Hvað fær þig til að þjóna Guði?
„Þú skalt elska [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.“ — MARKÚS 12:30.
1, 2. Hverju er áorkað með prédikunarstarfinu?
GÆÐI bifreiðar ráðast ekki bara af útlitinu. Fallegt lakk gefur henni skemmtilegt útlit, og rennileg lögun getur verið lokkandi fyrir væntanlegan kaupanda. En það sem sést ekki við fyrstu sýn er langtum þýðingarmeira — svo sem hreyfillinn er knýr ökutækið og allur búnaðurinn sem stjórnar því.
2 Eins er það með þjónustu kristins manns við Guð. Vottar Jehóva eru auðugir af guðræknisverkum. Ár hvert verja þeir yfir milljarði klukkustunda í að prédika fagnaðarerindið um ríki Guðs. Biblíunám eru haldin í milljónatali og menn skírast í hundruðþúsundatali. Ef þú ert boðberi fagnaðarerindisins átt þú hlutdeild í þessum tölum þótt hún virðist kannski lítil. Og þú mátt vera viss um að „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans.“ — Hebreabréfið 6:10.
3. Hvað ættu kristnir menn að láta sér umhugað um auk verka, og hvers vegna?
3 En raunverulegt gildi þjónustunnar — samanlagt og okkar sem einstaklinga — mælist ekki einvörðungu í tölum. Eins og Samúel var sagt líta „mennirnir . . . á útlitið, en [Jehóva] lítur á hjartað.“ (1. Samúelsbók 16:7) Já, það sem skiptir máli hjá Guði er okkar innri maður. Verkin eru vissulega nauðsynleg. Guðrækileg verk prýða kenningu Jehóva og laða að væntanlega lærisveina. (Matteus 5:14-16; Títusarbréfið 2:10; 2. Pétursbréf 3:11) En verkin segja ekki alla söguna. Hinn upprisni Jesús hafði áhyggjur af söfnuðinum í Efesus — þrátt fyrir góð verk hans. „Ég þekki verkin þín,“ sagði hann söfnuðinum. „En það hef ég á móti þér, að þú hefur afrækt þinn fyrri kærleika.“ — Opinberunarbókin 2:1-4.
4. (a) Á hvaða hátt gæti þjónusta okkar við Guð orðið eins og trúarsiður sem við höldum af skyldukvöð? (b) Af hverju þurfum við að líta í eigin barm?
4 Sú hætta er á ferðum að þjónusta okkar við Guð geti orðið eins og trúarsiður sem við höldum af skyldukvöð. Kristin kona lýsti því þannig: „Ég fór út í starfið, sótti samkomur, nam og bað — en ég gerði þetta allt vélrænt og tilfinningalaust.“ Þjónar Guðs eiga auðvitað hrós skilið er þeir leggja sig fram þótt þeim finnist þeir „felldir til jarðar“ og ‚beygðir.‘ (2. Korintubréf 4:9; 7:6) En þegar við erum farin að hjakka í sama farinu í hinum kristna vanagangi þurfum við að ‚kíkja undir vélarlokið‘ ef svo má segja. Jafnvel bestu bílar þarfnast reglubundins viðhalds, og allir kristnir menn þurfa á sama hátt að líta reglulega í eigin barm. (2. Korintubréf 13:5) Aðrir geta séð verk okkar en þeir sjá ekki hvað knýr okkur til verka. Við ættum því hvert og eitt að spyrja okkur: ‚Hvað fær mig til að þjóna Guði?‘
Tálmar í vegi réttra hvata
5. Hvaða boðorð sagði Jesús að væri æðst allra?
5 Aðspurður hvaða ákvæði í lögum Ísraels væri æðst allra vitnaði Jesús í boðorð sem beindi athyglinni að innri hvötum en ekki ytra útliti: „Þú skalt elska [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.“ (Markús 12:28-30) Jesús benti þannig á hver ætti að vera aflvaki þjónustu okkar við Guð — kærleikur.
6, 7. (a) Hvernig hefur Satan á lævísan hátt ráðist á fjölskylduna og hvers vegna? (2. Korintubréf 2:11) (b) Hvaða áhrif getur uppeldi haft á viðhorf okkar til yfirráða Guðs?
6 Satan vill hindra okkur í að rækta þennan mikilvæga eiginleika, kærleikann. Ein aðferð hans er sú að ráðast á fjölskylduna. Af hverju? Af því að þar eru fyrstu og sterkustu mótunaráhrif kærleikans. Satan þekkir vel þá biblíulegu meginreglu að það sem lærist í bernsku getur verið mikils virði á fullorðinsárunum. (Orðskviðirnir 22:6) Hann reynir á lævísan hátt að brengla kærleikshugtakið á unga aldri. Það þjónar vel tilgangi Satans, sem er „guð þessarar aldar,“ að margir alist upp á heimilum sem eru ekki beinlínis kærleiksathvarf heldur frekar vígvöllur beiskju, reiði og lastmælgi. — 2. Korintubréf 4:4; Efesusbréfið 4:31, 32; 6:4; Kólossubréfið 3:21.
7 Bókin Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt bendir á að faðirinn ‚geti haft veruleg áhrif á viðhorf barna sinna síðar meir til yfirvalds, jafnt manna sem Guðs‘ með því hvernig hann rækir föðurhlutverkið.a Kristinn maður, sem ólst upp undir harðri hendi strangs föður, viðurkennir: „Ég á auðvelt með að hlýða Jehóva en mér finnst miklu erfiðara að elska hann.“ Hlýðni er auðvitað mikilvæg því að í augum Guðs er ‚hlýðni betri en fórn.‘ (1. Samúelsbók 15:22) En hvað getur hjálpað okkur ekki bara að hlýða Jehóva heldur líka að rækta með okkur kærleika til hans svo að slíkur kærleikur verði aflið að baki tilbeiðslu okkar?
„Kærleiki Krists knýr oss“
8, 9. Hvernig ætti lausnarfórn Jesú að glæða kærleika okkar til Jehóva?
8 Að meta lausnarfórn Jesú Krists að verðleikum er sterkasti hvati þess að elska Jehóva af heilu hjarta. „Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann.“ (1. Jóhannesarbréf 4:9) Þegar við skiljum þetta kærleiksverk og metum það að verðleikum fær það okkur til að elska Guð á móti. „Vér elskum, því að [Jehóva] elskaði oss að fyrra bragði.“ — 1. Jóhannesarbréf 4:19.
9 Jesús tók fúslega við því verkefni að vera frelsari mannsins. „Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss.“ (1. Jóhannesarbréf 3:16; Jóhannes 15:13) Fórnfús kærleikur Jesú ætti að vekja með okkur þakklæti. Lýsum því með dæmi: Setjum sem svo að þér hefði verið bjargað frá drukknun. Gætirðu bara farið heim, þurrkað þér og gleymt öllu saman? Auðvitað ekki! Þér myndi finnast þú standa í þakkarskuld við björgunarmann þinn. Þú skuldar honum líf þitt. Skuldum við Jehóva Guði og Jesú Kristi eitthvað minna? Án lausnargjaldsins myndum við drukkna í synd og dauða. En vegna þessa mikla kærleiksverks höfum við þá von að lifa að eilífu í paradís á jörð. — Rómverjabréfið 5:12, 18; 1. Pétursbréf 2:24.
10. (a) Hvernig getum við látið lausnargjaldið fá meiri persónulega þýðingu fyrir okkur? (b) Hvernig knýr kærleiki Krists okkur?
10 Hugleiddu lausnargjaldið. Taktu það persónulega til þín eins og Páll gerði: „Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son, sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.“ (Galatabréfið 2:20) Slík hugleiðing kveikir sterka hvöt með okkur því að Páll skrifaði Korintumönnum: „Kærleiki Krists knýr oss, því að . . . hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.“ (2. Korintubréf 5:14, 15) The Jerusalem Bible segir að kærleikur Krists ‚gagntaki okkur.‘ Þegar við ígrundum kærleika Krists erum við knúin, djúpt snortin, jafnvel gagntekin. Hann snertir hjörtu okkar og knýr okkur til verka. Eins og þýðing J. B. Phillips umorðar versið er ‚kærleikur Krists driffjöður verka okkar.‘ Ef eitthvað annað knýr okkur skilar það ekki varanlegum ávexti hjá okkur eins og farísearnir eru gott dæmi um.
„Varist súrdeig farísea“
11. Lýstu viðhorfum faríseanna til trúarverka.
11 Farísearnir drógu allan kraft úr tilbeiðslunni á Guði. Í stað þess að leggja áherslu á kærleika til Guðs álitu þeir verkin vera prófstein andlegs hugarfars. Þeir voru svo uppteknir af ítarlegum reglum að þeir virtust vera réttlátir hið ytra en hið innra voru þeir ‚fullir af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra.‘ — Matteus 23:27.
12. Hvernig sýndu farísearnir harðúð hjartna sinna eftir að Jesús læknaði mann nokkurn?
12 Einhverju sinni læknaði Jesús í meðaumkun sinni mann með visnaða hönd. Þessi maður hlýtur að hafa verið yfir sig glaður að læknast á augabragði af fötlun sem var honum vafalaust til trafala líkamlega og tilfinningalega. En farísearnir samglöddust honum ekki. Þess í stað nöldruðu þeir út af formgalla — að Jesús hafði hjálpað manninum á hvíldardegi. Svo uppteknir voru farísearnir af formlegri túlkun lögmálsins að þeir misstu algerlega sjónar á anda þess. Það er engin furða að Jesús skyldi vera „sárhryggur yfir harðúð hjartna þeirra.“ (Markús 3:1-5) Og hann sagði lærisveinunum: „Varist súrdeig farísea og saddúkea.“ (Matteus 16:6) Verk þeirra og viðhorf eru afhjúpuð í Biblíunni okkur til gagns.
13. Hvað lærum við af varnaðarfordæmi faríseanna?
13 Farísearnir eru varnaðardæmi sem kennir okkur að við þurfum að hafa skynsamlega afstöðu til verka. Verk eru vissulega nauðsynleg því að ‚trúin er dauð án verka.‘ (Jakobsbréfið 2:26) En ófullkomnir menn hafa tilhneigingu til að dæma aðra út frá því sem þeir gera en ekki því sem þeir eru. Stundum dæmum við jafnvel sjálf okkur þannig. Við gætum einblínt á afköst okkar rétt eins og þau væru eini mælikvarði andlegs hugarfars. Við gætum gleymt því að við þurfum að rannsaka hvatir okkar. (Samanber 2. Korintubréf 5:12.) Við gætum orðið stífir lagabókstafsmenn sem ‚sía mýfluguna en svelgja úlfaldann,‘ hlýtt bókstaf laganna en brotið gegn andanum að baki þeim. — Matteus 23:34.
14. Hvernig voru faríseanir eins og óhreinn bikar eða diskur?
14 Það sem farísearnir skildu ekki var að verk guðrækninnar koma sjálfkrafa ef maður elskar Jehóva í alvöru. Andlegt hugarfar kemur innan frá og birtist hið ytra. Jesús fordæmdi faríseana harðlega fyrir rangan hugsunarhátt þeirra í þessu efni og sagði: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hreinsið bikarinn og diskinn utan, en innan eru þeir fullir yfirgangs og óhófs. Blindi farísei, hreinsaðu fyrst bikarinn innan, að hann verði líka hreinn að utan.“ — Matteus 23:25, 26.
15. Nefndu dæmi sem sýna að Jesús horfir ekki bara á útlitið.
15 Ytra útlit bikars, disks eða jafnvel byggingar segir ekki alla söguna. Lærisveinar Jesú báru mikla lotningu fyrir musterinu í Jerúsalem sökum fegurðar þess, en Jesús kallaði það „ræningjabæli“ vegna þess sem fram fór inni í því. (Markús 11:17; 13:1) Hið sama gilti um musterið og gildir um milljónir manna er kalla sig kristna, eins og saga kristna heimsins ber með sér. Jesús sagðist myndu dæma suma, sem ynnu „kraftaverk“ í hans nafni, „illgjörðamenn.“ (Matteus 7:22, 23) En um ekkju, sem gaf hverfandi litla fjárhæð til musterisins, sagði hann: „Þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna. . . . Hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“ (Markús 12:41-44) Var Jesús sjálfum sér ósamkvæmur? Alls ekki. Í báðum tilvikum endurspeglaði hann viðhorf Jehóva. (Jóhannes 8:16) Hann sá hvötina að baki verkunum og dæmdi eftir því.
„Hverjum eftir hæfni“
16. Af hverju þurfum við ekki alltaf að bera starf okkar saman við starf annars kristins manns?
16 Ef hvatir okkar eru réttar er engin ástæða til að vera sífellt að bera sig saman við aðra. Það gerir til dæmis lítið gagn að láta samkeppnishug reka sig til að reyna að verja jafnmiklum tíma til þjónustunnar og einhver annar kristinn maður eða reyna að ná sama árangri í prédikunarstarfinu og hann. Jesús sagði að við ættum að elska Jehóva af öllu hjarta, huga, sálu og mætti sjálfra okkar — ekki einhvers annars. Hæfni manna, þrek og aðstæður eru misjafnar. Ef aðstæður leyfa kemur kærleikurinn þér til að verja miklum tíma til þjónustunnar — kannski í fullu starfi sem brautryðjandi. En ef þú átt í höggi við sjúkdóm geturðu kannski ekki notað jafnmikinn tíma til starfsins og þú vildir. Misstu ekki kjarkinn. Trúfesti við Guð er ekki mæld í klukkustundum. Ef hvatir þínar eru hreinar hefurðu ástæðu til að vera glaður. Páll skrifaði: „Sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra.“ — Galatabréfið 6:4.
17. Endursegðu dæmisöguna um talenturnar stuttlega með eigin orðum.
17 Tökum dæmisögu Jesú um talenturnar í Matteusi 25:14-30 sem dæmi. Maður, sem ætlaði úr landi, kallaði þjóna sína saman og fól þeim eigur sínar. „Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni.“ Hvað uppgötvaði húsbóndinn er hann sneri aftur til að láta þá gera skil? Þjónninn, sem hafði fengið fimm talentur, hafði grætt aðrar fimm. Eins hafði sá sem fékk tvær talentur grætt aðrar tvær. Þjónninn, sem fengið hafði eina talentu, gróf hana í jörð og gerði ekkert til að ávaxta fé húsbónda síns. Hvernig mat húsbóndinn stöðuna?
18, 19. (a) Af hverju bar húsbóndinn ekki þjóninn með tvær talenturnar saman við þjóninn sem fékk fimm? (b) Hvað kennir dæmisagan um talenturnar okkur um hrós og samanburð? (c) Af hverju fékk þriðji þjónninn bágt fyrir framlag sitt?
18 Lítum fyrst á þjónana sem fengu fimm talentur og tvær. Við báða þessa þjóna sagði húsbóndinn: „Gott, þú góði og trúi þjónn.“ Hefði hann sagt það við þjóninn með fimm talenturnar ef hann hefði ekki grætt nema tvær? Það er ólíklegt. Á hinn bóginn sagði hann ekki við þjóninn sem fékk tvær talentur: ‚Af hverju græddirðu ekki fimm? Líttu á samþjón þinn og sjáðu hve mikið hann græddi fyrir mig!‘ Nei, þessi umhyggjusami húsbóndi, sem táknaði Jesú, bar menn ekki saman. Hann fékk þjónunum talentur í hendur „hverjum eftir hæfni“ og ætlaðist ekki til meira af þeim en þeir gátu gefið. Báðum þjónunum var hrósað jafnt því að báðir unnu af allri sálu fyrir húsbónda sinn. Við getum öll dregið lærdóm af þessu.
19 Þriðji þjónninn fékk auðvitað ekkert hrós. Honum var kastað út í myrkrið fyrir utan. Hann hafði bara fengið eina talentu og ekki var til þess ætlast að hann græddi jafnmikið og sá sem fimm talenturnar fékk. En hann reyndi ekki einu sinni! Hann fékk bágt fyrir af því að hann var ‚illur og latur‘ í hjarta, sem sýndi að hann elskaði ekki húsbónda sinn.
20. Hvernig lítur Jehóva á takmörk okkar?
20 Jehóva væntir þess af hverjum og einum að elska hann af öllum mætti, en það yljar okkur samt um hjartarætur að hann skuli ‚þekkja eðli okkar, minnast þess að við erum mold‘! (Sálmur 103:14) Orðskviðirnir 21:2 segja að ‚Jehóva vegi hjörtun‘ — ekki tölur á eyðublaði. Hann skilur þau takmörk sem við ráðum ekki við, hvort heldur þau eru fjárhagsleg, líkamleg, tilfinningaleg eða annars eðlis. (Jesaja 63:9) Um leið væntir hann þess að við notum tíma okkar, áhrif og fjármuni sem best við getum. Jehóva er fullkominn en hann er ekki haldinn fullkomnunaráráttu í samskiptum við þjóna sína. Hann er hvorki ósanngjarn né óraunsær í væntingum sínum.
21. Hvað gott hlýst af því ef þjónusta okkar við Guð er sprottin af kærleika?
21 Að elska Jehóva af öllu hjarta, sálu, huga og mætti „er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“ (Markús 12:33) Ef við látum stjórnast af kærleika, þá gerum við allt sem við getum í þjónustu Guðs. Pétur skrifaði að ef við höfum guðrækilega eiginleika til að bera, meðal annars kærleika, og ‚förum vaxandi í þeim, þá verðum við ekki iðjulaus né ávaxtalaus í þekkingunni á Drottni vorum Jesú Kristi.‘ — 2. Pétursbréf 1:8.
[Neðanmáls]
a Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Til upprifjunar
◻ Hver ætti að vera aflvakinn að baki þjónustu okkar við Guð?
◻ Hvernig knýr kærleikur Krists okkur til að þjóna Jehóva?
◻ Hverju voru farísearnir uppteknir af sem við verðum að forðast?
◻ Af hverju er óviturlegt að bera okkur saman við aðra kristna menn?
[Myndir á blaðsíðu 25]
Hæfni, þrek og aðstæður manna eru misjafnar.