„Hafið slíka menn í heiðri“
„Hafið mætur á slíkum mönnum.“ — 1. KORINTUBRÉF 16:18.
1. Hvers konar menn mat Páll postuli mjög mikils og hvað skrifaði hann um einn slíkan kristinn mann?
PÁLL postuli mat sérstaklega mikils þá menn sem voru fúsir til að fórna kröftum sínum óskipt fyrir Jehóva og bræður sína. Um einn slíkan samverkamann sagði Páll: „Takið því á móti honum í nafni Drottins með öllum fögnuði, og hafið slíka menn í heiðri. Hann var að vinna fyrir Krist. Þess vegna var hann að dauða kominn. Hann lagði líf sitt í hættu.“ — Filippíbréfið 2:29, 30.
2. Hverja eigum við að meta sérstaklega mikils og hvers vegna?
2 Núna, í meira en 57.000 söfnuðum votta Jehóva, er að finna fjölda kristinna karlmanna sem við ættum að meta sérstaklega mikils vegna kostgæfra starfa þeirra meðal bræðra sinna. Páll benti á að okkur bæri að hafa slíka menn í heiðri og sagði: „Vér biðjum yður, bræður, að sýna þeim viðurkenningu, sem erfiða á meðal yðar og veita yður forstöðu í Drottni og áminna yður. Auðsýnið þeim sérstaka virðingu og kærleika fyrir verk þeirra. Lifið í friði yðar á milli.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:12, 13.
3. (a) Hvað hjálpar okkur að varðveita frið okkar í milli? (b) Á hvaða sviði ættu öldungarnir að gefa gott fordæmi?
3 Jákvætt mat á öllum bræðrum okkar og systrum, ekki síst hinum iðjusömu öldungum, er vafalaust þýðingarmikið til að varðveita frið innan safnaðanna. Öldungarnir ættu að vera „fyrirmynd hjarðarinnar“ í því efni eins og á öllum öðrum sviðum kristilegs lífs. (1. Pétursbréf 5:2, 3) En þótt öldungarnir geti með réttu vænst þess að bræður þeirra meti þá fyrir kostgæft starf þeirra ættu þeir sjálfir að setja gott fordæmi með því að sýna hver öðrum viðeigandi tillitsemi og jákvætt mat.
‚Veitið hver öðrum virðing‘
4, 5. (a) Hvað sýnir að Páll postuli mat mikils eljusama öldunga? (b) Hvað skrifaði hann kristnum mönnum í Róm og hvers vegna eiga orð hans sérstaklega við öldunga?
4 Páll postuli setti gott fordæmi í þessu efni. Eins og við sáum í greininni á undan leitaði hann góðra eiginleika í fari bræðra sinna og systra. Og hann lét ekki við það sitja að hvetja kristna menn til að elska og virða hina iðjusömu öldunga, heldur hafði hann sjálfur jákvætt mat á þeim. Augljóst er að hann hafði slíka menn í heiðri. — Samanber Filippíbréfið 2:19-25, 29; Kólossubréfið 4:12, 13; Títusarbréfið 1:4, 5.
5 Páll skrifaði í bréfi sínu til kristinna manna í Róm: „Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð, og verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing. Verið ekki hálfvolgir í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið [Jehóva].“ (Rómverjabréfið 12:10, 11) Þessi orð eiga ekki síst erindi til kristinna öldunga. Þeir ættu að ganga á undan með góðu fordæmi í því að sýna hver öðrum virðingu.
6, (a) Hvað ættu öldungarnir að forðast og hvers vegna? (b) Hvað getur aukið traust safnaðarins til alls öldungaráðsins?
6 Öldungarnir ættu að varast það sérstaklega að tala niðrandi um samöldunga sína. Enginn einn öldungur hefur alla kristna eiginleika í fullkomnum mæli, því að allir eru ófullkomnir. Allir hafa sínar sterku og sínar veiku hliðar. Ef öldungarnir sýna hver öðrum tilhlýðilegan bróðurkærleika og ástúð munu þeir gera lítið úr veikleikum hvers annars. Í samræðum sínum við bræðurna munu þeir benda á hinar sterku hliðar samöldunga sinna. Með því að taka þannig forystuna í því að veita hver öðrum virðingu styrkja þeir traust safnaðarins til öldungaráðsins í heild.
Vinnið saman sem ráð
7. Hvað hjálpar öldungunum að starfa saman í einingu og hvernig munu þeir sýna það?
7 Eftir að hafa talað um gjafir í mönnum, sem Kristur gaf söfnuði sínum á jörð í þeim tilgangi að fullkomna bræðurna og til þjónustu, skrifaði Páll: ‚Við skulum í kærleika vaxa í öllu upp til hans sem er höfuðið — Kristur.‘ (Efesusbréfið 4:7-15) Það hefur sameinandi áhrif á sérhvert öldungaráð að viðurkenna að Kristur er hið starfandi höfuð safnaðarins og að öldungarnir verða að lúta því yfirvaldi sem hægri hönd hans táknar. (Efesusbréfið 1:22; Kólossubréfið 1:18; Opinberunarbókin 1:16, 20; 2:1) Þeir munu láta heilagan anda, meginreglur Biblíunnar og forystu stjórnandi ráðs hins ‚trúa og hyggna þjóns‘ leiða sig. — Matteus 24:45-47; Postulasagan 15:2, 28; 16:4, 5.
8. Hvað ættu allir öldungarnir að hafa í huga og hvernig munu þeir sýna hver öðrum virðingu?
8 Öldungarnir munu gera sér ljóst að Kristur getur beitt heilögum anda til að leiðbeina huga hvaða öldungs sem er í öldungaráðinu til að benda á þá meginreglu Biblíunnar sem þarf til að mæta sérhverjum aðstæðum eða til að taka þýðingarmiklar ákvarðanir. (Postulasagan 15:6-15) Enginn einn öldungur innan ráðsins hefur einkarétt á anda Guðs. Öldungarnir munu veita hver öðrum virðingu með því að hlusta gaumgæfilega, óháð því hver úr þeirra hópi tjáir sig um það efni sem er til umræðu og bendir á meginreglur Biblíunnar eða fyrirmæli frá hinu stjórnandi ráði.
9. (a) Hvaða andlegir eiginleikar hjálpa umsjónarmanni að forðast ráðríki gagnvart samöldungum sínum? (b) Hvernig getur öldungur sýnt sig sanngjarnan og hvaða fordæmi setti hið stjórnandi ráð fyrstu aldar í því efni?
9 Kristin hógværð, auðmýkt og lítillæti mun forða sérhverjum öldungi frá því að reyna að drottna yfir bræðrum sínum og trana fram skoðunum sínum. (Orðskviðirnir 11:2; Kólossubréfið 3:12) Kristinn umsjónarmaður kann að hafa mjög sterkar og einlægar skoðanir í vissu máli. En ef hann sér að samöldungar hans hafa biblíulegar og guðræðislegar ástæður til að vera á öðru máli mun hann ‚hegða sér eins og sá sem er minnstur‘ og vera „gæfur“ með því að láta undan skoðun meirihlutans.a (Lúkas 9:48; 1. Tímóteusarbréf 3:3) Hann mun líkja eftir góðu fordæmi hins stjórnandi ráðs á fyrstu öld sem komst að ‚einróma niðurstöðu‘ undir handleiðslu Krists sem miðlað var með heilögum anda. — Postulasagan 15:25.
10 (a) Hvað sannar að skipun öldungaráðs í hverjum söfnuði er ráðstöfun sem byggist á Biblíunni? (b) Hvernig útskýrir bókin Skipulag til að fullna þjónustuna kosti þessa fyrirkomulags?
10 Skipun öldungaráðs í hverjum söfnuði til að fara með forystuna er byggð á fyrirmynd frumkristna safnaðarins. (Filippíbréfið 1:1; 1. Tímóteusarbréf 4:14; Títusarbréfið 1:5; samanber neðanmálsathugasemd við orðið „elders“ (öldungar) í Títusarbréfinu 1:5 í The Jerusalem Bible.) Viskan að baki þessari ráðstöfun er dregin saman í bókinni Skipulag til fullna þjónustuna (bls. 37) þar sem segir: „Sumir öldungar skara fram úr á einu sviði en aðrir í ráðinu á öðru. Afleiðingin er sú að innan öldungaráðsins í heild má til jafnaðar finna alla þá góðu eiginleika sem eru nauðsynlegir til að veita söfnuði Guðs viðeigandi umsjón.
Gagnkvæm virðing innan öldungaráðsins
11, 12. (a) Hvernig getur öldungaráðið í heild áorkað meiru en einstaklingarnir sem mynda það? (b) Hvernig störfuðu Kristur Jesús og Páll postuli með öldungaráðum safnaðanna og hvaða ráð voru gefin?
11 Öldungaráðið er því heild sem jafngildir meiru en summu þeirra sem mynda það. Þegar það kemur saman og biður um handleiðslu Jehóva fyrir milligöngu Krists og fyrir heilagan anda getur það tekið ákvarðanir sem ekki hefði verið hægt að taka með því einu að ráðfæra sig við hvern og einn einstakan. Þegar öldungarnir koma saman láta hinir mismunandi eiginleikar þeirra til sín taka og skila árangri sem endurspeglar handleiðslu Krists í málinu. — Samanber Matteus 18:19, 20.
12 Að Kristur skuli hafa átt samskipti við öldungaráð safnaðanna má sjá af þeim boðskap sem hann sendi ‚stjörnunum sjö‘ eða ‚englum safnaðanna sjö‘ í Litlu-Asíu. (Opinberunarbókin 1:11, 20) Fyrsti boðskapurinn var sendur söfnuðinum í Efesus fyrir milligöngu ‚engils‘ hans eða ráðs smurðra umsjónarmanna. Um 40 árum fyrr hafði Páll postuli kallað öldungaráðið í Efesus til sérstaks fundar við sig í Míletus. Hann minnti öldungana á að hafa gát á sjálfum sér og gæta hjarðarinnar. — Postulasagan 20:17, 28.
13. Hvers vegna ættu öldungarnir að gefa gaum að þeim anda sem þeir sýna innan öldungaráðsins og samstarfsvilja sínum við önnur öldungaráð?
13 Öldungaráðin ættu að gæta þess sérstaklega að varðveita góðan og jákvæðan anda innan sinna vébanda og innan safnaðarins. (Postulasagan 20:30) Á sama hátt og einstakir kristnir menn hafa ákveðinn anda, eins getur öldungaráðið og söfnuðurinn í heild þroskað með sér ákveðinn anda. (Filippíbréfið 4:23; 2. Tímóteusarbréf 4:22; Fílemonsbréfið 25) Stundum gerist það að öldungar, sem virða hver annan innan síns eigin safnaðar, sýna ekki öðru öldungaráði nægan samstarfsvilja. Í borgum, þar sem nokkrir söfnuðir koma saman í sama salnum, verður stundum ósætti milli öldungaráða um samkomutíma, svæðismörk, innréttingu og búnað Ríkissalarins og fleira. Sama hæverska, auðmýkt, hógværð og sanngirni og ræður viðhorfum öldunganna innan hvers öldungaráðs, ætti að birtast í samskiptum öldungaráðanna. Páll postuli ráðlagði: „Allt skal miða til uppbyggingar.“ — 1. Korintubréf 14:26.
Tilhlýðileg virðing fyrir farandumsjónarmönnum
14. Hvaða annan hóp öldunga ber einnig að hafa í heiðri og hvers vegna?
14 Annað biblíulegt fyrirkomulag meðal safnaða votta Jehóva eru reglulegar heimsóknir farandumsjónarmanna, svonefndra farandhirða og umdæmishirða. (Postulasagan 15:36; 16:4, 5) Þeir eru í sérstökum mæli „öldungar . . . sem veita góða forstöðu.“ Þeir skulu til jafns við aðra öldunga, „hafðir í tvöföldum metum, allra helst þeir sem erfiða í orðinu og kennslu.“ — 1. Tímóteusarbréf 5:17.
15. Hvað ráðlagði Jóhannes postuli í sambandi við farandumsjónarmenn?
15 Í þriðja bréfi sínu gagnrýnir Jóhannes postuli Díótrefes fyrir að ‚taka ekki á móti bræðrunum.‘ (Vers 10) Þessir bræður voru farandumsjónarmenn sem lögðu af stað „sakir nafnsins,“ nafns Jehóva. (Vers 7) Þeir höfðu bersýnilega verið sendir út sem kristniboðar til að boða fagnaðarerindið og byggja upp söfnuðina í þeim bæjum sem þeir heimsóttu. Jóhannes mælti svo fyrir að ‚greiða skyldi för‘ þessara farandprédikara „eins og verðugt er fyrir Guði.“ (Vers 6) Postulinn bætti við: „Þess vegna ber oss að taka þvílíka menn að oss, til þess að vér verðum samverkamenn sannleikans.“ (Vers 8) Því bar að taka á móti þeim með virðingu.
16. Hvernig geta allir kristnir nútímamenn fylgt fordæmi Gajusar í ‚dyggilegri‘ þjónustu sinni við kristniboða fyrstu aldar og hvers vegna er það viðeigandi?
16 Þegar farandumsjónarmenn, sem hið stjórnandi ráð sendir út til að prédika fagnaðarerindið og hjálpa söfnuðunum, koma í heimsókn, ber á sama hátt að sýna þeim gestrisni og virðingu. Þessir bræður og eiginkonur þeirra (ef þeir eru kvæntir eins og margir eru) hafa af fúsu geði neitað sér um að eiga fast heimili. Þeir ferðast stað úr stað og eiga oft mat sinn og næturstað undir gestrisni bræðranna. Jóhannes skrifaði Gajusi sem tók hlýlega á móti farandprédikurunum á fyrstu öld: „Þú breytir dyggilega, minn elskaði, í öllu sem þú vinnur fyrir bræðurna og jafnvel ókunna menn.“ (3. Jóhannesarbréf 5) Þeir sem nú á dögum ferðast um ‚vegna nafns Jehóva‘ verðskulda á sama hátt að við metum þá mikils og sýnum þeim kærleika og virðingu.
17. Hvernig ættu safnaðaröldungar að sýna gestkomandi fulltrúum hins stjórnandi ráðs tilhlýðilega virðingu?
17 Sérstaklega öldungunum ber að sýna þessum gestkomandi fulltrúum hins stjórnandi ráðs virðingu. Þeir eru sendir til safnaðanna vegna andlegra hæfileika sinna og reynslu sem er yfirleitt meiri heldur en margir öldungar safnaðanna búa yfir. Sumir þessara farandumsjónarmanna kunna að vera yngri að árum en ýmsir öldungar í söfnuðunum sem þeir heimsækja, en það réttlætir það ekki að þeim sé ekki sýnd tilhlýðileg virðing. Farandumsjónarmönnum getur fundist þeir þurfa að tempra ákafa öldunganna í söfnuðinum í að mæla með bróður sem safnaðarþjóni eða öldungi, minnugir varnaðarorða Páls til Tímóteusar. (1. Tímóteusarbréf 5:22) Farandumsjónarmanninum ber að sjálfsögðu að hlusta með athygli á rök öldunga þess safnaðar, sem hann heimsækir, og þeir ættu að sama skapi að vera fúsir til að hlusta á hann og njóta góðs af víðtækri reynslu hans. Já, þeir ættu að ‚hafa slíka menn í heiðri.‘ — Filippíbréfið 2:29.
„Hafið mætur á slíkum mönnum“
18, 19. (a) Hvernig lét Páll í ljós að hann kynni að meta samstarfsmenn sína? (b) Hvaða dæmi sýnir að Páll bar ekki í brjósti kala til bræðra sinna?
18 Í fyrra bréfi sínu til Korintumanna skrifaði Páll: „Um eitt bið ég yður, bræður. Þér vitið að Stefanas og heimili hans er frumgróði Akkeu og að þeir hafa helgað sig þjónustu heilagra. Sýnið slíkum mönnum undirgefni og hverjum þeim er starfar með og leggur á sig erfiði. Ég gleðst yfir návist þeirra Stefanasar, Fortúnatusar og Akkaíkusar, af því að þeir hafa bætt mér upp fjarvist yðar. Þeir hafa bæði glatt mig og yður. Hafið mætur á slíkum mönnum.“ — 1. Korintubréf 16:15-18.
19 Páll sýnir hér bræðrum sínum mikið göfuglyndi þótt sumir þeirra væru lítt þekktir. En Páll elskaði þá vegna þess að þeir ‚störfuðu með‘ og ‚lögðu á sig erfiði‘ í þjónustu heilagra. Páll setti líka göfugmannlegt fordæmi í því að láta gömul mál falla í gleymsku. Enda þótt Jóhannes Markús hafi brugðist honum á fyrstu trúboðsferð hans mælti hann innilega með honum síðar við söfnuðinn í Kólossu. (Postulasagan 13:13; 15:37, 38; Kólossubréfið 4:10) Meðan Páll var fangi í Róm bað hann um að Markús kæmi til sín „því að hann er mér þarfur til þjónustu,“ sagði Páll. (2. Tímóteusarbréf 4:11) Hér var ekki verið að erfa gamlar sakir.
20. Hvernig ber kristnum mönnum almennt, og þó sér í lagi öldungum, að sýna að þeir meti að verðleikum trúfasta umsjónarmenn og ‚hafi þá í heiðri‘?
20 Meðal þjóna Guðs nú á tímum er að finna marga kostgæfa umsjónarmenn sem þjóna bræðrum sínum líkt og Stefanas. Að sjálfsögðu hafa þeir sína galla og gera sín mistök. Eigi að síður ‚starfa þeir með‘ hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘ og hinu stjórnandi ráði og ‚leggja á sig erfiði‘ í að prédika fagnaðarerindið og hjálpa bræðrum sínum. Við ættum að ‚sýna slíkum mönnum undirgefni,‘ meta þá að verðleikum fyrir eiginleika sína en ekki að leita að göllum þeirra. Öldungar ættu að taka forystuna í að sýna samöldungum sínum tilhlýðilega virðingu og meta þá að verðleikum. Öldungarnir ættu að vinna saman í anda kærleika og einingar. Þá munu allir gera sér ljóst hversu verðmætt er að eiga slíka trúfasta bræður og ‚hafa slíka menn í heiðri.‘ — Filippíbréfið 2:29.
[Neðanmáls]
a Neðanmálsathugasemd í New World Translation Reference Bible gefur til kynna að orðið „gæfur“ (eða „sanngjarn“) í 1. Tímóteusarbréfi 3:3 sé þýðing á grísku orði sem bókstaflega merkir „auðsveipur.“
Upprifjun
◻ Hvers konar menn hafði Páll í sérlega miklum metum og hverjir verðskulda slíka virðingu núna?
◻ Hvernig ber öldungum að sýna að þeir hafa hvern annan í heiðri?
◻ Hvers vegna getur öldungaráð áorkað meiru en einstaklingarnir sem mynda það hver fyrir sig?
◻ Á hvaða sviðum getur öldungaráð sýnt að það heiðri annað öldungaráð?
◻ Hvaða hópur umsjónarmanna verðskuldar sérstaka virðingu og hvernig er hægt að sýna hana?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Öldungar ættu að meta hver annan að verðleikum.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Sýndu farandumsjónarmönnum kærleika og virðingu.