Sáttmálar Guðs og eilífur tilgangur hans
„[Jehóva] . . . minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða.“ — SÁLMUR 105:7, 8.
1, 2. Hvers vegna má segja að sáttmáli snerti flesta menn?
AÐ ÖLLUM líkindum hefur sáttmáli einhvern tíma á ævinni haft áhrif á líf þitt eða á eftir að gera það. Við höfum hér í huga hjónabandssáttmálann því að flest erum við komin í heiminn innan vébanda hans og mörg okkar eru sjálf í hjónabandi eða hugsum okkur að vera það einhvern tíma.
2 Fyrir mörgum öldum skrifaði hebreski spámaðurinn Malakí um „konu æsku þinnar“ og komst svo að orði að hún væri „eiginkona þín eftir gjörðu sáttmáli.“ (Malakí 2:14-16) Hann gat með réttu kallað hjónaband sáttmála því að það er formlegur samningur milli tveggja aðila. Hjúskaparsáttmálinn er tvíhliða samningur karls og konu um að verða hjón, taka á sig vissar skyldur hvort gagnvart öðru og vænta varanlegrar blessunar fyrir vikið.
3. Hvers vegna geta aðrir sáttmálar haft enn meiri áhrif á okkur en hjúskaparsáttmálinn?
3 Svo gæti virst sem enginn sáttmáli hefði meiri og beinni áhrif á líf okkar en hjónaband, en þó talar Biblían um langtum þýðingarmeiri sáttmála. Uppsláttarverk, sem ber saman sáttmála Biblíunnar og sáttmála annarra trúarbragða, segir að einungis í Biblíunni sé „sambandið milli Guðs og þjóna hans fastmótað í heilsteyptu kerfi sem að lokum hefur alheimsþýðingu.“ Já, þessir sáttmálar eru tengdir eilífum tilgangi hins ástríka skapara okkar. Eins og við munum sjá er stórkostleg blessun tengd þessum sáttmálum. ‚En á hvern hátt er það?‘ má með réttu spyrja.
4. Hvaða sáttmáli beinir athyglinni að eilífum tilgangi Guðs?
4 Okkur er fullkunnugt hversu hörmulegar afleiðingar það hafði þegar Adam og Eva höfnuðu yfirvaldi Guðs. Við erfðum ófullkomleika frá þeim, en hann er undirrót þeirra sjúkdóma sem hafa hrjáð okkur og leiðir að lokum til dauða. (1. Mósebók 3:1-6; 4-19) Við megum samt vera þakklát fyrir að synd þeirra skyldi ekki fá breytt þeim tilgangi Guðs að fylla jörðina sönnum guðsdýrkendum er nytu varanlegs heilbrigðis og hamingju. Þess vegna gerði Guð þann sáttmála sinn sem skráður er í 1. Mósebók 3:15: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ Þessi stuttorði spádómur og táknmál hans lætur þó mörgum spurningum ósvarað. Hvernig ætlaði Jehóva að uppfylla fyrirheitið sem fólst í þessum sáttmála?
5, 6. (a) Hvaða leið ákvað Guð að fara til að fullna tilgang sinn? (b) Hvers vegna ættum við að hafa áhuga á sáttmálum Guðs?
5 Guð kaus að gera það í gegnum röð sáttmála sem urðu alls sjö talsins að sáttmálanum í Eden meðtöldum. Allir sem vonast eftir eilífri blessun ættu að skilja hvað þessir sáttmálar fela í sér. Nauðsynlegt er að vita hvenær og hvernig þeir voru gerðir, til hverra þeir náðu, hver voru markmið þeirra eða skilyrði og hvernig þeir tengjast hver öðrum í þeim tilgangi Guðs að blessa hlýðið mannkyn með eilífu lífi.
6 Að vísu hafa sumir ef til vill á tilfinningunni að sáttmálar séu bara þurrar lagagreinar og þar af leiðandi ekki sérstaklega áhugaverðir fyrir venjulegt fólk. Vert er þó að veita athygli því sem Theological Dictionary of the Old Testament segir: „Þau hugtök, sem notuð voru um ‚sáttmála‘ til forna í Miðausturlöndum og í heimi Grikkja og Rómverja . . . skiptast merkingarlega í tvo hópa: Annars vegar merkja þau eiður og skuldbinding, hins vegar kærleikur og vinátta.“ Hvort tveggja — eiður og vinátta — eru undirstöðuatriði í sáttmálum Jehóva.
Abrahamssáttmálinn — grundvöllur eilífrar blessunar
7, 8. Hvers konar sáttmála gerði Jehóva við Abraham? (1. Kroníkubók 16:15, 16)
7 Ættfaðirinn Abraham, „faðir allra þeirra, sem trúa,“ var ‚vinur Jehóva.‘ (Rómverjabréfið 4:11; Jakobsbréfið 2:21-23) Guð sór honum eið að sáttmála sem er undirstaða þess að við getum hlotið ævarandi blessun. — Hebreabréfið 6:13-18.
8 Abraham bjó í Úr þegar Jehóva sagði honum að flytjast til annars lands. Það var Kanaanland. Jehóva hét þá Abraham þessu: „Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, . . . og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.“a (1. Mósebók 12:1-3) Smám saman bætti Guð ýmsum smáatriðum við það sem við réttilega köllum Abrahamssáttmálann: Afkvæmi eða erfingjar Abrahams myndu erfa fyrirheitna landið; afkomendur hans yrðu óteljandi og konungar myndu koma af Abraham og Söru. — 1. Mósebók 13:14-17; 15:4-6; 17:1-8, 16; Sálmur 105:8-10.
9. Hvernig vitum við að Abrahamssáttmálinn nær einnig til okkar?
9 Guð kallaði þetta „sáttmála milli mín og þín [Abrahams].“ (1. Mósebók 17:2) Við ættum þó að finna til þess að sáttmálinn snerti okkur því að Guð jók síðan við hann með þessum orðum: „Skal ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt, sem stjörnur á himni, sem sand á sjávarströnd. Og niðjar þínir skulu eignast borgarhlið óvina sinna. Og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta.“ (1. Mósebók 22:17, 18) Við erum hluti af þessum þjóðum og eigum því kost á blessun.
10. Hvað lærum við af Abrahamssáttmálanum?
10 Við skulum staldra ögn við og íhuga hvað við getum lært af Abrahamssáttmálanum. Eins og sáttmálinn í Eden bendir hann fram til ‚afkvæmis‘ eða sæðis og gefur þannig til kynna að það myndi koma í mennskan ættlegg. (1. Mósebók 3:15) Sá ættleggur lá frá Sem til Abrahams og síðan Ísaks. Inn í þennan ættlegg myndi koma konungdómur og hann myndi með einhverjum hætti miðla blessun, ekki aðeins einni ætt heldur mönnum meðal allra þjóða. Hvernig uppfylltust þessi fyrirheit sáttmálans?
11. Hvernig rættust bókstaflega fyrirheitin er fólust í sáttmálanum við Abraham?
11 Afkomendur Abrahams í gegnum Jakob eða Ísrael urðu með tíð og tíma fjölmenn þjóð. Sem bókstaflegt afkvæmi Abrahams voru þeir vígðir hreinni tilbeiðslu á Guði Abrahams, Ísaks og Jakobs. (1. Mósebók 28:13; 2. Mósebók 3:6, 15; 6:3; Postulasagan 3:13) Oft gerðu Ísraelsmenn fráhvarf frá hreinni guðsdýrkun en þó „miskunnaði [Jehóva] þeim og sá aumur á þeim . . . sakir sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob. Vildi hann eigi, að þeir skyldu tortímast.“ (2. Konungabók 13:23; 2. Mósebók 2:24; 3. Mósebók 26:42-45) Jafnvel eftir að Guð hafði viðurkennt kristna söfnuðinn sem þjóna sína hélt hann enn um hríð áfram að sýna Ísraelsmönnum sérstaka velvild, en þeir voru hið bókstaflega afkvæmi Abrahams. — Daníel 9:27.
Andlegt afkvæmi Abrahams
12, 13. Hvernig sýndi Jesús sig vera aðalsæði Abrahamssáttmálans í andlegri uppfyllingu hans?
12 Fyrirheit Abrahamssáttmálans áttu sér annars konar uppfyllingu, andlega. Þessi meiri uppfylling var ekki augljós fyrir daga Jesú, en við sem nú lifum getum fagnað því að mega skilja hana. Við höfum skýringu á henni í orði Guðs. Páll skrifar: „Nú voru fyrirheitin gefin Abraham og afkvæmi hans, — þar stendur ekki ‚og afkvæmum‘, eins og margir ættu í hlut, heldur ‚og afkvæmi þínu‘, eins og þegar um einn er að ræða, og það er Kristur.“ — Galatabréfið 3:16.
13 Já, afkvæmið átti að koma gegnum aðeins eina ætt. Jesús var af þeirri ætt, fæddur Gyðingur, bókstaflegur afkomandi Abrahams. (Matteus 1:1-16; Lúkas 3:23-34) Auk þess tilheyrði hann fjölskyldu hins meiri Abrahams á himnum. Abraham hafði sýnt sterka trú er hann sýndi sig fúsan til að fórna Ísak syni sínum ef Guð vildi það. (1. Mósebók 22:1-18; Hebreabréfið 11:17-19) Á sama hátt sendi Jehóva eingetinn son sinn til jarðar til að deyja sem lausnarfórn fyrir trúað mannkyn. (Rómverjabréfið 5:8; 8:32) Það var því skiljanlegt að Páll skyldi benda á Jesú Krist sem aðalsæði Abrahams samkvæmt sáttmálanum.
14. Hverjir mynda viðbótarsæði Abrahams og hvað munum við ræða í því sambandi?
14 Páll gaf síðan í skyn að Guð myndi ‚margfalda afkvæmi Abrahams‘ í hinni andlegu uppfyllingu. Hann sagði: „En ef þér tilheyrið Kristi, þá eruð þér niðjar Abrahams, erfingjar eftir fyrirheitinu.“ (1. Mósebók 22:17; Galatabréfið 3:29) Hér er um að ræða hina 144.000 andasmurðu kristnu menn sem mynda viðbótarsæði Abrahams. Þeir ‚tilheyra Kristi‘ og eru því sameinaðir aðalsæðinu. (1. Korintubréf 1:2; 15:23) Við vitum að fæstir þeirra geta rakið ættir sínar til Abrahams, enda flestir komnir af öðrum þjóðum en Gyðingum. Það sem ræður meiru í andlegu uppfyllingunni er að þeir eru ekki sjálfkrafa hluti af ætt hins meiri Abrahams, Jehóva, heldur komnir af ófullkominni ætt syndarans Adams. Við þurfum því að skoða í ljósi síðari sáttmála hvernig þeir hafa getað uppfyllt skilyrðin til að verða ‚afkvæmi Abrahams.‘
Lagasáttmálanum bætt við til bráðabirgða
15-17. (a) Hvers vegna var lagasáttmálanum bætt við Abrahamssáttmálann? (b) Hvernig náði lagasáttmálinn þessum markmiðum?
15 Hvernig ætlaði Guð að vernda ættlegg sæðisins fyrir spillingu eða útrýmingu uns það kæmi fram, eftir að hann gerði Abrahamsáttmálann sem frumskref í þá átt að fullna tilgang sinn? Hvernig gátu sannir guðsdýrkendur þekkt sæðið er það kæmi? Páll svarar þessum spurningum með því að benda á visku Guðs í því að bæta lagasáttmálanum við um tíma. Postulinn skrifar:
16 „Hvað er þá lögmálið? Vegna afbrotanna var því bætt við, þangað til afkvæmið kæmi, sem fyrirheitið hljóðaði um. Fyrir umsýslan engla er það til orðið, fyrri tilstilli meðalgangara. . . . Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom, til þess að vér réttlættumst af trú.“ — Galatabréfið 3:19, 24.
17 Við Sínaífjall gerði Jehóva einstæðan sáttmála milli sín og Ísraelsþjóðarinnar — lagasáttmálann sem Móse hafði milligöngu um.b (Galatabréfið 4:24, 25) Þjóðin féllst á að gangast undir þennan sáttmála og hann var fullgiltur með blóði nauta og hafra. (2. Mósebók 24:3-8; Hebreabréfið 9:19, 20) Sáttmálinn gaf Ísraelsmönnum guðræðisleg lög og hann hafði að geyma megindrög réttlátrar stjórnar. Sáttmálinn bannaði Ísraelsmönnum að ganga til hjúskapar við heiðingja eða taka þátt í siðleysi og falsguðadýrkun. Þannig verndaði hann Ísraelsmenn og varðveitti ættlegg sæðisins óspilltan. (2. Mósebók 20:4-6; 34:12-16) En úr því að enginn ófullkominn Ísraelsmaður gat haldið lögmálið fullkomlega sýndi það fram á synd þeirra. (Galatabréfið 3:19) Það benti líka á þörfina fyrir fullkominn, varanlegan prest og fórn er ekki þyrfti að færa á ný ár hvert. Lögmálið var eins og tyftari eða uppalandi er leiddi barn til kennara síns. Sá kennari reyndist vera Messías eða Kristur. (Hebreabréfið 7:26-28; 9:9, 16-22; 10:1-4, 11) Er lagasáttmálinn hefði þjónað tilgangi sínum átti hann að falla úr gildi. — Galatabréfið 3:24, 25; Rómverjabréfið 7:6; sjá „Spurningar frá lesendum“ í næsta tölublaði Varðturnsins.
18. Hvaða aðrar framtíðarhorfur fólust í lagasáttmálanum en hvers vegna voru þær torskildar?
18 Þegar Guð gerði þennan bráðabirgðasáttmála lét hann einnig getið hins hrífandi markmiðs er hann skyldi þjóna: „Nú ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, . . . og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður.“ (2. Mósebók 19:5, 6) Hvílíkar framtíðarhorfur! Þjóð konunga og presta. En hvernig gat það átt sér stað? Eins og lögmálið tiltók síðar fengu konungaættkvíslin (Júda) og prestaættkvíslin (Leví) sitt hvort verksviðið. (1. Mósebók 49:10; 2. Mósebók 28:43; 4. Mósebók 3:5-13) Enginn gat samtímis gegnt starfi borgaralegs stjórnanda og prests. Eigi að síður gáfu orðin í 2. Mósebók 19:5, 6 tilefni til að ætla að á einhvern ótilgreindan hátt gætu þeir sem áttu aðild að lagasáttmálanum fengið tækifæri til að verða „prestaríki og heilagur lýður.“
Sáttmálinn við Davíð um ríki
19. Hvernig bentu sáttmálarnir fram til konungdóms?
19 Þegar fram liðu stundir bætti Jehóva við nýjum sáttmála sem varpaði skýrara ljósi á hvernig hann myndi fullna tilgang sinn, okkur til eilífrar blessunar. Við höfum þegar séð hvernig Abrahamssáttmálinn vísaði fram til þess að bókstaflegt afkvæmi Abrahams myndi fara með konungdóm. (1. Mósebók 17:6) Lagasáttmálinn lét einnig á sér skilja að konungar myndu vera meðal þjóðar Guðs, því að Móse sagði Ísrael: „Þegar þú ert kominn inn í landið [fyrirheitna], sem [Jehóva] Guð þinn gefur þér, og þú hefir fengið það til eignar og ert sestur þar að og segir: ‚Ég vil taka mér konung, eins og allar þjóðirnar, sem í kringum mig eru,‘ þá skalt þú taka þann til konungs yfir þig, sem [Jehóva] Guð þinn útvelur. . . . Eigi mátt þú setja útlendan mann yfir þig.“ (5. Mósebók 17:14, 15) Hvernig ætlaði Guð að koma á slíkum konungdómi og hvaða áhrif myndi það hafa á Abrahamssáttmálann?
20. Hvernig komu Davíð og ætt hans inn í myndina?
20 Fyrsti konungur Ísraels, Sál, var af ættkvísl Benjamíns, en á eftir honum kom hinn hugrakki og drottinholli Davíð af Júdaættkvísl. (1. Samúelsbók 8:5; 9:1, 2; 10:1; 16:1, 13) Er nokkuð var liðið á stjórnartíð Davíðs ákvað Jehóva að gera sáttmála við hann. Fyrst sagði hann: „Þegar ævi þín er öll og þú leggst hjá feðrum þínum, mun ég hefja son þinn eftir þig, þann er frá þér kemur, og staðfesta konungdóm hans. Hann skal reisa hús mínu nafni, og ég mun staðfesta konungsstól hans að eilífu.“ (2. Samúelsbók 7:12, 13) Eins og hér er gefið til kynna átti sonur Davíðs, Salómon, að vera næsti konungur, og hann var notaður til að reisa Guði hús eða musteri í Jerúsalem. En Jehóva ætlaði að gera meira.
21. Hvaða grundvöll skapaði sáttmálinn við Davíð?
21 Jehóva gerði síðan þennan sáttmála við Davíð: „Hús þitt og ríki skal stöðugt standa fyrir mér að eilífu. Hásæti þitt skal vera óbifanlegt að eilífu.“ (2. Samúelsbók 7:16) Jehóva var greinilega að gera ætt Davíðs að konungaætt í Ísrael. En hann var ekki að tala einvörðungu um samfellda konungaröð af ætt Davíðs. Að lokum mundi einhver af hans ætt verða konungur „um aldur og hásæti hans sem sólin fyrir [Guði].“ — Sálmur 89:21, 30, 35-37; Jesaja 55:3, 4.
22. Hvernig tengdist sáttmálinn við Davíð ættlegg sæðisins og með hvaða afleiðingum?
22 Sáttmálinn við Davíð afmarkaði þannig enn frekar ættlegg sæðisins. Jafnvel Gyðingar á fyrstu öld gerðu sér ljóst að Messías yrði að vera afkomandi Davíðs. (Jóhannes 7:41, 42) Jesús Kristur, aðalsæði Abrahamssáttmálans, uppfyllti kröfurnar til að verða varanlegur erfingi ríkis Davíðs eins og engill bar vitni um. (Lúkas 1:31-33) Jesús öðlaðist þannig rétt til að ríkja yfir fyrirheitna landinu, því jarðarsvæði sem Davíð hafði ráðið yfir. Þessi vitneskja ætti að auka traust okkar til Jesú; hann hefur ekki hrifsað til sín völd með ólöglegum hætti heldur ríkir hann í samræmi við löggiltan sáttmála frá Guði.
23. Hvaða spurningar eru enn óræddar?
23 Við höfum fram til þessa einskorðað okkur við fjóra af þeim sáttmálum sem Guð hefur notað til að fullna tilgang sinn og færa mannkyni eilífa blessun. Þú veitir sjálfsagt athygli að myndin er ekki fullgerð enn. Þeirri spurningu var enn ósvarað hvaða prestur eða hvaða fórn gæti einhvern tíma breytt einhverju um ófullkomleika mannsins. Hvernig gætu menn orðið hæfir til að verða hluti af afkvæmi Abrahams? Er ástæða til að ætla að rétturinn til að ríkja myndi ná yfir meira en aðeins jörðina? Hvernig gat sæði Abrahams, bæði aðalsæði og viðbótarsæði, veitt ‚öllum þjóðum jarðar,‘ þeirra á meðal okkur, blessun? Við skulum kanna það í greininni á eftir.
[Neðanmáls]
a Þetta er einhliða sáttmáli því að aðeins annar aðili hans (Guð) tekur á sig skyldur samkvæmt honum.
b „Sáttmálahugtakið var eitt af sérkennum trúar Ísraelsmanna, en hún var sú eina sem krafðist algerrar hollustu og útilokaði að hægt væri að sýna tryggð fleiri guðum, eins og önnur trúarbrögð leyfðu.“ — Theological Dictionary of the Old Testament, 2. bindi, bls. 278.
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig skapaði Abrahamssáttmálinn grundvöll að eilífri blessun okkur til handa?
◻ Hvert var sæði Abrahams að holdinu? Hvert var hið andlega sæði?
◻ Hvers vegna var lagasáttmálanum bætt við Abrahamssáttmálann?
◻ Hvernig stuðlaði sáttmálinn við Davíð um ríki að framgangi tilgangs Guðs?
[Skýringamynd á blaðsíðu 11]
(Sjá uppsettan texta í ritinu)
Sáttmálinn í Eden — 1. Mósebók 3:15
Abrahamssáttmálinn
Aðalsæði
Viðbótarsæði
Eilíf blessun
[Skýringamynd á blaðsíðu 12]
(Sjá uppsettan texta í ritinu)
Sáttmálinn í Eden — 1. Mósebók 3:15
Abrahamssáttmálinn
Lagasáttmálinn
Sáttmálinn við Davíð um ríki
Aðalsæði
Viðbótarsæði
Eilíf blessun
[Mynd á blaðsíðu 8]
Guð gerði sáttmála við hinn trúfasta Abraham til að fullna tilgang sinn gagnvart mannkyninu.