Eruð þið „rótfest og grundvölluð“ í trúnni?
HEFURÐU einhvern tíma horft á hátt tré svigna í miklum stormi? Það mæðir mikið á trénu en samt stendur það fast. Af hverju? Af því að sterkar rætur þess ná langt niður í jarðveginn. Við getum verið eins og þetta tré. Þegar stormar geisa í lífi okkar getum við einnig staðist ef við erum „rótfest og grundvölluð“ í trúnni. (Ef. 3:14-17) Hver er þessi grunnur trúar okkar?
Í Biblíunni kemur fram að kristni söfnuðurinn hafi „Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini“. (Ef. 2:20; 1. Kor. 3:11) Kristnir menn eru hvattir til að ‚lifa í honum, vera rótfestir í honum og byggðir á honum, staðfastir í trúnni‘. Ef við gerum þetta verðum við fær um að standast allar árásir á trú okkar — meðal annars ‚áróðurstal‘ sem byggist á „hégómavillu“ manna. — Kól. 2:4-8, Biblían 1981.
„Víddin og lengdin, hæðin og dýptin“
En hvernig getum við orðið „rótfest“ og „staðföst í trúnni“? Til að rætur okkar teygi sig djúpt niður í jarðveginn, ef svo mætti segja, verðum við að vera duglegir biblíunemendur. Jehóva vill að við getum „skilið það með öllum heilögum hvílík er víddin og lengdin, hæðin og dýptin“ í biblíusannindum. (Ef. 3:18) Því ætti enginn kristinn maður að gera sig ánægðan með yfirborðslegan skilning eða sætta sig við að þekkja aðeins „undirstöðuatriði Guðs orða“. (Hebr. 5:12; 6:1) Við ættum þvert á móti að hafa brennandi áhuga á að dýpka skilning okkar á innblásnum sannindum Biblíunnar. — Orðskv. 2:1-5.
Þetta ber auðvitað ekki að skilja sem svo að djúpstæð þekking sé það eina sem við þurfum til að vera „rótfest og grundvölluð“ í sannleikanum. Hafðu í huga að Satan er vel að sér í Biblíunni. Meira þarf til en einungis þekkingu. Við þurfum að skilja „kærleika Krists . . . sem gnæfir yfir alla þekkingu“. (Ef. 3:18, 19) Þegar við lesum og rannsökum Biblíuna vegna þess að við elskum Jehóva og sannleikann, mun skilningur okkar á biblíusannindum aukast og í kjölfarið styrkist trú okkar. — Kól. 2:2.
Kannaðu skilning þinn
Væri ekki tilvalið fyrir þig að gefa þér smá tíma til að athuga hve vel þú skilur nokkur mikilvæg biblíusannindi? Það gæti orðið þér hvöt til að verða enn duglegri biblíunemandi. Lestu upphafsorðin í bréfi Páls postula til Efesusmanna. (Sjá rammann „Til Efesusmanna“.) Veltu fyrir þér að lestrinum loknum hvort þú skiljir merkingu þeirra orða sem eru skáletruð í rammanum. Við skulum líta betur á þau lið fyrir lið.
Ákveðið „áður en grunnur heimsins var lagður“
Páll skrifaði trúsystkinum sínum: „Fyrir fram ákvað [Guð] að gera oss að börnum sínum í Jesú Kristi.“ Já, Jehóva ákvað að ættleiða nokkra úr hópi manna inn í fullkomna fjölskyldu sína á himnum. Þessir kjörsynir hans myndu ríkja sem konungar og prestar með Kristi. (Rómv. 8:19-23; Opinb. 5:9, 10) Þegar Satan véfengdi drottinvald Jehóva gaf hann í skyn að mennirnir, sem Jehóva hafði skapað, væru gallaðir. Það er því einkar viðeigandi að Jehóva skyldi velja úr þessum sama hópi sköpunarverksins menn til að gegna því hlutverki að losa alheiminn við alla illsku, þar á meðal frumkvöðul illskunnar, Satan djöfulinn. Jehóva ákvað hins vegar ekki fyrir fram hvaða einstaklinga úr hópi mannanna hann myndi ættleiða heldur einungis að hópur manna myndi ríkja með Kristi á himnum. — Opinb. 14:3, 4.
Um hvaða heim var Páll að tala þegar hann skrifaði trúsystkinum sínum að þau sem hópur hefðu verið útvalin „áður en grunnur heimsins var lagður“? Hann átti ekki við tímann áður en Guð skapaði jörðina eða mennina, það stríddi gegn öllu réttlæti. Hvernig væri hægt að láta Adam og Evu svara til saka fyrir gerðir sínar ef Guð hefði ákveðið fyrir fram að þau myndu syndga, jafnvel áður en þau voru sköpuð? Hvenær ákvað Guð þá hvernig hann myndi bæta ástandið sem skapaðist þegar Adam og Eva snerust á sveif með Satan í uppreisn hans gegn drottinvaldi Guðs? Jehóva tók ákvörðun um það eftir að foreldrar mannkyns gerðu uppreisn en áður en til varð heimur ófullkominna manna, sem þó er hægt að endurleysa.
„Svo auðug er náð hans“
Af hverju sagði Páll að þær ráðstafanir, sem fjallað er um í upphafsversum Efesusbréfsins, hafi komið til vegna þess að ‚náð Guðs væri svo auðug‘? Hann var að benda á að Jehóva bæri engin skylda til að endurleysa fallið mannkyn.
Eðli málsins samkvæmt getur ekkert okkar áunnið sér endurlausn. En Jehóva elskar mannfólkið heitt og því gerði hann sérstakar ráðstafanir til að bjarga okkur. Þegar við höfum í huga ófullkomleika okkar og syndugt eðli má með sanni segja að við hljótum endurlausn vegna náðar Guðs, eins og Páll orðaði það.
Leyndardómurinn um vilja Guðs
Til að byrja með sagði Guð ekkert um það hvernig hann myndi bæta skaðann sem Satan olli. Það var ‚leyndardómur‘. (Ef. 3:4, 5) Síðar meir þegar kristni söfnuðurinn var stofnaður lét Jehóva í té upplýsingar um hvernig hann myndi láta upphaflegan tilgang sinn með mannkynið og jörðina ná fram að ganga. Páll benti á að „í fyllingu tímanna“ hefði Guð hrint í ‚framkvæmd‘ ákveðnu ferli sem myndi að lokum leiða til þess að allar skynsemigæddar sköpunarverur Guðs yrðu sameinaðar.
Fyrsti áfangi þessarar sameiningar hófst á hvítasunnu árið 33 þegar Jehóva byrjaði að safna þeim saman sem myndu ríkja með Kristi á himnum. (Post. 1:13-15; 2:1-4) Annar áfanginn yrði sá að safna saman þeim sem munu lifa í paradís á jörð undir stjórn Messíasarríkisins. (Opinb. 7:14-17; 21:1-5) Sögnin „að framkvæma“ vísar ekki til Messíasarríkisins því að það var ekki stofnsett fyrr en árið 1914. Hér er vísað til þess hvernig Guð hagar málum eða hefur umsjón með þeim til þess að sú fyrirætlun hans að sameina á ný alla sköpunina nái fram að ganga.
„Hafið dómgreind sem fullorðnir“
Það er alveg öruggt að góðar námsvenjur hjálpa þér að skilja til hlítar hver sé „víddin og lengdin, hæðin og dýptin“ í sannleikanum. En það er líka alveg öruggt að hraðinn í samfélagi nútímans gerir Satan auðvelt um vik að draga úr eða jafnvel eyðileggja slíkar venjur. Sjáðu til þess að honum takist það ekki. Notaðu þá vitsmuni sem Guð hefur gefið þér til að hafa „dómgreind sem fullorðnir“. (1. Jóh. 5:20; 1. Kor. 14:20) Gættu þess að þú skiljir hvers vegna þú trúir því sem þú trúir og að þú getir alltaf fært rök fyrir voninni sem þú átt. — 1. Pét. 3:15.
Ímyndaðu þér að þú hafir verið viðstaddur þegar bréf Páls var lesið í fyrsta skipti fyrir Efesusmenn. Hefðu orð hans ekki hreyft við þér og hefði þig ekki langað til að vaxa í „þekkingunni á syni Guðs“? (Ef. 4:13, 14) Að sjálfsögðu! Láttu því innblásin orð Páls hreyfa við þér. Ef þú elskar Jehóva heitt og býrð yfir nákvæmri þekkingu á orði hans geturðu orðið ‚rótfestur og grundvallaður‘ í Kristi. Þannig verður þú fær um að standa föstum fótum þrátt fyrir alla þá storma sem Satan lætur bylja á þér áður en endir þessa illa heims kemur — Sálm. 1:1-3; Jer. 17:7, 8.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 27]
„Til Efesusmanna“
„Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem í Kristi hefur blessað oss með allri andlegri blessun himinsins. Áður en grunnur heimsins var lagður útvaldi hann oss í Kristi að hann hefði oss fyrir augum sér heilög og lýtalaus í kærleika. Fyrir fram ákvað hann að gera oss að börnum sínum í Jesú Kristi. Sá var náðarvilji hans. Hann vildi að vér yrðum til vegsemdar dýrð hans og náð sem hann hefur gefið oss í sínum elskaða syni. Í honum, fyrir hans blóð, eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra. Svo auðug er náð hans sem hann gaf oss ríkulega með hvers konar vísdómi og skilningi. Og hann hefur birt oss leyndardóm vilja síns, þann ásetning um Krist sem hann í náð sinni ætlaði sér að framkvæma í fyllingu tímanna: Að safna öllu sem til er á himni og jörðu undir eitt höfuð í Kristi.“ — Ef. 1:3-10.