KAFLI 57
Hvað geturðu gert ef þú drýgir alvarlega synd?
Þó að þú elskir Jehóva heitt og leggir þig fram um að gera ekkert sem særir hann verða þér stundum á mistök. En sumar syndir eru alvarlegri en aðrar. (1. Korintubréf 6:9, 10) Ef þér verður á að drýgja alvarlega synd skaltu muna að Jehóva er ekki hættur að elska þig. Hann er fús til að fyrirgefa þér og hjálpa þér.
1. Hvað þurfum við að gera til að Jehóva fyrirgefi okkur?
Þeim sem elska Jehóva þykir það mjög leitt þegar þeim verður ljóst að þeir hafa drýgt alvarlega synd. En þeir fá hughreystingu í þessu loforði Jehóva: „Þó að syndir ykkar séu skarlatsrauðar skulu þær verða hvítar sem snjór.“ (Jesaja 1:18) Ef við iðrumst einlæglega fyrirgefur Jehóva okkur að fullu. Hvað felur iðrun í sér? Við sjáum virkilega eftir mistökum okkar, hættum að gera það sem er rangt og sárbænum Jehóva að fyrirgefa okkur. Síðan leggjum við hart að okkur að breyta röngu hugarfari eða venjum sem urðu til þess að við syndguðum og reynum að lifa eftir siðferðisreglum Jehóva. – Lestu Jesaja 55:6, 7.
2. Hvernig notar Jehóva öldungana til að hjálpa okkur þegar við syndgum?
Jehóva segir okkur að ‚kalla til okkar öldunga safnaðarins‘ ef við drýgjum alvarlega synd. (Lestu Jakobsbréfið 5:14, 15.) Öldungarnir elska Jehóva og sauði hans. Þeir vita hvernig þeir eiga að hjálpa okkur að endurheimta gott samband við Jehóva. – Galatabréfið 6:1.
Hvernig hjálpa öldungarnir okkur ef við drýgjum alvarlega synd? Tveir eða þrír öldungar nota leiðbeiningar úr Biblíunni til að leiðrétta okkur. Þeir gefa okkur líka hagnýt ráð og hvatningu til að hjálpa okkur að falla ekki aftur í sama farið. Ef einhver drýgir alvarlega synd og iðrast ekki vísa öldungarnir honum úr söfnuðinum svo að hann hafi ekki slæm áhrif á aðra.
KAFAÐU DÝPRA
Dýpkaðu skilning þinn og þakklæti fyrir það hvernig Jehóva hjálpar okkur ef okkur verður á að drýgja alvarlega synd.
3. Það er okkur til góðs að viðurkenna synd okkar
Við særum Jehóva þegar við syndgum. Þess vegna er rétt að við viðurkennum syndir okkar fyrir honum. Lesið Sálm 32:1–5 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvers vegna er betra fyrir okkur að játa syndir okkar fyrir Jehóva heldur en að reyna að leyna þeim?
Þegar við leitum hjálpar öldunganna auk þess að viðurkenna syndir okkar fyrir Jehóva líður okkur betur. Spilið MYNDBANDIÐ og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvernig hjálpuðu öldungar Canon að snúa aftur til Jehóva?
Við verðum að vera hreinskilin við öldungana. Þeir vilja hjálpa okkur. Lesið Jakobsbréfið 5:16 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvers vegna er auðveldara fyrir öldungana að hjálpa okkur ef við erum hreinskilin við þá?
4. Jehóva sýnir syndurum miskunn
Þeim sem drýgir alvarlega synd og neitar að fylgja siðferðisreglum Jehóva er vísað úr söfnuðinum og við eigum ekki félagsskap við hann. Lesið 1. Korintubréf 5:6, 11 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Súrdeig gerjar brauðdeig. Hvernig hefði það á svipaðan hátt áhrif á allan söfnuðinn að eiga félagsskap við iðrunarlausan syndara?
Öldungar líkja eftir miskunn Jehóva gagnvart ófullkomnum syndurum og leitast við að hjálpa þeim sem hefur verið vísað úr söfnuðinum. Margir hafa komið til baka vegna þess að aginn fékk þá til að ná áttum þó að hann hafi verið sársaukafullur. – Sálmur 141:5.
Hvernig sést að Jehóva er sanngjarn, miskunnsamur og kærleiksríkur á því hvernig hann kemur fram við syndara?
5. Jehóva fyrirgefur okkur þegar við iðrumst
Jesús sagði dæmisögu sem hjálpar okkur að skilja hvernig Jehóva líður þegar einhver iðrast. Lesið Lúkas 15:1–7 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvað segir þetta þér um Jehóva?
Lesið Esekíel 33:11 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvað er mikilvægt að gera til að sýna að við iðrumst í einlægni?
SUMIR SEGJA: „Ég er hræddur um að mér verði vísað úr söfnuðinum ef ég segi öldungunum frá því sem ég gerði.“
Hvernig myndir þú svara því?
SAMANTEKT
Jehóva fyrirgefur okkur þó að við drýgjum alvarlega synd ef við iðrumst í einlægni og erum ákveðin í að hætta að gera það sem er rangt.
Upprifjun
Hvers vegna er gott fyrir okkur að játa syndir okkar fyrir Jehóva?
Hvað þurfum við að gera til að Jehóva fyrirgefi okkur?
Hvers vegna ættum við að leita hjálpar öldunganna ef okkur verður á að drýgja alvarlega synd?
KANNAÐU
Sjáðu hvernig maður nokkur kynntist miskunn Jehóva eins og henni er lýst í Jesaja 1:18.
Hvernig reyna öldungarnir að hjálpa þeim sem drýgja alvarlega synd?
„Að sýna þeim sem syndga kærleika og miskunn“ (Varðturninn ágúst 2024)
Sjáðu hvernig iðrunarlausum syndurum er sýndur kærleikur og miskunn.
„Hjálp handa þeim sem er vísað úr söfnuðinum“ (Varðturninn ágúst 2024)
Lestu söguna „Ég varð að snúa aftur til Jehóva“ til að komast að því hvers vegna manni sem lenti á villigötum fannst Jehóva draga sig til sín aftur.