NÁMSGREIN 43
Gefumst ekki upp!
„Gefumst ekki upp á að gera það sem er gott.“ – GAL. 6:9.
SÖNGUR 68 Sáum sæði sannleikans
YFIRLITa
1. Hvaða gleði og heiðurs njótum við?
VIÐ erum ákaflega glöð og teljum það mikinn heiður að vera vottar Jehóva. Við berum nafn Guðs og stöndum undir því nafni með því að taka þátt í að boða trúna og gera fólk að lærisveinum. Við gleðjumst þegar við getum hjálpað einhverjum með ,það hugarfar sem þarf til að hljóta eilíft líf‘ að taka trú. (Post. 13:48) Okkur líður þá eins og Jesú sem ,fylltist fögnuði vegna heilags anda‘ þegar lærisveinarnir sneru aftur eftir árangursríka boðunarferð. – Lúk. 10:1, 17, 21.
2. Hvernig sýnum við að við tökum boðunina alvarlega?
2 Við tökum boðunina alvarlega. Páll postuli hvatti Tímóteus: „Gættu stöðugt að sjálfum þér og kennslunni.“ Hann bætti við: „Þá bjargarðu bæði sjálfum þér og þeim sem hlusta á þig.“ (1. Tím. 4:16) Líf fólks er í húfi. Við gætum stöðugt að sjálfum okkur vegna þess að við erum þegnar Guðsríkis. Við viljum alltaf hegða okkur á þann hátt sem er Jehóva til lofs og í samræmi við fagnaðarboðskapinn sem við boðum. (Fil. 1:27) Við sýnum að við ,gætum að kennslunni‘ með því að undirbúa okkur vel fyrir boðunina og biðja um blessun Jehóva áður er við boðum öðrum trúna.
3. Sýna allir áhuga á boðskapnum um ríki Guðs? Nefndu dæmi.
3 Það getur verið að fáir eða jafnvel enginn á svæðinu sýni boðskapnum um ríkið áhuga þó að við gerum okkar allra besta. Tökum sem dæmi bróður Georg Líndal. Hann boðaði trúna á Íslandi einn síns liðs frá 1929 til 1947. Hann dreifði tugþúsundum rita en samt tók enginn við sannleikanum. Hann skrifaði: „Sumir virðast hafa tekið afstöðu gegn sannleikanum en flestir virðast algerlega áhugalausir.“ Trúboðar sem höfðu útskrifast úr Gíleaðskólanum komu til landsins til að hjálpa til í boðuninni. En eftir það liðu samt níu ár þangað til einhverjir Íslendingar vígðu líf sitt Jehóva og létu skírast.b
4. Hvernig getur okkur liðið ef fólk bregst ekki vel við fagnaðarboðskapnum?
4 Okkur þykir leitt þegar fólk hefur ekki áhuga á að kynna sér Biblíuna. Okkur gæti liðið eins og Páli, en hann var „sárhryggur og sífellt kvalinn“ vegna þess að Gyðingar vildu almennt ekki viðurkenna Jesú sem hinn fyrirheitna Messías. (Rómv. 9:1–3) Kannski ertu að aðstoða einhvern við biblíunám. Þú hefur lagt þig fram um að vera góður kennari og biður oft fyrir nemanda þínum en hann fer ekki eftir því sem hann lærir og þú þarft að hætta biblíunámskeiðinu. Eða kannski hefurðu aldrei verið með biblíunemanda sem lét skírast. Ætti þér að finnast það vera þér að kenna eða hugsa að Jehóva hafi ekki blessað boðun þína? Við svörum tveim spurningum í þessari grein: (1) Hvað einkennir árangursríka boðun? (2) Hvaða raunhæfu væntingar ættum við að gera okkur?
HVAÐ EINKENNIR ÁRANGURSRÍKA BOÐUN?
5. Hvers vegna náum við ekki alltaf þeim árangri sem við vonumst eftir í þjónustunni við Jehóva?
5 Biblían segir um þann sem gerir vilja Guðs: „Allt, sem hann gerir, lánast honum.“ (Sálm. 1:3) En það þýðir ekki að allt sem við gerum fyrir Jehóva beri þann árangur sem við óskum eftir. Lífið er ,fullt af áhyggjum‘ vegna ófullkomleikans – bæði okkar og annarra. (Job. 14:1, NW) Auk þess geta andstæðingar okkar stundum komið í veg fyrir að við boðum trúna eins og við erum vön. (1. Kor. 16:9; 1. Þess. 2:18) Hvernig metur Jehóva þá árangur okkar? Skoðum nokkrar meginreglur í Biblíunni sem hjálpa okkur að svara því.
6. Hvernig metur Jehóva árangur í þjónustu okkar við hann?
6 Jehóva horfir á það sem við leggjum á okkur og á þolgæði okkar. Jehóva telur boðun okkar árangursríka ef við sinnum henni af dugnaði og kærleika, jafnvel þótt fólk vilji ekki hlusta. Páll skrifaði: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið sýnduð nafni hans með því að þjóna hinum heilögu eins og þið gerið enn.“ (Hebr. 6:10) Jehóva man eftir því sem við leggjum á okkur og kærleikanum sem við sýnum, jafnvel þó að það verði ekki til þess að neinn láti skírast. Þó að þú náir ekki þeim árangri sem þú vonast eftir geturðu tekið til þín það sem Páll sagði við Korintumenn: „Erfiði ykkar fyrir Drottin er ekki til einskis.“ – 1. Kor. 15:58.
7. Hvað getum við lært af því sem Páll postuli sagði um þjónustu sína?
7 Páll postuli var einstakur trúboði og myndaði söfnuði í mörgum borgum. En þegar honum fannst hann þurfa að verja hæfni sína sem þjónn Krists lagði hann ekki áherslu á hve mörgum hann hafði hjálpað að taka trú. Páll skrifaði öllu heldur: „Ég hef unnið meira.“ (2. Kor. 11:23) Rétt eins og Páll þurfum við að muna að Jehóva metur mest það sem við leggjum á okkur og þolgæði okkar.
8. Hvað ættum við að muna varðandi boðun okkar?
8 Jehóva er ánægður með boðun okkar. Jesús sendi 70 lærisveina til að flytja boðskapinn um ríkið og þeir ,sneru aftur fagnandi‘. Hvers vegna fögnuðu þeir? Þeir sögðu: „Jafnvel illu andarnir hlýða okkur þegar við notum nafn þitt.“ En Jesús leiðrétti hugsunarhátt þeirra og sagði: „Gleðjist samt ekki yfir því að andarnir hlýða ykkur. Gleðjist frekar yfir því að nöfn ykkar eru skráð á himnum.“ (Lúk. 10:17–20) Jesús vissi að þeir myndu ekki alltaf hafa svona frábærar frásögur að segja af boðuninni. Við vitum reyndar ekki hve margir tóku trú af þeim sem hlustuðu á lærisveinana. Lærisveinarnir þurftu að skilja að gleðin kæmi ekki aðeins vegna þess að fólk hlustaði á þá. Mesta gleðin kæmi af því að vita að Jehóva væri ánægður með það sem þeir lögðu á sig.
9. Hver er árangurinn af því að halda út í boðuninni samkvæmt Galatabréfinu 6:7–9?
9 Við öðlumst eilíft líf ef við höldum út í boðuninni. Þegar við gerum okkar besta til að boða og kenna fagnaðarboðskapinn erum við líka að sá „eins og andinn vill“ með því að leyfa heilögum anda Guðs að hafa áhrif á líf okkar. Jehóva lofar því að við uppskerum eilíft líf svo framarlega sem við „gefumst ekki upp“ og „missum ekki móðinn“, óháð því hvort við hjálpum nýjum lærisveini að vígja sig Guði. – Lestu Galatabréfið 6:7–9.
HVAÐA VÆNTINGAR ÆTTUM VIÐ AÐ GERA OKKUR?
10. Hvað ræður því hvernig fólk bregst við boðun okkar?
10 Hjartalag fólks ræður mestu um viðbrögð þess. Jesús lýsti þessu í dæmisögu sinni um akuryrkjumann sem sáði korni sínu í mismunandi jarðveg. Kornið bar ávöxt í aðeins einum jarðveginum. (Lúk. 8:5–8) Jesús sagði að mismunandi jarðvegur táknaði mismunandi viðbrögð fólks við ,orði Guðs‘. (Lúk. 8:11–15) Rétt eins og akuryrkjumaðurinn getum við ekki stjórnað vextinum þar sem hann ræðst af hjartalagi þeirra sem hlusta á okkur. Verkefni okkar er að halda áfram að sá góða korninu sem er boðskapurinn um ríkið. Páll postuli sagði: „Hver og einn fær laun eftir því sem hann leggur af mörkum“ – ekki eftir því sem hlýst af verki hans. – 1. Kor. 3:8.
11. Hvers vegna var Nói árangursríkur ,boðberi réttlætisins‘? (Sjá mynd á forsíðu.)
11 Margir þjónar Jehóva í gegnum söguna hafa boðað fólki trúna án þess að það hlustaði. Nói var til dæmis ,boðberi réttlætisins‘, líklega í nokkra áratugi. (2. Pét. 2:5) Hann vonaðist án efa til þess að fólk brygðist jákvætt við boðskapnum, en Jehóva hafði ekki gefið það í skyn. Öllu heldur sagði hann við Nóa þegar hann gaf honum fyrirmæli um að smíða örkina: „Þú skalt ganga í örkina, þú og synir þínir, kona þín og tengdadætur þínar með þér.“ (1. Mós. 6:18) Og miðað við stærð og rúmtak arkarinnar sem Guð sagði Nóa að smíða getur hann hafa áttað sig á að viðbrögðin við boðun hans yrðu takmörkuð. (1. Mós. 6:15) Eins og við vitum hlustaði enginn úr þessum illa heimi á boðun Nóa. (1. Mós. 7:7) Fannst Jehóva Nói ekki hafa sinnt boðuninni nógu vel? Jú, í augum Guðs var Nói vissulega árangursríkur boðberi vegna þess að hann gerði trúfastur það sem Jehóva bað hann að gera. – 1. Mós. 6:22.
12. Hvernig gat Jeremía spámaður fundið gleði í boðuninni þrátt fyrir áhugaleysi og andstöðu?
12 Jeremía spámaður boðaði líka trúna í nokkra áratugi þrátt fyrir áhugaleysi og andstöðu. ,Háðung og spott‘ andstæðinganna gerði hann svo niðurdreginn að hann vildi hætta að sinna verkefni sínu. (Jer. 20:8, 9, Biblían 1981) En hann gafst ekki upp. Hvað hjálpaði honum að sigrast á neikvæðum hugsunum og finna gleði í boðuninni? Hann einbeitti sér að tveim mikilvægum staðreyndum. Í fyrsta lagi veitti boðskapur Guðs sem Jeremía boðaði fólkinu „vonarríka framtíð“. (Jer. 29:11) Í öðru lagi hafði Jehóva kennt Jeremía við nafn sitt. (Jer. 15:16) Við boðum líka vonarboðskap í þessum dapurlega heimi og berum nafn Jehóva sem vottar hans. Þegar við einbeitum okkur að þessum tveim mikilvægu staðreyndum getum við fundið gleði óháð því hvernig fólk bregst við boðskapnum.
13. Hvað lærum við af dæmisögu Jesú í Markúsi 4:26–29?
13 Andlegur vöxtur tekur tíma. Jesús benti á það í dæmisögunni um akuryrkjumanninn sem svaf. (Lestu Markús 4:26–29.) Hann sá afrakstur erfiðis síns smátt og smátt og vöxturinn var að litlu leyti á hans valdi. Þú sérð kannski ekki heldur alltaf árangur af boðun þinni og kennslu vegna þess að vöxturinn tekur tíma og gerist í þrepum. Bóndi getur ekki látið korn sitt vaxa eins hratt og honum sýnist. Við getum ekki heldur þvingað biblíunemendur okkar til að taka andlegum framförum á þeim hraða sem okkur sýnist. Ekki gefast upp eða verða niðurdreginn þó að þeir taki ekki framförum eins hratt og þú áttir von á. Að gera fólk að lærisveinum krefst þolinmæði, rétt eins og akuryrkja. – Jak. 5:7, 8.
14. Hvaða dæmi sýnir að það getur tekið langan tíma að sjá árangur af boðun okkar?
14 Á sumum svæðum sjáum við ekki árangur af boðuninni fyrr en eftir einhver ár. Tökum systurnar Gladys og Ruby Allen sem dæmi. Árið 1959 voru þær sendar sem brautryðjendur til bæjar í Quebec-fylki í Kanada.c Vegna þrýstings frá samfélaginu og áhrifa kaþólsku kirkjunnar vildi fólk ekki hlusta á boðskapinn um ríkið. Gladys segir: „Við fórum hús úr húsi í átta tíma á dag í tvö ár án þess að nokkur opnaði fyrir okkur. Fólk kom bara að dyrunum og dró niður gardínurnar. En við gáfumst ekki upp.“ Með tímanum varð fólk vingjarnlegra og sumir fóru að hlusta. Núna eru þrír söfnuðir í þessum bæ. – Jes. 60:22.
15. Hvað lærum við um það að gera fólk að lærisveinum af 1. Korintubréfi 3:6, 7?
15 Að gera fólk að lærisveinum krefst samvinnu. Sagt hefur verið að það þurfi heilan söfnuð til að hjálpa einhverjum að verða hæfur til skírnar. (Lestu 1. Korintubréf 3:6, 7.) Bróðir skilur eftir smárit eða blað hjá einhverjum sem sýndi áhuga. Bróðirinn kemst að því að hann hefur ekki tök á að fylgja áhuganum eftir svo að hann biður annan bróður að fara í endurheimsókn. Sá bróðir hefur biblíunámskeið. Hann býður síðan ýmsum bræðrum og systrum með sér á biblíunámskeiðið. Þau hvetja nemandann hvert á sinn hátt. Allir bræður og systur sem nemandinn hittir hjálpa til við að vökva frækorn sannleikans. Þannig geta þeir sem sá og þeir sem skera upp glaðst saman yfir uppskerunni, eins og Jesús sagði. – Jóh. 4:35–38.
16. Hvernig getum við haft gleði af boðuninni þótt hrakandi heilsa eða minna úthald setji okkur skorður?
16 Kannski geturðu ekki tekið eins mikinn þátt í að boða og kenna fagnaðarboðskapinn vegna þess að heilsu þinni fer hrakandi eða þú hefur minna úthald en áður. En þú getur samt glaðst yfir þínu hlutverki í uppskerunni. Tökum sem dæmi Davíð konung og menn hans þegar þeir björguðu fjölskyldum sínum og eigum úr hendi Amalekíta. Tvö hundruð af mönnum Davíðs voru of úrvinda til að berjast. Þeir voru því eftir og gættu farangursins. Eftir sigurinn sagði Davíð að herfanginu skyldi skipt jafnt á milli þeirra allra. (1. Sam. 30:21–25) Það er svipað með boðun okkar og kennslu um allan heim. Allir sem gera sitt besta geta glaðst yfir hverjum þeim sem er bjargað og hjálpað til að hefja göngu sína á veginum til lífsins.
17. Hvað ættum við að þakka Jehóva fyrir?
17 Við þökkum Jehóva fyrir það hve kærleiksríkur hann er þegar hann metur þjónustu okkar. Hann veit að við getum ekki þvingað fólk til að hlusta á okkur eða tilbiðja hann. En hann sér hvað við leggjum hart að okkur og hve heitt við elskum hann og hann umbunar okkur. Hann sýnir okkur líka hvernig við getum fundið gleði í hlutverki okkar í uppskerunni. (Jóh. 14:12) Við megum vera viss um að Guð hefur velþóknun á okkur ef við gefumst ekki upp.
SÖNGUR 67 Boða trú
a Það gleður okkur þegar fólk bregst vel við fagnaðarboðskapnum og okkur þykir leitt þegar það gerir það ekki. Kannski ertu að aðstoða einhvern við biblíunám sem tekur ekki framförum. Eða kannski hefðurðu aldrei verið með biblíunemanda sem lét skírast. Þýðir það að þér hafi mistekist í því starfi að gera fólk að lærisveinum? Í þessari grein sjáum við að við getum náð árangri í boðuninni og haft gleði af henni hvort sem fólk hlustar á okkur eða ekki.
b Sjá bæklinginn Vottar Jehóva á Íslandi – saga þrautseigju og þolgæðis, bls. 6–10.
c Sjá ævisögu Gladysar Allen „I Would Not Change a Thing!“ í Varðturninum á ensku 1. september 2002.