„Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor“
BÖRN eru sjaldnast hrifin af reglum og aga. Yfirleitt gremst þeim að þurfa að sæta hömlum. En þeir sem eiga fyrir börnum að sjá vita að viðeigandi umsjón er alger nauðsyn. Og flest börn átta sig á því með tímanum að ákveðin handleiðsla er þeim til góðs. Páll postuli brá upp mynd af manni sem gætti barna til að lýsa því hvernig Jehóva Guð gætti þjóðar sinnar um skeið.
Í kristna söfnuðinum í rómverska skattlandinu Galatíu á fyrstu öld voru menn sem héldu því fram að Guð hefði því aðeins velþóknun á fólki að það fylgdi lögmálinu sem Guð hafði gefið Ísraelsmönnum fyrir milligöngu Móse. Páll postuli vissi að þetta var rangt vegna þess að Guð gaf mönnum heilagan anda þótt þeir hefðu aldrei haldið lög Gyðinga. (Postulasagan 15:12) Hann brá upp líkingu til að leiðrétta þessa röngu hugmynd og sagði í bréfi til kristinna manna í Galatíu: „Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom.“ (Galatabréfið 3:24) Fræðimaður bendir á að tyftarinn eigi sér „forna og merka sögu“. Ef við kynnum okkur þessa sögu áttum við okkur betur á því hvað Páll var að fara.
Tyftarinn og hlutverk hans
Tyftarar voru mikið notaðir á heimilum efnaðra Grikkja, Rómverja og hugsanlega einnig Gyðinga. Tyftarar höfðu það hlutverk að líta eftir drengjum allt frá bernsku fram á gelgjuskeið. Tyftarinn var yfirleitt þræll sem húsbændur treystu vel og oft nokkuð við aldur. Hann fylgdi drengnum til að tryggja öryggi hans og sjá um að óskir föðurins væru virtar. Tyftarinn fylgdi drengnum allan daginn hvert sem hann fór, hugaði að hreinlæti hans, fylgdi honum í skóla og bar oft bækur og annan búnað, auk þess að hafa umsjón með námi hans.
Tyftarinn annaðist yfirleitt ekki bóklega kennslu drengsins heldur var hann gæslumaður hans og verndari samkvæmt fyrirmælum föðurins. Hann veitti þó óbeina kennslu með umsjón sinni og ögun. Meðal annars innprentaði hann drengnum góða mannasiði, ávítaði hann og beitti hann jafnvel líkamlegum refsingum ef hann hegðaði sér illa. Fyrst og fremst voru það auðvitað foreldrarnir sem kenndu drengnum en þegar hann stálpaðist kenndi tyftarinn honum viðeigandi líkamsburði þegar hann gekk um götur, kenndi honum hvernig hann ætti að klæðast skikkjunni, sitja og borða, og jafnframt að hann ætti að standa upp fyrir hinum eldri, elska foreldra sína og þar fram eftir götunum.
Gríski heimspekingurinn Platón (428-348 f.Kr.) var ekki í neinum vafa um að það þyrfti að halda barnslegum þrám í skefjum. „Enginn sauður eða grasbítur ætti að vera án hjarðmanns. Að sama skapi lifa börn ekki án tyftara né þrælar án húsbónda,“ skrifaði hann. Þetta kann að virðast fulldjúpt í árinni tekið en svona leit Platón á málin.
Þar eð tyftarar voru sífellt í för með börnum var oft litið á þá sem harðneskjulega verði og talað um að þeir beittu hörðum refsingum og væru alltaf með smásmugulegar, tilgangslausar og þreytandi ásakanir á vörunum. En hvað sem því leið veitti tyftarinn barninu bæði siðferðilega og líkamlega vernd. Gríski sagnaritarinn Appíanos, sem var uppi á annarri öld, segir sögu af tyftara sem var að fylgja dreng til skóla og vafði hann örmum til að vernda hann fyrir morðingjum. Þegar tyftarinn neitaði að sleppa drengnum voru báðir myrtir.
Kynferðislegt siðleysi var útbreitt í heimi Hellena. Nauðsynlegt var að vernda börn, einkum drengi, gegn kynferðislegri misnotkun. Tyftarar sátu kennslustundir barnsins þar sem kennurum var ekki alltaf treystandi. Gríski mælskumaðurinn Libaníos frá fjórðu öld gekk svo langt að halda því fram að tyftarar yrðu að vera „verndarar uppvaxandi unglinga“ með því að „verja þá fyrir óæskilegum elskhugum, hrekja þá burt og koma í veg fyrir að þeir vinguðust við drengina“. Margir tyftarar áunnu sér virðingu skjólstæðinga sinna. Minnisvarðar bera vott um þakklæti fólks til fyrrverandi tyftara sinna þegar þeir féllu frá.
Lögmálið sem tyftari
Af hverju líkti Páll postuli Móselögunum við tyftara og af hverju var þetta viðeigandi samlíking?
Fyrst er að nefna að lögmálið verndaði Ísraelsmenn. Páll orðar það svo að Gyðingar hafi verið „í gæslu lögmálsins“, rétt eins og þeir hefðu haft tyftara og gæslumann sem verndaði þá. (Galatabréfið 3:23) Lögmálið hafði áhrif á öll svið lífsins. Það hafði hemil á lostafullum ástríðum og löngunum holdsins. Það hafði stjórn á hegðun Ísraelsmanna og ávítaði þá stöðugt fyrir galla þeirra og mistök þannig að hver einasti Ísraelsmaður var sér meðvita um ófullkomleika sinn.
Lögmálið verndaði Ísraelsmenn gegn siðferðilegri og trúarlegri spillingu grannþjóðanna. Bann Guðs við því að stofna til hjúskapar við heiðingja var til dæmis mikilvægur þáttur í því að þjóðin í heild ætti gott samband við hann. (5. Mósebók 7:3, 4) Ákvæði af þessu tagi héldu tilbeiðslu þjóðarinnar hreinni og bjó hana undir að bera kennsl á Messías þegar hann kæmi. Lögmálið var Gyðingum til góðs og vitnaði um kærleika Guðs. Móse minnti Gyðinga á þetta og sagði: „Drottinn, Guð þinn, elur þig upp eins og maður elur upp son sinn.“ — 5. Mósebók 8:5.
En hlutverk tyftarans var tímabundið og það var mikilvægur þáttur í líkingu Páls. Þegar barnið náði þroska var það ekki lengur undir umsjón tyftara síns. Gríski sagnaritarinn Xenófon (431-352 f.Kr.) skrifaði: „Þegar drengur kemst af barnsaldri og verður unglingur er hann leystur undan [tyftara] sínum og [kennara]; hann er ekki lengur undir umsjón þeirra heldur fær að vera sjálfstæður.“
Hið sama var að segja um Móselögin. Þau voru í gildi um ákveðinn tíma „til þess að afbrotin kæmu í ljós . . . þar til niðjinn [Jesús Kristur] kæmi“. Páll postuli benti á að lögmálið hafi verið „tyftari [Gyðinga] þangað til Kristur kom“. Til að Gyðingarnir, sem voru samtíða Páli, gætu notið velþóknunar Guðs urðu þeir að viðurkenna hlutverk Jesú í fyrirætlun Guðs. Þegar þeir gerðu það var hlutverki tyftarans lokið. — Galatabréfið 3:19, 24, 25, Biblían 2007.
Lögmálið, sem Guð gaf Ísraelsmönnum, var fullkomið. Það skilaði að öllu leyti því hlutverki sem Guð hafði ætlað því, að vernda þjóðina og vekja hana til vitundar um háleitar kröfur hans. (Rómverjabréfið 7:7-14) Lögmálið var góður tyftari. Sumum, sem bjuggu við verndarákvæði þess, kann þó að hafa fundist það íþyngjandi. Þess vegna gat Páll skrifað að Kristur hefði í fyllingu tímans keypt þá undan „bölvun lögmálsins“. Lögmálið var aðeins „bölvun“ í þeim skilningi að það gerði kröfur sem ófullkomnir Gyðingar gátu ekki staðist að fullu. Lögmálið útheimti að fylgt væri í þaula ákveðnum helgisiðum. Eftir að Gyðingar höfðu tekið við lausnargjaldinu, sem fólst í fórn Jesú og var lögmálinu miklu fremra, voru þeir ekki lengur undir þeim hömlum sem tyftarinn lagði á þá. — Galatabréfið 3:13; 4:9, 10.
Þegar Páll líkti lögmáli Móse við tyftara hafði hann því sérstaklega í huga gæsluhlutverk þess og tímabundið gildi. Menn afla sér ekki velþóknunar Guðs með því að fylgja lögmálinu heldur með því að viðurkenna Jesú og trúa á hann. — Galatabréfið 2:16; 3:11.
[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 13]
‚FJÁRHALDSMENN OG RÁÐSMENN‘
Auk þess að tala um tyftara tók Páll líkingu af „fjárhaldsmönnum og ráðsmönnum“. Við lesum í Galatabréfinu 4:1, 2: „Alla þá stund, sem erfinginn er ófullveðja, er enginn munur á honum og þræli, þótt hann eigi allt. Hann er undir fjárhaldsmönnum og ráðsmönnum til þess tíma, er faðirinn hefur ákveðið.“ Fjárhaldsmenn og ráðsmenn höfðu öðrum hlutverkum að gegna en tyftarar en Páll er í meginatriðum að leggja áherslu á sama hlutinn.
Samkvæmt rómverskum lögum var munaðarlausu barni skipaður fjárhaldsmaður til að gæta þess og annast fjármál þess uns það varð fullveðja. Þó að slíkt barn réði fræðilega yfir eigum sínum, eins og Páll benti á, hafði það ekki meiri réttindi en þræll meðan það var ófullveðja.
Ráðsmaður réð hins vegar búi og fjármálum þess. Gyðingurinn og sagnaritarinn Flavíus Jósefus nefnir að ungur maður, sem Hýrcanus hét, hafi beðið föður sinn um bréf þess efnis að ráðsmaður hans ætti að láta honum í té fjármuni til að kaupa hvaðeina sem hann vildi.
Að vera settur undir fjárhaldsmann eða ráðsmann var því sambærilegt við það að vera undir umsjón tyftara því að það hafði í för með sér frelsisskerðingu þangað til fullorðinsaldri var náð. Aðrir réðu yfir lífi barnsins uns þeim tíma lauk sem faðirinn hafði ákveðið.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Mynd á forngrískum vasa af tyftara með staf.
[Credit line]
National Archaeological Museum, Aþenu
[Mynd á blaðsíðu 11]
Mynd á bikar frá fimmtu öld f.Kr. af tyftara (með staf) sem fylgist með skjólstæðingi sínum hljóta kennslu í ljóðlist og tónlist.
[Credit line]
Bildarchiv Preussischer Kulturbesitz/Art Resource, NY