. Nú snýr hann sér að ákveðnum spurningum: „En nú kynni einhver að segja: ‚Hvernig rísa dauðir upp? Hvaða líkama hafa þeir, þegar þeir koma?‘“ — 1. Korintubréf 15:35.
Hvers konar líkama?
3. Hvers vegna höfnuðu sumir upprisunni?
3 Þegar Páll varpar fram þessum spurningum er vel hugsanlegt að hann hafi ætlað sér að sporna gegn áhrifum frá heimspeki Platóns. Platón kenndi að maðurinn hefði ódauðlega sál sem lifði af líkamsdauðann. Þeim sem ólust upp við slíka hugmynd hefur eflaust þótt kenning kristninnar óþörf. Hvaða þörf var á upprisu ef sálin lifir líkamsdauðann? Auk þess hefur þeim trúlega þótt upprisukenningin órökrétt. Hvernig gat maðurinn risið upp eftir að líkaminn var orðinn að dufti? Biblíuskýrandinn Heinrich Meyer segir að andstaða sumra Korintumanna hafi hugsanlega byggst á „þeim heimspekilega grunni að ógerlegt væri að endurgera líkamsefnið.“
4, 5. (a) Af hverju voru mótmæli hinna trúlausu óviturleg? (b) Skýrðu líkingu Páls um „bert frækornið.“ (c) Hvers konar líkama gefur Guð upprisnum smurðum mönnum?
4 Páll afhjúpar innantóma hugsun þeirra. „Þú óvitri maður! Það sem þú sáir lifnar ekki aftur nema það deyi. Og er þú sáir, þá er það ekki sú jurt, er vex upp síðar, sem þú sáir, heldur bert frækornið, hvort sem það nú heldur er hveitikorn eða annað fræ. En Guð gefur því líkama eftir vild sinni og hverri sæðistegund sinn líkama.“ (1. Korintubréf 15:36-38) Guð ætlaði ekki að reisa upp líkamann sem fólk hafði meðan það var á jörð heldur umbreyta því.
5 Páll líkir upprisunni við fræ sem er að spíra. Smátt hveitifræ er alls ekkert líkt plöntunni sem vex af því. Alfræðibókin The World Book Encyclopedia segir: „Fræið drekkur í sig gríðarmikið vatn þegar það byrjar að spíra. Vatnið hleypir af stað fjölda efnabreytinga í fræinu. Það veldur einnig því að innri vefir þess bólgna og brjótast gegnum hýðið.“ Segja má að fræið deyi sem fræ og breytist í vaxandi plöntu. „Guð gefur því líkama“ á þann hátt að hann setti náttúrulögmál sem stjórna þroska þess, og hvert fræ eða sæði fær líkama eftir sinni tegund. (1. Mósebók 1:11) Eins er það með smurða kristna menn. Fyrst deyja þeir sem menn. Síðan vekur Guð þá til lífs aftur á tilsettum tíma í algerlega nýjum líkama. Eins og Páll sagði Filippímönnum mun Jesús Kristur „breyta veikum og forgengilegum líkama vorum og gjöra hann líkan dýrðarlíkama sínum.“ (Filippíbréfið 3:20, 21; 2. Korintubréf 5:1, 2) Þeir eru reistir upp í andalíkama og lifa í andaheiminum. — 1. Jóhannesarbréf 3:2.
6. Hvers vegna er rökrétt að Guð geti gefið upprisnum mönnum viðeigandi andalíkama?
6 Er einum of erfitt að trúa þessu? Nei, Páll rökræddi á þeim nótum að dýrin hafi margs konar líkama. Síðan ber hann saman englana á himnum og menn af holdi og blóði og segir: „Til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir.“ Hin lífvana sköpun er líka mjög fjölbreytt. „Stjarna ber af stjörnu í ljóma,“ sagði Páll, löngu áður en menn uppgötvuðu stjörnur eins og bláar stjörnur, rauða risa og hvíta dverga. Er ekki rökrétt, í ljósi þessa, að Guð geti látið upprisnum smurðum mönnum í té viðeigandi andalíkama? — 1. Korintubréf 15:39-41.
7. Hvað er óforgengileiki? Hvað er ódauðleiki?
7 Síðan segir Páll: „Þannig er og um upprisu dauðra. Sáð er forgengilegu, en upp rís óforgengilegt.“ (1. Korintubréf 15:42) Jafnvel fullkominn mannslíkami er forgengilegur. Það er hægt að drepa hann. Til dæmis segir Páll að hinn upprisni Jesú eigi aldrei „framar [að] hverfa aftur til rotnunar.“ (Postulasagan 13:34, Biblían 1912) Hann á aldrei að koma aftur til að lifa í fullkomnum en forgengilegum mannslíkama. Líkamarnir, sem Guð gefur hinum smurðu upprisnum, eru óforgengilegir. Þeir geta ekki dáið eða rotnað. Páll heldur áfram: „Sáð er í vansæmd, en upp rís í vegsemd. Sáð er í veikleika, en upp rís í styrkleika. Sáð er jarðneskum líkama, en upp rís andlegur líkami.“ (1. Korintubréf 15:43, 44) Hann heldur áfram: „Þetta dauðlega [á] að íklæðast ódauðleikanum.“ Ódauðleiki er endalaust, óhagganlegt líf. (1. Korintubréf 15:53; Hebreabréfið 7:16) Þannig munu hinir upprisnu „bera mynd hins himneska,“ það er að segja Jesú, sem gerði upprisu þeirra mögulega. — 1. Korintubréf 15:45-49.
8. (a) Hvernig vitum við að hinir upprisnu verða sömu einstaklingarnir og áður? (b) Hvaða spádómar rætast þegar upprisan á sér stað?
8 Þrátt fyrir þessa umbreytingu eru hinir upprisnu enn sömu einstaklingarnir og þeir voru fyrir dauðann. Þeir verða reistir upp með sömu minningar og sömu kristnu afbragðseiginleikana. (Malakí 3:3; Opinberunarbókin 21:10, 18) Að því leyti líkjast þeir Jesú Kristi. Hann breyttist úr anda í mann. Síðan dó hann og var reistur upp sem andi. Þó er „Jesús Kristur . . . í gær og í dag hinn sami og um aldir.“ (Hebreabréfið 13:8) Hinir smurðu njóta dásamlegra sérréttinda. Páll segir: „En þegar hið forgengilega íklæðist óforgengileikanum og hið dauðlega ódauðleikanum, þá mun rætast orð það, sem ritað er: Dauðinn er uppsvelgdur í sigur. Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?“ — 1. Korintubréf 15:54, 55; Jesaja 25:8; Hósea 13:14.
Jarðnesk upprisa?
9, 10. (a) Hvað er „endirinn“ í 1. Korintubréfi 15:24 og hvaða atburðir eiga sér stað samfara honum? (b) Hvað þarf að gerast til að dauðinn verði að engu gerður?
9 Er einhver framtíð fyrir þær milljónir manna er hafa ekki von um að lifa sem ódauðlegar andaverur á himnum? Svo sannarlega. Eftir að hafa útskýrt að himneska upprisan eigi sér stað á nærverutíma Krists lýsir Páll því sem gerist eftir það: „Síðan kemur endirinn, er hann selur ríkið Guði föður í hendur, er hann hefur að engu gjört sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft.“ — 1. Korintubréf 15:23, 24.
10 „Endirinn“ er endir þúsund ára stjórnar Jesú Krists er hann afhendir Guði sínum og föður ríkið í auðmýkt og hollustu. (Opinberunarbókin 20:4) Sá tilgangur Guðs að „safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi“ hefur þá náð fram að ganga. (Efesusbréfið 1:9, 10) En fyrst hefur Kristur eytt ‚sérhverri tign og sérhverju veldi og krafti‘ sem stendur gegn vilja og drottinvaldi Guðs. Það er meira en eyðingin í Harmagedónstríðinu. (Opinberunarbókin 16:16; 19:11-21) Páll segir: „[Kristi] ber að ríkja, uns hann leggur alla fjendurna undir fætur hans. Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.“ (1. Korintubréf 15:25, 26) Já, búið er að afmá allar menjar syndar og dauða af völdum Adams. Guð er þá búinn að tæma ‚grafirnar‘ með því að vekja látna aftur til lífs. — Jóhannes 5:28.
11. (a) Hvernig vitum við að Guð getur endurskapað dánar sálir? (b) Hvers konar líkama fá þeir sem fá jarðneska upprisu?
11 Það þýðir að mannssálir verða endurskapaðar. Óhugsandi? Nei, því að Sálmur 104:29, 30 fullvissar okkur um að Guð geti gert það: „Þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar. Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til.“ Enda þótt hinir upprisnu verði sömu persónurnar og þeir voru fyrir dauða sinn þurfa þeir ekki að hafa sama líkama. Guð gefur þeim líkama að vild sinni eins og hann gefur þeim sem rísa upp til að lifa á himnum. Eflaust verða nýir líkamar þeirra hraustir og nógu líkir upprunalegum líkama til að ástvinir þeirra þekki þá.
12. Hvenær á jarðneska upprisan sér stað?
12 Hvenær á jarðneska upprisan sér stað? Marta sagði um látinn bróður sinn, Lasarus: „Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ (Jóhannes 11:24) Hvernig vissi hún það? Upprisan var umdeild á dögum hennar því að farísear trúðu á upprisu en saddúkear ekki. (Postulasagan 23:8) En Marta hlýtur að hafa vitað um votta Guðs fyrr á tímum sem vonuðust eftir upprisu. (Hebreabréfið 11:35) Hún kann einnig að hafa skilið af Daníelsbók 12:13 að upprisan myndi eiga sér stað á efsta degi. Vera má að hún hafi jafnvel kynnst henni frá Jesú sjálfum. (Jóhannes 6:39) Þessi ‚efsti dagur‘ fer saman við þúsund ára stjórn Krists. (Opinberunarbókin 20:6) Hugsaðu þér hvílíkur gleðidagur það verður þegar þessi mikli atburður hefst! — Samanber Lúkas 24:41.
Hverjir snúa aftur?
13. Hvaða sýn af jarðnesku upprisunni er sagt frá í Opinberunarbókinni 20:12-14?
13 Opinberunarbókin 20:12-14 greinir frá sýn Jóhannesar af jarðnesku upprisunni: „Ég sá þá dauðu, stóra og smáa, standa frammi fyrir hásætinu, og bókum var lokið upp. Og annarri bók var lokið upp og það er lífsins bók. Og hinir dauðu voru dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra. Og hafið skilaði hinum dauðu, þeim sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru, og sérhver var dæmdur eftir verkum sínum. Og dauðanum og Helju var kastað í eldsdíkið. Þetta er hinn annar dauði, eldsdíkið.“
14. Hverjir verða meðal hinna upprisnu?
14 Upprisan nær til ‚stórra og smárra,‘ bæði þekktra manna og óþekktra sem lifðu og dóu. Jafnvel ungbörn verða meðal hinna upprisnu. (Jeremía 31:15, 16) Í Postulasögunni 24:15 er bætt við öðrum mikilvægum upplýsingum: ‚Upp munu rísa bæði réttlátir og ranglátir.‘ Af þekktu fólki úr hópi ‚réttlátra‘ má nefna trúfasta karla og konur eins og Abel, Enok, Nóa, Abraham, Söru og Rahab. (Hebreabréfið 11:1-40) Hugsaðu þér að geta spjallað við þetta fólk og heyrt sjónarvotta segja frá biblíuatburðum fortíðar! Í hópi ‚réttlátra‘ verða einnig þúsundir guðhræddra manna sem dáið hafa á síðari árum og höfðu ekki himneska von. Áttu ættingja eða ástvin sem gæti verið meðal þeirra? Það er mjög hughreystandi að vita að þú getir séð þá á ný! En hverjir eru þeir ‚ranglátu‘ sem snúa aftur? Það eru milljónir eða kannski milljarðar manna sem hafa dáið án þess að hafa haft tækifæri til að læra sannindi Biblíunnar og fara eftir þeim.
15. Hvað merkir það að hinir upprisnu verði „dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum“?
15 Hvernig verða hinir upprisnu „dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra“? Þessar bækur eru ekki skrá yfir fyrri verk manna. Þegar þeir dóu voru þeir sýknaðir af þeim syndum sem þeir drýgðu á ævinni. (Rómverjabréfið 6:7, 23) En upprisnir menn verða eftir sem áður undirorpnir Adamssyndinni. Þessar bækur hljóta því að innihalda fyrirmæli Guðs sem allir verða að fylgja til að hafa fullt gagn af fórn Jesú Krists. Um leið og síðustu menjar af synd Adams eru þurrkaðar út ‚verður dauðinn að engu gerður‘ í fyllsta skilningi. Við lok þúsund áranna verður Guð „allt í öllu.“ (1. Korintubréf 15:28) Maðurinn þarfnast ekki framar milligöngu æðstaprests eða lausnara. Öllu mannkyni hefur verið lyft upp til fullkomleikans sem Adam naut í upphafi.
Skipuleg upprisa
16. (a) Af hverju er rökrétt að upprisan fari skipulega fram? (b) Hverjir rísa líklega fyrstir upp frá dauðum?
16 Þar eð himneska upprisan fer skipulega fram, „sérhver í sinni röð,“ gefur augaleið að jarðneska upprisan veldur ekki skipulagslausri offjölgun. (1. Korintubréf 15:23) Skiljanlega þarf að annast þá sem nýbúið er að reisa upp. (Samanber Lúkas 8:55.) Það þarf að sjá þeim fyrir fæði og ekki síður andlegri aðstoð til að afla sér lífgandi þekkingar á Jehóva Guði og Jesú Kristi. (Jóhannes 17:3) Ef allir lifnuðu samtímis yrði ógerlegt að annast þá nægilega vel. Það er rökrétt að upprisan eigi sér stað smám saman. Trúfastir kristnir menn, sem dóu skömmu áður en heimskerfi Satans leið undir lok, verða trúlega reistir upp með þeim fyrstu. Við megum líka vænta þess að trúfastir menn fortíðar, sem verða ‚höfðingjar,‘ verði reistir upp snemma. — Sálmur 45:17.
17. (a) Nefndu nokkur mál í sambandi við upprisuna sem Biblían segir ekkert um. (b) Af hverju ættu kristnir menn ekki að gera sér teljandi áhyggjur af slíkum málum?
17 Við ættum þó ekki að vera kreddukennd í slíkum málum. Biblían fjallar ekki um alla hluti. Hún útlistar ekki í smáatriðum hvernig, hvenær eða hvar einstakir menn rísi upp. Hún segir ekki hvernig hinum upprisnu verði séð fyrir fæði, klæði og húsnæði. Við getum ekki heldur sagt með neinni vissu hvernig Jehóva leysir úr málum eins og uppeldi og umönnun upprisinna barna eða hvernig hann tekur á vissum aðstæðum tengdum ástvinum okkar og vinum. Það er að vísu eðlilegt að velta slíku fyrir sér, en það væri óskynsamlegt að eyða tíma í að reyna að svara spurningum sem ekki er hægt að svara á þessu stigi. Við verðum að einbeita okkur að því að þjóna Jehóva í trúfesti og hljóta eilíft líf. Smurðir kristnir menn byggja von sína á dýrlegri, himneskri upprisu. (2. Pétursbréf 1:10, 11) Von hinna ‚annarra sauða‘ er eilíf arfleifð á jarðneskum vettvangi Guðsríkis. (Jóhannes 10:16; Matteus 25:33, 34) Mörg smáatriði um upprisuna eru á huldu en við treystum Jehóva. Framtíðarhamingja okkar er tryggð í höndum hans sem getur ‚satt allt sem lifir með blessun.‘ — Sálmur 145:16; Jeremía 17:7.
18. (a) Hvaða sigur leggur Páll áherslu á? (b) Af hverju treystum við á upprisuvonina?
18 Páll lýkur rökfærslu sinni með upphrópun: „Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist!“ (1. Korintubréf 15:57) Já, sigur er unninn á Adamsdauðanum vegna lausnarfórnar Jesú Krists, og bæði hinir smurðu og hinir ‚aðrir sauðir‘ eiga hlutdeild í þeim sigri. Hinir ‚aðrir sauðir,‘ sem nú eru á lífi, hafa auðvitað von sem er einstök fyrir þessa kynslóð. Þeir tilheyra sívaxandi ‚miklum múgi‘ og geta lifað af ‚þrenginguna miklu,‘ sem er framundan, og þurfa aldrei að deyja! (Opinberunarbókin 7:9, 14) En jafnvel þeir sem deyja vegna ‚tíma og tilviljunar‘ eða af völdum útsendara Satans geta sett traust sitt á upprisuvonina. — Prédikarinn 9:11.
19. Hvaða hvatningu verða allir kristnir menn að fara eftir?
19 Við bíðum því óþreyjufull þess dýrðardags þegar dauðinn verður að engu gerður. Óhagganlegt traust okkar á upprisuloforð Jehóva gerir okkur raunsæ. Hvað sem fyrir kann að koma í þessu lífi — jafnvel þótt við deyjum — getur ekkert rænt okkur þeim launum sem Jehóva hefur heitið. Þess vegna er lokahvatning Páls til Korintumanna jafn viðeigandi núna og fyrir tvö þúsund árum: „Þess vegna, mínir elskuðu bræður, verið staðfastir, óbifanlegir, síauðugir í verki Drottins. Þér vitið að erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni.“ — 1. Korintubréf 15:58.
Geturðu svarað?
◻ Hvernig svarar Páll spurningunni um líkamann sem hinir smurðu fá í upprisunni?
◻ Hvenær og hvernig verður dauðinn að engu gerður?
◻ Hverjir fá hlutdeild í jarðnesku upprisunni?
◻ Hvernig ættum við að líta á mál sem Biblían segir ekkert um?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Fræ ‚deyr‘ með því að umbreytast.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Trúfastir karlar og konur fortíðar, svo sem Nói, Abraham, Sara og Rahab, verða í hópi hinna upprisnu.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Upprisan verður mikill gleðitími.