Faðir og öldungur — að gegna báðum skyldum
„Hvernig má sá, sem ekki hefur vit á að veita heimili sínu forstöðu, veita söfnuði Guðs umsjón?“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 3:5.
1, 2. (a) Hvernig gátu einhleypir umsjónarmenn og kvæntir en barnlausir umsjónarmenn þjónað bræðrum sínum á fyrstu öld? (b) Hvernig eru Akvílas og Priskilla mörgum hjónum nú á tímum gott fordæmi?
UMSJÓNARMENN í frumkristna söfnuðinum gátu ýmist verið einhleypir eða kvæntir, barnlausir eða feður. Eflaust gátu sumir þessara kristnu manna fylgt ráðleggingum Páls í 7. kafla 1. Korintubréfs og verið einhleypir. Jesús hafði sagt: „Sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis.“ (Matteus 19:12) Slíkir einhleypingar höfðu frelsi til að ferðast og aðstoða bræður sína, líkt og Páll og kannski sumir af ferðafélögum hans.
2 Biblían segir ekki hvort Barnabas, Markús, Sílas, Lúkas, Tímóteus eða Títus voru einhleypir. Ef þeir voru kvæntir voru þeir greinilega nógu lausir við fjölskylduábyrgð til að geta ferðast víða og sinnt ýmsum verkefnum. (Postulasagan 13:2; 15:39-41; 2. Korintubréf 8:16, 17; 2. Tímóteusarbréf 4:9-11; Títusarbréfið 1:5) Þeir kunna að hafa haft eiginkonur sínar með í för líkt og Pétur og „hinir postularnir“ sem greinilega tóku eiginkonur sínar með sér er þeir ferðuðust stað úr stað. (1. Korintubréf 9:5) Akvílas og Priskilla eru dæmi um hjón sem voru fús til að flytjast búferlum, fylgja Páli frá Korintu til Efesus, flytjast síðan til Rómar og svo aftur til Efesus. Biblían nefnir ekki hvort þau áttu börn. „Allir söfnuðir meðal heiðingjanna“ vottuðu þeim þakkir fyrir dygga þjónstu þeirra í þágu bræðranna. (Rómverjabréfið 16:3-5; Postulasagan 18:2, 18; 2. Tímóteusarbréf 4:19) Eflaust geta mörg hjón þjónað öðrum söfnuðum nú á tímum líkt og Akvílas og Priskilla, ef til vill með því að flytjast þangað sem þörfin er meiri.
Faðir og öldungur
3. Hvað bendir til að margir öldungar fyrstu aldar hafi verið kvæntir og átt börn?
3 Ætla má að langflestir kristnir öldungar á fyrstu öld hafi verið kvæntir og átt börn. Þegar Páll setti fram hæfniskröfur þeirra sem ‚sækjast eftir umsjónarstarfi‘ sagði hann að slíkir kristnir menn ættu að ‚veita góða forstöðu heimili sínu og halda börnum sínum í hlýðni með allri siðprýði.‘ — 1. Tímóteusarbréf 3:1, 4.
4. Hvers var krafist af kvæntum öldungum sem áttu börn?
4 Eins og við höfum séð var það engin kvöð á umsjónarmanni að eiga börn eða jafnvel vera kvæntur. En kvæntur kristinn maður varð að fara með viðeigandi og kærleiksríka forystu fyrir eiginkonu sinni og sýna að hann væri fær um að halda börnum sínum undirgefnum til að vera hæfur sem öldungur eða safnaðarþjónn. (1. Korintubréf 11:3; 1. Tímóteusarbréf 3:12, 13) Sérhver alvarlegur misbrestur á því að veita heimili sínu forstöðu gerði bróður óhæfan til sérréttindastarfa í söfnuðinum. Hvers vegna? Páll svarar: „Hvernig má sá, sem ekki hefur vit á að veita heimili sínu forstöðu, veita söfnuði Guðs umsjón?“ (1. Tímóteusarbréf 3:5) Ef hans eigin fjölskylda vildi ekki lúta umsjón hans, hvernig myndu aðrir þá bregðast við?
„Eiga trúuð börn“
5, 6. (a) Hvaða kröfur til barna nefndi Páll við Títus? (b) Hvers er vænst af öldungum sem eiga börn?
5 Þegar Páll gaf Títusi fyrirmæli um að skipa umsjónarmenn í söfnuðunum á Krít setti hann þessi ákvæði: „Öldungur á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, á að eiga trúuð börn, sem eigi eru sökuð um gjálífi eða óhlýðni. Því að biskup [„umsjónarmaður,“ NW] á að vera óaðfinnanlegur, þar sem hann er ráðsmaður Guðs.“ Hvað, nákvæmlega, er átt við með kröfunni um að „eiga trúuð börn“? — Títusarbréfið 1:6, 7.
6 Með orðunum „trúuð börn“ er átt við börn eða unglinga sem hafa þegar vígt Jehóva líf sitt og látið skírast, eða börn sem stefna í átt til vígslu og skírnar. Safnaðarmenn ætlast til að börn öldunga séu almennt stillt og hlýðin. Ljóst ætti að vera að öldungurinn gerir allt sem hann getur til að byggja upp trú barna sinna. Salómon konungur skrifaði: „Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ (Orðskviðirnir 22:6) En hvað þá ef barn eða unglingur, sem hefur fengið slíkt uppeldi, neitar að þjóna Jehóva eða drýgir jafnvel alvarlega synd?
7. (a) Hvers vegna er ljóst að Orðskviðirnir 22:6 eru ekki ósveigjanleg regla? (b) Hvers vegna missir öldungur ekki sjálfkrafa sérréttindi sín ef barn hans kýs ekki að þjóna Jehóva?
7 Ljóst er að það á ekki að taka orðskviðinn hér að ofan sem ósveigjanlega reglu. Hann ógildir ekki lögmálið um frjálsan vilja. (5. Mósebók 30:15, 16, 19) Þegar sonur eða dóttir kemst til vits og þroska verður hann eða hún að taka persónulega ákvörðun um vígslu og skírn. Ef öldungur hefur greinilega veitt nauðsynlega aðstoð, leiðsögn og aga en unglingurinn kýs samt ekki að þjóna Jehóva, þá er faðirinn ekki sjálfkrafa óhæfur til að gegna umsjónarstarfi. Ef öldungur á hins vegar nokkur ólögráða börn sem búa í föðurhúsum, og þau verða andlega veik og lenda í erfiðleikum hvert á fætur öðru, þá getur svo farið að hann teljist ekki lengur ‚veita heimili sínu góða forstöðu.‘ (1. Tímóteusarbréf 3:4) Kjarni málsins er sá að það ætti að vera ljóst að umsjónarmaður er að gera sitt besta til að eiga „trúuð börn, sem eigi eru sökuð um gjálífi eða óhlýðni.“a
Kvæntur ‚vantrúaðri konu‘
8. Hvernig ætti öldungur að koma fram við vantrúaða konu sína?
8 Páll skrifaði um kristna karlmenn sem áttu vantrúaðar konur: „Ef bróðir nokkur á vantrúaða konu og hún lætur sér það vel líka að búa saman við hann, þá skilji hann ekki við hana. . . . Því að . . . vantrúaða konan er helguð í bróðurnum. Annars væru börn yðar óhrein, en nú eru þau heilög. Því að . . . hvað veist þú, maður, hvort þú munir geta frelsað konuna þína?“ (1. Korintubréf 7:12-14, 16) Orðið ‚vantrúaður‘ í þessu samhengi merkir ekki konu sem hefur alls enga trú heldur konu sem er ekki vígð Jehóva. Hún gat verið Gyðingur eða trúað á heiðna guði. Nú á tímum gæti öldungur átt konu sem er annarrar trúar en hann, efasemdarkona eða jafnvel guðsafneitari. Ef hún er fús til að búa með honum ætti hann ekki að yfirgefa hana aðeins vegna ólíkra trúarskoðana. Hann ætti eftir sem áður að ‚búa með henni með skynsemi sem veikara keri og veita henni virðingu‘ í þeirri von að hann geti bjargaði henni. — 1. Pétursbréf 3:7; Kólossubréfið 3:19.
9. Hvernig ætti öldungur að bera sig að í landi þar sem hjónin hafa bæði rétt til að fræða börnin um sína trú, og hvaða áhrif ætti það að hafa á sérréttindi hans?
9 Ef umsjónarmaður á börn fer hann með viðeigandi föðurlega forystu er hann elur þau upp „með aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:4) Lög margra landa heimila báðum hjónum að veita börnum sínum trúfræðslu. Í tilviki sem þessu gæti eiginkonan krafist réttar síns til að fræða börnin um trú sína og trúarsiði, og það gæti falið í sér að fara með þau í kirkju.b Börnin ættu auðvitað að fylgja biblíufræddri samvisku sinni og taka ekki þátt í falstrúarathöfnum. Faðirinn nýtir sér rétt sinn sem fjölskylduhöfuð til að kenna börnunum og taka þau með sér á samkomur í ríkissalnum þegar hægt er. Þegar þau hafa aldur til að taka eigin ákvörðun velja þau sjálf hvaða leið þau fara. (Jósúabók 24:15) Ef samöldungar hans og safnaðarmenn sjá að hann gerir allt sem lög leyfa honum til að fræða börnin vel um veg sannleikans er hann ekki óhæfur sem umsjónarmaður.
‚Maður sem veitir góða forstöðu heimili sínu‘
10. Hver er aðalskylda öldungs ef hann er fjölskyldumaður?
10 Jafnvel öldungur, sem er faðir og á kristna eiginkonu, á ekkert auðvelt með að skipta tíma sínum og athygli rétt milli eiginkonu sinnar, barna og safnaðarábyrgðar. Ritningin er afdráttarlaus með það að kristnum föður sé skylt að annast konu sína og börn. Páll skrifaði: „Ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ (1. Tímóteusarbréf 5:8) Í sama bréfi sagði Páll að kvæntir karlmenn verði að sýna sig góða eiginmenn og feður áður en hægt sé að mæla með þeim sem umsjónarmönnum. — 1. Tímóteusarbréf 3:1-5.
11. (a) Á hvaða vegu ætti öldungur að ‚sjá fyrir sínum‘? (b) Hvernig getur það hjálpað öldungi að axla safnaðarskyldur sínar?
11 Öldungur ætti að ‚sjá fyrir‘ sínum, ekki aðeins efnislega heldur líka andlega og tilfinningalega. Hinn vitri Salómon konungur skrifaði: „Annastu verk þitt utan húss og ljúk því á akrinum, síðan getur þú byggt hús þitt,“ í merkingunni heimili. (Orðskviðirnir 24:27) Umsjónarmaður ætti því að uppbyggja konu sína og börn andlega, auk þess að fullnægja efnislegum og tilfinningalegum þörfum þeirra og sjá þeim fyrir afþreyingu. Það kostar tíma — og þann tíma getur hann ekki notað til að sinna safnaðarmálum. En sá tími getur skilað góðum arði í hamingju og andlegu hugarfari fjölskyldunnar. Ef fjölskyldan er sterk andlega er líklegt að öldungurinn geti eytt minni tíma í að leysa fjölskylduvandamál til langs tíma litið. Þá er hann í betri aðstöðu til að annast safnaðarmál. Fordæmi hans sem góður eiginmaður og faðir er til andlegs gagns fyrir söfnuðinn. — 1. Pétursbréf 5:1-3.
12. Í hvaða fjölskyldumálum ættu feður, sem eru öldungar, að gefa gott fordæmi?
12 Að veita heimili sínu góða forstöðu felur í sér að taka sér tíma til að stjórna fjölskyldunámi. Það er sérstaklega mikilvægt að öldungar gefi gott fordæmi í þessu efni, því að sterkir söfnuðir eru gerðir úr sterkum fjölskyldum. Umsjónarmaður ætti ekki að vera svo upptekinn að jafnaði við önnur þjónustusérréttindi að hann hafi ekki tíma til að nema með konu sinni og börnum. Ef svo er ætti hann að endurskoða stundaskrá sína. Hann getur þurft að endurskipuleggja eða draga úr þeim tíma sem hann notar til annarra mála, jafnvel stundum að afþakka viss sérréttindi.
Öfgalaus umsjón
13, 14. Hvaða ráð hefur ‚hinn trúi og hyggni þjónn‘ gefið öldungum sem eru fjölskyldufeður?
13 Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hvatt er til þess að sinna fjölskylduábyrgð og safnaðarskyldum af góðu jafnvægi. Um áraraðir hefur ‚hinn trúi og hyggni þjónn‘ leiðbeint öldungum þar um. (Matteus 24:45) Hinn 15. september 1959, fyrir meira en 37 árum, sagði Varðturninn (ensk útgáfa) á blaðsíðu 553 og 554: „Er kjarni málsins ekki sá að við þurfum að gæta jafnvægis milli alls þess sem af okkur er krafist. Þetta jafnvægi þarf að fela í sér að við sinnum þörfum okkar eigin fjölskyldna nægilega vel. Víst er að Jehóva Guð ætlast ekki til að maður noti allan sinn tíma í þágu safnaðarins, í að hjálpa bræðrum sínum og nágrönnum að öðlast hjálpræði, en gefi ekki gaum að hjálpræði sinnar eigin fjölskyldu. Maður ber fyrst og fremst ábyrgð á konu sinni og börnum.“
14 Varðturninn ráðlagði hinn 1. mars 1987 á blaðsíðu 14: „Sameiginleg þátttaka fjölskyldunnar í þjónustunni á akrinum eflir tengsl hennar. Hinar sérstöku þarfir barnanna útheimta þó að foreldrarnir helgi þeim hluta af frítíma sínum, kröftum og tilfinningum. Þið foreldrarnir þurfið því að gæta jafnvægis þegar þið ákveðið hve mikinn tíma þið getið notað í þágu . . . safnaðarins án þess að vanrækja andlegar, tilfinningalegar og efnislegar þarfir fjölskyldunnar. [Kristinn maður þarf] ‚fyrst og fremst að sýna rækt eigin heimili.‘ (1. Tímóteusarbréf 5:4, 8)“
15. Hvers vegna þarf öldungur, sem á konu og börn, visku og dómgreind?
15 Biblíuorðskviður segir: „Fyrir speki verður hús reist, og fyrir hyggni verður það staðfast.“ (Orðskviðirnir 24:3) Já, umsjónarmaður þarf greinilega visku og hyggni til að gera guðræðislegum skyldum sínum skil og jafnframt að uppbyggja heimili sitt. Biblían leggur honum meira en eitt umsjónarsvið á herðar. Hann hefur skyldum að gegna bæði gagnvart fjölskyldu sinni og söfnuði. Það þarf hyggni og dómgreind til að finna jafnvægið milli þessara skyldna. (Filippíbréfið 1:9, 10) Hann þarf visku til að skipa málum í rétta forgangsröð. (Orðskviðirnir 2:10, 11) Hve mjög sem honum finnst hann þurfa að rækja safnaðarsérréttindi sín ætti hann samt að muna að sem eiginmaður og faðir ber hann fyrst og fremst þá ábyrgð að annast fjölskyldu sína og vinna að hjálpræði hennar. Það er ábyrgð sem Guð leggur honum á herðar.
Góðir feður og góðir öldungar
16. Hvaða kostur er það fyrir öldung að vera faðir?
16 Öldungur, sem á þæg börn, getur verið mikils virði. Ef hann hefur lært að annast fjölskyldu sína vel er hann í aðstöðu til að hjálpa öðrum í söfnuðinum. Hann skilur vandamál þeirra betur og getur veitt ráð byggð á eigin reynslu. Þúsundir öldunga um heim allan standa sig vel sem eiginmenn, feður og umsjónarmenn.
17. (a) Hverju ætti maður, sem er bæði faðir og öldungur, aldrei að gleyma? (b) Hvernig ættu aðrir safnaðarmenn að sýna skilning?
17 Til að fjölskyldumaður geti verið öldungur verður hann að vera þroskaður kristinn maður sem annast konu sína og börn vel en getur jafnframt skipulagt mál sín þannig að hann geti sinnt öðrum í söfnuðinum. Hann ætti aldrei að gleyma að hirðastarfið hefst heima fyrir. Safnaðarmenn vita að öldungar, sem eiga konur og börn, bera bæði ábyrgð á fjölskyldu sinni og safnaðarstörfum, og þeir reyna að vera ekki óhóflega frekir á tíma þeirra. Til dæmis getur öldungur ekki alltaf dokað við eftir kvöldsamkomur ef hann á börn sem þurfa að fara í skóla næsta morgun. Aðrir safnaðarmenn ættu að skilja það og sýna samkennd. — Filippíbréfið 4:5, NW.
Öldungarnir ættu að vera okkur hjartfólgnir
18, 19. (a) Hvað hefur athugun okkar á 1. Korintubréfi 7. kafla sýnt okkur? (b) Hvernig ættum við að líta á slíka kristna menn?
18 Margir einhleypir karlmenn hafa getað fylgt ráðum Páls í 7. kafla 1. Korintubréfs og notað frelsi sitt til að þjóna hagsmunum Guðsríkis, eins og athugun okkar hefur leitt í ljós. Þá eru einnig þúsundir kvæntra og barnlausra bræðra sem sinna konum sínum vel en geta jafnframt verið góðir umsjónarmenn í söfnuðum, farandsvæðum, umdæmum og útibúum Varðturnsfélagsins með hrósunarverðum stuðningi eiginkvenna sinna. Og loks eru margir feður í næstum 80.000 söfnuðum fólks Jehóva sem bæði annast eiginkonur sínar og börn ástúðlega en taka sér jafnframt tíma til að þjóna bræðrum sínum sem umhyggjusamir hirðar. — Postulasagan 20:28.
19 Páll postuli skrifaði: „Öldungar þeir, sem veita góða forstöðu, séu hafðir í tvöföldum metum, allra helst þeir sem erfiða í orðinu og í kennslu.“ (1. Tímóteusarbréf 5:17) Já, öldungar sem veita góða forstöðu heima fyrir og í söfnuðinum, verðskulda ást okkar og virðingu. Við ættum sannarlega að ‚hafa slíka menn í heiðri.‘ — Filippíbréfið 2:29.
[Neðanmáls]
a Sjá Varðturninn 1. september 1978, bls. 23-4.
b Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 1. desember 1960, bls. 735-6.
Til upprifjunar
◻ Hvernig vitum við að margir öldungar á fyrstu öld voru fjölskyldumenn?
◻ Hvers er krafist af kvæntum öldungum, sem eiga börn, og hvers vegna?
◻ Hvað er átt við með því að eiga „trúuð börn,“ en hvað gerist ef barn öldungs kýs ekki að þjóna Jehóva?
◻ Að hvaða leyti ætti öldungur að ‚sjá fyrir sínum‘?
[Mynd á blaðsíðu 32]
Sterkar fjölskyldur mynda sterka söfnuði.