Lútum ‚andanum sem lífgar‘
„Það er andinn, sem lífgar, holdið megnar ekkert.“ — JÓHANNES 6:63.
1. (a) Hvernig hjálpar Jehóva þjónum sínum að standa gegn ‚lofti‘ þessa heims og áhrifum þess? (b) Hvernig hjálpar það okkur að hafa rétt viðhorf ef við ræktum ávexti anda Guðs?
HEILAGUR andi Jehóva Guðs er okkur lífsnauðsyn ef við eigum að standa á móti áhrifum frá ‚lofti‘ eða viðhorfum þessa heims. (Efesusbréfið 2:1, 2) Við þurfum líka Biblíunnar með, en hún geymir hugsanir Guðs skráðar undir leiðsögn heilags anda. Auk þess þurfum við að hafa auðmjúkt, kristið hugarfar, þroskað við það að rækta ávexti anda Guðs — ‚kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trú, hógværð og sjálfstjórn.‘ Páll postuli hvatti: „Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins. Holdið girnist gegn andanum, og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðrum, til þess að þér gjörið ekki það, sem þér viljið.“ — Galatabréfið 5:16, 17, 22, 23.
2. Hvernig er það sem andi Guðs gefur af sér ólíkt því sem ‚andi heimsins‘ hefur í för með sér?
2 Páll skrifaði líka: „Vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði.“ (1. Korintubréf 2:12) ‚Andi‘ eða hugarfar þessa heims er banvænt, en Guð gefur eilíft líf þeim sem taka á móti anda hans. Jesús sagði: „Það er andinn, sem lífgar, holdið megnar ekkert. Orðin, sem ég hef talað til yðar, þau eru andi og þau eru líf.“ (Jóhannes 6:63) Þar eð „holdið megnar ekkert“ þörfnumst við hjálpar Guðs til að sigrast á syndinni og standa á móti anda heimsins.
3, 4. (a) Hvað er ágirnd og hvernig spilar ‚stjórnandinn yfir valdi loftsins‘ á löngun holdsins í efnislega hluti? (b) Í hvaða skilningi er ágjarn maður skurðgoðadýrkandi?
3 Í greininni á undan ræddum við um tvo hættulega efnisþætti í ‚lofti‘ þessa heims — að leika sér að því sem siðlaust er og óviðeigandi klæðnað. En efnisþættirnir eru miklu fleiri. Til dæmis er andrúmsloft þessa heims gagnsýrt ágirnd, ákafri, eigingjarnri löngun í efnislega hluti eða það að standa öðrum framar í því sambandi. ‚Stjórnandinn yfir valdi loftsins‘ hefur séð svo um að áróður og auglýsingar þessa heims gefi þér þá tilfinningu að þú njótir ekki lífsfyllingar nema þú eigir sem mest efnislegra hluta. Þessi efnisþáttur ‚lofts‘ þessa heims getur eitrað þig með þeirri hugmynd að þetta sé það sem máli skiptir í lífinu. Hefur þessi efnishyggjuandi haft einhver áhrif á þig?
4 Biblían segir: „Enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn, — sem er sama og að dýrka hjáguði, — á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.“ (Efesusbréfið 5:5) Taktu eftir að ágirnd er lögð að jöfnu við hjáguðadýrkun. Þú hugsar kannski: ‚Auðvitað geng ég ekki svo langt að verða hjáguðadýrkandi.‘ En hvað er hjáguða- eða skurðgoðadýrkun? Er hún ekki það að setja eitthvað annað í stað Jehóva og tilbeiðslunnar á honum, að gefa því gaum í stað Guðs og þjónustunnar við hann? Ágirnd getur falið í sér nánast tilbeiðslu á peningum og því valdi og áhrifum sem þeim fylgir. Ef þú lætur það að eignast nýjan bíl, myndbandstæki eða einhverja aðra efnislega hluti ganga fyrir því að auka möguleika þína í þjónustunni við Jehóva, er það þá ekki merki þess að ‚loft‘ þessa heims hafi haft einhver skaðleg áhrif á þig? Eru þá ekki efnislegir hlutir að verða eins og skurðgoð fyrir þér?
5. Á hvaða vegu hefur ‚loft‘ þessa heims fyllst eigingjarnri löngun í efni og auð?
5 Ef þú stefnir að æðri menntun eða vellaunuðu starfi, er það þá lífsþægindagræðgi sem kemur þér til þess, löngun til að hafa meira en þú þarft? Vekja tilboð um leiðir til að auðgast með skjótum hætti áhuga þinn? ‚Loft‘ þessa heims er gagnsýrt eigingjarnri löngun í peninga, og skattsvik eru frekar talin dyggð en löstur. Í þessu andrúmslofti blómstra fjárhættuspil og annað af því tagi. Láttu ekki freistast. Þeir sem forðast áhrif þessa ágjarna andrúmslofts uppskera þá ósviknu hamingju sem felst í því að láta sér nægja lífsnauðsynjar og setja hagsmunamál Guðsríkis á oddinn. — Matteus 6:25-34; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.
Rétt notkun tungunnar
6. Hvaða áhrif getur málfar þessa heims haft á kristna menn?
6 Hvernig er málfar þitt? ‚Loft‘ þessa heims er stórlega mengað klúru tali, reiðilegum orðum og lygum. Jafnvel fáeinir, sem tengdir eru kristna söfnuðinum, eru stundum ruddalegir eða jafnvel klúrir í tali. Lærisveinninn Jakob áminnir okkur harðlega: „Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir. Gefur lindin úr sama uppsprettuauga bæði ferskt og beiskt vatn?“ (Jakobsbréfið 3:10, 11) Hefur þú tekið upp eitthvað af blendingsmáli eða slanguryrðum þessa heims? Hefur þú tvenns konar orðaforða, annan til að nota meðal kristinna manna, hinn til að nota annars staðar? Páll skrifaði: „Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.“ (Efesusbréfið 4:29) Það er mikilvægt að málfar okkar sé hreint og viðeigandi undir öllum kringumstæðum!
7. Hvað felst í því að ‚leggja af lygina og tala sannleika‘?
7 Við þurfum líka að gæta þess að vera alltaf sannsögul. Það að blekkja aðra af ásettu ráði, í því skyni að komast hjá afleiðingum gerða sinna, jafngildir því að segja ósatt. Gættu þess vendilega að fara eftir ráðum Páls: „Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir.“ — Efesusbréfið 4:25; Orðskviðirnir 3:32.
8. (a) Hvernig bregst margt veraldlegt fólk við áreitni? (b) Hvað ættum við að gera ef við erum reitt til reiði?
8 Stjórnlaus reiðiköst er annað sem einkennir anda þessa heims. Margt fólk í heiminum missir auðveldlega stjórn á sér. Það rýkur upp og afsakar sig svo á eftir með því að það hafi bara verið að ‚dampa út.‘ En Páll réði okkur annað: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.“ (Efesusbréfið 4:31) En hvað getur þú gert ef þú finnur ólga með þér reiði þrátt fyrir að þú ræktir sjálfstjórn og aðra ávexti anda Guðs? „Ef þér reiðist, þá syndgið ekki,“ sagði Páll. „Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi.“ (Efesusbréfið 4:26, 27) Ef við erum reitt til reiði ættum við að útkljá málið sem fljótast, í það minnsta áður en dagurinn er úti. Að öðrum kosti getur beiskja og gremja tekið sér bólfestu í hjartanu og slíkar tilfinningar er erfitt að uppræta. Gættu þess að anda ekki að þér reiðilegu og hefnigjörnu ‚lofti‘ þessa heims! — Sálmur 37:8.
9. Hvaða viðhorf hafa margir til vinnu sinnar og vinnuveitanda og hvers vegna ber okkur að skoða vinnulag okkar gagnrýnu auga?
9 Hvað um vinnuhætti þína? Slæpingsháttur á vinnustað og þjófnaður frá vinnuveitanda er algengur nú á tímum. Hefur þú andað að þér einhverju af þessu ‚lofti‘? Hefur það hugarfar að ‚allir geri þetta‘ haft einhver áhrif á þig? Gleymdu aldrei að vinnuhættir okkar sem kristinna manna geta sýnt Jehóva og sanna guðsdýrkun í góðu eða slæmu ljósi. Myndir þú vilja að einhver hafnaði sannleikanum, sem einhver votta Jehóva ber heim að dyrum hans, vegna hátternis þíns á vinnustað? „Hinn stelvísi hætti að stela,“ sagði Páll, „og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er.“ — Efesusbréfið 4:28.
10. Hvernig getum við sýnt að við erum ekki undir áhrifum af eigingjörnu ‚lofti‘ þessa heims í sambandi við veraldlega vinnu?
10 Enda þótt þrælahald, eins og tíðkaðist á fyrstu öld, sé sjaldgæft nú orðið, geta kristnir verkamenn lært ýmislegt af því sem Páll skrifaði kristnum þrælum í Efesusbréfinu 6:5-8. Þar er verkamönnum sagt að ‚hlýða þeim sem þeir vinna fyrir, ekki eins og þeir er mönnum vilja þóknast heldur sem þrælar Krists.‘ Kristinn maður ætti því aldrei að reyna að komast hjá því að skila fullu dagsverki, eða þá að afhenda vörur eða veita þjónustu sem lofað hefur verið. Ef við gerum allt ‚eins og Jehóva ætti í hlut,‘ þá höfum við rétt viðhorf og látum ekki hið eigingjarna andrúmsloft þessa heims og leti hans hafa áhrif á okkur.
Matur, drykkur og skemmtun
11. Hvaða áhrif höfðu veraldleg viðhorf til matar og drykkjar á suma af þjónum Jehóva á biblíutímanum?
11 Hefur óhóf í mat og drykk, eins og tíðkast í heiminum, haft áhrif á þig? Viðhorf heimsins er að ‚eta, drekka og vera glaður, því að á morgun deyjum vér.‘ (1. Korintubréf 15:32) Þessi andi hefur haft áhrif á suma þjóna Guðs allt frá fornu fari. Mundu eftir því sem gerðist í eyðimörkinni þegar Ísraelsmenn ‚settust niður til að eta og drekka og stóðu síðan upp til að leika,‘ til að skemmta sér. (2. Mósebók 32:6) Sú ‚skemmtun‘ leiddi til taumleysis og skurðgoðadýrkunar með þeim afleiðingum að reiði Guðs blossaði gegn þeim. Við skulum aldrei fylgja fordæmi þeirra. — 1. Pétursbréf 4:3-6.
12. Hvað ættum við að gera ef við þurfum að bæta matar- og drykkjarvenjur okkar?
12 Jehóva hefur gefið okkur geysimikla fjölbreytni í ljúffengum, litríkum og næringarríkum mat og drykk, en hann vill að við notum þessar gjafir í hófi. Biblían fordæmir ofát og drykkjuskap. (Orðskviðirnir 23:20, 21) Vertu því heiðarlegur og spyrðu þig: Get ég bætt matar- og drykkjarvenjur mínar? Ef þú þarft að iðka meiri sjálfstjórn skaltu viðurkenna það og hegða þér í samræmi við bænir þínar um hjálp anda Guðs til að sigrast á vandamálinu. „Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum,“ sagði Páll. (Efesusbréfið 5:18) Já, láttu anda Guðs fylla þig, ekki hinn hömlulausa anda þessa heims! „Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.“ (1. Korintubréf 10:31) Ef þú átt við að glíma þrálát vandamál á þessu sviði skaltu leita hjálpar andlega þroskaðra manna í söfnuðinum. — Galatabréfið 6:1; Jakobsbréfið 5:14, 15.
13. (a) Á hverju er ljóst að djöfullinn hefur spillt stórum hluta þeirrar skemmtunar sem er í boði nú á dögum? (b) Hvernig getum við forðast viðhorf þessa heims til skemmtunar?
13 Þessi heimur er í fíkniánauð íþrótta, tónlistar og margs kyns skemmtunar. Ekkert af þessu þarf að vera rangt svo lengi sem það gengur ekki í berhögg við meginreglur Ritningarinnar. Vandinn er hins vegar sá að Satan ‚stjórnandinn yfir valdi loftsins,‘ hefur spillt stórum hluta þeirrar skemmtunar sem mönnum stendur nú til boða. (Efesusbréfið 2:2) Oft er ýtt undir siðleysi, ofbeldi sýnt í jákvæðu ljósi og árangur og velgengni er tryggð með blekkingum, svikum og jafnvel morði. Þegar við látum mata okkur á slíku skemmtiefni erum við að anda djúpt að okkur þessum viðhorfum og eituráhrif þeirra hljóta að skaða okkur. Jafnvel þegar ekki er hægt á biblíulegum forsendum að finna neitt að skemmtuninni er hætta á að við verðum háð henni, þannig að lítill tími verði eftir til andlegra hluta. Við þurfum því að vera vandfýsin. Taktu þér tíma til að njóta heilnæmrar og góðrar skemmtunar í hófi en forðastu að líkja eftir óhófi heimsins. Hvort sem ‚loft‘ þessa heims lyktar vel eða illa er það mengað og banvænt! — Orðskviðirnir 11:19.
Þjóðernishyggja og kynþáttaremba
14. Hvernig gæti ‚loft‘ þessa heims haft áhrif á okkur í sambandi við þjóðfélagsvandamál?
14 Annað mengunarefni í ‚lofti‘ þessa heims, þjóðernishyggja og kynþáttaremba, er mun hættulegra en virðist við fyrstu sýn. Sumir hafa þá röngu hugmynd að ákveðnir kynþættir séu öðrum æðri og fremri. Þjóðernishyggja hvetur fólk til að líta á sína þjóð sem öllum öðrum fremri. Margir þurfa að þola þarflausar þjáningar og fá ekki notið sjálfsögðustu mannréttinda sökum eigingirni og fordóma annarra. Afleiðingin er oft beiskja og jafnvel ofbeldisverk. Margir taka lögin í sínar hendur í trausti þess að þeir geti leyst þjóðfélagsvandamálin eftir sínum leiðum. Við gætum líka látið þessar hugmyndir hrífa okkur með sér. Þegar við horfum upp á eða líðum órétt, og heyrum síðan mál þeirra sem knýja á um þjóðfélagsbreytingar, þá gæti það haft áhrif á okkur ef við erum ekki varkár. Við gætum byrjað að víkja frá hlutleysi okkar og taka afstöðu. (Jóhannes 15:19) Enn alvarlegra er að við gætum fundið fyrir freistingu til að taka þátt í baráttu og mótmælaaðgerðum, eða jafnvel ofbeldisaðgerðum til að knýja fram breytingar.
15. Hvað ræður Biblían okkur ef við finnum tilhneigingu til að ‚hefna okkar‘?
15 Þjóðernishyggja eða kynþáttafordómar geta haft stórskaðleg áhrif á anda safnaðarins. (Samanber Postulasöguna 6:1-7.) En við höfum rétt hugarfar ef við förum eftir þessari áminningu: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,‘ segir [Jehóva].‘“ (Rómverjabréfið 12:18, 19) Þar eð allir kynþættir eru komnir af fyrstu mannlegu hjónunum og Guð fer ekki í manngreinarálit á þjóðernishyggja eða kynþáttaremba ekki heima í kristna söfnuðinum. — Postulasagan 10:34, 35; 17:26; Rómverjabréfið 10:12; Efesusbréfið 4:1-3.
Andaðu að þér ‚loftinu‘ sem lífgar
16. Hvað getur hjálpað okkur að forðast að andi þessa heims hafi áhrif á okkur?
16 Við höfum rætt um hina helstu, banvænu efnisþætti sem ‚loft‘ eða andi þessa heims er samsett úr. Þetta fúla ‚loft‘ umkringir okkur og þrýstir svo á frá öllum hliðum að það fyllir snarlega hvert það tómarúm sem við leyfum að myndist í andlegu hugarfari okkar. Hversu vel okkur tekst að standa gegn því er að miklu leyti undir því komið hve heitt við elskum það sem er hreint og réttlátt og hve mjög við hötum það sem er óhreint og illt. Ef við leggjum rækt við rétt hugarfar, í samræmi við handleiðslu anda Jehóva, þá höldum við áfram að anda að okkur réttu ‚lofti.‘ — Rómverjabréfið 12:9; 2. Tímóteusarbréf 1:7; Galatabréfið 6:7, 8.
17. Hvað ættum við að gera samstundis ef við veitum athygli að ‚loft‘ heimsins berst í átt til okkar?
17 Gættu þess vendilega að þér fari ekki að finnast góður ilmur af menguðu og fúlu ‚lofti‘ þessa heims. Stjórnandinn yfir valdi þessa ‚lofts‘ veit nákvæmlega hvað er lokkandi fyrir skilningarvitin og getur vakið löngun og girnd sem oft leiðir til syndar. (Jakobsbréfið 1:14, 15) Haltu þig á „reyklausa svæðinu,“ í andlegri paradís Jehóva. Finnir þú eim af ‚lofti‘ þessa heims bera fyrir vit þér skalt þú forða þér eins og væri það banvænt eitur. „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji [Jehóva].“ — Efesusbréfið 5:15-17.
18. Hvernig verður andi þeirra sem fá þau sérréttindi að lifa á hreinsaðri jörð?
18 Það er vilji Guðs að við þjónum honum í ráðvendni. Það hefur líf í för með sér í nýrri skipan hans sem nú er mjög nálæg. Loftið, sem við munum þá anda að okkur, verður hressandi og heilnæmt! Þar verða engin mengunarefni, aðeins hreint, lífgandi loft. Bæði hið bókstaflega andrúmsloft, og ekki síður andlegt andrúmsloft þeirra sem fá að lifa á hreinsaðri jörð, verður þannig. Þeir menn verða hlýðnir, auðmjúkir og móttækilegir fyrir handleiðslu Guðs. ‚Loft‘ þessa heims, fyllt uppreisnarhug, spillingu og óguðlegum áhrifum, verður horfið. — Opinberunarbókin 21:5-8.
19. Hverjir munu fá að lifa inn í nýja skipan Jehóva?
19 Við viljum að sjálfsögðu ekki vera meðal þeirra sem anda að sér ‚lofti‘ þessa heimskerfis þegar Jehóva í Harmagedónstríðinu hreinsar burt bæði mengunina og þá sem valda henni. Hvílíkur léttir verður það þegar gamli heimurinn er horfinn og ‚stjórnandinn yfir valdi loftsins‘ fjötraður í undirdjúpi! Allir sem elska Jehóva og það sem er hreint, gott og réttlátt verða þar. Jehóva vill hafa þá þar og mun hjálpa þeim til þess með anda sínum. Hann mun gefa þeim eilíft líf í hreinni, heilbrigðri, nýrri heimsskipan. Missum ekki þessi sérréttindi úr höndum okkar með því að anda að okkur banvænu ‚lofti‘ þessa gamla heimskerfis!
Samantekt
◻ Í hvaða skilningi er ágjarn maður skurðgoðadýrkandi?
◻ Hvernig gæti ‚loft‘ þessa heims haft áhrif á málfar þitt?
◻ Hvaða anda ættu kristnir launþegar að endurspegla í veraldlegri vinnu?
◻ Hvernig getur þú forðast að viðhorf þessa heims til matar, drykkjar og skemmtunar spilli þér?
◻ Hvaða viðhorf til kynþáttar og þjóðernis má ekki komast inn í kristna söfnuðinn?
[Mynd á blaðsíðu 13]
Er fjölskylda þín nógu sterk andlega til að standa gegn ‚lofti‘ þessa heims?
[Mynd á blaðsíðu 14]
Ef við gerum allt ‚eins og Jehóva ætti í hlut‘ munum við ekki láta eigingirni og leti þessa heims spilla okkur.