Abraham — fyrirmynd allra sem leita vináttu Guðs
„Ekki veiklaðist hann í trúnni . . . og var þess fullviss, að [Guð] er máttugur að efna það, sem hann hefur lofað.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 4:19-21.
1. Hvers vegna hefur Satan reynt að gera frásöguna af Abraham tortryggilega?
ORÐ GUÐS, sem við höfum í Ritningunni, er „lifandi og kröftugt.“ (Hebreabréfið 4:12) Frásagan af viðskiptum Jehóva við Abraham er því hvatning öllum þeim sem sækjast eftir vináttu Guðs, þótt hún hafi verið rituð fyrir liðlega 3500 árum. (Rómverjabréfið 15:4) Erkióvinurinn Satan veit það og hefur notað trúarleiðtoga til að reyna að telja fólki trú um að frásagan sé þjóðsaga ein. — 2. Korintubréf 11:14, 15.
2. Hvernig litu lærisveinar Jesú á Abraham?
2 Frásagan af Abraham er hluti ‚allrar Ritningar sem er innblásin af Guði‘ og er því sannsöguleg og „nytsöm til fræðslu“ kristinna manna. (2. Tímóteusarbréf 3:16; Jóhannes 17:17) Lærisveinar Jesú á fyrstu öld gerðu sér það vel ljóst sem sjá má af því að Abrahams er getið 74 sinnum í kristnu Grísku ritningunum. Í hinum trústyrkjandi 11. kafla Hebreabréfsins er farið fleiri orðum um hann en nokkurn annan þjón Guðs fyrir daga kristninnar.
3. Hvaða sérréttinda naut Abraham?
3 Abraham var enginn venjulegur „spámaður“ því að Jehóva notaði hann til að leika aðalhlutverk í stórkostlegum, táknrænum sjónleik þar sem hann fékk þau miklu sérréttindi að vera spádómleg fyrirmynd um Guð sjálfan. (1. Mósebók 20:7; Galatabréfið 4:21-26) Jesús talaði því um „faðm Abrahams“ sem tákn þess að njóta hylli Guðs. — Lúkas 16:22.
Fyrsta trúarverk hans
4. Hvenær hófust samskipti Guðs við Abram samkvæmt Biblíunni?
4 Abram, eins og hann hét upphaflega, ólst upp í „Úr í Kaldeu.“ Meðan hann bjó þar birtist Jehóva Guð honum og sagði: „Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins, sem ég mun vísa þér á. Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera. Ég mun blessa þá, sem þig blessa, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.“ — 1. Mósebók 12:1-3; 15:7; Postulasagan 7:2, 3.
5. (a) Hvernig hlýtur loforð Guðs að hafa snert hjarta Abrams? (b) Hvernig brást Abram við fyrirheitinu?
5 Það hlýtur að hafa verið mikil áskorun fyrir Abram að hlýða þessu kalli! Hann þurfti að yfirgefa þægileg lífsskilyrði og ættingja sína til að setjast að í fjarlægu og ókunnu landi. En ástríkt loforð Guðs snerti hjarta Abrams djúpt. Hann var gamall og barnlaus, konan hans ófrjó og allt benti til að nafn hans myndi brátt gleymast. Guð hét hinu gagnstæða: ‚Mikil þjóð‘ átti að koma af honum. Loforð Guðs fól enn fremur í sér stókostleg fagnaðartíðindi handa öllu mannkyni og vísaði fram til þess tíma er allar þjóðir myndu blessun hljóta. (Galatabréfið 3:8) Abram trúði á loforð Jehóva og yfirgaf Úr sem var háþróuð menningarborg. „Hann fór burt,“ segir Biblían, „og vissi ekki hvert leiðin lá.“ — Hebreabréfið 11:8.
6. (a) Hvers vegna eignar 1. Mósebók 11:31 Tara frumkvæðið að brottförinni? (Postulasagan 7:2-4) (b) Á hvaða vegu var Sara fordæmi kristnum nútímakonum?
6 Trú Abrams snerti aðra. Heimafólk hans, svo og Tara faðir hans og Lot frændi hans, fór með honum. En þar eð Tara var ættfaðir fjölskyldunnar og höfuð er komist svo að orði að hann hafi átti frumkvæðið. (1. Mósebók 11:31) Vert er að veita athygli þeim stuðningi sem Abram fékk frá konu sinni Saraí er síðar var nefnd Sara. Hún gerði sér að góðu lakari lífsgæði það sem eftir var ævinnar. (1. Mósebók 13:18; 24:67) Skiljanlegt er að ‚Abraham skuli hafa harmað Söru og grátið hana‘ er hún lést. (1. Mósebók 23:1, 2) Vegna andlegrar fegurðar sinnar, sterkrar trúar og einlægrar undirgefni við Abraham er talað um Söru sem góða fyrirmynd kristinna kvenna. — Hebreabréfið 11:11, 13-15; 1. Pétursbréf 3:1-6.
7. Á hvaða vegu hafa kristnir nútímamenn sýnt líka trú og Abraham og Sara?
7 Margir kristnir nútímamenn hafa sýnt áþekka trú með því að bjóða sig fram til að útbreiða boðskap Guðs á stöðum þar sem þörfin fyrir boðbera Guðsríkis er mikil, eða til að byggja og starfrækja nýjar prentsmiðjur þar sem biblíurit eru framleidd og send út. (Matteus 24:14) Þessir kristnu menn hafa fylgt hvatningunni: „Farið . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ Margir hafa þurft að aðlaga sig nýjum lífsstaðli í því landi sem þeir hafa flust til. Aðrir hafa fært verulegar, efnislegar fórnir til að gera menn að lærisveinum í heimalandi sínu. — Matteus 28:19, 20.
Önnur trúarverk
8. Við hvaða aðstæður birtist Guð Abram öðru sinni?
8 Abram settist að í borginni Harran og bjó þar uns Tara faðir hans lést. (1. Mósebók 11:31, 32) Þá hélt hann og heimafólk hans yfir Efrat og stefndi til suðurs. Að lokum komu þau „þangað er Síkem heitir“ í Kanaanlandi miðju. Það hlýtur að hafa verið fallegt landsvæði. Síkem liggur í frjósömum dal milli tveggja fjallgarða þar sem Ebalfjall og Garísímfjall gnæfa til himins og hefur verið kallað „paradís landsins helga.“ Vel var við hæfi að Jehóva skyldi birtast Abraham þar og segja: „Niðjum þínum vil ég gefa þetta land.“ — 1. Mósebók 12:5-7.
9. (a) Hvernig hélt Abram áfram að láta trú sína í ljós? (b) Hvaða lærdóm getum við dregið af því?
9 Viðbrögð Abrams voru þau að vinna annað trúarverk. Frásagan segir: „Hann reisti þar altari [Jehóva].“ (1. Mósebók 12:7) Trúlega hefur hann einnig fært þar dýr að fórn því að hebreska orðið, sem þýtt er „altari,“ merkir „fórnarstaður.“ Síðar endurtók Abram þetta trúarverk á öðrum stöðum í landinu. Enn fremur ‚ákallaði hann nafn Jehóva.‘ (1. Mósebók 12:8; 13:18; 21:33) Hebresku orðin, sem þýdd eru að „ákalla nafn,“ merkja einnig að „kunngera (prédika) nafnið.“ Heimafólk Abrams og Kanverjar hljóta að hafa heyrt hann kunngera nafn Guðs síns, Jehóva, djarflega. (1. Mósebók 14:22-24) Á sama hátt verða allir, sem sækjast eftir vináttu Guðs nú á dögum, að ákalla nafn hans í trú. Það felur í sér að taka þátt í opinberri prédikun, að bera fram „án afláts . . . lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.“ — Hebreabréfið 13:15; Rómverjabréfið 10:10.
10. (a) Á hvaða aðra vegu sýndi Abram trú? (b) Hvaða fordæmi gaf hann kristnum fjölskyldufeðrum? (1. Tímóteusarbréf 3:12)
10 Trú Abrams á Jehóva birtist á marga aðra vegu. Hann færði fórnir í þágu friðarins en sýndi jafnframt hugrekki þegar hættuástand skapaðist. (1. Mósebók 13:7-11; 14:1-16) Hann var auðugur en ekki efnishyggjumaður. (1. Mósebók 14:21-24) Hann var gestrisinn og studdi með örlæti tilbeiðsluna á Jehóva. (1. Mósebók 14:18-21; 18:1-8) Mestu máli skiptir þó að hann var til fyrirmyndar sem höfuð fjölskyldu sinnar og fylgdi fyrirmælum Jehóva með því að bjóða sonum sínum og heimilisfólki að ‚varðveita vegu Jehóva með því að iðka rétt og réttlæti.‘ (1. Mósebók 18:19) Í því skar heimili Abrams sig mjög úr miðað við siðspillingu Kanverja í grannborgunum Sódómu og Gómorru. Abram hefði aldrei umborið slíkar grófar syndir á heimili sínu. Hann veitti heimili sínu góða forstöðu sem sjá má af því að heimafólk hans líkti eftir honum í því að ákalla nafn Jehóva í trú. — 1. Mósebók 16:5, 13; 24:26, 27; 25:21.
„Ekki veiklaðist hann í trúnni“
11. Hvernig gat Abram haldið út sem „útlendingur“ í ókunnu landi í hundrað ár?
11 Hin sterka trú Abrams hjálpaði honum að þola þrengingar er hann bjó í hundrað ár meðal manna sem töldu sig eiga landið. (1. Mósebók 12:4; 23:4; 25:7) Biblían segir: „Fyrir trú settist hann að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingur og hafðist við í tjöldum, ásamt Ísak og Jakob, er voru samerfingjar með honum að hinu sama fyrirheiti. Því að hann vænti þeirrar borgar [Guðsríkis], sem hefur traustan grunn, þeirrar, sem Guð er smiður að og byggingarmeistari. [Hefði hann] nú átt við ættjörðina, sem [hann fór] frá, þá [hefði hann] haft tíma til að snúa þangað aftur.“ — Hebreabréfið 11:9, 10, 15; samanber Hebreabréfið 12:22, 28.
12. Hvað gaf Abram tækifæri til að snúa aftur til Úr og hvernig brást hann við?
12 Abram hafði ekki búið lengi í Kanaanlandi er alvarleg hungursneyð gaf honum tækifæri til að „snúa . . . aftur.“ Borgin Úr stóð við hið vatnsmikla Efratfljót og var ekki háð beinu regni. En í stað þess að snúa aftur þangað sýndi Abram trú á Jehóva og fór í gagnstæða átt — til Egyptalands. Það var áhættusamt. Kona Abrams var fögur og hann var þess vegna sem útlendingur í lífshættu í því landi. Hann gerði því varúðarráðstafanir og bað Saraí að leyna því að þau væru gift. Jehóva blessaði Abram fyrir trú hans og brátt gat hann snúið aftur til fyrirheitna landsins auðugri en nokkru sinni fyrr. — 1. Mósebók 12:10-13:2; 20:12.
13. Hvað táknar ófrjósemi Saraí og það að Abram skyldi leyna hjúskap þeirra?
13 Einnig þessir atburðir voru þættir í hinum spádómlega sjónleik sem Abram var óafvitandi að leika okkur til uppfræðslu. Saraí, sem enn var ófrjó, táknaði himneskt skipulag drottinhollra engla sem eru eins og eiginkona Jehóva. Þessi fagra, táknræna kona varð að bíða í meira en 4000 ár áður en hún gat leitt fram hið sanna sæði hins meiri Abrahams, Jehóva Guðs. Hinar beinu ofsóknir á hendur trúum þjónum Guðs allan þann tíma sem þeir biðu ollu því að stundum var engu líkara en að Jehóva hefði farið leynt með hjúskap sinn við hana. — 1. Mósebók 3:15; Jesaja 54:1-8; Galatabréfið 3:16, 27, 29; 4:26.
14. (a) Hvað gerði Saraí að lokum? (b) Hvað gerðist á 100. aldursári Abrams og hvers vegna?
14 Eftir að hafa búið sem útlendingur í landinu í tíu ár hafði Abram enn ekki eignast erfingja. Saraí sárbændi hann um að eignast barn með ambátt sinni, Hagar. Abram féllst á það og Ísmael fæddist. (1. Mósebók 12:4; 16:1-4, 16) En hið fyrirheitna sæði blessunarinnar átti ekki að koma af honum. Á 100. aldursári Abrams var nafni hans breytt í Abraham, „því að föður margra þjóða gjöri ég þig,“ eins og Guð sagði. Nafninu Saraí var breytt í Sara jafnhliða því fyrirheiti að hún skyldi eignast son. — 1. Mósebók 17:1, 5, 15-19.
15. Hvers vegna hló Abraham að þeirri tilhugsun að Sara skyldi ala honum son? (b) Hvernig sannaði Abraham enn einu sinni að hann byggi yfir sterkri trú?
15 Abraham (og síðar Sara) hlógu að þeirri tilhugsun því að bæði voru þau komin úr barneign. (1. Mósebók 17:17; 18:9-15) En þetta var ekki vantrúarhlátur. Eins og Biblían segir: „Ekki veiklaðist hann í trúnni . . . um fyrirheit Guðs efaðist hann ekki með vantrú, heldur gjörðist styrkur í trúnni. Hann gaf Guði dýrðina, og var þess fullviss, að hann er máttugur að efna það, sem hann hefur lofað.“ (Rómverjabréfið 4:18-21) Sama dag færði Abraham sönnur á hina sterku trú sína. Sem tákn sáttmála síns við Abraham sagði Jehóva honum að láta umskerast ásamt öllum karlmönnum á fjölmennu heimili hans. (1. Mósebók 15:18-21; 17:7-12, 26) Hvernig brást Abraham við þessu boði sem kostaði þjáningar að framfylgja? „Hann . . . umskar hold yfirhúðar þeirra á þessum sama degi, eins og Guð hafði boðið honum.“ — 1. Mósebók 17:22-27.
16. (a) Hvað gerðist sama dag og Ísak var vaninn af brjósti? (b) Hvað táknar burtrekstur Hagar og Ísmaels?
16 Árið eftir ól Sara soninn Ísak en nafn hans merkir „hlátur.“ (1. Mósebók 21:5, 6) Brátt kom að því að hann skyldi vaninn af brjósti. Í veislunni, sem þá var haldin, ofsótti Ísmael Ísak sökum afbrýði. Sara hvatti þá Abraham eindregið til að reka ambáttina Hagar og son hennar af heimilinu. Jehóva studdi beiðni Söru. Abraham hlýddi skjótlega þótt það tæki hann sárt. (1. Mósebók 21:8-14) Samkvæmt Galatabréfinu 4:21-30 táknar þetta það hvernig hinn meiri Abraham átti eftir að binda enda á samband sitt við Ísrael að holdinu. Líkt og allir aðrir menn voru Ísraelsmenn fæddir sem þrælar syndarinnar. (Rómverjabréfið 5:12) En þeir höfnuðu einnig Jesú Kristi, hinu sanna sæði Abrahams, sem kom til að gera þá frjálsa. (Jóhannes 8:34-36; Galatabréfið 3:16) Og líkt og Ísmael ofsótti Ísak, þannig ofsóttu þeir hinn nýstofnaða kristna söfnuð andlegra Ísraelsmanna sem voru viðbótarsæði Abrahams. — Matteus 21:43; Lúkas 3:7-9; Rómverjabréfið 2:28, 29; 8:14-17; 9:6-9; Galatabréfið 3:29.
Mesta trúarraun hans
17. Hvernig var trú Abrahams prófreynd næst?
17 Ólíklegt er að nokkur mennskur faðir hafi elskað son sinn heitar en hinn aldurhnigni Abraham elskaði Ísak. Það hlýtur því að hafa verið hræðilegt áfall fyrir hann að fá þetta boð: „Tak þú einkason þinn, sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum þar að brennifórn á einu af fjöllunum, sem ég mun segja þér til.“ — 1. Mósebók 22:1, 2.
18. Hvernig brást Abraham við því boði Jehóva að fórna Ísak?
18 Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir Abraham að skilja ástæðuna fyrir þessu boði sem hryggði hann svo mjög. Þrátt fyrir það var hann skjótur til að hlýða eins og hans var vandi. (1. Mósebók 22:3) Það tók hann þrjá kvalræðisdaga að komast til fjallsins sem honum var vísað á. Þar reisti hann altari og lagði eldivið á. Þegar þar var komið sögu hlýtur hann að hafa verið búinn að segja Ísak frá boði Guðs og Ísak að hafa haft tækifæri til að forða sér. En Ísak leyfði aldurhnignum föður sínum að binda hendur sínar og fætur og leggja hann á altarið. (1. Mósebók 22:4-9) Hvernig gat Ísak verið svona hlýðinn?
19. Hverju má þakka hugrekki og hlýðni Ísaks? (b) Hvernig er samband Abrahams og Ísaks lærdómsríkt fyrir kristnar nútímafjölskyldur?
19 Abraham hafði trúfastur gegnt þeirri skyldu sinni gagnvart Ísak sem greint er frá í 1. Mósebók 18:19. Vafalaust hafði hann innprentað Ísak tilgang Jehóva að reisa upp hina dánu. (1. Mósebók 12:3; Hebreabréfið 11:17-19) Ísak skynjaði djúpan kærleika föður síns og vildi þóknast honum í öllu, einkum þegar um það var að ræða að gera vilja Guðs. Kristnar nútímafjölskyldur geta lært mikið af þessu! — Efesusbréfið 6:1, 4.
20. Hvernig sýndi Abraham hlýðni og hvaða umbun hlaut hann?
20 Nú var náð hápunkti prófraunarinnar. Abraham tók hnífinn í hönd sér. En í sömu mund og hann ætlaði að deyða son sinn stöðvaði Jehóva hann og sagði: „Nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn.“ (1. Mósebók 22:11, 12) Það var ríkuleg umbun fyrir Abraham að heyra Guð lýsa sig réttlátan! Nú gat hann verið viss um að hafa uppfyllt þær kröfur sem Guð gerir til ófullkominna manna. Enn mikilvægara var að mat Jehóva á trú hans hafði reynst rétt. (1. Mósebók 15:5, 6) Eftir þetta fórnaði Abraham hrúti sem honum var séð fyrir með undraverðum hætti. Loks heyrði hann Jehóva staðfesta fyrirheit sáttmálans með eiði. Síðar varð hann þekktur sem vinur Jehóva. — 1. Mósebók 22:13-18; Jakobsbréfið 2:21-23.
21. Hvaða spádómleg fyrirmynd var hér gefin og hvers ætti hún að hvetja okkur til að leita?
21 Fórn Abrahams var táknræn. (Hebreabréfið 11:19) Hún táknaði þá sársaukafullu, dýru fórn sem Jehóva færði er hann sendi ástkæran son sinn til jarðar til að deyja sem „Guðs lamb, sem ber synd heimsins.“ (Jóhannes 1:29) Og það að Ísak skyldi fús til að deyja táknar hvernig hinn meiri Ísak, Jesús Kristur, beygði sig í öllu undir vilja síns himneska föður. (Lúkas 22:41, 42; Jóhannes 8:28, 29) Að lokum, líkt og Abraham heimti son sinn lifandi af altarinu, reisti Jehóva ástkæran son sinn upp frá dauðum sem dýrlega andaveru. (Jóhannes 3:16; 1. Pétursbréf 3:18) Allt þetta er mikil uppörvun þeim sem sækjast eftir vináttu Guðs nú á dögum!
22. Hvernig hefur útvalinn hópur manna notið góðs af óviðjafnanlegum kærleika Guðs?
22 Með því að iðka trú á þetta óviðjafnanlega kærleiksverk hins meiri Abrahams, Jehóva Guðs, hefur útvalinn hópur manna verið lýstur réttlátur sem synir Guðs. (Rómverjabréfið 5:1; 8:15-17) Fyrst voru þeir valdir úr hópi Gyðinga og síðan heiðingja og hafa sannarlega hlotið ríkulega blessun vegna sæðis Abrahams, Jesú Krists. (Postulasagan 3:25, 26; Galatabréfið 3:8, 16) Enn fremur mynda þeir viðbótarsæði Abrahams. (Galatabréfið 3:29) Alls eiga þeir að verða 144.000 talsins og fá, líkt og Jesús, upprisu til lífs á himnum eftir að hafa sannað sig trúfasta til dauða. — Rómverjabréfið 6:5; Opinberunarbókin 2:10; 14:1-3.
23. (a) Hvernig njóta milljónir nútímamanna nú þegar blessunar vegna leifa sæðis Abrahams? (2. Korintubréf 5:20) (b) Hvaða frekari blessun bíður hins ‚mikla múgs‘?
23 Um leið eru milljónir manna af öllum þjóðum að ‚öðlast blessun‘ með viðbrögðum sínum við kærleiksríkri þjónustu þeirra fáu sem eftir eru af afkvæmi Abrahams. (1. Mósebók 22:18) Þeir hafa hrifist af því að mega læra hvernig syndugir menn geta verið lýstir réttlátir sem vinir Guðs. Af því leiðir að „mikill múgur . . . af öllum þjóðum“ nýtur hylli Guðs og hefur „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ Undir forystu leifanna veita þeir einnig Guði ‚heilaga þjónustu dag og nótt.‘ Þessi mikli múgur á fyrir sér þá dýrlegu von að hljóta eilíft líf í paradís sem jarðnesk ‚Guðs börn.‘ (Opinberunarbókin 7:9-17; 21:3-5; Rómverjabréfið 8:21; Sálmur 37:29) En áður en slík blessun getur orðið að veruleika þurfa aðrir þýðingarmeiri atburðir að eiga sér stað eins og við munum lesa um í næstu grein.
Upprifjun
◻ Hvernig var trú Abrahams og ættmanna hans prófreynd?
◻ Hvernig hafa kristnir nútímamenn sýnt áþekka trú?
◻ Á hvaða aðra vegu sýndi Abraham trú?
◻ Hvernig eru Abraham, Sara og Ísak fordæmi fyrir kristnar fjölskyldur?
◻ Hvað var táknað með mesta trúarverki Abrahams?