Líktu eftir miskunn Jehóva
„Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur.“ — LÚKAS 6:36.
1. Hvernig birtist miskunnarleysi faríseanna?
ÞÓTT maðurinn sé skapaður í Guðs mynd mistekst honum oft að líkja eftir miskunn hans. (1. Mósebók 1:27) Tökum faríseana sem dæmi. Sem hópur gátu þeir alls ekki glaðst þegar Jesús sýndi þá miskunn að lækna mann með visna hönd á hvíldardegi. Þess í stað tóku þeir saman ráð sín gegn Jesú, „hvernig þeir gætu náð lífi hans.“ (Matteus 12:9-14) Öðru sinni læknaði Jesús mann sem verið hafði blindur frá fæðingu. „Nokkrir farísear“ sáu heldur enga ástæðu þá til að gleðjast yfir umhyggju hans heldur mögluðu: „Þessi maður er ekki frá Guði, fyrst hann heldur ekki hvíldardaginn.“ — Jóhannes 9:1-7, 16.
2, 3. Hvað átti Jesús við með orðunum: „Varist súrdeig farísea“?
2 Kaldlyndi faríseanna var hreinn glæpur gegn mannkyninu og synd gegn Guði. (Jóhannes 9:39-41) Það var ekki af tilefnislausu sem Jesús sagði lærisveinunum að ‚varast súrdeig‘ þessarar hefðarstéttar og annarra ofsatrúarmanna, svo sem saddudkea. (Matteus 16:6) Súrdeig er notað í Biblíunni sem tákn syndar eða spillingar. Jesús var því að benda á að kenning ‚fræðimanna og farísea‘ gæti spillt hreinni tilbeiðslu. Hvernig? Með því að kenna fólki að meta lög Guðs einungis eftir gerræðislegum reglum og helgisiðum þeirra en skeyta ekki um „það, sem mikilvægast er,“ meðal annars miskunn. (Matteus 23:23) Helgisiðatrú þeirra gerði tilbeiðsluna á Guði að óbærilegri byrði.
3 Í síðari hluta dæmisögunnar um glataða soninn afhjúpaði Jesús spilltan hugsunarhátt trúarleiðtoga Gyðinga. Faðirinn í dæmisögunni, sem táknar Jehóva, var óðfús að fyrirgefa iðrandi syni sínum. En eldri sonurinn, sem táknaði ‚farísea og fræðimenn,‘ hafði allt aðra afstöðu. — Lúkas 15:2.
Bróðirinn reiðist
4, 5. Í hvaða skilningi var bróðir glataða sonarins líka „týndur“?
4 „En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera. Hann svaraði: ‚Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.‘ Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn.“ — Lúkas 15:25-28.
5 Ljóst er að glataði sonurinn í dæmisögu Jesú var ekki sá eini sem var í vanda staddur. „Báðir synirnir, sem hér er lýst, eru týndir,“ segir uppsláttarrit, „annar vegna ranglætisins sem niðurlægir hann, hinn vegna sjálfbirgingsins sem blindar hann.“ Tökum eftir að bróðir glataða sonarins bæði neitaði að fagna og „reiddist.“ Stofn gríska orðsins, sem þýtt er ‚reiði,‘ lýsir frekar langvarandi hugarástandi en reiðikasti. Ljóst er að djúpstæð gremja sat í bróður glataða sonarins svo að honum fannst óviðeigandi að fagna heimkomu manns sem hefði aldrei átt að fara að heiman hvort eð var.
6. Hvern táknar bróðir glataða sonarins og hvers vegna?
6 Bróðir glataða sonarins táknar ágætlega þá sem gramdist meðaumkun Jesú með syndurum og athyglin sem hann sýndi þeim. Miskunn Jesú snart þessa sjálfumglöðu menn ekki hið minnsta, og þeir endurspegluðu ekki gleðina á himnum yfir syndara sem er fyrirgefið. Þeir reiddust miskunn Jesú og ‚hugsuðu illt‘ í hjörtum sér. (Matteus 9:2-4) Einhverju sinni reiddust nokkrir farísear svo að þeir boðuðu til sín mann sem Jesús hafði læknað og ‚ráku hann síðan út‘ — greinilega í þeim skilningi að þeir gerðu hann samkundurækan! (Jóhannes 9:22, 34) Trúarleiðtogar Gyðinga stungu við fótum þegar þeir höfðu tækifæri til að ‚fagna með fagnendum,‘ líkt og bróðir glataða sonarins sem „vildi ekki fara inn.“ (Rómverjabréfið 12:15) Jesús afhjúpaði illgjarnan hugsunarhátt þeirra enn frekar í dæmisögunni.
Rangur hugsunarháttur
7, 8. (a) Hvernig misskildi bróðir glataða sonarins hvað það er að vera sonur? (b) Hvernig var eldri sonurinn ólíkur föður sínum?
7 „En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: ‚Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann.‘“ — Lúkas 15:28-30.
8 Með þessum orðum sínum lét bróðir glataða sonarins í ljós að hann hefði ekki skilið hvað það er að vera sonur. Hann þjónaði föður sínum ósköp líkt og starfsmaður þjónar vinnuveitanda. Eins og hann sagði föðurnum: ‚Ég hef þjónað þér.‘ Vissulega hafði eldri sonurinn aldrei farið að heiman eða breytt út af boðum föður síns. En var hlýðni hans sprottin af kærleika? Hafði hann raunverulega yndi af því að þjóna föður sínum eða hafði hann smám saman orðið sjálfsánægður svo að hann taldi sig góðan son einfaldlega af því að hann vann skyldur sínar ‚á akrinum‘? Ef hann hefði verið fullkomlega dyggur sonur hefði hann endurspeglað hugarfar föður síns. Af hverju var engin meðaumkun í hjarta hans þegar hann fékk tækifæri til að sýna bróður sínum miskunn? — Samanber Sálm 50:20-22.
9. Útskýrðu hvernig trúarleiðtogar Gyðinga líktust eldri syninum.
9 Trúarleiðtogar Gyðinga líktust eldri syninum. Þeir trúðu að þeir væru Guði hollir af því að þeir fylgdu lagabókstafnum til hins ítrasta. Hlýðni er auðvitað nauðsynleg, en með því að leggja ofuráherslu á verk breyttu þeir tilbeiðslunni á Guði í vélrænt vanaverk, í yfirborðshollustu sem hafði ekkert andlegt inntak. (1. Samúelsbók 15:22) Hugur þeirra var gagntekinn af erfðavenjum. Hjörtun voru kærleikslaus. Þeir litu á almúgann eins og skítinn undir fótum sér og kölluðu hann ‚bölvaðan‘ með fyrirlitningu. (Jóhannes 7:49) Hvernig gat Guð verið ánægður með verk slíkra leiðtoga fyrst hjarta þeirra var langt frá honum? — Matteus 15:7, 8.
10. (a) Af hverju voru orðin: „Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir,“ viðeigandi? (b) Hve alvarlegt er miskunnarleysi?
10 Jesús sagði faríseunum að ‚fara og nema hvað þetta merkir: „Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.“‘ (Matteus 9:13; Hósea 6:6) Þeir settu ekki rétt mál á oddinn því að allar fórnir þeirra voru til einskis fyrst miskunnina vantaði. Þetta er háalvarlegt mál því að Biblían segir að „miskunnarlausir“ menn séu „dauðasekir“ í augum Guðs. (Rómverjabréfið 1:31, 32) Það kemur því ekki á óvart að Jesús skuli hafa sagt að trúarleiðtogarnir sem stétt ættu eilífa tortímingu í vændum. Ljóst er að miskunnarleysi þeirra átti ríkan þátt í því að þeir verðskulduðu þennan dóm. (Matteus 23:33) En kannski var hægt að ná til einstakra manna úr þessum hópi. Í niðurlagsorðum dæmisögunnar reynir Jesús að leiðrétta hugarfar slíkra Gyðinga með orðum föðurins við eldri soninn. Lítum nánar á það.
Föðurleg miskunn
11, 12. Hvernig reynir faðirinn í dæmisögu Jesú að rökræða við eldri soninn, og hvað kann orðalagið „bróðir þinn“ að fela í sér?
11 „Hann sagði þá við hann: ‚Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.‘“ — Lúkas 15:31, 32.
12 Taktu eftir að faðirinn segir „bróðir þinn.“ Af hverju? Eldri sonurinn hafði talað um hinn yngri sem ‚son þinn,‘ ekki ‚bróður sinn.‘ Hann virtist ekki viðurkenna bróðurböndin milli sín og hans. Faðirinn er því í reynd að segja eldri drengnum: ‚Þetta er ekki bara sonur minn. Hann er bróðir þinn, hold þitt og blóð. Þú hefur ærna ástæðu til að gleðjast yfir heimkomu hans.‘ Boðskapur Jesú hefði átt að vera skýr fyrir leiðtogum Gyðinga. Syndararnir, sem þeir fyrirlitu, voru í rauninni ‚bræður‘ þeirra. Sannleikurinn er sá að „enginn réttlátur maður er til á jörðinni, er gjört hafi gott eitt og aldrei syndgað.“ (Prédikarinn 7:20) Framámenn Gyðinga höfðu því fullt tilefni til að fagna þegar syndarar gerðu iðrun.
13. Hvaða alvarlegar spurningar sitja eftir vegna þess hve endaslepp dæmisaga Jesú er?
13 Dæmisagan endar skyndilega með beiðni föðurins. Það er engu líkara en Jesús sé að hvetja áheyrendur til að ljúka sögunni sjálfir. Hver sem viðbrögð eldri sonarins voru stóð hver einasti áheyrandi frammi fyrir spurningunni: ‚Átt þú hlutdeild í gleðinni á himnum þegar syndari iðrast?‘ Nú á tímum hafa kristnir menn einnig tækifæri til að sýna hvernig þeir svari spurningunni. Hvernig?
Að líkja eftir miskunn Guðs núna
14. (a) Hvernig getum við heimfært ráð Páls í Efesusbréfinu 5:1 á miskunn? (b) Hvaða misskilning í sambandi við miskunn Guðs þurfum við að varast?
14 Páll hvatti Efesusmenn: „Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.“ (Efesusbréfið 5:1) Við sem erum kristin ættum því að vera þakklát fyrir miskunn Guðs, gróðursetja hana djúpt í hjarta okkar og sýna hana svo í samskiptum við aðra. En aðgátar er þörf. Það má ekki mistúlka miskunn Guðs og gera lítið úr alvöru syndar. Sumir gætu hugsað með sér í hálfkæringi: ‚Ef ég syndga get ég alltaf beðið Guð um fyrirgefningu og hann miskunnar mér.‘ Slíkt hugarfar myndi jaðra við það sem biblíuritarinn Júdas kallar að „misnota náð Guðs vors til taumleysis.“ (Júdasarbréfið 4) Þótt Jehóva sé miskunnsamur lætur hann iðrunarlausum syndurum „eigi með öllu óhegnt.“ — 2. Mósebók 34:7; samanber Jósúabók 24:19; 1. Jóhannesarbréf 5:16.
15. (a) Af hverju þurfa öldungarnir sérstaklega að hafa öfgalausa afstöðu til miskunnar? (b) Hvað ættu öldungarnir að leitast við að gera og hvers vegna, þótt þeir umberi ekki vísvitandi ranga breytni?
15 En við þurfum að vera jafngætin að varast hinar öfgarnar — tilhneiginguna til að verða ströng og dómhörð gagnvart þeim sem sýna sanna iðrun vegna synda sinna og hryggjast Guði að skapi. (2. Korintubréf 7:11) Þar eð öldungunum er treyst fyrir sauðum Jehóva þurfa þeir að vera öfgalausir í þessu efni, einkum þegar þeir sinna dómsmálum. Kristni söfnuðurinn verður að vera hreinn og það er biblíulega rétt að ‚útrýma hinum vonda‘ með brottrekstri. (1. Korintubréf 5:11-13) Jafnframt er rétt að sýna miskunn þegar greinilegt tilefni er til. Enda þótt öldungarnir umberi ekki vísvitandi ranga breytni leitast þeir við að vera kærleiksríkir og miskunnsamir innan ramma réttvísinnar. Þeir hafa þessa meginreglu Biblíunnar alltaf í huga: „Dómurinn verður miskunnarlaus þeim, sem ekki auðsýndi miskunn, en miskunnsemin gengur sigri hrósandi að dómi.“ — Jakobsbréfið 2:13; Orðskviðirnir 19:17; Matteus 5:7.
16. (a) Notaðu Biblíuna til að sýna fram á hve innilega Jehóva þráir að villuráfandi menn snúi aftur til sín. (b) Hvernig getum við sýnt fram á að við tökum iðrunarfullum syndurum líka opnum örmum?
16 Dæmisagan um glataða soninn sýnir greinilega að Jehóva langar til að þeir sem villast af leið snúi aftur til sín. Hann býður þeim að gera það uns þeir sýna að þeim er ekki viðbjargandi. (Esekíel 33:11; Malakí 3:7; Rómverjabréfið 2:4, 5; 2. Pétursbréf 3:9) Líkt og faðir glataða sonarins virðir Jehóva sæmd þeirra sem snúa aftur og viðurkennir þá sem fullgilda fjölskyldumeðlimi. Líkir þú eftir Jehóva að þessu leyti? Hvernig bregstu við þegar trúbróðir, sem var brottrækur, er tekinn inn í söfnuðinn aftur? Við vitum að það ríkir „fögnuður á himni.“ (Lúkas 15:7) En er fögnuður á jörð, í söfnuðinum þínum og í hjarta þér? Eða leynist einhver gremja þar eins og hjá eldri syninum í dæmisögunni, rétt eins og sá sem átti aldrei að yfirgefa hjörð Guðs verðskuldi ekki hlýjar móttökur þegar hann snýr aftur?
17. (a) Hvaða ástand þróaðist í Korintu á fyrstu öld og hvernig ráðlagði Páll safnaðarmönnum að taka á málinu? (b) Af hverju var áminning Páls raunhæf og hvernig getum við farið eftir henni núna? (Sjá einnig rammagrein til hægri.)
17 Til að kanna hug okkar í þessu efni skulum við skoða það sem gerðist í Korintu um árið 55. Þar hafði manni verið vikið úr söfnuðinum en hann gerði síðar bragarbót á lífi sínu. Hvað áttu bræðurnir að gera? Áttu þeir að vera tortryggnir á iðrun hans og halda áfram að sniðganga hann? Páll hvatti Korintumenn til hins gagnstæða: „Því ættuð þér nú öllu heldur að fyrirgefa honum og hugga hann til þess að hann sökkvi ekki niður í allt of mikla hryggð. Þess vegna bið ég yður að sýna honum kærleika í reynd.“ (2. Korintubréf 2:7, 8) Smánarkennd og örvænting sækir oft á iðrunarfulla syndara. Þeir þurfa að fá vissu fyrir því að trúbræðrum þeirra og Jehóva þyki vænt um þá. (Jeremía 31:3; Rómverjabréfið 1:12) Það er mjög mikilvægt. Af hverju?
18, 19. (a) Hvernig höfðu Korintumenn sýnt of mikla linkind áður? (b) Hvernig gat miskunnarleysi orðið til þess að Korintumenn yrðu „vélaðir af Satan“?
18 Þegar Páll hvatti Korintumenn til að fyrirgefa var ein ástæðan sú að „vér yrðum ekki vélaðir af Satan, því að ekki er oss ókunnugt um vélráð hans.“ (2. Korintubréf 2:11) Hvað átti hann við? Páll var áður búinn að ávíta Korintusöfnuðinn fyrir linkind. Þessum sama manni hafði verið leyft að stunda synd sína án refsingar. Þar með hafði söfnuðurinn — öldungarnir þó sérstaklega — gengið rakleiðis í gildru Satans sem vildi svo gjarnan koma óorði á söfnuðinn. — 1. Korintubréf 5:1-5.
19 Ef söfnuðurinn hefði nú sveiflast út í hinar öfgarnar og neitað að fyrirgefa þessum iðrunarfulla manni hefði Satan vélað söfnuðinn í aðra átt. Hvernig? Þá hefði hann getað notfært sér harðneskju og miskunnarleysi safnaðarins. Ef hinn iðrandi syndari hefði ‚sokkið niður í allt of mikla hryggð‘ — eða eins og biblíuþýðingin Today’s English Version kemst að orði, ‚hryggst svo að hann hefði gefist alveg upp‘ — þá hefði alvarleg ábyrgð hvílt á öldungunum frammi fyrir Jehóva. (Samanber Esekíel 34:6; Jakobsbréfið 3:1) Það var af ærnu tilefni sem Jesús sagði þegar hann hafði varað fylgjendur sína við að hneyksla „einn af þessum smælingjum“: „Hafið gát á sjálfum yður. Ef bróðir þinn syndgar, þá ávíta hann, og ef hann iðrast, þá fyrirgef honum.“a — Lúkas 17:1-4.
20. Á hvaða hátt ríkir fögnuður bæði á himni og jörð þegar syndari iðrast?
20 Þær þúsundir, sem snúa aftur til hreinnar tilbeiðslu ár hvert, eru þakklátar fyrir miskunn Jehóva í sinn garð. „Ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma á ævinni verið svona ánægð með nokkuð,“ sagði kristin systir eftir að hún var tekin aftur inn í söfnuðinn. Englarnir enduróma auðvitað gleði hennar. Megum við líka taka undir ‚fögnuðinn á himnum‘ sem verður þegar syndari iðrast. (Lúkas 15:7) Þá líkjum við eftir miskunn Jehóva.
[Neðanmáls]
a Þótt syndarinn í Korintu virðist hafa verið tekinn inn í söfnuðinn aftur eftir tiltölulega skamman tíma er það ekki mælikvarði á öll önnur brottrekstrartilvik. Engin tvö tilfelli eru eins. Sumir syndarar byrja að sýna ósvikna iðrun nánast um leið og þeim er vikið úr söfnuðinum. Hjá öðrum líður talsverður tími uns slíkt hugarfar kemur í ljós. En í öllum tilvikum verða þeir sem teknir eru aftur inn í söfnuðinn fyrst að sýna merki þess að þeir hryggist Guði að skapi, og sé þess kostur þarf það að koma fram í verkum samboðnum iðruninni. — Postulasagan 26:20; 2. Korintubréf 7:11.
Til upprifjunar
◻ Hvernig líktist bróðir glataða sonarins trúarleiðtogum Gyðinga?
◻ Hvernig misskildi bróðir glataða sonarins hvað það er að vera sonur?
◻ Hvaða tvennar öfgar þurfum við að forðast í sambandi við miskunn Guðs?
◻ Hvernig getum við líkt eftir miskunn Guðs?
[Rammi á blaðsíðu 17]
‚SÝNIÐ HONUM KÆRLEIKA Í REYND‘
Páll sagði Korintusöfnuðinum um brottræka manninn sem sýnt hafði iðrun: „Ég [bið] yður að sýna honum kærleika í reynd.“ (2. Korintubréf 2:8) Gríska orðið, sem hér er þýtt ‚sýna í reynd,‘ merkir á lagamáli að „fullgilda.“ Iðrunarfullt fólk, sem tekið er inn í söfnuðinn aftur, þarf að finna að það sé elskað og velkomið aftur sem safnaðarmenn.
Við verðum samt að muna að flestir safnaðarmenn vita ekki hvaða aðstæður leiddu til þess að einstaklingnum var vikið úr söfnuðinum eða hann var tekinn inn í hann aftur. Og verið getur að syndir hins iðrunarfulla hafi haft bein áhrif á einhverja í söfnuðinum eða sært þá — jafnvel djúpt. Taka þarf tillit til slíks þegar tilkynnt er að hann hafi verið tekinn inn í söfnuðinn á ný og bíða með að bjóða hann velkominn uns við getum gert það hvert fyrir sig.
Það er trústyrkjandi fyrir þá sem teknir eru inn í kristna söfnuðinn aftur að safnaðarmenn skuli taka þeim opnum örmum. Við getum uppörvað þá með því að spjalla við þá og njóta félagsskapar þeirra í ríkissalnum, boðunarstarfinu og við önnur viðeigandi tækifæri. En þótt við sýnum þeim kærleika okkar í reynd með þessum hætti erum við alls ekki að gera lítið úr þeim syndum sem þeir kunna að hafa drýgt, heldur erum við, ásamt hersveitunum á himnum, að gleðjast yfir því að þeir skuli hafa sagt skilið við synduga breytni sína og snúið aftur til Jehóva. — Lúkas 15:7.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Eldri sonurinn neitaði að fagna heimkomu bróður síns.