Standið einarðir gegn vélabrögðum Satans
„Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.“ — EFESUSBRÉFIÐ 6:11.
1. Hvaða rök fyrir tilvist Satans eru fólgin í freistingum Jesú?
ER Satan í raun og veru til? Sumir halda því fram að orðið „Satan“ sé notað í Biblíunni aðeins til að lýsa hinu illa í manninum. Þeir neita að til sé persóna er nefnist Satan. En hvað segir Ritningin okkur? Frásagnir Matteusar og Lúkasar greina frá því að Satan hafi þrívegis freistað Krists Jesú og að Jesús hafi í öll skiptin vísað honum á bug með tilvitnun í Ritninguna. Hvers vegna notaði Jesús Hebresku ritningarnar er hann svaraði honum? Vegna þess að Satan misnotaði sér Hebresku ritningarnar í því skyni að reyna að fá hann til að syndga og bregðast sem sonur Guðs, sem hið fyrirheitna sæði. — Matteus 4:1-11; Lúkas 4:1-13.
2. Hvernig vitum við að Jesús ímyndaði sér ekki þessi átök við Satan?
2 Augljóst er að Jesús, sem er fullkominn maður, ímyndaði sér ekki þessar freistingar. (Hebreabréfið 4:15; 7:26) Sá sem freistaði hans var sami aðilinn og stóð að baki höggorminum í Eden, fyrrverandi englabróðir hans sem hafði gert uppreisn og ætlaði sér nú að hindra að 1. Mósebók 3:15 rættist. Satan vildi reyna að snúa hinu fyrirheitna sæði frá ráðvendni sinni. En Jesús þekkti vélabrögð freistarans og stóð einarður gegn honum. Hver urðu viðbrögð Satans? „Er djöfullinn hafði lokið allri freistni, vék hann frá honum að sinni.“ Jesús vék auðvitað ekki frá sjálfum sér. Satan yfirgaf hann vonsvikinn og „englar komu og þjónuðu [Jesú].“ — Lúkas 4:13; Matteus 4:11.
3. Hvað segir sagnfræðingur um mikilvægi tilvistar djöfulsins í kristninni?
3 Sagnfræðingur segir: „Að neita tilvist og þýðingu djöfulsins í kristninni gengur í berhögg við kenningu postulanna og söguþróun kristinna kenninga. Með því að það er bókstaflega merkingarlaust að skilgreina kristnina út frá öðrum forsendum en þessum er órökrétt að halda fram kristindómi án tilvistar djöfulsins. Ef djöfullinn er ekki til, þá hefur kristnin allt frá upphafi haft alrangt fyrir sér í veigarmiklu atriði.“a Þessi niðurstaða er viss áskorun fyrir alla núlifandi jarðarbúa. Gerir þú þér grein fyrir að til sé ósýnilegur óvinur sem er ráðinn í að grafa undan drottinvaldi Guðs og hollustu manna við hann?
Það sem Satan raunverulega er
4. Hvernig gat fullkomin andavera orðið Satan?
4 Satan er voldug andavera, upphaflega sköpuð af Guði sem engill eða andasonur er hafði aðgang að himneskri hirð Jehóva. (Jobsbók 1:6) Satan notaði hins vegar frjálsan vilja sinn til að snúast gegn Guði. Með slægð leiddi hann Evu og, í gegnum hana, Adam, út í óhlýðni og dauða. (2. Korintubréf 11:3) Með þeim hætti varð hann Satan sem merkir „andstæðingur“ — uppreisnarseggur, illur andi, manndrápari og lygari. (Jóhannes 8:44) Páll lýsti því þannig að ‚Satan sjálfur taki á sig ljósengilsmynd‘ þótt hann sé í raun ‚heimsdrottinn þessa myrkurs.‘ (2. Korintubréf 6:14; 11:14; Efesusbréfið 6:12) Með því að tæla aðra engla út í uppreisn leiddi hann þá burt frá ljósi Guðs út í sitt eigið myrkur. Þar með varð hann ‚höfðingi illra anda.‘ Jesús kallaði hann líka ‚höfðingja þessa heims.‘ Til að vera höfðingi verður hann augljóslega að vera til sem sköpuð andavera. — Matteus 9:34; 12:24-28; Jóhannes 16:11.
5. Hversu greinilega er Satan lýst í kristnu Grísku ritningunum?
5 Enda þótt Satans sé sjaldan getið í Hebresku ritningunum er hann gjörsamlega afhjúpaður í kristnu Grísku ritningunum — svo rækilega að við rekumst á nafnið Satan 36 sinnum og orðið djöfull 33 sinnum þar. (Sjá Comprehensive Concordance of The New World Translation of the Holy Scriptures.) Hans er líka getið með öðrum nöfnum og titlum. Jóhannes notar tvo þeirra í Opinberunarbókinni 12:9: „Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina.“ — Sjá einnig Matteus 12:24-27; 2. Korintubréf 6:14, 15.
6. Hvað merkir orðið „djöfull“?
6 Opinberunarbókin notar þarna gríska orðið diabolos sem þýtt er „djöfull.“ Að sögn grískufræðingsins J. H. Thayers merkir það bókstaflega „rógberi, falskur ákærandi.“ (Samanber 1. Tímóteusarbréf 3:11; 2. Tímóteusarbréf 3:3, Kingdom Interlinear.) W. E. Vine lýsir djöflinum þannig að hann sé „illskeyttur óvinur Guðs og manna.“b
7. Hvers vegna getur Satan einbeitt sér að þjónum Jehóva?
7 Andstæðingurinn mikli situr ekki auðum höndum. (1. Pétursbréf 5:8) Það er markmið hans að spilla öllum sannkristnum mönnum. (2. Tímóteusarbréf 3:12) Hann getur einbeitt sér að þjónum Jehóva af einni einfaldri ástæðu — hann hefur allan heiminn að þeim undanskildum á valdi sínu! (1. Jóhannesarbréf 5:19) Heimur nútímans er heimur Satans. Hann er stjórnandi hans og guð, hvort sem menn gera sér grein fyrir því eða ekki. (Jóhannes 12:31; 2. Korintubréf 4:4) Þar af leiðandi grípur hann til alls kyns slóttugra vélabragða í von um að spilla þjónum Jehóva, annaðhvort sem einstaklingum eða sem heild. Við skulum líta nánar á starfsaðferðir hans. — Markús 4:14, 15; Lúkas 8:12.
Lævís vélabrögð Satans
8. Hvernig stendur Satan vel að vígi í baráttu sinni gegn okkur?
8 Satan hefur haft langan tíma til að kynna sér mannlega sálarfræði og grandskoða mannlegt eðli með öllum sínum meðfæddu og áunnu göllum. Hann kann að spila á veikleika okkar og hégómleik. Í hvaða aðstöðu ert þú ef óvinur þinn þekkir veikleika þína en þú gerir þér sjálfur ekki grein fyrir þeim? Þá ert þú illa búinn til varnar því að þú gerir þér ekki ljóst hvar hin andlegu herklæði þín eru í ólagi. (1. Korintubréf 10:12; Hebreabréfið 12:12, 13) Þau eiga vel við orð skoska ljóðskáldsins sem kvað: ‚Ó að einhver máttur gæfi okkur að sjá okkur eins og aðrir sjá okkur! Það myndi forða okkur frá flónsku margri.‘
9. Hvernig getur farið ef við skoðum okkur ekki gagnrýnu auga og breytum því sem þarf?
9 Erum við fús til að sjá okkur með annarra augum — einkanlega eins og Guð eða Satan kunna að sjá okkur? Það kostar heiðarlega sjálfsrannsókn og vilja til að breyta sér. Sjálfsblekking er svo auðveld. (Jakobsbréfið 1:23, 24) Við eigum svo auðvelt með að leita uppi boðlegar ástæður fyrir atferli sem erfitt er að réttlæta. (Samanber 1. Samúelsbók 15:13-15, 20, 21, 24.) Það er sáraauðvelt að segja: „Nú, enginn er fullkominn!“ Það veit Satan og hann notfærir sér ófullkomleika okkar. (2. Samúelsbók 11:2-27) Það er sorglegt að gera sér ljóst, þegar komið er fram á miðjan aldur, að við erum orðin vinalaus vegna þess að við höfum vanið okkur á að vera óvingjarnleg, hranaleg eða kuldaleg; eða uppgötva að við höfum lítið eða ekkert gert til að gleðja aðra. Satan hefur kannski tekist að notfæra sér meðfædda eigingirni okkar þannig að við höfum aldrei náð að skilja kjarnann í hugarfari Krists — kærleika, hluttekningu og góðvild. — 1. Jóhannesarbréf 4:8, 11, 20.
10. Hvaða spurninga gætum við spurt okkur og hvers vegna?
10 Til að standa á móti Satan þurfum við því að líta rannsakandi í eigin barm. Höfum við veikleika sem Satan gæti notfært sér eða er að notfæra sér núna? Hættir þér til að hafa óhóflegt sjálfsálit? Finnst þér að allt þurfi alltaf að snúast um þig? Spillir afbrýði, öfund eða fégræðgi persónuleika þínum? Ert þú uppstökkur? Ert þú kuldalegur og háðskur? Þolir þú illa leiðbeiningar og gagnrýni? Bregst þú reiður við ráðum eða neitar að taka við þeim? Ef við þekkjum okkur getum við lagfært slíka galla, svo framarlega sem við erum auðmjúk. Að öðrum kosti erum við að gera okkur berskjölduð fyrir Satan. — 1. Tímóteusarbréf 3:6, 7; Hebreabréfið 12:7, 11; 1. Pétursbréf 5:6-8.
11. Á hvaða lævísan hátt reynir Satan að grafa undan andlegri heilsu okkar?
11 Satan getur líka grafið undan andlegu heilbrigði okkar með lævísum og slóttugum hætti. Setjum sem svo að við leyfum okkur að komast úr jafnvægi við það hvernig staðið er að málum í söfnuðinum eða innan skipulagsins. Oftast höfum við takmarkaðar upplýsingar um málið en eigum hins vegar auðvelt með að draga okkar ályktanir í fljótræði. Ef samband okkar við Jehóva er veikt vantar lítið á að við förum að hugsa neikvætt um sannleikann og efast um ágæti hans. Þá er næsta skrefið jafnvel að finna einhverja góða afsökun fyrir því að hlaupast undan þeirri ábyrgð sem sannleikurinn leggur mönnum á herðar. Satan sáir síðan óhollustu og sviksemi í hjörtu þeirra. Loks eru þeir fallnir frá trúnni og Satan gleðst. — Lúkas 22:3-6; Jóhannes 13:2, 27; 2. Jóhannesarbréf 9-11.
12. (a) Hvað hefur Satan tekist að fá suma til að gera? (b) Hvernig dregur Satan marga út í siðleysi?
12 Sumir láta Satan koma sér ekki aðeins til að drýgja grófa synd er haft getur í för með sér brottrekstur, heldur jafnvel að grípa til lyga og blekkinga í því skyni að villa um fyrir öldungum safnaðarins. Líkt og Ananías og Saffíra halda þeir að þeir geti blekkt englana og heilagan anda Guðs. (Postulasagan 5:1-10) Margar þúsundir hafa á síðustu árum fallið í þá gildru Satans sem siðleysi er. Djöfullinn veit að kynhvöt manna er sterk og notar heimskerfi sitt til að halda á lofti hlutverki kynlífsins í rangsnúinni mynd. (4. Mósebók 25:1-3) Ógiftir kristnir menn geta látið freistast til saurlifnaðar eða annarra siðferðisbrota. (Orðskviðirnir 7:6-23) Ef giftir kristnir menn leyfa hugum sínum og hjörtum að gæla við rangar hugsanir geta þeir hæglega framið siðferðisbrot og svikið maka sinn sem þeir hafa heitið trúnaði. — 1. Korintubréf 6:18; 7:1-5; Hebreabréfið 13:4.
13. (a) Hvernig gæti sjónvarpið mótað hugsun okkar? (b) Hvernig getum við staðið gegn slíkum áhrifum?
13 Við lifum í heimi þar sem lygar, svik og skapofsi er daglegt brauð. Satan notfærir sér fjölmiðla til hins ýtrasta til að koma spilltu hugarfari sínu á framfæri. Framhaldsþættir í sjónvarpi sýna fallegt fólk sem lifir í heimi gagnkvæmra svika og blekkinga. Ef við leyfum slíku hugarfari að hafa áhrif á okkur gætum við innan skamms farið að drýgja „smávægilegar“ syndir sem eru undanfari „alvarlegra“ synda. Lævísar uppástungur Satans geta smátt og smátt hreiðrað um sig í hugum okkar. Hvernig getum við staðið gegn slíkum áhrifum? Með því að ‚gefa djöflinum ekkert færi‘ eins og Páll ráðlagði. Það felur í sér að gæta þess hverjum við hleypum inn á heimilið gegnum sjónvarpið. Ættum við ekki að hafa viðbjóð á ofbeldisfullum, siðlausum og klúryrtum mönnum sem menga andrúmsloftið í stofunni hjá okkur? — Efesusbréfið 4:23-32.
Hvernig getum við staðið gegn Satan og verið trúföst Guði?
14. Hvaða tvíþættur ásetningur er nauðsynlegur til að standa gegn Satan og hvað útheimtir hann?
14 Hvernig getum við ófullkomnir menn varðveitt ráðvendni andspænis þessum öfluga, ofurmannlega óvini? Jakob svaraði því: „Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.“ (Jakobsbréfið 4:7) Þú veitir athygli að Jakob nefnir tvennt í leiðbeiningum sínum. Jafnhliða því að við stöndum gegn djöflinum og vilja hans verðum við að beygja okkur fyrir Guði og vilja hans. Til þess þurfum við að elska vilja Guðs og hata vilja Satans. (Rómverjabréfið 12:9) Þess vegna segir Jakob: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður. Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu.“ (Jakobsbréfið 4:8) Ef við ætlum okkur að standa á móti Satan megum við ekki vera tvístígandi eða með hálfum huga. Við höfum ekki efni á að tefla ráðvendni okkar í tvísýnu með því að prófa hve nálægt mörkum illskunnar við getum komist. Við verðum að „hata hið illa“ af krafti. — Sálmur 97:10.
15. Hvers vegna er „alvæpni Guðs“ nauðsynlegt? Lýstu með dæmi.
15 Í 6. kafla Efesusbréfsins er að finna afbragðsgóð ráð um það hvernig við getum staðist „vélabrögð“ eða ‚umsát‘ Satans. (Efesusbréfið 6:11, Nýja testamenti Odds) „Klæðist alvæpni Guðs,“ ráðleggur hann. Orðið „alvæpni“ bendir á að kristinn maður má ekkert frekar vera hirðulaus gagnvart trú sinni en rómverskur hermaður gat leyft sér að vera hirðulaus er hann bjó sig til bardaga. Hvernig ætli hermanninum farnaðist í bardaga ef hann klæddist fullum herklæðum en skildi eftir hjálm sinn og skjöld? Hann hefði getað hugsað sér: ‚Skjöldurinn er stór og hjálmurinn svo þungur. Ég þarf nú ekki að rogast með þetta.‘ Getur þú séð fyrir þér rómverskan hermann búinn til bardaga en án mikilvægustu varnartækjanna? — Efesusbréfið 6:16, 17.
16. (a) Hvernig ber okkur að nota ‚sverðið‘ að fyrirmynd Jesú? (b) Hvernig getum við verið á verði gegn ‚eldlegum skeytum‘ Satans og með hvaða árangri?
16 Reyndu líka að ímynda þér hermann án sverðs. ‚Sverð andans‘ er framúrskarandi varnarvopn þegar það er notað til að slá vopnin úr höndum Satans. ‚Sverð‘ okkar ætti alltaf að vera tiltækt. Þannig er það líka ef við vanrækjum ekki einkanám og fjölskyldunám í Biblíunni. En þetta ‚sverð, orð Guðs,‘ er þó fyrst og fremst árásarvopn. Jesús notaði það bæði til varnar og árásar. (Matteus 4:6, 7, 10; 22:41-46) Það verðum við líka að gera. Við verðum stöðuglega að skerpa mat okkar á sannleikanum. Við getum ekki varðveitt andlegt heilbrigði á grundvelli þess sem við lærðum fyrstu mánuðina eða árin í sannleikanum. Ef við endurnýjum ekki hinar andlegu rafrásir heilans dofnar andleg sjón okkar. Kostgæfni í sannri guðsdýrkun myndi dvína. Við yrðum andlega veikburða og ófær um að hrinda árásum ættingja, vina, félaga og fráhvarfsmanna sem spotta trú okkar. En Guð mun bjarga okkur frá djöflinum og ‚eldlegum skeytum‘ hans ef við erum alltaf íklædd „alvæpni Guðs.“ — Jesaja 35:3, 4.
17, 18. Gegn hverjum eigum við í baráttu og hvernig getum við sigrað?
17 Páll undirstrikaði hve hættuleg barátta kristins manns væri er hann ritaði: „Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ (Efesusbréfið 6:12) Hvernig getum við smáir menn haldið uppi vörnum og sigrað í svona ójöfnum leik? Páll endurtekur kjarna málsins og segir: „Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér geti veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.“ (Efesusbréfið 6:13) Veittu athygli orðunum „þegar þér hafið sigrað allt.“ Hér er ekkert rúm fyrir hálfvelgju eða kæruleysi gagnvart kristinni trú. — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.
18 Við skulum því halda öruggri fótfestu í sannleikanum, elska réttlæti Jehóva, prédika fagnaðarboðskap friðarins, og halda með sterkri trú fast í það frelsi sem Jehóva veitir fyrir milligöngu Krists Jesú og reiða okkur í öllu á orð Guðs. (Efesubréfið 6:14-17) Munum að Guði er annt um okkur og hann mun hjálpa okkur að sigrast á þeim þrengingum og áhyggjum sem verða á vegi okkar í heimskerfi Satans. Megum við öll hlýða aðvöruninni: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“ Já, „standið gegn honum, stöðugir í trúnni.“ — 1. Pétursbréf 5:6-9.
19. (a) Hvað er enn fremur nauðsynlegt til að standa gegn Satan? (b) Hvað á eftir að verða um Satan?
19 Við skulum ekki gleyma einum mikilvægasta fylgibúnaði ‚alvæpnisins‘ sem Páll nefnir. Hann segir: „Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið því árvakrir og staðfastir í bæn fyrir öllum heilögum.“ (Efesusbréfið 6:18) Ósýnilegur óvinur okkar er svo öflugur að við þurfum á að halda alls konar „bæn og beiðni.“ Bænir okkar þurfa sannarlega að vera einlægar og fjölbreyttar. Við verðum að bera óhagganlegt traust til Jehóva ef við ætlum okkur að sigra í bardaganum og varðveita ráðvendni. Aðeins hann getur gefið „ofurmagn kraftarins“ sem getur gert okkur fært að standa gegn hinum óþreytandi óvini okkar. Hvílík hughreysting er það ekki að vita að hinn mikli óvinur verður bráðlega fjötraður og síðan tortímt endanlega! — 2. Korintubréf 4:7; Opinberunarbókin 20:1-3, 10.
[Neðanmáls]
a Satan — The Early Christian Tradition eftir Jeffrey Burton Russell, bls. 25.
b An Expository Dictionary of New Testament Words.
Veistu svarið?
◻ Hvernig vitum við að Satan er raunveruleg persóna?
◻ Hvaða önnur nöfn og titlar lýsa Satan vel?
◻ Hvernig getur sjálfsrannsókn hjálpað okkur að standa gegn lævísum árásum Satans?
◻ Hvaða ráð munu hjálpa okkur að sigra Satan og hvers vegna?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Ein leið til að standa gegn áhrifum Satans er sú að vera mannblendinn, hjálpsamur og kærleiksríkur.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Við ættum að gæta þess að vera ekki eins og Ananías og Saffíra sem létu undan Satan.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Það má ekki vanta neinn hluta hinna andlegu herklæða ef þau eiga að vernda okkur gegn skeytum Satans.