„Hegðið yður eins og börn ljóssins“
‚Íklæðist hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.‘ — EFESUSBRÉFIÐ 4:24.
1. Hvaða blessunar njóta tilbiðjendur Jehóva? Hvers vegna?
JEHÓVA Guð er ‚faðir ljósanna‘ og „myrkur er alls ekki í honum.“ (Jakobsbréfið 1:17; 1. Jóhannesarbréf 1:5) Sonur hans, Jesús Kristur, sagði um sjálfan sig: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“ (Jóhannes 8:12) Sannir tilbiðjendur Jehóva, fylgjendur sonar hans, njóta því þeirrar blessunar að vera upplýstir — hugarfarslega, siðferðilega og andlega — og þeir ‚skína eins og ljós í heiminum.‘ — Filippíbréfið 2:15.
2. Hvaða munur var spáð að yrði á þjónum Guðs og heiminum?
2 Endur fyrir löngu var spámanninum Jesaja innblásið að spá þessari andstæðu: „Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. En yfir þér upp rennur [Jehóva], og dýrð hans birtist yfir þér.“ Reyndar er talað um að allt mannkynið, sem er fjarlægt Guði, sé undir áhrifavaldi „heimsdrottna þessa myrkurs.“ — Jesaja 60:2; Efesusbréfið 6:12.
3. Af hverju höfum við brennandi áhuga á tímabærum heilræðum Páls?
3 Páli postula var mjög umhugað um að kristnir bræður hans héldu sér frá slíku myrkri. Hann hvatti þá til að ‚hegða sér ekki framar eins og heiðingjarnir hegða sér‘ heldur ‚hegða sér eins og börn ljóssins.‘ (Efesusbréfið 4:17; 5:8) Hann útskýrði einnig hvernig þeim gæti tekist það. Myrkrið og sortinn, sem hylur þjóðirnar, verður sífellt svartari. Heimurinn sekkur æ dýpra niður í kviksyndi siðferðilegs og andlegs gjaldþrots. Tilbiðjendur Jehóva þurfa að heyja stöðugt harðari baráttu. Þar af leiðandi höfum við brennandi áhuga á því sem Páll sagði.
Lærðu að þekkja Krist
4. Hvað hafði Páll í huga þegar hann sagði: „Svo hafið þér ekki lært að þekkja Krist“?
4 Eftir að Páll hafði lýst gagnslausum viðfangsefnum og óhreinleika heimsins beindi hann athygli sinni aftur að kristnum bræðrum sínum í Efesus. (Lestu Efesusbréfið 4:20, 21.) Páll hafði notað þrjú og hálft ár í að prédika og kenna þar í borg og hlýtur að hafa þekkt marga í söfnuðinum persónulega. (Postulasagan 20:31-35) Þegar hann því sagði, „svo hafið þér ekki lært að þekkja Krist,“ var hann að láta í ljós þá persónulegu vitneskju sína að kristnum mönnum í Efesus hefði ekki verið kennd einhver undanlátsöm, útþynnt útgáfa af sannleikanum sem lét grófa spillingu af því tagi, er hann hafði lýst í versi 17 til 19, viðgangast. Hann vissi að þeim hafði verið kenndur rækilega og nákvæmlega hinn kristni lífsvegur sem samræmdist fordæmi Jesú Krists. Þar af leiðandi gengu þeir ekki lengur í myrkri eins og þjóðirnar heldur voru þeir börn ljóssins.
5. Hver er munurinn á því að vera í sannleikanum á yfirborðinu og að hafa sannleikann í sér?
5 Það er því sannarlega mikilvægt að ‚læra að þekkja Krist‘ á réttan hátt! Er hægt að læra að þekkja Krist á rangan hátt? Já, svo sannarlega. Fyrr, í Efesusbréfinu 4:14, hafði Páll aðvarað bræðurna: „Vér eigum ekki að halda áfram að vera börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar.“ Greinilega höfðu sumir lært ýmislegt um Krist en hegðuðu sér samt eftir háttarlagi heimsins og reyndu jafnvel að telja aðra á að gera það líka. Sýnir þetta okkur hættuna sem felst í því að vera bara í sannleikanum, eins og sumir orða það, í stað þess að hafa sannleikann í sér? Á dögum Páls áttu aðrir auðvelt með að hafa áhrif á þá sem höfðu aðeins yfirborðsþekkingu og það er eins nú á dögum. Til að koma í veg fyrir það sagði Páll Efesusmönnum að þeir þyrftu að ‚hafa heyrt um Krist og hafa verið um hann fræddir eins og sannleikurinn er í Jesú.‘ — Efesusbréfið 4:21.
6. Hvernig getum við lært, heyrt og fengið kennslu frá Kristi nú á dögum?
6 Páll notaði orðin „að læra,“ „að heyra“ og „vera fræddir“ og þau gefa öll í skyn nám og fræðslu eins og í skóla. Við getum auðvitað ekki heyrt, lært af eða látið Jesú sjálfan kenna okkur beint nú á dögum. Hins vegar stýrir hann biblíufræðslu um heim allan sem er í höndum hins ‚trúa og hyggna þjóns‘ hans. (Matteus 24:45-47; 28:19, 20) Við getum „lært að þekkja Krist“ rétt og nákvæmlega ef við nærumst reglulega á hinni tímabæru, andlegu fæðu frá þjónshópnum, nemum hana rækilega, annaðhvort ein eða í söfnuðinum, hugleiðum hana og notum það sem við lærum. Gætum þess að nota okkur til fullnustu allar ráðstafanirnar þannig að við getum með sanni sagt að við höfum „heyrt um hann og . . . verið um hann fræddir.“
7. Hvaða þýðingu getum við lesið úr orðum Páls, „sannleikurinn er í Jesú“?
7 Það er athyglisvert að Páll skuli bæta við í Efesusbréfinu 4:21, eftir að hafa lagt áherslu á lærdóminn: „Eins og sannleikurinn er í Jesú.“ Sumir biblíuskýrendur vekja athygli á því að Páll notaði einkanafn Jesú sjaldan eitt sér í ritum sínum. Þetta er reyndar eina dæmi slíks í bréfinu til Efesusmanna. Hefur það einhverja sérstaka þýðingu? Kannski var Páll að beina athyglinni að fordæmi Jesú sem manns. Við munum að Jesús sagði einu sinni um sjálfan sig: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ (Jóhannes 14:6; Kólossubréfið 2:3) Jesús sagði: „Ég er . . . sannleikurinn,“ vegna þess að hann bæði talaði hann og kenndi en einnig vegna þess að hann lifði í samræmi við hann og var persónugervingur hans. Já, sönn kristni er ekki bara hugmynd heldur lífsmáti. Að ‚læra að þekkja Krist‘ felur í sér að læra að líkja eftir honum í því að lifa í samræmi við sannleikann. Hefur þú Jesú sem fyrirmynd í lífi þínu? Fetar þú nákvæmlega í fótspor hans dags daglega? Aðeins þannig getum við haldið áfram að hegða okkur eins og börn ljóssins.
‚Afklæðist hinum gamla manni‘
8. Hvaða líkingu kom Páll með í Efesusbréfinu 4:22, 24 og hvers vegna á hún vel við?
8 Til að sýna hvernig við getum auðveldlega „lært að þekkja Krist“ og hegðað okkur eins og börn ljóssins skýrði Páll í Efesusbréfinu 4:22-24 að við þyrftum að stíga þrjú aðskilin skref. Hið fyrsta er: „Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum.“ (Efesusbréfið 4:22) Orðin „afklæðast“ og „íklæðast“ (vers 24) vekja hugmyndina um að klæða sig úr og í flík. Þetta er myndlíking sem Páll notaði býsna oft og hún á mjög vel við. (Rómverjabréfið 13:12, 14; Efesusbréfið 6:11-17; Kólossubréfið 3:8-12; 1. Þessaloníkubréf 5:8) Þegar föt okkar verða óhrein eða blettótt, svo sem við matarborðið, þá skiptum við um föt við fyrsta tækifæri. Ættum við ekki að láta okkur jafnannt um að halda okkur andlega hreinum?
9. Á hvaða hátt afklæðumst við gamla persónuleikanum?
9 Hvernig afklæðumst við þá gamla persónuleikanum? Sögnin ‚að afklæðast‘ stendur á frummálinu í tíð sem táknar að verknaður á sér stað aðeins einu sinni eða í eitt skipti fyrir öll. Það segir okkur að við þurfum að vera einbeitt í því að afklæðast „hinum gamla manni“ eða persónuleika ásamt „hinni fyrri breytni,“ gera það rækilega og algerlega. Þetta er ekki aðgerð sem við getum leyft okkur að bræða með okkur eða einu sinni hika við. Hvers vegna?
10. Hvers vegna verðum við að vera einbeitt og ákveðin í því að afklæðast gamla persónuleikanum?
10 Orðin „er spilltur“ eða „er að spillast“ (Kingdom Interlinear) sýna að ‚hinn gamli maður‘ ásamt „hinni fyrri breytni“ siðspillist jafnt og þétt og versnar stöðugt. Í raun er allt mannkynið að sogast dýpra í kviksyndið vegna þess að það hafnar andlegri upplýsingu. Þetta kemur til af „tælandi girndum,“ segir Páll. Langanir holdsins eru tælandi vegna þess að þær kunna að virðast skaðlausar en eru að lokum mjög skaðlegar. (Hebreabréfið 3:13) Ef ekki er tekið í taumana verða endalokin spilling og dauði. (Rómverjabréfið 6:21; 8:13) Þess vegna verður að afklæðast gamla persónuleikanum, fjarlægja hann einarðlega og algerlega líkt og maður fer úr gamalli, óhreinni flík.
Nýr ‚andi hugans‘
11. Hvar verður andleg endurnýjun að hefjast?
11 Sá sem rís upp úr forarpolli þarf ekki aðeins að afklæðast óhreinu fötunum heldur líka að þvo sér rækilega áður en hann fer í hrein föt. Það er einmitt það sem Páll segir vera annað skrefið til andlegrar upplýsingar: „Þér eigið að . . . endurnýjast í anda og hugsun“ eða ‚aflvaka hugans.‘ (Efesusbréfið 4:22, 23, NW) Eins og hann benti á áður í versi 17 og 18 er ‚hugsun þjóðanna allslaus‘ og „skilningur þeirra blindaður.“ Rökrétt er að það sé í huganum, miðstöð skynjunar og skilnings, sem endurnýjunin þarf að hefjast. Hvernig er það hægt? Páll sagði að það væri gert með því að biðja um nýjan aflvaka hugans. Hver er þessi aflvaki?
12. Hvað er aflvaki hugans?
12 Er aflvaki hugans, sem Páll talaði um, heilagur andi? Nei. Orðrétt þýðing gríska textans, sem þýddur er „aflvaki hugans,“ er „andi huga ykkar.“ Biblían talar hvergi um að heilagur andi Guðs tilheyri manni eða sé hluti af manni. Grunnmerking orðsins „andi“ er „andardráttur“ en það er einnig notað í Biblíunni „um þann kraft sem kemur manni til að sýna ákveðin viðhorf, lunderni eða geðshræringu, eða til að taka ákveðna stefnu eða vinna ákveðin verk.“ (Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 1026) „Andi hugans“ er því krafturinn sem er aflvaki eða drifkraftur hugans, huglæg hneigð okkar eða tilhneiging.
13. Hvers vegna verður tilhneiging hugans að endurnýjast?
13 Hin náttúrlega hneigð og tilhneiging ófullkomins huga snýr að því sem er líkamlegt, holdlegt og efnislegt. (Prédikarinn 7:20; 1. Korintubréf 2:14; Kólossubréfið 1:21; 2:18) Jafnvel þótt maður afklæðist gamla persónuleikanum með sínum slæmu iðkunum mun syndug tilhneiging hugans fyrr eða síðar koma honum til að snúa aftur til þess sem hann yfirgaf, ef hann breytir henni ekki. Er þetta ekki reynsla margra sem hafa reynt til dæmis að hætta reykingum, ofdrykkju eða öðru slæmu hátterni? Ef þeir reyndu ekki að endurnýja aflvaka hugans var nánast óhjákvæmilegt að þeir féllu aftur í sama farið. Ef nokkur breyting á að vera raunveruleg verður hún að vera samfara endurnýjung hugans. — Rómverjabréfið 12:2.
14. Hvernig getur aflvaki hugans endurnýjast?
14 Hvernig endurnýjum við þá þennan aflvaka þannig að hann hneigi huga okkar í rétta átt? Sögnin ‚endurnýist‘ stendur í nútíð á grískunni og lýsir áframhaldandi athöfn. Það er því með áframhaldandi námi í sannleiksorði Guðs og með því að hugleiða hvað það merkir sem aflvaki hugans getur endurnýjast. Vísindamenn segja okkur að í heilanum fari upplýsingar eftir sérstöku merkjakerfi sem raf- eða efnaboð frá einum taugungi til annars og fari um mörg svokölluð taugamót. „Einhvers konar minni skapast við taugamótin þegar merkið fer þar um og skilur eftir sig sitt sérstaka spor,“ segir í bókinni The Brain. Næst þegar sama merki fer um þekkir taugafruman það og bregst fljótar við. Með tímanum skapar þetta nýtt hugsanamynstur hjá einstaklingnum. Þegar við höldum áfram að taka við heilnæmum, andlegum upplýsingum byggist upp nýtt hugsanamynstur og aflvaki hugans endurnýjast. — Filippíbréfið 4:8.
‚Íklæðist hinum nýja manni‘
15. Í hvaða skilningi er nýi persónuleikinn nýr?
15 Páll segir að lokum: ‚Íklæðist hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.‘ (Efesusbréfið 4:24) Já, kristinn maður íklæðist nýjum persónuleika. ‚Nýr‘ vísar hér ekki til tíma heldur gæða. Hann er sem sagt ekki nýr í þeim skilningi að hann sé nýjasta útgáfa. Hann er algerlega nýr, ferskur persónuleiki ‚skapaður eftir vilja Guðs.‘ Í Kólossubréfinu 3:10 notaði Páll svipað orðalag og sagði að hann ‚endurnýjaðist til fullkominnar þekkingar og yrði þannig mynd skapara síns.‘ Hvernig verður þessi nýi persónuleiki til?
16. Hvers vegna er hægt að segja að nýi persónuleikinn sé „skapaður eftir Guði“?
16 Jehóva Guð skapaði fyrstu mannlegu hjónin, Adam og Evu, í sinni mynd og líkingu. Þau voru gædd siðferðilegum og andlegum eiginleikum sem aðskildu þau frá og gerðu langtum æðri dýrunum. (1. Mósebók 1:26, 27) Jafnvel þótt uppreisn þeirra steypti öllu mannkyninu út í synd og ófullkomleika höfum við, sem erum afkomendur Adams, enn hæfnina til að sýna siðferðilega og andlega eiginleika. Það er vilji Guðs að þeir sem iðka trú á lausnarfórnina losi sig við gamla persónuleikann og öðlist ‚dýrðarfrelsi Guðs barna.‘ — Rómverjabréfið 6:6; 8:19-21; Galatabréfið 5:1, 24.
17. Hvers vegna eru réttlæti og trygglyndi áberandi einkenni nýja persónuleikans?
17 Páll nefnir sérstaklega réttlæti og trygglyndi (NW) sem einkenni nýja persónuleikans. Það undirstrikar enn betur að nýi persónuleikinn endurnýjast samkvæmt mynd þess sem skapaði hann. Sálmur 145:17 segir okkur: „[Jehóva] er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur [„trygglyndur,“ NW] í öllum sínum verkum.“ Og Opinberunarbókin 16:5 segir um Jehóva: „Réttlátur ert þú, að þú hefur dæmt þannig, þú sem ert og þú sem varst, þú hinn heilagi [„trygglyndi,“ NW].“ Svo sannarlega eru réttlæti og trygglyndi nauðsynlegir eiginleikar ef við ætlum að lifa í samræmi við það að við erum sköpuð í Guðs mynd og viljum endurspegla dýrð hans. Megum við vera eins og Sakaría, faðir Jóhannesar skírara sem heilagur andi knúði til að lofa Guð fyrir að „veita oss að þjóna sér óttalaust í heilagleik [„trygglyndi,“ NW] og réttlæti fyrir augum hans alla daga vora.“ — Lúkas 1:74, 75.
„Hegðið yður eins og börn ljóssins“
18. Hvernig hefur Páll hjálpað okkur að sjá háttarlag heimsins í réttu ljósi?
18 Við höfum margt um að hugsa eftir að hafa skoðað orð Páls í Efesusbréfinu 4:17-24 í smáatriðum. Í 17. til 19. versi hjálpar Páll okkur að sjá háttarlag heimsins í réttu ljósi. Þeir sem enn eru í heiminum hafna þekkingunni á Guði og herða hjörtu sín gagnvart honum. Þar með hafa þeir slitið tengsl sín við hina sönnu uppsprettu lífsins. Þar eð veiðleitni þeirra skortir raunverulegan tilgang eða stefnu endar hún með glópsku og tilgangsleysi. Þeir sökkva æ dýpra ofan í siðferðilega og andlega spillingu sína. Ástand þeirra er aumkunarvert! Við höfum sannarlega ærna ástæðu til að vera staðráðin í að halda áfram að hegða okkur eins og börn ljóssins!
19. Hvaða hvatningu fáum við frá Páli að lokum um að halda áfram að hegða okkur eins og börn ljóssins?
19 Síðan, í 20. og 21. versi, leggur Páll áherslu á mikilvægi þess að læra sannleikann í fullri einlægni þannig að við séum ekki bara tengd sannleikanum heldur lifum eftir honum eins og Jesús gerði. Að lokum hvetur hann okkur í 22. til 24. versi til að afklæðast gamla persónuleikanum og íklæðast hinum nýja — einbeitt og hiklaust. Við verðum að halda áfram að beina tilheigingum hugans í heilnæma og andlega átt. Framar öllu verðum við að treysta á hjálp Jehóva til að hegða okkur eins og börn ljóssins. „Því að Guð, sem sagði: ‚Ljós skal skína fram úr myrkri!‘ — hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.“ — 2. Korintubréf 4:6.
Manst þú?
◻ Hvernig getum við ‚lært að þekkja Krist‘ nú á dögum?
◻ Hvers vegna verðum við að afklæðast gamla persónuleikanum ákveðin í bragði?
◻ Hvað er aflvaki hugans og hvernig endurnýjast hann?
◻ Hvaða eiginleikar einkenna nýja persónuleikann?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Jesús sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“
[Mynd á blaðsíðu 16]
‚Afklæðist hinum gamla manni með gjörðum hans‘ — reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegu orðbragði og lygi. — Kólossubréfið 3:8, 9.
[Mynd á blaðsíðu 17]
‚Íklæðist hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.‘ — Efesusbréfið 4:24.