NÁMSGREIN 10
SÖNGUR 13 Kristur, fyrirmynd okkar
Fylgdu Jesú stöðugt eftir skírnina
„Sá sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kvalastaur sinn daglega og fylgi mér stöðugt.“ – LÚK. 9:23.
Í HNOTSKURN
Þessi námsgrein getur hjálpað okkur öllum að íhuga merkingu vígslu okkar. Hún getur sérstaklega verið hjálpleg þeim sem hafa nýlega látið skírast að vera trúfastir.
1, 2. Hvernig verður líf okkar betra eftir að við látum skírast?
ÞAÐ er gleðiefni að láta skírast og fá að tilheyra fjölskyldu Jehóva. Þeir sem eiga náið samband við Jehóva álíta það heiður og eru sammála því sem sálmaskáldið Davíð sagði: „Sá er hamingjusamur sem þú [Jehóva] velur og lætur nálgast þig, hann fær að búa í forgörðum þínum.“ – Sálm. 65:4.
2 Jehóva býður ekki hverjum sem er í forgarða sína. Eins og rætt var um í síðustu námsgrein velur hann að nálgast þá sem sýna að þeir vilji eiga náið samband við hann. (Jak. 4:8) Þegar þú vígir Jehóva líf þitt og lætur skírast nálgast þú Jehóva á sérstakan hátt. Þú getur bókað að þaðan í frá lætur hann ‚blessun streyma yfir þig þar til þig skortir ekki neitt‘. – Mal. 3:10; Jer. 17:7, 8.
3. Hvaða alvarlegu ábyrgð hafa þeir sem hafa vígt Jehóva líf sitt og látið skírast? (Prédikarinn 5:4, 5)
3 Skírn er auðvitað bara upphafið. Eftir hana viltu gera þitt besta til að lifa í samræmi við vígsluheit þitt, jafnvel þegar þú verður fyrir freistingum eða gengur í gegnum erfiðleika. (Lestu Prédikarann 5:4, 5.) Sem lærisveinn Jesú fylgirðu fordæmi hans og leiðbeiningum eins vel og þú getur. (Matt. 28:19, 20; 1. Pét. 2:21) Þessi námsgrein hjálpar þér á þeirri vegferð.
FYLGDU JESÚ STÖÐUGT ÞRÁTT FYRIR ERFIÐLEIKA OG FREISTINGAR
4. Í hvaða skilningi bera lærisveinar Jesú „kvalastaur“? (Lúkas 9:23)
4 Líf þitt verður ekki laust við vandamál eftir skírnina. Jesús gaf skýrt til kynna að lærisveinar hans myndu bera „kvalastaur“. Þeir myndu þurfa að gera það daglega. (Lestu Lúkas 9:23.) Meinti hann að fylgjendur hans þyrftu að þjást stöðuglega? Alls ekki. Hann var einfaldlega að segja að þeir myndu fá mótlæti auk þess að njóta blessunar. Sumt gæti jafnvel valdið þeim þjáningum. – 2. Tím. 3:12.
5. Hvaða blessun lofaði Jesús þeim sem færðu fórnir?
5 Þú hefur ef til vill nú þegar fundið fyrir andstöðu ættingja eða fórnað efnislegum ávinningi fyrir hagsmuni Guðsríkis. (Matt. 6:33) Ef svo er geturðu verið viss um að Jehóva hefur tekið eftir öllu sem þú hefur gert fyrir hann. (Hebr. 6:10) Þú hefur trúlega upplifað sannleiksgildi þess sem Jesús sagði: „Enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og vegna fagnaðarboðskaparins án þess að hann fái hundraðfalt aftur núna á þessum tíma – heimili, bræður, systur, mæður, börn og akra, ásamt ofsóknum – og í hinum komandi heimi eilíft líf.“ (Mark. 10:29, 30) Blessunin sem þú hefur hlotið er sannarlega meiri en hver sú fórn sem þú hefur fært. – Sálm. 37:4.
6. Hvers vegna þarftu að halda áfram að berjast gegn því „sem maðurinn girnist“ eftir skírnina?
6 Þú þarft samt að halda áfram að berjast gegn því „sem maðurinn girnist“ eftir skírnina. (1. Jóh. 2:16) Þú ert eftir sem áður syndugur afkomandi Adams. Þér gæti stundum liðið eins og Páli postula sem skrifaði: „Innst inni hef ég yndi af lögum Guðs en ég sé annað lögmál í líkama mínum sem berst gegn lögum hugar míns og gerir mig að fanga undir lögmáli syndarinnar sem býr í mér.“ (Rómv. 7:22, 23) Það gæti dregið úr þér kjark að þurfa að berjast við rangar langanir. En þegar þú hugsar um loforðið sem þú gafst Jehóva þegar þú vígðir honum líf þitt færðu þann styrk sem þú þarft til að berjast gegn freistingu. Í raun gerir vígslan þér lífið auðveldara þegar þú verður fyrir freistingu. Hvernig þá?
7. Hvernig mun vígslan hjálpa þér að vera Jehóva trúfastur?
7 Þegar þú vígir Jehóva líf þitt afneitarðu sjálfum þér. Það merkir að þú hafnar persónulegum metnaði og löngun í það sem Jehóva væri ekki ánægður með. (Matt. 16:24) Þegar þú verður fyrir freistingu eða gengur í gegnum erfiðleika þarftu ekki að velkjast í vafa um hvað þú átt að gera. Þú hefur þegar ákveðið hvað þú ætlar að gera, vera Jehóva trúfastur. Þú ert ákveðinn í að gleðja hann. Þú líkir þannig eftir Job. Þótt hann hafi lent í gríðarlega miklum erfiðleikum sagði hann ákveðinn: ‚Ég læt ekki af ráðvendni minni.‘ – Job. 27:5.
8. Hvernig getur það hjálpað þér að standast freistingu að hugleiða loforð þitt gagnvart Jehóva?
8 Þú færð styrk til að standast hverja freistingu sem þú verður fyrir ef þú hugleiðir loforð þitt gagnvart Jehóva. Myndirðu til dæmis daðra við maka einhvers annars? Auðvitað ekki. Þú hefur lofað Jehóva að gera aldrei neitt slíkt. Þannig hefurðu sparað þér þá sálarkvöl að þurfa að takast á við óviðeigandi tilfinningar eftir að þær hafa skotið rótum. Þú ‚snýrð frá braut illmenna‘. – Orðskv. 4:14, 15.
9. Hvernig getur það að hugleiða loforðið sem þú gafst Jehóva hjálpað þér að hafa tilbeiðsluna á honum í fyrsta sæti í lífinu?
9 Segjum að þér sé boðin vinna sem kemur í veg fyrir að þú getir sótt samkomur reglulega. Þú veist hvað þú ættir að gera. Þú hafðir ákveðið að þiggja ekki slíka vinnu löngu áður en þér var boðin hún. Þannig þarftu ekki að velta fyrir þér hvort þú gætir látið vonda ákvörðun ganga upp. Það getur hjálpað að hugleiða fordæmi Jesú. Hann var ákveðinn í að þóknast föður sínum sem hann var vígður og hafnaði strax öllu sem var honum vanþóknanlegt. – Matt. 4:10; Jóh. 8:29.
10. Hvernig hjálpar Jehóva þér að fylgja Jesú stöðugt eftir skírnina?
10 Erfiðleikar og freistingar eru í raun tækifæri til að sýna að maður sé ákveðinn í að fylgja Jesú stöðugt. Og þú getur verið viss um að Jehóva hjálpar þér að gera það. Biblían segir: „Guð er trúr og lætur ekki freista ykkar umfram það sem þið ráðið við því að samfara freistingunni sér hann fyrir leið út úr henni svo að þið getið staðist hana.“ – 1. Kor. 10:13.
HVAÐ ER HÆGT AÐ GERA TIL AÐ FYLGJA JESÚ STÖÐUGT?
11. Hver er ein besta leiðin til að fylgja Jesú stöðugt? (Sjá einnig mynd.)
11 Jesús var heilshugar í þjónustu sinni og hafði alltaf náið bænasamband við Jehóva. (Lúk. 6:12) Ein besta leiðin til að fylgja Jesú stöðugt eftir skírnina er að venja þig á að gera það sem nálægir þig Jehóva. Biblían segir: ‚Við skulum halda áfram á sömu braut og við erum á, óháð því hvaða framförum við höfum tekið.‘ (Fil. 3:16) Þú fréttir stundum af bræðrum og systrum sem hafa ákveðið að gera meira í þjónustu Jehóva. Þau hafa kannski sótt Skólann fyrir boðbera Guðsríkis eða flutt þangað sem þörfin er meiri. Settu þér endilega slíkt markmið ef aðstæður þínar leyfa. Þjónar Jehóva vilja mjög gjarnan finna leiðir til að gera meira fyrir hann. (Post. 16:9) En hvað ef þú getur það ekki eins og er? Ekki álíta þig minna virði en þá sem geta það. Það sem mestu máli skiptir er þolgæði í hlaupinu um eilífa lífið. (Matt. 10:22) Ekki vanmeta gildi þess að þjóna Jehóva samkvæmt þinni getu og aðstæðum. Þannig fylgirðu Jesú stöðugt eftir skírnina. – Sálm. 26:1.
12, 13. Hvað geturðu gert ef þú hefur ekki sömu gleði í þjónustu Jehóva og áður? (1. Korintubréf 9:16, 17) (Sjá einnig rammann „Haltu áfram í hlaupinu“.)
12 Hvað ættirðu að gera ef þér finnst bænir þínar vera orðnar vélrænar eða boðunin ekki lengur gleðigjafi? Og hvað ef biblíulesturinn er ekki eins ánægjulegur og áður? Ef þessar aðstæður koma upp eftir skírnina skaltu ekki álykta að þú hafir misst anda Jehóva. Tilfinningar okkar breytast stundum vegna ófullkomleika okkar. Ef þú missir eldmóðinn að einhverju leyti skaltu rifja upp fordæmi Páls postula. Þótt hann reyndi að líkja eftir Jesú vissi hann að hann hafði ekki alltaf jafn mikla löngun til að gera það sem hann þurfti að gera. (Lestu 1. Korintubréf 9:16, 17.) Hann sagði: „Þótt ég gerði það gegn vilja mínum ynni ég samt það verk sem mér var falið.“ Páll var með öðrum orðum ákveðinn í að sinna þjónustu sinni þrátt fyrir það hvernig honum leið þá stundina.
13 Þú skalt ekki taka ákvarðanir byggðar á tilfinningum. Vertu ákveðinn í að gera það sem er rétt þótt þig langi í raun ekki til þess. Það sem þú gerir hefur síðan með tímanum trúlega jákvæð áhrif á tilfinningarnar. Reglubundið sjálfsnám, bæn, samkomusókn og boðun trúarinnar hjálpar þér að fylgja Jesú stöðugt eftir skírnina. Stöðugleiki þinn mun auk þess vera hvetjandi fyrir trúsystkini þín. – 1. Þess. 5:11.
„RANNSAKIÐ STÖÐUGT … OG PRÓFIГ
14. Hvað ættirðu að rannsaka með reglulegu millibili og hvers vegna? (2. Korintubréf 13:5)
14 Það er líka gagnlegt fyrir þig að rannsaka sjálfan þig reglulega eftir skírnina. (Lestu 2. Korintubréf 13:5.) Skoðaðu nánar líf þitt og venjur öðru hvoru til að sjá hvort þú biðjir til Jehóva daglega, lesir og rannsakir Biblíuna, sækir samkomur og takir þátt í boðuninni. Reyndu að koma auga á leiðir til að hafa enn meiri ánægju og gagn af því sem þú gerir á þessum sviðum. Spyrðu þig spurninga eins og: Get ég útskýrt grundvallaratriði Biblíunnar fyrir öðrum? Get ég haft meiri gleði af boðuninni? Hversu nákvæmur er ég í bænum mínum og sýna þær að ég treysti algerlega á Jehóva? Sæki ég reglulega samkomur? Hvernig get ég bætt einbeitingu og þátttöku mína á samkomum?
15, 16. Hvað kennir reynsla eins bróður þér um að standast freistingu?
15 Það er líka gott að rannsaka heiðarlega hverjir veikleikar þínir eru. Bróðir sem heitir Robert rifjar upp atvik sem undirstrikar þetta. „Þegar ég var tvítugur var ég í hlutastarfi. Dag einn bauð samstarfskona mér með sér heim. Hún sagði að við yrðum ein og gætum ‚skemmt okkur‘ svolítið. Í fyrstu reyndi ég að komast undan með því að afsaka mig en að lokum sagði ég nei og útskýrði hvers vegna.“ Robert stóðst freistinguna og það er hrósvert. Síðar rifjaði hann þetta atvik upp og áttaði sig á að hann hefði getað höndlað aðstæðurnar enn betur. Hann viðurkennir: „Ég hafnaði boðinu ekki eins ákveðið og fljótt eins og Jósef hafnaði eiginkonu Pótífars. (1. Mós. 39:7–9) Ég var reyndar hissa hversu erfitt það reyndist að segja nei. Þetta opnaði augu mín fyrir því að ég þurfti að styrkja vináttu mína við Jehóva.“
16 Það gæti verið gott fyrir þig að gera sjálfsrannsókn svipað og Robert gerði. Jafnvel þegar þér tekst að standast freistingu gætirðu spurt þig: Hvað tók það mig langan tíma að segja nei? Ef þú áttar þig á því að þú gætir gert betur skaltu ekki vera harður við sjálfan þig. Vertu ánægður að koma auga á þennan veikleika. Gerðu málið að bænarefni og gerðu það sem þarf til að styrkja löngunina til að hlýða honum. – Sálm. 139:23, 24.
17. Hvaða áhrif hafði ákvörðun Roberts á nafn Jehóva?
17 Við lærum fleira af Robert. Hann segir áfram: „Eftir að ég neitaði boði samstarfskonunnar sagði hún: ‚Þú stóðst prófið.‘ Þegar ég spurði hvað hún ætti við sagði hún að vinur hennar sem hefði áður verið vottur hefði sagt henni að allir ungir vottar lifðu tvöföldu lífi og myndu stökkva á tækifæri til að fara út af brautinni ef það gæfist. Hún sagðist því ætla að prófa þetta á mér. Ég skildi þá hversu ánægður ég var að hafa heiðrað nafn Jehóva.“
18. Hvað ert þú ákveðinn í að gera eftir skírnina? (Sjá einnig rammann „Vefgreinar sem gætu nýst þér vel“.)
18 Þegar þú vígir Jehóva líf þitt og skírist sýnirðu að þú viljir helga nafn hans hvað sem það kostar. Og þú getur verið viss um að Jehóva veit um erfiðleikana sem þú gengur í gegnum og freistingarnar sem þú stenst. Hann blessar viðleitni þína til að vera trúfastur. Þú getur verið viss um að hann gefur þér styrkinn til að gera það fyrir atbeina heilags anda síns. (Lúk. 11:11–13) Með hjálp Jehóva geturðu fylgt Jesú stöðugt eftir skírnina.
HVERJU SVARAR ÞÚ?
Í hvaða skilningi bera þjónar Guðs „kvalastaur sinn daglega“?
Hvað geturðu gert til að fylgja Jesú stöðugt eftir skírnina?
Hvernig getur það hjálpað þér að vera trúfastur að hugleiða bæn þína þegar þú vígðir Jehóva líf þitt?
SÖNGUR 89 Hlustið, hlýðið og hljótið blessun