Þetta er hjálpræðisdagur
„Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðis dagur.“ — 2. KORINTUBRÉF 6:2.
1. Hvað er nauðsynlegt til að njóta velþóknunar Guðs og Krists?
JEHÓVA hefur sett dag til að dæma mannkyn. (Postulasagan 17:31) Eigi hann að vera hjálpræðisdagur fyrir okkur þurfum við að njóta velþóknunar Guðs og skipaðs dómara hans, Jesú Krists. (Jóhannes 5:22) Það útheimtir að við lifum í samræmi við orð Guðs og höfum trú sem knýr okkur til að hjálpa öðrum að verða sannir lærisveinar Jesú.
2. Af hverju er mannheimurinn fráhverfur Guði?
2 Vegna erfðasyndarinnar er mannheimurinn fráhverfur Guði. (Rómverjabréfið 5:12; Efesusbréfið 4:17, 18) Þess vegna geta þeir sem við prédikum fyrir því aðeins öðlast hjálpræði að þeir sættist við hann. Páll postuli sýndi fram á það í bréfi til kristinna manna í Korintu. Við skulum skoða 2. Korintubréf 5:10–6:10 og athuga hvað hann sagði um dóm, sættir við Guð og hjálpræði.
‚Við leitumst við að sannfæra menn‘
3. Hvernig ‚leitaðist Páll við að sannfæra menn‘ og af hverju ættum við að gera það núna?
3 Páll tengdi saman dóm og prédikun og sagði: „Öllum oss ber að birtast fyrir dómstóli Krists, til þess að sérhver fái það endurgoldið, sem hann hefur aðhafst í líkamanum, hvort sem það er gott eða illt. Með því að vér nú vitum, hvað það er að óttast Drottin, leitumst vér við að sannfæra menn.“ (2. Korintubréf 5:10, 11) Postulinn ‚leitaðist við að sannfæra menn‘ með því að prédika fagnaðarerindið. Hvað um okkur? Þar eð endalok þessa illa heimskerfis blasa við okkur ættum við að gera okkar ítrasta til að telja aðra á að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hljóta hagstæðan dóm Jesú og velþóknun hjálpræðisguðsins Jehóva.
4, 5. (a) Hvers vegna ættum við ekki að miklast af afrekum okkar í þjónustu Jehóva? (b) Hvernig stóð á því að Páll hrósaði sér „vegna Guðs“?
4 En ef Guð hefur blessað þjónustu okkar ættum við ekki að miklast af því. Í Korintu voru sumir uppblásnir af stolti yfir sjálfum sér eða öðrum og ollu sundrungu í söfnuðinum. (1. Korintubréf 1:10-13; 3:3, 4) Páll ýjaði að þessu þegar hann skrifaði: „Ekki erum vér enn að mæla með sjálfum oss við yður, heldur gefum vér yður tilefni til að miklast af oss, til þess að þér hafið eitthvað gagnvart þeim, er miklast af hinu ytra, en ekki af hjartaþelinu. Því að hvort sem vér höfum orðið frávita, þá var það vegna Guðs, eða vér erum með sjálfum oss, þá er það vegna yðar.“ (2. Korintubréf 5:12, 13) Drambsamir menn höfðu engan áhuga á einingu og andlegri velferð safnaðarins. Þeir vildu stæra sig af ytra útliti í stað þess að hjálpa trúbræðrum sínum að þroska með sér gott hjarta frammi fyrir Guði. Páll áminnti því söfnuðinn og sagði síðar: „Sá sem hrósar sér, hann hrósi sér í [Jehóva].“ — 2. Korintubréf 10:17.
5 Hrósaði Páll sér ekki sjálfur? Sumir hafa kannski túlkað orð hans um postuladóm sinn á þann veg. En hann varð að hrósa sér „vegna Guðs.“ Hann hrósaði sér af því, sem sýndi að hann var postuli, til að Korintumenn yfirgæfu ekki Jehóva. Páll gerði það til að leiða þá aftur til Guðs en falspostular voru að beina þeim í ranga átt. (2. Korintubréf 11:16-21; 12:11, 12, 19-21; 13:10) Páll var hins vegar ekki sífellt að reyna að vekja hrifningu annarra með afrekum sínum. — Orðskviðirnir 21:4.
Knýr kærleikur Krists þig?
6. Hvaða áhrif ætti kærleikur Krists að hafa á okkur?
6 Páll var sannur postuli og fræddi aðra um lausnarfórn Jesú. Hún hafði áhrif á líf hans því að hann skrifaði: „Kærleiki Krists knýr oss, því að vér höfum ályktað svo: Ef einn er dáinn fyrir alla, þá eru þeir allir dánir. Og hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.“ (2. Korintubréf 5:14, 15) Jesús sýndi mikinn kærleika með því að leggja lífið í sölurnar fyrir okkur. Það ætti að vera sterkur áhrifavaldur í lífi okkar. Við ættum að vera Jesú svo þakklát fyrir að gefa líf sitt fyrir okkur að við finnum okkur knúin til að boða kostgæfilega fagnaðarerindi hjálpræðisins sem Jehóva veitir fyrir atbeina ástkærs sonar síns. (Jóhannes 3:16; samanber Sálm 96:2.) Knýr „kærleiki Krists“ þig til að vera kostgæfinn í að prédika Guðsríki og gera menn að lærisveinum? — Matteus 28:19, 20.
7. Hvað merkir það að ‚meta engan að mannlegum hætti‘?
7 Smurðir kristnir menn ‚lifa ekki framar fyrir sjálfa sig heldur Krist,‘ og sýna þannig þakklæti sitt fyrir það sem hann gerði fyrir þá. „Þannig metum vér héðan í frá engan að mannlegum hætti,“ sagði Páll. „Þótt vér og höfum þekkt Krist að mannlegum hætti, þekkjum vér hann nú ekki framar þannig.“ (2. Korintubréf 5:16) Kristnir menn mega ekki meta fólk að mannlegum hætti og taka kannski Gyðinga fram yfir heiðingja eða ríka fram yfir fátæka. Hinir smurðu ‚meta engan að mannlegum hætti‘ því að það er andlegt samband þeirra við trúbræður sína sem skiptir máli. Þeir sem ‚þekktu Krist að mannlegum hætti‘ voru ekki aðeins þeir menn sem sáu hann þegar hann var á jörð. Jafnvel þótt sumir, sem vonuðu á Messías, hefðu einu sinni litið á hann sem mann áttu þeir ekki að gera það lengur. Hann gaf líf sitt sem lausnargjald og var reistur upp sem lífgandi andi. Aðrir, sem yrðu reistir upp til himna, myndu leggja holdlegan líkama sinn í sölurnar án þess að hafa nokkurn tíma séð Jesú Krist í holdi. — 1. Korintubréf 15:45, 50; 2. Korintubréf 5:1-5.
8. Hvað merkir það að vera „í Kristi“?
8 Páll er enn að tala til hinna smurðu þegar hann bætir við: „Ef einhver er í Kristi, er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til.“ (2. Korintubréf 5:17) Að vera „í Kristi“ merkir að vera sameinaður honum. (Jóhannes 17:21) Hinir smurðu eignuðust þetta samband þegar Jehóva dró þá til sonar síns og gat þá með heilögum anda. Sem andagetnir synir Guðs voru þeir ‚skapaðir á ný‘ með von um að ríkja með Kristi á himnum. (Jóhannes 3:3-8; 6:44; Galatabréfið 4:6, 7) Þessir smurðu kristnu menn hafa hlotið stórkostleg þjónustusérréttindi.
„Látið sættast við Guð“
9. Hvað hefur Guð gert til að gera okkur mögulegt að sættast við sig?
9 Jehóva hefur svo sannarlega sýnt þessari ‚nýju sköpun‘ velvild. Páll segir: „Allt er frá Guði, sem sætti oss við sig fyrir Krist og gaf oss þjónustu sáttargjörðarinnar. Því að það var Guð, sem í Kristi sætti heiminn við sig, er hann tilreiknaði þeim ekki afbrot þeirra og fól oss að boða orð sáttargjörðarinnar.“ (2. Korintubréf 5:18, 19) Mannkynið hefur verið fráhverft Guði síðan Adam syndgaði. En í kærleika sínum tók Jehóva frumkvæðið og opnaði sáttarleiðina vegna fórnar Jesú. — Rómverjabréfið 5:6-12.
10. Hverjum fól Jehóva þjónustu sáttargjörðarinnar og hvað hafa þeir gert til að inna hana af hendi?
10 Þar eð Jehóva hefur falið hinum smurðu þjónustu sáttargjörðarinnar gat Páll sagt: „Vér erum því erindrekar Krists, eins og það væri Guð, sem áminnti, þegar vér áminnum. Vér biðjum í Krists stað: Látið sættast við Guð.“ (2. Korintubréf 5:20) Til forna voru erindrekar aðallega sendir út af örkinni þegar hætta var á átökum til að kanna hvort afstýra mætti stríði. (Lúkas 14:31, 32) Þar eð hinn syndugi mannheimur er fráhverfur Guði hefur Guð sent smurða erindreka sína til að fræða fólk um sáttarskilmálana. Hinir smurðu biðja í Krists stað: „Látið sættast við Guð.“ Þessi bón er miskunnsöm hvatning til að friðmælast við Guð og þiggja hjálpræðið sem hann býður upp á fyrir milligöngu Krists.
11. Hverjir öðlast að lokum réttlæti frammi fyrir Guði vegna trúar á lausnargjaldið?
11 Allir menn, sem iðka trú á lausnargjaldið, geta sæst við Guð. (Jóhannes 3:36) Páll segir: „Þann [Jesú] sem þekkti ekki synd, gjörði hann [Jehóva] að synd vor vegna, til þess að vér skyldum verða réttlæti Guðs í honum.“ (2. Korintubréf 5:21) Hinn fullkomni maður Jesús var syndafórnin fyrir alla afkomendur Adams sem eru frelsaðir úr fjötrum arfgengrar syndsemi. Þeir verða „réttlæti Guðs“ fyrir atbeina Jesú. Það eru 144.000 samerfingjar Krists sem fyrstir fá þetta réttlæti eða réttláta stöðu frammi fyrir Guði. Í þúsundáraríkinu hljóta jarðnesk börn Eilífðarföðurins, Jesú Krists, réttláta stöðu sem fullkomnir menn. Hann lyftir þeim upp til réttlætis og fullkomleika þannig að þeir geti reynst Guði trúir og hlotið eilíft líf að gjöf. — Jesaja 9:6; Opinberunarbókin 14:1; 20:4-6, 11-15.
„Nú er hagkvæm tíð“
12. Hvaða mikilvæga þjónustu inna erindrekar og sendimenn Jehóva af hendi?
12 Til að öðlast hjálpræði verðum við að vinna í samræmi við orð Páls: „Sem samverkamenn hans [Jehóva] áminnum vér yður einnig, að þér látið ekki náð Guðs, sem þér hafið þegið, verða til einskis. Hann segir: Á hagkvæmri tíð bænheyrði ég þig, og á hjálpræðis degi hjálpaði ég þér. Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðis dagur.“ (2. Korintubréf 6:1, 2) Smurðir erindrekar Jehóva og sendimenn hans, hinir ‚aðrir sauðir,‘ taka ekki við óverðskuldaðri góðvild föðurins á himni til einskis. (Jóhannes 10:16) Með því að breyta rétt og þjóna kostgæfilega á þessari ‚hagkvæmu tíð‘ leita þeir hylli Guðs og upplýsa jarðarbúa um að nú sé ‚hjálpræðisdagur.‘
13. Hvert er inntakið í Jesaja 49:8 og hvernig rættist það fyrst?
13 Páll vitnar í Jesaja 49:8 sem segir: „Svo segir [Jehóva]: Á tíma náðarinnar bænheyri ég þig, og á degi hjálpræðisins hjálpa ég þér. Ég varðveiti þig og gjöri þig að sáttmála fyrir lýðinn, til þess að reisa við landið, til þess að úthluta erfðahlutum, sem komnir eru í auðn.“ Þessi spádómur rættist fyrst þegar Ísraelsmenn voru frelsaðir úr ánauðinni í Babýlon og sneru síðar heim í mannautt land sitt. — Jesaja 49:3, 9.
14. Hvernig uppfylltist Jesaja 49:8 á Jesú?
14 Jehóva uppfyllti spádóm Jesaja enn frekar með því að gefa ‚þjón‘ sinn Jesú sem ‚ljós fyrir þjóðirnar og hjálpræði Guðs til endimarka jarðarinnar.‘ (Jesaja 49:6, 8; samanber Jesaja 42:1-4, 6, 7; Matteus 12:18-21.) ‚Tími náðarinnar‘ eða hin ‚hagkvæma tíð‘ var greinilega meðan Jesús var á jörðinni. Hann bað og Guð „bænheyrði“ hann. Þetta reyndist vera ‚hjálpræðisdagur‘ fyrir Jesú því að hann varðveitti fullkomna ráðvendni og varð með því „öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis.“ — Hebreabréfið 5:7, 9; Jóhannes 12:27, 28.
15. Frá hvaða tíma hafa andlegir Ísraelsmenn leitast við að sanna sig verða óverðskuldaðrar góðvildar Guðs og í hvaða augnamiði?
15 Páll heimfærir Jesaja 49:8 upp á smurða kristna menn og sárbænir þá um að ‚láta ekki náð Guðs verða til einskis‘ með því að sækjast ekki eftir góðvild hans á þeirri ‚hagkvæmu tíð‘ og þeim ‚hjálpræðisdegi‘ sem hann veitir. Páll bætir við: „Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðis dagur.“ (2. Korintubréf 6:2) Frá því á hvítasunnunni árið 33 hafa andlegir Ísraelsmenn leitast við að sanna sig verðuga óverðskuldaðrar góðvildar Guðs þannig að hin ‚hagkvæma tíð‘ verði ‚hjálpræðisdagur‘ fyrir þá.
‚Sýnum að við erum þjónar Guðs‘
16. Við hvaða erfiðar aðstæður sýndi Páll að hann var þjónn Guðs?
16 Sumir í Korintusöfnuðinum reyndust ekki verðir óverðskuldaðrar góðvildar Guðs. Þeir rægðu Pál í þeim tilgangi að ónýta postulavald hans, þótt hann forðaðist að ‚vera nokkrum til ásteytingar.‘ Hann sýndi tvímælalaust að hann var þjónn Guðs „með miklu þolgæði í þrengingum, í nauðum, í angist, undir höggum, í fangelsi, í upphlaupum, í erfiði, í vökum, í föstum.“ (2. Korintubréf 6:3-5) Síðar færði Páll fram þau rök að ef andstæðingar hans væru þjónar Krists þá væri hann það „fremur“ vegna þess að hann hefði mátt þola meiri fangavist, barsmíð, hættur og skort en þeir. — 2. Korintubréf 11:23-27.
17. (a) Hvernig getum við sýnt að við séum þjónar Guðs? (b) Hver eru ‚vopn réttlætisins‘?
17 Við getum sýnt að við erum þjónar Guðs líkt og Páll og félagar hans. Hvernig? „Með grandvarleik“ eða hreinleika og með því að lifa í samræmi við nákvæma biblíuþekkingu. Við getum sýnt það „með langlyndi,“ með því að þola rangindi eða ögrun, og „með góðvild“ þegar við gerum öðrum gott. Og við getum sýnt að við erum þjónar Guðs með því að þiggja leiðsögn anda hans, sýna ‚falslausan kærleika,‘ vera sannsögul og reiða okkur á kraft Guðs til að inna þjónustuna af hendi. Athyglisvert er að Páll sýndi líka fram á þjónsstöðu sína „með vopnum réttlætisins til sóknar og varnar.“ Hermaður beitti yfirleitt sverði til sóknar með hægri hendi og hélt á skildi til varnar í þeirri vinstri. Í andlegum hernaði gegn falskennurum beitti Páll ekki vopnum hins synduga holds — undirferli, brögðum og blekkingum. (2. Korintubréf 6:6, 7; 11:12-14; Orðskviðirnir 3:32, NW) Hann beitti réttlátum „vopnum“ eða aðferðum til að efla sanna tilbeiðslu. Það ættum við líka að gera.
18. Hvernig hegðum við okkur ef við erum þjónar Guðs?
18 Ef við erum þjónar Guðs hegðum við okkur eins og Páll og samverkamenn hans. Við komum fram eins og kristnir menn hvort sem við erum heiðruð eða vanheiðruð. Við hættum ekki að prédika þótt við séum löstuð og við verðum ekki hrokafull ef við erum lofuð. Við tölum sannleikann og getum hlotið viðurkenningu fyrir guðræknisverk okkar. Við treystum á Jehóva þegar við erum í lífshættu vegna árásar óvina. Og við erum þakklát þegar hann agar okkur. — 2. Korintubréf 6:8, 9.
19. Hvernig getum við ‚auðgað marga‘ andlega?
19 Páll lýkur umræðu sinni um þjónustu sáttargjörðarinnar með því að segja að hann og félagar hans séu ‚hryggir, en þó ávallt glaðir, fátækir, en auðga þó marga, öreigar, en eiga þó allt.‘ (2. Korintubréf 6:10) Enda þótt þessir þjónar hefðu ástæðu til að hryggjast yfir þjáningum sínum bjuggu þeir yfir innri gleði. Þeir voru fátækir efnislega en ‚auðugir‘ andlega. Í rauninni ‚áttu þeir allt‘ af því að trúin gaf þeim andlegan auð — jafnvel þá von að verða himneskir synir Guðs. Og líf þeirra var auðugt og hamingjuríkt af því að þeir voru kristnir þjónar. (Postulasagan 20:35) Líkt og þeir getum við ‚auðgað marga‘ með því að taka þátt í þjónustu sáttargjörðarinnar núna — á hjálpræðisdeginum.
Treystu á hjálpræði Jehóva
20. (a) Hvað þráði Páll og af hverju mátti engan tíma missa? (b) Hvað sýnir að nú er hjálpræðisdagur?
20 Þegar Páll skrifaði síðara bréf sitt til Korintumanna um árið 55 átti gyðingakerfið ekki nema um 15 ár eftir. Postulinn þráði að Gyðingar og heiðingjar sættust við Guð fyrir milligöngu Krists. Þetta var hjálpræðisdagur og tíminn var naumur. Við höfum lifað samsvarandi endalokatíma frá 1914. Prédikun fagnaðarerindisins um ríkið um heim allan er í fullum gangi og það sýnir að nú er hjálpræðisdagur.
21. (a) Hver verður árstextinn 1999? (b) Hvað ættum við að gera á þessum hjálpræðisdegi?
21 Fólk af öllum þjóðum þarf að frétta af hjálpræðisráðstöfun Guðs fyrir atbeina Jesú Krists. Það má engan tíma missa. Páll skrifaði: „Nú er hjálpræðis dagur.“ Þessi orð í 2. Korintubréfi 6:2 verða árstexti votta Jehóva árið 1999. Það er mjög viðeigandi af því að við okkur blasir annað og verra en eyðing Jerúsalem og musterisins. Framundan er endir alls heimskerfisins og hann snertir alla jarðarbúa. Núna er tíminn til athafna — ekki á morgun. Ef við trúum að hjálpræðið tilheyri Jehóva, ef við elskum hann og ef við metum eilífa lífið mikils, þá látum við óverðskuldaða góðvild hans ekki verða til einskis. Við þráum af öllu hjarta að heiðra Jehóva og sönnum í orði og verki að okkur sé full alvara þegar við hrópum: „Nú er hjálpræðis dagur.“
Hvert er svarið?
◻ Af hverju er afar mikilvægt að sættast við Guð?
◻ Hverjir eru erindrekar og sendimenn við þjónustu sáttargjörðarinnar?
◻ Hvernig getum við sýnt að við erum þjónar Guðs?
◻ Hvað þýðir árstexti votta Jehóva árið 1999 fyrir þig?
[Myndir á blaðsíðu 30]
Ert þú kostgæfinn prédikari eins og Páll og hjálparðu öðrum að sættast við Guð?
Bandaríkin
Frakkland
Fílabeinsströndin
[Mynd á blaðsíðu 31]
Ert þú einn þeirra mörgu sem sættast við Jehóva núna á hjálpræðisdegi?