‚Styrkist í Drottni‘
„Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans.“ — EFESUSBRÉFIÐ 6:10.
1. (a) Hvaða óvenjulegt einvígi var háð fyrir 3000 árum? (b) Hvers vegna gekk Davíð með sigur af hólmi?
TVEIR stríðsmenn standa augliti til auglitis á vígvellinum með heri sína að baki sér. Sá yngri er fjárhirðir að nafni Davíð, vart kominn af unglingsaldri. Hinn heitir Golíat og er með afbrigðum stór og sterkur. Spangabrynja hans vegur næstum 60 kílógrömm og hann er með gríðarmikið spjót og stórt sverð. Davíð er ekki í neinum herklæðum og eina vopnið hans er slöngva. Risanum Golíat þykir sér misboðið að Ísraelsmaðurinn, sem skorar hann á hólm, skuli vera unglingur. (1. Samúelsbók 17:42-44) Áhorfendur í herfylkingum beggja hljóta að hafa ímyndað sér að úrslitin væru ráðin fyrir fram. En kapparnir sigra ekki alltaf í stríði. (Prédikarinn 9:11) Davíð gekk með sigur af hólmi vegna þess að hann barðist í krafti Jehóva. „Bardaginn er Drottins,“ eins og hann sagði. Biblían getur þess að Davíð hafi ‚sigrað Filistann með slöngvu og steini‘ í þessari viðureign sem átti sér stað fyrir 3000 árum. — 1. Samúelsbók 17:47, 50.
2. Í hvers konar baráttu eiga kristnir menn?
2 Kristnir menn taka ekki þátt í bókstaflegum hernaði. En þó að þeir séu friðsamir við alla menn heyja þeir andlegt stríð gegn afar öflugum andstæðingum. (Rómverjabréfið 12:18) Í síðasta kafla Efesusbréfsins lýsir Páll baráttu sem hver einasti kristinn maður á í. Hann segir: „Baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ — Efesusbréfið 6:12.
3. Hvað þurfum við að gera, samkvæmt Efesusbréfinu 6:10, til að tryggja okkur sigur?
3 Þessar „andaverur vonskunnar“ eru Satan djöfullinn og illu andarnir en þeim er mikið í mun að spilla sambandi okkar við Jehóva Guð. Þeir eru margfalt öflugri en við svo að við erum í sambærilegri aðstöðu og Davíð. Við getum ekki sigrað nema við reiðum okkur á styrk Guðs. Reyndar hvetur Páll okkur til að ‚styrkjast í Drottni og í krafti máttar hans‘. (Efesusbréfið 6:10) Eftir að hafa gefið þetta ráð lýsir postulinn þeim andlegu úrræðum og eiginleikum sem gera kristnum manni kleift að ganga með sigur af hólmi. — Efesusbréfið 6:11-17.
4. Hvað ætlum við að skoða í þessari grein?
4 Við skulum skoða nánar hvað Biblían segir um styrk og aðferðir óvinarins. Síðan veltum við fyrir okkur hvaða varnartækni við þurfum að beita til að verja okkur. Ef við fylgjum leiðbeiningum Jehóva getum við treyst að óvinirnir beri ekki sigurorð af okkur.
Glíma við andaverur vonskunnar
5. Hvernig er baráttu okkar lýst á frummálinu og hvað segir það um aðferðir Satans?
5 Páll segir að við eigum í ‚baráttu við andaverur vonskunnar í himingeimnum‘. Af þessum andaverum er auðvitað fyrst að nefna Satan djöfulinn en hann er ‚höfðingi illra anda‘. (Matteus 12:24-26) Á frummáli Biblíunnar er baráttunni líkt við glímu eða návígi. Í glímu reyna keppendur að fella hvor annan með ákveðnum brögðum. Satan reynir sömuleiðis að bregða fyrir okkur fæti svo að við missum jafnvægið í trúnni. Hvernig gerir hann það?
6. Notaðu Biblíuna til að benda á mismunandi aðferðir sem Satan getur notað til að spilla trú okkar.
6 Satan á það til að bera sig að eins og höggormur, öskrandi ljón eða jafnvel ljósengill. (2. Korintubréf 11:3, 14; 1. Pétursbréf 5:8) Hann getur notað menn til að ofsækja okkur og reyna að draga úr okkur kjark. (Opinberunarbókin 2:10) Þar sem hann hefur allan heiminn á valdi sínu getur hann notfært sér tálbeitur hans og langanir til að reyna að festa okkur í snöru sinni. (2. Tímóteusarbréf 2:26; 1. Jóhannesarbréf 2:16; 5:19) Hann getur notfært sér hugsunarhátt heimsins eða fráhvarfshugmyndir til að leiða okkur af réttri braut, rétt eins og hann blekkti Evu. — 1. Tímóteusarbréf 2:14.
7. Hvaða takmörk eru illu öndunum sett og hvaða yfirburði höfum við?
7 Satan og illu öndunum eru takmörk sett þó að þeir séu máttugir og vopn þeirra virðist öflug. Þessi illu öfl geta ekki neytt okkur til að gera eitthvað illt sem faðir okkar á himnum hefur vanþóknun á. Við höfum frjálsan vilja og ráðum yfir hugsunum okkar og athöfnum. Og við berjumst ekki ein. Staðan er sú sama og var á dögum Elísa: „Fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru.“ (2. Konungabók 6:16) Biblían fullvissar okkur um að djöfullinn flýi ef við stöndum gegn honum og gefum okkur Guði á vald. — Jakobsbréfið 4:7.
Við þekkjum aðferðir Satans
8, 9. Hvernig reyndi Satan að brjóta ráðvendni Jobs á bak aftur og hvaða andlegar hættur steðja að okkur?
8 Við þekkjum klækjabrögð Satans vegna þess að Biblían upplýsir okkur um helstu aðferðir hans. (2. Korintubréf 2:11) Hann notaði alvarlega fjárhagserfiðleika, ástvinamissi, andstöðu frá fjölskyldunni, líkamlegar þjáningar og tilhæfulausa gagnrýni falsvina gegn hinum réttláta Job. Job varð niðurdreginn og fannst Guð hafa yfirgefið sig. (Jobsbók 10:1, 2) Þó að Satan sé ekki beinlínis valdur að slíkum erfiðleikum nú á dögum leggjast þeir oft á kristna menn og hann getur notfært sér það.
9 Andlegar hættur hafa margfaldast á endalokatímanum. Við búum í heimi þar sem andleg markmið hafa mátt víkja fyrir sókn eftir efnislegum gæðum. Fjölmiðlarnir lýsa óleyfilegu kynlífi sí og æ eins og það sé gleðigjafi en ekki sorgar. Og fjöldinn ‚elskar munaðarlífið meira en Guð‘. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Hugsunarháttur heimsins getur ógnað andlegu hugarfari okkar ef við berjumst ekki fyrir trúnni. — Júdasarbréfið 3.
10-12. (a) Við hverju varaði Jesús í dæmisögunni um sáðmanninn? (b) Lýstu með dæmi hvernig hægt væri að kæfa áhugann á andlegum málum.
10 Eitt árangursríkasta herbragð Satans er að gera okkur upptekin af heiminum og efnishyggju hans. Í dæmisögunni um sáðmanninn benti Jesús á að „áhyggjur heimsins og tál auðæfanna“ gætu kæft „orðið“ um Guðsríki. — Matteus 13:18, 22.
11 Sums staðar í skógum hitabeltisins vex svonefndur kyrki-fíkjuviður. Hann vefur sig hægt um stofn annars trés og skýtur rótum umhverfis það. Með tímanum styrkist rótarkerfi sníkjutrésins og að lokum dregur það til sín mestan hluta af næringarefnunum í jarðveginum við rætur hýsilsins og skyggir á hann að miklu leyti með laufkrónu sinni. Að síðustu deyr hýsillinn.
12 Áhyggjur þessa heims og sóknin eftir auð og þægindum geta smám saman tekið til sín meira og meira af tíma okkar og kröftum, rétt eins og kyrki-fíkjuviðurinn tekur næringu og ljós frá hýslinum. Ef athygli okkar beinist æ meira að því sem er í heiminum gætum við farið að vanrækja einkanám í Biblíunni og vanið okkur á að missa af safnaðarsamkomum. Við hættum að fá andlega næringu. Andlegu hugðarefnin víkja fyrir sókn eftir veraldlegum gæðum og að síðustu erum við auðveld bráð fyrir Satan.
Við þurfum að standast
13, 14. Hvað þurfum við að gera þegar Satan gerir árás?
13 Páll hvatti trúsystkini sín til að ‚standast vélabrögð djöfulsins‘. (Efesusbréfið 6:11) Við getum auðvitað ekki yfirbugað djöfulinn og illu andana. Það verkefni hefur Guð falið Jesú Kristi. (Opinberunarbókin 20:1, 2) En þangað til Satan er rutt úr vegi þurfum við að standast árásir hans.
14 Pétur postuli minnir einnig á að við þurfum að standa einbeitt gegn Satan. „Verið algáðir, vakið,“ segir hann. „Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt. Standið gegn honum, stöðugir í trúnni, og vitið, að bræður yðar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum.“ (1. Pétursbréf 5:8, 9) Stuðningur trúsystkina okkar er reyndar ómissandi ef við viljum standast þegar Satan gerir árás eins og öskrandi ljón.
15, 16. Nefndu dæmi úr Biblíunni sem sýnir að stuðningur trúsystkina getur hjálpað okkur að vera stöðug.
15 Þegar ljón öskrar á gresjum Afríku taka antílópur í grenndinni til fótanna og hlaupa sem fætur toga uns þær eru úr allri hættu. Fílarnir eru hins vegar dæmi um gagnkvæman stuðning. Í bókinni Elephants — Gentle Giants of Africa and Asia segir: „Dæmigerð fílahjörð snýst til varnar með því að fullorðnu dýrin þjappa sér saman í hring og snúa höfðinu í átt að hættunni en ungu dýrin eru óhult inni í hringnum.“ Styrkur fílanna og gagnkvæmur stuðningur veldur því að ljón ráðast sjaldan á fíla, ekki einu sinni á kálfa.
16 Þegar Satan og illu andarnir ógna okkur þurfum við sömuleiðis að þjappa okkur þétt saman ásamt bræðrum okkar sem eru staðfastir í trúnni. Páll hafði á orði að sumir trúbræður sínir hefðu verið sér „til huggunar“ þegar hann var fangi í Róm. (Kólossubréfið 4:10, 11) Gríska orðið, sem hér er þýtt ‚huggun‘, kemur aðeins einu sinni fyrir í Grísku ritningunum. Biblíuorðabók segir að „sagnmynd orðsins sé notuð um lyf sem draga úr ertingu“. (Vine’s Expository Dictionary of New Testament Words) Stuðningur þroskaðra trúsystkina í þjónustu Jehóva getur verið eins og mýkjandi smyrsl sem linar sársaukann sem fylgir líkamlegum þjáningum eða tilfinningalegri kvöl.
17. Hvað getur hjálpað okkur að vera trúföst Guði?
17 Hvatning frá trúsystkinum getur styrkt okkur í þeim ásetningi að þjóna Guði dyggilega. Öldungar safnaðarins láta sér sérstaklega annt um að styrkja aðra í trúnni. (Jakobsbréfið 5:13-15) Reglulegt biblíunám, safnaðarsamkomur og mót eru okkur einnig hjálp til að vera trúföst. Hið sama er að segja um náið samband við Jehóva. Hvort sem við borðum, drekkum eða gerum eitthvað annað ætti okkur að langa til að gera allt Guði til dýrðar. (1. Korintubréf 10:31) Og að sjálfsögðu er nauðsynlegt að reiða sig á Jehóva og biðja til hans til að halda áfram að vera honum þóknanleg. — Sálmur 37:5.
18. Hvers vegna ættum við ekki að gefast upp þó að erfiðleikar dragi úr okkur kraft?
18 Satan gerir stundum árás þegar okkur finnst við vera andlega þróttlítil. Ljón ræðst gjarnan á veikburða skepnu. Erfiðleikar í fjölskyldunni, fjárkröggur eða veikindi geta dregið úr okkur andlegan þrótt. En gefumst ekki upp að gera það sem er Guði þóknanlegt því að Páll sagði: „Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.“ (2. Korintubréf 12:10; Galatabréfið 6:9; 2. Þessaloníkubréf 3:13) Hann átti við það að kraftur Guðs getur bætt upp mannlegan veikleika okkar, svo framarlega sem við leitum styrks hjá honum. Sigur Davíðs á Golíat sýnir að Guð getur styrkt þjóna sína og gerir það. Margir vottar Jehóva nú á tímum geta staðfest að þeir hafi fundið fyrir styrkjandi hönd Guðs þegar kreppt hefur að þeim. — Daníel 10:19.
19. Nefndu dæmi um hvernig Jehóva getur styrkt þjóna sína.
19 Hjón nokkur sögðu um þann stuðning sem Guð hafði gefið þeim: „Við höfum þjónað Jehóva saman sem hjón um langt árabil. Hann hefur blessað okkur á marga vegu og við höfum kynnst fullt af yndislegu fólki. Hann hefur líka þjálfað okkur og styrkt til að standast erfiðleika. Við skildum ekki alltaf hvers vegna eitthvað fór eins og það fór, ekkert frekar en Job gerði, en við vissum hins vegar að Jehóva var alltaf tiltækur til að hjálpa okkur.“
20. Hvernig sjáum við af Biblíunni að Jehóva styður þjóna sína alltaf?
20 Hönd Jehóva er ekki svo stutt að hann geti ekki hjálpað trúum þjónum sínum og styrkt þá. (Jesaja 59:1) Sálmaskáldið Davíð söng: „Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.“ (Sálmur 145:14) Faðirinn á himnum „ber oss dag eftir dag“ og lætur okkur í té það sem við þurfum í raun og veru. — Sálmur 68:20.
Við þurfum „alvæpni Guðs“
21. Hvernig lagði Páll áherslu á að við þyrftum að klæðast andlegum herklæðum?
21 Við höfum nú fjallað um sumar af aðferðum Satans og séð hve nauðsynlegt það er að standa stöðug gegn árásum hans. Nú beinum við athyglinni að annarri mikilvægri hjálp til að verja trú okkar. Páll postuli nefnir tvisvar í bréfi sínu til Efesusmanna eitt sem er nauðsynlegt til að sjá við vélabrögðum djöfulsins og standast í glímunni við andaverur vonskunnar. Hann skrifaði: „Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins. Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.“ — Efesusbréfið 6:11, 13.
22, 23. (a) Í hverju er hið andlega alvæpni fólgið? (b) Hvað verður skoðað í greininni á eftir?
22 Já, við þurfum að klæðast „alvæpni Guðs“. Þegar Páll skrifaði Efesusbréfið var hann í gæslu rómversks hermanns sem var kannski stundum alvopnaður. Það var hins vegar innblástur frá Guði sem fékk Pál til að ræða um alvæpnið sem allir þjónar Jehóva þurfa að bera.
23 Þetta alvæpni Guðs er fólgið í eiginleikum, sem kristinn maður þarf að þroska með sér, og í andlegum hjálpargögnum sem Guð lætur í té. Í greininni á eftir skoðum við hin andlegu herklæði hvert fyrir sig. Þannig getum við kannað hve vel við séum búin undir hinn andlega hernað. Við veltum jafnframt fyrir okkur hvernig hið prýðilega fordæmi Jesú Krists hjálpar okkur að standast í baráttunni við Satan djöfulinn.
Hvert er svarið?
• Í hvaða baráttu eiga allir kristnir menn?
• Lýstu nokkrum af baráttuaðferðum Satans.
• Hvernig geta trúsystkini styrkt okkur og stutt?
• Á hvern verðum við að reiða okkur og hvers vegna?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Kristnir menn eiga í ‚baráttu við andaverur vonskunnar‘.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Áhyggjur þessa heims geta kæft orðið um ríkið.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Trúsystkini geta verið okkur „til huggunar“ og styrktar.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Biður þú um styrk frá Guði?