Jehóva, Guð sem er „fús til að fyrirgefa“
„Þú, [Jehóva], ert góður og fús til að fyrirgefa.“ — SÁLMUR 86:5.
1. Hvaða þunga byrði þurfti Davíð konungur að bera og hvernig gat hann linað kvöl hjarta síns?
DAVÍÐ konungur í Forn-Ísrael vissi mætavel hve þungbær slæm samviska getur verið. Hann skrifaði: „Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar. Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans.“ (Sálmur 38:5, 9) En Davíð gat linað kvöl hjarta síns. Hann vissi að Jehóva hatar ekki syndara þótt hann hati syndina — ef syndarinn iðrast í sannleika og snýr baki við syndugri stefnu sinni. (Sálmur 32:5; 103:3) Davíð treysti fullkomlega að Jehóva vildi miskunna iðrunarfullum mönnum og sagði: „Þú, [Jehóva], ert góður og fús til að fyrirgefa.“ — Sálmur 86:5.
2, 3. (a) Hvaða byrði getum við þurft að bera þegar við syndgum og hvers vegna er það til góðs? (b) Hvaða hætta er á því að ‚sökkva niður‘ í sektarkennd? (c) Hvernig fullvissar Biblían okkur um fyrirgefningarvilja Jehóva?
2 Þegar við syndgum getur samviskubitið verið þjakandi. Slíkt samviskubit er eðlilegt og jafnvel gagnlegt. Það getur knúið okkur til að gera eitthvað til að bæta fyrir mistök okkar. En stundum getur sektarkenndin yfirbugað kristinn mann. Hjartað fordæmir hann svo að honum finnst Guð aldrei munu fyrirgefa sér að fullu, hve djúp sem iðrunin væri. „Það er hræðilegt að hafa á tilfinningunni að Jehóva elski mann ekki lengur,“ segir systir nokkur er hún horfir um öxl til mistaka sem henni urðu á. Jafnvel eftir að hún iðraðist og þáði gagnleg ráð safnaðaröldunga fannst henni hún óverðug fyrirgefningar Guðs. „Það líður ekki sá dagur að ég biðji Jehóva ekki fyrirgefningar,“ segir hún. Ef við ‚sökkvum niður‘ í sektarkennd getur Satan reynt að fá okkur til að gefast upp, að finnast við óverðug þess að þjóna Jehóva. — 2. Korintubréf 2:5-7, 11.
3 En Jehóva lítur málið allt öðrum augum. Orð hans fullvissar okkur um að hann sé fús, já, reiðubúinn að fyrirgefa ef við iðrumst af hjartans einlægni. (Orðskviðirnir 28:13) Ef þér hefur einhvern tíma fundist að Guð gæti alls ekki fyrirgefið þér, þá þarftu kannski að átta þig betur á því hvers vegna og hvernig hann fyrirgefur.
Af hverju er Jehóva „fús til að fyrirgefa“?
4. Hvers minnist Jehóva í sambandi við eðli okkar og hvaða áhrif hefur það á framkomu hans við okkur?
4 Við lesum: „Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss. Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir [Jehóva] sýnt miskunn þeim er óttast hann.“ Af hverju er Jehóva fús til að sýna miskunn? Versið á eftir svarar: „Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ (Sálmur 103:12-14) Já, Jehóva gleymir ekki að við erum mynduð úr mold og höfum ýmsa veikleika sökum ófullkomleika okkar. Orðin „eðli vort“ minna okkur á að Biblían líkir Jehóva við leirkerasmið og okkur við ker sem hann býr til.a (Jeremía 18:2-6) Leirkerasmiður tekur fast en þó blíðlega á leirkerum sínum, minnugur þess hvers eðlis þau eru. Jehóva, leirkerasmiðurinn mikli, tekur líka hóflega fast á okkur af því að hann veit hve brothætt við erum og syndug að eðlisfari. — Samanber 2. Korintubréf 4:7.
5. Hvernig lýsir Rómverjabréfið sterkum tökum syndarinnar á föllnu holdi okkar?
5 Jehóva skilur mátt syndarinnar. Ritningin líkir syndinni við sterkt afl sem heldur manninum í helgreip sinni. Hversu sterk eru tök syndarinnar eiginlega? Páll postuli lýsir því með myndrænu máli í Rómverjabréfinu: Við erum „undir synd“ eins og hermenn undir stjórn liðsforingja (Rómverjabréfið 3:9); hún hefur ‚ríkt‘ yfir mannkyninu eins og konungur (Rómverjabréfið 5:21); hún „býr“ í okkur (Rómverjabréfið 7:17, 20); „lögmál“ hennar starfar stöðugt í okkur og reynir að ráða stefnu okkar. (Rómverjabréfið 7:23, 25) Það er erfið barátta að standa gegn sterku taki syndarinnar á föllnu holdi okkar. — Rómverjabréfið 7:21, 24.
6. Hvernig lítur Jehóva á þá sem leita miskunnar hans með iðrunarfullu hjarta?
6 Okkar miskunnsami Guð veit því að við getum ekki hlýtt honum fullkomlega, hversu mjög sem við þráum það í hjörtum okkar. (1. Konungabók 8:46) Hann fullvissar okkur hlýlega um að hann fyrirgefi okkur þegar við leitum föðurlegrar miskunnar hans með iðrunarfullu hjarta. Sálmaritarinn Davíð sagði: „Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.“ (Sálmur 51:19) Jehóva hafnar aldrei né vísar á bug hjarta sem er sundurmarið og sundurkramið af sektarkennd. Þetta er fögur lýsing á fyrirgefningarvilja Jehóva.
7. Af hverju megum við ekki misnota okkur miskunn Guðs?
7 En þýðir þetta að við getum misnotað miskunn Guðs og notað syndugt eðli okkar sem afsökun fyrir því að syndga? Engan veginn. Jehóva stjórnast ekki af tilfinningum einum saman. Miskunn hans á sér takmörk. Hann fyrirgefur alls ekki þeim sem stunda synd af ásettu ráði, illum hug og hörðu hjarta og iðrast einskis. (Hebreabréfið 10:26-31) Hann er hins vegar „fús til að fyrirgefa“ þegar hann sér „sundurmarið og sundurkramið hjarta.“ (Orðskviðirnir 17:3) Við skulum skoða hið áhrifamikla orðfæri sem notað er í Biblíunni til að lýsa því hve alger fyrirgefning Guðs er.
Hve alger er fyrirgefning Jehóva?
8. Hvað gerir Jehóva í reynd þegar hann fyrirgefur syndir okkar og hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?
8 Davíð konungur sagði iðrunarfullur: „Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: ‚Ég vil játa afbrot mín fyrir [Jehóva],‘ og þú fyrirgafst syndasekt mína.“ (Sálmur 32:5) Orðið „fyrirgafst“ er þýðing á hebresku orði sem merkir að „lyfta upp,“ „bera.“ Hér er það notað í merkingunni ‚að taka burt sekt, synd, afbrot.‘ Jehóva lyfti syndum Davíðs af honum og bar þær burt ef svo má segja. (Samanber 3. Mósebók 16:20-22.) Þetta hefur eflaust dregið úr sektarkenndinni sem hafði hvílt á Davíð. (Samanber Sálm 32:3.) Við getum líka treyst fullkomlega á Guð sem fyrirgefur syndir þeirra er leita fyrirgefningar hans vegna trúar sinnar á lausnarfórn Jesú Krists. (Matteus 20:28; samanber Jesaja 53:12.) Þegar Jehóva lyftir syndinni af mönnum og ber hana burt þurfa þeir ekki lengur að burðast með sektarkennd vegna fyrri synda.
9. Hvað merkja orð Jesú: „Fyrirgef oss vorar skuldir“?
9 Jesús notaði samband skuldara og lánardrottna sem dæmi til að lýsa því hvernig Jehóva fyrirgefur. Til dæmis hvatti hann okkur til að biðja: „Fyrirgef oss vorar skuldir.“ (Matteus 6:12) Þannig líkti hann ‚syndum‘ við „skuldir.“ (Lúkas 11:4) Þegar við syndgum verðum við ‚skuldunautar‘ Jehóva. Gríska sögnin, sem þýdd er ‚fyrirgefa,‘ merkir „að sleppa, gefa upp skuld með því að krefjast ekki greiðslu.“ Þegar Jehóva fyrirgefur er hann í vissum skilningi að fella niður skuldina sem annars yrði færð okkur til reiknings. Iðrunarfullir syndarar geta því látið huggast. Jehóva krefst aldrei greiðslu fyrir skuld sem hann hefur fellt niður! — Sálmur 32:1, 2; samanber Matteus 18:23-35.
10, 11. (a) Hvaða mynd er verið að draga upp með orðunum „verði afmáðar“ í Postulasögunni 3:19? (b) Hvernig er því lýst hve alger fyrirgefning Jehóva sé?
10 Í Postulasögunni 3:19 notar Biblían annað myndmál til að lýsa fyrirgefningu Guðs: „Gjörið því iðrun og snúið yður, að syndir yðar verði afmáðar.“ Orðin „verði afmáðar“ eru þýðing grískrar sagnar sem getur á myndmáli merkt „að þurrka út, má út, ógilda eða eyðileggja.“ Að sögn sumra fræðimanna er dregin upp sú mynd að verið sé að stroka út skrift. Hvernig var það gert? Blek til forna var að jafnaði blanda af kolefni, límkvoðu og vatni. Með rökum svampi var hægt að þurrka út skrift með þessu bleki rétt eftir að skrifað var.
11 Hér er dregin upp fögur mynd af því hve alger fyrirgefning Jehóva er. Þegar hann fyrirgefur syndir okkar er eins og hann taki svamp og þurrki þær út. Við þurfum ekki að óttast að Jehóva erfi þessar syndir við okkur í framtíðinni því að Biblían upplýsir okkur um annað sem er einstakt við miskunn hans: Hann gleymir um leið og hann fyrirgefur!
‚Ég mun ekki framar minnast syndar þeirra‘
12. Þegar Biblían segir að Jehóva gleymi syndum okkar, er þá átt við að hann geti ekki munað eftir þeim? Skýrðu svarið.
12 Fyrir munn spámannsins Jeremía hét Jehóva eftirfarandi um þá sem aðild áttu að nýja sáttmálanum: „Ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra.“ (Jeremía 31:34) Merkir þetta að Jehóva muni alls ekki eftir syndunum eftir að hann fyrirgefur? Það getur varla verið. Biblían segir frá syndum margra sem Jehóva fyrirgaf, þeirra á meðal Davíðs. (2. Samúelsbók 11:1-17; 12:1-13) Jehóva veit auðvitað enn af syndunum sem þeir drýgðu og það ættum við líka að gera. Frásagan af syndum þeirra og einnig iðrun og fyrirgefningu Guðs er skráð okkur til gagns. (Rómverjabréfið 15:4) Hvað á Biblían þá við þegar hún segir að Jehóva ‚minnist‘ ekki lengur synda þeirra sem hann fyrirgefur?
13. (a) Hvað er fólgið í hebreska sagnorðinu sem þýtt er ‚ég mun minnast‘? (b) Hvað er Jehóva að fullvissa okkur um þegar hann segir: „Ég mun . . . ekki framar minnast syndar þeirra“?
13 Hebreska sagnorðið, sem þýtt er ‚ég mun minnast,‘ felur fleira í sér en aðeins að muna liðna atburði. Samkvæmt orðabókinni Theological Wordbook of the Old Testament felur það auk þess í sér „að grípa til viðeigandi aðgerða.“ Í þessum skilningi merkir sögnin að „minnast“ syndar að grípa til aðgerða gegn syndurum. Þegar spámaðurinn Hósea sagði um einþykka Ísraelsmenn: „Hann [Jehóva] minnist misgjörðar þeirra,“ átti spámaðurinn við að Jehóva gripi til aðgerða gegn þeim af því að þeir iðruðust ekki. Þess vegna er bætt við í síðari hluta versins: „Hann vitjar synda þeirra.“ (Hósea 9:9) Þegar Jehóva segir: „Ég mun . . . ekki framar minnast syndar þeirra,“ er hann hins vegar að fullvissa okkur um að þegar hann hefur fyrirgefið iðrunarfullum syndara grípur hann ekki til aðgerða gegn honum einhvern tíma síðar fyrir þessar syndir. (Esekíel 18:21, 22) Hann gleymir því í þeim skilningi að hann minnir okkur ekki á syndir okkar aftur og aftur til að ásaka okkur eða refsa margsinnis. Þar með setur Jehóva okkur afbragðsfordæmi til að líkja eftir í samskiptum við aðra. Ef til ágreinings kemur er best að vera ekki að grafa upp gamlar ávirðingar sem búið var áður að fallast á að fyrirgefa.
Hvað um afleiðingarnar?
14. Af hverju merkir fyrirgefning ekki að iðrunarfullur syndari sé undanþeginn öllum afleiðingum rangrar breytni sinnar?
14 Hefur fyrirgefningarvilji Jehóva í för með sér að iðrunarfullur syndari sleppi við allar afleiðingar rangrar breytni sinnar? Nei, við getum ekki syndgað án þess að það komi okkur í koll. Páll skrifaði: „Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ (Galatabréfið 6:7) Við getum fundið fyrir vissum afleiðingum verka okkar eða lent í erfiðleikum, en eftir að Jehóva hefur fyrirgefið kallar hann enga ógæfu yfir okkur. Þegar kristinn maður lendir í erfiðleikum ætti hann ekki að láta sér finnast að Jehóva sé kannski að refsa honum fyrir gamlar syndir. (Samanber Jakobsbréfið 1:13.) Hins vegar hlífir Jehóva okkur ekki við öllum afleiðingum rangra verka okkar. Skilnaður, óæskileg þungun, samræðissjúkdómar, missir trausts eða virðingar — synd getur haft þessar dapurlegu afleiðingar og Jehóva hlífir okkur ekki við þeim. Mundu að jafnvel þótt hann fyrirgæfi Davíð syndirnar í sambandi við Batsebu og Úría hlífði hann honum ekki við átakanlegum afleiðingum þeirra. — 2. Samúelsbók 12:9-14.
15, 16. Hvernig voru ákvæðin í 3. Mósebók 6:1-7 bæði fórnarlambi og syndara til gagns?
15 Syndir okkar geta líka haft aðrar afleiðingar. Tökum frásöguna í 6. kafla 3. Mósebókar sem dæmi. Þar er að finna ákvæði Móselaganna um mann sem drýgir alvarlega synd með því að ræna eigum annars Ísraelsmanns eða ná þeim af honum með ofríki eða svikum. Syndarinn neitar síðan sekt sinni og er jafnvel svo ósvífinn að sverja rangan eið. Þar stendur staðhæfing gegn staðhæfingu. En síðar slær samviskan syndarann og hann játar synd sína. Til að hljóta fyrirgefningu Guðs þarf hann að gera þrennt til viðbótar: skila eða endurgreiða það sem hann tók, greiða fórnarlambinu fimmtung andvirðisins í sekt og færa hrút að sektarfórn. Síðan segir lögmálið: „Og presturinn skal friðþægja fyrir hann frammi fyrir [Jehóva], og honum mun fyrirgefið verða.“ — 3. Mósebók 6:1-7; samanber Matteus 5:23, 24.
16 Þetta ákvæði bar vott um miskunn Guðs. Fórnarlambið naut góðs af þegar eigninni var skilað og leið eflaust betur þegar hinn brotlegi játaði loks synd sína. Það var einnig til góðs þeim manni sem samviskan knúði loks til að játa sekt sína og bæta fyrir brot sitt. Ef hann hefði neitað að gera það hefði Guð ekki fyrirgefið honum.
17. Hvað ætlast Jehóva til að við gerum þegar syndir okkar hafa sært aðra eða valdið þeim tjóni?
17 Enda þótt við séum ekki undir Móselögunum veita þau okkur verðmæta innsýn í huga Jehóva, þar á meðal viðhorf hans til fyrirgefningar. (Kólossubréfið 2:13, 14) Þegar við höfum sært aðra eða valdið þeim tjóni með syndum okkar gleðst Jehóva yfir því að við gerum það sem við getum til að bæta fyrir hið ranga. (2. Korintubréf 7:11) Það felur í sér að viðurkenna synd okkar, játa sekt okkar og jafnvel biðja fórnarlambið afsökunar. Þá getum við beðið til Jehóva á grundvelli fórnar Jesú og fengið hreina samvisku og þá vissu að hann hafi fyrirgefið okkur. — Hebreabréfið 10:21, 22.
18. Hvaða ögun getur fylgt fyrirgefningu Jehóva?
18 Líkt og ástríkur faðir getur Jehóva látið einhverja ögun fylgja fyrirgefningu sinni. (Orðskviðirnir 3:11, 12) Iðrunarfullur kristinn maður getur þurft að afsala sér þjónustusérréttindum sem öldungur, safnaðarþjónn eða brautryðjandi. Það getur verið sársaukafullt fyrir hann að missa um tíma þau sérréttindi sem voru honum kær. En slíkur agi þýðir ekki að hann hafi misst velþóknun Jehóva eða að Jehóva hafi ekki fyrirgefið honum. Auk þess verðum við að muna að agi Jehóva er sönnun um kærleika hans til okkar. Það er okkur fyrir bestu að taka við honum og læra af honum því að það getur leitt til eilífs lífs. — Hebreabréfið 12:5-11.
19, 20. (a) Af hverju ættirðu ekki að halda að miskunn Jehóva nái ekki til þín ef þú hefur syndgað? (b) Hvað er fjallað um í næstu grein?
19 Það er hressandi að vita að við þjónum Guði sem er „fús til að fyrirgefa.“ Jehóva sér fleira en syndir okkar og mistök. (Sálmur 130:3, 4) Hann veit hvað býr í hjörtum okkar. Ef þér finnst hjarta þitt sundurkramið vegna fyrri synda skaltu ekki hugsa sem svo að miskunn Jehóva geti ekki náð til þín. Hver sem mistök þín eru geturðu verið viss um að orðin í 1. Jóhannesarbréfi 1:9 eigi við þig ef þú hefur iðrast í alvöru, gert ráðstafanir til að bæta fyrir hið ranga og beðið Jehóva innilega fyrirgefningar á grundvelli úthellts blóðs Jesú: „Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti.“
20 Biblían hvetur okkur til að líkja eftir fyrirgefningu Jehóva í samskiptum okkar hvert við annað. En að hvaða marki er hægt að ætlast til að við fyrirgefum og gleymum þegar aðrir syndga gegn okkur? Um það er fjallað í næstu grein.
[Neðanmáls]
a Það er athyglisvert að hebreska orðið, sem hér er þýtt „eðli vort,“ er notað um leirker mótuð af leirkerasmið. — Jesaja 29:16.
Hvert er svar þitt?
◻ Af hverju er Jehóva „fús til að fyrirgefa“?
◻ Hvernig lýsir Biblían því hve alger fyrirgefning Jehóva er?
◻ Í hvaða skilningi gleymir Jehóva þegar hann fyrirgefur?
◻ Hvað ætlast Jehóva til að við gerum þegar syndir okkar hafa sært aðra eða valdið þeim tjóni?
[Mynd á blaðsíðu 26]
Jehóva ætlast til að við bætum fyrir þegar syndir okkar hafa sært aðra eða valdið þeim tjóni.