Jehóva elskar glaða gjafara
„Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.“ — 2. KORINTUBRÉF 9:7.
1. Hvernig hafa Guð og Kristur verið glaðir gjafarar?
JEHÓVA var fyrsti glaði gjafarinn. Glaður gaf hann eingetnum syni sínum líf og notaði hann til að skapa englana og mannkynið. (Orðskviðirnir 8:30, 31; Kólossubréfið 1:13-17) Guð gaf okkur líf og anda og alla hluti, þar á meðal regn af himni og frjósamar árstíðir sem fylla hjörtu okkar gleði. (Postulasagan 14:17; 17:25) Bæði Guð og sonur hans, Jesús Kristur, eru sannarlega glaðir gjafarar. Þeir gefa með ánægju og af óeigingirni. Jehóva elskaði mannheiminn svo mjög „að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ Og Jesús gaf líf sitt fúslega „til lausnargjalds fyrir marga.“ — Jóhannes 3:16; Matteus 20:28.
2. Hvers konar gjafara elskar Guð samkvæmt orðum Páls?
2 Þjónar Guðs og Krists ættu því að vera glaðir gjafarar. Hvatt var til slíkrar gjafmildi í öðru bréfi Páls postula til kristinna manna í Korintu sem var ritað um árið 55. Páll var augljóslega að tala um sjálfvilja- og einkafjárframlög til hjálpar þurfandi kristnum einstaklingum í Jerúsalem og Júdeu er hann sagði: „Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.“ (2. Korintubréf 9:7; Rómverjabréfið 15:26; 1. Korintubréf 16:1, 2; Galatabréfið 2:10) Hvernig hafa þjónar Guðs brugðist við tækifærum til að gefa og hvað getum við lært af leiðbeiningum Páls um gjafmildi?
Knúðir af fúsum hjörtum
3. Að hvaða marki styrktu Ísraelsmenn gerð samfundatjaldsins fyrir tilbeiðslu Jehóva?
3 Fús hjörtu knýja þjóna Guðs til að gefa af sjálfum sér og eigum sínum til stuðnings tilgangi Guðs. Til dæmis studdu Ísraelsmenn á dögum Móse glaðir gerð samfundatjaldsins fyrir tilbeiðslu Jehóva. Hjörtu sumra kvennanna knúðu þær til að spinna geitahár og tilteknir menn þjónuðu sem handverksmenn. Fólkið gaf sjálfviljugt og með gleði gull, silfur, tré, léreft og fleira sem „gjöf [Jehóva] til handa.“ (2. Mósebók 35:4-35) Það var svo örlátt að efnið sem gefið var reyndist „gnógt verkefni fyrir þá til alls þess, er gjöra þurfti, og jafnvel nokkuð afgangs.“ — 2. Mósebók 36:4-7.
4. Með hvaða hugarfari gáfu Davíð og aðrir til musterisins?
4 Nokkrum öldum síðar gaf Davíð konungur ríkulega til musteris Jehóva er Salómon sonur hans skyldi byggja. Þar sem Davíð ‚hafði mætur á musteri Guðs,‘ gaf hann það ‚er hann átti‘ af gulli og silfri. Höfðingjar, ráðsmenn og aðrir ‚færðu [Jehóva] ríflega‘ gjöf. Hvaða áhrif hafði það? „Þá gladdist lýðurinn yfir örlæti þeirra, því að þeir höfðu af heilum hug fært [Jehóva] sjálfviljagjafir.“ (1. Kroníkubók 29:3-9) Þetta voru glaðir gjafarar.
5. Hvernig studdu Ísraelsmenn sanna tilbeiðslu gegnum aldirnar?
5 Gegnum aldirnar höfðu Ísraelsmenn þau sérréttindi að styðja rekstur samfundatjaldsins og síðar musterisins, svo og þjónustu prestanna og levítanna þar. Til dæmis ákváðu Gyðingarnir á dögum Nehemía að leggja fram fé til að viðhalda hreinni tilbeiðslu, þar sem þeir gerðu sér grein fyrir að þeir ættu ekki að vanrækja hús Guðs. (Nehemía 10:32-39) Á svipaðan hátt gefa vottar Jehóva nú á dögum glaðir frjáls framlög til byggingar og viðhalds samkomustöðum og til stuðnings sannri tilbeiðslu.
6. Nefndu dæmi um gjafmildi kristinna manna.
6 Frumkristnir menn voru glaðir gjafarar. Sem dæmi má nefna að Gajus ‚breytti dyggilega‘ með því að vera gestrisinn við þá sem ferðuðust um vegna hagsmuna Guðsríkis, alveg eins og vottar Jehóva sýna gestrisni farandhirðum sem nú eru sendir út af Biblíu- og smáritafélaginu Varðturninn. (3. Jóhannesarbréf 5-8) Það kostar eitthvað að láta þessa bræður ferðast á milli safnaða og sýna þeim gestrisni, en hversu gagnlegt er það ekki andlega! — Rómverjabréfið 1:11, 12.
7. Hvernig notuðu Filippímenn efnislegar eigur sínar?
7 Söfnuðir hafa, sem heild, notað fjármuni sína til að efla hagsmuni Guðsríkis. Til dæmis sagði Páll trúbræðrum sínum í Filippí: „Meira að segja, þegar ég var í Þessaloníku, senduð þér mér oftar en einu sinni til nauðsynja minna. Ekki að mér væri svo umhugað um gjöfina sem um ábata þann, sem ríkulega rennur í yðar reikning.“ (Filippíbréfið 4:15-17) Filippímenn voru glaðir gjafarar, en hvað er það sem hvetur til slíkrar gjafmildi?
Hvað hvetur til gjafmildi?
8. Hvernig myndir þú sýna fram á að andi Guðs fái þjóna hans til að vera gjafmildir?
8 Heilagur andi eða starfskraftur Jehóva fær þjóna hans til að vera gjafmildir. Þegar kristnir menn í Júdeu voru þurfandi fékk andi Guðs trúbræður þeirra til að hjálpa þeim efnislega. Til að hvetja kristna menn í Korintu til að gera sitt ýtrasta við slík framlög vísaði Páll til fordæmis safnaðanna í Makedóníu. Þó svo að kristnir menn í Makedóníu þyldu ofsóknir og fátækt sýndu þeir bróðurkærleika með því að gefa um megn fram. Þeir báðu jafnvel innilega um þau sérréttindi að fá að gefa. (2. Korintubréf 8:1-5) Starf Guðsríkis er ekki eingöngu háð framlögum hinna efnuðu. (Jakobsbréfið 2:5) Efnislega fátækir vígðir þjónar hans hafa verið aðalmáttarstoðin við að fjármagna prédikun Guðsríkis. (Matteus 24:14) Þó þjást þeir ekki vegna örlætis síns, því Guð sér ævinlega fyrir þörfum þjóna sinna í þessu starfi og andi hans er aflið sem stendur á bak við vöxt þess og viðgang.
9. Hvernig eru trú, þekking og kærleikur tengd gjafmildi?
9 Gjafmildi er knúin af trú, þekkingu og kærleika. Páll sagði: „Þér [Korintumenn] eruð auðugir í öllu, í trú, í orði og þekkingu, í allri alúð og í elsku yðar sem vér höfum vakið. Þannig skuluð þér og vera auðugir í þessari líknarþjónustu. Ég segi þetta ekki sem skipun, heldur bendi ég á áhuga annarra til þess að reyna, hvort kærleiki yðar er einnig einlægur.“ (2. Korintubréf 8:7, 8) Það krefst trúar á að Jehóva haldi áfram að veita þjónum sínum það sem þeir þurfa er menn leggja fram fé til starfs hans, sérstaklega þegar gjafarinn hefur takmörkuð fjárráð. Kristna menn, sem hafa mikla þekkingu, langar að þjóna tilgangi Jehóva og þeir sem eru ríkir af kærleika til hans og þjóna hans nota glaðir fjármuni sína til eflingar starfi hans.
10. Hvers vegna má segja að fordæmi Jesú fái kristna menn til að gefa með gleði?
10 Fordæmi Jesú fær kristna menn til að gefa með gleði. Páll sagði, er hann hafði hvatt Korintumenn til að gefa af kærleika: „Þér þekkið náð Drottins vors Jesú Krists. Hann gjörðist fátækur yðar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þér auðguðust af fátækt hans.“ (2. Korintubréf 8:9) Þótt Jesús væri ríkari á himnum en nokkur annar sonur Guðs afsalaði hann sér því öllu og gerðist maður. (Filippíbréfið 2:5-8) Með því að gerast fátækur á þennan óeigingjarna hátt átti Jesús hins vegar þátt í að helga nafn Jehóva og lagði líf sitt fram til lausnarfórnar, þeim mönnum til gagns sem myndu þiggja það. Ættum við ekki, í samræmi við fordæmi Jesú, að gefa með gleði til að hjálpa öðrum og eiga þátt í að helga nafn Jehóva?
11, 12. Hvernig getur góð skipulagning gert okkur að glöðum gjöfurum?
11 Góð skipulagning gerir mögulegt að gefa með gleði. Páll sagði Korintumönnum: „Hvern fyrsta dag vikunnar skal hver yðar leggja í sjóð heima hjá sér það, sem efni leyfa, til þess að ekki verði fyrst farið að efna til samskota, þegar ég kem.“ (1. Korintubréf 16:1, 2) Á svipaðan hátt myndu þeir sem vilja leggja fram sjálfviljagjafir til eflingar starfi Guðsríkis núna gera vel í að leggja til hliðar, hver fyrir sig, eitthvað af tekjum sínum til þeirra nota. Vegna svona góðrar skipulagningar geta vottar sem einstaklingar, fjölskyldur og söfnuðir gefið fjármuni til eflingar sannri tilbeiðslu.
12 Að hrinda í framkvæmd áætlunum um að gefa gleður okkur. Eins og Jesús sagði ‚er sælla að gefa en þiggja.‘ (Postulasagan 20:35) Þannig gátu Korintumenn aukið gleði sína með því að fylgja ráðleggingum Páls um að framfylgja ársgamalli áætlun sinni um að senda styrktarfé til Jerúsalem. ‚Hver er þóknanlegur með það, sem hann á til, og ekki er farið fram á það sem hann á ekki til,‘ sagði hann. Þegar einhver gefur í samræmi við það sem hann á ætti að meta það mikils. Ef við treystum Guði getur hann séð um að jöfnuður ríki svo að þeir sem eiga mikið séu örlátir, ekki eyðslusamir, og þeir sem lítið hafa líði ekki skort sem dregur úr krafti þeirra og getu til að þjóna honum. — 2. Korintubréf 8:10-15.
Gætileg meðferð gjafafjár
13. Hvers vegna gátu Korintumenn treyst umsjón Páls með gjafafé?
13 Þó svo að Páll hefði umsjón með framlagatilhöguninni svo að þurfandi trúbræður gætu notið efnislegrar aðstoðar og tekið af meiri krafti þátt í prédikunarstarfinu, tóku hvorki hann né aðrir neitt úr sjóðnum fyrir þjónustu sína. (2. Korintubréf 8:16-24; 12:17, 18) Páll vann til að fullnægja efnislegum þörfum sínum í stað þess að leggja fjárhagsbyrðar á nokkurn söfnuð. (1. Korintubréf 4:12; 2. Þessaloníkubréf 3:8) Þegar Korintumenn fólu honum framlög sín í umsjá voru þau í höndum áreiðanlegs og iðins þjóns Guðs.
14. Hvernig fer Varðturnsfélagið með gjafafé?
14 Frá stofnsetningu Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn árið 1884, hafa gefendur getað séð að öll framlög, sem því er treyst fyrir til handa starfi ríkis Jehóva, eru í traustri umsjá. Samkvæmt stofnskrá Félagsins leitast það við að uppfylla stærstu þörf allra manna, hina andlegu. Þetta er gert í formi biblíurita og leiðbeininga um hvernig megi öðlast hjálpræði. Núna er Jehóva að hraða samansöfnun sauðumlíkra manna inn í skipulag sitt, sem fer stækkandi, og það hvernig hann blessar skynsamlega notuð framlög í prédikunarstarfinu um Guðsríki er greinilegur vitnisburður um velþóknun hans. (Jesaja 60:8, 22) Við erum þess fullviss að hann haldi áfram að knýja hjörtu glaðra gjafara.
15. Hvers vegna minnist þetta rit af og til á framlög?
15 Af og til notar Félagið dálka þessa tímarits til að láta lesendur sína vita af þeim sérréttindum að gefa frjáls framlög til alþjóðaprédikunarstarfsins um Guðsríki. Þetta er ekki beiðni heldur gert til að minna alla á það sem langar til að styðja ‚helgiþjónustu við fagnaðarerindið,‘ eins og Guð blessar þá til. (Rómverjabréfið 15:16; 3. Jóhannesarbréf 2) Félagið notar öll fjárframlög á mjög svo hagsýnan hátt til að kunngera nafn Jehóva og ríki hans. Allar gjafir eru þegnar með þökkum, virtar að verðleikum og notaðar til að útbreiða fagnaðarerindið um Guðsríki. Til dæmis er slíkt gjafafé notað til að styrkja trúboðsstarf í mörgum löndum og viðhalda og auka búnað og húsnæði til prentunar sem er nauðsynlegt til dreifingar á biblíuþekkingu. Enn fremur eru gjafir til alþjóðastarfsins notaðar til að standa undir auknum kostnaði af framleiðslu biblía og biblíurita, svo og segulbanda og myndbanda. Á slíka vegu efla glaðir gjafarar hagsmuni Guðsríkis.
Ekki af nauðung
16. Hvers vegna eru framlög votta Jehóva mikils metin þótt fáir þeirra séu efnislega ríkir?
16 Fáir vottar Jehóva eru efnislega auðugir. Þótt framlög þeirra til að efla hagsmuni Guðsríkis séu ekki stór eru þau þýðingarmikil. Er Jesús sá fátæka ekkju setja tvo smápeninga, sem voru lítils virði, í fjárhirslu musterisins sagði hann: „Þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir. Hinir allir [aðrir gefendur] lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína.“ (Lúkas 21:1-4) Þó svo að gjöf hennar væri lítil var hún glaður gjafari — og gjöf hennar var mikils metin.
17, 18. Hver er kjarni orða Páls í 2. Korintubréfi 9:7 og hvað er gefið til kynna með gríska orðinu sem þýtt er ‚glaður‘?
17 Páll sagði varðandi hjálparstarf við kristna menn í Júdeu: „Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.“ (2. Korintubréf 9:7) Það má vera að postulinn hafi vitnað óbeint í hluta Orðskviðanna 22:8 í Sjötíumannaþýðingunni þar sem segir: „Guð blessar glaðan gjafara; og mun láta í té það sem skortir á starf hans.“ (The Septuagint Bible, ensk þýðing eftir Charles Thomson) Páll notaði orðið „elskar“ í stað „blessar,“ en það er samband milli þeirra því blessanir eru afleiðing elsku Guðs.
18 Hinn gjafmildi hefur sannarlega ánægju af því að gefa. Af gríska orðinu, sem er þýtt er ‚glaður‘ í 2. Korintubréfi 9:7, er komið enska orðið „hilarious“ sem þýðir gáskafullur eða ofsakátur. Eftir að hafa bent á þetta segir fræðimaðurinn R. C. H. Lenski: „Guð elskar kátan, glaðan, hamingjusaman gjafara . . . [sem] sveipar trú sína brosi þegar honum býðst annað tækifæri til að gefa.“ Sá sem er svo glaðlyndur gefur ekki með ólund eða af nauðung heldur fylgir hjartað með er hann gefur. Gleðst þú svona mikið yfir að gefa til stuðnings hagsmunum Guðsríkis?
19. Hvernig lögðu frumkristnir menn fram gjafir?
19 Frumkristnir menn létu ekki ganga söfnunarbauka eða borguðu tíund tekna sinna í trúarlegum tilgangi. Gjafir þeirra voru alveg sjálfviljugar. Tertúllíanus, sem snerist til kristinnar trúar kringum árið 190, skrifaði: „Þó að við höfum okkar eigin fjárhirslu er hún ekki byggð á hjálpræðisgjöldum, eins og trúin sé til sölu. Á hinum mánaðarlega degi [eflaust einu sinni í mánuði], leggur hver og einn fram smáframlag, ef hann vill; en aðeins ef hann langar til þess og er fær um það því enginn er nauðbeygður; allt er gert sjálfviljuglega.“ — Apology, kafli XXXIX.
20, 21. (a) Hvað sagði eitt af fyrstu tölublöðum þessa tímarits um þau sérréttindi að styðja starf Guðs efnislega og hvernig á það við jafnvel núna? (b) Hvað gerist er við tignum Jehóva með eigum okkar?
20 Sjálfviljagjafir hafa alltaf tíðkast meðal nútímaþjóna Jehóva. Á stundum hafa sumir samt ekki nýtt sér til fulls þau sérréttindi að styðja starf Guðs með framlögum. Þetta tímarit sagði til dæmis í febrúar 1883: „Útgjöldin leggjast svo þungt á suma vegna hinna að efnahagur þeirra fær ekki til lengdar undir því risið; og ekki aðeins það, heldur hafa þeir sem . . . gera sér ekki ljóst hvernig málum er háttað misst af þeirri blessun sem örlátum veitist.“
21 Er múgurinn mikli streymir inn í skipulag Jehóva núna og starf Guðs eykst í Austur-Evrópu og á öðrum stöðum þar sem það var áður takmarkað, eykst þörfin á stækkun prentsmiðja og annarrar aðstöðu. Það þarf að prenta fleiri biblíur og önnur rit. Mörg guðræðisleg verkefni eru í gangi, en sumum gæti miðað hraðar áfram ef til væri nægilegt fjármagn. Að sjálfsögðu höfum við trú á að Guð muni sjá fyrir því sem þarf og við vitum að þeir sem ‚tigna [Jehóva] með eigum sínum‘ hljóta blessun. (Orðskviðirnir 3:9, 10) Vissulega mun ‚sá sem sáir ríflega uppskera ríflega.‘ Jehóva mun gera okkur ‚auðuga til að geta jafnan sýnt örlæti‘ og gjafmildi okkar fær marga til að þakka honum og vegsama. — 2. Korintubréf 9:6-14.
Sýndu þakklæti þitt fyrir gjafir Guðs
22, 23. (a) Hver er óumræðileg gjöf Guðs? (b) Hvað ættum við að gera þar sem við kunnum að meta gjafir Jehóva?
22 Páll sagði sjálfur, snortinn djúpu þakklæti: „Þökk sé Guði fyrir sína óumræðilegu gjöf!“ (2. Korintubréf 9:15) Sem „friðþæging“ fyrir syndir smurðra kristinna manna og heimsins er Jesús grundvöllur og miðlari óumræðilegrar gjafar Jehóva. (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Sú gjöf er ‚yfirgnæfanleg náð Guðs‘ sem hann hefur sýnt þjónum sínum á jörðinni fyrir milligöngu Jesú Krists og hún er yfirgnæfanleg þeim til hjálpræðis og til upphafningar og dýrðar Jehóva. — 2. Korintubréf 9:14.
23 Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir óumræðilega gjöf hans og margar aðrar andlegar og efnislegar gjafir til þjóna sinna. Gæska himnesks föður okkar er svo undursamleg að ekki er hægt að lýsa henni með orðum! Og hún ætti auðvitað að knýja okkur til að vera gjafmild. Við skulum því, af hjartans þakklæti, gera allt sem við getum til að efla starf okkar glaða gjafara, Jehóva, hans sem er öllum fremri í örlæti og gjafmildi.
Manst þú?
◻ Hvað hafa fús hjörtu þjóna Jehóva knúið þá til að gera?
◻ Hvað hvetur til gjafmildi?
◻ Hvernig notar Varðturnsfélagið öll framlög sem þeim berast?
◻ Hvers konar gjafara elskar Guð og hvernig ættum við að sýna þakklæti okkar fyrir hinar mörgu gjafir hans?
[Mynd á blaðsíðu 13]
Þegar unnið var að gerð samfundatjaldsins lögðu Ísraelsmenn sig kappsamlega fram og gáfu Jehóva örlátlega.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Framlög eins og fátæka ekkjan gaf eru mikils metin og þýðingarmikil.