Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Korintubréfanna
PÁLL postuli hefur þungar áhyggjur af andlegri velferð safnaðarins í Korintu. Honum hefur borist til eyrna að það sé ósætti í söfnuðinum. Siðleysi er látið viðgangast. Söfnuðurinn hefur auk þess skrifað Páli og spurst fyrir um viss mál. Hann skrifar því fyrra bréfið til Korintumanna árið 55 og er þá staddur í Efesus á þriðju trúboðsferðinni.
Síðara bréfið mun vera skrifað nokkrum mánuðum seinna og er framhald af því fyrra. Efni Korintubréfanna á mikið erindi til okkar vegna þess að ástandið innan og utan safnaðarins í Korintu á fyrstu öld er að mörgu leyti líkt því sem við búum við. — Hebr. 4:12.
‚VAKIÐ, STANDIÐ STÖGUG, VERIÐ STYRK‘
„Ég hvet ykkur . . . að vera öll samhuga,“ skrifar Páll. (1. Kor. 1:10) Kristnir eiginleikar geta ekki byggst á öðrum grunni en Jesú Kristi. (1. Kor. 3:11-13) Um saurlífismann í söfnuðinum segir Páll: „Útrýmið hinum vonda úr ykkar hópi.“ (1. Kor. 5:13) „Líkaminn er ekki fyrir saurlífi heldur fyrir Drottin.“ — 1. Kor. 6:13.
Páll svarar fyrirspurn Korintumanna með því að gefa þeim góð ráð um hjónaband og einhleypi. (1. Kor. 7:1) Eftir að hafa fjallað um kristnar meginreglur um forystu, góða reglu á samkomum og vissu upprisunnar hvetur hann: „Vakið, standið stöðug í trúnni, verið hugdjörf og styrk.“ — 1. Kor. 16:13.
Biblíuspurningar og svör:
1:21 — Notar Jehóva virkilega ‚heimsku‘ til að frelsa þá sem trúa? Nei, en þar sem „mennirnir [gátu] ekki þekkt Guð með sinni speki“ finnst heiminum það vera heimska sem Guð notar til að frelsa fólk. — Jóh. 17:25.
5:5 — Hvað merkir það að „selja [óguðlegan] mann Satan á vald til tortímingar holdinu, til þess að andinn megi hólpinn verða“? (Biblían 1981) Þegar manni, sem stundar grófa synd en iðrast ekki, er vikið úr söfnuðinum verður hann aftur hluti af illum heimi Satans. (1. Jóh. 5:19) Þess vegna er komist svo að orði að hann sé seldur Satan á vald. Með því að víkja honum úr söfnuðinum er spillandi áhrifum innan safnaðarins ‚tortímt‘ svo að andi eða ríkjandi viðhorf safnaðarins varðveitist. — 2. Tím. 4:22.
7:33, 34 — Hvaða „veraldleg efni“ ber kvæntur maður eða gift kona fyrir brjósti? Páll á hér við hin daglegu mál sem gift kristið fólk þarf að sinna. Þetta getur verið fæði, klæði og húsnæði en auðvitað ekki hið illa í heiminum því að kristnir menn forðast það. — 1. Jóh. 2:15-17.
11:26 — Páll nefnir „hvert sinn“ sem dauða Jesú sé minnst. Hve oft er það og hvað er átt við með „þangað til“? Hann á við það að andasmurðir kristnir menn ‚boði dauða Drottins‘ í hvert sinn sem þeir neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni sem er haldin einu sinni á ári hinn 14. nísan. Þeir gera það „þangað til hann kemur“, það er að segja þangað til hann reisir þá upp til himna. — 1. Þess. 4:14-17.
13:13 — Að hvaða leyti er kærleikur meiri en trú og von? Þegar það sem við vonum er komið fram og fullvissan um það orðin að veruleika hafa trú og von ekki sama hlutverki að gegna og áður. (Hebr. 11:1) Kærleikurinn er þeim meiri vegna þess að hann er eilífur.
15:29 — Hvað merkir það að „láta skírast fyrir hina dánu“? Páll á ekki við það að hinir lifandi láti skírast fyrir þá sem deyja óskírðir. Hann er að tala um skírn andasmurðra kristinna manna en með henni hefja þeir lífsstefnu sem byggist á því að varðveita ráðvendni þangað til þeir deyja og rísa upp sem andaverur.
Lærdómur:
1:26-31; 3:3-9; 4:7. Við stuðlum að einingu í söfnuðinum með því að hrósa okkur með hógværð í Drottni Jehóva en ekki sjálfum okkur.
2:3-5. Korinta var miðstöð grískrar heimspeki og menntunar. Páll velti ef til vill fyrir sér hvort honum myndi takast að sannfæra áheyrendur sína þar. En hann lét hvorki veikleika né ótta hindra sig í að sinna þeirri þjónustu sem Guð hafði falið honum. Við ættum ekki heldur að láta einhverjar óvenjulegar aðstæður koma í veg fyrir að við boðum fagnaðarerindið um ríki Guðs. Við getum óhikað treyst á hjálp Jehóva líkt og Páll gerði.
2:16. Að hafa „huga Krists“ merkir að þekkja hugsunarhátt hans, að hugsa eins og hann, að hafa góðan skilning á persónuleika hans og líkja eftir honum. (1. Pét. 2:21; 4:1) Það er mikilvægt að kynna sér vandlega ævi og þjónustu Jesú.
3:10-15; 4:17. Við ættum að skoða vel hvernig við kennum og gerum fólk að lærisveinum og reyna að bæta okkur. (Matt. 28:19, 20) Ef við vöndum ekki kennsluna getur svo farið að nemendur okkar standist ekki þegar á reynir, og missirinn getur orðið svo sár að björgun okkar verði „eins og úr eldi“.
6:18. Til að ‚forðast saurlifnaðinn‘ þarf ekki aðeins að forðast porneia heldur einnig klám, óhreinleika í siðferðismálum, siðlausa draumóra og daður — hvaðeina sem getur leitt til saurlifnaðar. — Matt. 5:28; Jak. 3:17.
7:29. Hjón ættu að gæta sín að verða ekki svo upptekin hvort af öðru að þjónustan við ríki Guðs sitji á hakanum.
10:8-11. Jehóva var stórlega misboðið þegar Ísraelsmenn mögluðu gegn Móse og Aroni. Það er skynsamlegt að venja sig ekki á að mögla.
16:2. Ef við ætlum að styrkja boðunarstarfið í heiminum fjárhagslega er gott að gera ákveðna áætlun og leggja reglubundið eitthvað af mörkum.
„TAKIÐ LEIÐRÉTTINGU“
Páll segir kristnum mönnum í Korintu að fyrirgefa og uppörva iðrandi syndara sem hafði verið áminntur. Þótt Páll hefði hryggt þá með fyrra bréfi sínu gleðst hann yfir því að hryggð þeirra skuli hafa leitt til þess að þeir bættu ráð sitt. — 2. Kor. 2:6, 7; 7:8, 9.
Páll segir að Korintumenn ‚skari fram úr í öllu‘ og hvetur þá til að ‚skara fram úr í því að gefa‘. Eftir að hafa svarað andstæðingum sínum ráðleggur hann öllum: „Verið glöð. Verið fullkomin [„takið leiðréttingu“, NW], áminnið hvert annað, verið samhuga, lifið saman í friði.“ — 2. Kor. 8:7; 13:11.
Biblíuspurningar og svör:
2:15, 16 — Í hvaða skilningi erum við ‚ilmur sem flytur Krist‘? Við erum það vegna þess að við fylgjum Biblíunni og tökum þátt í að útbreiða boðskap hennar. Þetta er þægilegur ilmur fyrir Jehóva og hjartahreint fólk þó að ranglátir hafi kannski andstyggð á honum.
5:16 — Hvernig meta hinir andasmurðu „engan að mannlegum hætti“? Það merkir að þeir mismuna ekki fólki eftir fjárhag, kynþætti eða þjóðerni. Í augum þeirra eru það bræðraböndin milli trúsystkina sem skipta máli.
11:1, 16; 12:11 — Hagaði Páll sér „eins og heimskingi“ gagnvart Korintumönnum? Alls ekki. Hins vegar getur verið að sumum hafi þótt hann stærilátur og ósanngjarn vegna þess sem hann var tilneyddur að segja til varnar postuladómi sínum.
12:1-4 — Hver var „hrifinn upp í Paradís“? Í Biblíunni er ekki sagt frá neinum nema Páli sem sá slíka sýn, og lýsing hans er í beinu framhaldi af vörn hans fyrir postuladómi sínum. Hann er því trúlega að lýsa eigin reynslu. Það sem hann sá í sýninni var líklega andlega paradísin sem kristni söfnuðurinn býr við þegar „dregur að endalokum“. — Dan. 12:4.
Lærdómur:
3:5. Í meginatriðum segir þetta vers að Jehóva noti orð sitt, heilagan anda og jarðneskan hluta alheimssafnaðar síns til að veita þjónum sínum þá hæfileika sem þarf til þjónustunnar. (Jóh. 16:7; 2. Tím. 3:16, 17) Við ættum að vera dugleg við biblíunám og lestur biblíutengdra rita, biðja oft um heilagan anda og sækja safnaðarsamkomur að staðaldi og taka þátt í þeim. — Sálm. 1:1-3; Lúk. 11:10-13; Hebr. 10:24, 25.
4:16. Þar sem Jehóva endurnýjar ‚dag frá degi hinn innri mann‘ ættum við að notfæra okkur að staðaldri allt sem Jehóva lætur í té og ekki láta dag líða án þess að gera eitthvað til að styrkja sambandið við hann.
4:17, 18. Ef við höfum hugfast að þrenging okkar er „skammvinn og léttbær“ getur það auðveldað okkur að vera Jehóva trú þegar erfiðleika ber að garði.
5:1-5. Páll lýsir ákaflega fallega hvernig hinir andasmurðu hugsa um þá von að lifa á himnum.
10:13. Það er almenn regla að starfa aðeins á því svæði sem söfnuðinum okkar hefur verið úthlutað, nema við höfum verið beðin sérstaklega um að verða að liði þar sem þörfin er meiri.
13:5. Til að ‚rannsaka hvort trú okkar kemur fram í breytni‘ þurfum við að bera breytni okkar saman við það sem við lærum í Biblíunni. Til að ‚prófa okkur sjálf‘ þurfum við að leggja mat á hve sterkt samband við eigum við Jehóva, hve vel við höfum agað hugann og hve mikil trúarverk við vinnum. (Hebr. 5:14; Jak. 1:22-25) Ef við förum eftir ráðleggingum Páls getum við haldið áfram að ganga á vegi sannleikans.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Hvað merkja orðin „hvert sinn sem þið etið þetta brauð og drekkið af bikarnum“? — 1. Kor. 11:26.