Haltu áfram að ‚gera það sem gott er‘
1 Þú tókst skynsamlega ákvörðun þegar þú gerðist þjónn Jehóva Guðs. Það er að vísu ekki hlaupið að því að halda áfram að ‚gera það sem gott er‘ núna á þessum erfiðu tímum. (Gal. 6:9) En þú getur það þó að það kosti áreynslu. Hvernig?
2 Tileinkaðu þér sama hugarfar og Jesús: Eins og Jesús geturðu staðist prófraunir ef þú einbeitir þér að guðsríkisvoninni. (Hebr. 12:2, 3) Jehóva elskar þig og vill að þú standist. (2. Pét. 3:9) Hann hjálpar þér örugglega ef þú setur allt traust þitt á hann. (1. Kor. 10:13) Vertu staðfastur í bæninni og biddu Jehóva að hjálpa þér að standast. (Rómv. 12:12) Gleðstu í þeirri vissu að þolgæði þitt afli þér velþóknunar hans. (Rómv. 5:3-5) Ef þú reynir dyggilega að tileinka þér ‚sama hugarfar og Kristur Jesús‘ veitir það þér ánægju og gleður hjarta Jehóva. — Rómv. 15:5; Orðskv. 27:11.
3 Haltu áfram að gera það sem rétt er: Nýttu þér til fulls allt sem Jehóva hefur látið fólki sínu í té til að halda áfram að gera það sem gott er. Lestu reglulega í Biblíunni og biblíutengdum ritum frá hinum trúa og hyggna þjóni. Mættu trúfastlega á allar samkomur, undirbúðu þig fyrir þær og taktu þátt í þeim. Blandaðu geði við andlega bræður þína og systur fyrir og eftir samkomur. Settu þér raunhæf markmið í sambandi við boðunarstarfið svo að þú getir tekið góðan þátt í því og tekið framförum í að kynna fagnaðarerindið fyrir öðrum.
4 Þannig geturðu haldið áfram að gera það sem gott er og notið mikillar gleði. Bróðir á Ítalíu sagði: „Vissulega er ég þreyttur þegar ég kem heim á kvöldin eftir að hafa verið í þjónustu Jehóva allan daginn. En ég er ánægður og ég þakka Jehóva fyrir að hafa gefið mér gleði sem enginn getur tekið frá mér.“ Haltu því áfram að gera það sem gott er og þá munt þú líka njóta mikillar gleði.