Stendur þú gegn anda heimsins?
„Vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði.“ — 1. KORINTUBRÉF 2:12.
1, 2. Hvaða hörmulegur atburður, þar sem eitruð lofttegund kom við sögu, átti sér stað í Bhopal á Indlandi, en hvaða enn banvænni „lofttegund“ anda menn að sér um allan heim?
KALDA desembernótt árið 1984 átti sér stað hörmulegur atburður í Bhopal á Indlandi. Þar í borg er efnaverksmiðja og þessa desembernótt brást loki í einum af gasgeymunum. Skyndilega fór metýlísósýanat að streyma út í loftið í tonnatali. Þessi banvæna lofttegund barst með vindinum og þyrlaðist inn í hús og yfir sofandi fjölskyldur. Tala látinni skipti þúsundum og margir fleiri urðu örkumla. Þetta var versta iðnaðarslys til þess tíma.
2 Menn urðu hryggir þegar þeir fréttu af Bhopal. En þótt lofttegundin, sem þar losnaði úr læðingi, hafi verið banvæn drap hún miklu færra fólk en ferst andlega af völdum „lofttegundar“ sem fólk um allan heim andar daglega að sér. Biblían kallar hana „anda heimsins.“ Páll postuli lýsti þessu banvæna andrúmslofti sem andstæðu andans frá Guði þegar hann sagði: „En vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði, til þess að vér skulum vita, hvað oss er af Guði gefið.“ — 1. Korintubréf 2:12.
3. Hvað er ‚andi heimsins‘?
3 Hvað er ‚andi heimsins‘ nákvæmlega? Samkvæmt The New Thayer’s Greek English Lexicon of the New Testament er almenn merking orðsins „andi“ (pneuma á grísku) „tilhneigingar eða áhrif sem fylla og stjórna sál hvers manns.“ Einstaklingur getur haft góðan eða slæman anda eða tilhneigingar. (Sálmur 51:12; 2. Tímóteusarbréf 4:22) Hópur fólks getur einnig haft anda eða ráðandi tilhneigingar. Páll postuli skrifaði vini sínum Fílemon: „Náðin Drottins vors Jesú Krists sé með anda yðar.“ (Fílemonsbréfið 25) Á svipaðan hátt — en í miklu stærri mæli — hefur heimurinn almennt ráðandi tilhneigingar og það er ‚andi heimsins‘ sem Páll vísaði til. Samkvæmt riti Vincents, Word Studies in the New Testament, „þýðir þetta orðasamband þá illskuuppsprettu sem knýr hinn forherta heim.“ Það er hin synduga hneigð sem gagnsýrir hugsunarhátt þessa heims og hefur öflug áhrif á það hvernig fólk hegðar sér.
4. Hver er uppspretta anda heimsins og hvaða áhrif hefur þessi andi á menn?
4 Þessi andi er eitraður. Hvers vegna? Vegna þess að hann kemur frá ‚höfðingja þessa heims,“ Satan. Raunar er hann kallaður ‚valdhafinn í loftinu, andi þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa.‘ (Jóhannes 12:31; Efesusbréfið 2:2) Það er erfitt að losna undan þessu ‚lofti‘ eða „anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa.“ Það er alls staðar í mannlegu samfélagi. Ef við öndum því að okkur byrjum við að taka upp viðhorf þess, markmið þess. Andi heimsins hvetur okkur til að ‚lifa að hætti heimsins,‘ það er að segja í samræmi við syndugan ófullkomleika okkar. Hann er banvænn „því að ef þér lifið að hætti holdsins, munuð þér deyja.“ — Rómverjabréfið 8:13.
Að forðast anda þessa heims
5. Hvernig brást vottur viturlega við þegar hörmungarnar gerðust í Bhopal?
5 Þegar óhappið gerðist í Bhopal vaknaði einn vottur Jehóva við sírenur og ramma lykt eiturgassins. Tafarlaust dreif hann fjölskyldu sína á fætur og hraðaði sér með hana út á götu. Hann dokaði við aðeins andartak til að gæta að vindáttinni en ruddi sér síðan braut gegnum ráðvilltan manngrúann og fór með fjölskyldu sína upp á hæð fyrir utan borgina. Þar gátu þau fyllt lungun fersku, hreinu lofti sem blés af stöðuvatni þar skammt frá.
6. Hvert getum við farið til að komast undan anda heimsins?
6 Er til staður sem rís hátt og við getum farið á til að komast undan eitruðu „lofti“ þessa heims? Biblían segir svo vera. Spámaðurinn Jesaja leit fram til okkar daga og skrifaði: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús [Jehóva] stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu allir lýðirnir streyma. Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall [Jehóva], til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum,‘ því að frá Síon mun kenning út ganga og orð Jehóva frá Jerúsalem.“ (Jesaja 2:2, 3) Þessi háreisti staður sannrar tilbeiðslu, „fjall það, er hús [Jehóva] stendur á“ og gnæfir yfir annað, er eini staðurinn á þessum hnetti sem er laus við kæfandi og eitraðan anda heimsins. Það er þar sem andi Jehóva leikur óhindraður um trúfasta kristna menn.
7. Hvernig hafa margir bjargast undan anda heimsins?
7 Margir sem áður önduðu að sér anda heimsins hafa notið sams konar léttis og þessi vottur í Bhopal fékk að reyna. Eftir að hafa rætt um þá „sem ekki trúa,“ sem anda að sér lofti eða anda þessa heims, segir Páll postuli: „Vér lifðum fyrrum allir eins og þeir í mannlegum girndum vorum. Þá lutum vér vilja holdsins og hugsana vorra og vorum að eðli til reiðinnar börn alveg eins og hinir. En Guð er auðugur að miskunn. Af mikilli elsku sinni, sem hann gaf oss, hefur hann endurlífgað oss með Kristi.“ (Efesusbréfið 2:3-5) Þeir sem anda engu öðru að sér en banvænu lofti þessa heimskerfis eru dauðir í andlegum skilningi. En, þökk sé Jehóva, þá flýja núna milljónir manna til andlega hálendisins og komast frá þessum lífshættulegu aðstæðum.
Hvernig ‚andi heimsins‘ birtist
8, 9. (a) Hvað sýnir að við verðum sífellt að vera á verði gegn anda heimsins? (b) Hvernig gæti andi Satans spillt okkur?
8 Hið banvæna loft Satans er enn á sveimi í kringum okkur. Við verðum að vera á verði og megum aldrei hrekjast niður hlíðarnar, inn í heiminn aftur, þar sem við síðan köfnum ef til vill andlega. Þetta kallar á óslitna árvekni. (Lúkas 21:36; 1. Korintubréf 16:13) Hugleiddu til dæmis þessa staðreynd: Öllum kristnum mönnum er kunnugt um siðferðismælikvarða Jehóva og myndu aldrei fallast á að óhreint hátterni eins og hórdómur, saurlifnaður og kynvilla sé boðlegt. Samt eru um það bil 40.000 einstaklingar reknir úr skipulagi Jehóva á hverju ári. Hvers vegna? Í mörgum tilvikum einmitt vegna þessa óhreina hátternis. Hvernig getur það gerst?
9 Það gerist vegna þess að við erum öll ófullkomin. Holdið er veikt og við verðum sífellt að berjast gegn röngum tilhneigingum sem gera vart við sig í hjarta okkar. (Prédikarinn 7:20; Jeremía 17:9) En andi heimsins verkar líka eggjandi á þessar röngu tilhneigingar. Margir í heiminum sjá ekkert rangt við siðleysi og sú hugmynd að maður geti leyft sér allt er eitt af því sem heimskerfi Satans hneigist að. Ef við gerum okkur berskjölduð fyrir slíkum hugsunarhætti eru verulegar líkur á að við förum að hugsa eins og heimurinn. Áður en langt um líður kunna slíkar óhreinar hugsanir að geta af sér rangar langanir sem leiða að lokum til alvarlegrar syndar. (Jakobsbréfið 1:14, 15) Við höfum þá reikað niður af fjalli Jehóva, þar sem hrein tilbeiðsla fer fram, og erum komin niður á hið mengaða láglendi heims Satans. Enginn sem af fúsum vilja heldur áfram að vera þar mun erfa eilíft líf. — Efesusbréfið 5:3-5, 7.
10. Hvernig birtist loft Satans meðal annars og hvers vegna ættu kristnir menn að forðast það?
10 Merki um anda heimsins sjást allt í kringum okkur. Sem dæmi má nefna hið óskammfeilna, kaldhæðna viðhorf sem margir hafa til lífsins. Þeir tala af virðingarleysi um jafnvel alvarleg mál því að spilltir eða óhæfir stjórnmálamenn og siðlausir og ágjarnir trúarleiðtogar hafa valdið þeim miklum vonbrigðum. Kristnir menn streitast móti þessari tilhneigingu. Þótt við kunnum að hafa heilbrigt skopskyn forðumst við að koma með kaldhæðinn óvirðingaranda inn í söfnuðinn. Tal kristins manns endurspeglar ótta við Jehóva og hreint hjarta. (Jakobsbréfið 3:10, 11; samanber Orðskviðina 6:14.) Hvort sem við erum ung eða gömul ætti tal okkar ‚ætíð að vera ljúflegt, en salti kryddað, til þess að við vitum hvernig við eigum að svara hverjum manni.‘ — Kólossubréfið 4:6.
11. (a) Hver er önnur ásýnd anda heimsins? (b) Hvers vegna ættu kristnir menn að vera ólíkir þeim sem endurspegla þessa ásýnd anda heimsins?
11 Hatur er önnur algeng hneigð sem endurspeglar anda heimsins. Heimurinn er sundraður vegna haturs og illdeilna sem stafa af ágreiningi milli kynþátta, menningarsamfélaga, þjóða og jafnvel einstaklinga. Hversu miklu betri eru ekki samskipti manna þar sem andi Guðs starfar. Páll postuli skrifaði: „Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir [Jehóva].‘ En ‚ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. Með því að gjöra þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum.‘ Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.“ — Rómverjabréfið 12:17-21.
12. Hvers vegna forðast kristnir menn efnishyggju?
12 Andi heimsins örvar menn einnig til efnishyggju. Margir eru sífellt að með hugann bundinn við nýjustu tækin, nýjustu tísku og nýjustu bílana og viðskiptaheimurinn hvetur þá til þess. „Fýsn augnanna“ heldur þeim föngnum. (1. Jóhannesarbréf 2:16) Flestir mæla velgengni sína í lífinu út frá stærð húsa sinna eða bankainnistæðu. Kristnir menn, sem anda að sér hreinu, andlegu lofti á hinu háa fjalli Jehóva þar sem hrein tilbeiðsla fer fram, spyrna gegn þessari tilhneigingu. Þeir vita að einbeitt eftirsókn í efnislega hluti getur verið mjög skaðleg. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Jesús áminnti lærisveina sína: „Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.“ — Lúkas 12:15.
13. Í hvaða fleiri myndum birtist andi þessa heims?
13 Hið óheilnæma „loft“ heimsins birtist í fleiri myndum. Uppreisnarandinn er ein þeirra. (2. Tímóteusarbréf 3:1-3) Hefur þú tekið eftir að margir eru ekki samstarfsfúsir við þá sem stjórna? Hefur þú á vinnustað þínum orðið var við hinn útbreidda ósið að vinna ekki nema einhver sé beint að fylgjast með? Hversu marga þekkir þú sem hafa brotið lögin — ef til vill svikið undan skatti eða stolið einhverju á vinnustað sínum? Ef þú ert enn í skóla hefur þá sú vitneskja að bekkjarfélagar þínir líti niður á þá sem standa sig vel í námi einhvern tíma latt þig frá að gera þitt besta? Á alla þessa vegu birtist andi heimsins sem kristnir menn verða að standa gegn.
Hvernig má standa gegn anda heimsins
14. Á hvaða vegu eru kristnir menn ólíkir þeim sem eru ekki kristnir?
14 Hvernig getum við samt staðið gegn anda heimsins þegar við búum í raun í heiminum? Við verðum að muna að hvar sem við erum líkamlega niðurkomin erum við andlega ekki af heiminum. (Jóhannes 17:15, 16) Við keppum ekki að því sama og heimurinn. Við sjáum hlutina í öðru ljósi. Við erum andlegt fólk, tölum og hugsum „ekki með orðum, sem mannlegur vísdómur kennir, heldur með orðum, sem andinn kennir, og útlistum andleg efni á andlegan hátt.“ — 1. Korintubréf 2:13.
15. Hvernig getum við staðið gegn anda heimsins?
15 Hvað getur sá gert sem finnur að hann er á svæði sem mengað er eiturgufum? Hann gæti annaðhvort sett á sig gasgrímu sem tengd er hreinum loftgjafa eða hann gæti komið sjálfum sér burt af svæðinu. Leiðin til að forðast loft Satans sameinar þessar tvær aðferðir. Í þeim mæli sem hægt er reynum við að koma okkur líkamlega í burt frá hverju því sem myndi leyfa anda heimsins að hafa áhrif á hugsunarhátt okkar. Af þeim sökum forðumst við rangan félagsskap og við skemmtum okkur ekki við nokkuð það sem heldur á lofti ofbeldi, siðleysi, spíritisma, uppreisn eða nokkrum öðrum verkum holdsins. (Galatabréfið 5:19-21) En þar sem við lifum í heiminum getum við ekki algerlega forðast að komast í snertingu við þessa hluti. Þess vegna breytum við skynsamlega ef við tengjum okkur við andlegar birgðir af hreinu lofti. Við fyllum andlegu lungun, ef svo má segja, með reglulegri samkomusókn, einkanámi, kristinni starfsemi og félagsskap og bæn. Ef eitthvað af lofti Satans skyldi seytla inn í lungu okkar styrkir andi Guðs okkur á þennan hátt til að hafna því. — Sálmur 17:1-3; Orðskviðirnir 9:9; 13:20; 19:20; 22:17.
16. Hvernig berum við þess vitni að við höfum anda Guðs?
16 Andi Guðs gerir kristinn mann að einstaklingi sem er áberandi ólíkur þeim sem tilheyra heiminum. (Rómverjabréfið 12:1, 2) Páll sagði: „Ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi. Gegn slíku er lögmálið ekki.“ (Galatabréfið 5:22, 23) Andi Guðs veitir kristnum manni einnig gleggri skilning á málum. Páll sagði: „Enginn [hefur] komist að raun um, hvað Guðs er, nema Guðs andi.“ (1. Korintubréf 2:11) Almennt séð felur ‚það sem Guðs er‘ í sér slík sannindi eins og lausnarfórnina, Guðsríki undir stjórn Jesú Krists, vonina um eilíft líf og yfirvofandi eyðingu þessa illa heims. Með hjálp anda Guðs þekkja kristnir menn þetta og viðurkenna það sem sannleika og þess vegna hafa þeir öðruvísi lífsviðhorf en fólk sem er af heiminum. Það nægir þeim að fá gleði sína af því að þjóna Jehóva núna og eiga þá von að geta þjónað honum að eilífu.
17. Hver gaf besta fordæmið í að standa gegn anda þessa heims, og hvernig?
17 Jesús var besta fordæmið fyrir þá sem standa gegn anda þessa heims. Skömmu eftir skírn Jesú reyndi Satan að beina honum frá því að þjóna Jehóva með því að leggja fyrir hann þrjár freistingar. (Matteus 4:1-11) Sú síðasta fól í sér þann möguleika að Jesús gæti orðið stjórnandi alls heimsins ef hann aðeins tilbæði Satan einu sinni. Jesús hefði getað ályktað sem svo: ‚Jæja, ég ætla að tilbiðja hann og síðan, þegar ég hef fengið yfirráð yfir heiminum, ætla ég að iðrast og snúa mér aftur að tilbeiðslunni á Jehóva. Sem stjórnandi heimsins verð ég í miklu betri aðstöðu til að koma mannkyninu að gagni en ég er núna sem trésmiður frá Nasaret.‘ Jesús ályktaði ekki þannig. Hann var fús til að bíða uns Jehóva gæfi honum heimsyfirráð. (Sálmur 2:8) Við þetta tækifæri, og við öll önnur tækifæri í lífi sínu, stóðst hann hin eitruðu áhrif af lofti Satans. Þannig sigraði hann þennan andlega mengaða heim. — Jóhannes 16:33.
18. Hvernig er það Guði til lofs að við stöndum gegn anda heimsins?
18 Pétur postuli sagði að við ættum að feta nákvæmlega í fótspor Jesú. (1. Pétursbréf 2:21) Hvaða betri fyrirmynd gætum við haft? Á þessum síðustu dögum sökkva menn, undir áhrifum anda heimsins, æ dýpra í spillingu og óeðli. Það er vissulega dásamlegt að mitt í slíkum heimi skuli hinn háreisti tilbeiðslustaður Jehóva standa upp úr flekklaus og hreinn. (Míka 4:1, 2) Sannarlega má sjá máttinn í anda Guðs í því að milljónir streyma núna upp til tilbeiðslustaðar Guðs, standa gegn anda þessa heims sem gagnsýrir allt og eru Jehóva til heiðurs og vegsemdar. (1. Pétursbréf 2:11, 12) Megum við öll vera staðráðin í að halda okkur á þeim háa stað uns smurður konungur Jehóva fjarlægir þennan illa heim og varpar Satan djöflinum og illum öndum hans í undirdjúpið. (Opinberunarbókin 19:19–20:3) Þá verður andi þessa heims ekki lengur til. Hvílíkur blessunartími verður það!
Getur þú útskýrt?
◻ Hvað er andi heimsins?
◻ Hvaða áhrif hefur andi þessa heims á einstaklinga?
◻ Hvernig birtist andi heimsins á ýmsan hátt og hvernig getum við forðast hann?
◻ Hvernig sýnum við að við höfum anda Guðs?
◻ Hvað blessanir veitast þeim sem standa gegn anda heimsins?
[Mynd á blaðsíðu 16]
Andi heimsins er frá Satan.
Til að forðast anda heimsins skaltu flýja til tilbeiðslustaðar Jehóva sem gnæfir hátt.