Uppörvun frá Guði friðarins
„Uppörvið því hver annan með þessum orðum.“ — 1. ÞESSALONÍKUBRÉF 4:18.
1. Hvaða bæn Páls sýnir glögglega áhuga hans á friði?
PÁLL postuli hafði brennandi áhuga á því að kristni söfnuðurinn hefði frið. Því hefjast þrettán af bréfum hans, sem eru varðveitt fyrir okkur í hinni innblásnu Ritningu, með ósk um að viðtakendur megi njóta friðar frá Guði. Til dæmis skrifar Páll hinum unga og óreynda söfnuði í Þessaloníku: „Náð sé með yður og friður.“ Í lok sama bréfs biður hann: „En sjálfur friðarins Guð helgi yður algerlega og andi yðar, sál og líkami varðveitist alheil og vammlaus við komu Drottins vors Jesú Krists.“ — 1. Þessaloníkubréf 1:1; 5:23.
2. (a) Hvers konar umhyggju lét Páll í ljós fyrir söfnuðinum? (b) Hvernig geta kristnir öldungar nú á tímum fylgt fordæmi Páls?
2 Páll og félagar hans höfðu ekki hlíft sér við að ‚erfiða og strita‘ meðal þessara nýju bræðra í trúnni. Páll sagði: „Vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum. Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voru orðnir oss ástfólgnir.“ Bera þessi orð ekki með sér djúptæka umhyggju, hinn ósvikna, innilega kærleika sem Páll bar til þessa safnaðar? Þetta er fyrirmynd þess kærleika sem kristnir öldungar láta í ljós í um það bil 50.000 söfnuðum votta Jehóva út um allan heiminn nú á dögum. — 1. Þessaloníkubréf 2:7-9; Jóhannes 13:34, 35; 15:12-14.
3. (a) Hvernig gat Tímóteus hjálpað söfnuðinum í Þessaloníku? (b) Hverju samsvarar það nú á dögum?
3 Freistarinn Satan hafði leitt þrengingar yfir þessa kristnu menn í Þessaloníku. Páll sendi því Tímóteus til þeirra til að ‚styrkja þá og áminna í trú sinni.‘ Tímóteus hitti Pál síðar í Aþenu og færði honum gleðifréttir af trúfesti og kærleika þeirra. Öllum var mikil uppörvun að frétta af ráðvendni og trú hvers annars og þeir héldu áfram að biðja Guð um að bæta upp það sem á vantaði. (1. Þessaloníkubréf 3:1, 2, 5-7, 10) Þetta er líka fyrirmynd þess guðræðisskipulags sem nú er, þegar farandumsjónarmenn byggja upp söfnuðina, jafnvel þar sem starf votta Jehóva er bannað eða þeir eru ofsóttir grimmilega. — Jesaja 32:1, 2.
‚Við komu hans‘
4, 5. (a) Hvers beiðist Páll hér og hvers vegna ætti það að vekja sérstakan áhuga okkar núna? (b) Hvers vegna eru okkar tímar sérlega þýðingarmiklir?
4 Páll postuli lýkur þessum hluta bréfs síns með þessari beiðni: „En Drottinn efli yður og auðgi að kærleika hvern til annars og til allra, eins og vér berum kærleika til yðar. Þannig styrkir hann hjörtu yðar, svo að þér verðið óaðfinnanlegir og heilagir frammi fyrir Guði, föður vorum, við komu Drottins vors Jesú ásamt öllum hans heilögu.“ — 1. Þessaloníkubréf 3:12, 13.
5 Páll horfði hér langt inn í ókomna framtíð til þess tíma er ‚koma Jesú og endalok veraldar‘ yrðu þegar ‚Mannssonurinn kæmi í dýrð sinni og allir englarnir með honum.‘ Okkar himneski konungur kom árið 1914. Frá sínu dýrlega, ósýnilega hásæti dæmir Jesús nú þjóðir og lýði jarðarinnar, skilur út auðmjúka, sauðumlíka menn til verndar í gegnum ‚þrenginguna miklu‘ og til eilífs lífs í paradís á jörð. — Matteus 24:3-21; 25:31-34, 41, 46.
Fyrirmæli okkur til góðs
6. Hvaða hvatningu Páls verðum við að hlýða?
6 Ert þú einn þeirra sem keppir að því marki sem eilíft líf er? Ef svo er verður þú að taka til þín það sem Páll skrifar hér Þessaloníkumönnum: „Að endingu biðjum vér yður, bræður, og áminnum í Drottni Jesú. Þér hafið numið af oss, hvernig yður ber að breyta og þóknast Guði, og þannig breytið þér líka. En takið enn meiri framförum. Þér vitið, hver boðorð vér gáfum yður frá Drottni Jesú.“ (1. Þessaloníkubréf 4:1, 2) Hver eru sum af þeim ‚boðorðum‘ sem Páll leggur hér áherslu á?
7. (a) Hvaða mikilvægt „boðorð“ er gefið hér? (b) Hvers vegna megum við aldrei slaka á verðinum eftir að við höfum fengið anda Guðs?
7 Fyrsta ‚boðorðið‘ varðar gott siðferði. Páll segir skorinort: „Það er vilji Guðs, að þér verðið heilagir. Hann vill, að þér haldið yður frá frillulífi, að sérhver yðar hafi vit á að halda líkama sínum í helgun og heiðri, en ekki í losta, eins og heiðingjarnir, er ekki þekkja Guð.“ Til allrar hamingju höfum við lært að „þekkja“ Guð og son hans, Jesú Krist, og keppum eftir eilífu lífi. Hversu skammarlegt væri það ekki ef við létum draga okkur aftur niður í hið veraldlega fen siðleysisins! Svo sorglegt sem það er hafa sumir haldið út áralanga vist í fangabúðum og fangelsum eða eytt heilli mannsævi í kostgæfu trúboðsstarfi til þess eins að láta freistarann síðar koma sér í opna skjöldu í sambandi við siðferði. Megum við, sem höfum fengið anda Guðs, aldrei „hryggja“ hann með siðleysi af einhverju tagi!. — 1. Þessaloníkubréf 4:3-8; Jóhannes 17:3; 1. Korintubréf 10:12, 13; Efesusbréfið 4:30.
8, 9. (a) Hvað er ‚bróðurkærleikur‘? (b) Hvernig getum við ræktað slíkan kærleika og til hvers?
8 Næsta „boðorð“ Páls varðar fíladelfía, bróðurkærleikann. (1. Þessaloníkubréf 4:9, 10) Þetta er sérstök mynd kærleika sem byggist á meginreglum, agape, sem Páll einnig hvetur til hér í 9. versi, svo og í 3. kafla, 6. og 12. versi. Fíladelfía er mjög innileg ástúð eins og bersýnilega var milli Jesú og Péturs og milli Davíðs og Jónatans. (Jóhannes 21:15-17; 1. Samúelsbók 20:17; 2. Samúelsbók 1:26) Hana er hægt að leggja við agape í að byggja upp náið samband og tengsl eins og birtist til dæmis í þeirri gagnkvæmu gleði sem vottar Jehóva hafa af því að starfa saman í brautryðjandaþjónustu og öðru guðræðislegu starfi.
9 Páll segir: ‚Takið enn meiri framförum.‘ Við getum alltaf látið bróðurkærleika okkar verða víðfeðmari. Þessi góði eiginleiki birtist sérstaklega vel þegar öldungar og safnaðarþjónar taka forystuna í kostgæfri þjónustu Guðríkis. Þegar allir í söfnuðinum leggja sig kappsamlega fram um að ‚leita fyrst Guðríkis‘ verða árekstrar vegna mannlegs ófullkomleika og ólíks persónuleika, og önnur svipuð vandamál, fremur lítilvæg. Við skulum alltaf hafa markið í sjónmáli! — Matteus 6:20, 21, 33; 2. Korintubréf 4:18.
10. Hvernig getum við sem kristnir menn ‚hegðað okkur með sóma‘?
10 Páll fléttar hér inn í öðru ‚boðorði‘ — því að við höfum það markmið að lifa kyrrlátu lífi, gefa okkur að því sem okkur kemur við og vinna með höndum okkar. Þegar við ‚hegðum okkur þannig með sóma‘ í daglegu lífi, og stundum bæði kærleika byggðan á meginreglum og bróðurkærleika, verður öllum þörfum okkar fullnægt. — 1. Þessaloníkubréf 4:11, 12; Jóhannes 13:35; Rómverjabréfið 12:10-12.
Uppörvun vegna upprisuvonarinnar
11. (a) Hvers vegna hefur Páll nú máls á upprisunni? (b) Hvaða áhrif ættu þessar leiðbeiningar Páls að hafa á okkur?
11 Postulinn minnist þessu næst á hina stórfenglegu upprisuvon. En hví skyldi Páll hafa vakið máls á henni? Hann vildi styrkja bræður sína til að vera þolgóðir í þeim ofsóknum sem mættu þeim. Þeir áttu á hættu að týna lífi. Svo virðist sem þá þegar hafi sumir verið sofnaðir dauðasvefni. Trúbræður þeirra þörfnuðust hughreystingar. (1. Þessaloníkubréf 2:14-20) Þeir héldu að „koma“ eða nærvera Krists væri í nánd og veltu fyrir sér hvað myndi verða um þá sem dánir voru. Það sem Páll skrifar er hughreysting ekki aðeins þeim sem missa kristna ástvini heldur líka hvatning til að vera þolgóð þar til ‚dagur‘ Jehóva rennur upp. Heilræði Páls ættu að hjálpa okkur öllum að vera andlega staðföst þegar við höldum áfram að boða fagnaðarerindið og bíðum þess að þetta heimskerfi líði undir lok. — 2. Þessaloníkubréf 1:6-10.
12. Hvað getur hughreyst okkur þegar ástvinur deyr og hvaðan er sú hughreysting komin?
12 Páll segir: „Ekki viljum vér, bræður, láta yður vera ókunnugt um þá, em sofnaðir eru, til þess að þér séuð ekki hryggir eins og hinir, sem ekki hafa von. (1. Þessaloníkubréf 4:13) Hvílíka uppörvun og hugarfrið veitir ekki upprisuvonin! Um fimm árum síðar hóf Páll síðara bréf sitt til kristinna manna í Korintu með þessum orðum: „Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar, sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað alla aðra í þrengingum þeirra með þeirri huggun, sem vér höfum sjálfir af Guði hlotið.“ — 2. Korintubréf 1:2-4.
13, 14. (a) Hvers vegna vildi Páll að kristnir menn væru upplýstir um hvað dauðinn væri? (b) Hvað sýnir Ritningin um ástand hinna dánu?
13 Postulinn vildi ekki að okkur væri ókunnugt um ástand hinna dánu. Með tíð og tíma myndi mikið fráhvarf verða meðal þeirra sem játuðu sig kristna, svo að þeir myndu snúa sér til babýlonskrar og grískrar heimspeki. Slíkir fráhvarfsmenn myndu bera á höndum sér kenningu Platons um ódauðleika sálarinnar sem nú er ein af grunnkenningum alls heimsveldis falskra trúarbragða. Sú dulúð sem hjúpar „lífið eftir dauðann,“ hvort heldur það er sagt vera á himni, í hreinsunareldi eða eilífum vítiseldi, veitir enga huggun eða uppörvun. Áskapaður ódauðleiki stangast auk þess á við kenninguna um upprisu, því að hvernig er hægt að reisa mann aftur upp til lífs ef sálin deyr ekki?
14 Páll talar hér „um þá, sem sofnaðir eru“ dauðasvefni. Já, hann segir „sofnaðir.“ Sofandi maður er sér einskis meðvitandi og getur ekkert framkvæmt. (Samanber Prédikarann 9:5, 10.) Jesús sagði einu sinni að Lasarus væri „sofnaður“ og að hann, Jesús, ætlaði „að vekja hann.“ Þegar lærisveinar Krists skildu ekki hvað hann átti við „sagði Jesús þeim berum orðum: ‚Lasarus er dáinn.‘ “ Systur Lasarusar, Marta og María, létu upprisuvonina hughreysta sig og Jesús hughreysti þær enn frekar. Það hlýtur að hafa styrkt trú þeirra stórkostlega þegar Jesús vakti vin sinn upp af dauðasvefni, en hann hafði verið dáinn í fjóra daga! — Jóhannes 11:11-14, 21-25, 43-45.
15. (a) Hvað styrkir upprisuvon okkar? (b) Hvað getur verið okkur hjálp við að aðlaga okkur dauða ástvinar?
15 Þetta kraftaverk, ásamt öðrum upprisum sem Jesús framkvæmdi, þó sér í lagi því er Jehóva reisti Jesú sjálfan upp frá dauðum — allt eru þetta skjalfest dæmi sem styrkja trúartraust okkar á hina stórfenglegu upprisuvon. (Lúkas 7:11-17; 8:49-56; 1. Korintubréf 15:3-8) Dauðinn kallar að vísu fram sorg og tár og erfitt er að aðlaga sig því að ástvinur sé horfinn. En hvílík hughreysting og styrkur er okkur ekki sú fullvissa að alvaldur Drottinn Jehóva muni „afmá dauðann að eilífu, og . . . þerra tárin af hverri ásjónu“! (Jesaja 25:8; Opinberunarbókin 21:4) Einhver besta lækning af sorginni er að vera önnum kafinn í þjónustu Guðs friðarins, að miðla öðrum þeirri stórkostlegu von um Guðsríki sem við höfum sjálf tekið við með svo djúpu þakklæti. — Samanber Postulasöguna 20:35.
Röð upprisunnar
16, 17. (a) Hvernig verður „síðasti óvinurinn“ að engu gerður? (b) Í hvaða röð lýsir Páll að upprisan fari fram?
16 Sú trú okkar er sterk að Kristur, „frumgróði“ upprisunnar og nú sitjandi í hásæti við hægri hönd Guðs á himnum, muni fullkomna hinn dýrlega tilgang Jehóva með Guðsríki. (Hebreabréfið 6:17, 18; 10:12, 13) Eins og Páll segir í öðru bréfi: „Honum [Jesú Kristi] ber að ríkja, uns hann leggur alla fjendurna undir fætur hans. Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.“ Hvernig? Að hluta til með upprisunni og með því að áhrif Adamsdauðans munu hverfa. Postulinn skýrði það rétt á undan með þessum hætti: „Þar eð dauðinn kom fyrir mann, kemur og upprisa dauðra fyrir mann. Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist. En sérhver í sinni röð: Kristur sem frumgróðinn, því næst, við komu hans, þeir sem honum tilheyra.“ (1. Korintubréf 15:20-26) Það er þessi röð upprisunnar sem Páll víkur að næst í fyrra bréfi sínu til Þessaloníkumanna. Hann segir:
17 „Því að ef vér trúum því að Jesús sé dáinn og upprisinn, þá mun Guð fyrir Jesú leiða ásamt honum fram þá, sem sofnaðir eru. Því að það segjum vér yður, og það er orð [Jehóva], að vér, sem verðum eftir á lífi við komu Drottins, munum alls ekki fyrri verða en hinir sofnuðu. Því að sjálfur Drottinn mun stíga niður af himni með kalli, með höfuðengils raust og með básúnu Guðs, og þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa.“ — 1. Þessaloníkubréf 4:14-16.
18. Hvenær áttu hinir smurðu, sem voru „sofnaðir,“ að fá upprisu?
18 Eftir 1914, meðan nærvera Jesús sem konungur Guðsríkis stendur yfir, gefur hann sem erkiengill boð af himni um að þeir sem eru ‚í Kristi‘ skuli safnast saman. Séu hinir smurðu „sofnaðir“ dauðasvefni kallar hann þá með básúnu til andlegrar upprisu til himna. Varðturninn hefur lengi sýnt fram á að þessi upprisa smurðra kristinna manna frá dauðum hafi hafist árið 1918.
19. Hvenær og hvernig verða þeir sem eftir eru „hrifnir burt í skýjum“ og í hvaða tilgangi?
19 En hvað um þá innan við 10.000 smurða kristna menn sem enn eru á jörðinni og fer fækkandi? Þeir þurfa líka að ljúka trúfastir jarðnesku lífsskeiði sínu. Páll kemst að orði eins og hann sé með þeim meðan nærvera Krists stendur yfir og segir: „Síðan munum vér, sem eftir lifum, verða ásamt þeim hrifnir burt í skýjum til fundar við Drottin í loftinu. Og síðan munum vér vera með Drottni alla tíma.“ (1. Þessaloníkubréf 4:17; samanber Opinberunarbókina 1:10.) Að því kemur að allir hinir 144.000 verða reistir upp til að þjóna sem prestar og konungar á himnesku Síonfjalli með lambinu Jesú Kristi. „Þetta er fyrri upprisan.“ (Opinberunarbókin 14:1, 4; 20:4, 5) En hvað bíður þeirra milljóna manna sem hvíla nú í gröfum sínum?
20, 21. (a) Hvað eiga þær milljónir manna, sem hvíla í gröfunum, í vændum? (b) Hvaða hópur mun aldrei deyja og hvers vegna? (c) Hvaða von eiga þeir af þessum hópi sem kunna að deyja?
20 Þótt Páll geti þeirra ekki sérstaklega í fyrra bréfi sínu til Þessaloníkumanna fullvissar Opinberunarbókin 20:12 okkur um að ‚hinir dauðu, stórir og smáir,‘ verði reistir upp til að standa frammi fyrir dómarahásæti Guðs. (Sjá einnig Jóhannes 5:28, 29.) Núna hefur hins vegar „mikill múgur“ manna, sem skiptir milljónum, safnast saman frammi fyrir þessu hásæti. Sem heild verður þeim bjargað í gegnum ‚þrenginguna miklu‘ sem er yfirvofandi. Lambið gætir þeirra og leiðir þá til „vatnslinda lífsins“ til að þeir þurfi aldrei að deyja. Sökum aldurs eða ófyrirsjáanlegra atvika munu sumir þeirra þó deyja meðan nærvera Drottins stendur yfir. (Opinberunarbókin 7:9, 14, 17; Prédikarinn 9:11) Hvað um þá?
21 Allir slíkir ‚aðrir sauðir‘ hafa þá gleðiríku von að hljóta upprisu tiltölulega fljótt aftur. (Jóhannes 10:16) Trú þeirra og verk hafa, eins og var hjá Abraham til forna, nú þegar aflað þeim vináttu Guðs. Eins og þeir karlar og konur trúarinnar, sem lýst er í 11. kafla Hebreabréfsins, hafa þessir ‚aðrir sauðir‘ nútímans þolað þrengingar. Rökrétt er því að þeir muni líka hljóta „betri upprisu,“ vafalaust snemma eftir Harmagedón. (Hebreabréfið 11:35; Jakobsbréfið 2:23) Hver einasti maður, sem hefur í trú ‚etið hold Jesú og drukkið blóð hans,‘ mun eiga hlut í uppfyllingu fyrirheits hans: Hann „hefur eilíft líf, og ég reisi hann upp á efsta degi.“ — Jóhannes 6:54; Rómverjabréfið 5:18, 21; 6:23.
22. Hvernig getum við uppörvað hver annan?
22 Eftir að hafa rætt um hina stórfenglegu upprisuvon hvetur Páll: „Uppörvið því hver annan með þessum orðum.“ (1. Þessaloníkubréf 4:18) Síðan heldur hann áfram að ræða um önnur mikilvæg mál tengd „komu Drottins vors Jesú Krists.“ (1. Þessaloníkubréf 5:23) Hver eru þau? Lestu greinina „Friður frá Guði — hvenær?“
Í hnotskurn
◻ Hvaða bænir ber Páll fram í þágu kristinna manna?
◻ Hvaða „boðorð“ gefur postulinn okkur til góðs?
◻ Hvernig hughreystir orð Guðs okkur í sambandi við hina dánu?
◻ Í hvaða röð lýsir Páll að upprisan eigi sér stað?