Hve sterk er trú þín?
„Í trúnni standið þér.“ — 2. KORINTUBRÉF 1:24.
1, 2. Hvers vegna verðum við að hafa trú og hvernig getur hún styrkst?
ÞJÓNAR JEHÓVA vita að þeir verða að trúa. Reyndar er ‚ógerlegt að þóknast Guði án trúar.‘ (Hebreabréfið 11:6) Þess vegna er viturlegt af okkur að biðja um heilagan anda og um trú sem er þáttur í hinum ágæta ávexti andans. (Lúkas 11:13; Galatabréfið 5:22, 23) Við getum einnig styrkt þennan eiginleika með því að líkja eftir þeirri trú sem trúsystkini okkar sýna. — 2. Tímóteusarbréf 1:5; Hebreabréfið 13:7.
2 Við styrkjum trúna ef við höldum áfram á þeirri braut sem orð Guðs markar öllum kristnum mönnum. Daglegur biblíulestur og góð ástundun við biblíunám með hjálp rita frá ‚hinum trúa og hyggna ráðsmanni‘ stuðla að sterkari trú. (Lúkas 12:42-44; Jósúabók 1:7, 8) Við sýnum trúna í verki með því að sækja samkomur og mót staðfastlega, og þannig hvetjum við hvert annað. (Rómverjabréfið 1:11, 12; Hebreabréfið 10:24, 25) Og trúin styrkist þegar við tölum við aðra í boðunarstarfinu. — Sálmur 145:10-13; Rómverjabréfið 10:11-15.
3. Hvernig hjálpa safnaðaröldungar okkur í trúnni?
3 Umhyggjusamir safnaðaröldungar hjálpa okkur að styrkja trúna þegar þeir hvetja okkur og leiðbeina með hjálp Biblíunnar. Þeir eru sama sinnis og Páll postuli sem sagði Korintumönnum: „Vér [erum] samverkamenn að gleði yðar. Því að í trúnni standið þér.“ (2. Korintubréf 1:23, 24) Önnur þýðing segir: „Vér viljum . . . hjálpa til yðar gleði; því þér standið stöðugir í trúnni.“ (Biblían 1859) Hinir réttlátu lifa vegna trúar sinnar. Enginn annar getur auðvitað trúað fyrir okkur eða gert okkur ráðvönd þannig að þar verðum við ‚að bera okkar eigin byrði.‘ — Galatabréfið 3:11; 6:5.
4. Hvernig geta frásögur Biblíunnar af trúum þjónum Guðs styrkt trú okkar?
4 Í Biblíunni er fjöldi frásagna af trústerku fólki. Við þekkjum kannski mörg af einstæðum trúarverkum þessa fólks, en hvað um trúna sem það sýndi dag frá degi, kannski á langri ævi? Við getum styrkt trúna með því að hugleiða hvernig það sýndi þessa eiginleika við svipaðar aðstæður og okkar.
Trúin veitir hugrekki
5. Hvernig sést af Biblíunni að trúin styrkir okkur til að boða orð Guðs með hugrekki?
5 Trúin styrkir okkur í að boða orð Guðs með hugrekki. Enok sagði hugrakkur frá komandi dómsdegi Guðs. „Sjá, Drottinn er kominn með sínum þúsundum heilagra til að halda dóm yfir öllum og til að sanna alla óguðlega menn seka um öll þau óguðlegu verk, sem þeir hafa drýgt, og um öll þau hörðu orð, sem óguðlegir syndarar hafa talað gegn honum.“ (Júdasarbréfið 14, 15) Guðlausir óvinir Enoks reiddust orðum hans og vildu hann feigan. En hann flutti boðskapinn í trú og Guð „nam hann burt“ með því að láta hann sofna dauðasvefni, greinilega kvalalaust. (1. Mósebók 5:24; Hebreabréfið 11:5) Við reiknum ekki með slíkum kraftaverkum núna en Jehóva svarar engu að síður bænum okkar þannig að við getum boðað orð hans með trú og hugrekki. — Postulasagan 4:24-31.
6. Hvernig var trú Nóa og hugrekki hans honum til hjálpar?
6 Í trú ‚smíðaði Nói örk til björgunar heimilisfólki sínu.‘ (Hebreabréfið 11:7; 1. Mósebók 6:13-22) Nói var líka ‚prédikari réttlætisins‘ og flutti samtíðarmönnum sínum viðvörun Guðs með hugrekki. (2. Pétursbréf 2:5) Þeir hljóta að hafa hæðst að boðskap hans um yfirvofandi heimsflóð, ekkert síður en sumir hæðast að okkur þegar við bendum á biblíulegar sannanir fyrir því að núverandi heimskerfi verði bráðlega eytt. (2. Pétursbréf 3:3-12) En líkt og þeir Enok og Nói getum við flutt slíkan boðskap vegna þess að Guð hefur gefið okkur trú og hugrekki.
Trúin gerir okkur þolinmóð
7. Hvernig sýndu Abraham og fleiri trú og þolinmæði?
7 Við þurfum að sýna trú og vera þolinmóð, sérstaklega meðan við bíðum eftir að þetta illa heimskerfi líði undir lok. Abraham, ættfaðirinn guðhræddi, er einn þeirra sem mun ‚erfa fyrirheitin vegna trúar og stöðuglyndis‘ eða þolinmæði. (Hebreabréfið 6:11, 12) Vegna trúar yfirgaf hann borgina Úr, með öllum hennar kostum, og settist að sem útlendingur í fjarlægu landi sem Guð hét að gefa honum. Ísak og Jakob urðu erfingjar að sama fyrirheiti. En „allir þessir menn dóu í trú, án þess að hafa öðlast fyrirheitin.“ Í trú „þráðu þeir betri ættjörð, það er að segja himneska.“ Þess vegna ‚hefur Guð búið þeim borg.‘ (Hebreabréfið 11:8-16) Já, Abraham, Ísak og Jakob — og guðhræddar eiginkonur þeirra — væntu þolinmóð hins himneska ríkis Guðs þegar þau verða reist upp frá dauðum til að lifa á jörð.
8. Þrátt fyrir hvað sýndu Abraham, Ísak og Jakob trú og þolinmæði?
8 Abraham, Ísak og Jakob misstu ekki trúna. Þeir fengu ekki umráð yfir fyrirheitna landinu og þeir fengu ekki að sjá allar þjóðir hljóta blessun vegna afkvæmis Abrahams. (1. Mósebók 15:5-7; 22:15-18) Þó að ‚borgin sem Guð er smiður að‘ yrði ekki að veruleika fyrr en öldum síðar varðveittu þessir menn trúna og þolinmæðina til æviloka. Við ættum ekki að vera eftirbátar þeirra því að nú er búið að stofnsetja messíasarríkið á himnum. — Sálmur 42:6, 12; 43:5.
Trúin stuðlar að háleitustu markmiðum
9. Hvaða áhrif hefur trúin á markmið okkar?
9 Hinir trúu ættfeður lögðust aldrei í siðspillt líferni Kanverja því að þeir áttu sér miklu göfugri markmið. Trúin gefur okkur líka andleg markmið sem gera okkur kleift að halda okkur aðgreindum frá heiminum sem er á valdi hins vonda, Satans djöfulsins. — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17; 5:19.
10. Hvernig vitum við að Jósef setti sér langtum göfugra markmið en það að komast áfram í heiminum?
10 Fyrir forsjón Guðs fékk Jósef, sonur Jakobs, það hlutverk að vera matvælaráðherra Egyptalands, en það var ekki markmið hans að verða stórmenni í þessum heimi. Jósef trúði að fyrirheit Guðs myndu rætast og sagði bræðrum sínum er hann var 110 ára að aldri: „Nú mun ég deyja. En Guð mun vissulega vitja yðar og flytja yður úr þessu landi til þess lands, sem hann hefir svarið Abraham, Ísak og Jakob.“ Jósef bað um að verða grafinn í fyrirheitna landinu. Hann var smurður og kistulagður í Egyptalandi er hann dó. En þegar Ísraelsmenn voru frelsaðir úr ánauðinni í Egyptalandi lét spámaðurinn Móse taka bein hans með til að hægt væri að greftra þau í fyrirheitna landinu. (1. Mósebók 50:22-26; 2. Mósebók 13:19) Við ættum að hafa trú eins og Jósef og setja okkur göfugri markmið en frama í heiminum. — 1. Korintubréf 7:29-31.
11. Hvernig sýndi Móse að hann hafði sett sér andleg markmið?
11 Móse ‚kaus fremur að þola illt með þjóð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni‘ sem menntaður maður í konungsætt Egyptalands. (Hebreabréfið 11:23-26; Postulasagan 7:20-22) Hann afsalaði sér upphefð í heiminum og kannski stórfenglegri útför í skreyttri líkkistu á einhverjum frægum stað í Egyptalandi. En hvers virði hefði það verið í samanburði við þann heiður að vera ‚guðsmaður,‘ meðalgangari lagasáttmálans, spámaður Jehóva og biblíuritari? (Esrabók 3:2) Sækist þú eftir frama í heiminum eða hefur trúin gefið þér langtum göfugri andleg markmið?
Trúin auðgar lífið
12. Hvaða áhrif hafði það á líf Rahab að hún skyldi taka trú?
12 Það er ekki aðeins að trúin gefi fólki háleitustu markmið heldur auðgar hún lífið. Vændiskonunni Rahab í Jeríkó hefur varla fundist lífið innihaldsríkt. En það gerbreyttist er hún tók trú. Hún „réttlættist . . . af verkum [trúarinnar], er hún tók við [ísraelsku] sendimönnunum og lét þá fara burt aðra leið“ þannig að þeir komust undan kanverskum óvinum sínum. (Jakobsbréfið 2:24-26) Rahab viðurkenndi Jehóva sem hinn sanna Guð og sýndi trú sína jafnframt með því að hætta skækjulífi sínu. (Jósúabók 2:9-11; Hebreabréfið 11:30, 31) Hún giftist þjóni Jehóva en ekki trúlausum Kanverja. (5. Mósebók 7:3, 4; 1. Korintubréf 7:39) Hún hlaut þau einstæðu sérréttindi að vera ein af formæðrum Messíasar. (1. Kroníkubók 2:3-15; Rutarbók 4:20-22; Matteus 1:5, 6) Hún hlýtur enn eina umbun þegar hún verður reist upp frá dauðum í paradís á jörð líkt og aðrir sem sumir hverjir sneru baki við siðlausu líferni.
13. Hvernig syndgaði Davíð en hvaða hugarfar sýndi hann svo?
13 Ljóst er að Rahab lifði hreinu lífi eftir að hafa snúið baki við syndugu líferni sínu. En sumir hafa syndgað alvarlega eftir að hafa verið vígðir Guði árum saman. Davíð konungur drýgði hór með Batsebu, lét fella mann hennar í bardaga og tók sér hana síðan fyrir eiginkonu. (2. Samúelsbók 11:1-27) Hann iðraðist verknaðar síns sárlega og grátbændi Jehóva: „Tak ekki þinn heilaga anda frá mér.“ Andi Guðs var ekki frá honum tekinn. Davíð treysti á miskunn Jehóva og trúði að hann myndi ekki fyrirlíta „sundurmarið og sundurkramið hjarta.“ (Sálmur 51:13, 19; 103:10-14) Vegna trúar sinnar fengu Davíð og Batseba að verða hlekkir í ætt Messíasar. — 1. Kroníkubók 3:5; Matteus 1:6, 16; Lúkas 3:23, 31.
Loforð um hjálp Guðs styrkja trúna
14. Hvaða vissu fékk Gídeon og hvernig getur frásagan af honum haft áhrif á trú okkar?
14 Þó að við framgöngum í trú getum við stundum þurft að fá vissu fyrir því að Guð hjálpi okkur. Gídeon dómari er dæmi um það en hann var einn þeirra sem ‚fyrir trú vann sigur á konungsríkjum.‘ (Hebreabréfið 11:32, 33) Andi Guðs kom yfir Gídeon þegar Midíanítar og bandamenn þeirra réðust inn í Ísrael. Hann vildi fá vissu fyrir því að Jehóva væri með honum og fór fram á að mega gera tilraun með því að leggja ullarreyfi út á þreskivöll yfir nótt. Í fyrra sinnið féll dögg á ullarreyfið en jörðin var þurr. Í síðara sinnið snerist þetta við. Með þessa vissu að bakhjarli gekk hinn gætni Gídeon fram í trú og sigraði óvini Ísraels. (Dómarabókin 6:33-40; 7:19-25) Það er ekki merki um veika trú að sækjast eftir vissu varðandi ákvörðun sem við þurfum að taka. Það er frekar merki um trú að leita til Biblíunnar og biblíutengdra rita og að biðja um leiðsögn heilags anda þegar við tökum ákvarðanir. — Rómverjabréfið 8:26, 27.
15. Hvernig getur trú Baraks verið okkur til hvatningar?
15 Barak dómari fékk hvatningu og loforð sem styrkti trú hans. Debóra spákona brýndi hann til að ganga fram í að frelsa Ísraelsmenn undan áþján Jabíns konungs í Kanaan. Í trú og með vissu fyrir stuðningi Guðs lagði Barak til atlögu með 10.000 illa búna menn og sigraði margfalt fjölmennari her Jabíns sem var undir forystu Sísera hershöfðingja. Debóra og Barak fögnuðu sigrinum með hrífandi sigursöng. (Dómarabókin 4:1–5:31) Debóra hvatti Barak til að ganga fram sem leiðtogi Ísraels, og hann var einn af þjónum Jehóva sem vegna trúar ‚stökkti fylkingum óvina á flótta.‘ (Hebreabréfið 11:34) Frásagan af því hvernig Guð umbunaði Barak fyrir trúarverk hans getur kannski hvatt okkur til athafna ef við erum hikandi við að takast á við krefjandi verkefni í þjónustu Jehóva.
Trúin stuðlar að friði
16. Hvaða gott fordæmi gaf Abraham með því að varðveita frið við Lot?
16 Trúin stuðlar að friði og ró, ekki síður en hún hjálpar okkur að takast á við erfið verkefni í þjónustu Guðs. Hinn aldraði Abraham leyfði Lot, bróðursyni sínum, að velja besta beitilandið þegar sló í brýnu milli fjárhirða þeirra og nauðsynlegt var að leiðir skildi með þeim. (1. Mósebók 13:7-12) Abraham hlýtur að hafa beðið í trú til Guðs um hjálp til að leysa þetta vandamál. Hann útkljáði deiluna friðsamlega í stað þess að hugsa fyrst og fremst um eigin hag. Ef við eigum í deilu við trúbróður skulum við biðja í trú og ‚keppa eftir friði,‘ minnug kærleika Abrahams og tillitssemi. — 1. Pétursbréf 3:10-12.
17. Hvers vegna getum við sagt að það hafi gróið um heilt með Páli, Barnabasi og Markúsi?
17 Skoðum hvernig það getur stuðlað að friði að fara eftir kristnum meginreglum í trú. Páll var í þann mund að leggja upp í aðra trúboðsferð sína og Barnabas féllst á þá tillögu hans að koma aftur við í söfnuðunum á Kýpur og í Litlu-Asíu. En Barnabas vildi taka Markús frænda sinn með. Páll var andvígur því vegna þess að Markús hafði yfirgefið þá í Pamfýlíu. Þeim varð „mjög sundurorða“ og svo fór að leiðir skildi með þeim. Barnabas tók Markús með sér til Kýpur en Páll valdi Sílas sem ferðafélaga og fór um „Sýrland og Kilikíu og styrkti söfnuðina.“ (Postulasagan 15:36-41) Ljóst er að seinna greri um heilt með Páli og Markúsi því að Markús var með honum í Róm og Páll fór lofsamlegum orðum um hann. (Kólossubréfið 4:10; Fílemonsbréfið 23, 24) Þegar Páll var fangi í Róm um árið 65 sagði hann Tímóteusi: „Tak þú Markús og lát hann koma með þér, því að hann er mér þarfur til þjónustu.“ (2. Tímóteusarbréf 4:11) Ljóst er að Páll hafði rætt í trúarbænum sínum um samband sitt við Barnabas og Markús og það stuðlaði að stillingu sem er samfara ‚friði Guðs.‘ — Filippíbréfið 4:6, 7.
18. Hvað gerðist líklega hjá Evodíu og Sýntýke?
18 En við erum ófullkomin svo að okkur öllum verður eitthvað á. (Jakobsbréfið 3:2) Það kom til árekstra milli tveggja kristinna kvenna sem Páll skrifaði um: „Evodíu áminni ég og Sýntýke áminni ég um að vera samlyndar vegna Drottins. . . . Hjálpa þú þeim, því að þær börðust með mér við boðun fagnaðarerindisins.“ (Filippíbréfið 4:1-3) Að öllum líkindum hafa þessar guðhræddu konur sett niður ágreininginn með friðsemd í samræmi við leiðbeiningarnar í Matteusi 5:23, 24. Það er góð leið til að stuðla að friði að fara eftir meginreglum Biblíunnar í trú.
Trúin veitir þolgæði
19. Hvaða erfiðleika stóðust Ísak og Rebekka án þess að trúin brysti?
19 Trúin gerir okkur einnig þolgóð í erfiðleikum. Við erum kannski miður okkar vegna þess að einhver í fjölskyldunni hefur, þótt hann sé skírður, óhlýðnast Guði og gifst vantrúuðum. (1. Korintubréf 7:39) Ísak og Rebekka tóku mikið út fyrir það að Esaú sonur þeirra skyldi velja sér óguðlegar konur. Konurnar voru Hetítar og Ísak og Rebekku var „sár skapraun“ að þeim — svo sár að Rebekka sagði: „Ég er orðin leið á lífinu vegna Hets dætra. Ef Jakob tæki sér konu slíka sem þessar eru, meðal Hets dætra, meðal hérlendra kvenna, hví skyldi ég þá lengur lifa?“ (1. Mósebók 26:34, 35; 27:46) En trú Ísaks og Rebekku brast ekki þrátt fyrir þessar raunir. Varðveitum því sterka trú ef erfiðleikar þrengja að okkur.
20. Hvernig eru Naomí og Rut góð dæmi um trú?
20 Naomí var öldruð ekkja af ætt Júda, og hún vissi að konur af ætt Júda myndu eignast syni sem yrðu forfeður Messíasar. Synir hennar dóu hins vegar barnlausir og sjálf var hún komin úr barneign þannig að það leit ekki út fyrir að hún gæti orðið liður í ætt Messíasar. En tengdadóttir hennar, ekkjan Rut, giftist rosknum manni, Bóasi, ól honum son og varð formóðir Jesú, Messíasar! (1. Mósebók 49:10, 33; Rutarbók 1:3-5; 4:13-22; Matteus 1:1, 5) Trú Naomí og Rutar stóð af sér andstreymið og varð þeim til mikillar gleði. Við uppskerum sömuleiðis mikla gleði ef við varðveitum trúna í mótlæti.
21. Hvað gerir trúin fyrir okkur og í hverju ættum við að vera staðráðin?
21 Þó að við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sínu fyrir hvert og eitt okkar getum við tekist á við hvaða erfiðleika sem er í trú. Trúin gerir okkur hugrökk og þolinmóð. Hún veitir okkur háleitustu markmið og auðgar líf okkar. Hún hefur jákvæð áhrif á samband okkar við aðra og stendur af sér mótlæti og erfiðleika. Verum því „menn trúarinnar til sáluhjálpar.“ (Hebreabréfið 10:39, Biblían 1912) Höldum áfram að iðka sterka trú í krafti Jehóva, Guðs kærleikans, og honum til dýrðar.
Hvert er svarið?
• Hvernig sýnir Biblían fram á að trú getur gert okkur hugrökk?
• Hvers vegna segjum við að trú auðgi líf okkar?
• Hvernig stuðlar trú að friði?
• Hvað sannar að trúin geri okkur kleift að standast mótlæti?
[Myndir á blaðsíðu 14]
Trúin veitti Nóa og Enok hugrekki til að boða boðskap Jehóva.
[Myndir á blaðsíðu 15]
Trú eins og Móse hafði er okkur hvöt til að keppa eftir andlegum markmiðum.
[Myndir á blaðsíðu 16]
Vissan um hjálp Guðs styrkti trú Baraks, Debóru og Gídeons.