Jehóva veitir kraft hinum þreytta
„Þeir, sem vona á [Jehóva], fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir.“ — JESAJA 40:31.
1, 2. Hvað gefur Jehóva þeim sem treysta á hann og hvað íhugum við núna?
ÖRNINN er einhver kraftmesti fugl sem flýgur um loftin blá. Hann getur svifið langar vegalengdir án þess einu sinni að blaka vængjunum. Vænghaf gullarnarins, sem oft er nefndur „konungur fuglanna,“ er um tveir metrar og hann er „einhver tígulegasti örninn. Hann flýgur upp frá hæðum og sléttum, svífur klukkustundum saman yfir fjallgarði og klifrar svo í gormflugi uns hann er bara dökkur blettur á himninum.“ — The Audubon Society Encyclopedia of North American Birds.
2 Jesaja hafði fluggetu arnarins í huga er hann ritaði: „[Jehóva] veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa. Ungir menn þreytast og lýjast, og æskumenn hníga, en þeir, sem vona á [Jehóva], fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.“ (Jesaja 40:29-31) Það er mjög hughreystandi að vita að Jehóva skuli veita þeim sem treysta á hann kraft til að halda áfram, rétt eins og hann gefi þeim vængi arnarins sem virðast óþreytandi! Lítum nú á sumar af þeim ráðstöfunum sem hann hefur gert til að veita hinum þreytta kraft.
Kraftur bænarinnar
3, 4. (a) Hvað hvatti Jesús lærisveina sína til að gera? (b) Hvað megum við ætlast til að Jehóva geri til að svara bænum okkar?
3 Jesús hvatti lærisveinana til að ‚biðja stöðugt og eigi þreytast.‘ (Lúkas 18:1) Getur það virkilega gefið okkur nýjan kraft ef við úthellum hjörtum okkar fyrir Jehóva, og getur það komið í veg fyrir að við gefumst upp þegar álag lífsins virðist yfirþyrmandi? Já, en við þurfum að hafa nokkur atriði í huga.
4 Við verðum að vera raunsæ í því hvað við ætlumst til að Jehóva geri til að svara bænum okkar. Kristin kona, sem hafði sokkið niður í alvarlegt þunglyndi, sagði síðar: „Jehóva gerir ekki kraftaverk nú á tímum til að lækna þennan sjúkdóm frekar en aðra. En hann hjálpar okkur að takast á við vandann og læknast að því marki sem hægt er í þessu heimskerfi.“ Hún bætti við til skýringar á því hvers vegna bænir hennar skiptu sköpum: „Ég hafði aðgang að heilögum anda Jehóva allan sólarhringinn.“ Jehóva hlífir okkur sem sé ekki við því álagi sem lífið getur lagt á okkur, en hann gefur „þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ (Lúkas 11:13; Sálmur 88:2-4) Þessi andi getur gert okkur fær um að taka hverjum þeim prófraunum eða álagi sem við kunnum að verða fyrir. (1. Korintubréf 10:13) Ef þörf krefur getur hann veitt okkur „ofurmagn kraftarins“ til að þrauka uns ríki Guðs eyðir öllum þjakandi vandamálum í nýja heiminum sem er svo nærri. — 2. Korintubréf 4:7.
5. (a) Hvað tvennt skiptir miklu máli til að bænir okkar séu árangursríkar? (b) Hvernig getum við beðið ef við eigum í baráttu við einhvern veikleika holdsins? (c) Hvað sýnum við Jehóva með því að vera þolgóð og markviss í bænum okkar?
5 En til að bænir okkar séu árangursríkar verðum við að vera þolgóð og við verðum að biðja markvisst. (Rómverjabréfið 12:12) Ef þú lýist stundum vegna þess að þú átt í baráttu við einhvern veikleika holdsins, þá ættirðu að morgni hvers dags að biðja Jehóva að hjálpa þér í dagsins önn að standa þig í baráttunni við þennan ákveðna veikleika. Biddu á sama hátt í dagsins önn og áður en þú gengur til náða á hverju kvöldi. Ef þú færð bakslag skaltu sárbæna Jehóva um fyrirgefningu hans, en talaðu líka við hann um það sem leiddi til þess að þú hrasaðir og hvað þú gætir gert til að forðast sömu aðstæður í framtíðinni. Með slíku þolgæði og stefnufestu í bænum þínum sýnir þú honum sem „heyrir bænir“ að það sé einlæg löngun þín að sigra í baráttunni. — Sálmur 65:3; Lúkas 11:5-13.
6. Hvers vegna getum við með réttu vænst þess að Jehóva heyri bænir okkar jafnvel þegar okkur finnst við óverðug þess að biðja?
6 En stundum finnst þeim sem eru lúnir og niðurbeygðir að þeir séu óverðugir þess að biðja. Kristin kona, sem var þannig innanbrjósts, sagði síðar: „Þetta er mjög hættulegur hugsunarháttur af því að hann merkir að við höfum tekið okkur það bessaleyfi að dæma okkur sjálf, en það er ekki okkar hlutverk.“ „Guð er sá sem dæmir.“ (Sálmur 50:6) Biblían fullvissar okkur um að enda þótt ‚hjarta vort kunni að dæma oss sé Guð meiri en hjarta vort og þekki alla hluti.‘ (1. Jóhannesarbréf 3:20) Það er hughreystandi að vita að þegar við dæmum okkur óverðug þess að biðja er Jehóva kannski á öðru máli! Hann „þekkir alla hluti,“ meðal annars aðstæðurnar í lífi okkar sem gera að verkum að okkur finnst við svo lítils virði. (Sálmur 103:10-14) Miskunn hans og djúpur skilningur fær hann til að heyra bænir ‚sundurmarins og sundurkramins hjarta‘ okkar. (Sálmur 51:19) Hvernig gæti hann neitað að heyra áköll okkar þegar hann fordæmir hvern þann „sem byrgir eyrun fyrir kveini hins fátæka“? — Orðskviðirnir 21:13.
Hlýlegt bræðrafélag
7. (a) Nefndu aðra ráðstöfun Jehóva til að hjálpa okkur að fá nýjan kraft. (b) Hvaða vitneskja um bræðrafélagið getur styrkt okkur?
7 Kristið bræðrafélag okkar er önnur ráðstöfun Jehóva til að hjálpa okkur að fá nýjan kraft. Það eru dýrmæt sérréttindi að tilheyra heimsfjölskyldu bræðra og systra! (1. Pétursbréf 2:17) Þegar álag lífsins íþyngir okkur getur hlýja bræðrafélagsins veitt okkur nýjan kraft. Hvernig þá? Sú vitneskja ein sér að fleiri en við þurfi að takast á við erfiðleika og álag getur styrkt okkur. Meðal bræðra okkar og systra eru vafalaust einhverjir sem hafa átt í svipuðum prófraunum eða álagi og hafa kynnst mjög líkum tilfinningum og við þekkjum. (1. Pétursbréf 5:9) Það er hughreystandi að vita að við erum ekki að ganga í gegnum neitt óvenjulegt og að tilfinningar okkar eru ekkert óalgengar.
8. (a) Hvaða dæmi sýna að við getum fengið mikla aðstoð og hughreystingu innan bræðrafélagsins? (b) Hvernig hefur þú persónulega notið aðstoðar eða hughreystingar raunverulegs ‚vinar‘?
8 Í hlýju bræðrafélagsins getum við fundið sanna ‚vini‘ sem geta aðstoðað okkur og hughreyst eftir þörfum þegar við erum þjáð. (Orðskviðirnir 17:17) Oft þarf ekki annað en nokkur vingjarnleg orð og hugulsöm verk. Kristin kona, sem fannst hún einskis virði, segir: „Ég átti vini sem töluðu við mig á jákvæðum nótum um sjálfa mig til að hjálpa mér að sigrast á bölsýni minni.“ (Orðskviðirnir 15:23) Eftir að systir nokkur missti unga dóttur átti hún í fyrstu erfitt með að syngja ríkissöngvana á safnaðarsamkomum, einkum söngva sem minntust á upprisuna. „Einu sinni sá systir, sem sat hinum megin við ganginn, að ég var að gráta,“ segir hún. „Hún færði sig yfir til mín, tók utan um mig og söng það sem eftir var af söngnum með mér. Ég fann til svo sterkrar ástar á bræðrunum og systrunum og ég var svo ánægð að við skyldum hafa farið á samkomurnar, því að ég gerði mér ljóst að það er þar, í ríkissalnum, sem við fáum hjálpina.“
9, 10. (a) Hvernig getum við hugsanlega stuðlað að hlýju bræðrafélagsins? (b) Hverjir þarfnast sérstaklega heilnæms félagsskapar? (c) Hvað getum við gert til að hjálpa þeim sem eru uppörvunarþurfi?
9 Við berum að sjálfsögðu öll ábyrgð á því að stuðla að hlýju hins kristna bræðrafélags. Við ættum því öll að ‚láta verða rúmgott‘ í hjörtum okkar þannig að rúm sé fyrir alla bræður okkar og systur. (2. Korintubréf 6:13) Það væri sorglegt ef þeim sem hafa þreyst fyndist kærleikur bræðrafélagsins til sín hafa kólnað! Sumir kristnir menn segja samt að þeir séu einmana og útundan. Systir, sem á mann andsnúinn sannleikanum, sagði í bænartón: „Hver þráir ekki og þarfnast uppbyggjandi vináttu, uppörvunar og kærleiksríks félagsskapar? Minnið bræður okkar og systur á að við þörfnumst þeirra!“ Já, sérstaklega þeir sem búa við íþyngjandi aðstæður í lífinu — einstæðir foreldrar, þeir sem eiga vantrúaða maka, þeir sem eiga við langvinn heilsuvandamál að glíma, aldraðir og fleiri — þarfnast heilnæms félagsskapar. Gæti þurft að minna sum okkar á það?
10 Hvað getum við gert til hjálpar? Við skulum færa út kvíar kærleikans. Þegar við bjóðum til okkar fólki skulum við ekki gleyma þeim sem þarfnast uppörvunar. (Lúkas 14:12-14; Hebreabréfið 13:2) Hví ekki að bjóða þeim í stað þess að hugsa sem svo að þeir geti ekki þegið boðið aðstæðna vegna? Látum þá svo ákveða hvað þeir gera. Jafnvel þótt þeir geti ekki þegið boðið finnst þeim vafalaust uppörvandi að aðrir skuli hafa hugsað til þeirra. Kannski er það einmitt það sem þeir þurfa til að fá nýjan kraft.
11. Á hvaða vegu gætu þeir sem búa við íþyngjandi aðstæður þarfnast aðstoðar?
11 Þeir sem búa við íþyngjandi aðstæður geta þarfnast aðstoðar á aðra vegu. Einstæð móðir þarf kannski á því að halda að þroskaður bróðir sýni föðurlausum syni hennar áhuga. (Jakobsbréfið 1:27) Bróður eða systur með alvarleg heilsuvandamál getur vantað hjálp við innkaupin eða heimilisstörfin. Aldraður bróðir eða systir þráir ef til vill félagsskap eða aðstoð við að komast út í boðunarstarfið. Þegar þörf er á slíkri hjálp að staðaldri reynir virkilega á það ‚hvort kærleiki okkar er einlægur.‘ (2. Korintubréf 8:8) Megum við standast hið kristna kærleikspróf með því að vera næm fyrir þörfum annarra og sinna þeim í stað þess að sniðganga þurfandi bræður og systur sökum þess tíma og fyrirhafnar sem það kostar.
Kraftur orðs Guðs
12. Hvernig hjálpar orð Guðs okkur að fá nýjan kraft?
12 Sá sem hættir að borða tapar fljótt styrk eða kröftum. Jehóva gefur okkur því kraft með því að sjá um að við séum vel nærð andlega. (Jesaja 65:13, 14) Hvaða andlega fæðu hefur hann látið í té? Fyrst og fremst orð sitt, Biblíuna. (Matteus 4:4; samanber Hebreabréfið 4:12.) Hvernig getur hún veitt okkur nýjan kraft? Þegar álag og vandamál taka að veikja þrótt okkar getum við sótt kraft í frásagnir af tilfinningum og baráttu trúfastra karla og kvenna á biblíutímanum. Þetta fólk var framúrskarandi dæmi um ráðvendni þótt það væri „sama eðlis og vér“ og þekkti sömu tilfinningar. (Jakobsbréfið 5:17; Postulasagan 14:15) Það stóð frammi fyrir áþekkum prófraunum og álagi og við. Tökum nokkur dæmi.
13. Hvaða biblíuleg dæmi sýna að trúföstum körlum og konum á biblíutímanum var álíka innanbrjósts og okkur og urðu fyrir svipaðri reynslu og við?
13 Ættfaðirinn Abraham syrgði látna eiginkonu sína ákaflega þótt hann tryði á upprisuna. (1. Mósebók 23:2; samanber Hebreabréfið 11:8-10, 17-19.) Davíð var iðrunarfullur en fannst að syndir hans gerðu hann óverðugan þess að þjóna Jehóva. (Sálmur 51:13) Móse fannst hann ekki vandanum vaxinn. (2. Mósebók 4:10) Þunglyndi sótti á Epafrodítus þegar ljóst var að alvarleg veikindi takmörkuðu störf hans „fyrir Krist.“ (Filippíbréfið 2:25-30) Páll þurfti að berjast gegn hinu fallna holdi. (Rómverjabréfið 7:21-25) Evodíu og Sýntýke, tveim smurðum systrum í söfnuðinum í Filippí, kom greinilega ekki vel saman. (Filippíbréfið 1:1; 4:2, 3) Það er mjög uppörvandi fyrir okkur að vita að þessu trúfasta fólki skuli hafa liðið eins og okkur og reynt margt það sama og við, en samt ekki gefist upp! Jehóva gafst ekki heldur upp á þessum þjónum sínum.
14. (a) Hvaða verkfæri hefur Jehóva notað til að hjálpa okkur að sækja styrk í orð sitt? (b) Hvers vegna hafa birst greinar í tímaritunum Varðturninum og Vaknið! um félagsleg mál, fjölskyldumál og tilfinningamál?
14 Jehóva notar hinn trúa og hyggna þjónshóp til að hjálpa okkur að sækja styrk í orð sitt, og þjónshópurinn veitir okkur jafnt og þétt andlegan „mat á réttum tíma.“ (Matteus 24:45) Hinn trúi þjónn hefur lengi notað tímaritin Varðturninn og Vaknið! til að verja sannleika Biblíunnar og boða Guðsríki sem einu von mannsins. Einkum á allra síðustu áratugum hafa þessi tímarit birt tímabærar, biblíulegar greinar um félagsleg og tilfinningaleg vandamál og einnig fjölskylduvandamál sem jafnvel sumir þjónar Guðs eiga í. Í hvaða tilgangi hefur slíkt efni verið birt? Auðvitað til að hjálpa þeim sem lenda í þessum vandamálum að sækja styrk og hvatningu í orð Guðs. En slíkar greinar hjálpa okkur öllum líka að skilja betur það sem sumir bræður okkar og systur eru kannski að ganga í gegnum. Við erum því betur í stakk búin að fara eftir orðum Páls: „Hughreystið ístöðulitla [‚niðurdregna,‘ NW], takið að yður þá, sem óstyrkir eru, verið langlyndir við alla.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:14.
Öldungar sem eru „hlé fyrir vindi“
15. Hverju spáði Jesaja um öldungana og hvaða ábyrgð leggur það þeim á herðar?
15 Jehóva hefur séð fyrir annarri hjálp þegar við lýjumst — safnaðaröldungunum. Spámaðurinn Jesaja skrifaði um þá: „Hver þeirra [verður] sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.“ (Jesaja 32:1, 2) Öldungum ber því að rísa undir þeirri ábyrgð sem Jehóva sagði fyrir að þeir ættu að bera. Þeir verða að vera öðrum til hughreystingar og hressingar og vera fúsir til að ‚bera hver annars byrðar‘ eða „erfiðleika,“ bókstaflega „þyngsli.“ (Galatabréfið 6:2, NW Ref. Bi., neðanmáls) Hvernig geta þeir gert það?
16. Hvað geta öldungarnir gert til að hjálpa þeim sem finnst hann óverðugur þess að biðja?
16 Eins og áður er nefnt finnst lúnum og niðurbeygðum manni hann stundum óverðugur þess að biðja. Hvað geta öldungarnir gert? Þeir geta beðið með honum og fyrir honum. (Jakobsbréfið 5:14) Það eitt að biðja Jehóva í áheyrn hins niðurbeygða, til að hjálpa honum að skilja hve heitt Jehóva og aðrir elski hann, hlýtur að vera hughreystandi. Að hlusta á innilega og hjartanlega bæn öldungs getur aukið traust þjakaðs manns. Hann hugsar þá kannski með sér að hann hljóti að geta treyst því að Jehóva svari bænum hans fyrst öldungarnir treysta því að hann svari bænum þeirra fyrir honum.
17. Hvers vegna verða öldungarnir að hlusta með samúð og skilningi?
17 „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala,“ segir Jakobsbréfið 1:19. Til að hjálpa þreyttum að fá nýjan kraft verða öldungarnir líka að hlusta með samúð og skilningi. Í sumum tilvikum eru safnaðarmenn að berjast við álag eða vandamál sem ekki verða leyst í þessu heimskerfi. Þá eru þeir ekki að leita að einhverri „lausn“ á vandamáli sínu heldur þurfa einfaldlega að fá að tala við einhvern sem kann að hlusta — áheyranda sem er ekki að segja þeim hvernig þeim eigi að líða heldur hlustar án þess að dæma þá. — Lúkas 6:37; Rómverjabréfið 14:13.
18, 19. (a) Hvernig getur öldungur, með því að vera fljótur að heyra, forðast að þyngja byrði hins þreytta? (b) Hvaða árangri skilar það þegar öldungar sýna ‚hluttekningarsemi‘?
18 Öldungar, með því að vera fljótir til að heyra getið þið forðast að þyngja byrði hins þreytta óafvitandi. Ef bróðir eða systir hefur til dæmis misst af einhverjum samkomum eða hægt á sér í boðunarstarfinu, þarf hann eða hún þá virkilega að fá ráðleggingar um að leggja sig betur fram í boðunarstarfinu eða að sækja samkomur reglulegar? Kannski. En sérðu heildarmyndina? Á þessi safnaðarmaður við vaxandi heilsubrest að stríða? Hefur fjölskylduábyrgð hans breyst nýverið? Eru aðrar aðstæður eða álag að íþyngja honum? Mundu að kannski hefur hann nú þegar mjög slæma samvisku yfir því að geta ekki gert meira en raun ber vitni.
19 Hvernig getið þið þá hjálpað bróðurnum eða systurinni? Hlustið áður en þið dragið ályktanir eða ráðleggið! (Orðskviðirnir 18:13) Spyrjið markvissra spurninga til að draga fram hvaða tilfinningar búa í hjarta mannsins. (Orðskviðirnir 20:5) Hunsið ekki þessar tilfinningar — viðurkennið þær. Kannski þarf að fullvissa hinn þreytta um að Jehóva beri umhyggju fyrir okkur og skilji að aðstæður setja okkur stundum takmörk. (1. Pétursbréf 5:7) Þegar öldungar sýna slíka ‚hluttekningarsemi‘ finna þreyttir ‚hvíld sálum sínum.‘ (1. Pétursbréf 3:8; Matteus 11:28-30) Þegar þeir finna slíka hvíld og hressast þarf ekki að segja þeim að gera meira, heldur knýja hjörtun þá til að gera allt sem þeir geta með góðu móti í þjónustu Jehóva. — Samanber 2. Korintubréf 8:12; 9:7.
20. Hverju ættum við að vera staðráðin í þegar haft er í huga að endir þessarar illu kynslóðar er mjög nærri?
20 Við lifum vissulega erfiðustu tíma mannkynssögunnar. Álagið frá heimi Satans þyngist eftir því sem líður á endalokatímann. Munum að djöfullinn bíður eins og ljón á veiðum eftir að við lýjumst og gefumst upp þannig að við verðum auðveld bráð fyrir hann. Við megum sannarlega vera þakklát að Jehóva skuli veita hinum þreytta kraft! Megum við notfæra okkur til hins ítrasta ráðstafanir hans til að veita okkur kraft til að halda áfram, eins og hann gefi okkur máttuga vængi arnarins. Endalok þessarar illu kynslóðar eru svo nærri að nú er ekki rétti tíminn til að hætta í kapphlaupinu um verðlaunin — eilífa lífið. — Hebreabréfið 12:1.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvað megum við ætlast til að Jehóva geri til að svara bænum okkar?
◻ Á hvaða vegu getum við sótt styrk til hins kristna bræðrafélags?
◻ Hvernig hjálpar orð Guðs okkur að fá nýjan kraft?
◻ Hvað geta öldungarnir gert til að hjálpa þreyttum að fá nýjan kraft?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Gleymum ekki þeim sem eru uppörvunarþurfi þegar við bjóðum til okkar gestum.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Öldungar geta beðið Jehóva að hjálpa þreyttum og niðurbeygðum að skilja hve heitt þeir eru elskaðir.