Að lifa frjáls samkvæmt kristnu vígsluheiti
„Þar sem andi [Jehóva] er, þar er frelsi.“ — 2. KORINTUBRÉF 3:17.
1. Hverjum eru vottar Jehóva vígðir og hvers vegna nota þeir lögskráð félög?
VOTTAR JEHÓVA álíta að trú sín standi að eilífu. Þess vegna reikna þeir með að þjóna Guði „í anda og sannleika“ að eilífu. (Jóhannes 4:23, 24) Þetta eru kristnir menn með frjálsa siðferðisvitund sem hafa vígst Jehóva Guði skilyrðislaust og eru staðráðnir í að lifa eftir vígsluheiti sínu. Þeir treysta á orð Guðs og heilagan anda hans sér til hjálpar. Vottarnir sýna „yfirvöldum“ undirgefni og notfæra sér lög og rétt með viðeigandi hætti, en njóta jafnframt frelsisins sem Guð gefur þeim á kristinni lífsbraut sinni. (Rómverjabréfið 13:1; Jakobsbréfið 1:25) Til dæmis nota vottarnir Varðturnsfélagið sem lögskráð tæki — eitt af mörgum víða um lönd — til að vinna það starf sitt að hjálpa öðrum mönnum, einkum andlega. En vottarnir eru vígðir Guði, ekki einhverju lögskráðu félagi, og vígsla þeirra til Jehóva varir að eilífu.
2. Af hverju meta vottar Jehóva mikils að hafa Varðturnsfélagið og önnur lögskráð félög?
2 Sú skylda hvílir á vottum Jehóva sem vígðum þjónum Guðs að fylgja fyrirmælum Jesú um að ‚gera allar þjóðir að lærisveinum, skíra þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kenna þeim.‘ (Matteus 28:19, 20) Þessu starfi verður áfram haldið uns þetta heimskerfi líður undir lok því að Jesús sagði einnig: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:3, 14) Prentsmiðjur Varðturnsfélagsins og annarra lögskráðra félaga sjá vottum Jehóva fyrir biblíum, bókum, bæklingum og tímaritum í milljónatali ár hvert sem þeir nota í prédikun sinni um heim allan. Þessi lögskráðu félög eru því ómetanleg til að hjálpa vígðum þjónum Guðs að lifa eftir vígsluheiti sínu við hann.
3. Í hvaða skilningi notuðu vottarnir hugtakið „Félagið“ áður fyrr?
3 Sumir segja kannski að vottarnir tali þannig um Varðturnsfélagið — eða bara „Félagið“ — að greinilegt sé að þeir líti á það sem eitthvað meira en lögskráð tæki. Líta þeir ekki á það sem æðsta yfirboðara sinn í tilbeiðslumálum? Bókin Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs skýrir málið: „Þegar Varðturninn [1. júní 1938] talaði um ‚Félagið‘ átti hann ekki við lögskráð tæki heldur hóp smurðra kristinna manna sem stóðu að þessu lögskráða félagi og notuðu það.“a Orðið var því notað um ‚hinn trúa og hyggna þjón.‘ (Matteus 24:45) Það var í þessum skilningi sem vottarnir notuðu yfirleitt orðið „Félagið.“ Hið lögskráða félag og hinn „trúi og hyggni þjónn“ eru auðvitað ekki eitt og hið sama. Stjórnendur Varðturnsfélagsins eru kosnir en vottarnir, sem mynda hinn ‚trúa þjón,‘ eru smurðir heilögum anda Jehóva.
4. (a) Hvaða orðalag nota margir vottar til að fyrirbyggja misskilning? (b) Af hverju ættum við að forðast öfgar í sambandi við orðaval?
4 Til að fyrirbyggja misskilning reyna vottar Jehóva að vanda orðaval sitt. Í stað þess að segja: „Félagið kennir,“ segja margir vottar: „Biblían segir,“ eða: „Ég skil Biblíuna svo.“ Þannig leggja þeir áherslu á þá persónulegu ákvörðun hvers votts að viðurkenna kenningar Biblíunnar og forðast jafnframt að gefa þá röngu hugmynd að vottarnir séu á einhvern hátt skuldbundnir að hlíta fyrirmælum einhvers sértrúarflokks. Að sjálfsögðu ættu tillögur um orðaval aldrei að verða deiluefni. Þegar allt kemur til alls skiptir orðaval fyrst og fremst máli að því marki sem það kemur í veg fyrir misskilning. Kristið jafnvægi er nauðsynlegt. Biblían hvetur okkur til að „eiga ekki í orðastælum.“ (2. Tímóteusarbréf 2:14, 15) Ritningin setur líka fram þessa meginreglu: „Ef þér mælið ekki með tungu yðar fram skilmerkileg orð, hvernig verður það þá skilið, sem talað er?“ — 1. Korintubréf 14:9.
Andi Guðs dregur úr þörfinni á reglum
5. Hvernig ber að skilja 1. Korintubréf 10:23?
5 „Allt er leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt,“ sagði Páll postuli og bætti við: „Allt er leyfilegt, en ekki byggir allt upp.“ (1. Korintubréf 10:23) Páll átti greinilega ekki við að það væri leyfilegt að gera hluti sem orð Guðs beinlínis fordæmir. Í samanburði við hér um bil 600 lagaákvæði, sem Forn-Ísrael voru sett, eru tiltölulega fáar, beinar skipanir um líf kristinna manna. Kristnum manni er því látið eftir að ákveða margt á grundvelli samvisku sinnar. Sá sem er vígður Jehóva nýtur þess frelsis sem fylgir handleiðslu anda Guðs. Kristinn maður hefur tileinkað sér sannleikann og fylgir biblíufræddri samvisku sinni og reiðir sig á leiðsögn Guðs fyrir atbeina heilags anda. Það hjálpar vígðum kristnum manni að ákveða hvað ‚byggi upp‘ og hvað sé „gagnlegt“ fyrir sjálfan hann og aðra. Hann gerir sér ljóst að ákvarðanirnar, sem hann tekur, hafa áhrif á einkasamband hans við Guð sem hann er vígður.
6. Hvernig getum við sýnt á kristnum samkomum að við höfum tileinkað okkur sannleikann?
6 Vottur sýnir að hann hefur tileinkað sér sannleikann með því að svara á kristnum samkomum. Í fyrstu les hann svarið kannski upp úr ritinu sem verið er að fara yfir. Með tímanum tekur hann hins vegar þeim framförum að hann fer að geta lýst kenningum Biblíunnar með eigin orðum. Þannig sýnir hann að hann sé að þroska íhugunarhæfni sína, ekki aðeins að endurtaka orð annarra. Hann hefur ánægju af því að koma hugsun sinni á framfæri með eigin orðum og tala einlæg sannleiksorð og það sýnir að hann er sannfærður í huga sér. — Prédikarinn 12:10; samanber Rómverjabréfið 14:5b.
7. Hvaða ákvarðanir hafa þjónar Jehóva tekið fúslega?
7 Vottar Jehóva láta stjórnast af kærleika til Guðs og náungans. (Matteus 22:36-40) Þeir eru alþjóðlegt bræðrafélag og eru vissulega nátengdir kristilegum kærleiksböndum. (Kólossubréfið 3:14; 1. Pétursbréf 5:9) En hver og einn hefur líka beitt frjálsri siðgæðisvitund sinni og ákveðið persónulega að boða fagnaðarerindið um ríkið, vera hlutlaus í stjórnmálum, halda sér frá blóði, forðast vissar tegundir skemmtunar og lifa eftir stöðlum Biblíunnar. Þeir eru ekki þvingaðir til að taka þessar ákvarðanir. Þær eru hluti af þeim lífsvegi sem væntanlegir vottar velja af fúsu geði jafnvel áður en þeir vígjast kristinni vígslu.
Ábyrgir gagnvart stjórnandi ráði?
8. Hvaða spurningu þarf að svara?
8 Biblían sýnir greinilega fram á að sannkristnir menn eru ekki þvingaðir til að þjóna Guði. Hún segir: „[Jehóva] er andinn, og þar sem andi [Jehóva] er, þar er frelsi.“ (2. Korintubréf 3:17) En hvernig er hægt að samræma þetta hugmyndinni um ‚trúan og hygginn þjón‘ með stjórnandi ráði? — Matteus 24:45-47.
9, 10. (a) Hvernig gildir meginreglan um forystu í kristna söfnuðinum? (b) Hvað þurfti til að fylgja meginreglunni um forystu í kristna söfnuðinum á fyrstu öld?
9 Þegar við svörum þessari spurningu verðum við að hafa í huga meginreglu Biblíunnar um forystu. (1. Korintubréf 11:3) Í Efesusbréfinu 5:21-24 talaði Kristur um sig sem „höfuð safnaðarins“ en söfnuðurinn er „undirgefinn“ honum. (Biblían 1912) Vottar Jehóva vita að það eru andlegir bræður Jesú sem eru hinn trúi og hyggni þjónn. (Hebreabréfið 2:10-13) Þessi trúi þjónshópur hefur verið skipaður til þess starfs að veita fólki Guðs andlegan „mat á réttum tíma.“ Núna á endalokatímanum hefur Kristur sett þennan þjón „yfir allar eigur sínar.“ Stöðu sinnar vegna verðskuldar þjónninn því virðingu allra sem kalla sig kristna.
10 Markmið forystu er það að varðveita einingu og tryggja að „allt fari sómasamlega fram og með reglu.“ (1. Korintubréf 14:40) Á fyrstu öldinni voru nokkrir smurðir kristnir menn af trúa og hyggna þjónshópnum valdir til að vera fulltrúar alls hópsins. Eins og sannaðist síðar hafði umsjón þessa stjórnandi ráðs fyrstu aldar velþóknun og blessun Jehóva. Kristnir menn á fyrstu öld viðurkenndu þetta fyrirkomulag fúslega. Þeir fögnuðu þeim góða árangri sem það skilaði og voru þakklátir fyrir. — Postulasagan 15:1-32.
11. Hvernig ber að líta á hið stjórnandi ráð nútímans?
11 Slíkt fyrirkomulag er enn í fullu gildi. Sem stendur eiga tíu smurðir kristnir menn sæti í hinu stjórnandi ráði votta Jehóva, allir með áratuga reynslu í kristnu líferni að baki. Þeir veita vottum Jehóva andlega forystu eins og stjórnandi ráð fyrstu aldar. (Postulasagan 16:4) Vottarnir leita fúslega forystu og biblíulegrar handleiðslu þessara þroskuðu bræðra í hinu stjórnandi ráði í sambandi við tilbeiðslu sína, líkt og frumkristnir menn gerðu. Enda þótt meðlimir hins stjórnandi ráðs séu þrælar Jehóva og Krists líkt og kristnir bræður þeirra segir Biblían okkur: „Hlýðið leiðtogum yðar [„þeim sem með forystuna fara,“ NW] og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.“ — Hebreabréfið 13:17.
12. Hverjum þarf hver einstakur kristinn maður að standa reikningsskap?
12 Þarf hver einstakur vottur Jehóva að standa hinu stjórnandi ráði reikningsskap gerða sinna sökum umsjónarstöðunnar sem Biblían felur ráðinu? Ekki samkvæmt orðum Páls til kristinna manna í Róm: „Hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Allir munum vér verða að koma fram fyrir dómstól Guðs. . . . Því skal þá sérhver af oss lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.“ — Rómverjabréfið 14:10-12.
13. Af hverju gefa vottar Jehóva skýrslu um prédikunarstarf sitt?
13 En er ekki til þess ætlast að hver einstakur vottur gefi skýrslu um prédikunarstarf sitt? Jú, en tilgangurinn með því er greinilega útskýrður í einni af handbókum vottanna sem segir: „Fyrstu fylgjendur Jesú Krists höfðu áhuga á því að skýra frá framgangi prédikunarstarfsins. (Markús 6:30) Þegar starfinu vatt fram voru teknar saman talnaskýrslur ásamt frásögum af einstakri reynslu þeirra sem þátt tóku í prédikun fagnaðarerindisins. . . . (Postulasagan 2:5-11, 41, 47; 6:7; 1:15; 4:4) . . . Það var mjög hvetjandi fyrir þessa trúföstu kristnu verkamenn að fá fregnir af því sem áorkað var. . . . Á sama hátt leitast nútímaskipulag votta Jehóva við að halda nákvæmar skrár um starfið sem unnið er til uppfyllingar Matteusi 24:14.“
14, 15. (a) Hvernig á 2. Korintubréf 1:24 við hið stjórnandi ráð? (b) Á hvaða grundvelli verða kristnir menn sem einstaklingar að taka ákvarðanir og hvað viðurkenna þeir þar með?
14 Hið stjórnandi ráð er kærleiksrík ráðstöfun og fordæmi um trú sem er verð eftirbreytni. (Filippíbréfið 3:17; Hebreabréfið 13:7) Með því að halda sig við Krist og fylgja honum sem fyrirmynd geta þeir endurómað orð Páls: „Ekki svo að skilja, að vér viljum drottna yfir trú yðar, heldur erum vér samverkamenn að gleði yðar. Því að í trúnni standið þér.“ (2. Korintubréf 1:24) Hið stjórnandi ráð fylgist með gangi mála og vekur athygli á hve gagnlegt sé að fylgja ráðum Biblíunnar, kemur með tillögur um hvernig fara megi eftir lögum og meginreglum Biblíunnar, varar við leyndum hættum og veitir ‚samverkamönnum‘ nauðsynlega hvatningu. Þannig gegnir það kristinni ráðsmennsku sinni, hjálpar samþjónum sínum að halda gleði sinni og byggir þá upp í trúnni svo að þeir geti staðið traustum fótum. — 1. Korintubréf 4:1, 2; Títusarbréfið 1:7-9.
15 Ef vottur tekur ákvarðanir með hliðsjón af biblíulegum ráðleggingum frá hinu stjórnandi ráði gerir hann það sjálfviljugur af því að biblíunám hans hefur sannfært hann um að það sé rétt. Orð Guðs hvetur hvern einstakan vott til að fara eftir heilbrigðum, biblíulegum ráðleggingum hins stjórnandi ráðs, og hann gerir sér fyllilega ljóst að ákvarðanir hans hafa áhrif á persónulegt samband hans við Guð sem hann er vígður. — 1. Þessaloníkubréf 2:13.
Nemendur og hermenn
16. Af hverju eru sumir gerðir rækir úr söfnuðinum enda þótt ákvarðanir um hegðun séu persónulegt mál?
16 En af hverju er sumum vikið úr söfnuði votta Jehóva fyrst ákvarðanir um hegðun eru persónulegt mál hvers og eins? Enginn ákveður gerræðislega að það sé brottrekstrarsök að iðka einhverja ákveðna synd. Biblían krefst þessarar aðgerðar einungis ef safnaðarmaður iðkar grófar syndir, líkt og þær sem taldar eru upp í 5. kafla Fyrra Korintubréfs, og iðrast ekki. Enda þótt gera megi kristinn mann rækan úr söfnuðinum fyrir að lifa í saurlifnaði er það gert því aðeins að hann þiggi ekki andlega hjálp kærleiksríkra hirða. Vottar Jehóva eru ekki einir um að víkja mönnum úr samfélagi sínu. Alfræðibókin The Encyclopedia of Religion segir: „Sérhvert samfélag hefur þann rétt að vernda sjálft sig gegn félögum sem fylgja ekki hópnum og geta ógnað velferð annarra. Í trúarlegu samhengi hefur þessi réttur oft verið styrktur með þeirri trú að viðurlögin [bannfæring] hafi áhrif á stöðu manns frammi fyrir Guði.“
17, 18. Hvernig má lýsa því með dæmi að það sé við hæfi að víkja fólki úr söfnuðinum?
17 Vottar Jehóva eru biblíunemendur. (Jósúabók 1:8; Sálmur 1:2; Postulasagan 17:11) Líkja mætti biblíufræðslunni, sem hið stjórnandi ráð sér fyrir, við námsskrá skóla sem fræðsluráð leggur drög að. Fræðsluráðið er ekki höfundur kennsluefnisins en það gerir námsskrána, ákveður hvaða kennsluaðferð skuli beitt og gefur út nauðsynlegar leiðbeiningar. Hægt er að víkja nemanda úr skóla ef hann neitar óskammfeilinn að fylgja kröfum skólans, veldur öðrum nemendum erfiðleikum eða kallar skömm yfir skólann. Skólayfirvöld hafa þann rétt að grípa til aðgerða í þágu nemendanna í heild.
18 Auk þess að vera nemendur eru vottar Jehóva hermenn Jesú Krists og þeim er fyrirskipað að ‚berjast trúarinnar góðu baráttu.‘ (1. Tímóteusarbréf 6:12; 2. Tímóteusarbréf 2:3) Ítrekuð, óviðeigandi hegðun getur auðvitað kallað vanþóknun Guðs yfir kristinn hermann. Hann hefur frjálsan vilja og getur valið að gera hvað sem honum sýnist en hann þarf líka að taka afleiðingunum af ákvörðun sinni. Páll segir: „Enginn hermaður bendlar sig við atvinnustörf. Þá þóknast hann ekki þeim, sem hefur tekið hann á mála. Og sá sem keppir í íþróttum fær ekki sigursveiginn, nema hann keppi löglega.“ (2. Tímóteusarbréf 2:4, 5) Þroskaðir kristnir menn, þeirra á meðal þeir sem sitja í hinu stjórnandi ráði, eru leiðtoga sínum, Jesú Kristi, algerlega til reiðu og starfa „löglega“ svo að þeir geti hlotið sigurlaunin, eilíft líf. — Jóhannes 17:3; Opinberunarbókin 2:10.
19. Hvað megum við vera viss um eftir að hafa kynnt okkur staðreyndirnar í sambandi við kristna vígslu?
19 Er ekki ljóst af staðreyndum að vottar Jehóva eru þjónar Guðs, ekki þrælar manna? Þeir eru vígðir kristnir menn og njóta þess frelsis sem Kristur veitti þeim. Þeir láta anda Guðs og orð hans stjórna lífi sínu og þjóna sameinaðir með bræðrum sínum í söfnuði Guðs. (Sálmur 133:1) Sannanirnar fyrir þessu ættu líka að eyða allri óvissu um það hvaðan þeim kemur styrkur sinn. Þeir geta sungið með sálmaritaranum: „[Jehóva] er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann.“ — Sálmur 28:7.
[Neðanmáls]
a Gefin út árið 1993 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig eru Varðturnsfélagið og önnur áþekk lögskráð félög vottum Jehóva til hjálpar?
◻ Hvernig njóta vottar Jehóva góðs af starfsemi hins stjórnandi ráðs?
◻ Hvers vegna gefa þjónar Jehóva skýrslu um prédikunarstarf sitt?
◻ Undir hvaða kringumstæðum er við hæfi að víkja vígðum kristnum manni úr söfnuðinum?
[Mynd á blaðsíðu 14]
Hið stjórnandi ráð fyrstu aldar varðveitti kenningarlega einingu.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Um heim allan njóta vottar Jehóva þess frelsis sem Kristur veitti þeim.