Látið bróðurkærleikann vaxa
„Lifið í kærleika eins og Kristur elskaði okkur.“ — EF. 5:2.
1. Hvað sagði Jesús eiga að einkenna fylgjendur sína?
ÞAÐ er nánast „vörumerki“ votta Jehóva að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs hús úr húsi. Jesús Kristur benti hins vegar á annað sem ætti sérstaklega að einkenna sanna lærisveina hans. Hann sagði: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ — Jóh. 13:34, 35.
2, 3. Hvaða áhrif hefur bróðurkærleikurinn á þá sem sækja samkomur hjá okkur?
2 Kærleikurinn, sem einkennir sannkristna menn, á sér enga hliðstæðu í mannlegu samfélagi. Hann sameinar þjóna Jehóva rétt eins og segull dregur að sér járn, og hann laðar einlægt fólk að sannri tilbeiðslu. Lítum á Marcelino sem dæmi en hann býr í Kamerún. Hann missti sjónina í vinnuslysi. Eftir slysið komst sá kvittur á kreik að hann hefði orðið blindur vegna þess að hann væri galdramaður. Ekki fékk hann hughreystingu hjá prestinum sínum eða trúsystkinum heldur var hann rekinn úr söfnuðinum. Hann var hikandi þegar vottur Jehóva bauð honum á samkomu. Hann vildi ekki verða fyrir höfnun á nýjan leik.
3 Viðtökurnar í ríkissalnum komu Marcelino á óvart. Hann fékk hlýjar móttökur og biblíufræðslan var hughreystandi. Hann fór að sækja allar samkomur, stundaði biblíunám af kappi og lét skírast árið 2006. Núna segir hann ættingjum og nágrönnum frá sannleikanum og heldur nokkur biblíunámskeið. Hann langar til að hjálpa þeim sem hann er að fræða um Biblíuna að njóta sama kærleika og hann kynntist meðal þjóna Guðs.
4. Af hverju ættum við að lifa í kærleika eins og Páll postuli hvetur til?
4 Þótt bróðurkærleikurinn sé óneitanlega aðlaðandi er ekki hægt að taka hann sem sjálfsagðan hlut. Hugsum okkur varðeld að kvöldi. Fólk færir sig nær til að orna sér við eldinn. En ef ekki er bætt á eldinn kulnar hann. Hin unaðslegu kærleiksbönd í söfnuðinum veikjast sömuleiðis nema við, hvert og eitt, gerum okkar til að styrkja þau. Hvernig getum við gert það? Páll postuli svarar: „Lifið í kærleika eins og Kristur elskaði okkur og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir okkur svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms.“ (Ef. 5:2) Við skulum nú velta fyrir okkur hvernig við getum lifað í kærleika.
„Látið þið líka verða rúmgott hjá ykkur“
5, 6. Af hverju hvatti Páll kristna menn í Korintu til að láta „verða rúmgott“ hjá sér?
5 Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Korintu: „Ég tala frjálslega við ykkur, Korintumenn. Rúmt er um ykkur í hjarta mínu. Ekki er þröngt um ykkur hjá mér en í hjörtum ykkar er þröngt. En svo að sama komi á móti — ég tala eins og við börn mín — þá látið þið líka verða rúmgott hjá ykkur.“ (2. Kor. 6:11-13) Af hverju hvatti Páll Korintumenn til að láta „verða rúmgott“ í hjarta sér?
6 Skoðum hvernig söfnuðurinn í Korintu varð til. Páll kom til borgarinnar haustið 50. Hann lét ekki deigan síga þó að hann fengi nokkra andstöðu til að byrja með. Áður en langt um leið höfðu margir borgarbúar tekið trú á fagnaðarerindið. Páll lagði hart að sér í „þrjú misseri“ við að kenna nýja söfnuðinum og styrkja hann. Honum þótti greinilega afar vænt um kristna menn þar í borg. (Post. 18:5, 6, 9-11) Þeir höfðu ærna ástæðu til að elska hann og virða. En sumir fjarlægðust hann. Kannski líkaði fáeinum í söfnuðinum ekki við hreinskilningslegar leiðbeiningar hans. (1. Kor. 5:1-5; 6:1-10) Sumir hafa ef til vill lagt eyrun við rógi ‚hinna stórmiklu postula‘. (2. Kor. 11:5, 6) Páll þráði ósvikinn kærleika allra trúsystkina sinna svo að hann hvatti þau til að láta „verða rúmgott“ hjá sér með því að styrkja tengslin við hann og aðra í söfnuðinum.
7. Hvernig getum við látið „verða rúmgott“ í hjörtum okkar?
7 Hvað um okkur? Hvernig getum við látið „verða rúmgott“ í hjörtum okkar og sýnt meiri bróðurkærleika? Það er ósköp eðlilegt að fólk í sama aldurshópi eða af sama þjóðerni laðist hvert að öðru. Og þeir sem hafa áhuga á svipaðri afþreyingu eru oft mikið saman. Ef áhugamál, sem við eigum sameiginleg með sumum í söfnuðinum, valda því að við fjarlægjumst aðra þurfum við hins vegar að gera ráðstafanir til að láta „verða rúmgott“ hjá okkur. Það væri skynsamlegt að spyrja sig: Fer ég sjaldan í boðunarstarfið eða stunda félagslíf með bræðrum og systrum utan nánasta vinahóps? Takmarka ég samskipti mín við nýja sem koma í ríkissalinn af því að mér finnst þeir þurfa að ávinna sér vináttu mína? Heilsa ég bæði ungum og gömlum í ríkissalnum?
8, 9. Hvernig geta leiðbeiningar Páls í Rómverjabréfinu 15:7 hjálpað okkur að heilsa hvert öðru þannig að það styrki bróðurkærleikann?
8 Orð Páls í Rómverjabréfinu geta hjálpað okkur að hafa rétta afstöðu til trúsystkina og heilsa þeim hlýlega. (Lestu Rómverjabréfið 15:7.) Gríska orðið, sem er þýtt „takið . . . hvert annað að ykkur“, merkir að „taka vingjarnlega á móti, sýna gestrisni, veita félagsskap og vináttu“. Þegar gestrisinn maður á biblíutímanum fékk vini í heimsókn lét hann þá vita hve glaður hann væri að sjá þá. Kristur hefur í táknrænum skilningi boðið okkur velkomin á þennan hátt og við erum hvött til að taka á móti trúsystkinum á sama hátt og hann.
9 Þegar við heilsum trúsystkinum í ríkissalnum og annars staðar ættum við að gefa gaum að þeim sem við höfum ekki séð eða talað við nýlega. Væri ekki þjóðráð að spjalla við þá í nokkrar mínútur? Á næstu samkomu getum við síðan valið einhvern annan til að rabba við. Áður en langt um líður erum við búin að eiga ánægjulegar samræður við næstum alla í söfnuðinum. Það er engin ástæða til að gera sér áhyggjur af því að geta ekki talað við alla á sama degi. Enginn ætti að móðgast þó að við getum ekki heilsað þeim á hverri einustu samkomu.
10. Hvaða ómetanlegu tækifæri hafa allir í söfnuðinum og hvernig getum við nýtt þau sem best?
10 Að heilsa öðrum er fyrsta skrefið til að kynnast þeim. Það getur leitt til ánægjulegra samræðna og varanlegrar vináttu. Þegar þeir sem sækja mót kynna sig fyrir öðrum og brydda upp á samræðum hlakka þeir til að hittast aftur. Þeir sem bjóða sig fram við að byggja ríkissali eða aðstoða við hjálparstarf verða oft góðir vinir vegna þess að þeir kynnast góðum eiginleikum hver annars þegar þeir vinna saman. Það eru ótal tækifæri í söfnuði Jehóva til að eignast trausta og góða vini. Ef við látum „verða rúmgott“ í hjörtum okkar fjölgar í vinahópnum og það styrkir kærleikann sem sameinar okkur í sannri tilbeiðslu.
Gefðu öðrum af tíma þínum
11. Hvaða fordæmi gaf Jesús eins og fram kemur í Markúsi 10:13-16?
11 Allir kristnir menn geta gert sér far um að vera aðgengilegir og viðmótsgóðir líkt og Jesús. Hvernig brást Jesús við þegar lærisveinarnir reyndu að meina foreldrum að koma með börnin til hans? „Leyfið börnunum að koma til mín,“ sagði hann, „varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki . . . Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.“ (Mark. 10:13-16) Hugsaðu þér hve mikils virði það hlýtur að hafa verið fyrir börnin að njóta kærleika og athygli kennarans mikla.
12. Hvað gæti tálmað okkur að ræða við aðra?
12 Allir vottar ættu að spyrja sig: Er auðvelt að nálgast mig eða virðist ég oft vera of upptekinn? Venjur, sem eru ekki rangar í sjálfu sér, geta stundum tálmað samræðum fólks í milli. Ef við erum til dæmis sífellt að nota farsíma eða erum með heyrnartól í eyrunum í návist annarra gætum við sent þau skilaboð að við óskum ekki eftir félagsskap þeirra. Ef aðrir sjá okkur oft niðursokkna við að rýna í lófatölvu gætu þeir dregið þá ályktun að við höfum ekki áhuga á að tala við þá. Auðvitað ‚hefur það sinn tíma að þegja‘ en þegar við erum innan um annað fólk er oft ‚tími til að tala‘. (Préd. 3:7) Sumir segja kannski sem svo að þeir séu ekki mannblendnir að eðlisfari eða séu ekki sérlega skrafhreifir á morgnana. En ef við reynum að halda uppi samræðum, jafnvel þó að okkur langi ekki sérstaklega til þess, er það merki um kærleika sem „leitar ekki síns eigin“. — 1. Kor. 13:5.
13. Hvernig hvatti Páll Tímóteus til að líta á trúsystkini?
13 Páll hvatti Tímóteus til að bera virðingu fyrir öllum í söfnuðinum. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:1, 2.) Við ættum líka að koma fram við roskin trúsystkini eins og mæður okkar og feður, og þau yngri sem systkini okkar. Ef við hugsum þannig ætti engum bræðrum eða systrum að finnast þau vera utanveltu í návist okkar.
14. Hvernig geta uppbyggilegar samræður orðið til góðs?
14 Þegar við eigum uppbyggilegar samræður við aðra hlúum við að andlegri og tilfinningalegri velferð þeirra. Bróðir, sem starfar á deildarskrifstofu, minnist með hlýju nokkurra roskinna betelíta sem tóku sér oft tíma til að ræða við hann meðan hann var nýr í starfi. Uppörvandi orð þeirra sannfærðu hann um að hann væri hluti af betelfjölskyldunni. Hann reynir að líkja eftir þeim með því að rabba við aðra sem starfa á Betel.
Auðmýkt hjálpar okkur að stuðla að friði
15. Hvernig sjáum við að það getur kastast í kekki milli fólks í söfnuðinum?
15 Evodía og Sýntýke voru trúsystur í söfnuðinum í Filippí á fyrstu öld. Einhver misklíð hafði komið upp milli þeirra sem þær áttu erfitt með að útkljá. (Fil. 4:2, 3) Það var á allra vitorði að Páli og Barnabasi varð mjög sundurorða og leiðir skildi með þeim um tíma. (Post. 15:37-39) Af þessum dæmum má sjá að það getur kastast í kekki milli sannkristinna manna. Jehóva hjálpar okkur að eyða ágreiningi og varðveita vináttuböndin. En hann ætlast til að við gerum eitthvað til þess.
16, 17. (a) Hve miklu máli skiptir að vera auðmjúkur þegar leysa þarf ágreining? (b) Hvernig sýnir frásagan af Jakobi og Esaú fram á gildi þess að vera auðmjúkur?
16 Hugsaðu þér að þú sért að fara með vini í ökuferð. Áður en þið leggið af stað þarftu að stinga lykli í kveikjulásinn og ræsa vélina. Það þarf líka nokkurs konar lykil til að hægt sé að leysa ágreining milli manna. Lykillinn er auðmýkt. (Lestu Jakobsbréfið 4:10.) Þessi lykill gerir þeim sem eru ósáttir kleift að beita meginreglum Biblíunnar eins og sjá má af biblíulegu dæmi hér á eftir.
17 Tuttugu ár voru liðin síðan Esaú hafði misst frumburðarréttinn í hendur Jakobi, tvíburabróður sínum. Esaú lagði hatur á Jakob og hugðist drepa hann. Nú var að því komið að bræðurnir hittust á ný og „þá varð Jakob óttasleginn og fullur kvíða“. Hann taldi miklar líkur á að Esaú myndi ráðast á sig. En þegar þeir hittust kom Jakob bróður sínum á óvart. Hann „beygði sig sjö sinnum til jarðar“ þegar hann gekk til móts við hann. Hvað gerðist svo? „Esaú hljóp á móti honum og faðmaði hann, lagði hendur um háls honum og kyssti hann og þeir grétu.“ Hættunni á átökum var afstýrt. Auðmýkt Jakobs vann bug á hatrinu sem kann að hafa búið í brjósti Esaú. — 1. Mós. 27:41; 32:3-8; 33:3, 4.
18, 19. (a) Af hverju er mikilvægt að eiga frumkvæðið að því að beita meginreglum Biblíunnar þegar ágreiningur kemur upp? (b) Af hverju ættum við ekki að gefast upp þó að hinn bregðist ekki vel við í byrjun?
18 Í Biblíunni er að finna framúrskarandi leiðbeiningar um það hvernig hægt sé að jafna ágreining. (Matt. 5:23, 24; 18:15-17; Ef. 4:26, 27)a Hins vegar er erfitt að koma á friði nema við förum auðmjúk eftir leiðbeiningunum. Vandinn leysist ekki með því að bíða eftir að hinn sýni auðmýkt því að við erum líka með lykilinn í hendinni.
19 Við ættum ekki að gefa upp vonina þó að fyrstu tilraunir til að koma á friði virðist ekki bera árangur. Kannski þarf hinn að fá tíma til að vinna úr tilfinningum sínum. Bræður Jósefs komu sviksamlega fram við hann. Langur tími leið þar til þeir hittu hann aftur og þá var hann orðinn forsætisráðherra Egyptalands. En með tímanum snerist þeim hugur og þeir sárbændu hann að fyrirgefa sér. Jósef gerði það og synir Jakobs urðu að þjóð sem hlaut þann heiður að bera nafn Jehóva. (1. Mós. 50:15-21) Með því að eiga frið við bræður okkar og systur stuðlum við að gleði og einingu safnaðarins. — Lestu Kólossubréfið 3:12-14.
Elskum „í verki og sannleika“
20, 21. Hvað má læra af því að Jesús skyldi þvo fætur postulanna?
20 Jesús sagði við postula sína skömmu áður en hann dó: „Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður.“ (Jóh. 13:15) Jesús var nýbúinn að þvo fætur þeirra 12. Hann gerði þetta ekki til að halda einhvern helgisið né var það gert af góðmennsku einni. Áður en Jóhannes segir frá þessu atviki skrifar hann um Jesú: „Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá uns yfir lauk.“ (Jóh. 13:1) Það var vegna kærleika til lærisveinanna sem Jesús veitti þeim þjónustu sem þræll hefði að öllu jöfnu verið látinn gera. Nú áttu þeir sýna hver öðrum kærleika í verki og vera auðmjúkir öllum stundum. Sönn bróðurást ætti að fá okkur til að sýna öllum trúsystkinum okkar umhyggju og samúð.
21 Pétur postuli gerði sér grein fyrir þýðingu þess að sonur Guðs skyldi hafa þvegið fætur hans. Hann skrifaði: „Með því að hlýða sannleikanum hafið þið hreinsað ykkur og getið því borið hræsnislausa elsku hvert til annars. Haldið því áfram að elska hvert annað af heilu hjarta.“ (1. Pét. 1:22) Drottinn hafði einnig þvegið fætur Jóhannesar og hann skrifaði: „Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.“ (1. Jóh. 3:18) Látum hjartað knýja okkur til að sýna bróðurkærleikann í verki.
[Neðanmáls]
a Sjá bókina Söfnuður skipulagður til að gera vilja Jehóva, bls.144-150.
Manstu?
• Hvernig getum við látið „verða rúmgott“ í hjörtum okkar og sýnt meiri bróðurkærleika?
• Hvað getur hjálpað okkur að gefa öðrum af tíma okkar?
• Hvernig getur auðmýkt stuðlað að friði?
• Hvað ætti að vera okkur hvöt til að sýna trúsystkinum umhyggju?
[Mynd á blaðsíðu 21]
Tökum hlýlega á móti trúsystkinum.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Gríptu þau tækifæri sem bjóðast til að gefa öðrum af tíma þínum.