7. kafli
Uppgjör reikninga fyrir ávöxtun fjármuna Krists
1. Hvaða stjórn á ekki við efnahagsvandamál að glíma, og hverjir þurfa að gera upp reikninga við hana?
NÁNAST undantekningarlaust eiga ríkisstjórnir við efnahagsvanda að etja. Flestar eru skuldum vafðar. Eina undantekningin frá þeirri reglu er „himnaríki“ sem nú er boðað um allar jarðir. (Matteus 25:1) Enn eru eftir á jörðinni í þjónustu þessarar himnesku stjórnar nokkrir verðandi meðlimir hennar. Núna, á mestu örlagatímum mannkynssögunnar, er krafist reikningsskapar af þessum þjónum ‚himnaríkis.‘ Þeir þurfa að gera upp reikninga við stjórnina fyrir það hvernig þeir hafa notað þau verðmæti sem þeim voru falin til umsjónar.
2. Hvers vegna ættum við að hafa mikinn áhuga á ákveðinni dæmisögu sem Friðarhöfðinginn sagði?
2 Til að lýsa þessu sagði fremsti fulltrúi þessa ‚himnaríkis‘ endur fyrir löngu dæmisögu eða líkingu. Hún ætti að vekja áhuga okkar núna, því að Friðarhöfðinginn sagði hana sem hluta hins langdræga spádóms um „tákn“ nærveru sinnar sem voldugur konungur. (Matteus 24:3) Afleiðingarnar af uppfyllingu dæmisögunnar snerta okkur mikið því að hún er tengd tilveru okkar og framtíð. Við skulum því skoða þessa spádómlegu dæmisögu sem Friðarhöfðinginn sagði postulum sínum nokkrum dögum áður en honum var fórnað á Golgata. Hún hljóðar svo:
Dæmisagan um talenturnar
3. Hvað gerðu þjónarnir við talenturnar sem þeir fengu frá húsbónda sínum áður en hann fór úr landi?
3 „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina. Svo er um himnaríki sem mann, er ætlaði úr landi. Hann kallaði þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur,a öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur, fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gjörði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina, fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.
4. Hvað sagði húsbóndinn við þjónana sem höfðu ávaxtað talenturnar?
4 Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gjöra skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: ‚Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm.‘ Húsbóndi hans sagði við hann: ‚Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.‘ Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: ‚Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær.‘ Og húsbóndi hans sagði við hann: ‚Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.‘
5, 6. Hvað sagði þriðji þjónninn sér til afsökunar fyrir að hafa falið talentuna, og hvað gerði húsbóndinn við hann?
5 Loks kom sá er fékk eina talentu, og sagði: ‚Herra, ég vissi, að þú ert maður harður, sem uppsker þar, sem þú sáðir ekki, og safnar þar, sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.‘ Og húsbóndi hans sagði við hann: ‚Illi og lati þjónn, þú vissir, að ég uppsker þar, sem ég sáði ekki, og safna þar, sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum, þegar ég kom heim.
6 Takið af honum talentuna, og fáið þeim, sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.‘“ — Matteus 25:13-30.
7. Hvað tákna talenturnar?
7 Hvað tákna talenturnar í þessari dæmisögu? Þær tákna mikil verðmæti, ekki þó peningaleg heldur andleg. Talenturnar tákna umboð til að gera menn að lærisveinum Krists. Þessu umboði fylgja þau miklu sérréttindi að vera sendiherrar konungsins Krists, vera fulltrúar Guðsríkis fyrir öllum þjóðum veraldar. — Efesusbréfið 6:19, 20; 2. Korintubréf 5:20.
8. (a) Út í hvaða myrkur hefur ‚lata‘ þjónshópnum verið varpað nú við ‚endalok veraldar‘? (b) Hvers vegna baðar mannheimurinn sig ekki í ljósi velþóknunar og blessunar Guðs?
8 Enginn vafi leikur á að nú er komið að hápunkti uppfyllingar þessa spádóms! Núverandi kynslóð lifir myrkustu tíma mannkynssögunnar. Utan hins sýnilega hluta skipulags Jehóva er niðamyrkur þangað sem hægt er að reka hinn ‚lata‘ og ‚ónýta‘ þjónshóp að boði húsbóndans. ‚Myrkrið‘ fyrir utan táknar hið myrkvaða ástand mannheimsins, einkum í trúarlegu sambandi. Mannheimurinn nýtur ekki ljóss velþóknunar og blessunar Guðs. Hann baðar sig ekki í ljósi þekkingarinnar á ríki Guðs. Heimurinn er á valdi ‚guðs þessarar aldar‘ sem „hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.“ — 2. Korintubréf 4:4.
9. (a) Hver er ‚maðurinn‘ í uppfyllingu dæmisögunnar og hvert fór hann? (b) Hvað sannar að hann sé nú snúinn aftur?
9 Nú liggja fyrir óyggjandi sannanir þess að ‚maðurinn,‘ sem átti minnst átta silfurtalentur, er snúinn heim úr utanlandsferð sinni. ‚Maðurinn‘ er Kristur Jesús. Ferð hans úr landi lá til skapara sólar, tungls og stjarna. Tvær heimsstyrjaldir og margar aðrar minni mörkuðu endurkomu hans. Eins og spáð var hefur hungursneyð, drepsóttir og jarðskjálftar, svo og aukið lögleysi og prédikun ‚þessa fagnaðarerindis um ríkið‘ um alla heimsbyggðina fylgt í kjölfarið. Samanlagt uppfyllir allt þetta í smáatriðum það „tákn“ sem átti að einkenna ‚komu hans og endalok veraldar.‘ — Matteus 24:3-15.
10. (a) Til hvers fór maðurinn úr landi? (b) Hvers vegna sá mannheimurinn hann ekki koma aftur?
10 Þótt þess sé ekki getið í dæmisögu Jesú lagði maðurinn, sem fór úr landi til að vera lengi fjarverandi, upp í ferð sína til að taka við konungdómi í „himnaríki“ sem um er talað fyrr í sama kafla. (Matteus 25:1) Þótt fyrri heimsstyrjöldin hafi brotist út setti Jehóva Guð hinn réttmæta erfingja ríkis síns í hásæti árið 1914. Þá var hætt að fótum troða ríki Guðs, táknað með Ísraelsríkinu sem var kollvarpað árið 607 f.o.t. Heiðingjaþjóðirnar sáu þó ekki þann sem Davíð konungur kallar ‚sinn Drottin‘ settan í hásæti. (Sálmur 110:1) Það kom til af því að maðurinn í dæmisögunni, Jesús Kristur, hafði sagt við lærisveina sína áður en hann fór úr landi: „Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar.“ — Jóhannes 14:19.
11. (a) Hvað skyldi vera hluti af tákninu um endurkomu og nærveru hans? (b) Hvenær myndi hún eiga sér stað?
11 Með því að mannleg augu gátu ekki séð Krist taka við völdum sem konungur varð hann að gera nærveru sína í Guðsríki kunna með tákni — því tákni sem postularnir höfðu beðið hann um þrem dögum fyrir píslarvættisdauða hans. Hluti þessa sannfærandi tákns fólst í því að maðurinn í dæmisögunni sneri aftur til að gera upp reikninga við þjóna sína sem hann hafði trúað fyrir hinum verðmætu talentum. Reikningsskilin við þá, sem höfðu fengið þau sérréttindi að nota talenturnar, fóru fram eftir 1914.
12. (a) Hverjum bar skylda til að taka forystuna í að bera vitni um Guðsríki? (b) Hverju er hjálpræði þeirra háð?
12 Í því fólst uppgjör við þá sem voru erfingjar ‚himnaríkis.‘ Þeir sem eftir voru af líkama Krists, getnir af anda Guðs frá og með hvítasunnunni árið 33, urðu að gera upp reikningana. (Postulasagan 2. kafli) Leifar þeirra áttu að vera á jörðinni meðan ‚endalok veraldar‘ stæðu yfir frá 1914. Það væru hinir sömu og lagt yrði á herðar að taka forystuna í að uppfylla spádóm Jesú fyrir það tímaskeið: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14; Markús 13:10) Sú ábyrgð hvílir á þeim að vera trúfastir allt til enda til að bjargast inn í himnaríkið. (Matteus 24:13) Með lokahjálpræði þeirra í huga hefur alvaldur Guð styrkt þá til að halda út fram til þessa, þrátt fyrir ofsóknir alls staðar í heiminum. Sú staðreynd sýnir velþóknun hans á þeim.
Þeir sem gera ranglega kröfu til talentanna
13. (a) Hver segist hafa fengið talenturnar í hendur? (b) Hvaða dóm fellum við yfir honum?
13 Kristni heimurinn fullyrðir að hann sé sá ráðsmaður sem ríki maðurinn í dæmisögu Jesú treysti fyrir talentunum. En hvaða dóm hljótum við að fella þegar við skoðum hátterni hans frá 1914? Þann að kristni heimurinn hefur ekki risið undir því sem hann hefur fullyrt. Ótrúr manninum í dæmisögunni hefur hann gengið í bandalag við ríki þessa heims; forystumenn hinna veraldlegu stjórna eru friðlar hans. Hann styður enn við bakið á Sameinuðu þjóðunum, arftaka hins dauða Þjóðabandalags.
14. Hvar stendur kristni heimurinn núna?
14 Kristni heimurinn samsvarar ekki einu sinni þjóninum sem fékk eina talentu en reyndist latur og ávaxtaði ekki eigur húsbóndans. Á þeim tíma sem liðinn er frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1918 hefur kristni heimurinn afhjúpað sig fyrir að hafa verið í stöðugu myrkri utan hins vel upplýsta húss húsbóndans. Úti í niðamyrkri heimsins er hann nú þegar í táknrænni merkingu byrjaður að gráta og gnísta tönnum. Það á eftir að færast í aukana þegar pólitískir friðlar hans snúast gegn honum og svipta klæðum, afhjúpa sem ámælisverðasta hluta Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða.
‚Illa þjóninum‘ kastað út
15. Hverjir hafa uppfyllt lýsinguna á lata þjóninum og hvar eru þeir núna?
15 Þeim sem hafa í alvöru verið hluti hinna andasmurðu leifa og verið trúað fyrir verðmætum Guðsríkis, en hætt að leggja sig fram við að auka eigur hins endurkomna húsbónda, hefur verið vikið úr þjónustu hans. (Matteus 24:48-51) Sá hópur sem svarar til hins lata og ‚illa þjóns‘ er ekki lengur að prédika þetta fagnaðarerindi um ríkið. Hann einbeitir sér að sínu eigin hjálpræði í stað hagsmuna Guðsríkis. Hann er nú úti í ‚ysta myrkri‘ þar sem mannheimurinn er. Hin táknræna talenta hefur verið tekin af honum og gefin þeim hópi sem hefur verið fús til að nota hana á þeim tíma sem eftir lifir af ‚endalokum veraldar.‘
16. (a) Til hvaða verka er nú hagstæðari tíð en nokkru sinni fyrr? (b) Hvaða skylda hvílir nú á herðum hins mikla múgs ‚annarra sauða‘?
16 Aldrei hefur verið hagkvæmari tíð en nú til að boða ‚fagnaðarerindið um ríkið‘ með því að nota „talentuna,“ það er að segja hin óvenjulegu sérréttindi og tækifæri til að vera „erindrekar í Krists stað,“ hins ríkjandi konungs, og gera menn að lærisveinum hans. (2. Korintubréf 5:20) Nú nálgast endirinn óðfluga og við hæfi er að hinn mikli múgur ‚annarra sauða‘ aðstoði þá sem eftir eru af hinum andagetnu sendiherrum í að ávaxta kostgæfilega hina verðmætu „talentu“ sem þeim er trúað fyrir.
[Neðanmáls]
a Grísk silfurtalenta vó 20,4 kg.
[Mynd á blaðsíðu 59]
Þeir sem sýna einkenni illa þjónsins eru reknir úr þjónustu húsbóndans og varpað út í myrkrið.