Iðkið trú byggða á sannleika
„En án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ — HEBREABRÉFIÐ 11:6.
1, 2. Hvernig var trú Adams prófreynd og með hvaða afleiðingum?
TRÚ er meira en aðeins að trúa því að Guð sé til. Fyrsti maðurinn, Adam, efaðist ekki um tilvist Jehóva Guðs. Guð hafði átt samskipti við hann, að öllum líkindum gegnum son sinn, Orðið. (Jóhannes 1:1-3; Kólossubréfið 1:15-17) Samt sem áður glataði Adam tækifærinu til að hljóta eilíft líf vegna þess að hann hlýddi ekki Jehóva og iðkaði ekki trú á hann.
2 Framtíðarhamingju Adams virtist stofnað í hættu þegar kona hans, Eva, óhlýðnaðist Jehóva. Jafnvel tilhugsunin um að missa hana prófreyndi trú hins fyrsta manns. Gat Guð leyst þennan vanda á þann hátt að það tryggði áframhaldandi hamingju og velferð Adams? Með því að fylgja Evu í syndinni sýndi Adam augljóslega að hann áleit það ekki. Hann freistaði þess að leysa vandamálið á eigin spýtur, í stað þess að leita leiðsagnar Guðs í einlægni. Adam leiddi dauða yfir sjálfan sig og alla afkomendur sína með því að iðka ekki trú á Jehóva. — Rómverjabréfið 5:12.
Hvað er trú?
3. Hvernig er skilgreining Biblíunnar á trú ólík þeirri sem orðabók nokkur gefur?
3 Orðabók skilgreinir trú sem ‚óhagganlega tiltrú á eitthvað sem engin sönnun er fyrir.‘ Biblían styður alls ekki þá hugmynd heldur leggur áherslu á hið gagnstæða. Trú er byggð á staðreyndum, raunveruleika, sannleika. Ritningin segir: „Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring [„augljós vitnisburður,“ NW] um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.“ (Hebreabréfið 11:1) Trúaður maður hefur tryggingu fyrir því að allt sem Guð lofar sé svo gott sem uppfyllt. Svo sannfærandi og sterk er sönnunin fyrir óséðum veruleika að trúin er sögð vera jafngild þeirri sönnun.
4. Hvernig styður uppsláttarrit skilgreiningu Biblíunnar á trú?
4 Í Nýheimsþýðingunni er orsakarháttur hebresku sagnarinnar ’aman stundum þýddur „að iðka trú.“ Samkvæmt orðabókinni Theological Wordbook of the Old Testament er „hugmyndin um vissu kjarninn í merkingu orðrótarinnar . . . öfugt við þá nútímahugmynd að trú sé eitthvað mögulegt, vonandi satt, en ekki öruggt.“ Sama bók segir: „Afleidda orðmyndin ʼāmēn ‚sannlega‘ berst yfir í Nýjatestamentið í orðinu amēn sem er . . . orðið ‚amen.‘ Jesús notaði orðið margsinnis (Mt 5:18, 26, o.s.frv.) til að leggja áherslu á áreiðanleika einhvers máls.“ Orðið sem er þýtt „trú“ í kristnu Grísku ritningunum merkir einnig trú á eitthvað sem er traustlega grundvallað á raunveruleika eða sannleika.
5. Hvernig var gríska orðið, þýtt „fullvissa“ í Hebreabréfinu 11:1, notað í fornum viðskiptaskjölum og hvaða þýðingu hefur það fyrir kristna menn?
5 Gríska orðið hypostasis, þýtt „fullvissa“ í Hebreabréfinu 11:1, var venjulega notað í fornum papýrusviðskiptaskjölum til að gefa hugmyndina um eitthvað sem tryggir framtíðareign. Fræðimennirnir Moulton og Milligan stinga upp á þessari þýðingu: „Trú er afsalið af því sem vonast er eftir.“ (Vocabulary of the Greek Testament) Augljóst er að ef einhver á afsal eignar getur hann verið þess ‚fullviss‘ að einhvern tíma verði von hans um að fá hana að veruleika.
6. Hver er merking gríska orðsins sem þýtt er „sannfæring“ í Hebreabréfinu 11:1?
6 Í Hebreabréfinu 11:1 gefur gríska orðið, þýtt „sannfæring“ eða „augljós vitnisburður“ (elegkhos), hugmyndina um að leggja fram sönnun til að sýna fram á eitthvað, sérstaklega eitthvað sem er andstætt því sem sýnist. Óvéfengjanleg eða áþreifanleg sönnun gerir ljóst það sem áður var ekki séð, og hrekur þannig það sem aðeins sýndist vera. Hvorki í Hebresku né Grísku ritningunum er því trú „óhagganleg tiltrú á eitthvað sem engin sönnun er fyrir.“ Trú er, þvert á móti, grundvölluð á sannleika.
Byggð á undirstöðusannindum
7. Hvernig lýsa Páll og Davíð þeim sem afneita tilvist Guðs?
7 Postulinn Páll hélt fram undirstöðusannindum þegar hann ritaði að „hið ósýnilega eðli [skaparans], bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. [Andstæðingar sannleikans] eru því án afsökunar.“ (Rómverjabréfið 1:20) Já, „himnarnir segja frá Guðs dýrð,“ og „jörðin er full af því, er [hann] hefir skapað.“ (Sálmur 19:1; 104:24) En hvað ef einhver vill ekki íhuga sönnunargögnin? Sálmaritarinn Davíð sagði: „Hinn óguðlegi, dramblátur eins og hann er, leitar ekki; allar hugmyndir hans eru: ‚Það er enginn Guð til.‘“ (Sálmur 10:4; 14:1, NW) Að hluta til er trú byggð á þeim grundvallarsannleika að Guð er til.
8. Hvað geta þeir sem iðka trú verið fullvissir um og komið auga á?
8 Jehóva er ekki einfaldlega til; hann er einnig áreiðanlegur og við getum reitt okkur á loforð hans. Hann hefur sagt: „Sannlega, það, sem ég hefi fyrirhugað, skal verða, og það, sem ég hefi ályktað, skal framgang fá.“ (Jesaja 14:24; 46:9, 10) Þetta eru ekki orðin tóm. Það er greinileg sönnun fyrir því að hundruð spádóma, skráðir í orði Guðs, hafa uppfyllst. Með þá vitneskju að bakhjarli geta þeir sem iðka trú komið auga á yfirstandandi uppfyllingu margra annarra biblíuspádóma. (Efesusbréfið 1:18) Til dæmis sjá þeir uppfyllingu ‚táknsins‘ um nærveru Jesú, þar á meðal aukna prédikun um hið stofnsetta ríki, svo og hinn fyrirsagða vöxt sannrar tilbeiðslu. (Matteus 24:3-14; Jesaja 2:2-4; 60:8, 22) Þeir vita að bráðlega munu þjóðirnar hrópa: „Friður og engin hætta,“ og að fljótlega eftir það mun Guð „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ (1. Þessaloníkubréf 5:3; Opinberunarbókin 11:18) Hvílík blessun að eiga trú byggða á spádómlegum sannindum!
Ávöxtur heilags anda
9. Hver eru tengsl trúar og heilags anda?
9 Sannleikann sem trúin er grundvölluð á er að finna í Biblíunni sem er innblásin af heilögum anda Guðs. (2. Samúelsbók 23:2; Sakaría 7:12; Markús 12:36) Það er því rökrétt að trú geti ekki þrifist óháð starfsemi heilags anda. Þess vegna gat Páll ritað: „Ávöxtur andans [innifelur] . . . trú.“ (Galatabréfið 5:22, NW) En margir hafna sannleika Guðs og spilla lífi sínu með holdlegum girndum og viðhorfum sem hryggja anda Guðs. Þess vegna ‚er trúin ekki allra,‘ því þeir hafa engan grundvöll til að byggja hana á. — 2. Þessaloníkubréf 3:2; Galatabréfið 5:16-21; Efesusbréfið 4:30.
10. Hvernig sýndu ýmsir hinna fyrstu þjóna Jehóva að þeir iðkuðu trú?
10 Samt sem áður hafa sumir af afkomendum Adams iðkað trú. Hebreabréfið kafli 11 nefnir Abel, Enok, Nóa, Abraham, Söru, Ísak, Jakob, Jósef, Móse, Rahab, Gídeon, Barak, Samson, Jefta, Davíð og Samúel, ásamt mörgum ónafngreindum þjónum Jehóva, sem fengu „góðan vitnisburð fyrir trú sína.“ Taktu eftir hvað var gert „fyrir trú.“ Það var fyrir trú sem Abel ‚bar fram fórn fyrir Guð‘ og Nói „smíðaði örk.“ Fyrir trú „hlýddi Abraham, . . . og fór burt til staðar, sem hann átti að fá til eignar.“ Og fyrir trú „yfirgaf“ Móse Egyptaland. — Hebreabréfið 11:4, 7, 8, 27, 29, 39.
11. Hvað bendir Postulasagan 5:32 á varðandi þá sem hlýða Guði?
11 Augljóslega gerðu allir þessir þjónar Jehóva meira en aðeins að trúa á tilvist Guðs. Með því að iðka trú treystu þeir á hann sem þann er „umbuni þeim, er hans leita.“ (Hebreabréfið 11:6) Þeir gerðu það sem andi Guðs leiðbeindi þeim að gera og hegðuðu sér í samræmi við þá nákvæmu þekkingu á sannleikanum sem var fáanleg á þeim tíma, þótt hún væri takmörkuð. Hversu ólíkt var það ekki Adam! Verk hans voru ekki unnin í trú byggðri á sannleika eða í samræmi við leiðsögn heilags anda. Guð gefur anda sinn þeim einum sem hlýða honum. — Postulasagan 5:32.
12. (a) Á hverju hafði Abel trú og hvernig sýndi hann það? (b) Hvað hlutu vottar um Jehóva fyrir daga kristninnar ekki, þrátt fyrir trú sína?
12 Ólíkt föður sínum, Adam, hafði hinn guðhræddi Abel trú. Hann fékk greinilega að vita frá foreldrum sínum af fyrsta spádómnum sem var borinn fram: „Og fjandskap vil ég [Jehóva Guð] setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:15) Guð lofaði þannig að afmá illskuna og endurreisa réttlætið. Abel vissi ekki hvernig þetta loforð yrði uppfyllt. En trú hans á að Guð umbuni þeim sem leita hans í einlægni var nógu sterk til að koma honum til að færa fórn. Hann hafði sennilega hugleitt spádóminn vel og álitið að nauðsynlegt yrði að úthella blóði til að uppfylla loforðið og lyfta mannkyninu upp til fullkomleika. Því var dýrafórn Abels viðeigandi. Þrátt fyrir trú Abels og annarra votta Jehóva fyrir daga kristninnar „hlutu þeir þó eigi fyrirheitið.“ — Hebreabréfið 11:39.
Trúin fullkomnuð
13. (a) Hvað fengu Abraham og Davíð að vita um uppfyllingu fyrirheitisins? (b) Hvers vegna má segja að „sannleikurinn kom fyrir Jesú Krist“?
13 Af og til gegnum aldirnar birti Guð viðbótarsannindi um hvernig fyrirheitið varðandi ‚sæði konunnar‘ yrði uppfyllt. Abraham var sagt: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta.“ (1. Mósebók 22:18) Síðar var Davíð konungi sagt að hið fyrirheitna sæði kæmi gegnum konunglegan ættlegg hans. Árið 29 birtist þetta sæði í manninum Jesú Kristi. (Sálmur 89:4, 5; Matteus 1:1; 3:16, 17) Ólíkt hinum trúlausa Adam var „hinn síðari Adam,“ Jesús Kristur, til fyrirmyndar í að sýna trú. (1. Korintubréf 15:45) Líf hans var helgað þjónustu við Jehóva og hann uppfyllti hina mörgu spádóma sem sögðu fyrir um Messías. Með því gerði Jesús sannleikann um hið lofaða sæði skýrari og færði það sem Móselögmálið vísaði til inn í heim raunveruleikans. (Kólossubréfið 2:16, 17) Þess vegna var hægt að segja að „sannleikurinn kom fyrir Jesú Krist.“ — Jóhannes 1:17.
14. Hvernig sýndi Páll Galatamönnum að bæst hefðu nýjar víddir við trúna?
14 Þar sem sannleikurinn var nú kominn fyrir milligöngu Jesú Krists, var tilkomin breiðari undirstaða til að byggja trúna á „fyrirheitið“ á. Trúin hafði verið gerð sterkari, eins og bæst hefðu við hana nýjar víddir. Páll sagði smurðum, kristnum meðbræðrum sínum hvað þetta snertir: „Ritningin segir, að allt sé hneppt undir vald syndarinnar, til þess að fyrirheitið veitist þeim, sem trúa, fyrir trú á Jesú Krist. Áður en trúin kom, vorum vér í gæslu lögmálsins innilokaðir, þangað til trúin, sem í vændum var, opinberaðist. Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom, til þess að vér réttlættumst af trú. En nú, eftir að trúin er komin, erum vér ekki lengur undir tyftara. Þér eruð allir Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú.“ — Galatabréfið 3:22-26.
15. Aðeins hvernig gat trúin fullkomnast?
15 Gyðingarnir höfðu iðkað trú á samskipti Guðs við þá gegnum lagasáttmálann. En nú þurfti þessi trú að bæta við sig. Hvernig? Með trú á hinn andagetna Jesú, hann sem lögmálið hafði verið gert til að leiða þá til. Það var eina leiðin til að fullkomna trúna sem var fyrir tilkomu kristninnar. Það var sannarlega nauðsynlegt fyrir þessa frumkristnu menn að ‚beina sjónum sínum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar‘! (Hebreabréfið 12:2) Reyndar þurfa allir kristnir menn að gera það.
16. Hvernig birtist heilagur andi á öflugri hátt og hvers vegna?
16 Átti heilagur andi einnig að birtast á öflugri hátt, í ljósi aukinnar þekkingar á sannleika Guðs og því hvernig trúin var þar af leiðandi fullkomnuð? Já. Á hvítasunnunni árið 33 var anda Guðs, hjálparanum sem Jesús hafði talað um, úthellt yfir lærisveina hans. (Jóhannes 14:26; Postulasagan 2:1-4) Þá starfaði heilagur andi í þeim á alveg nýjan hátt sem andagetinna bræðra Krists. Trú þeirra, ávöxtur heilags anda, styrktist. Það gerði þá hæfa fyrir hið geysimikla starf sem lá fyrir þeim, að gera menn að lærisveinum. — Matteus 28:19, 20.
17. (a) Hvernig hefur sannleikurinn birst og trúin verið fullkomnuð frá árinu 1914? (b) Hvaða vitnisburð höfum við um starfsemi heilags anda frá 1919?
17 Trúin kom þegar Jesús kynnti sig sem tilnefndan konung fyrir meira en 1900 árum. En þar eð hann ríkir nú sem konungur hefur grundvöllur trúar okkar — opinberaður sannleikur — stækkað gífurlega og fullkomnar þannig trú okkar. Á svipaðan hátt hefur starfsemi heilags anda eflst. Það kom greinilega í ljós árið 1919 þegar heilagur andi endurlífgaði vígða þjóna Guðs úr nánast óvirku ástandi. (Esekíel 37:1-14; Opinberunarbókin 11:7-12) Þá var lagður grundvöllur andlegrar paradísar sem hefur, á áratugunum sem síðan eru liðnir, orðið æ augljósari og dýrlegri ár frá ári. Er hægt að fá nokkra betri sönnun fyrir starfsemi heilags anda Guðs?
Hvers vegna að grannskoða trú okkar?
18. Hvernig voru hebresku njósnararnir innbyrðis ólíkir hvað varðaði trú?
18 Skömmu eftir að Gyðingar voru frelsaðir úr þrælkun í Egyptalandi voru 12 menn sendir til að kanna Kanaanland. En tíu þeirra skorti trú. Þeir efuðust um getu Jehóva til að uppfylla loforð sitt um að gefa Ísrael landið. Þeir létu hið sýnilega, hið efnislega, ráða gerðum sínum. Af þeim 12 sýndu aðeins Jósúa og Kaleb að þeir gengu fram í trú en ekki eftir því sem þeir sáu. (Samanber 2. Korintubréf 5:7.) Af þessum mönnum fengu einungis þeir tveir að lifa af og ganga inn í fyrirheitna landið, vegna þess að þeir iðkuðu trú. — 4. Mósebók 13:1-33; 14:35-38.
19. Hvernig er undirstaðan sem við byggjum trúna á sterkari núna en nokkru sinni fyrr, en hvað ættum við þó að gera?
19 Við stöndum núna við dyr hins nýja réttláta heims Guðs. Trú er ómissandi ef við viljum komast inn í hann. Til allrar hamingju hefur sú sannleiksundirstaða, sem við byggjum þá trú á, aldrei verið sterkari. Við höfum orð Guðs í heild sinni, fordæmi Jesú Krists og smurðra fylgjenda hans, stuðning milljóna andlegra bræðra og systra og hjálp heilags anda Guðs í þeim mæli sem á sér ekkert fordæmi. Þó gerum við vel í því að grannskoða trú okkar og stíga skref í þá átt að styrkja hana meðan við enn getum.
20. Hvaða spurninga væri viðeigandi að við spyrðum okkur?
20 ‚Ég trúi auðvitað að þetta sé sannleikurinn,‘ kannt þú að segja. En hversu sterk er trú þín? Spyrðu sjálfan þig: ‚Er himneskt ríki Jehóva mér eins raunverulegt og mannleg stjórn? Viðurkenni ég og styð fyllilega sýnilegt skipulag Jehóva og stjórnandi ráð þess? Get ég séð með trúaraugum að nú er verið að skipa þjóðunum í lokastöðu fyrir Harmagedón? Stenst trú mín samanburð við trú þess „fjölda votta“ sem er nefndur í 11. kafla Hebreabréfsins?‘ — Hebreabréfið 12:1; Opinberunarbókin 16:14-16.
21. Hvernig knýr trúin þá sem hafa hana og hvaða blessana njóta þeir? (Takið með athugasemdirnar í rammanum hér að ofan.)
21 Þeir sem hafa til að bera trú byggða á sannleika eru knúðir til verka. Eins og hin velþóknanlega fórn, sem Abel bar fram, eru lofgjörðarfórnir þeirra Guði þóknanlegar. (Hebreabréfið 13:15, 16) Þeir ganga veg réttlætisins sem prédikarar Guðsríkis eins og Nói, prédikari réttlætisins, sem hlýddi Guði. (Hebreabréfið 11:7; 2. Pétursbréf 2:5) Þeir sem hafa trú byggða á sannleika hlýða Jehóva, þrátt fyrir óþægindi og jafnvel undir erfiðustu prófraunum, líkt og Abraham gerði. (Hebreabréfið 11:17-19) Eins og trúfastir þjónar Jehóva í fortíðinni hljóta þeir sem hafa trú nú á dögum ríkulega blessun og umönnun síns kærleiksríka föður á himnum. — Matteus 6:25-34; 1. Tímóteusarbréf 6:6-10.
22. Hvernig er hægt að styrkja trúna?
22 Hvað getur þú gert ef þú ert þjónn Jehóva en finnst trú þín veik á einhvern hátt? Styrktu þá trú þína með því að nema orð Guðs kostgæfilega og láta vötn sannleikans, sem fylla hjarta þitt, streyma fram af munni þínum. (Orðskviðirnir 18:4) Ef þú styrkir ekki trú þína á reglulegum grundvelli getur hún orðið veik, óvirk eða jafnvel dáið. (1. Tímóteusarbréf 1:19; Jakobsbréfið 2:20, 26) Vertu staðráðinn í að láta það aldrei henda trú þína. Sárbændu Jehóva um hjálp hans, með því að biðja: „Hjálpaðu mér hvar sem mig skortir trú.“ — Markús 9:24, NW.
Hverju svarar þú?
◻ Hvað er trú?
◻ Hvers vegna getur trúin ekki þrifist aðskilin frá sannleika og heilögum anda?
◻ Hvernig varð Jesús Kristur fullkomnari trúar okkar?
◻ Hvers vegna ættum við að grannskoða hversu sterk trú okkar er?
[Rammi á blaðsíðu 27]
ÞEIR SEM HAFA TRÚ . . .
◻ Tala um Jehóva. — 2. Korintubréf 4:13.
◻ Vinna sams konar verk og Jesús. — Jóhannes 14:12.
◻ Eru öðrum til hvatningar. — Rómverjabréfið 1:8, 11, 12.
◻ Sigra heiminn. — 1. Jóhannesarbréf 5:5.
◻ Hafa enga ástæðu til að óttast. — Jesaja 28:16.
◻ Eiga eilíft líf í vændum. — Jóhannes 3:16.