Foreldrar, hafið yndi af börnum ykkar
„Gleðjist faðir þinn og móðir þín.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 23:25.
1. Hvernig geta foreldrar haft yndi af börnum sínum?
ÞAÐ er mjög ánægjulegt að sjá ungplöntu vaxa og verða að tignarlegu tré sem skýlir og fegrar — ekki síst ef þú gróðursettir plöntuna sjálfur og annaðist hana! Biblíuorðskviður segir á sama hátt um foreldra sem hafa yndi af að annast börn sín og ala þau upp til að verða þroskaðir þjónar Guðs: „Faðir réttláts manns fagnar, og sá sem gat vitran son, gleðst af honum. Gleðjist faðir þinn og móðir þín og fagni hún, sem fæddi þig.“ — Orðskviðirnir 23:24, 25.
2, 3. (a) Hvernig geta foreldrar forðast mæðu og angur? (b) Hvers þarfnast bæði ungplöntur og börn til að verða yndisauki?
2 En barn verður ekki sjálfkrafa ‚réttlátt‘ og ‚viturt.‘ Það kostar mikla vinnu að koma í veg fyrir að börnin verði til „mæðu“ og „angurs,“ alveg eins og það getur kostað vinnu að láta litla trjáplöntu vaxa upp í tignarlegt tré. Stuðningsstaurar geta til dæmis hjálpað ungri trjáplöntu að vaxa beint og verða sterkri. Stöðug vökvun er nauðsynleg, og það getur þurft að verja plöntuna fyrir plágum. Loks er fegurðarauki að því að klippa tréð til og sníða af einstaka greinar.
3 Orð Guðs segir að börn þarfnist guðrækilegs uppeldis, vökvunar með sannleiksvatni Biblíunnar, verndar gegn siðferðilegri misnotkun, og ástríks aga til að sníða af óæskileg einkenni. Feður eru sérstaklega hvattir til að fullnægja þessum þörfum með því að ala börn sín upp „með aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:4) Hvað felur það í sér?
Áhersla á orð Jehóva
4. Hver er ábyrgð foreldra gagnvart börnum sínum og hvað þarf til að þeir geti risið undir henni?
4 ‚Umvöndun Jehóva‘ er fólgin í því að stýra hugsun barnsins þannig að hún samræmist vilja hans. Foreldrar verða því að innprenta börnum sínum viðhorf Jehóva til málanna. Og þeir verða einnig að líkja eftir því fordæmi Guðs að veita umhyggjusaman aga eða þjálfun sem leiðréttir. (Sálmur 103:10, 11; Orðskviðirnir 3:11, 12) En áður en foreldrar geta það verða þeir sjálfir að drekka orð Jehóva í sig eins og spámaðurinn Móse hvatti Forn-Ísraelsmenn til að gera: „Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst.“ — 5. Mósebók 6:6.
5. Hvenær og hvernig áttu ísraelskir foreldrar að fræða börn sín, og hvað merkir það að „brýna“?
5 Reglulegt biblíunám, hugleiðing og bæn gerir foreldrum kleift að framfylgja næstu fyrirmælum Móse: „Þú skalt brýna [orð Jehóva] fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ Hebreska orðið, sem þýtt er „brýna,“ merkir „að endurtaka,“ „að segja aftur og aftur,“ „að innprenta skýrt.“ Tökum eftir hvernig Móse lagði enn meiri áherslu á nauðsyn þess að hafa orð Jehóva alltaf fyrir hugskotssjónum: „Þú skalt binda þau til merkis á hönd þér og hafa þau sem minningarbönd á milli augna þinna og þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og á borgarhlið þín.“ Ljóst er að Jehóva krefst þess að foreldrar veiti börnum sínum ástríka athygli að staðaldri! — 5. Mósebók 6:7-9.
6. Hvað áttu foreldrar að brýna fyrir börnum sínum og með hvaða árangri?
6 Hver eru „þessi orð“ Jehóva sem foreldrar áttu að brýna fyrir börnum sínum? Móse var nýbúinn að endurtaka það sem yfirleitt er kallað boðorðin tíu, þeirra á meðal boðorðið að myrða ekki, drýgja ekki hór, stela ekki, bera ekki falsvitni og girnast ekki. Ísraelskir foreldrar áttu sérstaklega að brýna slíkar siðferðiskröfur fyrir börnum sínum, jafnframt boðinu um að ‚elska Jehóva Guð sinn af öllu hjarta sínu og af allri sálu sinni og af öllum mætti sínum.‘ (5. Mósebók 5:6-21; 6:1-5) Fellstu ekki á að það sé þess konar kennsla sem börnin þarfnast nú á dögum?
7. (a) Við hvað líkir Biblían börnum? (b) Hvað skoðum við núna?
7 Ísraelskum feðrum var sagt: „Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.“ (Sálmur 128:3) En til að foreldrar hafi yndi en ekki sorg af „trjáplöntunum“ sínum verða þeir að sýna börnunum persónulegan áhuga daglega. (Orðskviðirnir 10:1; 13:24; 29:15, 17) Við skulum skoða hvernig foreldrar geta þjálfað börn sín, vökvað þau andlega, verndað þau og agað með kærleika á þann hátt að þau séu þeim virkilega til yndisauka.
Uppeldi frá blautu barnsbeini
8. (a) Hverjir voru eins og stuðningsstaurar Tímóteusar? (b) Hvenær hófst þjálfunin og með hvaða árangri?
8 Tökum Tímóteus sem dæmi en hann fékk stuðning tveggja sterkra staura ef svo má segja — móður sinnar og ömmu. Þar eð faðir Tímóteusar var Grikki og augljóslega ekki í trúnni, var það móðir hans, Gyðingurinn Evnike, og móðir hennar, Lóis, sem kenndu drengnum ‚heilagar ritningar frá blautu barnsbeini.‘ (2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:15; Postulasagan 16:1) Þeim var ríkulega umbunuð kostgæfni sín við að kenna Tímóteusi — jafnvel á barnsaldri — ‚þau undur er Jehóva gjörði.‘ (Sálmur 78:1, 3, 4) Tímóteus varð trúboði í fjarlægum löndum, ef til vill á unglingsaldri, og gegndi veigamiklu hlutverki í að styrkja frumkristnu söfnuðina. — Postulasagan 16:2-5; 1. Korintubréf 4:17; Filippíbréfið 2:19-23.
9. Hvernig geta börn lært að forðast snörur efnishyggjunnar?
9 Foreldrar, hvers konar stuðningsstaurar eruð þið? Viljið þið til dæmis að börnin ykkar þroski með sér öfgalausa afstöðu til efnislegra hluta? Þá verðið þið sjálf að setja rétt fordæmi með því að hlaupa ekki eftir öllum nýjustu tækjunum eða öðru sem þið þarfnist ekki í raun og veru. Ef þið kjósið að sækjast eftir efnislegum hlutum, þá skuluð þið ekki undrast að börnin líki eftir ykkur. (Matteus 6:24; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Ef stuðningsstaurarnir eru ekki beinir, hvernig getur trjáplantan þá vaxið beint?
10. Leiðsagnar hvers ættu foreldrar alltaf að leita og hvaða viðhorf ættu þeir að hafa?
10 Til að hafa yndi af börnum sínum ættu foreldrar alltaf að leita hjálpar Guðs við uppeldi þeirra og velta sí og æ fyrir sér hvað sé best fyrir andlega heill barnanna. Fjögurra barna móðir segir: „Jafnvel áður en börnin fæddust báðum við Jehóva reglulega að hjálpa okkur að vera góðir foreldrar, láta orð hans leiða okkur og fara eftir því í lífinu.“ Hún bætti við: „‚Jehóva gengur fyrir‘ var ekki bara innantómur frasi heldur lifðum við þannig.“ — Dómarabókin 13:8.
Regluleg ‚vökvun‘
11. Hvað þurfa bæði ungplöntur og börn til að vaxa?
11 Ungar trjáplöntur þurfa sérstaklega að fá stöðuga vökvun eins og sjá má af því hve vel tré vaxa meðfram ám. (Samanber Opinberunarbókin 22:1, 2.) Börn dafna líka andlega ef þau fá reglulega vökvun með sannleiksvatni Biblíunnar. En foreldrar þurfa að taka mið af athyglisgáfu barna sinna. Kannski er árangursríkara að kenna þeim oft en stutt í einu heldur en sjaldan og lengi í senn. Vanmettu ekki gildi stuttra kennslustunda. Samvera er nauðsynleg til að mynda sterk tengsl milli foreldris og barns, innilegt samband sem Biblían leggur hvað eftir annað áherslu á. — 5. Mósebók 6:6-9; 11:18-21; Orðskviðirnir 22:6.
12. Hvaða gildi hefur það að biðja með börnunum?
12 Ein af samverustundunum með barninu getur verið í lok dagsins. Unglingur segir: „Foreldrar okkar sátu á rúmstokknum á hverju kvöldi og hlustuðu á bænir okkar.“ Annar unglingur sagði um gildi þessa: „Það innprentaði mér þá venju að biðja til Jehóva á hverju kvöldi áður en ég fer að sofa.“ Þegar börnin heyra foreldra sína biðja og tala daglega um Jehóva verður hann þeim raunverulegur. Ungur maður sagði: „Ég gat lokað augunum og beðið til Jehóva og séð fyrir mér raunverulega persónu sem var eins og afi. Foreldrar mínir leiddu mér fyrir sjónir að Jehóva er með í öllu sem við gerum og segjum.“
13. Hvað má meðal annars kenna í reglubundnum kennslustundum?
13 Til að hjálpa börnunum að drekka í sig sannleiksvatn Biblíunnar geta foreldrar komið víða við í reglulegri kennslu sinni. Foreldrar tveggja barna undir táningsaldri segja: „Bæði börnin fengu þjálfun í því að sitja stillt í ríkissalnum allt frá því að þau voru nokkurra vikna gömul.“ Faðir lýsir því sem fjölskylda hans gerði: „Við skrifuðum nöfn allra biblíubókanna á spjöld og skiptumst á að æfa okkur í að raða þeim í rétta röð. Krakkarnir hlökkuðu alltaf til þess.“ Margar fjölskyldur hafa stutta kennslustund annaðhvort rétt fyrir eða eftir mat. Faðir nokkur segir: „Kvöldmatartíminn hefur alltaf reynst góður fyrir okkur til að ræða daglega um biblíutexta.“
14. (a) Hvað er hægt að gera með börnunum sem er andlega auðgandi? (b) Hvernig er námsgeta barna?
14 Börnin hafa líka yndi af því að hlusta á lifandi frásögur Biblíusögubókarinnar minnar.a Hjón segja: „Þegar börnin voru lítil fórum við yfir sögu í Biblíusögubókinni, og síðan klæddust börnin búningum og léku hlutverkin í smáleikriti. Þau nutu þess og heimtuðu oft að fá meira en eina sögu í hverju námi.“ Vanmetið ekki námsgetu barna ykkar! Fjögurra ára börn hafa lært heilu kaflana í Biblíusögubókinni utan að og hafa jafnvel lært að lesa í Biblíunni! Unglingsstúlka minnist þess að þegar hún var um þriggja og hálfs árs mislas hún aftur og aftur orðið „lagaákvæði,“ en pabbi hennar hvatti hana til að halda áfram að æfa sig.
15. Hvað er hægt að gera í námstímum barnanna og af hverju má ráða að það sé gagnlegt?
15 Námsstundir barnanna má líka nota til að búa þau undir að segja öðrum frá sannleikanum, til dæmis með því að svara á samkomum. (Hebreabréfið 10:24, 25) „Ég þurfti að svara með eigin orðum í æfingatímunum,“ segir unglingur. „Ég fékk ekki bara að lesa svarið án þess að skilja það.“ Auk þess er hægt að þjálfa börn til að eiga marktækan þátt í boðunarstarfinu. Kona alin upp af guðhræddum foreldrum segir: „Við vorum aldrei bara með foreldrum okkar í þeirra starfi. Við vissum að við tókum þátt í því, þó ekki væri nema með því að hringja dyrabjöllu eða afhenda boðsmiða. Með góðum undirbúningi fyrir starf hverrar helgar vissum við hvað við áttum að segja. Við spurðum aldrei þegar við vöknuðum á laugardagsmorgni hvort við færum í starfið. Við vissum að við gerðum það.“
16. Hvers vegna er mikilvægt að fjölskyldunámið sé reglulegt?
16 Nauðsyn þess að veita börnunum sannleiksvatn Biblíunnar reglulega verður ekki undirstrikuð um of, en það merkir að fjölskyldan þarf að nema Biblíuna vikulega saman. Tveggja barna faðir segir að á þessu sviði „sé óregla mjög pirrandi fyrir börn.“ (Efesusbréfið 6:4) „Við hjónin völdum dag og stund,“ segir hann, „og höfðum fjölskyldunámið ófrávíkjanlega á þeim tíma. Það leið ekki á löngu áður en börnin voru farin að vænta þess á þeim tíma.“ Öll slík kennsla frá barnæsku er mikilvæg í samræmi við þá alkunnu visku að ‚svo vex tréð sem teinungurinn er beygður.‘
17. Hvað er ekki síður mikilvægt en að kenna börnunum biblíusannindi?
17 Fordæmi foreldranna er ekki síður mikilvægt en kennsla biblíusanninda. Sjá börnin þig nema og sækja reglulega samkomur og taka þátt í boðunarstarfinu, já, hafa yndi af því að gera vilja Jehóva? (Sálmur 40:9) Það er mikilvægt. Dóttir sagði um móður sína sem bjó við andstöðu eiginmanns síns og ól upp sex börn sem trúfasta votta: „Fordæmi mömmu hafði sterkust áhrif á okkur — það hafði meiri áhrif en orðin.“
Að vernda börnin
18. (a) Hvernig geta foreldrar veitt börnunum nauðsynlega vernd? (b) Hvers konar fræðslu fengu ísraelsk börn um kynfæri sín?
18 Á sama hátt og oft þarf að verja ungar trjáplöntur gegn skaðvöldum þarf líka að vernda börnin gegn ‚vondum mönnum‘ í þessu illa heimskerfi. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13) Hvernig geta foreldrar veitt þessa vernd? Með því að hjálpa börnunum að tileinka sér visku Guðs. (Prédikarinn 7:12) Jehóva fyrirskipaði Ísraelsmönnum — líka ‚börnunum‘ — að hlýða á upplestur lögmálsins þar sem meðal annars er minnst á rétta og ranga kynhegðun. (5. Mósebók 31:12; 3. Mósebók 18:6-24) Kynfærin eru nefnd margsinnis, meðal annars ‚eistu‘ og ‚getnaðarlimur.‘ (3. Mósebók 15:1-3, 16, NW; 21:20; 22:24; 4. Mósebók 25:8, NW; 5. Mósebók 23:10) Heimur nútímans er svo gerspilltur að börnin þurfa að vita hvernig má nota slíka líkamshluta og hvernig ekki, en allir eru þeir hluti þeirrar sköpunar sem Guð kallaði ‚harla góða.‘ — 1. Mósebók 1:31; 1. Korintubréf 12:21-24.
19. Hvað er viðeigandi að fræða börnin um í sambandi við kynfærin?
19 Æskilegt er að báðir foreldrar saman, eða uppalendur, kenni barninu að þekkja kynfæri sín. Þeir ættu síðan að útskýra að enginn annar ætti að fá að snerta þessa líkamshluta. Þar eð barnaníðingar kanna oft hvernig börn bregðast við óljósri, kynferðislegri áreitni ætti að kenna barni að veita eindregið viðnám og segja: „Ég ætla að klaga þig!“ Kenndu börnunum að þau eigi alltaf að segja frá öllum sem reyna að snerta þau á einhvern hátt sem þeim líkar ekki, jafnvel þótt þeim sé hótað öllu illu ef þau segi frá.
Að veita kærleiksríkan aga
20. (a) Hvað er líkt með aga og trjásnyrtingu? (b) Hver eru fyrstu áhrif agans en hvaða árangri skilar hann?
20 Börn hafa gott af kærleiksríkum aga líkt og tré af snyrtingu. (Orðskviðirnir 1:8, 9; 4:13; 13:1) Þegar óæskilegar greinar eru sniðnar af vaxa aðrar betur. Ef barnið þitt hugsar sérstaklega mikið um efnislega hluti eða hneigist að slæmum félagsskap eða óheilnæmri skemmtun, þá eru þessar röngu tilhneigingar eins og greinar sem sníða þarf af. Ef það er gert hjálpar það börnunum að vaxa andlega. Í byrjun getur slíkur agi virst óþægilegur alveg eins og snyrting getur verið visst áfall fyrir tré. En aginn hefur þau góðu áhrif að örva nýjan vöxt í þá átt sem þú vilt að barnið vaxi. — Hebreabréfið 12:5-11.
21, 22. (a) Hvað gefur til kynna að það sé hvorki þægilegt að veita aga né þiggja? (b) Hvers vegna ættu foreldrar ekki að veigra sér við að aga?
21 Vissulega er hvorki þægilegt að veita aga né þiggja hann. „Sonur minn eyddi talsverðum tíma með unglingi sem öldungarnir höfðu bent mér á að væri ekki góður félagsskapur,“ segir faðir nokkur. „Ég hefði átt að grípa fyrr í taumana en ég gerði. Enda þótt drengurinn flæktist ekki í neinar augljósar syndir tók það nokkurn tíma að leiðrétta hugsun hans.“ Sonurinn segir: „Ég var miður mín þegar tekið var fyrir sambandið við besta vin minn.“ En svo bætir hann við: „Þetta var skynsamleg ákvörðun því að honum var vikið úr söfnuðinum skömmu síðar.“
22 „Agandi áminningar [eru] leið til lífsins,“ segir orð Guðs. Hversu erfitt sem þér getur þótt að veita aga skaltu ekki neita börnum þínum um hann. (Orðskviðirnir 6:23; 23:13; 29:17) Þau verða þér þakklát síðar fyrir að hafa leiðrétt sig. „Ég man að ég var svo reiður við foreldra mína þegar ég var agaður,“ segir unglingur. „Núna væri ég enn reiðari ef þau hefðu neitað mér um agann.“
Umbunin er erfiðisins virði
23. Hvers vegna er öll sú ástríka umhyggja, sem lögð er í uppeldi barnanna, erfiðisins virði?
23 Enginn vafi leikur á því að það kostar mikla, daglega og ástríka athygli að ala börnin þannig upp að foreldrarnir og aðrir hafi yndi af þeim. En öll vinnan sem í þau er lögð — hvort sem þau eru bókstafleg börn okkar eða andleg — er umbunarinnar virði. Hinn aldraði Jóhannes postuli benti á það er hann skrifaði: „Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra, að börnin mín lifi í sannleikanum.“ — 3. Jóhannesarbréf 4.
[Neðanmáls]
a Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Manstu?
◻ Hvers þarfnast bæði ungplöntur og börn til að vera til yndisauka?
◻ Hvernig geta foreldrar verið eins og góðir stuðningsstaurar?
◻ Hvað er meðal annars hægt að gera í námstímum barnanna og gegn hverju ætti að kenna þeim að standa?
◻ Hvers vegna er agi gagnlegur fyrir börn eins og snyrting fyrir tré?
[Rétthafi á blaðsíðu 9]
Með góðfúslegu leyfi Green Chimney’s Farm