Eiginmenn — líkið eftir forystu Krists
„Kristur er höfuð sérhvers manns.“ — 1. KORINTUBRÉF 11:3.
1, 2. (a) Hvað einkennir góðan eiginmann? (b) Af hverju er nauðsynlegt að viðurkenna að Guð sé höfundur hjónabandsins?
HVAÐ einkennir góðan eiginmann? Eru það gáfur hans, líkamsburðir eða tekjur? Eða er það ástin og hlýjan sem hann sýnir í samskiptum við eiginkonu sína og börn? Margir eiginmenn sýna ekki næga ást og hlýju því að þeir stjórnast af anda heimsins og mælikvarða manna. Hvers vegna? Í meginatriðum vegna þess að þeir viðurkenna hvorki né taka til sín leiðbeiningar Guðs sem er höfundur hjónabandsins. Hann „myndaði konu af rifinu, er hann hafði tekið úr manninum, og leiddi hana til mannsins“. — 1. Mósebók 2:21-24.
2 Jesús Kristur staðfesti að Guð væri höfundur hjónabandsins þegar hann sagði við gagnrýnismenn síns tíma: „Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: ‚Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.‘ Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman [í hjónaband], má maður eigi sundur skilja.“ (Matteus 19:4-6) Lykillinn að farsælu hjónabandi er því að viðurkenna að Guð hafi stofnsett hjónabandið og að ekki sé hægt að ná árangri nema með því að fylgja leiðbeiningunum í orði hans, Biblíunni.
Hvernig geta eiginmenn náð árangri?
3, 4. (a) Hvers vegna hefur Jesús víðtæka þekkingu á hjónabandinu? (b) Hver er táknræn eiginkona Jesú og hvernig ætti eiginmaður að koma fram við eiginkonu sína?
3 Til að eiginmenn nái árangri verða þeir að kynna sér það sem Jesús sagði og fylgja fyrirmynd hans. Hann hefur víðtæka þekkingu á hjónabandinu því að hann var viðstaddur þegar fyrstu hjónin voru sköpuð og gefin saman. Jehóva Guð sagði við hann: „Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss.“ (1. Mósebók 1:26) Já, Guð var að tala við þann sem hann skapaði á undan öllu öðru, þann sem ‚stóð honum við hlið sem verkstjóri‘. (Orðskviðirnir 8:22-30) Jesús er „frumburður allrar sköpunar“ og „upphaf sköpunar Guðs“. Hann var meira að segja til áður en hinn efnislegi alheimur var skapaður. — Kólossubréfið 1:15; Opinberunarbókin 3:14.
4 Jesús er kallaður „Guðs lamb“ og honum er á táknrænan hátt lýst sem eiginmanni. Engill sagði eitt sinn: „Kom hingað, og ég mun sýna þér brúðina, eiginkonu lambsins.“ (Jóhannes 1:29; Opinberunarbókin 21:9) Hver er þessi brúður eða eiginkona lambsins? Það eru andasmurðir fylgjendur Krists sem munu ríkja með honum á himnum. (Opinberunarbókin 14:1, 3) Þess vegna ætti framkoma Jesú í garð lærisveina sinna hér á jörð að segja eiginmanni hvernig hann á að koma fram við eiginkonu sína.
5. Hverjir ættu að taka sér Jesú til fyrirmyndar?
5 Biblían gefur að vísu til kynna að Jesús sé fyrirmynd allra fylgjenda sinna eins og fram kemur í 1. Pétursbréfi 2:21: „Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ En karlmenn ættu sérstaklega að taka hann sér til fyrirmyndar. Í Biblíunni segir: „Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“ (1. Korintubréf 11:3) Þar sem Kristur er höfuð mannsins verða eiginmenn að fylgja fordæmi hans. Fjölskyldur verða því að fylgja meginreglunni um forystu til að njóta velgengni og farsældar. Auk þess verður eiginmaður að sýna eiginkonu sinni sama kærleika og Jesús sýndi í samskiptum við andasmurða lærisveina sína sem eru táknræn eiginkona hans.
Að takast á við erfiðleika í hjónabandi
6. Hvernig geta eiginmenn sýnt skynsemi þegar erfiðleikar koma upp í hjónabandinu?
6 Núna á þessum erfiðu tímum verða eiginmenn sérstaklega að líkja eftir þolinmæði Jesú, kærleika hans og staðfestu gagnvart réttlátum meginreglum. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Biblían segir með vísun í þá fyrirmynd sem Jesús gaf: „Þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar.“ (1. Pétursbréf 3:7) Þegar eiginmenn takast á við erfiðleika í hjónabandinu verða þeir að sýna skynsemi eins og Jesús gerði þegar hann stóð frammi fyrir prófraunum. Hann upplifði meiri þrengingar en nokkur annar maður en hann vissi að Satan, illir andar og þessi vondi heimur stóðu þar að baki. (Jóhannes 14:30; Efesusbréfið 6:12) Erfiðleikar komu Jesú aldrei á óvart og því ættu hjón ekki heldur að láta sér bregða þegar þau mæta „þrengingum“. Biblían segir að þeir sem gangi í hjónaband megi búast við erfiðleikum. — 1. Korintubréf 7:28.
7, 8. (a) Hvað er fólgið í því að búa með skynsemi saman við konu sína? (b) Hvers vegna eiga eiginkonur skilið að fá virðingu?
7 Biblían segir eiginmanni að ‚búa með skynsemi saman við konu sína sem veikari ker og veita henni virðingu‘. (1. Pétursbréf 3:7) Eiginmaður, sem vill njóta velþóknunar Guðs, virðir konu sína en drottnar ekki yfir henni eins og Biblían sagði að algengt yrði. (1. Mósebók 3:16) Hann metur hana mjög mikils og notar ekki líkamsstyrk sinn til að gera henni mein. Hann tekur tillit til tilfinninga hennar og sýnir henni ávallt virðingu og sæmd.
8 Af hverju ætti eiginmaður að veita konu sinni virðingu? Biblían svarar: „Því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki.“ (1. Pétursbréf 3:7) Eiginmenn verða að gera sér grein fyrir því að Jehóva lítur ekki svo á að karlmaður, sem þjónar honum, sé á nokkurn hátt æðri konu sem gerir það. Konur, sem eru Guði velþóknanlegar, hljóta sömu laun og karlmenn — það er að segja eilíft líf. Margar þeirra hljóta jafnvel líf á himnum þar sem hvorki er „karl né kona“. (Galatabréfið 3:28) Eiginmenn verða því að muna að það er trúfesti fólks sem gerir það verðmætt í augum Guðs. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða karl eða konu, eiginmann eða eiginkonu, eða jafnvel barn. — 1. Korintubréf 4:2.
9. (a) Hvers vegna ætti eiginmaður að virða konu sína að sögn Péturs? (b) Hvernig sýndi Jesús konum virðingu?
9 Síðustu orð Péturs í 1. Pétursbréfi 3:7 leggja áherslu á nauðsyn þess að eiginmaður sýni konu sinni virðingu, en þar segir: „Þá hindrast bænir yðar ekki.“ Það væri mjög alvarlegt ef það gerðist. Það gæti jafnvel orðið til þess að bænir eiginmannsins næðu alls ekki til Guðs eins og kom fyrir suma skeytingarlausa þjóna hans fyrr á tímum. (Harmljóðin 3:43, 44) Skynsamir kristnir karlmenn — bæði þeir sem eru kvæntir og þeir sem íhuga hjónaband — kynna sér því hvernig Jesús kom fram við konur. Hann bauð þeim að vera með sér og lærisveinunum í prédikunarferðum og sýndi þeim góðvild og virðingu. Við eitt tækifæri opinberaði hann nokkrum konum mjög mikilvæg sannindi á undan öðrum og sagði þeim síðan að segja karlmönnunum frá því. — Matteus 28:1, 8-10; Lúkas 8:1-3.
Gott fordæmi fyrir eiginmenn
10, 11. (a) Af hverju ættu eiginmenn öðrum fremur að kynna sér fordæmi Krists? (b) Hvernig ætti eiginmaður að sýna eiginkonunni ástúð?
10 Eins og áður kom fram líkir Biblían sambandi hjóna við samband Krists og brúðar hans, sem er söfnuður andasmurðra fylgjenda hans. Í Biblíunni segir: „Maðurinn er höfuð konunnar, að sínu leyti eins og Kristur er höfuð safnaðarins.“ (Efesusbréfið 5:23, Biblían 1912) Þessi orð ættu að hvetja eiginmenn til að kynna sér hvernig Jesús veitti fylgjendum sínum forystu. Það er forsenda þess að þeir geti fylgt fyrirmynd hans gaumgæfilega og elskað eiginkonur sínar, annast þær og veitt þeim leiðsögn eins og Kristur gerði fyrir söfnuðinn.
11 Biblían segir við kristna menn: „Elskið konur yðar, að sínu leyti eins og Kristur elskaði söfnuðinn og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hann.“ (Efesusbréfið 5:25, Biblían 1912) Í fjórða kafla Efesusbréfsins er söfnuðurinn kallaður ‚líkami Krists‘. Þessi táknræni líkami samanstendur af einstaklingum af báðum kynjum og allir stuðla þeir að því að líkaminn starfi vel. Jesús er að sjálfsögðu „höfuð líkama síns, safnaðarins“. — Efesusbréfið 4:12; Kólossubréfið 1:18, Biblían 1912; 1. Korintubréf 12:12, 13, 27.
12. Hvernig sýndi Jesús að hann elskaði söfnuðinn?
12 Jesús sýndi að hann elskaði „söfnuðinn“, táknrænan líkama sinn, með því að sinna af alúð þörfum þeirra sem myndu seinna tilheyra söfnuðinum. Tökum dæmi. Þegar lærisveinarnir voru þreyttir sagði hann: „Komið þér nú á óbyggðan stað, svo að vér séum einir saman, og hvílist um stund.“ (Markús 6:31) Og einn postulanna skrifaði eftirfarandi þegar hann lýsti atburðunum sem áttu sér stað nokkrum klukkustundum fyrir dauða Jesú: „Hann elskaði þá [sem tilheyra táknrænum líkama hans] uns yfir lauk.“ (Jóhannes 13:1) Jesús gaf eiginmönnum svo sannarlega gott fordæmi um það hvernig þeir eiga að koma fram við eiginkonur sínar.
13. Hvernig eru eiginmenn hvattir til að elska eiginkonur sínar?
13 Páll postuli hélt áfram að ræða um fordæmið sem Jesús gaf eiginmönnum og sagði: „Svo skulu þá eiginmennirnir elska konur sínar — eins og sína eigin líkami. Sá sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig, því að enginn hefir nokkuru sinni hatað sitt eigið hold, heldur elur hann það og annast, að sínu leyti eins og Kristur söfnuðinn.“ Hann bætti við: „Þér [skuluð] hver um sig elska eiginkonu sína, að sínu leyti eins og sjálfan sig.“ — Efesusbréfið 5:28, 29, 33, Biblían 1912.
14. Hvernig meðhöndlar ófullkominn eiginmaður líkama sinn og hvernig ætti hann því að koma fram við konu sína?
14 Íhugum orð Páls. Myndi nokkur heilvita maður skaða sjálfan sig vísvitandi? Ef hann ræki tána í myndi hann lemja hana vegna þess að hún lét hann hrasa? Að sjálfsögðu ekki. Auðmýkir eiginmaður sjálfan sig fyrir framan vini sína eða gerir gys að eigin veikleikum? Nei. Af hverju ætti hann þá að auðmýkja konu sína með orðum eða þaðan af verra ef hún gerði mistök? Eiginmaður ætti ekki aðeins að líta á eigin hag heldur einnig hag konu sinnar. — 1. Korintubréf 10:24; 13:5.
15. (a) Hvað gerði Jesús þegar lærisveinarnir sýndu veikleikamerki? (b) Hvað má læra af fordæmi hans?
15 Athugum hvernig Jesús sýndi lærisveinunum umhyggju þegar þeir létu í ljós veikleikamerki nóttina fyrir dauða hans. Þótt hann hefði ítrekað sagt þeim að biðja sofnuðu þeir í þrígang í Getsemanegarðinum. Skyndilega voru þeir umkringdir vopnuðum mönnum. Jesús spurði mennina: „Að hverjum leitið þér?“ Þeir svöruðu: „Að Jesú frá Nasaret.“ Þá sagði Jesús: „Ég er hann.“ Hann vissi að ‚stundin var komin‘ að hann skyldi deyja og sagði því: „Ef þér leitið mín, þá lofið þessum að fara.“ Jesús bar alltaf velferð lærisveinanna fyrir brjósti — en þeir voru hluti af táknrænni brúði hans — og hann sá til þess að þeir kæmust undan. Með því að skoða hvernig Jesús kom fram við lærisveinana getur eiginmaður fundið margar meginreglur um það hvernig hann á að koma fram við eiginkonu sína. — Jóhannes 18:1-9; Markús 14:34-37, 41.
Kærleikur Jesú stjórnaðist ekki eingöngu af tilfinningum
16. Hvaða tilfinningar bar Jesús til Mörtu en hvernig leiðrétti hann hana samt sem áður?
16 Í Biblíunni segir: „Jesús elskaði þau Mörtu og systur hennar og Lasarus.“ Hann var oft gestur á heimili þeirra. (Jóhannes 11:5) Samt sem áður hikaði hann ekki við að leiðrétta Mörtu þegar hún lagði of mikla áherslu á að undirbúa máltíð, því að þá fór hún á mis við andlega fræðslu frá honum. Hann sagði: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt.“ (Lúkas 10:41, 42) Hún átti eflaust auðvelt með að taka leiðbeiningum hans þar sem honum þótti augljóslega vænt um hana. Eiginmaður ætti sömuleiðis að sýna eiginkonu sinni góðvild og ástúð og nota vel valin orð. En þegar leiðréttingar er þörf er viðeigandi að hann tjái sig opinskátt eins og Jesús gerði.
17, 18. (a) Hvernig átaldi Pétur Jesú og hvers vegna þurfti að leiðrétta viðhorf Péturs? (b) Hvaða ábyrgð hvílir á herðum eiginmanna?
17 Við annað tækifæri útskýrði Jesús fyrir postulunum að hann yrði að fara til Jerúsalem þar sem hann myndi verða ofsóttur „af hendi öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn, en rísa upp á þriðja degi“. Þá tók Pétur hann á einmæli, fór að átelja hann og sagði: „Guð náði þig, herra, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Viðhorf Péturs mótaðist greinilega af tilfinningasemi. Leiðréttingar var þörf. Þess vegna sagði Jesús við hann: „Vík frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.“ — Matteus 16:21-23.
18 Jesús var nýbúinn að segja þeim hver vilji Guðs væri — að hann myndi líða margt og verða líflátinn. (Sálmur 16:10; Jesaja 53:12) Það var því rangt af Pétri að átelja Jesú. Já, Pétur þurfti að fá leiðréttingu, eins og við þurfum öll að fá af og til. Þar sem eiginmaðurinn er höfuð fjölskyldunnar hefur hann umboð til þess að leiðrétta fjölskyldumeðlimi, þar á meðal konuna, og hann ber ábyrgð á því. Þótt hann þurfi að sýna festu ættu orð hans að endurspegla góðvild og ástúð. Eiginmaður gæti því stundum þurft að hjálpa eiginkonunni að sjá hlutina í réttu ljósi eins og Jesús gerði þegar hann leiðrétti Pétur. Eiginmaður gæti til dæmis þurft að benda konu sinni vingjarnlega á nauðsyn þess að gera vissar breytingar ef klæðnaður hennar, skart eða förðun fer að víkja frá meginreglum Biblíunnar um látleysi. — 1. Pétursbréf 3:3-5.
Eiginmenn þurfa að sýna þolinmæði
19, 20. (a) Hvaða ágreiningur kom upp á milli postulanna og hvernig tók Jesús á málum? (b) Bar viðleitni Jesú árangur?
19 Ef það er eitthvað sem þarf að leiðrétta geta eiginmenn ekki ætlast til að þess að sjá strax árangur þótt þeir leggi sig einlæglega fram. Jesús þurfti ítrekað að leiðrétta postulana til að breyta viðhorfi þeirra. Til dæmis kom upp metingur milli þeirra og hann lét aftur á sér kræla við lok þjónustu Jesú. Þeir rifust um það hver þeirra væri talinn mestur. (Markús 9:33-37; 10:35-45) Stuttu eftir að þetta deiluefni kom upp í annað sinn hélt Jesús páskahátíðina með þeim í einrúmi. Við þetta tækifæri tók enginn þeirra frumkvæðið að því að sinna því lítilmótlega starfi að þvo fætur hinna eins og venja var. Jesús gerði það og sagði síðan: „Ég hef gefið yður eftirdæmi.“ — Jóhannes 13:2-15.
20 Eiginmaður, sem sýnir hógværð eins og Jesús, nýtur að öllum líkindum stuðnings og samvinnu eiginkonu sinnar. En hann þarf að sýna þolinmæði. Seinna þetta sama páskakvöld fóru postularnir aftur að metast um það hver þeirra væri talinn mestur. (Lúkas 22:24) Oft tekur langan tíma að breyta viðhorfi og hegðun og breytingarnar gerast stig af stigi. En það er mjög ánægjulegt þegar árangurinn er góður eins og raunin var með postulana.
21. Hvað eru eiginmenn hvattir til að hugsa um og gera í ljósi þess að mikið reynir á hjónabandið nú á dögum?
21 Núna reynir meira á hjónabandið en nokkru sinni fyrr. Margir taka ekki lengur hjúskaparheitin alvarlega. Eiginmenn, leiðið hugann að uppruna hjónabandsins. Munið að Jehóva, kærleiksríkur skapari okkar, er höfundur þess. Hann gaf okkur Jesú, son sinn, ekki aðeins sem lausnargjald og frelsara heldur líka til að setja eiginmönnum fordæmi til eftirbreytni. — Matteus 20:28; Jóhannes 3:29; 1. Pétursbréf 2:21.
Hvert er svarið?
• Hvers vegna verðum við að muna hver höfundur hjónabandsins er?
• Hvernig eru eiginmenn hvattir til að elska eiginkonur sínar?
• Hvað geta eiginmenn lært um forystuhlutverk sitt af framkomu Jesú við lærisveinana?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Af hverju ættu eiginmenn að skoða dæmi um framkomu Jesú í garð kvenna?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Jesús sýndi lærisveinunum tillitsemi þegar þeir voru þreyttir.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Eiginmaður ætti að nota vingjarnleg og vel valin orð þegar hann leiðbeinir eiginkonu sinni.