Eiginmenn, líkið eftir kærleika Krists
Á SÍÐASTA kvöldi ævi sinnar á jörðinni sagði Jesús við trúfasta postula sína: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh. 13:34, 35) Sannkristnir menn verða að elska hver annan.
Páll postuli beindi athyglinni að eiginmönnum meðal fylgjenda Krists þegar hann skrifaði: „Karlmenn, elskið konur ykkar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“ (Ef. 5:25) Hvernig getur kristinn eiginmaður farið eftir þessari hvatningu úr Biblíunni, sérstaklega ef eiginkona hans er vígður þjónn Jehóva?
Kristur bar umhyggju fyrir söfnuðinum
„Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami,“ segir í Biblíunni. „Sá sem elskar konu sína elskar sjálfan sig. Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold heldur elur hann það og annast eins og Kristur kirkjuna.“ (Ef. 5:28, 29) Jesús elskaði lærisveinana og annaðist þá. Jafnvel þótt þeir voru ófullkomnir var hann mildur og vingjarnlegur. Jesús vildi „leiða kirkjuna fram fyrir sig í dýrð“ og einbeitti sér því að góðum eiginleikum lærisveinanna. — Ef. 5:27.
Eiginmenn ættu að sýna kærleika bæði í orði og verki eins og Kristur sýndi söfnuðinum. Ef eiginmaður sýnir konunni reglulega kærleika sinn finnur hún að hún er mikils metin og er hamingjusöm. Á hinn bóginn getur kona haft öll þægindi nútímaheimilis en samt verið mjög óhamingjusöm ef hún er vanrækt af manni sínum.
Hvernig sýnir eiginmaður að honum þykir kona sín mikils virði? Hann kynnir hana fyrir öðrum á virðulegan hátt og hrósar henni opinskátt fyrir stuðning hennar. Ef konan hans hefur gegnt lykilhlutverki í einhverju sem snýr að fjölskyldunni hikar hann ekki við að segja öðrum frá því. Í einrúmi skynjar hún ástúð hans. Létt snerting, bros, faðmlag eða stöku hrós virðast ef til vill ekki vega þungt en geta samt haft varanleg áhrif á hjarta konunnar.
‚Telur eigi vanvirðu að kalla þá bræður‘
Jesús Kristur „telur . . . sér eigi vanvirðu að kalla [andasmurða fylgjendur sína] bræður“. (Hebr. 2:11, 12, 17, Biblían 1981) Ef þú ert kristinn eiginmaður skaltu muna að konan þín er líka trúsystir þín. Vígsla hennar við Jehóva hefur forgang yfir hjúskaparheit hennar hvort sem hún var skírð áður eða eftir að hún giftist þér. Þegar hún er beðin að svara á samkomum ávarpar bróðirinn, sem er við stjórn, hana á viðeigandi hátt sem ‚systur‘. Hún er líka systir þín, ekki aðeins í ríkissalnum heldur einnig heima. Það er alveg eins mikilvægt að vera hlýlegur og kurteis við hana heima eins og í ríkissalnum.
Ef þú sinnir ábyrgðarstörfum innan safnaðarins getur verið að þér finnist stundum erfitt að halda jafnvægi milli ábyrgðarinnar í söfnuðinum og í fjölskyldunni. Með góðri samvinnu milli öldunga og safnaðarþjóna og með því að dreifa verkefnum geturðu átt meiri tíma aflögu fyrir systurina sem þarfnast þín mest — konuna þína. Hafðu hugfast að eflaust eru aðrir bræður sem geta sinnt þeim verkefnunum innan safnaðarins sem þér eru úthlutuð. Þú ert hins vegar eini bróðirinn sem hefur gefið konu þinni hjúskaparheit.
Þú ert höfuð konu þinnar. Í Biblíunni er sagt: „Kristur er höfuð sérhvers karlmanns . . . karlmaðurinn er höfuð konunnar.“ (1. Kor. 11:3) Hvernig áttu að fara með þetta forustuhlutverk? Þú átt að gera það á kærleiksríkan hátt en ekki með því að vitna endurtekið í ofangreint vers og krefjast virðingar. Lykillinn að því að fara vel með þetta hlutverk er að líkja eftir Jesú Kristi í framkomu við eiginkonu þína. — 1. Pét. 2:21.
„Þér eruð vinir mínir“
Jesús kallaði lærisveinana vini. Hann sagði við þá: „ Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum“. (Jóh. 15:14, 15) Jesús átti góð samskipti við lærisveinanna. Þeir gerðu líka margt saman. „Jesú . . . og lærisveinum hans“ var boðið í brúðkaup í Kana. (Jóh. 2:2) Þeir áttu sér uppáhaldsstaði eins og Getsemanegarðinn. Í Biblíunni segir: „Jesús og lærisveinar hans höfðu oft komið þar saman.“ — Jóh. 18:2.
Eiginkonan þarf vissulega að finna að hún er nánasti félagi eiginmannsins. Það er mjög mikilvægt að hjón njóti lífsins saman. Þjónið Guði saman og njótið þess að lesa Biblíuna í sameiningu og ræða hana. Eyðið tímanum saman — gangið, spjallið og borðið saman. Verið ekki bara hjón heldur kærir vinir.
„Hann elskaði þá uns yfir lauk“
Jesús ‚elskaði lærisveina sína uns yfir lauk‘. (Jóh. 13:1) Sumum eiginmönnum mistekst að líkja eftir Kristi að þessu leyti. Þeir yfirgefa jafnvel ‚konuna sem þeir eignuðust í æsku‘, kannski fyrir yngri konu. — Mal. 2:14, 15.
Aðrir, eins og Willi, líkja eftir Kristi. Eiginkona hans þurfti á stöðugri umönnun að halda í mörg ár vegna hrakandi heilsu. Hvað fannst Willi um það? Hann segir: „Ég hef alltaf litið á konuna mína sem gjöf frá Guði og hef metið hana sem slíka. Auk þess lofaði ég fyrir 60 árum að annast hana í blíðu og stríðu. Ég mun aldrei gleyma því loforði.“
Kristnir eiginmenn, líkið eftir kærleika Krists. Hlúið að guðhræddum eiginkonum ykkar — systrum ykkar og vinum.
[Mynd á blaðsíðu 20]
Er eiginkonan nánasti félagi þinn?
[Mynd á blaðsíðu 20]
„Karlmenn, elskið konur ykkar.“